136. löggjafarþing — 11. fundur
 13. október 2008.
umhverfismat vegna framkvæmda við álver á Bakka.

[15:09]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það ríða mikil áföll yfir samfélag okkar og mikilvægt er þegar við horfum til framtíðar að það sé alveg klárt hvernig við ætlum að byggja upp samfélagið. Íslenska efnahagsundrið hefur beðið mikinn hnekki og ljóst er að það mun ekki skila okkur því í náinni framtíð sem við gerðum okkur væntingar um.

Við höfum hér undirstöðuatvinnugreinar, fiskveiðar, fiskvinnslu og stóriðju, sem skila okkur þeim útflutningsverðmætum sem við munum byggja nýtt samfélag á. Það er sá lærdómur sem við drögum, virðulegi forseti, af því sem við höfum gengið í gegnum undanfarið. Við förum aftur til fortíðar að því leyti að við erum minnt á hvað það er sem við höfum og hvað það er sem við munum byggja á, hvað það er sem í raun gerði þá útrás, sem hefur leikið okkur svo grátt, mögulega á sínum tíma. Það voru bankarnir sem byggst höfðu upp á íslenskum sjávarútvegi, á þeirri stóriðju sem hér var stunduð.

Nú er mikilvægt að skilaboðin verði skýr héðan frá Alþingi og því vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra varðandi þau málefni sem hjá henni liggja til að greiða sem mest fyrir því að við getum hafist handa. Ég vil spyrja hana sérstaklega um ákvörðun hennar um heildstætt mat um álver á Bakka, hvort ekki komi til greina í ljósi þeirrar óvissu sem skapast þann tíma sem ferlið dregst vegna matsins að draga þessa ákvörðun til baka og setja eðlilegt skipulagsferli í gang (Forseti hringir.) miðað við þær reglur sem gilda.



[15:11]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Við þessu er mjög einfalt svar: Nei. Heildstætt umhverfismat framkvæmdanna sem tengjast hugsanlegu álveri á Bakka eru í eðlilegu ferli, samráðsferli framkvæmdaaðilanna fjögurra og þar liggja þær tímasetningar fyrir sem allir geta sætt sig við. Það er hins vegar í höndum fyrirtækisins sem hyggst reisa álver á Bakka að flýta sér ef menn hafa einhvern vilja til þess. Ég hef ekki orðið vör við þann vilja. (Gripið fram í.) Það er allt í góðu lagi á Bakka, hv. þingmaður.



[15:12]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvar hæstv. ráðherra hefur verið í þessari umræðu þegar hún segir að það sé allt í lagi á Bakka, hjá því fólki fyrir norðan sem hefur gert athugasemdir við ákvörðunina sem hún tók. Það sé allt í lagi hjá því fólki sem ætlar að standa þar að framkvæmdum og hefur gert alvarlegar athugasemdir við ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra, að ferlið geti seinkað framkvæmdum um allt að 15 mánuði. Svo er sagt að það muni ekki seinka neinu og að allt sé í góðu lagi á Bakka.

Virðulegi forseti. Við verðum að senda skýr skilaboð frá Alþingi núna. Við verðum að senda skýr skilaboð um á hverju við ætlum að byggja samfélagið í framtíðinni. Það þýðir ekkert að segja við þjóðina að það sé allt í lagi að tefja framkvæmdir. Það er orðið tímabært að við hættum að flækjast fyrir á þinginu með því að setja einhverjar reglur sem eru til þess fallnar að tefja ferlið. Við höfum ekkert efni á því í dag. Það er það sem við ætlum að byggja á í framtíðinni og við þurfum að fá hlutina í gang (Forseti hringir.) hið fyrsta.



[15:13]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil hvetja hv. þingmann til að kynna sér stöðu mála betur en hann hefur gert, kynna sér hvar heildarmatsferlið er statt. Þá mun hið sanna koma í ljós. Ef hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson, er að leggja til að lögum og reglum verði vikið til hliðar, hvað á hann þá við? Er hv. þingmaður að leggja til að við segjum upp EES-samningnum, að við segjum upp öllum þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist samkvæmt honum í umhverfismálum? Hvað er þingmaðurinn að segja? Það er kannski betra að hugsa það aðeins betur áður en menn koma upp (Gripið fram í.) með svona fráleitar fullyrðingar og fráleitar ályktanir sem þeir draga af þeim.