136. löggjafarþing — 10. fundur
 9. október 2008.
heilsársvegur yfir Kjöl, fyrri umræða.
þáltill. KÓ o.fl., 17. mál. — Þskj. 17.

[15:21]
Flm. (Kjartan Ólafsson) (S):

Herra forseti. Ég kem í ræðustól Alþingis til að flytja þingsályktunartillögu um heilsársveg yfir Kjöl. Tillagan er endurflutt frá síðasta þingi en því miður fékk hún ekki þann framgang sem ég hafði átt von á í hv. samgöngunefnd þannig að hún er hér endurflutt. Ásamt mér skrifa 16 aðrir þingmenn undir tillöguna úr öllum flokkum nema Vinstri grænum.

Ályktunin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja heilsársveg yfir Kjöl. Jafnframt verði gerð forkönnun á umhverfisáhrifum og könnuð samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar, m.a. á atvinnustarfsemi og byggðir landsins. Ríkisstjórnin skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. apríl 2009.“

Eins og ég sagði áður var þingsályktunatillagan flutt í fyrra og fór þá til samgöngunefndar, sem hún mun væntanlega gera einnig núna. Ítarleg greinargerð og rökstuðningur fylgja tillögunni sem ég ætla ekki að fara að eyða tíma þingsins í að fara nákvæmlega í á þeim erfiðu tímum sem við lifum nú. Ástæða þess að stór hópur manna hefur áhuga á því að byggður verði hálendisvegur milli Suður- og Norðurlands er m.a. sú að vegalengdir milli byggðarlaganna á Suðurlandi og Norðurlandi munu styttast um u.þ.b. 150 km. Það mun jafnframt hafa mikil áhrif á atvinnustig, ferðaþjónustu og fleiri þætti atvinnulífsins auk þess sem olíueyðsla og CO2 munu minnka við þessa breytingu og nýsköpun flutningsmála.

Í nágrannalöndum okkar, bæði í Skotlandi en þó sérstaklega í Noregi, hafa áætlanir verið gerðar um hálendisvegi. Má þar nefna að nú eru nokkrir hálendisvegir, einir fimm, sem liggja frá vesturströnd Noregs til Óslóar. Þeir vegir eru sumir í mjög mikilli hæð yfir sjávarmáli en áður fyrr voru einungis vegasamgöngur með ströndinni. Þarna stytta menn leiðir og spara fjármuni með því að byggja hálendisvegi. Nú er unnið að nýrri leið milli Stokkhólms og Óslóar sem stytta mun vegalengdina þar á milli.

Tillagan hefur mætt nokkuð neikvæðara viðmóti varðandi umhverfisþátt hennar. Í tillögunni sjálfri er m.a. óskað eftir því að gerð verði forkönnun vegna umhverfisáhrifa þessara framkvæmda. Ég skil að vissu leyti þá sem vilja hugsa um náttúruna og umhverfismálin og fáir hér á Alþingi hafa lagt sig meira fram um að standa vel að uppgræðslu og skógræktarmálum en sá sem hér stendur. Ég tel að eins og aðrar samgöngubætur á landinu muni vegur yfir Kjöl hafa mikil og jákvæð áhrif á uppgræðslu og framgang gróðurverndar á þessu svæði. Á Kili var mikill gróður og kjarr víða og ég tel að við getum endurheimt það.

Ég vil í þessu sambandi minna á það hvernig landið var þegar vegurinn frá Vestur-Skaftafellssýslu í Öræfin var byggður upp með brúarmannvirkjum yfir Skeiðarársand þar sem árnar voru stokkaðar, að nú er land fyrir sunnan þjóðveginn að gróa upp með ýmsum grösum og miklu birkikjarri. Ég hygg að eftir 10–15 ár verði eitt stærsta birkiskógarsvæði landsins á Skeiðarársandi. Það er þekkt fyrirbrigði frá öðrum löndum að slíkt gerist.

Ég vil jafnframt benda á þær gríðarlegu landbætur sem urðu þegar vegirnir í Rangárvallasýslu voru byggðir upp og Markarfljót stokkað að ekkert hefur haft jafnjákvæð umhverfisáhrif fyrir náttúru okkar og landgæði á Íslandi og þau tvö mál. Á sama hátt er ég sannfærður um að vegur yfir Kjöl verði til mikilla bóta hvað náttúruvernd varðar og þá þætti sem ég nefndi og koma fram í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni.

Að svo mæltu legg ég tillöguna, herra forseti, hér fram.



[15:27]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. forseta til hamingju með að vera kominn í forsetastól.

Hér hefur hv. þm. Kjartan Ólafsson mælt fyrir þingsályktunartillögu ásamt 15 öðrum þingmönnum um heilsársveg yfir Kjöl. Tillagan gerir ráð fyrir að Alþingi feli ríkisstjórninni að kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja heilsársveg yfir Kjöl. 1. flutningsmaður gat þess í framsöguræðu sinni að flutningsmenn væru úr öllum flokkum nema Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og eru skýringar á því og er sú helst, eins og gefur að skilja, að við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, erum ekki sannfærð um þingmálið og eru fyrir því ýmsar ástæður. Eins og fram kom í máli flutningsmanns er hér um að ræða endurflutta tillögu frá síðasta þingi sem fékk nokkra umræðu og þá gerðu talsmenn flokks míns grein fyrir meginsjónarmiðum okkar. Það má segja að tvennt standi þar upp úr sem ég vil nú nefna.

Í fyrsta lagi eru það umhverfismálin. Hv. flutningsmaður gat reyndar um þau líka og sagði að hann bæri þau mjög fyrir brjósti og efast ég ekkert um það. En við metum það svo að uppbygging heilsársvegar yfir miðhálendið, þar á meðal yfir Kjöl, mundi hafa mjög neikvæð umhverfisáhrif í för með sér vegna þess að verið væri að breyta eðli vegarins frá því að vera, ef svo má segja, ferðamannavegur sem tekur fyrst og fremst til sín umferð á sumrin í það að vera meginsamgönguæð milli Norður- og Suðurlands með því mikla umferðarmagni og þungaflutningum sem því fylgdi.

Því er um að ræða annars konar veg en verið hefur. Við erum að sjálfsögðu ekki andvíg því að vegurinn yfir Kjöl sé gerður að góðum ferðamanna- og sumarvegi og þjóni því hlutverki vel en teljum að ekki sé heppilegt að gera uppbyggðan, malbikaðan veg á miðhálendinu með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir að verði kannað.

Hinn þátturinn sem ég vil leggja mikla áherslu á er forgangsröðun í samgöngu- og byggðamálum. Í greinargerð með tillögunni er rakið að tenging byggðarlaganna geti verið mikil byggðaaðgerð og er áhersla lögð á þann þátt. Ég dreg ekki úr mikilvægi þess að byggðarlögin verði tengd með góðum samgöngum en held að ef ákveðið yrði að flytja meginþunga umferðar á milli Norður- og Suðurlands yfir á miðhálendið með uppbyggðum Kjalvegi væri talsverður skaði unninn í málum byggðarlaga við núverandi leið á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ég held að betra væri að stytta vegalengdir milli Norðurlands og höfuðborgarsvæðisins á þjóðvegi nr. 1, t.d. með því að breyta legu hans frá Akureyri. Hörgárdalur yrði farinn í stað Öxnadals og þaðan eftir jarðgöngum inn í Hjaltadal og yfir Þverárfjall og þannig yrði aðalsamgönguleiðin tengd við byggðarlögin. Þá væru Akureyri, Sauðárkrókur, Blönduós og fleiri staðir sem ella yrðu klipptir frá þessari mikilvægu samgönguleið á henni.

Ekkert er hægt að segja um forgangsröðun í samgöngumálum annað en að verkefnin eru óþrjótandi og uppbygging vegakerfis á hálendinu er hluti af þeim. Þá komum við aftur að því hvernig vegi við viljum hafa. Ég hefði viljað sjá annars konar veg en hér er lagt til, nefnilega hefðbundinn og góðan ferðamanna- eða sumarveg.

Verkefnin eru óþrjótandi í samgöngumálum, m.a. tengivegir víða um land. Þjóðvegur nr. 1 er víða bágborinn, á honum eru enn einbreiðar brýr og mikið aukið álag af þungaflutningum og eins og þolir hann ekki það mikla álag sem á hann er sett og þarf að gera mikla bragarbót á. Tengivegir innan héraða og milli þeirra eru brýnt viðfangsefni og til að bæta aðgengi að höfuðborginni, sem er mikilvægt fyrir alla landshluta, er nauðsynlegt að tvöfalda vegi sem liggja frá höfuðborginni hvort sem er austur fyrir fjall eða norður eða vestur á land sem og að reisa Sundabraut og fleiri stór mannvirki. Í samgöngumálum eru því fjölmörg verkefni.

Á fundum landshlutasamtaka sveitarfélaga í haust gerðu flest þeirra ákveðnar samþykktir um samgöngumál, því samgöngur skipta sveitarfélög miklu máli. Áhersla hefur verið lögð á bættar samgöngur og er af mörgu að taka í þeim efnum í öllum landshlutum. Við teljum að verkefnið sem þingsályktunartillagan snýst um sé ekki eitt þeirra sem eigi að vera í forgangi í samgöngumálum á næstunni og hef ég í grófum dráttum rakið viðhorfin sem þar liggja að baki.

Hægt væri að fjalla ítarlegar um málið en færi er á í fyrri umr. en ég vænti þess að fjallað verði um tillöguna í hv. samgöngunefnd og þar gefst ráðrúm til að fjalla betur um hana og kalla eftir viðhorfum, umsögnum og þeim rannsóknum sem þegar liggja fyrir. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að Vegagerðin hefur unnið einhvers konar samantekt, kannski ekki mjög ítarlega, um styttingu leiða þar sem hugmyndin um veg yfir Kjöl er m.a. nefnd.

Sjálfsagt er að farið sé yfir þetta en ég hefði líka viljað láta skoða til samanburðar aðrar leiðir til að stytta vegalengdir milli miðs Norðurlands og höfuðborgarsvæðisins. Ég hefði talið að nefndin ætti að gera það en í meginatriðum erum við þingmenn Vinstri grænna ekki hlynnt því að ráðist verði í uppbyggingu heilsársvegar yfir Kjöl eða yfirleitt á miðhálendinu og teljum að framtíðarstefnumótun samgöngumála á miðhálendinu þurfi að vera liður í endurskoðun á svæðisskipulagi og heildarsýn fyrir miðhálendið. Ef hér verður tekið upp landsskipulag eins og áform voru um í frumvarpi hæstv. umhverfisráðherra, sem var til umfjöllunar í umhverfisnefnd á síðasta þingi og kemur væntanlega inn í þingið á nýjan leik í vetur, er hugsanlegt að það verði betri farvegur fyrir umræðu af þessum toga en að einangra þetta ákveðna verkefni og taka það sérstaklega út.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta hér við fyrri umr., þetta voru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri. Þau eru kunnugleg og ég veit að hv. 1. flutningsmaður hefur heyrt þau áður í umræðunni í fyrra og svo sem ekkert nýtt í þeim efnum.



[15:37]
Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hjó sérstaklega eftir því í ræðu hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að hann talar um að eðlilegt sé að byggja góðan ferðamannaveg yfir Kjöl en slæmt að byggja þar heilsársveg. Mér leikur forvitni á að vita hver hinn raunverulegi munur á þessu tvennu er, hvort það sé ætlun þingmannsins að góði ferðamannavegurinn sé eftir sem áður niðurgrafinn malarvegur eða hvort góði ferðamannavegurinn megi vera lítils háttar uppbyggður og malbikaður. Ef hann verður uppbyggður og malbikaður hvað kemur þá í veg fyrir að hann verði notaður árið um kring?



[15:39]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú er mér að vísu ekki kunnugt um hvort í vegalögum eða vegáætlun sé sérstök skilgreining á ferðamannavegi þó að ég hafi tekið þannig til orða en ég held að allir sem það vilja skilji hvað felst í því og hvaða munur er á því að tala um ferðamannaveg, sem fyrst og fremst þjónar umferð þegar meginstarfsemi ferðaþjónustu fer fram. Það er munur á því eða byggja upp veg sem á að þjóna öllum þeim miklu þungaflutningum sem óhjákvæmilega færu yfir heilsársveg árið um kring.

Við skulum alveg gera okkur grein fyrir því að á Íslandi er allra veðra von að vetrarlagi og því þarf að gera býsna miklar ráðstafanir til að vegur yfir miðhálendið geti þjónað hlutverki sínu allt árið um kring og þeim miklu þungaflutningum sem eru á íslenskum vegum í dag. Það lýtur að breidd vega, undirlagi, burðargetu o.s.frv. Það er auðvitað allt annað en vegur, sem þarf ekkert endilega að vera malbikaður eða mikið uppbyggður til að geta verið þokkalega góður ferðamannavegur á ferðamannatímanum þegar fólk leggur leið sína á miðhálendið. Við vitum alveg og þekkjum að hálendisvegirnir eru yfirleitt ekki opnaðir fyrr en komið er fram í júní vegna vetrarveðurs og það er ástand sem við búum við hér á landi og eigum frekar að sætta okkur við og einbeita okkur að uppbyggingu vegakerfisins hringinn í kringum landið.



[15:41]
Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni svarið og mér þykir athyglisvert að hv. þingmaður og þá væntanlega flokkur hans einnig — því hann vék í fyrri ræðu sinni að afstöðu flokks síns í þessum efnum — hafi þá sýn að góður ferðamannavegur geti bæði verið malarvegur og niðurgrafinn. Ég er ekki sammála þeim sjónarmiðum og hygg að þeir sem reka ferðaþjónustu í landinu séu það ekki heldur. Þar með er ég ekki að segja að ekki verði alltaf til vegir eða vegslóðar á hálendinu sem verði einungis færir jeppum og öðrum slíkum farartækjum og harla holóttir en góðar almennar ferðamannaleiðir eru svolítið annað.

Ég held reyndar að hér gæti nokkurs misskilnings þegar talað er um þungaflutninga vegna þess að með mikilvægari þungaflutningum á vegum landsins eru flutningar með ferðamenn. Langferðabílar sem notaðir eru við hópferðir eru mjög þungir og þeir stærstu jafnast í rauninni á við flutningabíla og þá bíla er ekkert hægt að nota. Ekki er hægt að skapa eðlilega umferð ferðamanna á langferðabílum yfir Kjöl eða Sprengisand nema vegir þar verði nokkuð bættir.

Það gætir líka töluverðs misskilnings í máli hv. þingmanns um að hálendisvegir séu ekki opnaðir fyrr en í júní vegna veðurs. Svo er ekki. Hálendisvegir eru ekki opnaðir fyrr en í júní vegna aurbleytu sem er vegna þess að engin undirbygging er í vegunum. Við erum að tala um það hvort við megum búa til veg yfir hálendið sem mun þola frostsprungur og það sem gengur á þegar land frýs og þiðnar til skiptis. Það er þannig vegur sem við viljum leggja yfir Kjöl en ég er alveg sammála því (Forseti hringir.) að varúðar þarf að gæta þegar kemur að umhverfinu.



[15:43]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta fara að verða hártoganir um það hvort vegurinn er sentímetrunum breiðari eða mjórri eða hærri eða ekki í landinu. Ég ætla ekki að fara mikið út í það heldur hitt, sem þingmaðurinn gat sérstaklega um í andsvari sínu, mismunandi sýn á hvaða hlutverki vegurinn á að þjóna. Eins og hér hefur komið fram og ég las úr tillögunni — og ég get ekki skilið hana öðruvísi og fæ það staðfest hér í andsvari hv. þm. Bjarna Harðarsonar, sem er einn af flutningsmönnum hennar — er hugsun þeirra að búa til veg yfir Kjöl sem á að geta tekið alla flutninga og umferð árið um kring. Til að svo geti orðið í landi okkar þarf talsvert mikið til, ég tala nú ekki um á harðbýlu hálendinu og þýðir ekki að bera á móti því að til að það geti orðið þurfi talsvert til.

Við erum sannfærð um að þetta sé ekki rétta leiðin og að því lúta þær röksemdir sem ég hef fært hér, annars vegar að umhverfinu og hins vegar að forgangsröðun í samgöngumálum og byggðamálum. Um þetta eru bersýnilega skiptar skoðanir og það er ekkert óeðlilegt að menn skiptist á skoðunum um mál af þessum toga og ræði það þá frekar þegar málið kemur til umfjöllunar í samgöngunefnd og kalli eftir gögnum og vinni úr þeim. Ekki ætla ég að vera andvígur því að við vinnum málið, því þar sem mælt er með því hér fer það bersýnilega til nefndar þannig að ég ætla ekki að leggjast gegn því. En það er augljóst að skoðanir eru skiptar um það hvers konar veg eða samgöngur við teljum henta yfir hálendið.



[15:45]
Flm. (Kjartan Ólafsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil árétta í andsvari mínu til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að hér er um að ræða þingsályktunartillögu um könnun á málinu. Ég get verið honum fullkomlega sammála um að við þurfum að forgangsraða og það gerum við með endurskoðun á samgönguáætlun. Á þessu vetrarþingi endurskoðum við hugsanlega þá áætlun sem fyrir liggur og forgangsröðum. Verk eins og þingsályktunin kveður á um kæmi þá inn í þá endurskoðun þannig að við mundum að sjálfsögðu skoða það heildstætt. Í þingsályktunartillögunni er ekki verið að tala um að það eigi bara að gera eitt og ekki annað þannig að ég hygg að við séum nokkuð sammála um þá leið.

Ég vil jafnframt gera þingmanninum grein fyrir því að í dag fara að mati Vegagerðarinnar um 300 bílar um Kjalveg á sólarhring. Það eru einkabílar, litlir bílar og rútur. Núna er vegurinn svo slæmur að miklar skemmdir verða á bílum. Þetta er gríðarlega vondur vegur þannig að við þurfum að bæta hann með einhverjum hætti.

Ég vil jafnframt benda þingmanninum á að vegtengingin er ekki bara fyrir leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hún er ekki síður á milli landshlutanna Norðurlands og Suðurlands, þar er styttingin mest.

Hæstv. forseti. Ég vil í lokin spyrja um hvernig hv. þingmaður skilgreinir ferðamannaveg, hvort hann er uppbyggður, hvort hann er frostfrír, hvernig slitlagi hann er lagður, hvort hann á að vera beinn eða í hlykkjum, o.s.frv.



[15:47]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt andsvar við ræðu minni. Því fer að vísu víðs fjarri að ég ætli í ræðustóli Alþingis að fara að hanna vegi um landið og segja til um það hvort tilteknir vegir eigi að vera beinir eða bognir, hver hallinn eigi að vera eða hvort upphækkunin skuli vera mikil o.s.frv.

Ég sagði í andsvari við hv. þm. Bjarna Harðarson að ég hefði tekið svo til orða að tala um ferðamannavegi, ég væri ekki viss um að það hugtak væri sérstaklega skilgreint neins staðar. Það sem ég sé fyrir mér er vegur sem þjónar fyrst og fremst ferðamönnum sem leggja leið sína á miðhálendið en hann gegnir ekki endilega hlutverki flutningaleiðar, t.d. fyrir þungaflutningabíla, eins og ég hef þegar sagt.

Við leggjumst að sjálfsögðu ekki gegn því að yfir Kjöl sé gerður góður sumarvegur sem ber umferð fólks en við gerum ekki ráð fyrir því að hann eigi að bera vöruflutninga. Það er sjónarmið okkar. Hvað hann þarf nákvæmlega að vera breiður, hversu mikið uppbyggður eða hvert undirlagið þarf að vera er auðvitað verkfræðilegt úrlausnarefni en ekki pólitískt.

Hvað pólitíkina snertir er hér fyrst og fremst tekist á um hlutverk þessarar samgönguleiðar og þar erum við augljóslega ekki algjörlega samstiga en það er sjálfsagt að taka þá umræðu frekar á vettvangi nefndarinnar.



[15:49]
Flm. (Kjartan Ólafsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í samgönguáætlunum eru ferðamannavegir tilgreindir en ég man ekki eftir því að tilgreint sé hvernig þeir líta út. Þess vegna reyndi ég að spyrja hv. þingmann að því hvernig honum finnst ferðamannavegir eiga að vera, hvort það séu vegir sem eru uppbyggðir, eins og hv. þm. Bjarni Harðarson nefndi, sem ekki er aur á fram á mitt sumar. Það sem mér finnst að við þurfum að átta okkur á þegar við tölum um ferðamannavegi er hvað við eigum í rauninni við og þá er ég ekki að tala um neina verkfræðihönnun.

Mér finnst að þingmaðurinn geti samþykkt að sú skoðun fari fram. Hins vegar er þingmaðurinn ekki endilega sammála því sem kemur fram í greinargerðinni og það er gott og vel. Mig langar þá í lokin að spyrja hv. þingmann: Kæmi til greina að gera uppbyggðan veg yfir Kjöl? Þá á ég við veg sem er frostfrír og með slitlagi. Það yrði takmarkað hvaða flutningar mættu vera um þann veg. Ef þungaflutningarnir færu fram á þjóðvegi 1 og fólksbílaumferðin og ferðamannatraffíkin yfir sumartímann yrðu meiri, léttum við um leið sannarlega á umferð á þjóðvegi 1 og það yrði einnig til þess að minnka slysahættu og auka umferðaröryggi.



[15:51]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er margt sem kemur til greina í þessu lífi og það er sjálfsagt að fara yfir hluti af þessum toga. En það er ekki það sem tillagan sem hér er til umfjöllunar gengur út á, eins og ég skil hana, heldur er þar talað um að leggja heilsársveg yfir Kjöl. Í greinargerðinni eru færð rök fyrir því. Ég hef reynt að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ég stend fyrir að því er varðar umhverfisþættina og náttúruverndina, að því er varðar forgangsröðun í samgöngumálum, að því er varðar byggðaþróun o.s.frv. Ég hef reynt með þeim hætti að skýra að af þeim ástæðum sem við teljum mikilvægar í því samhengi höfum við ekki verið hlynnt því að samþykkja ályktunina. Ef þingmaðurinn kemur fram með öðruvísi tillögu um annars konar markmið en þessi tillaga gerir ráð fyrir munum við auðvitað taka efnislega afstöðu til hennar.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að taka þessa samgöngupólitísku umræðu á vettvangi hv. samgöngunefndar. Ég veit ekki hvort hæstv. iðnaðarráðherra vill koma þar að, hann gæti kannski komið á opinn fund og látið ljós sitt skína en látum það nú vera. Sú umræða mun fara fram á vettvangi nefndarinnar og ég ætla ekki að vera með neina fordóma gagnvart hugmyndum manna í þeim efnum. En þetta eru þau sjónarmið sem hafa ráðið afstöðu okkar til málsins. Þau gerðu það á síðasta þingi þegar málið var til umfjöllunar og ég hef svo sem ekki breytt um skoðun hvað það snertir. Það er til umfjöllunar og verður það á vettvangi nefndarinnar.



[15:53]Útbýting:

[15:54]
Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil taka aðeins þátt í umræðunni og tel brýnt að Alþingi haldi sínu verklagi. Þrátt fyrir að erfiðir tímar séu í samfélaginu þurfa fyrirtækin að ganga og vinnustaður okkar er einn af þeim sem þurfa að sýna að þeir halda höfði. Því þurfum við að vinna okkar verk og eitt af þeim verkum er að fara í gegnum umræðu um þessa þingsályktunartillögu sem ég tel mjög brýna enda einn af flutningsmönnum. Ég þakka umræðuna sem verið hefur um hana hér.

Ég tel að það gæti nokkurs misskilnings í andstöðu sumra við heilsársveg yfir Kjöl vegna þess að menn sjá þá fyrir sér að þar með verði mikilli öræfakyrrð spillt. Þar sem nú eru friðsæl og hljóð öræfi verði skyndilega að grárri hraðbraut. Þá mynd er auðvelt að mála upp fyrir fólki en hún er ósönn vegna þess að það mun minnka hávaða frá vegi að leggja venjulegan malarveg yfir Kjöl. Þegar er búið að leggja veg yfir Kjöl. Það er afskaplega vondur malarvegur og vondum malarvegi fylgir mikil mengun, mikill hávaði, vond meðferð á bílum og ýmislegt annað sem ekki skapar þau þægindi sem þurfa að vera á okkar helstu ferðamannaleiðum. Kjalvegur er tvímælalaust ein af okkar helstu ferðamannaleiðum.

Ég er ekki talsmaður þess að menn leggi vegi þvers og kruss um hálendið eða fjölgi þar mikið vegum frá því sem nú er. Ég tel einmitt brýnt að við höldum í þá ósnortnu náttúru sem við eigum. Ég set ákveðinn fyrirvara við vinnuna sem farið verður í varðandi þessa vegagerð. Við undirbúning verksins hafa komið fram hugmyndir um að velja alveg nýtt vegstæði. Það orkar að nokkru leyti tvímælis, það er betra ef hægt er að nota það vegstæði sem nú er vegna þess að það er óþarfi að fórna nýjum löndum. Vegurinn væri ekki bara til bóta fyrir ferðamennskuna og fyrir byggðirnar beggja megin við, ég held að hann mundi einnig vera mjög hagkvæmur þjóðhagslega til lengri tíma litið. Rétt eins og 1. flm., hv. þm. Kjartan Ólafsson, kom að áðan minnkum við til muna umferðarþungann á þjóðvegi 1 með því að leggja þennan veg.

Það er alveg víst að það er tiltölulega stutt í að menn fari að ræða í alvöru og leggja á ráðin um fjórbreiðan veg alla leið milli Reykjavíkur og Akureyrar að óbreyttu. Ef ný leið er gerð getur það dregið úr þeirri þörf og frestað því verki um ókomna daga eða jafnvel alveg komið í veg fyrir að ráðast þurfi í það því að margt getur breyst í samgöngumálum á hálfri eða einni öld. Að leggja fjórbreiðan veg — það þekkjum við vel sem höfum rætt um fjórbreiðan veg milli Reykjavíkur og Selfoss og milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar — er ekki tvöfalt dýrara en að leggja venjulegan tvíbreiðan veg. Hann er fjórfalt til áttfalt dýrari en slíkur vegur vegna hinna mislægu gatnamóta og ýmissa tæknilegra útfærslna sem þurfa að vera á vegi með tveimur aðgreindum akstursstefnum. Hann svo miklu dýrari. Það skiptir verulegu máli í þessari umræðu.

Þess vegna held ég að brýnt sé, herra forseti, að Vegagerðin og samgönguráðuneytið skoði þennan samgöngumöguleika af alvöru og við megum ekki ýkja það um of þó að nú séu erfiðir tímar. Það er mjög líklegt erfiðleikarnir gangi tiltölulega hratt yfir hagkerfi okkar því að það hefur mikla teygjumöguleika, mikla aðlögunarhæfileika, kannski langt umfram það sem önnur hagkerfi hafa. Það eru vissulega miklir erfiðleikar meðan þeir ganga yfir og við þurfum að taka á þeim af festu og æðruleysi. Það er kannski æðruleysið sem mér finnst helst hafa vantað í umræðuna, t.d. í ýmsa fjölmiðlaumfjöllun.

Þrátt fyrir erfiðleika megum við ekki leggja árar í bát og hætta að horfa til framtíðar. Eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að horfa til er hvernig við getum byggt landið upp og eflt byggðirnar. Það er misskilningur sem kom fram áðan í ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að við værum að tala um veg sem væri aðallega ætlaður fyrir mikla þungaflutninga. Þungaflutningar á Íslandi fara eiginlega um alla vegi hvort sem þeir eru skilgreindir sem tengivegir, ferðamannavegir eða annars konar vegir svo lengi sem þeir þola þann öxulþunga sem er á viðkomandi bifreið. En það má alveg hugsa sér, eins og hv. flutningsmaður vék að, að menn setji einhverjar takmarkanir á það enda er ekki aðalmarkmiðið með þessari vegarlagningu að koma á nýrri samgönguleið fyrir landflutningana. Aðalmálið er að koma á samgöngubót, tengingu á milli Norður- og Suðurlands með nýjum hætti.

Tími minn er senn á þrotum en það síðasta sem mig langaði til að víkja að í þessu sambandi er sá ótti sem ég verð var við hjá ýmsum kunningjum mínum á Norðvesturlandi og Vesturlandi, að þetta muni á einhvern hátt rýra stöðu þeirra í byggðaþróun og að umferðin muni öll verða yfir Kjöl. Ég held að það sé mikill misskilningur og við þessa vegarlagningu muni skapast nýr hringvegur á landinu, litli hringurinn á móti stóra hringnum — í rauninni tveir nýir hringir. Það muni auka möguleika á styttri hringferðalögum en ferðamenn hafa haft með hringveginum um þjóðveg 1 kringum landið og á mesta vaxtarsvæðinu á Suður- og Suðvesturlandi muni fólk fara aðra leiðina um Kjöl og hina um Holtavörðuheiði.