135. löggjafarþing — 122. fundur
 11. september 2008.
störf þingsins.

[10:32]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Fjórir hv. þingmenn hafa óskað eftir því að kveðja sér hljóðs um störf þingsins. Þar sem svo háttar til ætlar forseti að prófa að haga umræðunni þannig að málshefjendur og þeir sem umræðunni er beint til geti talað tvisvar hver og verður þá raunar lítið sem ekkert svigrúm fyrir aðra þingmenn.



[10:32]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég er hér með fyrirspurn til hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar. Ég spyr um afstöðu Samfylkingarinnar til mannréttindabrota á tveimur sjómönnum frá Tálknafirði. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna telur að þessir tveir sjómenn eigi að fá skaðabætur frá íslenska ríkinu fyrir mannréttindabrot sem á þeim hafi verið stunduð.

Ég ætla líka að spyrja þingflokksformann Samfylkingarinnar hvort áfram eigi að brjóta mannréttindi á íslenskum sjómönnum og enn fremur, í ljósi þess að atvinnuréttur og atvinnufrelsi hefur verið brotið á okkur, mér og mínum líkum úr sjómannastétt, hvað Samfylkingin ætli að gera í þessum málum.



[10:33]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Grétar Mar Jónsson spyr mig út í álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Í sjálfu sér liggur fyrir afstaða mannréttindanefndarinnar. Þeirri afstöðu hefur verið svarað og gerð mjög skýr grein fyrir af hálfu stjórnvalda og ég veit ekki annað en að nefndin hafi í raun fallist á sjónarmið stjórnvalda, þ.e. að nefndin telji viðbrögðin þess eðlis að þau fullnægi því sem nefndin gerir kröfu til og lýsi ánægju sinni með að það eigi að skoða áhrif kerfisins eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur marglýst yfir, og fram kemur í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að setja eigi á fót nefnd til að skoða áhrif kerfisins á sjávarbyggðir. Ég veit að mannréttindanefndinni hefur verið gerð grein fyrir þessu og ég veit einnig að hún hefur lýst ánægju sinni með það og vill fá að fylgjast áfram með þessu.

Í svari stjórnvalda til mannréttindanefndar er bótakröfu hafnað og ég hef ekki upplýsingar um það að mannréttindanefndin hafi á nokkurn hátt gert kröfu til þess í sínum viðbrögðum að þær greiðslur ættu sér stað, eða hvaða greiðslur. Þess ber einnig að geta að í eina skiptið þar sem lögmæti forsendna kvótakerfisins hafa verið bornar undir dómstóla, í Vatneyrardómnum svokallaða, lýsti Hæstiréttur því yfir að forsendurnar væru lögmætar. Þegar af þeirri ástæðu er nánast útilokað fyrir stjórnvöld að greiða bætur, enda mundi það þýða að stjórnvöld (Forseti hringir.) væru að lýsa því yfir að kerfið væri ólögmætt.



[10:36]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það hefur ekkert verið snúið til baka með álitið frá mannréttindanefndinni sem skilaði áliti í desember, mig minnir 12. desember. Hún hefur ekkert breytt því eða dregið til baka. Það á samkvæmt mannréttindanefndarálitinu að borga þessum sjómönnum bætur og það verður að gera það. Mér sýnist að Samfylkingin ætli að láta það yfir sig ganga að hunsa bæturnar sem þessir tveir sjómenn eiga að fá og ekki að borga þær. Það er auðvitað grafalvarlegt mál — ég tala nú ekki um flokk sem þykist vera jafnaðarmannaflokkur — að brjóta mannréttindi með þessu og virða ekki álit mannréttindanefndarinnar.

Það er ekkert sem segir að mannréttindanefndin muni ekki halda áfram að fylgjast með gjörningum íslenskra stjórnvalda. Hún mun eflaust gera það og gera athugasemdir við þessi vinnubrögð. Þetta er skammarlegt og flokkur sem kennir sig við jafnaðarmennsku, sem á náttúrlega ekkert skylt við jafnaðarmennsku, ætlar að halda áfram að brjóta mannréttindi. Það er þetta sem kannski þurfti að koma fram, við stöndum frammi fyrir því hér að þeir tveir flokkar sem eru í ríkisstjórn og mynda þessa ríkisstjórn eru ákveðnir í því að halda áfram að brjóta mannréttindi. Það verður aldrei liðið. Menn þurfa ekki að halda að þeir komist upp með að brjóta mannréttindi til langs tíma. Þeir hafa komist upp með það lengi og snúið út úr íslensku réttarkerfi eins og þegar stjórnvöld sneru út úr dómi Hæstaréttar í svokölluðu Valdimarsmáli. Það er auðvitað ekki boðlegt. Þarf mannréttindanefnd til að sýna Samfylkingunni hvað er rétt og hvað rangt? Þarf einhverja mannréttindanefnd til að sýna henni og kenna hvað er rétt (Forseti hringir.) eða rangt?



[10:38]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn okkar sé þess umkominn að lýsa því yfir í öllum málum hvað sé rétt og hvað sé rangt, við erum ekki það fullkomin sem erum hér á þingi þó að við gerum okkar besta.

Ég vara við því að hv. þingmenn tali á þann hátt að það sé markmið stjórnmálaflokka eða alþingismanna að brjóta mannréttindi. Það er algjörlega fráleitt því að allir þeir þingmenn sem hér eru vilja virða mannréttindi. Þannig er það. Ég nefndi áðan í svari mínu að mannréttindanefndin hefði brugðist við, hún hefur lýst ánægju sinni með svar stjórnvalda og ætlar að fylgjast með þeim hugsanlegu breytingum sem kunna að verða gerðar. Í þeim viðbrögðum er engin krafa gerð um bætur, enda stjórnvöld bundin af þeim dómi sem ég vísaði til áðan. Ef stjórnvöld mundu lýsa því yfir að greiða þyrfti bætur væri í raun og veru verið að segja: Það þarf að greiða öllum bætur. Það þarf að greiða öllum bætur sem ekki hafa fengið aflaheimildir og það þarf þá líka að greiða þeim bætur sem hafa fengið aflaheimildir því að væntanlega þarf að taka þær af þeim. Væntanlega þarf að leggja kerfið niður.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir það — (Gripið fram í.) já, ég veit að hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að leggja eigi kerfið niður. Hins vegar er þeim sem eru að reyna að stunda hér ábyrg stjórnmál og ábyrga stjórnun það ljóst að það verður ekki gert í einu vetfangi. Á næstu dögum verður sett á laggirnar nefnd til að fara yfir þetta á svipaðan hátt og þegar auðlindanefnd var sett á laggirnar á sínum tíma. Það verður farið yfir þetta. Ég skil vel vonbrigði hv. þingmanns yfir að mannréttindanefndin sé ánægð með svör stjórnvalda vegna þess að þetta er kannski það mál (Gripið fram í.) sem viðkomandi stjórnmálaflokkur hefur gert út á.

Það er samt afar mikilvægt að þessi umræða fari fram og stjórnvöld eru að bregðast við, og munu bregðast við og skoða þetta í þaula.



[10:40]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Fyrir nokkrum missirum var vakin athygli okkar nokkurra hv. þingmanna á því að fallið hefði dómur í héraðsdómi sem byggði á landskiptalögum frá 1941. Þar sem málið er nokkuð flókið tel ég eðlilegt, herra forseti, að ég lesi örlitla dæmisögu sem er kjarninn í málinu.

Tveir menn, Ari og Orri, eiga til helminga 100 hektara af óskiptu sameignarlandi. Þeir verða ásáttir um að skipta út einum hektara lands til hvors þeirra þannig að hvor fyrir sig á þá 49 hektara í óskiptu og einn hektara af úrskiptu landi, samtals 50 hektara. Ari fékk sinn hektara á skjólsælum stað og ræktaði þetta úrskipta land sitt í aldingarð, úrskipt spilda Orra er hins vegar á berangri og gerir hann engar endurbætur á spildunni. Þegar hér er komið sögu er land þeirra félaga metið til fasteignaskattsmats og hækkar heildarfasteignamat lands Ara mikið vegna landbótanna á úrskiptu landinu. Þá eru sett lög í landinu sem kveða á um að eignarhlutföll í sameignarlandi skuli fara eftir hinu nýja fasteignamati. Á grundvelli þessara nýju laga krefst Ari þess að hlutur hans í landinu sé skráður 70 hektarar og telur að svo sé samkvæmt hinum nýju lögum. Orri er ósáttur við að eignarhlutur hans á óskiptu landinu hafi minnkað úr 50% í 30% fyrir þá sök að nágranni hans, Ari, ræktaði úrskipt land sitt. Orri höfðar mál og krefst þess að sér verði dæmdur 50% eignarréttur á óskiptu landinu á þeirri forsendu að engir löggerningar hafi farið fram sem minnkað geti eignarhlut hans á óskiptu landinu. Dómstóllinn hafnar dómkröfu Orra og kveður Ara eiga skýlausan rétt lögum samkvæmt á að eignarhluti hans verði reiknaður samkvæmt hinum nýju lögum.

Herra forseti. Ég tel af þessari ástæðu eðlilegt að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson, formann allsherjarnefndar, hvort hann telji af þessu gefna tilefni ástæðu til þess að lögin frá 1941, þ.e. landskiptalögin, verði endurskoðuð.



[10:42]
Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það mál sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson vekur hér athygli á er fyrir dómstólum eins og hann gat um og dómstólarnir hljóta auðvitað að dæma á grundvelli gildandi laga um þau álitamál sem þar kunna að vera uppi. Ég get í sjálfu sér ekki tjáð mig neitt frekar um það á þessum vettvangi. Það mál er rekið fyrir dómstólum og mun væntanlega hljóta þar niðurstöðu innan skamms og það hlýtur að gerast á grundvelli gildandi laga.

Hins vegar heyrist mér að þarna kunni að vera á ferðinni áhugaverðar eignarréttarlegar spurningar sem ástæða kann að vera að fara í. Lögin sem hv. þingmaður vísaði til, landskiptalögin frá 1941, eru auðvitað töluvert komin til ára sinna og það kann vel að vera tilefni til að fara yfir þau og kanna hvort ástæða sé til þess að breyta þeim með einhverjum hætti. Það þarf þá að líta á framkvæmd þeirra og hvernig þau hafa verið túlkuð fyrir dómstólum og eins hvort þau samræmist með öllu þeim sjónarmiðum sem nú ríkja varðandi eignarréttarleg atriði. Ég held að það sé alveg tilefni til að allsherjarnefnd velti þessari spurningu fyrir sér og vil með engum hætti útiloka að það gerist, en ítreka að um einstök deilumál get hvorki ég né nefndin sem slík fjallað, þau verða rekin fyrir dómstólum.



[10:44]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir undirtektirnar. Ég tek undir með hv. þingmanni, þetta mál er auðvitað fyrir dómstólum og það er ekki eðlilegt að nefnd hafi afskipti af slíku. En þetta gefna tilefni, eins og hv. þingmaður nefnir, kemur inn á eignarréttinn og þar með inn á eignarréttarákvæði stjórnarskrár og það sem vekur kannski mesta athygli í þessu er að þarna virðast hafa orðið á einhver mistök af hálfu löggjafans ef það reynist svo að þessi lög skapi þá niðurstöðu sem hér um ræðir.

Ég fagna því enn og aftur að hv. þingmaður telur það þess virði að allsherjarnefnd komi hugsanlega að því að velta því fyrir sér hvort það sé nauðsynlegt að endurskoða lögin. Ég ítreka það sem hér hefur komið fram að málið er ekki gengið alla leið. Hæstiréttur á eftir að fjalla um það þannig að líklega er eðlilegt að við fylgjumst áfram með málinu og skoðum síðan hvort ástæða sé til að bregðast við.

Ég vil taka það fram, vegna þess að ég man ekki hvort ég gerði það í fyrri ræðu minni, að fleiri hv. þingmenn í fleiri þingflokkum hafa svipaðar áhyggjur af málinu eða svipað sjónarhorn á málið og fram hefur komið í máli mínu. Ég ítreka enn og aftur að ég fagna viðbrögðum hv. þm. Birgis Ármannssonar.



[10:46]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar erum svo lánsöm að búa við sterkan Íbúðalánasjóð og hafa margir stjórnmálaflokkar staðið dyggan vörð um starfsemi þess sjóðs enda getum við rétt ímyndað okkur hver staðan væri á húsnæðismarkaðnum í dag ef Íbúðalánasjóðs nyti ekki við. Hann er í raun eini aðilinn á húsnæðismarkaðnum í dag, hann er rekinn án arðsemissjónarmiða og býður langlægstu vextina.

Við framsóknarmenn viljum áfram standa vörð um starfsemi sjóðsins rétt eins og hingað til og til þess er ég þá kominn hingað upp til að fá úr því skorið hver stefna ríkisstjórnarinnar er í málefnum Íbúðalánasjóðs.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa haldið því fram í umræðum síðustu vikna að breyta eigi Íbúðalánasjóði í heildsölubanka. Það er ekki bara forsætisráðherra sem hefur talað fyrir því, heldur einnig fjármálaráðherra. Nú bregður svo við að hæstv. viðskiptaráðherra segir á fundi á Selfossi, með leyfi hæstv. forseta, „að það standi ekki til að breyta Íbúðalánasjóði í heildsölubanka og hætta með almenn lán og skilja bara eftir félagslega þáttinn“. Í raun og veru er þetta efnislega nákvæmlega það sama og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur sagt, það komi ekki til greina að Íbúðalánasjóður hætti almennum lánveitingum.

Ég held að það sé eðlilegt að formaður félags- og tryggingamálanefndar Alþingis reyni nú að útskýra hver stefna ríkisstjórnarinnar er í málefnum Íbúðalánasjóðs þar sem Sjálfstæðisflokkurinn talar til hægri en Samfylkingin til vinstri. Það er með öllu óásættanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli tala í kross í svo mikilvægu máli sem húsnæðismálin eru og um leið vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji það koma til greina að það sé hluti af hugsanlegri þjóðarsátt að Íbúðalánasjóður hverfi út af húsnæðismarkaðnum rétt eins og Samtök atvinnulífsins (Forseti hringir.) hafa lagt til.



[10:48]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka það traust að ætla mér að svara og skýra út ólíkar yfirlýsingar úr fjölmiðlum varðandi stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég get aðeins sagt það að málið hefur ekki hlotið sérstaka umfjöllun í félags- og tryggingamálanefnd eins og hv. þingmaður veit, en ég hef ekki heyrt neinar útgáfur frá ríkisstjórninni um Íbúðalánasjóðinn annað en að við ætlum að koma til móts við þær kröfur sem ESA hefur gert og hafa legið fyrir í langan tíma, þ.e. að innan Íbúðalánasjóðs verði skilið á milli félagslegra og svokallaðra samkeppnis- eða almennra lána.

Hæstv. ráðherra félagsmála hefur ítrekað að þessir lánaflokkar verði báðir í Íbúðalánasjóði. Þá hugmynd styð ég og tel gríðarlega mikilvægt að við stöndum einmitt vörð um að Íbúðalánasjóður verði áfram rekinn með svipuðum hætti og verið hefur að því gefnu að komið verði til móts við þær ýtrustu kröfur ESA sem lagðar hafa verið fram.

Eftir liggur það vandamál að skilgreina félagslegu lánin, hvar mörkin liggja hvað varðar tekjur og eins varðandi svæði. Það er mikilvæg umræða sem verður að eiga sér stað hér í þinginu og væntanlega í hv. félags- og tryggingamálanefnd þegar þar að kemur. Ég tek aðeins undir það sem liggur í orðum fyrirspyrjanda, það er mikilvægt að verja Íbúðalánasjóð, það hefur sýnt sig að hann er nauðsynlegur á markaðnum eins og er og ekki eru áætlaðar neinar stórbreytingar á honum. Þessar hugmyndir Samtaka atvinnulífsins hafa ekki komið til umræðu neins staðar en sjálfur tel ég óráðlegt að fara eftir þeim hugmyndum.



[10:50]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ærleg svör hér. Ef marka má orð hans eru ekki fram undan neinar stórbreytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Það er í raun og veru þvert á það sem sjálfstæðismenn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa haldið fram og þar af leiðandi er ekki mikið að marka það sem forsætisráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að undanförnu eða hæstv. fjármálaráðherra á síðustu vikum.

Eins og ég sagði hér áðan er í raun og veru lágmarkið að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands tali einum rómi í svo mikilvægu máli sem húsnæðismálin eru. En kannski er ekki hægt að gera kröfu um það því að þessi ríkisstjórn og þessir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa í raun og veru tvær stefnur í svo mörgum málum. Það eru tvær stefnur í stóriðjumálum, tvær stefnur í umhverfismálum, tvær stefnur í húsnæðismálum, tvær stefnur í utanríkismálum og áfram má telja. Það er enginn stöðugleiki í þeim ráðherrum sem sitja í þessari ríkisstjórn. (Gripið fram í.)Og nú segir eini hæstv. ráðherrann sem er viðstaddur þessa umræðu, sem ég ætla að hrósa fyrir að vera við umræðuna, eini ráðherrann, hæstv. ráðherra Össur Skarphéðinsson, sem ég býð velkominn í salinn — hann er eini ráðherrann sem er viðstaddur þá mikilvægu umræðu sem hér fer fram, ég ætla að hrósa honum fyrir að vera vaknaður og mættur til vinnu því að þessi ríkisstjórn hefur verið sökuð um að vera nokkuð daufgerð. Það má sannarlega ekki segja um Össur Skarphéðinsson hér á þessum morgni.

Ég bið líka hæstv. ráðherra að bera þau tíðindi inn á borð ríkisstjórnarinnar að menn fari að taka sér tak og tala einum rómi í svo stóru máli sem húsnæðismálin eru. Ef ríkisstjórnin hefur ekki áttað sig á því hversu grafalvarleg staða er á þeim markaði og hversu nauðsynlegt það er að við búum við styrka ríkisstjórn sem talar einum rómi er hún ekki jarðtengd. Ég ætla þó að fullyrða að sá sem er næstur jarðtengingunni er trúlega hæstv. iðnaðarráðherra. (Gripið fram í: Já, það er ekkert annað.)



[10:52]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi verður að venjast því að menn hafi ólíkar skoðanir, jafnvel þó að þeir séu komnir í ríkisstjórnarsamstarf, ólíkt því sem oft var áður að menn urðu sama sem einn flokkur og tjáðu sig sem slíkir. Við erum ólíkir flokkar og höfum ólíkar skoðanir á því sem hér er að gerast en eftir sem áður er Íbúðalánasjóður á forræði hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og það sem ég fór yfir hér áðan er sú stefna sem sá hæstv. ráðherra hefur boðað.

Það kann að vera að það valdi misskilningi þegar menn eru að tala um heildsölubanka eða heildsölulán að Íbúðalánasjóður lánaði bönkunum 30 milljarða til að hjálpa þeim að losa um lánastífluna til þess að endurfjármagna húsnæðislán og minni fjármálastofnanir nýttu sér það. Það er eitt form af heildsölulánveitingum til lánastofnana þannig að ég held að það sé mikilvægt að átta sig á því að það hefur í sjálfu sér verið gert nú þegar til að reyna að koma af stað einhverri hreyfingu á íbúðalánamarkaðinn. Ég held að sá sem hér stendur og þeir sem mynda ríkisstjórn Íslands geri sér fulla grein fyrir því hversu alvarlegt ástandið er á húsnæðismarkaðnum og hversu mikilvægt það er að reyna að ná hreyfingu á markaðinn og muni að sjálfsögðu leita allra ráða til þess að svo geti orðið.

Mig langar aðeins að leiðrétta það sem ég sagði í fyrri lotunni, ég sagði að það væri byggt á úrskurði frá ESA. Það er í rauninni bara bráðabirgðaálit og mikilvægt að halda því til haga. Menn eru enn þá í viðræðum um með hvaða hætti þeir geti komið til móts við þær hugmyndir sem ESA hefur um fyrirkomulag íslenskra íbúðalánamála.

Laust og fast stöndum við saman um það að Íbúðalánasjóður gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki, hefur gert það og mun gera það áfram um fyrirsjáanlega framtíð miðað við ástandið í dag.



[10:54]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir ástæða til að vekja athygli hv. Alþingis á því að miklir vankantar eru komnir upp á framgangi smíði nýrrar ferju milli lands og Eyja. Tvö tilboð bárust, frá Þýskalandi og frá Noregi, á svipuðu verði. Norska tilboðið var útfært mjög vandlega, þýska tilboðið er meira í lausu lofti og miðar við rýmisstærð sem á eftir að vinna að. Í báðum tilboðunum eru lausir endar sem er kannski ekki óeðlilegt miðað við útboðslýsinguna en nú hafa Ríkiskaup meinað Siglingastofnun að ræða við báða tilboðsgjafana, þeir hafa meinað henni að ræða tilboð Norðmannanna sem eru með fullútfært skip með þó breytilegum möguleikum. Það eru engin rök fyrir slíku.

Fyrr hafa átt sér stað alvarleg mistök í sambandi við smíði ferju milli lands og Eyja. Þegar núverandi Herjólfur var byggður fyrir 18 árum tók hæstv. þáverandi samgönguráðherra ákvörðun um að stytta skipið um nærri 10 metra til að ákveðin skipasmíðastöð á Íslandi gæti boðið í það. Þetta hefur kostað ómæld vandræði, peninga og tíma. Þess vegna skiptir miklu máli að tryggja að það sé unnið vandlega að þessu verki og til hlítar.

Siglingastofnun vill ræða við báða tilboðsgjafa, bæði Norðmenn og Þjóðverja, og nú er mikilvægt að ríkisstjórnin og hæstv. samgönguráðherra grípi inn í og láti þessar viðræður ganga eftir þannig að úr skugga sé gengið um það að valið sé besta mögulegt skip í þessum efnum. Benda má á að norska skipið er fjórum metrum lengra og einum metra breiðara þannig að það skiptir öllu máli að heimila þessar viðræður strax.



[10:57]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar stuttlega að blanda mér inn í þá umræðu sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson hóf hér um Íbúðalánasjóð og þau svör sem komu frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni varðandi þetta atriði. Það er alveg ljóst að málefni Íbúðalánasjóðs varða hverja einustu fjölskyldu í landinu. Hér er um að ræða afskaplega mikilvægt velferðarmál, það að koma sér þaki yfir höfuðið er hluti af velferðarkerfi okkar eins og við höfum viljað byggja það upp undanfarin ár og áratugi og það er auðvitað afar brýnt að við höldum áfram á þeirri leið.

Nú hefur það komið fram að kröfur hafa verið gerðar í bráðabirgðaáliti frá Eftirlitsstofnun EFTA um að okkur sé skylt að breyta fyrirkomulagi íbúðalána og greina á milli svokallaðra félagslegra lána og almennra lána. Nú vill þannig til að ég hef í tvígang spurt Eftirlitsstofnun EFTA um þetta álit sérstaklega og hvað þarna liggi að baki á fundum EFTA-nefndarinnar sem ég á sæti í. Ég fullyrði hér að í þeim svörum sem þar hafa komið frá forsvarsmönnum ESA er ekkert að finna sem gerir kröfu um að við skiljum á milli með þeim hætti sem hér er látið í umræðunni. Ég kalla eftir því að fram fari einhver umræða um það og að ríkisstjórnin og hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra komi til þings og geri okkur grein fyrir því hvað ráðherrann er raunverulega að hugsa í þessu efni. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að við skilgreinum öll lán Íbúðalánasjóðs sem félagsleg gagnvart ESA ef það er það sem málið snýst um. Það er ekkert að mínu viti í þessu áliti sem gerir kröfu um að við breytum fyrirkomulagi. Það þarf að búa til skilgreiningar en þær mega ná til allra íbúðalána (Forseti hringir.) eins og ég hef skilið málið.



[10:59]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil áfram gera að umtalsefni málefni Íbúðalánasjóðs. Mér fannst með ólíkindum að heyra fréttir af því í gær að Samtök atvinnulífsins, sem telja sig vera að beita sér fyrir þjóðarsátt í efnahags- og atvinnumálum hér á landi þessa dagana, skuli setja á oddinn einkavæðingu og afhendingu Íbúðalánasjóðs til bankanna, það væri krafa númer 1. Reyndar þekkjum við þá kröfu frá Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei farið dult með það að hann telji að það eigi að einkavæða Íbúðalánasjóð. (Gripið fram í.)

Ég held að það væri rétt fyrir Samtök atvinnulífsins að senda fulltrúa þess til Bandaríkjanna þar sem yfirstjórn Bandaríkjanna varð nýverið að þjóðnýta íbúðalánasjóðina þar í landi. Þeir höfðu verið á markaði, þeir höfðu verið einkavæddir og þar hafði græðgin komið í spilið, menn höfðu keypt bréf í þeim á allt of háu verði og nú er erfið staða íbúðalánasjóðanna í Bandaríkjunum ein af ástæðunum fyrir fjármálaóróleikanum, og ekki bara þar heldur um allan heim.

Ég krefst þess að íslensk stjórnvöld láti af þessum tvískinnungi varðandi Íbúðalánasjóð og gefi bara alfarið út yfirlýsingu um að starfsemi hans sem íbúðalánasjóðs allra í landinu verði ekki breytt. Það tel ég, herra forseti, og umræðunni sem hér hefur verið að undanförnu um að það eigi að fara að einkavæða hann að hluta eða öllu leyti á bara að henda út af borðinu. Eða viljum við fara í sama fenið og íbúðalánasjóðirnir í Bandaríkjunum fóru?

Nei, það verður að taka af skarið, Íbúðalánasjóður (Forseti hringir.) er fyrir alla.



[11:01]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið að það eigi ekki að breyta starfsemi Íbúðalánasjóðs frá því sem nú er. Sjóðurinn hefur þann mikla kost að um hann gilda almennar og gegnsæjar reglur sem eru eins fyrir alla án tillits til búsetu. Það eru reglur sem við vitum ekki og getum ekki verið viss um að gildi í viðskiptabönkunum, miklu fremur liggja fyrir nokkrar upplýsingar sem rökstyðja að svo hafi ekki verið, sérstaklega á árunum 2004–2005 þegar viðskiptabankarnir voru sem mest í íbúðalánunum. Það lá t.d. fyrir skjalfest að ákveðin svæði á landinu gátu ekki fengið íbúðalán, fólk sem þar bjó gat ekki fengið lán í bönkunum, fékk bara nei.

Kerfið sem við notum er almennt og það er sjálfbært í þeim skilningi að það stendur undir sér og það skilar verulegum hagnaði og er ekki íþyngjandi fyrir ríkissjóð en það er samtrygging að því leyti að þar eru allir fyrir einn og sjóðurinn gerir ekki upp á milli lántakenda eftir efnahag ef þeir standast almennar reglur. Það er mikill kostur. Þetta er ódýrasta kerfið sem hægt er að hafa til að tryggja öllum almenn íbúðalán, ódýrasta kerfi sem hægt er að hugsa upp og kostar ríkissjóð ekkert en ríkisábyrgðin er nauðsynleg til að tryggja lægri vexti. Vilji menn breyta þessu og afnema ríkisábyrgðina spyr ég: Hvers vegna? Fyrir hvern er það? Það er bara til þess að gera stöðu sumra lántakenda verri en hún er. Hvaða félagslegu sjónarmið mæla á móti því að hafa það óbreytt? Er það svo að Evrópusambandslöndin sem sjálf eru með ríkisábyrgð á sínum viðskiptabönkum, eins og í Bretlandi og Danmörku, ætli sér að fara að bregða fæti fyrir íslenskan íbúðalánasjóð? (Forseti hringir.) Ætla menn hér á landi að vera kaþólskari en páfinn?