135. löggjafarþing — 122. fundur
 11. september 2008.
umhverfismál, frh. einnar umræðu.
skýrsla umhvrh., 664. mál. — Þskj. 1342.

[13:30]
Samúel Örn Erlingsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umhverfisráðherra fyrir þessa skýrslu um umhverfismál, sem mér þykir gefa ágæta heildarmynd af málaflokknum. Menn greinir á um hvað vanti en mér finnst margt af ágætu efni og spennandi hlutum í skýrslunni sem ekki hefur mikið verið minnst á í þessari umræðu og verður sjálfsagt ekki.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að umhverfisráðuneytið sé orðið 18 ára. Umfangið á verkefnum þess ráðuneytis er orðið svo gríðarlegt að það hefði verið gaman að segja það þeim sem héldu á sínum tíma, og héldu því jafnvel fram, að umhverfisráðuneytið væri haganlega gert, lítið verkefni fyrir mann sem vantaði ráðherrastól. Nú er stóra spurningin: Hvar hefjast þessi mál og hvar enda þau? Það gerir vanda umhverfisráðherrans oft heilmikinn því að mörg spennandi mál sem snerta umhverfismál heyra beinlínis undir önnur ráðuneyti eða tengjast málum sem heyra þar undir og því kannski erfitt um vik að beita sér.

Í kafla í þessari skýrslu, um verkefni á sviði umhverfismála, er rætt um náttúruvernd og það er jú hið eilífa umræðuefni þessara daga og missira um umhverfismál. Þar er greint frá því að ríkisstjórnin hafi ráðist í gerð rammaáætlunar og það er jú tæki til að skapa sátt á milli verndar og nýtingar til orkuvinnslu í framtíð. Það eru reyndar til fleiri nýtingarform en orkuvinnsla sem takast á við þessa vernd, eins og t.d. ferðamennska, og nauðsynlegt að farið verði í svipað átak gagnvart þeirri nýtingu landsins — að mótuð verði landnýtingarstefna fyrir ferðamennsku og að þau svæði sem ferðaþjónustan getur nýtt sér til framtíðar verði skilgreind. Slík stefna er á margan hátt forsenda fjárfestinga, markaðssetningar og uppbyggingar á innviðum í ferðaþjónustu.

Af þeim fréttum sem ég hef haft af vinnu þessarar rammaáætlunar má marka að hún sé bara rétt að fara af stað og kannski hefur tímanum ekki verið nógu vel varið í þeim ranni. Kallað er eftir hugmyndum frá orkufyrirtækjum þessa daga á haustmánuðum 2008 og er ætlunin að skila af sér rammaáætlun eftir eitt ár. Það verður að teljast kraftaverk, held ég, ef niðurstaða vinnu sem verður unnin með þeim hraði verður svo óumdeild að hún geti orðið grundvöllur að þeirri sátt sem menn tala um. Það skal nefnilega vanda það sem lengi skal standa og ég held að ég leyfi mér að skora á ráðherra að fresta lokum þessa verkefnis um eitt ár eða þar um bil.

Ráðherra ræðir um að fá þeirra svæða sem eru á náttúruverndaráætlun hafi hlotið verndun og segir að fara þurfi yfir verklagið. Ég tel því rétt að spyrja, þrátt fyrir jákvæð orð hér áðan hjá ráðherranum, hvort hún stefni að því að taka skipulagsvaldið frekar af sveitarfélögum í þessu sambandi.

Komum þá að Vatnajökulsþjóðgarði sem er frábært verkefni. Lögin um hann voru jú samþykkt á vorþingi 2007. Þórunn tók þar við kefli eftir glæsilegt boðhlaup Sivjar, Sigríðar Önnu og Jónínu og átti fínan endasprett en fataðist aðeins í lokin þegar hún staðsetti forstöðumann þjóðgarðsins í Reykjavík en ekki úti á landi. Það stemmir ekki alveg við kosningaloforð um störf án staðsetningar en hins vegar dvel ég ekki lengur við það heldur fagna hugmyndinni um vini Vatnajökuls, hollvinasamtök þjóðgarðsins, þar sem fyrirtæki og einstaklingar koma þjóðgarðinum til stuðnings. Ég vona að staðið verði við það loforð að hollvinasamtökin fái að sjá það fé sem þau koma með fara inn í reksturinn án þess að skerða framlag ríkisins í þessu efni.

Eitt af því sem rætt er um er akstur utan vega. Það er verkefni sem Siv Friðleifsdóttir setti af stað á sínum tíma og þykir sumum undarlegt hve mikið það verkefni hefur dregist. Á meðan er farið um ýmsa slóða á landinu og nýir búnir til og það veldur þeim áhyggjum sem vilja geta ekið um landið og farið um það á óræðum slóðum án þess að níðast á því.

Varðandi mengun hafsins er töluvert rætt um siglingar í skýrslunni og þar er rætt um vákort sem er afar mikilvirkt tæki og kostar ekki mikla fjármuni, það hefur sannað sig t.d. við strandið á Wilson Muuga. Talað er um kortlagningar og ekki veitir af að kortleggja Breiðafjörð og Vestfirði þar sem siglingaleiðirnar frá Rússlandi til Ameríku liggja, en þá er rétt að spyrja: Hvað líður uppsetningu radarkerfis sem mundi gera vaktstöð siglinga kleift að fylgjast með siglingum skipa og grípa inn í um leið og skip eru meðvitað eða ómeðvitað komin út af siglingaleið með slíka farma. Um þetta liggja fyrir hugmyndir Landhelgisgæslu.

Þá er kannski hægt að spyrja áfram um mál sem eru á kantinum og tengjast umhverfisnefnd: Er nóg að eiga eitt varðskip sem hefur einhvern almennilegan togkraft? Þyrftu þau ekki að vera tvö eða þrjú eða jafnvel fleiri?

Hér hefur verið minnst á búsvæði á hafsbotni og þeirri könnun hefur kannski ekki miðað hratt en velta má fyrir sér: Verður fé til þess á komandi fjárlögum?

Loftslagsmál eru hins vegar þau mál sem eru langflóknust og mikilvægust í þessu og enginn getur skorast undan því að taka þátt í þeirri baráttu. Þar hlýtur helsta alþjóðlega áherslumálið að vera að koma í veg fyrir þennan kolefnisleka sem felst í undanþágu þróunarríkja. Þannig hafa hlutirnir færst til þeirra í staðinn fyrir að menn kannski taki til eins og gera þyrfti.

Víða má koma að í þessum efnum og t.d. má velta fyrir sér: Er ekki rétt að fara í frekari viðræður við stóriðjuna um hvaða möguleika hún á í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þá sérstaklega að ýta undir frekari þróun og nýja tækni, eins og t.d. í álbræðslu með keramikskautum þar sem í stað koltvísýrings yrði framleitt súrefni? Það mætti hugsa sér að þeim aðilum sem tækju þátt í slíku mætti umbuna í formi hlutdeildar í verðmæti losunarkvóta en menn geta náttúrlega rætt það. Stóra spurningin í því hlýtur að vera, eins og hér hefur verið margnefnt, hver samningsmarkmið Íslendinga séu á Kaupmannahafnarfundinum og hvort ætlunin sé að glutra niður íslenska ákvæðinu sem er margra milljarða virði og umhverfinu til mikils gagns.

Við getum líka litið okkur nær. Oft þegar talað er um umhverfismál er horft langt fram í tímann, það þarf að gera svo mikið og allt í einu og það þarf að koma fram eftir nokkur ár. Það er þess vegna hægt að takast á við vandamál samtímans og miklu hraðar. Við getum ímyndað okkur t.d. útblástur bifreiða. Eitt af þeim tækjum sem hægt er að nota til að stýra því hvers konar bifreiðar eru keyrðar, hvers konar eldsneyti er eytt er olíugjaldið, sem sett voru lög um hér í þessum sal fyrir fjórum árum. Þar eru beinlínis forsendur fyrir því að menn geti beitt olíugjaldinu til að hafa dísilolíu ódýrari en bensín og þá væri minna eldsneyti eytt. Menn geta svo rifist um það hvað mengar meira en ég held að menn séu samt sammála um að þó að hvort tveggja mengi þá mengi dísilolían minna.

Þar sem ný reglugerð er væntanleg um bifreiðar og sérstaklega tvíorkubifreiðar, og talað er um vetnisbíla og alls konar bíla, má velta því sér að ein tegundin sem varð afgangs, að því er ég best veit, í tollaívilnunum var sú gerð tvíorkubíla sem gengur fyrir blöndu af metanóli eða etanóli og bensíni, þar er bensín ekki nema 15%. Fyrirsjáanlegt er að etanól eða metanól, sem reyndar er farið að framleiða í tilraunaskyni hér á landi, geti orðið samkeppnishæft, sérstaklega ef menn fara að nota það og þá getum við framleitt það sjálf. Það er því mjög margt athyglisvert í þessum efnum.

Að lokum: Það brýnasta sem ég rak augun í í þessari skýrslu eru ferskvatnsmál, innleiðing vatnatilskipunar — ég held að við Íslendingar, með allt þetta vatn, áttum okkur ekki alltaf á því hvað það er mikilvægt og kannski ekki heldur á því hversu viðkvæmur vatnsbúskapurinn getur verið, það þarf svo lítið til. (Forseti hringir.) Íslenska vatnið er fjársjóður.

Að lokum vil ég óska umhverfisráðherra til hamingju með að hafa landgræðsluna nú á sinni könnu, því að frá því var greint fyrir nokkrum dögum (Forseti hringir.) að loksins græðum við meira en upp fýkur.



[13:41]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er rétt að byrja á að þakka að þessi umræða skuli koma hér upp með þeim hætti að umhverfisráðherra komi með skýrslu hér inn í þingið og ræði stöðu umhverfismálanna vítt og breitt.

Umræðan hefur auðvitað borið það með sér að hún hefur farið vítt og breitt en ég held að hún hafi ekki farið djúpt. Hvað á ég við með því? Ég hef ekki séð hana fara mikið niður í sjóinn.

Það vill nú svo til að sá sem hér stendur hefur löngum haft mikinn áhuga á hafinu, fjörunni, fjörðunum og því umhverfi sem þar er. Mér hefur oft og tíðum fundist að umræðan um umhverfismál hafi allt of mikið einkennst af því að menn horfi sérstaklega á mannvirkjagerð og þá oftast nær þannig að mannvirkjagerð sé af hinu slæma. Hún sé óvinur náttúrunnar og beri að skoða vel hvernig þar er að verki staðið.

Ég tek undir að það þarf að fara varlega að því er varðar náttúruna en eins má benda á að það skiptir máli hvernig við nýtum náttúru okkar og hvað við aðhöfumst í því sambandi. Sumar framkvæmdir kunna einfaldlega að vera mjög nauðsynlegar. Það er alveg ljóst að við Íslendingar getum ekki búið í þessu landi án þess að nýta orku okkar eins skynsamlega og við getum, m.a. til þess að byggja upp stóriðju þar sem við teljum að það sé eðlilegt og til bóta.

Ég vil taka fram til þess að koma í veg fyrir allan misskilning að ég er alls ekki að tala um álver í hverjum firði eða hverri vík. En ég gæti vel hugsað mér að tala um álver í hverjum landsfjórðungi vegna þess að við höfum jú þörf fyrir það vítt og breitt á landinu að reyna að tryggja undirstöðu atvinnuþátta í landsfjórðungunum. Þess vegna er það mjög eðlilegt að íbúar á Húsavík og þar í nágrenni geri kröfu til þess að fá að nýta orku sína og fái að nýta hana í heimahéraði sínu til undirbyggingar samfélagsins. Að mínu viti er því alls ekki hægt að leggjast gegn því að við nýtum náttúruna með skynsamlegum hætti.

Hitt vil ég líka segja að umhverfisumræðan hefur verið afar nauðsynleg og hún knýr fram betri orkunýtingu. Hún knýr fram þann vilja sem fyrirtækin verða að undirgangast, að draga jafnt og þétt úr mengun lofts og lagar, finna lausnir sem menga minna. Það er verkefni samtímans að geta nýtt orkuna en finna samt lausnir sem draga úr menguninni og að menga væntanlega þá eins lítið og mögulegt er í framtíðinni .

Við Íslendingar búum í fjöllóttu landi og þurfum að leggja hér vegi. Það er umdeilt. Það er m.a. deilt um hvort menn eigi að leggja veg í gegnum Teigsskóg á Vestfjörðum eða ofan til við hann. Ég fagna því að landsmenn fái nú að sjá þennan skóg þegar vegurinn verður lagður þar. Ég held að það sé öllum til bóta. Það er ekki spurning um að það verður Vestfirðingum til bóta að fá þar varanlegan veg alveg eins og það verður Vestfirðingum til bóta — og væntanlega landsmönnum öllum — að fá samtengingu á Vestfjörðum með varanlegum samgöngum og betri möguleikum til mannlífs og atvinnu.

Ég hef verið mikill aðdáandi og áhugamaður um að gera jarðgöng á Íslandi og tel að það þurfi enn að gera þrenn til fern jarðgöng á Vestfjörðum. Hið sama þarf að gera á Austfjörðum til að tengja saman byggðir. Þá erum við væntanlega farin að horfa á megnið af samgöngukerfi landsins á láglendi. Ég hef oft velt eftirfarandi fyrir mér: Hvað kostar nú að hafa þessa fjallvegi? Hvað haldið þið að það kosti að moka þessa heiði? [Þingmaður sýnir mynd í þingsal.] Þetta er Dynjandisheiði sem menn ætla ef til vill að leggja veg yfir í framtíðinni? Hæstv. umhverfisráðherra, hvað heldur þú það að kosti að moka þennan snjó? Þetta er í miðjum apríl á síðasta vori. (Gripið fram í.)

Hvað heldur þú að það kosti íbúa suðursvæðisins að keyra 650–700 kílómetra til að komast á fund á Ísafirði í staðinn fyrir að keyra kannski 120 þegar búið er að laga veginn? Á láglendisvegi sem tekur kannski 50 mínútur á milli Bíldudals og Ísafjarðar? Menn geta ekki leyft sér að tala eins og framkvæmdir séu alltaf neikvæðar. Þær eru það ekki.

Ætli jarðgöng eins og undir Hvalfjörð og Breiðadals- og Botnsheiði hafi ekki bjargað lífi svona 20–30 Íslendinga síðan þau voru gerð því að dauðaslysin voru tíð? Það er því að mörgu að hyggja orkulega, umhverfislega, tímalega og lífsgæðalega séð þegar við horfum á verklegar framkvæmdir. Það er alls ekki hægt að setja alltaf verklegar framkvæmdir fram með neikvæðum formerkjum. Það er bara ekki hægt og það er ekki efnisleg rökræða sem hægt er að sætta sig við.

Ég byrjaði á því að segja að mér fyndist ekki djúpt farið í umræðuna og átti þá við að það væri ekki farið mjög djúpt í hafsvæði landsins, strendur og firði. Landsfjórðungurinn sem ég kem frá, Vestfirðir, hefur 49 firði. Hann er með einn þriðja af strandlengju Íslands um 2000 kílómetra. Ég hef stundum spurt: Hvers virði er einn fjörður í náttúru Íslands til að viðhalda lífríki náttúrunnar, til að viðhalda þeirri auðlind sem við höfum byggt á um aldir sem hefur löngum verið ein af meginstoðum þess að hér sé útflutningur og atvinnulíf og gert mönnum kleift að lifa í landinu? Auðvitað eru fleiri stoðir komnar undir efnahag landsins í dag og ekkert nema gott um það að segja svo framarlega sem við förum ekki fram úr sjálfum okkur í þeim efnum. Ég er ekki hlynntur álveri í hverjum firði.

En ég er hlynntur því að stundaðar séu rannsóknir í þessum fjörðum og menn viti hvað einn fjörður í lífríki Íslands hefur að segja, hvað gefur hann af sér? Hvers vegna alast þorskseiði upp í öllum fjörðum Ísafjarðardjúps? Hafa menn leitast við að svara því? Hafa menn leitast við að svara því hvað minkurinn í sjávarríkinu, skötuselurinn, étur mikið? Ný tegund á Íslandsmiðum sem er komin allt í kringum land. Hefur einhvers staðar verið leitað svara við því? Nei.

Það er geysilega mikið sem vantar inn í þessa rökræðu og umræðu þegar við tölum um náttúru Íslands því að við þurfum að tala um hana uppi á fjöllum, niðri í dölum og niður í höfin. Við höfum ekki með neinu móti kortlagt þann breytileika sem nú hefur orðið á íslenskum fiskimiðum með aðkomu nýrra tegunda eins og ósaflúru, hlýsjávarbarra, makríl og fleiri fisktegunda, þ.e. hvaða áhrif hann hefur. Við njótum þess hins vegar í sumum tilvikum en ég bendi á að nýjar dýrategundir taka líka til sín fæðu.

Ég bendi einnig á kjölvatnið sem kemur með skipunum til landsins sem ekki hafa verið settar neinar sérstakar reglur um hvar dæla má út. Með kjölvatninu getur borist lífkeðja sem er kannski ekki æskileg í umhverfi okkar. Norðmenn hafa t.d. miklar áhyggjur af kóngakrabbanum sem kemur úr Norðuríshafinu þar sem Rússar slepptu kóngakrabba fyrir norðan Síberíu og breiðist nú út suður með Noregi o.s.frv.

Allt eru þetta umhverfisþættir. Hafstraumarnir okkar eru ekki minnsti umhverfisþátturinn. Þeir eiga í raun og veru mestan þátt í því og hlýnandi sjór — hvað veturnir hafa verið hlýir á láglendi undanfarin ár. En það er ekki endilega samasemmerki á milli þess og úrkomu á hæstu fjöllum. Þess vegna sýni ég þessa mynd hér frá því í (Forseti hringir.) apríl um snjóalög á Dynjandisheiði sem Vegagerðin talar jafnvel um sem tiltölulega snjólaust svæði.



[13:51]
Guðmundur Steingrímsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir skýrsluna og að mörgu leyti áhugaverða umræðu. Hún hefur líka farið vítt og breitt og umræðan sýnir hve málaflokkurinn er í raun og veru stór.

Skýrslan er mikið til sögulegt ágrip. Farið er yfir sögu umhverfismála og sögu umhverfisráðuneytisins frá því það var stofnað. Það var dálítið áhugavert og sýnir í raun og veru hvers lags málaflokkur það er sem við ræðum um. Mig rekur nú minni til þess að það hafi ekki verið sérstaklega víðtækur skilningur í samfélaginu þegar hæstv. þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp 1990 um að stofna þetta ráðuneyti, umhverfisráðuneytið. Margir töldu það vera einhver klækjastjórnmál. Það ætti að reyna að koma inn ráðuneyti í ríkisstjórnina til þess að Borgaraflokkurinn gæti komið þar að ríkisstjórnarsamstarfi og eitthvað svoleiðis. Það var nú allur skilningurinn.

En það hefur auðvitað sýnt sig síðar að það var mikið framfaraskref og (Gripið fram í: Það var málþóf. ) Já, það var málþóf og það var líklega eitt það síðasta sem Framsóknarflokkurinn gerði til framfara í umhverfismálum og ber að þakka honum fyrir það. [Hlátur í þingsal.]

Hvernig er þessi málaflokkur? Honum vindur fram. Við verðum bara að horfast í augu við það og þykir jafnvel eðlilegt að þeir sem voru einhverju sinni með virkjunum, með miklum stóriðjuframkvæmdum, eru á móti þeim núna. Þegar umræður um Kárahnjúka hefðu átt að standa sem hæst fyrir kosningar 2003 þegar framkvæmdirnar voru að byrja var það ekkert kosningamál. Síðan verður það kosningamál þegar framkvæmdirnar eru svo til búnar. Þessi málaflokkur er því dálítið skrýtinn. Þegar hugmyndir koma upp um virkjun í neðanverðri Þjórsá taka flestir undir það til að byrja með en svo verða allir á móti.

Málaflokkurinn er þannig svolítið margbreytilegur. Það er erfitt fyrir marga að vera samkvæmir sjálfum sér einfaldlega vegna þess að menn hafa ekki allar upplýsingar uppi á borðum. Menn hafa einfaldlega ekki nálgast málið þannig að þær liggi allar fyrir. Það verður að horfast í augu við það.

Það er annað sem gerir umhverfisverndarsinnum — og ég tel mig til umhverfisverndarsinna — svolítið erfitt fyrir og kannski sem betur fer vegna þess að það eru jú lög og reglur í landinu. Það eru hins vegar ákvarðanir sem búið er að taka áður sem við verðum að standa við einfaldlega vegna þess að framkvæmdaraðilar og verktakar hafa ákveðinn rétt.

Hér er ég búinn að nefna tvær ástæður þess að umhverfisverndarsinnar verða að horfast í augu við að þetta er dálítið stórt olíuskip sem verið er að stýra — svo að ég leyfi mér að nota líkingu sem ekki er viðeigandi — en vonandi ekki inn í Arnarfjörð. Þetta gerist. Við verðum einfaldlega að vera þolinmóð.

Annað sem torveldar kannski að framfarirnar geti verið jafn hraðar og við viljum er einfaldlega að almenningsálitið er ekki endilega andsnúið virkjunum. Í umræðunni um Kárahnjúka skiptist þjóðin örugglega í tvo jafnstóra hópa. Þetta leiðir því allt til þess að við verðum að sætta okkur við að framfaraskrefin verða ekki jafnstór.

Ég ætla að nota niðurlag þessarar stuttu ræðu til að sýna fram á það að við erum heldur betur á réttri leið. Vegna hvers samdi Samfylkingin og kom sér saman um fagra Ísland? Það er vegna þess að Samfylkingin skiptist nákvæmlega í tvo hópa, þeirra sem eru með því að virkja mikið og þeirra sem vilja vernda. Sú sátt sem náðist í Samfylkingunni, þeim stóra og mikla flokki þar sem rúmast margar skoðanir, er auðvitað vísir að því að það er hægt að ná sátt í samfélaginu. Grundvallaratriðin í stefnunni um fagra Ísland eru í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Það er stór sigur fyrir umhverfisvernd og það er vísir að því að hægt er að ná sátt um þann málaflokk í framtíðinni og um alla ókomna framtíð. Þar er auðvitað vinnan við rammaáætlun algert grundvallaratriði. Það eru lokaorðin. Við erum á réttri leið og það er ekki síst núverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunni Sveinbjarnardóttur, að þakka. (Forseti hringir.)



[13:56]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka eins og aðrir þessa ágætu skýrslu. Aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið yfir efni hennar skipulega og það kemur í minn hlut að fjalla hér einkum um tvö atriði.

Ég vil byrja á því að minna á að það er ekki nema eitt og hálft ár síðan fagra Ísland, sem hér var til umræðu rétt á undan, fleytti Samfylkingunni inn í ríkisstjórn af því að þrátt fyrir stuðninginn við Kárahnjúka og stóriðjustefnuna tóku margir náttúruverndarsinnar flokkinn í sátt og trúðu því einlæglega að snúið yrði við blaði. Ég vil vitna til greinar eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur í tímariti samfylkingarmanna, Herðubreið, þar sem hún segir í grein sinni, sem hún kallar reyndar Magra Ísland en ekki Fagra Ísland, að vonir hafi staðið til að nú viki stóriðjuflokkur Framsóknar og fortíðar og við tæki flokkur með metnaðarfulla umhverfis- og náttúruverndarsýn. Það var ekki aðeins fagra Ísland sem stuðningurinn við Samfylkinguna snerist um heldur einnig að menn töldu að innan raða Samfylkingarinnar væru trúverðugir andstæðingar stóriðju- og eyðileggingarstefnunnar sem mundu standa í lappirnar þegar á þyrfti að halda.

Fremstur í þeim flokki var hæstv. núverandi umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem greiddi atkvæði gegn Kárahnjúkavirkjun hér á sínum tíma. Í ljósi þessarar upprifjunar mætti ætla að í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir mætti rekja sigurgöngu þessarar stefnmörkunar um fagra Ísland um viðsnúning frá stóriðjustefnu fyrri stjórnvalda. En því er þó ekki fyrir að fara einfaldlega vegna þess að græni liturinn Samfylkingarinnar reyndist ekki þvottekta.

Ég vil taka undir það sem segir í þessari skýrslu um Vatnajökulsþjóðgarð að hér er á ferð stærsta náttúruverndarverkefni þjóðarinnar frá upphafi. En stofnun þjóðgarðsins sem slík var aðeins fyrsta skrefið og það var mun minna skref en vonir stóðu til í undirbúningsferlinu. Hv. þingmaður Steingrímur J. Sigfússon sætti ámæli hér í vikunni fyrir að minna á að á meðan Jökulsá á Fjöllum, Kreppa og Kverká væru ekki innan þjóðgarðsins væri Vatnajökulsþjóðgarður ekki barn í brók, eins og hv. þingmaður kallaði það.

En þingmaðurinn benti líka á að nú fara fram rannsóknir kostaðar af Landsvirkjun. Á hverju? Á hóflegri nýtingu vatns úr Jökulsá á Fjöllum og spurning væri hvort menn væru virkilega að undirbúa að virkja, taka Kverká og Kreppu og setja í uppistöðulón í Fagradal eða Arnardal. Iðnaðarráðherra sór þetta allt saman af sér hér í þingsalnum. En í ljósi þeirrar umræðu sem varð ansi snörp hér í vikunni er athyglisvert að lesa skýrslu ráðherrans því að þar segir á blaðsíðu 10, með leyfi forseta, um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs:

„Verið er að ræða við eignar- og nýtingarrétthafa lands um svæði eins og fjalllendi við Hoffellsjökul, Langasjó og landsvæði milli Langasjávar og Laka, hluta Ódáðahrauns, Trölladyngju, Öskju og Lónsöræfa, svo að nokkuð sé nefnt.“

Svo að allt sé nefnt nema hvað? Jökulsá á Fjöllum? Jökulsá á Fjöllum er ekki nefnd. Hverju sætir þetta? Hverju sætir þetta verklag? Hæstv. umhverfisráðherra skuldar þingi og þjóð skýringu á því sem hér stendur sem annaðhvort hlýtur að vera stefnubreyting eða þá að stjórn þjóðgarðsins vinnur ekki samkvæmt því sem ákveðið hafði verið. En þá þarf líka að svara því af hverju ráðherra lætur það óátalið.

Frú forseti. Íslendingar njóta þess heiðurs að vera gæslumenn tveggja staða á heimsminjaskrá UNESCO. Þingvellir voru teknir á skrána 2004 og Surtsey 7. júlí síðastliðinn. Það hefur áður verið minnst á hvernig Vegagerðin ógnar nú lífríki Þingvallavatns að mati færustu vatnalíffræðinga heims og að þar fara framkvæmdir fram þrátt fyrir að málshöfðun sé yfirvofandi.

Þegar Surtsey var tekin á heimsminjaskrá sagði hæstv. ráðherra í grein í Morgunblaðinu að þetta væri mikill heiður en því fylgdi aukin ábyrgð og skuldbinding um áframhaldandi verndun Surtseyjar. En hvernig hefur ráðherrann svo farið með þessa miklu ábyrgð? Öllum að óvörum var í lok ágúst lagður sæstrengur á 2,5 km kafla í gegnum friðlandið við Surtsey. Umhverfisstofnun veitti leyfið fyrir framkvæmdinni þvert gegn umsögnum allra lögboðinna aðila. Ég átel þau vinnubrögð og ég tel að umhverfisráðherra skuldi þingi og þjóð einnig skýringu á þessu verklagi.



[14:01]
Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrsluna sem sýnir í raun hversu yfirgripsmikill og veigamikill þáttur umhverfismálaflokkurinn er. Umhverfismál í mínum huga snúast fyrst og fremst um það að um leið og við fáum notið auðlinda jarðarinnar skilum við henni hreinni til kynslóðanna sem á eftir koma. Því er hugtakið um sjálfbæra þróun bæði skynsamlegt og æskilegt leiðarljós í umhverfismálum. Ljóst er að skilgreina þarf samt betur hvað átt er við með sjálfbærri þróun þegar við erum að nýta það hugtak og þá fyrst og fremst hvernig vinna má með hugtakið þvert á ráðuneytin. Við þurfum nefnilega að flétta saman þeim þremur þáttum sem sjálfbær þróun snýst um, þ.e. samfélagsþróun og uppbygging, atvinnu- og efnahagsmál og svo umhverfis- og náttúruvernd. Við þurfum að gera þetta í alþjóðlegu samhengi.

Eins og glöggt kemur fram í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra þá eru umhverfismál alþjóðamál. Í auknum mæli erum við að vinna í að framkvæma EES-gerðir, alþjóðlegar skuldbindingar og í raun má líka segja að við sýnum frumkvæði á nokkrum sviðum og þá sérstaklega í sambandi við umhverfi hafsins.

Ég ætla að fjalla um loftslagsmál í alþjóðasamhengi og svo kaflana sem mér finnst vanta í skýrsluna. Ég ætla ekki að fara mikið út í skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar en þar koma saman 2.500 færustu vísindamenn á þessu sviði og benda okkur á þá gífurlegu ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og við eigum að taka þessa ógn alvarlega. Í niðurstöðu þeirrar skýrslu sem nýlega hefur verið birt frá þessari vísindanefnd kemur fram í lokin að aðgerðir næstu tveggja til þriggja áratuga muni skipta sköpum til að draga úr nettólosun og að það muni skipta sköpum um árangur jarðarinnar í framtíðinni að við fylgjum eftir breytingum.

Mikilvægustu aðgerðirnar til að stemma stigu við aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu eru að minnka notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta vitum við öll. Við eigum að draga úr koltvísýringslosun. Við þurfum að gera það með því að auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa en á því sviði hefur Ísland algjöra sérstöðu meðal þjóða heims. Einnig er mikilvægt að fylgjast með rannsóknum á förgun kolefnis. Mér finnst þetta afar spennandi vísindarannsóknir, sem meðal annars Íslendingar taka þátt í. Ég vil einnig hvetja til orkusparnaðar í iðnaði, landbúnaði, samgöngum og víðar.

Sem Evrópuráðsþingmanni er mér ljóst að gífurleg gerjun á sér stað hjá öllum Evrópuþjóðunum og það er mikill þrýstingur að draga úr þessari losun koltvísýrings. Mikil umræða um þá orkugjafa einkennir í raun samkundur Evrópuþingsins þessa dagana. En það er tvennt sem kemur mér á óvart, í fyrsta lagi þessi gífurlega umræða um kjarnorkuver, að heyrst hefur að Bretar ætli að reisa fyrir 2030 tíu ný kjarnorkuver. Frakkar leggja höfuðáherslu á kjarnorkuver. Þetta er endurnýjanlega orkugjafalausnin sem er rædd töluvert mikið í Evrópuráðsþinginu og ég held að við eigum að gera okkur grein fyrir þessu.

Síðan er hitt að umræða um endurnýjanlega orkugjafa er þannig að hún er rædd án þess að það sé heildarkerfishugsun í því. Við erum að ræða, Evrópuþjóðirnar, alla vega á þessum vettvangi, svona í sílóum, eins og kannski má segja. Alþjóðlega verkefnið sem blasir við þjóðum heims er uppstokkun á orkukerfum heimsins, frá þeim kerfum, frá iðnbyltingunni, sem hvíla á notkun jarðefniseldsneyta yfir í hrein og endurnýjanleg orkukerfi. Þar kemur það sem mér finnst vanta í skýrsluna, þ.e. kaflann um sérstöðu Íslands í orkumálum. Það má kannski segja: Bíddu, af hverju á umhverfisráðherra að skrifa þann part í skýrslunni? Vitið þið það, það vantar þennan samhæfingarkafla um það hvernig við ætlum að vinna þvert á ráðuneytin. Mér finnst ekki að landsskipulagið sé umhverfismál eingöngu. Það er efnahags- og atvinnumál. Það er líka samfélags- og félagsmál. Við verðum að líta á það hvar sérstaðan okkar er og ég sakna þess að við ræðum það ekki meira. 80% orkugjafa okkar eru endurnýjanleg. Engin þjóð ýtir endurnýjanlega orkugjafa í hærra hlutfalli. Einungis 5% (Forseti hringir.) af orkunotkun OECD-þjóðanna eru endurnýjanleg. Nær 90% orkuviðskipta í heiminum eru með jarðefnaeldsneyti. Við eigum svo mörg sóknarfæri (Forseti hringir.) og við eigum að fara að gera okkur grein fyrir því hvaða stöðu Ísland getur skipað í (Forseti hringir.) alþjóðamyndinni.

Ég kláraði reyndar ekki allt sem ég ætlaði að segja. Það er svo margt sem ég á eftir að segja, t.d. um nýju þjóðirnar, Brasilíu, (Forseti hringir.) Indland, Kína, (Forseti hringir.) það er bara þriðjungur jarðarbúa sem ekki einu sinni kemst í rafmagn (Forseti hringir.) í dag. Hvar haldið þið að við verðum eftir nokkur ár ef við gerum ekki eitthvað af viti?



[14:07]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill hvetja þingmenn til að halda markaðan ræðutíma.



[14:07]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Maður kemur hérna upp innspíreraður eftir síðustu ræðu og ég tek undir með hv. þingmanni að auðvitað hefði maður viljað hafa lengri tíma til að ræða um þetta mikilvæga mál. Ég hefði líka viljað hlusta lengur á hv. þingmann vegna þess að mér fannst hún koma inn á mjög margt afar áhugavert og mikilvægt sem við höfum kannski ekki verið að fjalla um hér og það er þessi heildarhugsun í alþjóðlegu samhengi.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar erum gríðarlega lánsöm þjóð vegna þess að við eigum mikið af auðlindum sem geta gefið okkur endurnýjanlega orku, alveg gríðarlega mikið. Til dæmis finnst mér alltaf svolítið merkileg sú tala að innan Evrópusambandsins hefur verið mótuð sú stefna að fyrir árið 2020, ef ég man rétt, ætla menn að verða komnir upp í 20% af allri orkunýtingu, að 20% af því eigi að verða endurnýjanlegir orkugjafar. Í dag á Íslandi er þessi tala 80%. Þið sjáið því að við stöndum gríðarlega vel að vígi og eins og komið var inn á hér áðan er umræðan um kjarnorku að verða æ háværari um allan heim og það virðist manni vera framtíðarmúsíkin hjá mörgum okkar nágrannaríkjum. Þetta höfum við ekki þurft að ræða hingað til og munum ekki þurfa að gera það í fyrirsjáanlegri framtíð þannig að við erum gríðarlega lánsöm þjóð.

Virðulegi forseti. Þess vegna hafa mér þótt afar slæmar, og okkur í Samfylkingunni og þessari ríkisstjórn, þær deilur sem hafa risið um nýtingu þessara auðlinda. Hvers vegna hafa þessar deilur ávallt risið? Það er vegna þess að við höfum verið með þær í ákvarðanatöku í tilviljanakenndu formi, þ.e. alla heildarsýn hefur skort.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði að við þyrftum framsýna umhverfisstefnu. Ég er alveg hjartanlega sammála því og það er sú framsýna umhverfisstefna sem birtist hér á heilli síðu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, er að birtast í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra sem hér er verið að ræða og er að birtast í allri ákvarðanatöku innan umhverfisráðuneytisins og stefnumörkun. Aldrei fyrr hefur nefnilega verið jafnsterk áhersla á umhverfismál í stjórnarsáttmála, aldrei fyrr, eins og nú er, og það má taka það fram að þetta er lengsti kaflinn af öllum köflunum í þessum stjórnarsáttmála. Hann fjallar einmitt um umhverfismálin. Það hefur aldrei fyrr verið tekið jafnafgerandi á umhverfismálum og nú er gert og jafnskynsamlega.

Ekki þarf að tíunda að í stjórnarsáttmálanum eru strax tekin frá, til hliðar, mjög mikilvæg svæði og vernduð. Það á ekki að fara inn á óröskuð svæði og ekki verða gefin út nein ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrr en heildarmyndin liggur fyrir í rammamáætlunum um vernd og nýtingu orkuauðlinda. Síðan er lykilatriði, virðulegi forseti, að þetta verður síðan lagt fyrir þingið og það verður hér rætt.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, framsögumaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hélt að hún kæmi hér með einhver ný sannindi um að þetta yrði aldrei tilbúið fyrr en á vordögum 2010. Hún talaði af miklu yfirlæti um að menn þyrftu að segja það upphátt. Auðvitað vitum við það. Það er vegna þess að vinnu nefndarinnar verður lokið í lok árs 2009. Síðan á þingið eftir að fjalla um þessa rammaáætlun þannig að þetta ferli hefur alltaf legið fyrir. Þetta er í fyrsta skipti í sögu þessa þings þar sem raunveruleg bindandi ákvörðun um forgangsröðun á náttúruauðlindum okkar mun fara fram, í fyrsta skipti í sögu þessa þings. Ef þetta er ekki framsækin umhverfisstefna þá veit ég ekki hvað, virðulegi forseti, og þetta er nýmæli.

Ég verð líka, virðulegi forseti, aðeins að koma inn á það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sagði líka um skiptingu ráðuneyta hjá okkur í ríkisstjórninni og verkefna þar sem hún talaði eins og iðnaðarráðherrann væri einhver sérstakur talsmaður stóriðju annars vegar og umhverfisráðherrann sérstakur talsmaður umhverfisins hins vegar. Ég hef ekki séð þetta svona svart/hvítt. Hún sagði að á borði iðnaðarráðherra væri verið að kasta náttúruperlum á altari stóriðjustefnunnar. Ég spyr: Var hæstv. iðnaðarráðherra að gera það þegar hann hafnaði í takt við stjórnarsáttmála öllum umsóknum um rannsóknarleyfi inn á óröskuð svæði þegar hann tók við í fyrrasumar? Nei, virðulegi forseti. Það er nefnilega samhljómur í þessari ríkisstjórn. Það er samhljómur um að hér eigi að reka umhverfisstefnu sem ber virðingu fyrir náttúrunni og er ekki háð duttlungum stjórnmálamanna eða stjórnenda í sveitarfélögum hverju sinni og ber virðingu fyrir samfélaginu og fólkinu sem þar býr (Forseti hringir.) með því að skapa hér opið gagnsætt kerfi og heildarsýn. Við erum nefnilega á réttri leið, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og við erum að skapa sátt milli verndar og nýtingar. Það birtist best í því að við erum á réttri leið þegar við erum gagnrýnd (Forseti hringir.) bæði af öfganýtingarsinnunum og öfgaverndunarsinnunum í sömu umræðu eins og hér er gert.



[14:13]
Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir hér fagna þessari umræðu og fagna mörgu í þessari skýrslu. Ég er ánægður með að Alþingi gefi umhverfismálunum gaum og tel það mjög mikilvægt. En ég hefði viljað sjá meira innihald í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra. Þarna er tæpt á mörgum málum en mér þykir lítið um lausnir og lítið um að bent sé á hvert eigi raunverulega að fara. Ég hef stuttan tíma til að fjalla um mikið mál þannig að ég ætla að hlaupa inn á nokkur atriði.

Það er talað um Vatnajökulsþjóðgarð sem er vissulega stórt framtak en ég bendi á að í raun sé Vatnajökulsþjóðgarður enn ekki nema nafnið tómt og svo hins vegar hitt sem ég held að dragi mjög úr því að hann verði okkur að gagni og það tæki til umhverfisverndar sem hann gæti orðið, þ.e. að hann hefur verið gerður að skúffufyrirtæki við Austurvöll sem er mjög miður. Þannig nær hann ekki því vægi og flugi sem hann þarf að ná. Ég skora á hæstv. umhverfisráðherra — ég hef gert það fyrr úr þessu ræðupúlti — að breyta þeirri ákvörðun sem hún og aðstoðarmaður hennar hafa komið mjög að og bera algjörlega pólitíska ábyrgð á, að höfuðstöðvar þjóðgarðsins skuli vera í Reykjavík. Það verður til þess að aldrei næst sú samstaða og sá slagkraftur bak við þjóðgarðsstarfið úti á landi sem þarf til og sem er langt í frá að sé orðinn.

Annað sem mig langar til að víkja að er sorpmálin. Ég sé að í þessari ágætu skýrslu er einmitt vikið að því að það þurfi að minnka sorpmagnið. Ég kalla eftir svolítið virkum og raunverulegum aðgerðum í þá veru. Það er hægt raunverulega að takmarka hvað auglýsingaöflin í samfélaginu geta mokað inn af pappír og öðru auglýsingaefni inn um póstlúgur hjá landsmönnum. Þetta er einn stærsti þátturinn í þyngd sorpsins og þarna skiptir máli hvar við setjum forganginn. Ef við setjum neytendur og umhverfið í forganginn setjum við auðvitað þá regluna að aðeins megi nota póstlúgur sem slíka sorphirðu þar sem fólk setur miða á póstlúguna og segir: „Já, ég vil frípóst.“ Það skiptir miklu máli hvaða leið er farin. Þetta er róttækasta leiðin og þetta er leið sem ég skora á núverandi umhverfisráðherra að fara og hef raunar nokkra trú á því að hún geti verið mér sammála í þessu eða vonir til þess að svo sé.

Það líður óðum á tímann og mér fer eins og tveimur síðustu ræðumönnum að hafa miklu minni tíma en ég vildi hafa í svo stóru máli. Nú í upphafi þessa stutta haustþings féllu þau orð hjá hæstv. forsætisráðherra að lausnin út úr efnahagsvandanum væri sú að framleiða, framleiða, framleiða. Nú spyr ég hæstv. umhverfisráðherra — og ég veit að hún mun líka svara mér þessu um pappírinn og Vatnajökulsþjóðgarð hér á eftir þegar hún kemur upp — en ég spyr hana líka og bið hana að svara mér hvort hún hafi verið sammála þessari áherslu út úr efnahagsvandanum. Sjálfur hef ég miklar efasemdir þegar hlutirnir eru settir fram með þessum hætti. Ég held nefnilega að umhverfisverndarhugsjónin okkar, umhverfisverndin í verki komi til þegar við fylgjum því sem kona ein í bókabúðinni hjá mér fyrir austan kallaði fyrir nokkrum missirum þegar hún var að versla hjá mér „framsóknardyggðir“, þ.e. að vera trú yfir litlu og reyna að gera sér gott úr því sem maður hefur. (Gripið fram í.) Þær framsóknardyggðir sem segja að hollur sé heimafenginn baggi eru þær dyggðir sem við þurfum að rækta og þess vegna held ég að einu stærsta umhverfisslysi núverandi ríkisstjórnar — og það er fjórða spurningin til hæstv. umhverfisráðherra þegar hún kemur hérna upp á eftir, þ.e. hvort hún sé mér sammála í því — að ég held að það hafi verið afstýrt mjög stóru umhverfisslysi nú á þessu haustþingi þegar ákveðið var að slá út af borðinu frumvarp um sameiginlegan innri matvælamarkað með Evrópusambandinu sem hefði þýtt stóraukinn tilflutning á matvælum, hefði þýtt niðurbrot á íslenskum landbúnaði. En einmitt það að við framleiðum hér matvæli í eigin landi og nýtum gæði landsins er eitt mikilvægasta atriðið í umhverfismálum okkar. Þetta kemur líka inn á fjölmörg önnur mál eins og til dæmis sorpmálin og því gleymdi ég áðan að mig langar að minnast á hvort umhverfisráðherra hafi leitt huga að því að núorðið færist mjög í vöxt og hefur verið að aukast bara nú eftir að þessi ríkisstjórn tók við(Forseti hringir.) völdum að sorp sé flutt milli landshluta með tilheyrandi mengun, (Forseti hringir.) vegsliti og vitleysu.



[14:18]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég ætla að nýta tíma minn í þessari umræðu í tvennt um leið og ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa skýrslu og að leggja hana fram hér og fyrir umræðuna sem hefur verið hér í dag. Ég held að skýrslan sýni það umfram annað hve umhverfismálin vega orðið þungt í þjóðfélaginu og hve þau eru samofin öllu okkar lífi.

Það sem mig langar til að gera að umtalsefni í fyrsta lagi er verndun hafsins. Ekki þarf að orðlengja það hve lífríki hafsins er mikilvægt okkur Íslendingum. Sjávarútvegur er og hefur verið grundvöllur íslensks efnahagslífs. Þótt við höfum í seinni tíð rennt fjölbreyttari stoðum undir atvinnulíf í landinu er sjávarútvegurinn enn þá og mun vonandi alltaf verða burðarás í efnahag þjóðarinnar. Ekki síst þess vegna höfum við Íslendingar gert okkur grein fyrir mikilvægi þess að vel sé gengið um hafið. Ég býst við að einmitt á þessu sviði sé umræða okkar um umhverfismál mjög langt á veg komin. Við höfum nýtt afl okkar á alþjóðavettvangi í áratugi til að stuðla að því að þjóðir gangi vel um hafið og bent á afleiðingar mengunar á lífríki þess.

Nú blasa við nýjar ógnanir í hafinu kringum Ísland. Með aukinni olíuvinnslu Rússa á norðurslóðum og flutningi olíu milli Rússlands og Bandaríkjanna skapast ógnanir á norðaustursiglingaleiðinni sem við verðum að mæta. Í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra kemur fram að stjórnvöld hafi þegar gripið til ýmissa aðgerða vegna þessa, m.a. með því að efla siglingar opinberra aðila meðfram strandlengju Íslands.

Ég hvet stjórnvöld af þessu tilefni til að halda vöku sinni gagnvart siglingu olíuskipa og efnaflutningaskipa á sjónum í kringum landið og í því sambandi er ástæða til þess að taka undir áform um að reyna að fá fram alþjóðlegar reglur sem miði að því að þessar siglingaleiðir færist fjær ströndum landsins. Þarna tel ég að samstarf milli umhverfisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis á sviði öryggismála skipti verulega miklu máli.

Hitt atriðið sem mig langar að gera að umtalsefni eru samgöngur bæði á Íslandi og til og frá landinu. Það liggur fyrir að við Íslendingar stólum mikið á olíu til þess að knýja fiskiskipaflotann og bílana okkar og ekki síst flugvélar til að komast frá landinu. Flug og skipasiglingar eru lífæð okkar Íslendinga í samskiptum við heiminn. Það er bráðnauðsynlegt að við leitum allra mögulegra leiða til að draga úr útblæstri í samgöngum. Í því efni þurfum við að treysta hvað mest á tækniframfarir sem hafa sem betur fer orðið töluverðar en það þarf miklu meira til. Við þurfum að velta fyrir okkur hvað við getum gert sjálf til að draga úr þessum útblæstri.

Það er hvað erfiðast að breyta hegðun okkar sjálfra og fá okkur t.d. til að draga úr bílanotkun en um leið og við vinnum í því er hægt að horfa í fleiri áttir. Hjá fiskiskipaflota okkar, sem verður væntanlega áfram knúinn af olíu, er hægt að hugsa sér fleiri leiðir, t.d. í notkun ljósavéla í landi og slíkt sem ég veit að hefur lengi verið til umræðu í stjórnkerfinu. Eins er hægt að halda áfram við það verkefni, sem var hafið fyrir löngu síðan og hefur stöðugt verið í gangi, að nýta rafmagn betur, t.d. á sviði iðnaðar og ekki síst á sviði fiskbræðslu og slíkra hluta. Skoðun mín er eindregið sú að við eigum að reyna að nota rafmagnið og koma því alls staðar við í stað olíu þar sem þess er nokkur kostur. Í því efni þarf ekki síst að horfa til aukinnar flutningsgetu í raforkukerfinu. Ég vil hvetja hæstv. umhverfisráðherra til að beita sér fyrir þessu.

Að lokum vil ég nefna flugið til og frá Íslandi. Enginn velkist í vafa um hve mikilvægt það er og hve áhrif eldsneytishækkana geta skipt miklu fyrir afkomu þess og einnig kostnað fyrir landsmenn. Nú erum við að innleiða svokallaða viðskiptakerfistilskipun ESB um losunarheimildir. Það liggur fyrir að flugið mun fara þar undir árið 2011. Þar eru hagsmunir eyþjóðarinnar gríðarlega miklir. Ég veit að Ísland hefur haldið þessum hagsmunum fram í viðræðum sínum á alþjóðavettvangi en þarna þurfum við að halda vöku okkar sérstaklega og ég vil beina því til ríkisstjórnarinnar og hæstv. umhverfisráðherra að gefa þessu máli sérstakan gaum.



[14:23]
Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Senn er komið að lokum þessarar umræðu og þess vegna mun ég ekki verja tíma mínum til atyrða eða athugasemda gagnvart fyrri ræðumönnum en vil hins vegar leitast við að draga fram þá ályktun sem ég dreg af þeim ræðuhöldum sem hér hafa farið fram.

Í fyrsta lagi er skýrslu ráðherrans vel tekið, í öðru lagi eru bundnar væntingar við störf hæstv. ráðherrans og í þriðja lagi er vakning og viðurkenning gagnvart náttúruvernd og þjóðin og þingið er í auknum mæli meðvitað um að við höfum ekki leyfi til að spilla náttúrugersemum eða virða hættuna vegna útblásturs gróðurhúsalofttegunda að vettugi. Þvert á móti er sú skoðun og sá andi ríkjandi í þessari umræðu að núverandi kynslóð á sér aðeins stuttan stans á jörðinni, hótel okkar er jörðin og aðeins eitt augnablik í eilífðinni. Það er okkar að gæta þeirra gersema sem við höfum fengið í arf frá forfeðrum okkar og við eigum að skila þeirri arfleifð áfram til afkomenda okkar. Um þetta snýst hlutverk okkar þegar kemur að náttúruvernd og umgengni um umhverfið. Við eigum að fagna því að eiga umhverfisráðherra sem er áhugamaður um þetta viðfangsefni og hefur skilning á því hvoru tveggja að mínu mati að vernda umhverfið án þess þó að spilla fyrir eða stöðva með öllu framfarir í atvinnu- og framkvæmdamálum. Hæstv. ráðherra hefur reynt að feta farveg sátta og skilnings og leyfa báðum aðilum að njóta vafans. Þannig tók hæstv. ráðherra ákvörðun um sameiginlegt heildarumhverfismat fyrir norðan sem ekki kemur í veg fyrir framkvæmdir orkunýtingar á svæðinu, og eftir atvikum uppbyggingu álvers ef í það er farið, en tryggir sem eftirlitsmaður og yfirmaður umhverfismála að farið sé að lögum og miklar framkvæmdir og rask á svæðinu gangi ekki gegn náttúru og vernd hennar. Um þetta hljóta allir náttúruverndarsinnar að vera sammála og samþykkja. Þannig á að mínu mati að starfa. Það vill enginn og á enginn að ráðast gegn umhverfinu með jarðýtum, tækjum og tólum vegna skammtímaákafa og áhuga á framkvæmdum og spellvirkjum sem aldrei verða aftur tekin.

Ísland er lítið land en við eigum hins vegar skyldum að gegna gagnvart umheiminum og verðum að leggja fram okkar skerf til að þjóðir veraldar geti sameinast um árangur í þeirri varnarbaráttu sem nú er háð gegn loftslagsbreytingum og skaðlegum áhrifum gróðurhúsalofttegunda. Það er kannski barátta upp á líf eða dauða alls mannkyns og framtíðarinnar, barátta sem við eigum að heyja í þágu afkomenda okkar.

Hæstv. forseti. Umræður um umhverfismál eru mikilvægar, það er þýðingarmikið að við ræðum saman, skiptumst á skoðunum og reynum að komast að skynsamlegri og farsælli niðurstöðu. Öfgar eru ekki til neins, samræming og sátt í umhverfismálum er niðurstaða sem snýr að efnahagsmálum, atvinnumálum, siðferði og skynsamlegri stefnumótun sem hér er verið að leggja drög að og sem hér er verið að takast á um. Ég skora á þingheim og þjóðina raunar alla að slíðra sverðin, hætta ásökunum í hvers annars garð og fara offari, og nálgast viðfangsefnið af skynsemi, þekkingu og skilningi.



[14:27]Útbýting:

[14:27]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Umhverfisstefna Samfylkingarinnar, Fagra Ísland, er vafalaust ein mestu kosningasvik íslensks stjórnmálaflokks síðustu áratugi. Eitt stærsta mál síðustu alþingiskosninga voru umhverfismálin, hvort tækist að stöðva hina hömlulausu virkjana- og stóriðjustefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Um þetta var tekist á, um þetta var kosið og Framsóknarflokkurinn, sem hafði birst sem ímynd stóriðjustefnunnar og hömlulauss álæðis og náttúruspjalla, galt afhroð. Skilaboð þjóðarinnar voru skýr. Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sem hafði stigið á afdráttarlausa stefnu í umhverfismálum, nær tvöfaldaði fylgi sitt í kosningunum. Skoðanakannanir nokkru áður gáfu vísbendingar um að VG gæti allt að þrefaldað fylgið. Þegar Samfylkingin sá að tvískinnungurinn í málflutningi forustumanna flokksins í umhverfismálum fældi stóran hóp kjósenda frá var soðin upp í skyndi ný umhverfisstefna, Fagra Ísland. Þar var lofað fimm ára stóriðjuhléi. Út á þau dýru loforð voru þingmenn Samfylkingarinnar kosnir.

Nú blasir hins vegar við helgrimm aðför ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að íslenskum náttúruperlum með stórvirkjunum og loforðum um nýjar álbræðslur. Þær álbræðslur eiga að fá forgang að allri virkjanlegri orku næstu árin. Nú þegar eru yfir 80% af raforkuframleiðslu landsmanna bundin í álverum. Skagfirðingar hafa barist hetjulega fyrir verndun jökuláa sinna, sama gera líka Sunnlendingar fyrir Þjórsá. Með samstilltu átaki í Skagafirði tókst að stöðva áform um stórfelldar virkjanir í jöklulánum í Skagafirði, Villinganessvirkjun stendur tilbúin á teikniborðinu.

Eitt af loforðum Samfylkingarinnar var verndun, friðun jökulánna í Skagafirði og Skjálfandafljóts. Nú hins vegar þegar fyrir liggur ákvörðun eða áform um álver á Bakka er alveg ljóst og kom fram þegar svokölluð staðarvalsnefnd var skipuð af Alcoa, Landsvirkjun og sveitarfélögum á Norðurlandi um val á stað fyrir álver, að það var skýrt kveðið á um það að sveitarfélögin yrðu að vera reiðubúin að verja virkjunarkostum sínum til álversins óháð hvar það væri. Það var alveg ljóst þá og er jafnljóst nú að tæplega 400 þúsund tonna álver mun krefjast orkunnar úr fallvötnum Skagafjarðar, úr Skjálfandafljóti og einnig hefur núna verið seilst í Jökulsá á Fjöllum.

Þegar tókst að stöðva virkjanaframkvæmdirnar í Skagafirði er farin önnur leið og núna er hafin línulögn yfir þveran Skagafjörð sem á að geta flutt raforkuna frá jökulánum í Skagafirði austur að Bakka. Þetta er hin grimma staðreynd, því miður. Ég verð að segja að sá ótrúverðugi málflutningur, sá tvískinnungur sem birtist af hálfu stjórnarflokkanna í virkjana- og stóriðjumálum, þar sem einu er lofað hér og öðru lofað þar, gengur ekki upp. Ég styð það að fram fari heildstætt mat á bæði orkuþörf og umhverfi væntanlegs og hugsanlegs álvers á Bakka á Tjörnesi. Þá kemur skýrt fram hvort þörf sé á að taka Skjálfandafljót og (Forseti hringir.) jökulárnar í Skagafirði. Það er þetta sem álbræðslusinnarnir óttast og vilja ekki. En ég krefst þess að það tekið verði heildstætt á málunum (Forseti hringir.) og jökulvötnin okkar varin, frú forseti.



[14:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrslu hennar. Ég vil taka fram að mér finnst virkni umhverfisverndarsinna afskaplega mikilvæg. Þó að ég sé alls ekki alltaf sammála þeim er mjög gott að heyra þessi sjónarmið í umræðunni og taka tillit til þeirra, og það er staðreynd að umræðan hefur breyst mjög mikið undanfarin ár.

Frú forseti. Öll virkni manna veldur mengun. Ég er viss um það að ef komin hefði verið Umhverfisstofnun og umhverfismat hefði landnám Íslands ekki verið leyft. Kindur á Íslandi hefðu verið bannaðar. Landbúnaður, bændabýli hefðu ekki komist í gegnum umhverfismat, ekki Reykjavík og ekki heldur Elliðavatn. Bláa lónið, Kárahnjúkavirkjun og Perlan eru allt saman umdeild virkni mannanna.

En mér finnst mjög mikilvægt, frú forseti, að við skiptum mengun niður í staðbundna og hnattræna mengun og áttum okkur á því að framleiðsla hverrar einustu vöru veldur mengun. Nýr jeppi kostar gífurlega mengun í framleiðslu, bæði staðbundna, þar sem hann er framleiddur, og líka hnattræna með koldíoxíðlosun.

Það verður að horfa undir yfirborðið. Það er ekki nóg að horfa bara á framleiðsluna, álframleiðslu á Íslandi, og segja: Þetta er slæmt. Um leið og við kaupum gos í áldós, sem sparar heilmikið af flutningskostnaði miðað við gler, erum við að biðja um álframleiðslu einhvers staðar hér á landi eða annars staðar.

Um leið og einhver tónlistarmaður heldur tónleika á Laugardalsvelli á sviði sem byggt er upp með áli er hann að biðja um framleiðslu á áli þó að hann sé að mótmæla því með tónleikunum. Við þurfum því að horfa undir yfirborðið og átta okkur á því hvert samhengi þáttanna er.

Það er t.d. talað um að gott sé að hafa metanframleiðslu á sorphaugum. Hefur einhver metið það hvað sú aðgerð að byggja 100 millj. kr. leiðslu til Reykjavíkur myndi kosta mikla mengun ein sér? Það að framleiða þessar pípur. Hafa menn áttað sig á því hvað það að sundurgreina sorp kostar mikla mengun? Að vera með margfalt kerfi í sorphirðu? Það getur vel verið að það borgi sig hreinlega ekki mengunarlega séð að vera að sundurgreina sorp. Þetta þurfa menn að fara að kanna og fara í gegnum.

Það er mjög mikilvægt að sætta umhverfissjónarmið og efnahagsleg sjónarmið. Við lifum ekki hér á landi án þess að nýta auðlindir þjóðarinnar, það er útilokað. Við verðum að nýta sjávarútveginn. Við verðum að nýta orkuna. Við getum ekki lifað í landinu án þess. Og til þess að nýta þessar auðlindir þurfum við að nýta mestu auðlindina sem er mannauðurinn. Og það þarf að flýta ferlum. Á það hefur verið bent hér í umræðunni að í sumum tilvikum væri umhverfismat farið að stöðva framkvæmdir. Það má ekki.

Ég hef þó mestar áhyggjur af Kyoto-samkomulaginu og hvernig við stöndum að því að gæta hagsmuna okkar þar. Við erum með íslenska ákvæðið sem bannar okkur að losa umfram ákveðið magn. Það þýðir að bannað er að framleiða ál á Íslandi með hreinni orku og það neyðir mannkynið til að framleiða ál í Kína og á Indlandi með raforku sem framleidd er með brennslu á jarðefnum, heilu fjöllunum af kolum, olíu eða gasi sem mengar hnattrænt. Þetta er nefnilega einn hnöttur og Kína og Ísland eru á sama hnetti, hæstv. umhverfisráðherra.

Það er því mjög mikilvægt að við breytum ákvæði okkar í viðræðunum sem verða núna í haust í þá veru að við föllum frá íslenska ákvæðinu, ekki neitt sérstakt, en krefjumst þess að það sé sama hvar framleitt er, það sama eigi að gilda, og það sé framleitt þar sem hagkvæmast er að gera það umhverfislega séð, þ.e. á Íslandi.

Ég geri ráð fyrir því að umhverfisverndarsamtök, þegar þau sjá undir yfirborðið og átta sig á samhengi þáttanna — því þetta er heil rökfræði — muni krefjast þess að Íslendingar virki hvern einasta foss. Ég vona að hæstv. umhverfisráðherra standi þá með mér í því að verja Gullfoss og Dettifoss. Það má líka vel vera að efnahagslega sé nóg komið af álverum og þá eigum við að nýta orkuna í eitthvað annað. En við þurfum engu að síður að nýta þessa auðlind, orkuna.



[14:36]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa komið upp og talað þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um þessi mál. Ég tel að fleiri ráðherrar ættu að gera slíkt hið sama. Það gæti verið gagnlegt að samgönguráðherra flytti t.d. skýrslu sína um samgöngumál hér á þinginu svo að við gætum haft efnislega og kröftuga umræðu um sýn okkar og stefnu í þeim málum. Ég held að blað sé brotið með því sem umhverfisráðherra gerir hér.

Ég get ekki látið hjá líða hér í umræðunni, vegna ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, án þess að ég ætli að elta ólar við málflutning vinstri grænna, að geta þess að mér fannst ræða hans einkennast af því að hann sé fastur í skoðanakönnunum sem gerðar voru í maí 2007. (Gripið fram í.) Hann virðist sjá mest eftir einhverju fylgi sem fór, að hans mati, frá Vinstri grænum til Samfylkingarinnar á þeim tíma. Það segir kannski eitthvað meira um stefnu Vinstri grænna og Samfylkingarinnar en nokkuð annað.

En ég held að það sé líka býsna merkilegt, talandi um það sem margir hv. þingmenn hafa komið inn á hér varðandi umhverfismálin, að vindar eru að breytast í samfélaginu. Umræðan er að breytast. Skilningur manna á umhverfismálum er að aukast. Skilningur manna á gildi náttúrunnar er að aukast.

Mér þóttu býsna merkileg tíðindi birtast í skoðanakönnun Capacent Gallup á afstöðu manna til úrskurðar umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum á Bakka. Um 42% þjóðarinnar eru sammála því að setja þetta í heildstætt umhverfismat. Ég er ekki viss um að sama niðurstaða hefði fengist hefði þessi skoðanakönnun verið gerð fyrir örfáum árum. Allt er þetta til marks um breyttar áherslur og breytt viðhorf landsmanna til náttúruverndar, til umhverfismála, til álvera og til stóriðju.

En mig langaði á þeim tæplega tveimur mínútum sem ég á hér eftir af ræðu minni að gera að umtalsefni almenningssamgöngur og samgöngumál. Þau voru rædd aðeins áðan af hálfu hv. þm. Ólafar Nordal. Mig langar að ræða sérstaklega strætó og almenningssamgöngur. Ég tel að það sé umhverfismál að við aukum þátt almenningssamgangna í samgöngum almennt. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstaklega talað um að efla eigi almenningssamgöngur. Það er mín bjargfasta trú og skoðun að ríkið eigi með einhverjum afgerandi eða beinum hætti að koma að rekstri strætó eða rekstri almenningssamgangna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í gegnum tíðina hafa sveitarstjórnarmenn á þessu svæði leitað til ríkisins og óskað eftir því að ýmis gjöld, tollar og skattar væru felldir niður. Á því hefur fjármálaráðuneytið alltaf séð vankanta og vísað til fordæmis. Ég segi: Gott og vel, skoðum það þá með beinum hætti að ríkið leggi hreinlega eina upphæð árlega, ríkisstyrk, til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Það er síðan sveitarfélaganna að ákveða hvernig sá styrkur er notaður, hvort hann er notaður til þess að niðurgreiða fargjöld eða auka tíðni o.s.frv.

Ég tel einnig, og hef flutt um það tillögu hér á þingi, að við eigum að efla forgangsakreinar strætisvagna í umferðinni og ég tel líka að við eigum að skoða það að afnema skattskyldu strætókorta. Það hljómar mjög einkennilega en er nú því miður þannig að þeir starfsmenn ríkisins sem kjósa t.d. að nota bíla í sinni vinnu — að þau hlunnindi eru skattfrjáls. En notir þú strætó og fáir strætókort, veskú þá þarftu að borga skatt af þeim. Almenningssamgöngur eru umhverfismál í eðli sínu og við þurfum að (Forseti hringir.) skoða þau mál og taka á þeim eins og öðrum þáttum umhverfismála sem umhverfisráðherra hefur mælt fyrir í þessari ágætu skýrslu.



[14:41]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins víkja að loftslagsmálunum í síðari ræðu minni. Þau eru orðin býsna afgerandi og einnig niðurstöður vísindamanna í þeim efnum. Er engin ástæða til annars en að taka fullt tillit til þess álits sem þau setja fram og vinna samkvæmt því. Menn mega hins vegar aldrei gleyma því að vísindi eru ekki líkindareikningur. Við megum ekki gleyma vísindamanninum sem á sínum tíma hélt því fram að jörðin snerist í kringum sólina og gekk þannig gegn ríkjandi viðhorfum og var knúinn til þess að afneita skoðunum sínum en reyndist svo hafa rétt fyrir sér. Við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir efanum í þessum efnum, fylgjast með og hafa fyrir því að staðreyna hlutina áfram þó að við förum þá braut að fylgja þeim meginniðurstöðum sem liggja fyrir í þessum efnum þar til annað kemur í ljós.

Þær loftslagsbreytingar sem þarf að vinna gegn hafa ýmis áhrif, m.a. hér á landi. Þær hafa þau áhrif að jöklarnir munu bráðna og minnka. Það mun hafa þau áhrif að vatnsföllin minnka. Orkan í vatnsföllunum mun minnka. Og það hefur áhrif á mat okkar á því hvenær og hvort hagkvæmt er að virkja á tilteknum stað eða ekki.

Það þýðir líka að við þurfum að vera vakandi fyrir því að nýta þessa orku meðan hún er. Fyrst þróunin eins langt og við sjáum fram í tímann er sú að við getum vænst þess að jöklar landsins hverfi er ekkert óskynsamlegt að nýta orku vatnsfallanna á meðan hún er fyrir hendi Við skulum ekki missa sjónar á því í þessu máli.

Í öðru lagi vil ég víkja að málefnum hafsins á nýjan leik. Mörgu er ábótavant í veiðarfærastýringu og álagsstýringu á einstaka fiskstofna í hafinu. Eitt af því sem hefur valdið mönnum áhyggjum, og er að koma æ sterkara upp á yfirborðið, er hvernig veiðum er stýrt á einstaka stofna eins og þorskstofna þar sem mjög mikið er veitt af stórum fiski úr stofninum. Telja menn í vaxandi mæli líkur leiða til þess að það breyti erfðasamsetningu stofnsins og breyti stofninum sjálfum. Þetta er kallað erfðarek og var nýlega frétt um það í dagblöðum að Íslendingur hefði verið í framhaldsnámi og kynnt ritgerð sína um það efni. Þetta er að mínu viti málefni umhverfisins.

Í öðru lagi er það nýting fiskstofna. Það þarf ekki bara að koma í veg fyrir ofnýtingu þeirra. Það þarf líka að koma í veg fyrir vannýtingu þeirra. Ýmsir stofnar eins og hvalir eru vannýttir og þeir hafa áhrif á aðra stofna í hafinu og lífríkið þar. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því, fylgjast með því og grípa inn í til þess að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af vannýtingu einstakra stofna.

Loftslagsútblástur hér á landi er mikill frá fiskiskipaflotanum. Við eigum því að líta til aðgerða sem draga úr honum. Eitt af því er að draga úr togveiðum sem eru mjög útblástursríkar. Með því að færa veiðarnar frá togveiðum og frystiskipum yfir í veiðar með öðrum veiðarfærum, eins og t.d. línu, drögum við mjög úr loftslagsútblæstri. Við eigum að nota stjórntæki okkar til að stuðla að þessari breytingu.

Loks vil ég, virðulegi forseti, gera eina athugasemd við skýrsluna sem ég tel að öðru leyti hið ágætasta skjal. Á bls. 9 segir að löggjöf Evrópusambandsins sé ekki bara stefnumarkandi heldur lagalega bindandi fyrir Íslendinga. Ég er ósammála því. Á meðan ég hef ekki tekið þá trú að rétt sé að ganga í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) og hef ekki tekið þann betlistaf mér í hönd, vil ég leyfa mér að halda því fram að ákvarðanir Evrópusambandsins séu ekki bindandi fyrir Alþingi Íslendinga.



[14:45]
Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn vil ég byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir greinargóða skýrslu um málaflokkinn. Umhverfismál eru að verða æ fyrirferðarmeiri í stjórnmálaumræðu samtímans og er því nauðsynlegt að skýrsla sem þessi sé flutt á hinu háa Alþingi eins og hér er nú gert. Það gefur hv. þingmönnum yfirsýn yfir þau mál sem unnið er að í ráðuneytinu og tel ég það afar jákvætt.

Það mætti staldra við og fjalla um marga áhugaverða þætti skýrslunnar en flest málin sem fjallað er um eru mjög stór og mikilvæg, ekki eingöngu fyrir okkur Íslendinga heldur ekki síður út frá hnattrænum sjónarmiðum. Vernd hafsins, að vernda hafið umhverfis Ísland gegn mengun, er mjög mikilvægt mál, mál sem skiptir eyríki eins og Ísland miklu máli, við höfum lífsviðurværið af því sem úr sjónum kemur. Einnig bendir margt til þess að umferð skipa sem flytja olíu fari vaxandi á næstu árum og er því afar brýnt að umræða um mengunarhættu á hafi, m.a. vegna olíuflutninga, sé sífellt í umræðunni og ekki síður viðbrögð við slíkri vá.

Í skýrslunni er greinargóður kafli um Vatnajökulsþjóðgarð og áætlanir um uppbyggingu hans og þjónustu honum tengda. Í skýrslunni segir að stofnun þjóðgarðsins sé eitt stærsta atvinnusköpunar- og byggðaþróunarverkefni sem stjórnvöld hafi tekist á hendur í þessum hluta landsins. Hægt er að gera ráð fyrir að þjóðgarðurinn skjóti styrkari stoðum undir ferðaþjónustu á þeim svæðum sem að honum liggja. Gera má ráð fyrir að þeim ferðamönnum sem sækja þjóðgarðinn heim fjölgi eftir því sem umsvif þjóðgarðsins verði meiri, innviðir styrktir og gestastofum fjölgað. Vatnajökulsþjóðgarður mun gefa ferðaþjónustuaðilum í sveitarfélögum nærri þjóðgarðinum aukna möguleika í þjónustu við ferðamenn. Sóknarfærin sem verða til á næstu árum vegna þjóðgarðsins verða af ýmsum toga. Með víðsýni og frjórri hugsun heimamanna verður til í tengslum við þjóðgarðinn fjöldi nýrra atvinnutækifæra sem þarf að nýta sem best.

Í kaflanum um sorphirðu og endurvinnslu úrgangs er fjallað um áherslur hæstv. umhverfisráðherra frá árinu 2007 þar sem lögð er áhersla á að neytendum sé auðveldað að stjórna neyslu sinni í samræmi við sjónarmið sjálfbærrar þróunar og þar með að halda myndun úrgangs í lágmarki. Einnig segir að draga þurfi úr sorpi frá heimilum og fyrirtækjum, bæta flokkun og auka endurnýtingu. Jafnframt er talað um að ráðuneytið vilji leita leiða að þessu markmiði í samvinnu við sveitarfélög og hagsmunaaðila.

Ég tek undir að í þessum málum þurfum við að taka til hendinni. Maður heyrir gjarnan að of tímafrekt sé að standa í flokkun, best sé að henda öllu í eina ruslafötu og þurfa ekki að hafa frekari áhyggjur af málinu. Einmitt vegna skoðana af þessu tagi spyr maður sig hvernig best sé að breyta hugsanagangi fólks um sjálfbæra þróun. Í mörgum sveitarfélögum hafa leik- og grunnskólar markað sér ákveðna stefnu í umhverfismálum. Ég þekki dæmi þess í mínu sveitarfélagi að leikskóli hefur unnið með skjólstæðingum sínum að umhverfismálum í á annan áratug. Verkefnið hófst með vettvangskönnunum um sveitarfélagið þar sem umhverfið var tekið til skoðunar. Því verkefni lauk með því að leikskólinn gaf út bók sem hefur verið notuð sem ítarefni í grenndarfræðslu við Háskólann á Akureyri. Þessi sami leikskóli ásamt einum grunnskóla hefur hlotið grænfána Landverndar. Eins og hv. þingmenn vita þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til að hljóta slíka virðingu.

Ég sé, hæstv. forseti, að ég er að lenda í tímaþröng eins og margir aðrir hv. þingmenn sem áður hafa talað og verð að reyna að stytta ræðu mína. Ég vil því hvetja hæstv. umhverfisráðherra til þess að taka höndum saman með sveitarfélögunum og marka stefnu sveitarfélaga og ríkisins (Forseti hringir.) varðandi heildstæða stefnu grunn-, leik- og framhaldsskóla í umhverfismálum.



[14:51]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það líður að lokum þessarar umræðu og vil ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir þá skýrslu sem lögð hefur verið fram. Jafnframt vil ég færa fram mínar persónulegu þakkir til þeirra sem tekið hafa þátt í umræðunni, ég tel að hún hafi verið mjög góð. Það er að vísu ekki mitt um það að dæma, en sú er alla vega mín skoðun. Ég tel að þau meginsjónarmið sem skipta máli hafi komið fram og það er áhugavert að nefndir hafa verið ýmsir möguleikar, ýmis úrræði, ýmis verkefni, í þessum málaflokki sem ég er sannfærður um að hæstv. ráðherra hefur bæði haft ánægju, gagn og gaman af því að hlýða á þingmenn ræða.

Ég er þeirrar skoðunar að einna mikilvægast í þessu sé það verkefni stjórnvalda að hjálpa markaðnum að leysa þau vandamál sem hér hafa verið rædd. Sú löggjöf sem var samþykkt hér á þinginu sem sneri að raftækjum og rafeindatækjaúrgangi er að mínu mati gott dæmi um það hvað hægt er að gera með skynsamlegum aðgerðum til þess að hjálpa markaðnum að hreyfa sig í rétta átt. Með framleiðendaábyrgðinni sem var sett á þennan tækjaflokk og á þessa framleiðslu er verið að segja við framleiðendur á þessum vörum: Í framleiðslukostnaðinum, þegar þið hannið tækin, þegar þið hannið þjónustu ykkar, eigið þið að taka tillit til þess að það kostar að farga þessum tækjum. Eftir því sem tækin eru betur hönnuð, eftir því sem mengunin er minni því minni kostnaður er af framleiðslunni og þar af leiðandi hafa þeir framleiðendur sem leysa þetta vandamál betra tækifæri á markaði en aðrir og þeirra framleiðsla verður ofan á. Þetta gildir um þessa framleiðslu og þetta gildir um alla aðra framleiðslu. Þetta er gott dæmi um það hvernig hægt er að ná árangri í samvinnu milli markaðarins og stjórnvalda.

Síðan er það lykilmálið sem er spurningin um orkuna og um leið líka spurningin um hvernig við nýtum náttúruauðlindirnar og um leið alþjóðlegt samstarf á sviði loftslagsmála. Sú orka sem við Íslendingar framleiðum er þess eðlis að þeir sem vilja nýta hana verða að koma til Íslands og fjárfesta hér með verksmiðjur sínar og þjónustu. Þetta er ólíkt því sem t.d. gildir um olíuríki eins og Noreg sem setur orku sína í tunnur og flytur til annarra landa. Ástæða þess að ég nefni þetta á sama tíma og ég nefni loftslagsmálin er sú að þegar norska orkan er flutt í formi olíu til annarra landa og nýtt þar mælist það sem mengunarkvóti hjá landinu sem tekur á móti orkunni og þeirri framleiðslu sem þar fer fram. Því er öðruvísi farið hjá okkur, orkan sem við framleiðum og búum til er nýtt hér og telst því til okkar framleiðslukvóta. Þetta er eitt af því sem ég tel að væri rétt að hafa í huga þegar verið er að ræða um hvernig best sé að nýta orku og hvaða reglur eigi að gilda um mengun og mengunarkvóta í umræðum á alþjóðavettvangi.

Ég tel einnig rétt að nefna að það eru auðvitað allir að reyna að sækja hagsmuni landa sinna. Það skiptir því máli að við Íslendingar sækjum okkar hagsmuni en að við gerum það með ábyrgum hætti. Ég nefni það hér að ESB leggur t.d. á það áherslu að ákveða hvaða ár er lagt til grundvallar þegar verið er að reikna út aukningu á CO2 einfaldlega vegna þess að það ár sem þeir hafa lagt til grundvallar hentar ESB vegna þess að þá fengu þeir inn til sín öll þessi ríki Austur-Evrópu sem voru mjög aftarlega á merinni hvað varðar mengun og mengunarvarnir. Þar með eykst svigrúm þessara þjóða til þess að bæta stöðu sína. Við Íslendingar vorum bara komnir svo miklu lengra þegar að þessu ári var komið og því eru möguleikar okkar takmarkaðri en þeirra þjóða sem þar er um að ræða.

Ég vil að lokum nota tækifærið til að óska okkur öllum, Íslendingum, til hamingju með Vatnajökulsþjóðgarð. Ég tel að hann sé frábært dæmi um það hvernig, þvert á stjórnmálaflokka og þvert á stjórnmálaskoðanir, hægt er að ná miklum árangri í umhverfismálum í landi okkar. Vatnajökulsþjóðgarður og hugmyndin um hann varð ekki til á einni örskotsstundu, margir ráðherrar komu að því máli. Siv Friðleifsdóttir, sem þá var umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz og Sigríður Anna Þórðardóttir — allir þessir einstaklingar lögðu í störfum sínum sem umhverfisráðherrar mjög mikil og þung lóð á vogarskálarnar til þess að þessi (Gripið fram í.)— já, ég gleymi honum. Það er bara þannig að það er svo auðvelt að gleyma honum, það er bara — náttúran er þannig. Þessir ráðherrar lögðu (Forseti hringir.) gríðarlega mikið af mörkum, sem sýnir að umræðan um náttúruverndarmál þarf ekki að kljúfa samfélag okkar, hún á að geta sameinað okkur af því að hagsmunirnir eru sameiginlegir hagsmunir íslensku þjóðarinnar.



[14:56]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ástæða er til að þakka hv. þingmönnum fyrir afar málefnalega og góða umræðu um þá skýrslu sem hér liggur fyrir, skýrslu um umhverfismál. Mér telst svo til að einir 20 þingmenn hafi tekið þátt í umræðunni auk mín hér í dag. Eins og gefur að skilja koma hv. þingmenn úr ýmsum áttum með ýmsar skoðanir í farteskinu en mér þykir þessi umræða bera því vitni hversu mikið grundvallaratriði umhverfismálin eru orðin í Stjórnarráðinu, í stjórnmálunum og í stjórn landsins og, eins og hv. þingmenn vita manna best, þvert á alla málaflokka. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hér hefur verið sagt um að styrkja þurfi og stækka umhverfisráðuneytið, þangað megi færa fleiri málaflokka. Það væri bæði fýsilegt og skynsamlegt að gera það.

Ég lít svo á að það skref sem stigið var um síðustu áramót, breytingarnar á Stjórnarráðinu sem þá urðu, hafi verið fyrsta skref af mörgum í átt til þess að skipa Stjórnarráðinu með þeim hætti að það sé í takt við þau verkefni sem verið er að vinna í samfélaginu og í takt við þær kröfur sem samfélagið gerir til stjórnvalda og stjórnmálamanna.

Mig langar að reyna að svara nokkrum spurningum og ábendingum sem fram komu í þessari umræðu. Það verður aldrei þannig að ég hafi tíma til þess að bregðast við öllu eða svara öllu en eitthvað hlýtur samt að takast að segja hér á sex mínútum og þremur sekúndum, frú forseti.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór víða í ræðu sinni og hélt því m.a. fram að sú sem hér stendur hafi vart verið búin að úrskurða um heildarmat framkvæmda vegna álvers við Bakka fyrr en hún fór að bakka í því máli, ef svo má að orði komast. Ég vísa því algjörlega á bug. Á daginn hefur komið að það sem ég hef alltaf sagt um þetta mál er að ef einhver töf verði séum við að tala um vikur og mánuði. Fyrir liggur að samráðsferli framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar hófst um leið og úrskurður féll og fyrir liggur hvernig fara eigi í gegnum heildarmatið, þetta er ekki flóknara en svo. Fyrirmæli úrskurðarins voru skýr og eftir honum er unnið.

Það var einnig rætt hér að ekki lægi fyrir markmið stjórnvalda, markmið ríkisstjórnarinnar, í loftslagssamningunum sem nú standa yfir. Það er ekki heldur rétt. Samningsmarkmið ríkisstjórnar Íslands voru afgreidd á fundi í lok nóvember, byrjun desember, fyrir aðildarríkjaþingið sem haldið var á Balí. Unnið er samkvæmt þeim samningsmarkmiðum og eftir því sem fram vindur í umræðunum og samningaviðræðunum mun fleira verða á því borði og það er fleira sem þarf að taka afstöðu til. Ég nefndi það m.a. verið er að vinna í þeirri tillögu Íslendinga að endurheimt votlendis gæti líka reiknast sem binding, og hefur verið tekið vel í hana í samningaviðræðunum. Við vonum svo sannarlega að endurheimt votlendis fái þá viðurkenningu sem við teljum að hún þurfi að fá í þessum samningum.

Hlutverk markaðarins hefur verið gert að umtalsefni, hv. þm. Illugi Gunnarsson hefur gert það. Markaðurinn getur verið mjög gott tæki til að ná markmiðum um umhverfisvernd og í umhverfismálum, m.a. þess vegna eru svokölluð sveigjanleikaákvæði í loftslagssamningnum nýtt og m.a. þess vegna er verið að setja upp kolefnismarkað svokallaðan. Markaður Evrópusambandsins með losunarheimildir, sem við verðum hluti af í gegnum EES-samninginn, er tæki til þess að nýta kosti markaðarins til að ná markmiðum í umhverfismálum, í þessu tilviki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þann markað eigum við að nýta og þann markað munum við þurfa að nýta vegna þess að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og munum með þátttöku í þeim markaði — það er mín skoðun — fara enn dýpra inn í samstarf við Evrópusambandið en nú er, a.m.k. í umhverfismálum.

Aðalatriðið í loftslagssamningunum — og það er það sem allir stefna að núna — er að ná heildarsamkomulagi með þátttöku allra ríkja heims og þar eru nokkur ríki lykilríki. Það verður ekkert samkomulag nema allir setjist við borðið og semji, skipti byrðunum og skipti þeim í samræmi við losun og sanngirni og efnahagsstöðu. Það er aðalmarkmiðið. Ef ekki næst samningur er tómt mál að tala um einhverja aðra kosti fyrir Íslendinga eða einhverjar aðrar kröfur. Aðalmarkmiðið er að ná saman um heildarmarkmið um bindandi samning sem allir taka þátt í.

Það er líka mjög mikilvægt í því sambandi að allir geri sér grein fyrir því að innan einhverra ára í tiltölulega náinni framtíð munu losunarheimildir fara á markað og ekki nema að litlu leyti verða í boði ókeypis. Auðvitað gerist þetta ekki í einu vetfangi en smám saman, eigi kolefnismarkaðurinn að virka, mun það verða þannig. Við þurfum, Íslendingar, fyrirtæki og stjórnvöld, að laga okkur að þeirri staðreynd.

Ég vil nota þetta tækifæri og fagna sérstaklega orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar sem sagðist telja að hægt væri að ná saman um skynsamlega landsskipulagsstefnu. Þetta er sá hinn sami maður og skilaði séráliti í niðurstöðu nefndarinnar sem vann stóru frumvörpin sem hafa verið til umfjöllunar í umhverfisnefnd, var þá sem fulltrúi íslenskra sveitarfélaga. Ég tel miklu máli skipta að maður sem sat í undirbúningsnefndinni og hefur unnið að þessari lagagerð í öll þessi ár skuli tala með þessum hætti hér í dag. Það treystir mig í þeirri skoðun minni að hægt sé að ná niðurstöðu í því stóra máli.

Ég get líka tekið undir með hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, formanni samgöngunefndar, að almenningssamgöngur eru umhverfismál og þær þarf að starfrækja með þeim hætti að ríkið sé ekki að leggja álögur á sveitarfélög sem halda úti almenningssamgöngum. Með einhverjum hætti þarf að leysa það mál og koma því þannig fyrir að hægt sé að létta undir með sveitarfélögunum þegar almenningssamgöngur eru annars vegar.

Rétt í lokin vil ég, vegna þess að ekki hefur gefist tækifæri eða tími til að fjalla um það sérstaklega í ræðu minni eða í umræðunni í dag, fagna því sérstaklega að nýju stofnanirnar, Landgræðslan, Vatnamælingar og Skógræktin, séu komnar til (Forseti hringir.) umhverfisráðuneytisins. Starf þeirra er blómlegt og gott og hefur verið í 100 ár, landgræðsla og skógrækt, og mun verða það áfram næstu 100 árin.