135. löggjafarþing — 122. fundur
 11. september 2008.
nálgunarbann, 2. umræða.
stjfrv., 294. mál (heildarlög). — Þskj. 334, nál. 1334 og 1346, brtt. 1335 og 1048.

[16:49]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um nálgunarbann. Í nefndarálitinu er getið um að fjölmargir gestir komu á fundi nefndarinnar og umsagnir bárust frá mörgum aðilum.

Eins og þarna kemur fram var frumvarp þetta var flutt samhliða frumvarpi til laga um meðferð sakamála, sem varð að lögum nr. 88/2008. Lögin öðlast gildi 1. janúar 2009. Réttarreglur um nálgunarbann er nú að finna í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, en við undirbúning sakamálafrumvarpsins var ákveðið að ekki væri rétt að skipa þar ákvæðum um nálgunarbann í kaflanum um þvingunarúrræði sem lög um meðferð sakamála gera ráð fyrir þar sem bannið hefði ekki það einkenni sameiginlegt sem þeim úrræðum að tengjast rannsókn eða meðferð sakamáls í tilefni af tilteknu broti. Því væri rétt að koma reglum um úrræðið fyrir í sérstökum lögum. Í frumvarpinu eru gerðar ákveðnar efnisbreytingar frá gildandi reglum að því leyti að lýst er nánar hvaða aðdragandi getur verið að því að lögregla geri kröfu til dómara um nálgunarbann og hvaða úrræði sá hefur sem ekki fær því framgengt að lögreglan krefjist nálgunarbanns, þ.e. að inn er sett heimild til að kæra höfnun á nálgunarbanni. Nefndin ræddi málið ítarlega á fundum sínum síðasta vor og eins á þessu septemberþingi. Helstu atriði sem bar á góma í umræðum nefndarinnar voru hvaða aðili ætti að hafa heimild til að úrskurða menn í nálgunarbann og hvort skilyrði fyrir beitingu nálgunarbanns væru fullnægjandi samkvæmt núgildandi lögum og frumvarpinu eins og það liggur fyrir. Nefndin fjallaði um málið á fundum sínum á vorþingi en ákvörðunina um að afgreiða það ekki samhliða sakamálafrumvarpinu má rekja til þess að nefndin taldi nauðsynlegt að fara nánar yfir álitamál sem upp komu við meðferð málsins síðastliðið vor.

Nefndarmenn ræddu hvort rétt væri að heimila lögreglu eða handhafa ákæruvalds að úrskurða menn í nálgunarbann frekar en dómara eins og nú er. Ýmsir umsagnaraðilar í málinu beittu sér töluvert fyrir því að slík heimild yrði færð yfir til lögreglu, en úrskurður hennar yrði síðan borinn undir dómstóla. Þau rök voru einkum færð fram fyrir breytingunni að hún gæti orðið til þess að stytta málsmeðferð og tryggja virkari framkvæmd úrræðisins. Þess ber að geta að efasemdir komu fram frá öðrum gestum um að sú breyting mundi skila tilætluðum árangri og jafnvel kom fram það sjónarmið að slík breyting gæti haft þær afleiðingar að málsmeðferð mundi þyngjast eða lengjast. Að vandlega athuguðu máli telur meiri hlutinn ekki rétt að fara þá leið að svo búnu og álítur að fyrst þurfi að fara fram ítarleg skoðun á kostum þess og göllum að ráðast í flutning á forræði í nálgunarbannsmálum frá dómstólum til lögreglu. Meiri hlutinn bendir í því sambandi á að slík skoðun þurfi meðal annars að fela í sér samanburð við nágrannalönd Íslands, einkum Noreg og Svíþjóð, og yfirlit yfir framkvæmd nálgunarbannsúrræðisins hér á landi til þessa, bæði framkvæmd lögreglu og dómaframkvæmd. Meiri hlutinn bendir jafnframt á að huga þurfi að því hvernig andmælaréttur og aðrar málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga komi til með að spila inn í slíka yfirfærslu úrskurðarheimildarinnar.

Nefndin ræddi einnig hvort ástæða væri til að breyta þeim efnisskilyrðum sem nú eru fyrir beitingu nálgunarbanns og frumvarpið gerir einnig ráð fyrir. Í þessu sambandi kynnti nefndin sér meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 423/2008 frá 7. ágúst síðastliðnum þar sem ekki var fallist á að skilyrði væru fyrir hendi til að manni yrði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 110. gr. núgildandi laga um meðferð opinberra mála. Meiri hlutinn leggur áherslu á að nálgunarbannsúrræðið verði virkara en verið hefur til þessa og leggur í því skyni fram breytingartillögur þess efnis að teknir verði upp í frumvarpið ákveðnir mælikvarðar um þau atriði sem dómara beri að líta til við mat á því hvort skilyrði sé uppfyllt til nálgunarbanns. Meiri hlutinn leggur þannig til að nægilegt verði að ástæða sé til staðar til að óttast afbrot eða að friði verði raskað, en ekki rökstudd ástæða eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá leggur meiri hlutinn til að sá frestur sem lögreglu er ætlaður til að taka afstöðu til beiðni um nálgunarbann verði styttur úr tveimur vikum, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, í þrjá daga. Í núgildandi lögum eru hins vegar engir tímafrestir og því er þessi breyting til töluverðra bóta að mati meiri hlutans. Loks gerir meiri hlutinn það að tillögu sinni að við 3. gr. frumvarpsins bætist ný málsgrein þess efnis að við mat á því hvort skilyrðum til að nálgunarbanni sé fullnægt skuli meðal annars litið til fyrra framferðis þess, sem krafist er að sæti því og jafnframt skuli fara fram hagsmunamat þannig að horft verði til hagsmuna þess sem njóta eigi verndar af nálgunarbanni með tilliti til þeirra takmarkana sem bannið gæti lagt á athafnafrelsi þess sem krafist er að sæti því.

Loks leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins þess efnis að lögin taki gildi 1. janúar 2009, á sama tíma og ný lög um meðferð sakamála.

Í tengslum við meðferð málsins ræddi nefndin einnig nokkuð hina svokölluðu austurrísku leið sem felst í því að heimilt er að vísa manni af heimili sínu að uppfylltum tilteknum skilyrðum og ræddi hvort til álita kæmi að taka svipað fyrirkomulag upp hér á landi. Í því sambandi tekur meiri hlutinn fram að hér er um að ræða annað úrræði en nálgunarbann og umræða um það mál er mun skemmra á veg komin að mati meiri hlutans en nálgunarbannsumræðan. Meiri hlutinn beinir því hins vegar til dómsmálaráðuneytis að reynslan af því fyrirkomulagi í nágrannalöndunum verði könnuð og metið hvernig þetta úrræði falli að íslensku réttarfari. Meiri hlutinn óskar eftir því að afrakstur þeirrar vinnu verði kynntur henni þegar niðurstaða liggur fyrir.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarp dómsmálaráðherra verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð er grein fyrir. Undir álit þetta skrifa sá sem hér stendur, Ágúst Ólafur Ágústsson, Jón Gunnarsson, Ellert B. Schram, Ólöf Nordal, Karl V. Matthíasson og Jón Magnússon. Samúel Örn Erlingsson skrifaði einnig undir álitið en gerði af sinni hálfu fyrirvara við það.

Herra forseti. Mér finnst rétt umræðunnar vegna að árétta nokkur atriði áður en ég lýk máli mínu. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að fram komi að málið hefur fengið ítarlega umræðu í allsherjarnefnd og frumvarpið hefur tekið umtalsverðum breytingum í meðförum nefndarinnar. Frumvarpið sem hæstv. dómsmálaráðherra flutti síðasta vetur var, eins og kemur fram í nefndarálitinu og ég hef áður gert grein fyrir, fyrst og fremst flutt af lagatæknilegum ástæðum, þ.e. til þess að færa lagaákvæði um þetta efni úr lögum um meðferð opinberra mála, nú sakamálalögunum, yfir í sérlög. Það var því ekki farið af stað með þetta mál á þeim forsendum að um heildarendurskoðun reglna á þessu sviði væri að ræða. Það var hins vegar ákvörðun allsherjarnefndar að leggjast nánar yfir málið og af þeim sökum var horfið frá því að afgreiða það samhliða sakamálalöggjöfinni síðastliðið vor þannig að betri tími ynnist til þess að fara yfir einstök atriði, bæði efnisreglur og málsmeðferðarreglur. Það var ekki síst gert vegna þess að fram kom fjöldi athugasemda frá umsagnaraðilum um núverandi fyrirkomulag þessara mála og þær urðu til þess að nefndarmenn voru einhuga um að staldra við og ræða nánar hvernig þessum málum væri best fyrir komið.

Það má segja að við afgreiðslu frumvarpsins nú af hálfu allsherjarnefndar sé náð ákveðnum áfanga á þessari leið. Hins vegar er ekki um að ræða endanlega niðurstöðu. Með því á ég við að innan nefndarinnar var víðtæk samstaða um að gera tilteknar breytingar sem horfa í framfaraátt og tillögur nefndarinnar fela slíkar breytingar í sér. En jafnframt kemur fram í nefndarálitinu að innan nefndarinnar er áhugi á að skoða aðra þætti nánar, afla frekari upplýsinga varðandi framkvæmd úrræðisins hér á landi og nágrannalöndunum þannig að unnt verði í framhaldinu að taka afstöðu til hugsanlegra kerfisbreytinga á þessu sviði á traustari grundvelli en unnt er að þessu sinni.

Líka er nauðsynlegt að árétta að við í allsherjarnefnd töldum mikilvægt að ljúka meðferð þessa frumvarps sem slíks nú á haustdögum enda falla núgildandi ákvæði um nálgunarbann niður um næstu áramót með gildistöku nýrra sakamálalaga. Við vildum ekki eiga á hættu að orðið gætu neinar þær tafir sem hefðu hugsanlega geta skapast af því að bíða með málið fram yfir setningu nýs þings síðar í haust þar sem hefði þurft að hefja alla þinglega málsmeðferð upp á nýtt og leggjum þess vegna áherslu á að málið verði klárað nú á þessu stutta septemberþingi með þeim breytingum sem við leggjum til en tilteknir þættir síðan skoðaðir í framhaldinu með það að markmiði, eins og ég sagði áðan, að afla upplýsinga og gagna sem geta síðar orðið grundvöllur ákvarðana af okkar hálfu.

Það ætti líka, herra forseti, að hafa í huga að í raun er enginn ágreiningur um það innan allsherjarnefndar að úrræði á borð við nálgunarbann sé mikilvægt og það er auðvitað nauðsynlegt að úrræðið sé skilvirkt og unnt að beita því þegar við á. Við tökum mark á athugasemdum sem nefndinni hafa borist um að núverandi fyrirkomulag geti verið gallað að ýmsu leyti. Við gerum ákveðnar tillögur til úrbóta og óskum eftir nánari upplýsingum um aðra þætti málsins sem voru ekki, að okkar mati, nægjanlega skýrir í þessari umferð. En við viljum að sjálfsögðu að fyrirkomulag þessara mála sé með þeim hætti að nálgunarbannsúrræðið virki til að venda þá hagsmuni, þá einstaklinga sem því er ætlað að vernda og um leið þarf auðvitað að hafa í huga eins og við alla lagasetning á þessu sviði að huga að eðlilegum réttaröryggissjónarmiðum.

Frumvarpið eins og það liggur fyrir með þeim breytingum sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til felur í raun í sér talsverðar breytingar sem allar miða í þá átt að auka skilvirkni og bæta réttarstöðu þess sem óskar eftir nálgunarbanni. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að sá sem óskar eftir nálgunarbanni hafi skýran rétt til að kæra ákvörðun lögreglu um að fara ekki fram á nálgunarbann. Þetta er veruleg breyting því fram til þessa hefur slíkur réttur ekki verið fyrir hendi.

Í annan stað gerir breytingartillaga allsherjarnefndar ráð fyrir því að lögregla hafi aðeins þrjá daga til að taka afstöðu til þess hvort hún fer fram á nálgunarbann en samkvæmt frumvarpinu var, eins og áður kom fram, þessi frestur tvær vikur og í núgildandi lögum eru engir tímafrestir í þessu sambandi.

Í þriðja lagi er rétt að leggja áherslu á hér í lokin að breytingartillögur allsherjarnefndar gera ráð fyrir verulegum breytingum á orðalagi ákvæðisins um skilyrði þess að nálgunarbanni verði beitt. Það er gert mildara þannig að orðalagið rökstudd ástæða breytist í ástæða og þessari breytingu er auðvitað ætlað að stuðla að því að ekki verði jafnstífar kröfur gerðar í matinu á því hvort tilefni sé til að beita úrræðinu og áður hafa verið.

Af sama toga er sú breyting líka að líta skuli til fyrra framferðis þess sem nálgunarbann beinist að og til hagsmunamats eins og gert er ráð fyrir í breytingartillögunni við 3. gr. Allt eru þetta atriði sem við teljum að horfi til úrbóta og séu til þess fallin að styrkja stöðu þess sem þarf á nálgunarbanni að halda vegna hættu á ofbeldi, ógnunum, ofsóknum eða annarri röskun á friði.

Að þessu sögðu, herra forseti, mæli ég með því að Alþingi nú við 2. umr. samþykki frumvarpið með þeim breytingum sem meiri hluti allsherjarnefndar leggur til.



[17:02]
Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hlutans sem lesa má á þskj. 1346 og er 294. mál þingsins, en frumvarpið sem hér er til umræðu var flutt samhliða frumvarpi til laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, eins og hér hefur komið fram og öðlast gildi 1. janúar 2009. Ákvæðið um nálgunarbann var tekið út úr þeim lögum með það að markmiði að gera ákvæðið að sérlögum.

Minni hluti allsherjarnefndar telur mikilvægt að tryggja réttarstöðu þeirra sem sæta ofsóknum í samfélaginu. Lagaákvæði um nálgunarbann hafa því miður ekki uppfyllt þau skilyrði og þær væntingar sem gerðar voru til þeirra, þau hafa reynst veik, þ.e. þau hafa ekki uppfyllt það að vernda fórnarlömb ofbeldis. Því er óhjákvæmilegt að breyta þeim í grundvallaratriðum svo hægt sé að beita þeim á markvissan og skilvirkan hátt. Breytingartillögum meiri hlutans er ætlað að tryggja það að ákveðnu marki og leggst minni hlutinn ekki gegn þeim en krefst þess að tækifærið sé nýtt til þess að bæta stöðu þolenda heimilisofbeldis.

Dómur Hæstaréttar, sem vísað var til áðan í ræðu hv. formanns allsherjarnefndar, frá 7. ágúst sl. þar sem úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður grunaður um margháttað ofbeldi gegn þáverandi sambýliskonu sinni sæti ekki nálgunarbanni, þótt fullt tilefni hafi verið til, hefur vakið mjög hörð viðbrögð í samfélaginu og sýnir þá annmarka sem þetta úrræði hefur með núverandi löggjöf.

Það er mikilvægt að muna af hverju við beitum þessu úrræði og af hverju farið er fram á nálgunarbann í slíkum málum. Telur minni hluti allsherjarnefndar að frelsi einstaklinga skuli metið í slíkum tilvikum ofar skyldu ríkja til að vernda þegna sína, þ.e. frelsi til að búa ekki við ofbeldi, og að sú skerðing sem farið er fram á að ofbeldismaður sæti sé í raun og veru léttvæg í samanburði við það sem sá sem verður fyrir ofbeldinu þarf að búa við. Ofbeldismaður á auðvitað lögvarinn rétt og ber að standa vörð um þau réttindi en þolandi ofbeldis á ekki síður rétt. Friðhelgi einkalífs er stjórnarskrárvarinn grundvallarréttur hvers einstaklings og hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja öryggi fólks á opinberum vettvangi og á heimilum.

Það er mat minni hlutans að nálgunarbann sé lagaúrræði sem nýtist í ákveðnum tegundum mála, en ekki endilega sem úrræði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis. Því sé nauðsynlegt að samhliða lagfæringum á lagaákvæðum um nálgunarbann verði hugað að réttarstöðu fórnarlamba heimilisofbeldis. Slíkt verður best gert með því að leiða í lög ákvæði um brottvísun af heimili og heimsóknarbann, sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa lagt til síðan á 131. löggjafarþingi, nú síðast á 133. löggjafarþingi. Þar er um að ræða hina svonefndu austurrísku leið. Málið var flutt í fyrsta sinn á haustdögum 2003 og var óskað umsagna hjá fjölda aðila. Rómuðu félagasamtök og flestar stofnanir frumvarpið og töldu það skref í átt að auknu öryggi kvenna á eigin heimilum. Það eru fimm ár síðan, hæstv. forseti.

Með ákvæðum um brottvísun af heimili og heimsóknarbanni og þeim úrræðum sem þar eru lögð til og úrræðum í frumvarpi til laga um nálgunarbann eru ákveðin líkindi, sem gera það að verkum að vel fer á því að vista þau í einum og sömu lögunum. Því leggur minni hlutinn til talsverðar breytingar á frumvarpinu, m.a. á heiti þeirra, þ.e. að þau nefnist lög um nálgunarbann, brottvísun af heimili og heimsóknarbann.

Það er mat minni hlutans að með góðum vilja hefði verið hægt að nýta tíma nefndarinnar í sumar til að gera nauðsynlegar athuganir á þróun löggjafar um nálgunarbann í nágrannalöndum okkar ásamt því að kanna reynsluna af austurrísku leiðinni í þeim löndum þar sem hún hefur verið innleidd. Í ljós hefur komið að ánægja er með lögin í þessum löndum og hafa þau reynst þolendum ofbeldis réttarbót. Hefðu slíkar athuganir getað flýtt fyrir því að lagaákvæði um nálgunarbann yrðu markviss og skilvirk ásamt því að gera nauðsynlegar breytingar á því óviðunandi lagaumhverfi sem fórnarlömb heimilisofbeldis hafa þurft að búa við allt of lengi. Einnig hefði slík athugun að öllum líkindum tekið af allan vafa um gildi þeirra breytinga sem óskað var eftir að gera.

Einnig telur minni hluti nefndarinnar með ólíkindum, í ljósi þess að frumvarp um austurrísku leiðina svokölluðu hefur verið flutt síðustu fimm ár, að nefndarmenn skuli ekki hafa nein gögn, engin gögn, enga vitneskju, ekkert til um það, hvernig málin standa í Austurríki, Noregi, Danmörku og Svíþjóð, sérstaklega þar sem ákveðið var fyrir þinghlé 2007 að kannað yrði af þinginu, allsherjarnefnd, hvort ástæða væri til að fara þessa leið hér á landi. Það er eitt ár síðan og menn hafa að mínu mati haft nægan tíma í það verkefni. Því spyr ég: Vantar kannski bara viljann?

Í nefndaráliti meiri hlutans koma fram efasemdir um að tímabært sé að færa heimildina til beitingar nálgunarbanni frá dómstólum til lögreglu og er því lýst sem áliti meiri hlutans að áður en af slíkri breytingu verði þurfi að fara fram skoðun á mögulegum áhrifum þess. Það er hins vegar óljóst hvert meiri hlutinn beinir því áliti sínu. Það kom fram í ræðu hv. formanns allsherjarnefndar áðan að hann beinir því til dómsmálaráðuneytisins, ef ég hef heyrt rétt. Minni hluti nefndarinnar telur reynslu nágrannalandanna sýna að úrræðið sé betur komið í höndum lögreglu og við hefðum viljað að kapp hefði verið lagt á að sýna fram á það svo að hægt hefði verið að innleiða nauðsynlegar breytingar í lagaumhverfi okkar í þessari atrennu. Einnig kom fram í máli flestra þeirra sem komu á fund nefndarinnar að með því að færa heimild til beitingar nálgunarbanni til lögreglu væri úrræðið gert virkara og voru flestir sammála um að það væri leið sem ákjósanlegt væri að fara.

Mig langar að ræða aðeins meira um tímaannmarkana og þá staðreynd að beina á því aftur til ráðuneytisins. Þann 10. október 2007, þ.e. fyrir ári síðan, spurði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hæstv. dómsmálaráðherra að því hvernig skoðun á aðgerðum til verndar þeim sem verða fyrir ofbeldi á heimili sínu, sem vísað var frá allsherjarnefnd til ríkisstjórnar, gengi. Þá kom fram í svari hæstv. dómsmálaráðherra að ráðuneytið hefði haft þetta mál til skoðunar yfir sumarmánuðina og að flutt yrði sérstakt frumvarp um nálgunarbann, sem er hér til umræðu, og að ekki yrði gert ráð fyrir efnislegum breytingum á gildandi rétti í frumvarpinu um nálgunarbann. Ég geri þess vegna ráð fyrir að á þeim tíma sem þetta var í skoðun hjá dómsmálaráðuneytinu hafi bæði flutningur á beitingu nálgunarbanns til lögreglu og svokölluð austurrísk leið verið til umræðu og því finnst mér mjög óeðlilegt að ráðuneytið hafi ekki nein gögn og að nefndarmenn skuli ekki þekkja þessi mál nægilega vel til að taka ákvörðun og að það þurfi að skoða það meir.

Málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga komu einnig til umræðu í nefndinni í tengslum við yfirfærslu heimildar til beitingar nálgunarbanni yfir til lögreglu og það er mat minni hlutans að sakborningi sé tryggður andmælaréttur þar sem fram kemur í breytingartillögunum að í kjölfar úrskurðar um nálgunarbann yrði hann ávallt borinn undir dómara og þar með er andmælaréttar gætt, enda eru fordæmi fyrir því að andmælaréttar sé gætt á sambærilegan hátt í íslenskum lögum.

Ríkisstjórn Íslands hefur skuldbundið sig ásamt ríkisstjórnum hinna Norðurlandanna til að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi en það verður að horfast í augu við þann napra veruleika að konur og börn eru beitt ofbeldi í samfélagi okkar og ofbeldið á sér oft stað inni á heimilum fórnarlambanna. Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafa verið leidd í lög ákvæði sem taka mið af austurrísku aðferðinni og hefur framkvæmd þeirra gefið góða raun.

Minni hlutinn leggur einnig áherslu á að breytingar þær sem hér eru lagðar til eru í samræmi við tilmæli alþjóðlegra eftirlitsstofnana á sviði mannréttinda og breytingartillögurnar til þess fallnar að auka réttarvernd kvenna og barna. Vekur minni hlutinn sérstaka athygli á tilmælum þings Evrópuráðsins sem leggur til lagaheimild til brottflutnings ofbeldismanns af heimili, þ.e. upptöku austurrísku leiðarinnar, en með því er komið í veg fyrir þær afkáralegu aðstæður sem skapast við heimilisofbeldi þar sem fórnarlambið neyðist til að yfirgefa heimilið en ekki ofbeldismaðurinn. Austurríska aðferðin felur í sér úrræði til verndar þeim sem verða fyrir ofbeldi á heimilum með því að lögregla hefur við tilteknar kringumstæður heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili sínu og banna þeim heimsóknir þangað og í nánasta umhverfi í tiltekinn tíma. Með því að fara þessa leið yrði stigið mjög mikilvægt skref í baráttu gegn heimilisofbeldi. Þannig þyrftu þeir sem eru beittir ofbeldi á heimilum ekki lengur að flýja heimili sitt heldur yrði þeim sem brýtur af sér gert að yfirgefa það samkvæmt ákvörðun lögreglu.

Minni hlutinn telur að ákvæði af þessu tagi brjóti ekki gegn ákvæðum mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að og ætlað er að vernda friðhelgi heimilis og einkalífs til verndar réttindum annarra. Sama á við um 71. gr. stjórnarskrár en það færi gegn tilgangi þessara samninga að túlka friðhelgi einkalífsins þannig að í skjóli hennar sé heimilt að brjóta gegn frelsi og mannhelgi kvenna og barna. Nær væri að túlka friðhelgi einkalífs svo að fólk njóti öryggis og friðar á eigin heimilum.

Með breytingartillögum minni hlutans er komið til móts við ítrekuð tilmæli nefnda Sameinuðu þjóðanna, sem m.a. fylgja eftir samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum, um að íslensk stjórnvöld tryggi úrræði sem gagnist fórnarlömbum heimilisofbeldis og komi á virkum lagafyrirmælum um nálgunarbann.

Alþjóðlegar eftirlitsstofnanir á sviði mannréttinda hafa lýst áhyggjum sínum af hárri tíðni heimilisofbeldis hér á landi og þeim hindrunum sem fórnarlömb heimilisofbeldis standa frammi fyrir þegar þau þurfa að leita réttar síns. Þessar hindranir eru sérstaklega augljósar þegar um konur af erlendum uppruna er að ræða og konur sem tilheyra hópum sem eiga undir högg að sækja. Bent hefur verið á að tryggja beri aðgang fórnarlamba að aðstoð. Þessi sjónarmið hafa einnig komið fram í umsögnum um frumvarpið og er þar talað um brýna nauðsyn þess að tilnefna og skipa réttargæslumann til handa þolendum heimilisofbeldis.

UNIFEM stendur þessa dagana fyrir átaki til að hvetja landsmenn til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um allan heim til að binda endi á ofbeldi gegn konum. Hæstv. utanríkisráðherra, samgönguráðherra og heilbrigðisráðherra hafa undirritað þessa áskorun í viðurvist fjölmiðla — og er gaman að því — og segja þannig nei við ofbeldi gegn konum. Ég fagna því eindregið og hvet ríkisstjórnina til þess að fylgja þessu eftir í verki. Aukin réttindi kvenna skipta máli eins og við vitum.

Ofbeldi gegn konum er málefni sem þolir enga bið. Við skulum gera okkur grein fyrir því að a.m.k. ein af hverjum þremur konum er barin, þvinguð til kynlífs eða misnotuð á annan hátt einhvern tíma á lífsleiðinni, þ.e. að hún er beitt ofbeldi vegna kyns síns, og það þarf auðvitað að grípa til aðgerða, við sjáum það öll, held ég.

Mannréttindaskrifstofa Íslands, lögmenn og starfsfólk neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítala hafa sent allsherjarnefnd umsagnir vegna frumvarpsins þar sem hvatt er til þess að Ísland fari að dæmi Austurríkis og nú margra annarra Evrópuríkja. Umsagnir þessara aðila eru fylgiskjöl með nefndaráliti þessu.

Hvati breytinganna í Austurríki var stöðug fjölgun kvennaathvarfa þar í landi og vakti það fólk til vitundar um nauðsyn þess að bregðast við á annan hátt en gert hafði verið. Hér á landi ríkir mjög svipað ástand núna og fyrir lagasetninguna þar. Þeim fjölgar stöðugt sem leita í Kvennaathvarfið og umfang starfsemi Stígamóta og neyðarmóttöku vegna nauðgana gefa ekki til kynna að þetta sé vandamál sem minnkar heldur þvert á móti.

Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem minni hlutinn leggur til og liggja frammi á því þingskjali sem ég hef hér stiklað á. Ég hvet þingheim til þess að samþykkja þessar breytingartillögur minni hlutans.



[17:17]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það geti nú allir sem staddir eru í þessum sal, allir þingmenn og vonandi flestir landsmenn tekið undir það að ofbeldi, hvort sem það er kynbundið eða af öðrum toga, er slæmt og við erum öll á móti því. Ég held því að það sé enginn skoðanamunur hvað það varðar í tilviki meiri eða minni hluta allsherjarnefndar sem fjallar um þetta mál.

Ég skynja það svo að hv. þm. Alma Lísa Jóhannsdóttir sé þeirrar skoðunar að í tengslum við nálgunarbannsmálin sé ástæða til þess að breyta núverandi fyrirkomulagi þannig að ákvörðunin um nálgunarbann verði færð frá dómstólum til lögreglu. Ég fæ ekki betur séð en að við sem stöndum að meirihlutaálitinu séum reiðubúin til þess að skoða þann möguleika.

Hins vegar má ekki líta fram hjá því að það kom fram í störfum nefndarinnar að ef við mundum gera þessa kerfisbreytingu að óbreyttum lögum, færa ákvörðunarvaldið frá dómstólum eins og nú er og yfir til lögreglunnar, gæti það kostað þyngri og lengri málsmeðferð en núverandi kerfi mælir fyrir um. Ég er ekki að segja að það megi ekki breyta lögunum einhvern veginn og gera einhverjar tilfæringar í kerfinu sem gerðu það að verkum að slík breyting mundi hugsanlega leiða til hraðari málsmeðferðar.

Við fengum ábendingar frá héraðsdómurum og frá hæstaréttardómurum sem voru þess eðlis að nefndarmenn voru beðnir um að hugsa það betur og rannsaka nánar hvort sú breyting að færa ákvörðunartökuna frá dómstólum til lögreglunnar hefði þau tilætluðu áhrif sem hv. þingmaður telur (Forseti hringir.) að breytingin eigi að gera. Að fengnum slíkum viðvörunum (Forseti hringir.) hljótum við sem viljum taka ábyrga afstöðu í málinu að staldra (Forseti hringir.) við og leggja frekar til þá tillögu sem liggur fyrir í nefndaráliti okkar.



[17:19]
Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum auðvitað öll á móti ofbeldi. Það vefengir það enginn. En það sem ég sagði var að mér finnst að við eigum að sýna það í verki og koma austurrísku leiðinni inn í löggjöfina vegna þess að hún er tæki til þess að stoppa það ofbeldi sem á sér stað inni á heimilum fólks. Það er það sem ég sagði.

Ég hef engar efasemdir um að hv. þm. Sigurður Kári sé á móti ofbeldi. Hins vegar finnst mér að nefndin hafi haft mikinn tíma til að skoða málið. Það er búið að vera í skoðun síðan 2007 síðast. Því var vísað til dómsmálaráðuneytisins með það í huga að athuga m.a. hvort það kæmi til greina að skoða austurrísku leiðina. Mér finnst bara vera kominn tími til að fara að gera eitthvað í málinu en ekki aðeins að tala um að það þurfi að skoða það.

Varðandi þyngri og lengri málsmeðferð þá erum við ekki að leggja neitt slíkt til. Það kom fram í máli annarra sem komu á fund nefndarinnar að þeir hefðu ekki trú á því að sú mundi verða raunin. Við erum að tala um að fólk fái andmælarétt fyrir dómi. Þar af leiðandi kemur biðin ekki til sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Sigurður Kári sé hér að vísa í.



[17:21]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég vil undirstrika í seinna andsvari mínu er að ég held að allir þeir sem hafa tekið þátt í umræðum um málið séu þeirrar skoðunar að það beri að berjast gegn ofbeldi hvort sem það er kynbundið ofbeldi eða annars konar.

Ég vil líka undirstrika að við sem sitjum í allsherjarnefnd fengum viðvaranir frá héraðsdómara og hæstaréttardómara sem eiga sæti í réttarfarsnefnd. Ég held að ég geti fullyrt að þeir sem þar sitja þekkja manna best til þeirra réttarfarsreglna sem gilda á Íslandi í íslenskum rétti. Þegar þeir segja við okkur að hugsanlegt sé að breyting sú sem hér hefur verið talað fyrir, að færa ákvörðunarvaldið frá dómstólum til lögreglu, kunni að leiða til þess að málsmeðferðarhraði slíkra mála muni minnka, þ.e. að kerfið verði þunglamalegra, hljótum við að taka slík viðvörunarorð alvarlega. Þau koma frá mönnum sem eiga að þekkja hvað best til íslenskra réttarfarsreglna.

Ef þeir reynast sannspáir er betur heima setið en af stað farið ef slíkar tillögur leiða til þess að málsmeðferðartíminn lengist og kerfið verður þunglamalegra gagnvart þeim sem þurfa að sæta slíku ofbeldi. Við erum öll sammála um að það beri að reyna að vernda fórnarlömb ofbeldis hvort sem það er heimilisofbeldi eða annars konar ofbeldi en við verðum að gera það að vel athuguðu máli. Það er það sem við í meiri hluta allsherjarnefndar leggjum til.

Ég tel að með þeim tillögum og tilmælum sem fram koma í nefndarálitinu séum við að sýna í verki að við erum á móti ofbeldi. Ég tel að ef farið verður yfir þau mál sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur farið með í gegnum þingið á síðustu (Forseti hringir.) árum sýni það og sanni að ríkisstjórnin hefur lagt sig mjög fram við að berjast gegn því að menn komist (Forseti hringir.) upp með ofbeldi gagnvart öðrum.



[17:24]
Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég vil bara taka það fram að við munum auðvitað styðja þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur lagt til í þessu máli. Við erum sátt við að þarna skuli þó tekið eitt skref í rétta átt.

Varðandi ummæli réttarfarsnefndar þá sat ég þessa fundi líka. Mér fannst þeir að einhverju leyti snúast um það hvort lögreglan yrði hugsanlega rög við að beita slíkri heimild. Fram kom í máli lögreglunnar að hún væri ekki sammála því og taldi það vera fljótvirkara að hún fengi heimildina vegna þess að hún væri á vettvangi og vissi hvað væri að gerast. Hún væri því ef til vill meira í tengslum við það sem á sér stað eða við þær aðstæður þar sem úrræðunum er beitt.

Fleiri hæstaréttarlögmenn sem tjáðu sig um þessi mál og voru ekki alveg sammála þessu þannig að ég held að þetta sé svolítið tvíbent. Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að breytingin muni ekki seinka málsmeðferð.



[17:26]
Samúel Örn Erlingsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir álit meiri hluta allsherjarnefndar um þetta mál með fyrirvara og fyrirvarinn er þessi:

Ég tel tillögur allsherjarnefndar um breytingar á frumvarpinu um nálgunarbann vera til bóta en þær ættu að ganga lengra. Ég er þeirrar skoðunar að réttara væri að færa ákvörðun um nálgunarbann til lögreglu en síðan væri dómstóla að fjalla um þær. Ég trúi að þannig komist nálgunarbann á fyrr og með skilvirkari hætti en nú er.

Í máli lögreglustjóra, ríkissaksóknara og fulltrúa dómstólaráðs fyrir nefndinni kom skýrt fram að einbeittir brotamenn á þessu sviði geta haft lögin að engu með því að fara í felur og hafa þannig tafið ferlið í einstökum tilfellum um daga, vikur eða jafnvel mánuði. Með því að færa ákvörðunarvald til lögreglu yrði öll framkvæmd einfaldari, minni hagsmunum yrði fórnað fyrir meiri, fórnarlamb yrði verndað fyrst en réttur meints brotamanns jafnframt tryggður með málsmeðferð fyrir dómstólum í framhaldi jafnvel þótt það taki lengri tíma.

Í nefndarálitinu kemur fram að fram skuli fara ítarleg skoðun á því með nágrannaþjóðum hvernig slíkur háttur hefur reynst. Ég fellst á að bíða megi eftir slíku í trausti þess að drifið verði í nefndri skoðun.



[17:28]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég held að allir hér, sama í hvaða flokki þeir standa, séu sammála um það að þetta úrræði, nálgunarbann, þarf að vera skilvirkt og ná tilgangi sínum, sem er fyrst og fremst að vernda þolendur í svona málum, hvort sem það er heimilisofbeldi eða annað ónæði sem viðkomandi verður hugsanlega fyrir. Því er auðvitað ekki að neita að þetta úrræði hefur, eða framkvæmd þess, eða jafnvel lögin verið talsvert gagnrýnd. Auðvitað vilja allir auka vernd þolenda og það er auðvitað grunnskylda okkar sem yfirvalds að tryggja öryggi einstaklinganna, tryggja þeim friðhelgi einkalífs og þegar viðkomandi einstaklingur verður annaðhvort fyrir beinu ofbeldi heima hjá sér eða látlausu ónæði eða áreiti þarf lagaramminn að vera með þeim hætti að réttur hans til friðar og öryggis sé tryggður.

Við í allsherjarnefnd ræddum nokkrar leiðir til að bæta þessi lög en það verður auðvitað að viðurkennast að það voru ýmsar skoðanir á því hver væri eiginlega vandinn. Sumir sögðu að vandinn væri lögin sjálf, aðrir bentu á að lögreglan væri of treg til að beita þessu úrræði og enn aðrir bentu á dómstólana, sögðu að þeir væru of strangir í túlkun sinni. Það er því ekkert ljóst í mínum huga hver vandinn er og það undirstrikar nauðsyn þess að við þurfum að skoða þetta mjög vel og skoða sérstaklega þá reynslu sem við höfum af þessu úrræði hér á landi en það hefur einfaldlega ekki verið gert. Við kölluðum ítrekað af vettvangi allsherjarnefndar eftir tölulegum staðreyndum um þessa þætti og þeir fengust ekki vegna þess að slík skoðun hefur ekki farið fram.

Sömuleiðis höfum við ekki greinargott yfirlit um hvernig nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa gert þetta. Það er vísað í frekar stuttu máli til þess hvernig þetta er gert á hinum Norðurlöndunum en ef menn ætla að taka einhver skref í löggjöf þarf þetta allt að vera fyrir hendi.

Ég skal alveg viðurkenna það og hef svo sem gert það annars staðar að ég hef talið það skynsamlegt að færa ákvörðunarvald í þessum efnum frá dómstólum til lögreglu. Það voru flestir umsagnaraðilar sem kölluðu eftir þeirri breytingu og mér fannst þung rök hníga til þess að það væri skynsamlegt, að það mundi stytta málsmeðferðina sem hefur verið undirtónn margra sem hafa verið að gagnrýna þetta mál. Ég skal líka viðurkenna það og vera ærlegur með það að ég hikaði í þeirri afstöðu minni þegar þungavigtarlögfræðingar og réttarfarsnefnd komu með ný sjónarmið sem ég hafði ekki heyrt áður og ég efa að nokkur þingmaður hafi heyrt þau áður um að þetta mundi hugsanlega hafa þær afleiðingar að málshraðinn mundi lengjast. Þarna voru menn með efasemdir sem lutu t.d. að því að viðkomandi gerandi eða meintur gerandi fengi andmælarétt samkvæmt stjórnsýslulögunum. Þetta var nýr punktur í umræðunni og ég hef a.m.k. ekki heyrt nokkurn þingmann benda á þennan punkt en þetta gerðu þeir sem sitja í réttarfarsnefnd sem, eins og allir þingmenn vita, er ekki bara einhver nefnd úti í bæ heldur nefnd sem hefur haldið utan um þetta lagasvið lengi. Mér finnst það vera ábyrgðarhluti ef við ætlum að hlaupa í breytingar á sama tíma og við fáum svona upplýsingar. Það getur vel verið að þetta eigi ekki við rök að styðjast, málflutningur þungavigtarlögfræðinga sem eru í þessari nefnd, en við fáum það ekki á hreint fyrr en við förum í slíka skoðun sem við erum að kalla eftir í nefndaráliti meiri hlutans.

Mér fyndist það slæmt ef við mundum vera sammála um að taka þessa breytingu — sem ég var með nokkuð sterka skoðun fyrir að væri skynsamleg, að færa valdið frá dómsmálaráðuneyti til lögreglu, ef þetta væri skref til baka. Ég sé í breytingartillögu frá vinstri grænum að þeir gera ráð fyrir að valdið fari til lögreglu ef ég les breytingartillögurnar rétt, en þá spyr ég: Hvað ef þetta hefur þær afleiðingar að málshraðinn lengist og þyngist?

Hér sé ég í breytingartillögum frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur ekkert minnst á andmælaréttinn, hvernig á að uppfylla hann. Hér hefur nefnt og sumir gestir nefndu það að andmælarétturinn gæti hugsanlega verið fólginn í dómstólaleiðinni, þ.e. að menn geti borið þennan ágreining undir dómstóla eftir á. Ég tel það vera frekar langsótta skýringu ef andmælaréttur stjórnsýslulaga gildir. Það er grundvallarregla í stjórnsýslulögunum og ég óttast það, ef ég á að taka mark á réttarfarsnefnd, að breytingartillaga vinstri grænna sé jafnvel skref til baka vegna þess að þau taka t.d. ekki afstöðu til þess beinlínis að aftengja stjórnsýslulögin eins og við ræddum talsvert í allsherjarnefndinni, en það hefði verið ein leið, en vinstri grænir gerðu t.d. ekki ráð fyrir því.

Þetta er því mín afstaða hvað þetta varðar að við eigum að vanda okkur og fara aðeins varlega fyrst þessar efasemdir koma fram. Auðvitað útilokar þetta ekkert hugsanlegar breytingar í framtíðinni í þá átt að færa valdið frá dómstólum til lögreglu en flestir ef ekki allir gestir okkar í allsherjarnefndinni áttu eitt sameiginlegt, þeir kölluðu eftir frekari gögnum um málið, frekari gögnum um framkvæmdina, kölluðu eftir úttekt á þessu úrræði, og það erum við að gera núna í allsherjarnefndinni.

Austurrísku leiðina hefur borið á góma í þessari umræðu og sömuleiðis hef ég verið þar mjög skilningsríkur á það úrræði og hef álitið það vera úrræði sem við ættum að skoða mjög alvarlega, en það verður auðvitað að viðurkennast, og ég veit að hv. þm. vinstri grænir vita það, að við þurfum að undirbúa það skref betur. Ég og hv. þingmenn í Vinstri grænum erum oft samferða í þessum málaflokki og ég vona að við getum verið það áfram. Við vitum það að austurríska leiðin hefur ekki fengið neina sérstaka umfjöllun í allsherjarnefnd. Þingmál um austurrísku leiðina hefur t.d. ekki verið lagt fram á þessu þingi þar sem eru nýir þingmenn í allsherjarnefnd. Það liggur fyrir breytingartillaga um austurrísku leiðina, ég veit það, en þetta mál hefur ekki farið sem slíkt t.d. almennt í umfjöllun á vettvangi nýrrar allsherjarnefndar með öllum þeim gestum og umsagnaraðilum sem við köllum alltaf eftir. Allir þingmenn í þessum sal vita hvernig málsmeðferð svona mála fer fram og það skiptir máli að fá öll sjónarmið fram.

Ég tek eftir því að í fylgiskjölum nefndarálits frá minni hluta allsherjarnefndar er bara vísað í tvo umsagnaraðila sem draga fram kosti þess að taka beri upp austurrísku leiðina en auðvitað veit maður það og hv. þingmenn vita það að það eru fjölmargir aðrir hagsmunaaðilar sem hafa skoðanir á þessu og sú vinna er einfaldlega eftir. Þetta hefur verið þingmannamál í mörg ár og ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að halda þessu máli á lofti, ég er ekkert að gera lítið úr því enda hef ég skilning á þessu úrræði og hef talið það koma mjög alvarlega til greina ef við ætlum að reyna að ná tökum á þessum vanda, en það skiptir miklu máli að við vöndum lögin. Þegar kemur loksins að því að breyta lögunum stöndum við frammi fyrir því að lagasetningin þarf að vera vönduð, ákveðið ferli þarf að eiga sér stað með umsagnatímafresti og samtölum við hagsmunaaðila og gesti og þá sem láta sig þessi mál varða. Þetta er bara einfaldlega eftir.

Við höfum ekkert fengið yfirlit yfir hvernig nákvæmlega þetta er gert á hinum Norðurlöndunum, austurríska leiðin. Framsögumaður minni hluta minntist einmitt á það sjálf að við hefðum fá gögn í allsherjarnefnd um þetta og við höfum það, við höfum ekkert sérstaklega mikið af gögnum um austurrísku leiðina. Við höfum þingmannamál hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur en okkur vantar meira þegar loksins kemur að því að taka skrefið. Þess vegna setjum við í meiri hluta allsherjarnefndar í okkar nefndarálit að þessi úttekt og rannsókn fari fram svo við getum farið að taka afstöðu til þess, svo við getum ekki staðið hérna eftir nokkur ár og sagt, heyrðu, okkur vantar enn þá gögn. Ég tel því að nálgun okkar sem erum í meiri hluta allsherjarnefndar sé mjög jákvæð, hún er jákvæð fyrir baráttufólk þess að taka beri upp austurrísku leiðina, að við séum að kalla eftir þessum gögnum. Ef reynslan er svona góð eins og þeir draga upp á Norðurlöndunum, ef þetta vekur engan vafa um réttindi gerandans, ef svo má segja, þá hljóta þeir að vinna þá röksemd þegar kemur að því.

Núna er ekki tímabært að taka þetta skref af því að okkur vantar gögnin. Það er alveg hægt að gagnrýna allsherjarnefnd og okkur sem sitjum í meiri hlutanum, af hverju fór hún ekki að finna gögnin o.s.frv., en það hefur einfaldlega ekki verið gert eins og allir hér vita og það má líka alveg færa rök fyrir því eins og stendur í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar varðandi úrræðið nálgunarbann og austurrísku leiðina, þetta þarf ekki endilega að vera nátengt, ef svo má segja, þ.e. okkar umfjöllun um nálgunarbannið getur alveg verið af öðrum toga en umfjöllun um hina austurrísku leið þó að auðvitað eigi þetta það sameiginlegt að reyna að vernda þolendur heimilisofbeldis.

Ég bind miklar vonir við það að dómsmálaráðuneytið fari í skoðun á þessu tvennu, annars vegar á nálgunarbanninu og að við fáum reynsluna og þá tölfræði og þá norrænu löggjöf sem við viljum helst líta til, og sömuleiðis með austurrísku leiðina, að við komumst aðeins áfram með þann mjög spennandi kost sem austurríska leiðin er. Núna erum við bara ekki í stakk búin til að taka þessi skref og held að hv. þingmenn Vinstri grænna skilji þetta sjónarmið eða ég vona að þeir skilji þetta sjónarmið þó að þeir tefli fram þeirri breytingartillögu að við tökum skrefið núna strax.

Þær breytingartillögur sem meiri hlutinn leggur hér fram á nálgunarbannið bæta allar lögin að mínu mati talsvert. Við erum í fyrsta skipti að setja tímafresti í lögin, tímafresti gagnvart þeim tíma sem lögreglan hefur til að taka ákvörðun um hvort sækja beri um nálgunarbann eða ekki. Það er enginn tímafrestur núna, þegar frumvarpið kom til okkar voru settar tvær vikur, við erum að stytta það í þrjá sólarhringa. Þetta skiptir máli vegna þess að einn af gagnrýnispunktunum á þetta úrræði var að það liði of langur tími, of langur tími hjá lögreglu.

Þessu tengt var sömuleiðis sett inn í frumvarpið þegar það kom til okkar nýmæli varðandi tilkynningarskyldu til þeirra sem hafa gert kröfu um nálgunarbann þannig að einstaklingur, þolandinn eða réttargæslumaður eftir atvikum, fái tilkynningu um ef lögreglan hafnar því að fara til dómstóla með þessa kröfu þá viti réttargæslumaðurinn og þolandinn það mætavel og geti síðan kært þá ákvörðun. Það er því líka nýmæli að hér er opnað fyrir kæruleið, stjórnsýslukæru, ef lögreglan hafnar eða ef lögreglunni þykir ekki efni til að bera kröfuna fram. Hér er því verið að bæta lögin talsvert.

Við erum einnig að taka út orðið „rökstudd“ úr 1. gr. og að mínu mati skiptir það máli, það setur annan blæ, í staðinn fyrir að það þurfi að vera rökstudd ástæða að viðkomandi ætli að fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem á í hlut þarf einungis að vera „ástæða“. Það getur vel verið að fólki finnist þetta vera léttvæg athugasemd en ég held að þetta geti samt haft ákveðin áhrif á framkvæmdina sem ég vona að verði til batnaðar.

Síðan erum við í meiri hlutanum — og ég heyri að minni hlutinn tekur undir þær breytingartillögur, ef ég skildi minni hlutann rétt — að setja inn sérstaklega í lögin að „nú skal líta til framferðis þess, sem krafist er að sæti nálgunarbanni, á fyrri stigum.“ Á mannamáli er það þannig að nú ber að líta á með beinum hætti og það er komið í lög að sé um að ræða t.d. heimilisofbeldi, þolandinn er kominn út af heimilinu, þá beri að líta til þess ofbeldis sem átti sér stað áður en t.d. sambúð lauk. Þetta er grundvallaratriði í mínum huga. Við sjáum að í greinargerð með frumvarpinu þegar lögin voru sett var komið inn á þetta en það er miklu meiri þungi í þessu þegar við erum búin að setja þetta í lögin þannig að dómstólar verða að fara eftir þessu, þ.e. að líta til framferðis viðkomandi þegar kemur að mati á hvort það eigi að setja nálgunarbann eða ekki.

Að lokum erum við að setja inn hagsmunamatið og þetta skiptir máli. Forsvarsmenn, réttarfarsnefnd tóku sérstaklega undir það þegar þeir voru spurðir, að þetta hefði efnislega þýðingu því að þetta var ekki eitt af skilyrðum um setningu nálgunarbanns, þetta hagsmunamat. Auðvitað finnst manni kannski sjálfsagt að dómstólar fari hvort sem er í þetta hagsmunamat en svo er ekki skilningur þess lögfræðings sem talaði fyrir réttarfarsnefnd. Því held ég að þetta sé einnig gríðarlega mikilvægt því að auðvitað eru öll svona úrræði og allar ákvarðanir bundnar hagsmunamati. Fyrir mér er nálgunarbann yfirleitt mjög væg skerðing á frelsi viðkomandi í ljósi þeirra hagsmuna sem við erum að verja. Við erum að reyna að verja friðhelgi einkalífs, tryggja öryggi borgaranna, það er frumskylda okkar sem stjórnvalds. Þegar tvenn réttindi rekast á þurfum við að fara í gegnum þetta hagsmunamat og það er beinlínis komið núna í lögin að það beri að gera. Í ljósi þess hversu vægt nálgunarbannsúrræðið er eða hversu væg skerðing það er yfirleitt, nálgunarbannið, t.d. það að viðkomandi megi ekki koma nær en 50 metra frá Kvennaathvarfinu er nú ekkert sérstaklega mikil skerðing fyrir viðkomandi í ljósi þess öryggis sem viðkomandi þolandi þarf á að halda. Þetta eru jákvæð skref að mínu mati en ekki, eins og ég segi, einhver lokaskref. Við erum ekkert að loka umræðunni, hvorki um nálgunarbann né austurrísku leiðina og ég ítreka það enn og aftur.

Að lokum við ég nefna það að við höfum náð talsverðum árangri í þessum málaflokki eins og allir þingmenn sem nú eru að hlusta vita. Við erum búin að setja í fyrsta skipti í lögin sérstaka refsiþyngingarástæðu í heimilisofbeldismálum. Það var ekkert í hegningarlögunum. Við settum í sakamálalögin núna í vor sérstakt ákvæði um að þolendur í heimilisofbeldi eigi rétt á réttargæslumanni. Það var ekkert áður. Svo erum við búin að breyta talsvert kynferðisbrotakafla hegningarlaga, eins og þingmenn vita, á síðasta kjörtímabili var skilgreiningu á nauðgun breytt. Við settum lágmarksrefsingu, ef ég fer inn í málaflokkinn í heild sinni, við settum lágmarksrefsingu fyrir kynferðisafbrot gegn börnum. Við erum örugglega eina landið í heiminum sem hefur alvarleg kynferðisafbrot gegn börnum ófyrnanleg. Þetta eru allt atriði sem við höfum náð saman í gegn á síðasta kjörtímabili og ég vona að við náum að halda áfram að vera samtaka um næstu skref því að þetta er málaflokkur sem lokast aldrei. Það eru enn þá talsvert mörg álitaefni og við komumst nær því marki sem allir stefna að, að tryggja öryggi eins vel og kostur er í því ofbeldisumhverfi sem margar konur og börn búa við, með því að fá þessar úttektir gerðar og ég bind miklar vonir við að það gerist hratt og vel af hálfu ráðuneytisins svo að við fáum þetta mál aftur inn á okkar borð og getum þá farið að huga að næstu skrefum.



[17:45]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér nefndarálit meiri hluta og minni hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um nálgunarbann. Farið hefur verið vel yfir það hér í umræðunni hver meginálitamálin hafi verið í störfum nefndarinnar. Ég hef tekið þátt í störfum allsherjarnefndar allt síðasta kjörtímabil og flutt talsvert af málum sem tengjast málasviði nefndarinnar, m.a. þessa margumræddu austurrísku leið og ég kem til með að reyna að hamra það járn áfram eins og mögulegt er.

Ég vil segja áður en ég held lengra, hæstv. forseti, að það gerðist hér á vordögum í fátinu sem stóð þegar við vorum að reyna að ljúka þingstörfum fyrir sumarhlé að breytingartillögu um málið var dreift áður en hún varð fullburða. Það var fyrir hálfgerð mistök að hún fór út í flaustri, ef svo má segja. Hún var ekki alls kostar rétt. Ég las hana síðan yfir í veikindum mínum í gær og fyrradag en sé að ég hef heldur ekki lesið hana nægilega vel því að hún er enn röng. Annar töluliðurinn í tillögunni er að því leytinu til rangur að við í minni hlutanum ætlum ekki að leggja það til í þessari atrennu að lögregla fái heimild til þess að beita nálgunarbanni. Við ætlum að styðja tillögur meiri hlutans hvað þetta atriði málsins varðar. Við teljum hins vegar að það hefði mátt skoða þessi mál betur í nefndinni og fyrir alla muni fyrr.

Mér finnst það óásættanlegt í þessu alvarlega máli að það skuli ekki vera fyrr en þegar nánast er verið að afgreiða málið út úr nefndinni að réttarfarsnefnd kveður upp úr með að það verði svo tafsamt að láta lögregluna hafa úrræðið. Að það komi til með að veita þeim sem á að beita nálgunarbanninu á andmælarétt og þar af leiðandi sé bakkað með alla hugmyndafræðina sem okkur fannst vera komin algjörlega á lokapunktinn þegar við fórum í sumarfrí. Af hverju var málið ekki klárað betur og ef einhver vafamál voru í vor af hverju var þá ekki unnið í nefndinni í sumar? Mál af þessu tagi sem búið er að velkjast hérna og fara fyrir nefndina aftur og aftur, fara fyrir ríkisstjórn, fara í sérstaka skoðun í ráðuneytinu — af hverju leyfir nefndin sér að afgreiða það enn eina ferðina með því að segja: Nei, við verðum að skoða þetta betur?

Það er ekki ásættanlegt. Og þess vegna rennur mér í skap að við erum búin að taka mjög ítarlega umræðu um þetta mál. Samfylkingin hefur stutt okkur Vinstri græn í þessu máli með ráðum og dáð allt síðasta kjörtímabil og þó að nú sé komið nýtt þing og nýtt fólk í allsherjarnefnd þá er hér sami dómsmálaráðherrann. Og ég spurði þennan sama hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að því í haust hvað ríkisstjórnin hefði gert þetta sumar sem hún hafði þetta mál til skoðunar, til sérstakrar umfjöllunar. Það kom upp úr kafinu hjá hæstv. ráðherra að ekkert hafði verið gert. Sá hæstv. dómsmálaráðherra hafði með öðrum orðum engan áhuga á að innleiða hér austurrísku leiðina. Það verður ekki gert nema með vinnu í allsherjarnefnd.

Ef hv. stjórnarþingmenn Samfylkingarinnar eru tilbúnir að leggja okkur lið í þessum málum verða þeir að beita sér í því, og þeir eiga að beita sér í því í nefndarstarfinu. Og ég lýsi vonbrigðum með að það skyldi ekki hafa verið gert allan síðasta vetur þegar vitað var að málið yrði til umfjöllunar og var til umfjöllunar í nefndinni. Þá gætum við verið komin lengra en raun ber vitni núna.

Það má sjá það á umsögnum í þessu máli frá neyðarmóttöku vegna nauðgana að við erum hér með mjög alvarleg álitamál. Mér finnst vitnisburður starfsfólks og lögfræðinga á neyðarmóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss vega svo þungt að mér finnst nánast að nefndin hefði, lesandi þessar blaðsíður sem hún fékk frá neyðarmóttökunni, átt að kalla þá lögfræðinga sem þar hafa vélað um málin til þess að ræða þá við þessa réttarfarsnefnd sem er á öðru máli en lögfræðingarnir á neyðarmóttökunni. Það átti að leggja sig fram um að ná þeim niðurstöðum sem neyðarmóttaka vegna nauðgana leggur til.

Hæstv. forseti. Við höfum lagt fram breytingartillögu. Hún er gölluð. Ég geri ráð fyrir því, áður en við förum í atkvæðagreiðslu, að prenta hana upp aftur og ég kem til með að beita mér fyrir því. Mér finnst skipta verulegu máli að ríkisstjórnin sem nú starfar starfi samkvæmt aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem samþykkt var 2006. Meðal þess sem þar er sagt, og er tímasett í aðgerðaráætluninni, er að beita skuli ákveðnum aðferðum við að vinna gegn heimilisofbeldi. Austurríska aðferðin er allra virkasta leiðin sem vestræn lönd á seinni tímum hafa fundið upp til þess að reyna að vinna á skilvirkan hátt gegn heimilisofbeldi. Það er mikill ábyrgðarhluti hjá allsherjarnefnd að hún skuli ekki horfast í augu við það að þarna er tæki sem Norðurlöndin hafa verið að innleiða. Evrópuráðið hefur hvatt aðildarþjóðir til þess að innleiða það, við höfum haft tækifæri til þess að innleiða það í mörg ár, en erum að láta þetta tækifæri renna okkur úr greipum núna.

Ég lýsi vonbrigðum með það en stend þó við það að við erum hér með breytingartillögu sem gerir þingheimi kleift að samþykkja í þessari lotu þau ákvæði á þann hátt sem við höfum sett þau fram.



[17:51]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur svo að Vinstri grænir styðji í rauninni frumvarpið með þeim breytingum sem allsherjarnefnd leggur til en vilji ganga lengra. Þar liggi ágreiningurinn. Ágreiningurinn liggur sem sagt í spurningunni um austurrísku leiðina en ekki í öðrum atriðum að svo stöddu alla vega.

Það er mjög gott að það liggur fyrir. Það er gott að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur veitt athygli ákveðnu misræmi í orðalagi þeirrar breytingartillögu sem hér var dreift. En kannski endurspeglar það að við stöndum öll frammi fyrir þeirri hættu í sambandi við svona lagasetningu að við þurfum að gæta þess að innra samræmi sé í því sem við erum að samþykkja og gera. Við þurfum að passa okkur að stíga ekki skref sem geta verið í ósamræmi við einhverjar aðrar reglur eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti á hér í sambandi við hugsanlegar afleiðingar þess að samþykkt yrði að færa ákvörðunarvaldið í nálgunarbannsmálum til lögreglu án þess að gera aðrar breytingar sem hugsanlega þurfa að koma til skoðunar í því samhengi.

En það er alla vega frá. Við erum þá í öllum meginatriðum sammála um það sem við erum að gera varðandi nálgunarbannið að svo stöddu. Við erum sammála um það líka að skoða að fara í frekari skoðun á því hvort úrskurðarheimildin eigi að vera hjá lögreglu eða dómstólum. En enn standa eftir þessar spurningar varðandi austurrísku leiðina. Hver sem afstaða okkar er til þess hvað gerðist í allsherjarnefnd á síðasta kjörtímabili þá held ég að það sé mjög mikilvægt að af hálfu þeirrar nefndar sem nú situr er komin fram brýning til dómsmálaráðuneytisins að láta fara fram skoðun á þessum málum. Ég tel að slík áminning af hálfu núverandi allsherjarnefndar sé mjög mikilvæg. Miðað við það sem (Forseti hringir.) fram kom á fundum nefndarinnar þá held ég að ekkert sé því til fyrirstöðu (Forseti hringir.) hjá dómsmálaráðuneytinu að ráðast (Forseti hringir.) í þá skoðun sem hér er um að ræða.



[17:53]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni, við höfum ákveðið í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að greiða atkvæði með breytingartillögum meiri hlutans í þessu máli og ágreiningurinn stendur um austurrísku leiðina. Við hefðum hins vegar viljað að nefndin hefði unnið málið betur í sumar þannig að við hefðum getað tekið endanlega afstöðu til þess hvort ekki sé rétt að lögreglan hafi heimild til þess að setja nálgunarbannið og að andmælaréttur fari þá fram fyrir dómi. Við áteljum það sleifarlag sem varð á málinu í vinnu nefndarinnar líka.

Mér finnst síðan skipta máli, hæstv. forseti, að meiri hluti nefndarinnar, og við styðjum það líka, vill að þessi skoðun fari fram úr því sem komið er. Það er ekkert óeðlilegt og það var gott að fá þá brýningu frá allsherjarnefnd að dómsmálaráðherra eigi að láta þessa skoðun fara fram.

En ég tek fram að það er ekki í fyrsta skipti sem allsherjarnefnd biður þennan dómsmálaráðherra að láta slíka skoðun fara fram. Af hverju vísuðum við málinu vorið 2007 til ríkisstjórnarinnar? Til þess að láta þessa skoðun fara fram. Af hverju hefur allsherjarnefnd aldrei hreyft neinum mótmælum við því að Björn Bjarnason, hæstv. dómsmálaráðherra, lét aldrei skoða málið? Ég reyndi í tvígang á síðasta vetri að ræða þessi mál við hæstv. ráðherra og hef ekki fengið mikinn stuðning hjá öðrum þingmönnum í allsherjarnefnd í þeirri viðleitni minni.

Mér finnst fullóljóst á hvern hátt nefndin leggur það til við ráðherrann að skoðunin fari fram. Það er ljóst að nefndin óskar eftir því að skoðun á austurrísku leiðinni eigi að fara fram í ráðuneytinu. Það er hins vegar ekki eins ljóst af nefndarálitinu að skoðunin varðandi nálgunarbannið eigi að fara fram í dómsmálaráðuneytinu því að orðalagið er fullalmennt. En mér þykir gott að vera búin að fá þá yfirlýsingu í ræðum hv. formanns nefndarinnar að hann sé að beina þeirri skoðun sömuleiðis til dómsmálaráðuneytisins. Ég hvet þá líka hv. þingmenn og aðra til þess að ganga eftir því að þessari skoðun í dómsmálaráðuneytinu verði hraðað.



[17:56]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við í meiri hluta allsherjarnefndar skiljum við málið að svo stöddu einmitt með þann einlæga ásetning að ýta á eftir því að það verði skoðun á báðum þessum þáttum, bæði varðandi það hvar úrskurðarheimildin í nálgunarbannsmálum eigi að liggja og eins varðandi austurrísku leiðina.

Ég vil hins vegar taka það fram, bara umræðunnar vegna, að þarna er um tvö aðskilin mál að ræða. Þau eiga ákveðna samsvörun í ákveðnum málaflokkum en engu að síður er um tvö aðskilin úrræði að ræða. Stundum getur austurríska leiðin átt rétt á sér ein og sér. Stundum getur nálgunarbannsúrræðið átt rétt á sér eitt og sér. Það er ekki alltaf til hjálpar í þessari umræðu að tala um málin eins og að um sama viðfangsefnið sé að ræða.

En burt séð frá því held ég að við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir séum ekkert óskaplega langt hvort frá öðru í þessum málum. Ég held t.d. að þegar við ræðum nálgunarbannið, og það hvar úrskurðarvaldið á að liggja, hafi meðal okkar margra — ég ætla ekki að tala fyrir munn allra nefndarmanna í allsherjarnefnd, en verulegur áhugi var í allsherjarnefnd á að færa úrskurðarheimildina frá dómstólum til lögreglu. Það kom hins vegar líka fram hjá þeim aðilum sem mæltu með því að nálgunarbannsleiðin yrði færð til lögreglu að þeir höfðu ekki og gátu ekki lagt fyrir okkur upplýsingar eða statistik eða annað sem hefði verið nauðsynlegur grundvöllur þess að við gætum tekið ákvörðun í málinu.

Við stóðum því frammi fyrir því varðandi nálgunarbannsmálið hvort við ættum að taka afstöðu til málsins á grundvelli fullyrðinga reyndar frá ágætum og virðingarverðum aðilum gegn fullyrðingum einhverra annarra án þess að hafa gögn og upplýsingar í höndunum. Og það vildum við ekki gera.

Varðandi austurrísku leiðina þá höfum við ekki tekið hana til umfjöllunar með sama hætti og nálgunarbannsmálið og eins og kemur fram í nefndaráliti þá er það mál skemur á veg komið innan nefndarinnar en hitt. En við erum með engu móti að slá hugmyndina út af borðinu eða hafna henni. (Forseti hringir.) Við lýsum þvert á móti áhuga á að hún verið tekin til rækilegrar skoðunar.



[17:58]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara ljúka þessu á því að fagna þeim orðum hv. formanns allsherjarnefndar að hann skuli hafa þennan áhuga á því að austurríska leiðin verði skoðuð rækilega með opnum huga og að hann skuli ekki ætla sér að leggjast gegn því að það verði unnið hratt og vel.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, og við höfum aldrei deilt um það, að við erum að tala um tvö ólík úrræði, nálgunarbannsúrræðin varðandi það annars vegar og austurrísku leiðina hins vegar. Þessi úrræði gagnast í ólíkum málum og það sem mér svíður er að þar sem heimilisofbeldi brennur, þar sem austurríska leiðin getur virkað sem hemill gegn heimilisofbeldi, að þar skuli enn þurfa að bíða eftir niðurstöðum.

Og það er það sem ég hef verið að gagnrýna hér að við eigum auðvitað á hverjum tíma að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að konur og börn þurfi að flýja heimili sín undan ofbeldi fjölskyldumeðlims. Austurríkismenn sögðu: Það er ekki hægt að gera konur og börn að flóttamönnum í eigin heimalandi í stórum stíl. Við verðum að breyta þessu. Fyrir því höfum við Vinstri græn talað árum saman og nú fagna ég því að það skuli mögulega styttast í að við náum árangri í þessari umræðu og við fáum niðurstöðu sem endar með því að austurríska leiðin verði innleidd hér. Því það á eftir að gagnast þeim konum og þeim börnum sem búa við heimilisofbeldi, fólki sem ekkert hefur til saka unnið og á ekki að þurfa að flýja heimili sitt.



[18:00]
Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég les hér lýsingu í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta:

„Af gögnum þessa máls má sjá að áverkar á brotaþola voru m.a. rifbeinsbrot, sprungin hljóðhimna auk þess sem hún var með fjölda marbletta víðs vegar um líkamann. Þá liggur fyrir í málinu lögregluskýrsla þar sem brotaþoli kærir varnaraðila fyrir líkamsárás tiltekna aðfaranótt í desember 2007 þar sem hann hafði látið hnefahögg dynja á henni. Einnig eru til rannsóknir hjá sóknaraðila ætluð kynferðisbrot varnaraðila gegn brotaþola sem að hennar sögn hafa staðið yfir um langt skeið. Felast brotin að hennar sögn í því að varnaraðili hafi neytt hana til ýmissa kynferðismaka bæði með honum og með ókunnugum mönnum og hefði varnaraðili tekið atburðina upp á myndband. Hafi varnaraðili stýrt því sem gert var og gefið fyrirmæli sem hún hafi ekki þorað annað en að hlýða þar sem neitun hennar hafi leitt til þess að varnaraðili beitti hana ofbeldi.“

Herra forseti. Þetta er lýsing í dómi Hæstaréttar á atburðum í máli lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu gegn X þar sem krafist var nálgunarbanns. Skemmst er frá því að segja að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki lægi fyrir rökstudd ástæða til að ætla að varnaraðili mundi fremja brot gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni og raska á annan hátt friði hennar. Sem sagt, Hæstiréttur, þ.e. meiri hluti dómara, tveir af þremur, úrskurðaði að ekki væri uppfyllt skilyrðum 110. gr. laga nr. 19/1991 og hafnaði þess vegna kröfunni um nálgunarbann.

Nú læt ég öðrum eftir að meta hvort þetta hafi verið rétt og sanngjörn niðurstaða, en dómur er dómur og sagt er að enginn deili við dómarann, ekki satt? (Gripið fram í: Það gekk nú á knattspyrnuvellinum í gamla daga.) Þetta er miklu alvarlegra mál en eitthvað sem gerist á knattspyrnuvelli, svo ég svari þessari athugasemd. Hálærðir lögfræðingar líta svo á að rifbeinsbrot og sprungin hljóðhimna og endurtekinn hrottaskapur dugi ekki til að sanna og sýna að rökstudd ástæða sé fyrir hendi til að dæma mann í nálgunarbann.

Það var þetta mál og þessi niðurstaða Hæstaréttar sem leiddi til almennrar umræðu um gildi nálgunarbannsins og um lögin sem um þau fjalla. Svona eru lögin, sögðu lögspekingar og lögfræðingur varnaraðila málsins í Kastljóssþætti, ef ég man rétt, og yppti öxlum þegar hann var spurður um dóminn og málavexti. Ég er ekki að gagnrýna þau ummæli eða þá framkomu en ég er að vísa til þess að viðbrögðin voru auðvitað mikil fyrirlitning á þessari niðurstöðu dómsins en líka á því hvernig lögin voru túlkuð og ef það var rétt túlkun, hvers konar lög eru þá fyrir hendi?

Við meðferð þessa máls í hv. allsherjarnefnd hefur athyglin að mestu leyti beinst að því atriði hver eigi að hafa úrskurðarvaldið um nálgunarbannið. Þar hefur sem sagt komið fram tillaga um það að í stað úrskurðar dómstóla verði lögreglunni heimilað og veitt heimild til þess að úrskurða um nálgunarbann, enda yrði sá úrskurður lagður fyrir dómstóla strax í kjölfarið.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að það skuli ekki gert að sinni enda þótt sá sem hér stendur sé þeirrar skoðunar að það séu yfirgnæfandi rök til þess að færa þetta vald frá dómstólunum til lögreglu. En eins og komið hefur fram í þessari umræðu mættu á fundi nefndarinnar margir þungavigtarlögfræðingar og málsmetandi menn og bentu á að hugsanlega gæti afleiðingin orðið sú að það mundi tefja málareksturinn og ég hef fallist á þau rök enda lít ég svo á að þessi lög, sem vonandi verða samþykkt á endanum, séu til bráðabirgða. Eins og hér hefur komið fram í ummælum og umræðu virðast flestir sammála um að stíga þessi skref lengra og djarfar á allra næstu vikum eða missirum og það er vel. Ég tel hins vegar meginmálið í þessari lagasetningu vera að breyta efnisinnihaldi laganna á þann veg að það fari ekkert á milli mála að nálgunarbanni sé beitt þegar fyrir liggur ekki rökstudd ástæða heldur ástæða til að ætla að ofbeldi hafi verið beitt.

Ég minni á að þetta mál fjallar allt um það að koma böndum á þá sem fremja eða hóta ofbeldi. Við erum að vernda brotaþola og ég tel að brotaþoli eigi að njóta vafans þegar eitthvað kann að orka tvímælis um það hvort þessar hættur og ógnir liggi fyrir. Ég held einmitt að gagnrýni á dóm Hæstaréttar, sem ég vitnaði til áðan, snúist fyrst og fremst um þann skilning dómara að rifbeinsbrot og sprungin hljóðhimna og endurteknar hótanir og þvingun til kynferðismaka væri ekki nægilegur rökstuðningur til nálgunarbanns.

Mér finnst það sem sagt vera aðalverkefnið að gera lögin skýr þess efnis að ef hætta á ógn sé fyrir hendi og ástæða sé til að óttast að ofbeldi eða hótun um ofbeldi verði beitt skuli meta stöðuna brotaþola í hag. Að því leyti eru tillögur frá hv. allsherjarnefnd til bóta að nú er gerð tillaga um það að í staðinn fyrir orðin „rökstudd ástæða“ standi einfaldlega „ástæða“ sem ég skil og túlka til rýmkunar á þeim forsendum sem metnar eru brotaþola til varnar.

Ég skrifaði undir álit meiri hluta allsherjarnefndar, ég hef engan fyrirvara á því vegna þess að ég skil vel og styð áhuga á að fá betri útskýringar og rökstuðning fyrir því að hægt sé réttarfarslega og stjórnsýslulega séð að færa úrskurð um nálgunarbann frá dómstólum til lögreglu. Ég held líka að þær tillögur sem koma frá nefndinni varðandi efnisatriði, um það sem ég nefndi áðan að breyta orðunum „rökstudd ástæða“ í „ástæða“ og enn fremur um það að stytta fresti og taka tillit til fyrra framferðis, séu allar í rétta átt og styðji það sjónarmið og það réttlæti að nálgunarbann sé sett. Þetta eru sem sagt nýir mælikvarðar sem settir eru inn í lögin og eru til bóta.

Ég hef svo hér í höndum tillögu frá minni hluta nefndarinnar. Það er að vísu búið að upplýsa það við þessa umræðu að fallið sé frá því að gera tillögu á þessu stigi málsins um að úrskurðurinn um nálgunarbannið sé fluttur frá dómstólum til lögreglu og gefnar skýringar á því. Ég reikna með því að það mál verði tekið upp aftur við nánari athugun á þessu máli þegar þar að kemur. Ég held hins vegar, þó að ég efist ekki um að þessar tillögur séu fluttar af góðum vilja, að tillagan við 1. gr., ný málsgrein, gangi í raun og veru skemur en það sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram. Þar er áfram talað um að rökstudda ástæðu þurfi til og síðan eru talin upp ýmis atriði sem ég held að þrengi rammann gagnvart úrskurði eða dómi um nálgunarbann þegar á reynir. Þess vegna held ég að sú tillaga sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram sé jákvæðari og nái meiri og betri árangri.

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu miklu lengur. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé afar mikilvægt mál, alvarlegt mál. Ég held að heimilisböl sé því miður afar útbreitt og mjög falið. Þetta eru málefni sem okkur varða og við þurfum að gæta þess að lög hefti ekki dómstóla eða lögreglu eða okkur sjálf til að beita þeim ráðum sem til þarf til þess að draga a.m.k. úr ofbeldi og vernda þá sem ofbeldinu eru beittir.



[18:12]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar fjallað er um hæstaréttardóma eða dóma eins og hv. þm. Ellert Schram gerði áðan verður að fara nokkuð gætilega og reyna að halda til haga öllum efnisatriðum málsins. Þarna var um það ræða að lagt hafði verið á nálgunarbann en það var krafa um framlengingu sem ekki var talið að uppfyllti þau skilyrði sem lögin kváðu á um, þó þannig að Hæstiréttur klofnaði á þann veg að tveir dómarar töldu að ekki væru forsendur fyrir hendi en einn dómari taldi að svo væri. Það er nú þannig í lögfræðinni að það getur verið ágreiningur um með hvaða hætti og hvernig skuli skýra og hvaða niðurstaða kemur.

Ég hygg að þeir dómarar sem þarna fjölluðu um málin hafi gert það út frá bestu samvisku og í samræmi við þau lög sem hafa gilt. En vegna þessarar umfjöllunar hv. þm. Ellerts B. Schrams vil ég spyrja hann að því hvort hann telji ekki að með þeim breytingum sem nefndin leggur til sé brugðist við því sem þarna er um að ræða og hvort nefndin hafi þá ekki fundið hinn gullna meðalveg hvað þetta varðar eða telur hann að ganga hefði þurft lengra til að bregðast við þessu?

Ég tel að þessi dómur Hæstaréttar sé tvímælalaust og fullkomlega reistur á málefnalegum sjónarmiðum. Menn getur greint á um það með hvaða hætti eða hvernig hefði átt að bregðast við en ég get ekki séð að gagnrýnin sé fyllilega réttmæt eins og hún var sett hér fram af hv. þingmanni.



[18:14]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég las upp úr þessum dómi það sem í honum stóð til útskýringar á því ástandi sem þarna ríkti til að sýna fram á að atferli eins og þarna er lýst var ekki talið nægilegt til að framlengja nálgunarbannið. Með öðrum orðum, ég var að undirstrika það að breyta þyrfti lögunum og túlkun þeirra á þann ótvíræða hátt að svona málsatvik leiddu auðvitað til þess að nálgunarbann yrði sett á. Ég er ekki með því að gera lítið úr dómurum Hæstaréttar, ég er bara að vitna í þann dóm sem liggur fyrir opinberlega og benda á að við svona aðstæður er það náttúrlega óverjanlegt, a.m.k. í mínum huga, að ekki sé hægt að beita nálgunarbanni. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að laganna vegna, vegna ákvæða sem í lögunum eru sé ekki hægt að kveða upp dóm um nálgunarbann og það eru rökin fyrir því — ég vona að hv. þingmaður skilji það — sem ég legg fram um nauðsynina á því að breyta þeim lögum sem við erum að fjalla um núna. Ég er þeirrar skoðunar að það að breyta orðunum „rökstudd ástæða“ í „ástæða“ í orðalagi frumvarpsins og þá laganna, sé í rétta átt, enn fremur þegar tekið er tillit til fyrra framferðis og hagsmunamats og tíminn styttur. Allt er þetta til bóta.



[18:16]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf spurning, hv. þm. Ellert B. Schram, hvort menn eru í fortíðinni eða nútíðinni. Og dómurinn sem hv. þingmaður vitnaði til var úr fortíðinni. Í lögum segir að nálgunarbann megi setja ef rökstudd ástæða sé til að ætla að hann muni fremja afbrot. Þarna er vísað til framtíðarinnar. Það varð niðurstaða dómsins að þrátt fyrir að þarna hefði orðið um verulega alvarlega hluti að ræða, eins og hv. þm. Ellert B. Schram vísaði til, að þá var spurningin um það hvort rökstudd ástæða væri til þess að ætla að hann mundi fremja afbrot, þ.e. vísað er til framtíðarinnar. Það var þar sem mat dómsins lá og það varð sú niðurstaða sem við erum að fjalla um. Þannig að tilvitnun í það sem gerðist áður átti ekki við það sem þarna var viðfangsefni dómsins.

Við erum sammála um að gera beri ýtrustu kröfur og reyna með öllum mætti sem löggjöfin hefur að koma í veg fyrir ofbeldisbrot. Með því m.a. að setja nálgunarbann eins og gert er og þess vegna skiptir gríðarlegu máli að afgreiða það mál sem hér er um að ræða.

Í nefndarálitinu eru sem sagt ákveðin fyrirheit um það að skoða málið frekar og var enginn ágreiningur í nefndinni um það atriði. En spurningin er þessi, með tilvísun til þess dóms sem hér hefur verið gerður að umræðuefni, hvort nefndin hafi ekki einmitt brugðist rétt við. Og það var það sem ég var að spyrja hv. þm. Ellert B. Schram að, hvort við hefðum ekki brugðist rétt við í nefndinni með því að gera þær tillögur sem hér eru og undirrita það nefndarálit og þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Eða er þingmaðurinn eitthvað á móti þessari niðurstöðu?



[18:18]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Já, herra forseti. Hvort þetta séu viljandi útúrsnúningar eða þá að hv. þingmaður hafi ekki hlustað á ræðu mína áðan veit ég ekki. (JM: Ég hlustaði með athygli.) En það mátti og átti að skilja ræðuna á þann veg að ég var með tilvísun til þessa dóms að leggja áherslu á alvarleika þessa máls. Ég var að brýna þingið og löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og lögreglu og alla sem að þessu komu að vera á varðbergi vegna þess að þessi dómur var ekki kveðinn upp í fortíðinni. Hann var kveðinn upp á þessu ári. (Gripið fram í: Hann vísar til fortíðar.) Hann vísar til fortíðar en þarna var um að ræða málsatvik sem höfðu verið framin og mátti ætla að yrðu áfram.

Við skulum ekki fara að rífast um það hér hvernig komist var að þessari niðurstöðu eða hvernig þessi atvik voru, heldur skulum við sameinumst um það — ég endurtek það hér að ég held að þessi bragarbót á lögunum sé til bóta. Vonandi getur þá bæði þingið og almenningur áttað sig betur á því, dómstólarnir, hvað þarf að vera fyrir hendi þegar dómar eru kveðnir upp um það að nálgunarbann megi ríkja og gilda að því er varðar til varnar brotaþola undir slíkum kringumstæðum.



[18:20]
Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að benda hv. þm. Ellerti B. Schram á fyrsta lið breytingartillögu Kolbrúnar Halldórsdóttur. Þar erum við að vísa í vísun brott af heimili en ekki nálgunarbann, þannig að við 1. gr. bætist ný málsgrein.



[18:20]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér grein fyrir því að hér er um að ræða breytingu við 1. gr., að við bætist ný málsgrein. Allt í sjálfu sér gott um það að segja en ég hefði talið skynsamlegra, og talið það betri vinnubrögð, að bera þessa tillögu upp á nefndarfundum þannig að menn gætu tekið afstöðu til hennar (Gripið fram í.) á því stigi. Ég minnist þess ekki að þessi tillaga hafi verið kynnt á nefndarfundi.

Ég er ekki að gera mikið úr því en það er mín skoðun að þessi tillaga, svo góð sem hún er, sé sennilega þrengri en sú lagabreyting sem meiri hluti nefndarinnar gerir tillögu um, svona upptalning þrengir lagarammann.

Þegar talað er um ástæður þeirrar túlkunar sem fram hefur komið í ræðum þingmanna í dag er ég þeirrar skoðunar að það rýmki leyfi, tækifæri og möguleika þeirra sem kveða upp nálgunarbann að beita því ákvæði. Það er fyrst og fremst afstaða mín án þess að þetta skipti meginmáli því að bæði mér og flutningsmönnum þessarar tillögu, breytingartillögu frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, gengur það eitt til að reyna að styrkja stöðu dómstóla eða lögreglu hvað það varðar að beita nálgunarbanni þegar ofbeldi er beitt.



[18:22]
Frsm. minni hluta allshn. (Alma Lísa Jóhannsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst ekki rétt af hv. þm. Ellert B. Schram að segja að við séum að þrengja 1. gr. frumvarpsins með því að leggja til viðbót við málsgreinina sem snýr að öðru máli. Við erum að bæta við heimildir til brottvísunar af heimili og hún snýr ekki að því sama. Í 1. gr. er engin breyting hjá okkur við það sem nefndin hefur ákveðið.

Breytingartillögurnar sjálfar lágu fyrir Alþingi í maí síðastliðnum og ég kom með afrit af þeim inn á fund fyrir tveimur vikum og allir nefndarmenn fengu afrit. En þetta hefur legið fyrir frá því í maí.