136. löggjafarþing — 13. fundur
 15. október 2008.
staða bankakerfisins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:33]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Áður en umræðan hefst vill forseti geta þess að samkomulag er á milli þingflokkanna um ræðutíma í umræðunni. Umferðir verða þrjár. Í fyrstu umferð hefur ráðherra 20 mínútur til framsögu en talsmenn annarra flokka 15 mínútur. Í annarri umferð hefur hver flokkur tíu mínútur til umráða, í þriðju og síðustu umferð fær hver þingflokkur fimm mínútur og að auki fær ráðherra tíu mínútur í lok umræðunnar.



[13:34]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að flytja Alþingi skýrslu um þá erfiðu og alvarlegu stöðu sem upp er komin í efnahagslífi þjóðarinnar. Örlagaríkir dagar eru að baki og gríðarleg áföll hafa dunið yfir okkur Íslendinga á stuttum tíma. Það er á slíkum stundum sem íslenska þjóðin sýnir úr hverju hún er gerð. Æðruleysi hennar og yfirvegun andspænis þessum hamförum vekur hvarvetna aðdáun. Við kunnum að bogna tímabundið en buguð erum við ekki.

Við erum nú hægt og bítandi að komast út úr versta storminum og nú þegar hafa Landsbankinn og Glitnir tekið til starfa í breyttri mynd. Unnið er hörðum höndum að því að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf þannig að alþjóðleg viðskipti geti gengið eðlilega fyrir sig, fyrirtæki geti flutt gjaldeyri til landsins og Íslendingar erlendis fái öruggt aðgengi að gjaldeyri.

Ríkisstjórnin og Seðlabankinn leggja allt kapp á að gjaldeyrisviðskipti færist í eðlilegt horf sem fyrst og í því augnamiði voru í gær hagnýttar lánsheimildir upp á 400 milljón evrur í seðlabönkum Danmerkur og Noregs. Við ætlum að styrkja gjaldeyrisvaraforðann verulega til viðbótar við þetta og nú standa yfir viðræður í Moskvu um hugsanlegt gjaldeyrislán, auk þess sem rætt hefur verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hugsanlega aðkomu sjóðsins að því endurreisnarstarfi sem fram undan er hér á landi. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að skoða fordómalaust allt sem getur orðið okkur að liði í þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir.

Eftir atburði síðustu daga er útlit fyrir mikinn samdrátt í innlendri eftirspurn og sér þess þegar merki. Því er nauðsynlegt að hagstjórnartækjum ríkisins sé beitt til þess að örva efnahagslífið og milda þannig niðursveifluna.

Í morgun tilkynnti Seðlabanki Íslands um 3,5 prósentustiga lækkun stýrivaxta. Þessi lækkun stýrivaxta mun lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja og hjálpa þannig til við að koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Hæstv. forseti. Undanfarin ár hafa stjórnvöld opnað íslenska hagkerfið fyrir flæði fjármagns, vöru, þjónustu og fólks. Þær breytingar hafa leitt af sér gríðarlega lífskjarabyltingu hér á landi og stuðlað að mikilli uppbyggingu í atvinnulífinu. Opnunin hefur aftur á móti þær hliðarverkanir að við erum mjög háð atburðum á alþjóðlegum mörkuðum án þess að við getum haft nein áhrif þar á.

Síðasta árið hefur hin alþjóðlega lánsfjárkreppa dýpkað hægt og bítandi. Upptök hennar voru í Bandaríkjunum vegna hinna svokölluðu undirmálslána sem bandarísk fjármálafyrirtæki höfðu selt fram og til baka sín á milli. Þegar í ljós kom hve gölluð þessi lán voru tók að myndast tortryggni og vantraust á markaði sem olli á endanum miklu meiri vandræðum en undirmálslánin ein og sér. Örlög íslensku bankanna eru besta dæmið um það því að þeir höfðu að langmestu leyti staðið utan við viðskipti með bandarísk undirmálslán en alkul á alþjóðlegum lánamörkuðum olli því að staða íslensku bankanna breyttist skyndilega til hins verra.

Íslensku bankarnir höfðu á nokkrum árum stækkað svo hratt að efnahagur þeirra var orðinn margfaldur í hlutfalli við landsframleiðslu Íslands. Vöxtur bankanna var drifinn áfram af miklu aðgengi að ódýru lánsfé síðastliðin ár. En öll lán þarf að greiða og það átti að sjálfsögðu við um bankana líka. Vitað var að árið 2008 yrði erfitt varðandi endurfjármögnun þeirra en lengst af var þó útlit fyrir að hún myndi takast. Komið hafði fram af hálfu stóru bankanna þriggja í sumar að endurfjármögnun þeirra væri tryggð vel fram í tímann og allt fram yfir miðjan september var ekki tilefni til að ætla annað en að áætlanir bankanna myndu ganga eftir.

Um miðjan september breyttist staðan til hins verra á alþjóðlegum lánamörkuðum í kjölfar þess að bandaríski fjármálarisinn Lehman Brothers fór á hausinn auk margra annarra fjármálafyrirtækja og banka í Bandaríkjunum og víðar. Örvænting tók að myndast á mörkuðum og lánsfé þurrkaðist nánast upp. Upp var komin staða sem íslensku bankarnir náðu ekki að vinna úr, staða sem enginn óskar sér að vera í.

Skuldir bankanna voru orðnar of miklar fyrir íslenska þjóðarbúið og stjórnvöld stóðu frammi fyrir spurningunni hvort íslenska þjóðin ætti að borga þessar skuldir og skuldbinda þannig komandi kynslóðir.

Með ákvörðun þeirri sem ríkisstjórnin og Alþingi tóku með lagasetningu í síðustu viku var slegin skjaldborg um innlenda hluta bankanna, um sparifé almennings og tryggt að grunnþjónusta bankanna við íslensk heimili og fyrirtæki gæti haldið áfram.

Á undanförnum vikum hafa tugir banka um allan heim þurft að játa sig sigraða og leita á náðir ríkisins í heimalöndum sínum. Vandinn sem ríkisstjórn Íslands stóð frammi fyrir þegar þessi atburðarás tók að ágerast var alvarlegri en vandi annarra ríkisstjórna vegna þess hvað íslenska bankakerfið var stórt í samanburði við hagkerfið. Það var því ljóst að hvorki var skynsamlegt né mögulegt fyrir íslenska ríkið að hlaupa undir bagga með öllu bankakerfinu.

Þegar bankar sem eru kerfislega mikilvægir riða til falls annars staðar í heiminum er algengt að ríkisstjórnir þjóðnýti þá í heilu lagi. Ef ríkisstjórn Íslands hefði farið þá leið hefði hún skuldbundið sig til að greiða mörg þúsund milljarða króna af erlendum skuldum bankanna. Slík skuldbinding hefði hæglega getað orðið þjóðinni ofviða. Ríkisstjórnin valdi því að fara aðra leið með langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda eru einhver róttækustu viðbrögð ríkisstjórnar við bankakreppu sem um getur.

Ég ítreka þakkir mínar til þingmanna úr öllum flokkum fyrir að stuðla að því að neyðarlögin svonefndu náðu fram að ganga jafnhratt og raun ber vitni í síðustu viku. Þeir atburðir sem urðu dagana á eftir tel ég að hafi sýnt að löggjöfin var nauðsynleg og bjargaði því sem bjargað varð.

Mikilvægasta verkefnið nú er að bjarga sem mestum verðmætum úr starfsemi bankanna til að takmarka það tjón sem hlýst af skipbroti þeirra. Um það verðum við öll að standa saman, stjórnvöld, þingmenn og aðrir þeir sem gegna forustuhlutverki. Í þeirri vinnu þurfum við á að halda kröftum allra þeirra sem vit og þekkingu hafa á málum bankanna. Við skulum ekki láta bollaleggingar um upptök eldsvoðans verða til þess að hindra eða tefja slökkvistarfið.

Hæstv. forseti. Á þessum erfiðum tímum er brýnt að koma í veg fyrir að ótti og kvíði sem skiljanlega grípur um sig meðal fólks verði að upplausn eða örvæntingu. Hafa stjórnvöld því þegar gripið til og lagt á ráðin um umfangsmiklar aðgerðir í þessum efnum.

Um leið og þessi atburðarás hófst setti ríkisstjórnin upp starfshóp fjögurra ráðherra til að hafa yfirumsjón með aðgerðum. Undir honum starfar stýrihópur með fulltrúum helstu ráðuneyta og stofnana sem að málum koma og sér um að samhæfa aðgerðir og viðbrögð stjórnvalda. Mikið starf hefur verið unnið síðustu daga og vikur við að miðla upplýsingum og leiðbeiningum til fólks og fjölmiðla.

Í gær var formlega opnuð upplýsingamiðstöð fyrir almenning, fyrirtæki og fjölmiðla sem tekur við spurningum sem fólk kann að hafa, bæði hér heima og erlendis. Í félagsmálaráðuneytinu hefur verið starfrækt þjónustu- og upplýsinganet og verður það rekið áfram, samtengt upplýsingamiðstöðinni. Það leggjast allir á eitt við að aðstoða fólk, útskýra stöðu mála og greiða úr þeim flækjum sem upp hafa komið.

Atburðir liðinnar viku hafa eðlilega vakið mikinn áhuga fjölmiðla, bæði innlendra sem erlendra. Hingað til lands hafa komið á annað hundrað erlendra fjölmiðlamanna hvaðanæva úr heiminum. Ákveðið var að koma upp sérstakri fjölmiðlamiðstöð í Miðbæjarskólanum og unnt hefur verið að beina fyrirspurnum þangað. Sérstakur hópur hefur verið starfandi undanfarið til að halda utan um samskipti við fjölmiðla hér heima og úti. Ég vil færa öllum þeim sem lagt hafa á sig þrotlausa vinnu undanfarna daga, sem og þeim sem hafa haft samband og boðið fram krafta sína og góð ráð, mínar bestu þakkir.

Þær efnahagshamfarir sem nú ganga yfir heiminn eru þær verstu í um 90 ár. Í aðstæðum sem þessum kemur berlega í ljós að þjóðir heims hugsa fyrst og fremst um að bjarga sjálfum sér og setja eigin hagsmuni ofar gömlum vinatengslum. Það höfum við Íslendingar mátt reyna á eigin skinni undanfarna mánuði þegar við höfum komið að lokuðum dyrum varðandi lántöku og aðstoð hjá mörgum af okkar nánustu vinaþjóðum.

Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að þjóðir leggi mesta áherslu á eigin afkomu þegar á bjátar. Sú framkoma sem bresk stjórnvöld sýndu okkur í síðustu viku átti aftur á móti ekkert skylt við að bjarga breskum hagsmunum og var algerlega óásættanleg.

Bresk stjórnvöld tóku þá fordæmalausu ákvörðun að beita hryðjuverkalögum til þess að frysta eignir Landsbankans í Bretlandi. Í fjölmiðlum hélt forsætisráðherra Bretlands því raunar fram að allar eignir íslenskra stjórnvalda hefðu verið frystar en sú yfirlýsing var dregin til baka bréfleiðis skömmu síðar og útskýrt að aðeins hafi verið átt við eignir Landsbankans. Breski forsætisráðherrann hélt einnig fram órökstuddum rangfærslum í fjölmiðlum um gjaldþrot og vanskil íslensku þjóðarinnar og fjármálaráðherra landsins hélt því fram að íslenska ríkið hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar. Í kjölfarið var breska fjármálaeftirlitinu beitt gegn Kaupþingi í Bretlandi og starfsemi þess þar í landi lokað sem varð til þess að þetta stærsta fyrirtæki landsins fór á hliðina þrátt fyrir að því hefði verið veitt stórt þrautavaralán frá Seðlabanka Íslands nokkrum dögum áður. Þessar aðgerðir og ummæli ollu fjölda annarra íslenskra fyrirtækja, sem hvergi komu nærri þessu máli, gríðarlegu tjóni.

Hinar fordæmalausu aðgerðir breskra yfirvalda í garð Kaupþings í Bretlandi, sem og sú atburðarás sem ég hef nú rakið, gera það að verkum að við hljótum að skoða réttarstöðu okkar gagnvart breskum stjórnvöldum. Til þess verks hefur ríkisstjórnin ráðið breska lögmannsstofu sem vinnur nú að undirbúningi þess máls auk þess sem ríkisstjórnin hefur gert margvíslegar ráðstafanir til að tryggja að málstaður okkar komist til skila gagnvart breskum almenningi sem á hér ekki neina sök.

Þrátt fyrir þau ágreiningsefni sem upp hafa komið í samskiptum Breta og Íslendinga hafa báðar þjóðir lagt áherslu á að leiða deilur tengdum Icesave-reikningum Landsbankans til lykta. Hið sama á við um Icesave-reikningana í Hollandi.

Samninganefndir frá Hollandi og Bretlandi funduðu með íslenskum embættismönnum um síðustu helgi. Bráðabirgðaniðurstaða hefur náðst í viðræðum íslensku og hollensku sendinefndarinnar varðandi uppgjör milli landanna með fyrirvara um samþykki Alþingis.

Ekki hefur enn verið gengið frá samkomulagi við Breta en ég er vongóður um að niðurstaða náist fljótlega.

Í neyðarlögunum sem Alþingi samþykkti fyrir viku var kröfum innstæðueigenda veittur forgangur í þrotabúið. Góðar vonir standa því til þess að eignir Landsbankans í Hollandi og Bretlandi muni fara langt upp í þær skuldbindingar sem sparifjáreigendur í þessum löndum eiga á hendur bankanum og minnki að sama skapi kröfur á hendur íslenska ríkinu. Stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til þess að tryggja verðmæti eigna bankans og takmarka þannig tjónið eins og hægt er.

Hæstv. forseti. Af öllu því sem á okkur hefur dunið verðum við að læra. Samhliða því að vinna okkur hægt og bítandi út úr verstu erfiðleikunum bíða okkar stór verkefni.

Við þurfum meðal annars að ráðast í uppgjör við fortíðina. Ég greindi frá því í viðtali við Morgunblaðið á sunnudaginn að ég mun beita mér fyrir því að unnin verði svokölluð hvítbók á grundvelli ítarlegrar rannsóknar á starfsemi bankanna. Í þeirri rannsókn verður að gefa gaum því sem vel var gert en líka hinu sem fór á verri veg. Dómsmálaráðherra hefur hafið undirbúning að rannsókn á þeim þætti málsins og mun gera grein fyrir því í ræðu sinni á eftir. Ef minnsti grunur leikur á því að framin hafi verið lögbrot er alveg skýrt að viðkomandi aðilar verða dregnir til ábyrgðar.

Þau efnahagslegu áföll sem íslenska þjóðin hefur orðið fyrir gera það að verkum að við verðum að horfa fram á veginn og byggja upp til framtíðar. Íslenska þjóðin byggir á sterkum grunnstoðum og því fer fjarri að við þurfum að byrja upp á nýtt þótt fjármálakerfið hafi orðið fyrir höggi. Við erum rík af náttúruauðlindum sem við eigum að nýta með skynsamlegum hætti og halda áfram uppbyggingu í orkugeiranum. Í gær bárust til að mynda þær ánægjulegu fréttir frá Dalvík að skrifað hefði verið undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu gagnavers þar í bæ og ljóst er að við eigum mikla möguleika á því sviði og í skyldum atvinnugreinum.

Íslenskur sjávarútvegur hefur að undanförnu tekið á sig mikla skerðingu aflaheimilda til þess að byggja megi upp þorskstofninn á nýjan leik. Þær fórnir munu borga sig þegar stofninn tekur að styrkjast á nýjan leik og þeir sem tóku á sig byrðarnar í niðurskurðinum munu njóta ávaxtanna þegar meira veiðist. Með auknum aflaheimildum á næstu árum getum við hafið nýja sókn í sjávarútvegi.

Ein af auðlindum Íslands er landið sjálft, fegurð þess og saga sem laðar til landsins ferðamenn. Möguleikar ferðaþjónustunnar eru miklir og við megum ekki láta deigan síga í markaðsstarfi erlendis.

Mikilvægasta fjárfesting hverrar þjóðar er í menntun fólksins, ungu kynslóðarinnar. Sú áhersla sem stjórnvöld hafa lagt á uppbyggingu í menntakerfinu á undanförnum árum mun veita okkur viðspyrnu í þeim verkefnum sem fram undan eru.

Í erfiðri stöðu má alltaf finna tækifæri. Undanfarna daga höfum við þurft að spila nauðvörn en við munum hægt og bítandi hefja sókn á ný. Við stöndum frammi fyrir því einstaka tækifæri að geta nú komið saman sem þjóð og markað okkur stefnu til framtíðar. Í þeirri vinnu er brýnt að kalla til breiðan hóp víðs vegar að úr samfélaginu til skrafs og ráðagerða en jafnframt tryggja að almenningur geti tjáð sig og lagt hönd á plóginn. Með því getum við skapað sameiginlegan vegvísi til framtíðar. Ríkisstjórnin mun á næstu dögum ýta slíkri vinnu úr vör og koma henni í formlegan farveg, setja tímaramma og kynna nánara skipulag.

Hlutverk ríkisvaldsins verður að halda utan um þá vinnu og tryggja að góðar hugmyndir fái þann stuðning sem á þarf að halda en að öðru leyti treystum við á frumkvæði og kraft einstaklinganna til þess að koma þessum hugmyndum í framkvæmd.

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Undanfarna daga hafa margir keppst við að lýsa yfir andláti frjálsra viðskipta og markaðsbúskapar vegna áfalla á fjármálamörkuðum. Slíkar yfirlýsingar byggjast frekar á þórðargleði en raunsæi enda getur ekkert samfélag þrifist til lengdar án frjálsra viðskipta og markaðar. Frjáls markaður er tæki til að hámarka verðmætasköpun í samfélaginu en hann verður að sjálfsögðu að lúta lögum og reglum. Þegar um hægist tel ég einboðið að farið verði í gagngera endurskoðun á regluverki fjármálamarkaða, bæði hér á landi og annars staðar. Markmiðið með slíkri endurskoðun verður að styrkja grundvöll fjármálakerfisins og tryggja fjármálalegan stöðugleika en ekki að setja fjármálastarfsemi í slíkra fjötra að hún nái sér ekki á strik á ný.

Hæstv. forseti. Íslenska þjóðin hefur áður staðið frammi fyrir stórum og erfiðum verkefnum og alltaf hefur mótlætið orðið til þess að efla okkur og ná fram því besta í þjóðinni. Fram undan eru erfiðir tímar og þá reynir á samstöðu okkar sem aldrei fyrr. Enginn þarf að velkjast í vafa um að íslenska þjóðin mun safna vopnum sínum og láta að sér kveða á nýjan leik.



[13:51]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég hef ekki heyrt spádóma af því tagi sem hæstv. forsætisráðherra gefur sér að uppi séu, um að frjáls viðskipti landa í millum og markaður séu fyrirbæri sem heyri nú sögunni til, en hitt ætla ég sannarlega að vona að nýfrjálshyggjan sé dauð og glaður mæti ég í þá jarðarför þar sem kastað verður rekunum. Það er að reynast Íslandi ærið dýrt að slík hafa verið okkar leiðarljós síðustu 17 ár rúm.

Hin stóra alltumlykjandi spurning hlýtur einfaldlega að vera: Hvernig gat það gerst sem við nú stöndum frammi fyrir? Hæstv. forsætisráðherra fór yfir það að stjórnvöld hefðu opnað hagkerfið, eins og það er kallað, og það hefði leitt af sér gríðarlegan lífskjarabata. Síðan hefði því miður skollið á alþjóðleg fjármálakrísa og þar með hefðum við lent í vandræðum.

Er þetta ekki dálítil einföldun? Er þessi nálgun vel til þess fallin að skilja hlutina, er hún vel til þess fallin að læra af þeim? Verðum við ekki líka að líta í eigin barm og horfast í augu við þann hluta vandans sem sannarlega var og er heimatilbúinn? Það er vissulega þannig að framkoma Breta, sérstaklega forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta, í okkar garð er hneykslanleg, hún er óboðleg í samskiptum siðaðra þjóða. Að forsætisráðherra Breta skuli koma fram á tröppurnar og tilkynna umheiminum að Íslendingar séu vandræðamenn og óskilamenn í viðskiptum og gjaldþrota þjóð. Það er algerlega fáheyrt og megi skömm þess stjórnmálamanns vera lengi uppi sem þannig hegðar sér.

En við skulum ekki tala, Íslendingar, eins og þetta hafi komið út af engu. Við skulum ekki gleyma því að þrjú til fjögur hundruð þúsund venjulegir Bretar höfðu áhyggjur af sparifénu sínu inni á reikningum sem íslenskur banki hafði opnað með blessun íslenska Fjármálaeftirlitsins, að sveitarfélög og líknarfélög í Bretlandi sáu þarna innstæður sínar í hættu. Við skulum líka líta í eigin barm og vera þeim vanda vaxin að kenna ekki einhverjum öðrum um það sem er við okkur sjálf að sakast.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um hinn mikla lífskjarabata, góðærið væntanlega. Góðærið var vinsælasta hugtak íslenskrar stjórnmálaumræðu hér um árabil. Aldrei heyrðist hærra í góðæriskórnum en 2006, þá réðu menn sér ekki fyrir góðæriskæti. En hvernig var bókhaldið þegar árið 2006 var gert upp? Það var 300 milljarða kr. halli á viðskiptum Íslands við útlönd. Þær skuldir eru þarna einhvers staðar og eru til viðbótar hinum sem nú virðast ríða Íslendingum á slig með ýmsum undirskriftum. Var það raunverulegt góðæri? Þurfum við ekki að horfast í augu við að við lifðum langt um efni fram? Stóra spurningin er aftur: Hvernig gat þetta gerst? Hvernig gat heilt samfélag orðið svona meðvirkt að einungis örfáar raddir reyndu að vara við, að benda á það sem var að gerast? Fjölmiðlar, fræðasamfélag og stærstur hluti stjórnmálanna í algjörum faðmlögum við viðskiptalífið og fjármálamennina sem réðu förinni með þjóðhöfðingjann sjálfan í fararbroddi.

Hvernig gat þetta gerst, hvar var heilbrigð sjálfsgagnrýni? Hvar var það aðhald sem við eigum alltaf að veita okkur sjálf og spyrja okkur: Er nú öruggt að þetta sé svona, svo dásamlegt að hér sé skollin á eilíf og endalaus gullöld og gleðitíð og við getum látið allt eftir okkur? Þegar steypan var þvílík að einn einasti maður hélt afmælisveisluna sína og hún kostaði 150 millj. króna, að sögn. Hingað var flogið með tónlistarmann til að syngja tvö lög — ekkert sérstaklega vel að því er sagt er — fyrir 70 millj. króna. Hvers vegna varð ekki uppreisn? Af hverju létum við öll bjóða okkur þetta meira og minna? Það leitar á mig að ég hafi ekki einu sinni staðið mig, ekki gert skyldu mína, og tel ég mig þó hafa reynt.

Árið 2005 fluttum við þingmenn Vinstri grænna á Alþingi tillögu um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Hvað stóð í þeirri tillögu fyrir utan hluti eins og þá að fresta þensluhvetjandi stóriðjuframkvæmdum og hætta að lækka skatta á hátekjufólki í miðri þenslunni? Það stóð t.d. í 2. tölulið að beina skyldi þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að huga vandlega að áhættumati í bankakerfinu. Markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið og farið verði yfir eiginfjármörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi. Í 3. tölulið að beina tilmælum til Seðlabanka Íslands um að endurskoða ákvörðun um að lækka bindiskyldu.

Í greinargerð með þessum tillögum er m.a sagt að við blasi samlíkingin milli þess sem sé að gerast á Íslandi og þess sem leiddi til bankakreppunnar á Norðurlöndunum 1990. Tóku margir undir þetta hér? Hvar voru stjórnarliðar þá sem nú eru komnir í einhverja fráhvarfseinkennaumræðu? Það mátti heyra hér á Alþingi í gær að þegar stjórnarandstaðan sat á sér og beið þessa dags til að ræða málin af yfirvegun fóru stjórnarþingmenn í einhverja fráhvarfsumræðu og vildu kenna Landsbankanum um, draga hann til saka. Hvar voru þeir og þeirra ábyrgð? Voru ekki einhverjir ráðherrar, var ekki ráðherra yfir Seðlabankanum, var ekki ráðherra yfir Fjármálaeftirlitinu? Jú, ég held það.

Við skulum ekki reyna að flýja af hólmi, neita að horfast í augu við okkur sjálf og þá ábyrgð sem við berum á þessari kreppu og þá stjórnskipulegu og lagalegu ábyrgð sem margir bera. Það er ekki eitt höfuð — þó að marga langi kannski til að sjá það fjúka — sem hér á í hlut. Hér bera margir mikla pólitíska, lagalega, viðskiptalega og siðferðislega ábyrgð. Það er því mjög brýnt að koma því verkefni strax í farveg sem forsætisráðherra nefndi, að leggja grunninn að ítarlegri og tæmandi rannsókn á þessum atburðum. Við komumst aldrei frá þessu, við endurheimtum aldrei trúnaðartraust í samfélaginu milli aðila nema gera þessa hluti upp, það hlýtur hver heilvita maður að sjá. Það verða ósköp einfaldlega allir að sæta því sem þeim ber að sæta í þeim efnum.

Verkefnin sem við þurfum að vinna eru margþætt og því miður verðum við að vinna þau að einhverju leyti samtímis. Við höfum ekki ráð á því að hugsa bara um björgunaraðgerðirnar núna og geyma allt hitt. Við verðum líka að leggja grunn að þeim hlutum sem þarf að vinna samhliða á næstu vikum og mánuðum til þess að geta skapað grundvöllinn fyrir endurreisn Íslands, grundvöll fyrir nýju og betra samfélagi úr rústunum sem nú hafa verið búnar til.

Stjórnarandstaðan hefur að mínu mati á undanförnum dögum og vikum gert það sem hún gat gert til þess að leggja lið og til þess að sýna ábyrgð. Við höfum ekki staðið hér í pólitískum skylmingum. Við buðum upp á þjóðstjórn, ég fór sérstaklega til forsætisráðherra í upphafi hrinunnar og hvatti hann til að skoða þann hug sinn að á Íslandi væru að skella þvílíkir hlutir að ef einhvern tíma væri þörf fyrir að allir sameinuðu kraftana væri það núna. Fram að þessu hefur ríkisstjórnin talið sig einfæra um verkið, ég efast um að svo sé. Mér sýnist þetta ekki ganga allt of vel. Ég verð að leyfa mér að segja það, að ég tel að verkstjórnin gæti verið sköruglegri og röggsamlegri og mönnum unnist ýmsir hlutir betur. Ég verð að leyfa mér að segja það hér að ég tel að ráðherrar hefðu sumir hverjir getað haft betra taumhald á tungu sinni og jafnvel passað betur upp á pennann sinn.

Ég verð líka að segja að mér finnst það ekki vera í miklum takti við það sem við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að hafa sem okkar framlag — að hafa sverð okkar í slíðrum — að annar stjórnarflokkurinn telji sig hafa efni á því við þessar aðstæður að þjóna eingöngu lund sinni, að skrifa blaðagreinar og halda ræður um gæluverkefni sín eins og þau að troða okkur inn í Evrópusambandið. Er það til samstöðu fallið í íslenskum stjórnmálum í dag að Samfylkingin skuli ganga laus? Það er í raun og veru bara einn flokkur á Íslandi sem hegðar sér eins og stjórnarandstöðuflokkur, það er Samfylkingin, ekki við sem eigum þó að forminu til að heita í stjórnarandstöðu. Þetta undrar mig mjög satt best að segja. Við þurfum á öðru að halda en því að menn reyni inn í þetta viðkvæma ástand að troða hugðarefnum sínum, hver sem þau eru, af þessu tagi. Það er ekki viðfangsefnið nú í krísunni miðri þegar við reynum að lifa dag frá degi og bjarga því sem þarf að bjarga á hverjum einasta degi. Og ég hef mikinn skilning á stöðu forsætisráðherra við þær aðstæður — við höfum að undanförnu fundað daglega með honum og það er til bóta frekar en ekki neitt — að við þetta er ekki auðvelt að búa. Af hverju gengur ríkisstjórnin ekki fram samstillt og leggur deilumál til hliðar á sama tíma og við stjórnarandstæðingar reynum þó að leggja þar okkar af mörkum og verðum ekki sökuð um annað?

Það sem við þurfum að gera þegar við höfum unnið þær nauðsynlegu björgunaraðgerðir og samhliða þeim er að sameinast um, þannig að hafið sé yfir allar deilur, að setja rannsókn á þessum málum öllum í farveg. Þar þurfa margir að koma að verki, t.d. Ríkisendurskoðun sem við hlutuðumst til um að færi af stað á mánudaginn var. Það þurfa að koma menn til aðstoðar skilanefndunum sem geta farið yfir það hvað gerðist mánuðina og missirin á undan. Þess þarf að gæta að engir hagsmunir gangi undan þjóðinni, engin verðmæti sem hún á tilkall til. Hafi slíkir fjármunir verið fluttir til útlanda þarf að reyna að sækja þá og það á að bjóða öllum þeim sem kunna að eiga verðmæti á fullkomlega lögmætum forsendum erlendis og hafa auðgast á ástandinu undanfarin ár að koma heim og taka þátt í því af fúsum og frjálsum vilja að byggja þjóðfélagið upp. Ég skora á auðmenn Íslands sem kunna að eiga einhver verðmæti erlendis að koma nú með þau heim og hjálpa okkur við að byggja samfélagið upp. Geri þeir það ekki ættu þeir ekki að láta sjá sig mikið hérna á götunum.

Ég tel að um leið og við höfum róað ástandið niður og um leið og það er tímabært hljóti það að vera skylda okkar að leggja málin í dóm kjósenda, að sýna lýðræðinu þá virðingu að kosið verði nýtt Alþingi og mynduð ný ríkisstjórn. Það er algerlega óhugsandi að menn geti bara setið hver í sínu fleti eða sæti eins og ekkert hafi í skorist og treyst á að gleymskan leggi þeim líknandi hönd með því að draga það nógu lengi að bera ábyrgð á gerðum sínum. Það gengur ekki. Það er ekki lýðræðislegt, það er ekki þingræðislegt.

Stærsta verkefnið er að sameina alla krafta um að byggja landið upp, að fara í gegnum þetta og upp úr því og við höfum til þess alla burði. Það sem er mikilvægast er að mínu mati að forðast tvennt, forðast atvinnuleysi og forðast landflótta. Við megum ekki missa mannauðinn úr landi sem nú er að tapa störfum í fjármálageiranum og annars staðar í atvinnulífinu. Lærum af reynslu frænda okkar og vina, Færeyinga, sem hugsa nú hlýtt til okkar og senda okkur kveðjur. Þeirra versti óvinur upp úr kreppunni 1990 var landflóttinn, þeir misstu frá sér fjögur til fimm þúsund manns, að uppistöðu til ungt fólk, 10% Færeyinga flúðu land eða um það bil. Það væru 30–35 þús. Íslendingar og við þurfum ekki að hugsa það nema augnablik, við sjáum að þetta hlýtur að vera eitt mikilvægasta forgangsverkefnið. Við þurfum að virkja þennan mannauð og nýta hann í nýsköpun og þróun og þó að þröngt sé um fé eigum við nú að fjárfesta þannig í framtíðinni að þeim mannauði sem nú er að losna út úr öðrum störfum bjóðist tækifæri, stuðningur við að stofna ný fyrirtæki í sprotagreinum og öðru slíku. Það er óhemjumikilvægt að við drögum þetta ekki vegna þess að tíminn er naumur og fólk liggur nú á netinu í stórum stíl og skoðar atvinnutilboð út um allan heim, eðlilega og skiljanlega. Reynum að sjá til þess að sem flest störf verði í boði hér heima.

Það sem við þurfum umfram allt að gera er að endurreisa trúnaðartraust í þessu samfélagi milli stjórnmálalífs og þjóðarinnar, milli fjármálalífs og þjóðarinnar, atvinnulífs og þjóðarinnar og allra. Það gerum við ekki nema gera þessa hluti upp, axla ábyrgð, leyfa þjóðinni að velja sér nýja fulltrúa og mynda sér nýja ríkisstjórn.

Við skulum trúa á okkur sjálf og getu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar í þessu dásamlega landi sem vel að merkja er okkur dýrmætara nú en nokkurn tíma fyrr. Þess vegna út í hafsauga með allar hugmyndir um að hjóla fram hjá lögum og rétti um íslenska náttúru. Ég segi eins og ung manneskja sagði á föstudaginn var: Ekki ræna okkur landinu okkar líka, er ekki búið að taka nóg frá okkur að undanförnu?

Pössum upp á Ísland og munið svo að lokum, góðir áheyrendur, að allt vald sprettur frá þjóðinni í lýðræðisríki.



[14:06]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fordæmislaus fjármálaáföll sem hafa dunið yfir okkur Íslendinga á síðustu dögum koma við hvern einasta einstakling í landinu. Gríðarleg áhrif af því hruni sem varð í íslensku bankakerfi koma við okkur öll, valda okkur öllum búsifjum og tjóni, mismiklu, hvert á sinn hátt. Lánadrifinni ofsaþenslu síðustu ára lauk á nokkrum augnablikum með gríðarlegum afleiðingum og meginverkefni okkar á síðustu dögum og vikum hefur verið að ná utan um ástand sem gat orðið verra og alvarlegra en varð. Við vitum öll hvað hefði t.d. gerst ef greiðslukerfi bankanna hefði frosið, ef starfsemi bankanna innan lands hefði ekki haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist gagnvart fólkinu í landinu. Þetta tókst að gera með samstilltu átaki margra og það er hægt að fullyrða að á þeim erfiðu og löngu sólarhringum sem hafa gengið yfir íslenskt þjóðfélag undanfarið unnu margir Íslendingar víða í samfélaginu afrek. Þar lögðu margir hönd á plóg og þessu fólki verður seint að fullu þakkað.

Ég tek undir með þeim sem hafa mælt á undan mér að það er mikilvægt að hafa náið samstarf við Alþingi allt, stjórnarandstöðuna líka. Daglegir fundir forustumanna stjórnarandstöðunnar og forustumanna ríkisstjórnarflokkanna eru afskaplega jákvæðir hlutir og einungis upphafið að því að Alþingi allt mun koma að uppgjöri þessa máls. Það er alveg á hreinu.

Undanfarnir dagar hafa reynst okkur öllum þungir og þá er afskaplega vægt til orða tekið. Almenningur sýndi aðdáunarvert æðruleysi og hélt ró sinni í gegnum atburðina sem varð til þess að með samstilltu átaki, þrátt fyrir þessi gífurlegu og fordæmislausu áföll sem gengu yfir efnahagslíf okkar og fjármálakerfið þá gekk lífið samt sinn vanagang, sem betur fer. Við vitum öll hvaða upplausn hefði getað skapast ef almenningur hefði ekki tekið þátt í þessu, samstilltur með okkur af því að auðvitað voru margir hræddir. Auðvitað óttuðust margir um eigin hag og afkomu sína og sinnar nánustu fjölskyldu, að sjálfsögðu. Það greip okkur öll ótti í þessu ástandi en við héldum ró okkar öll sem eitt, almenningur, stjórnvöld öll, Alþingi allt og það er aðdáunarvert og það ber að þakka núna.

Það er hægt að fullyrða að aldrei í Íslandssögunni hafi annar eins brotsjór gengið yfir íslenskt viðskiptalíf og fyrir aðeins einum mánuði óraði engan fyrir því að örlög allra íslensku viðskiptabankanna yrðu með þeim hætti sem raunin varð. Það var einfaldlega veruleiki sem fáir ef nokkur gerði sér í hugarlund að gæti hafa gerst, nánast í einu vetfangi. Auðvitað hafa allt of margir tapað, allt of miklir fjármunir glatast út úr þjóðarbúinu, allt of mörg fyrirtæki berjast í bökkum og allt of mörg heimili eiga erfiðara nú en áður við að láta enda ná saman. Okkar stóra verkefni á næstu vikum og mánuðum, Alþingi og þjóðarinnar allrar, verður auðvitað að milda áhrifin af þessu mikla falli í fjármálaheiminum, milda áhrifin á almenning, slá skjaldborg utan um hagsmuni almennings, milda áhrifin á atvinnulífið í heild sinni og freista þess með öllum tiltækum ráðum að koma fyrirtækjum sem berjast í bökkum til hjálpar eins og við getum, eins og kostur er hverju sinni, til að koma í veg fyrir að enn þá fleiri lendi í erfiðleikum, að enn þá fleiri missi vinnu sína en nú þegar hefur gerst. Það er hægt að fullyrða að gríðarlegt verkefni blasir við ríkisstjórninni og Alþingi við þessar óvenjulegu aðstæður.

Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður hefur ríkisstjórnin staðið þétt saman og unnið markvisst og skipulega í gegnum þetta erfiða og flókna ferli. Strax í upphafi var slegin skjaldborg utan um hagsmuni almennings og hafa aðgerðir ríkisstjórnar borið öll þess merki að þar voru almannahagsmunir í fyrirrúmi að öllu leyti og til þess voru neyðarlögin sett. Auðvitað er hægt að minna á að ríkisstjórnin tryggði sérstaklega í upphafi hagsmuni innstæðueigenda til að freista þess að koma í veg fyrir að áhlaup yrði gert á allt bankakerfið. Allar þessar aðgerðir eru forsenda þess að við getum siglt eins hratt og kostur er inn í nýja og betri tíma.

Við þetta má bæta að ríkisstjórnin beindi þeim tilmælum í gær til bankastofnananna þriggja og tilmælum til annarra, að frysta afborganir skulda á myntkörfulánum, sérstaklega húsnæðislána, þar til ró og jafnvægi kemst á gjaldeyrismarkaðinn. Það er von okkar að þannig komist skuldarar erlendra lána sem eru mörg þúsund, yfir erfiðasta hjallann og fái sanngjarna lausn mála sinna þar til gengi krónunnar kemst í jafnvægi. Hæstv. félagsmálaráðherra er einnig að skoða heildstætt aðrar leiðir til að mæta vanda annarra. Við ætlum að draga sem kostur er úr áhrifum þessara miklu og alvarlegu atburða á almenning alveg eins og við slógum skjaldborg utan um starfsemi íslensku bankanna þá sláum við skjaldborg utan um íslenskt samfélag allt.

Það er rétt að árétta að í öllu þessu ferli hefur verið reynt af fremsta megni að vanda til verka. Auðvitað er auðvelt að gagnrýna og finna misfellur þegar svo miklir hlutir eru unnir á svo miklum hraða. Við gerum einfaldlega okkar allra besta, allir sem að þessu máli koma, freistum þess að fá sem allra flesta í lið með okkur á hverjum tíma og vonandi getum við gert enn þá betur í framhaldinu.

Það er nauðsynlegt að árétta valdmörkin sem liggja á milli stofnana og aðila í þessu hraða ferli. Það voru settar skilanefndir yfir bankana um leið og fjármálaeftirlitið tók fyrir rekstur þeirra. Skilanefndirnar hafa síðan haft umsjón með þessu flókna ferli, þær kanna ofan í kjölinn hvernig eigna- og skuldastaða bankanna liggur, haga framvindu málanna þannig að almenningur beri sem allra minnstan skaða af, þær meta eignir, vernda eignir, koma eignum í verð í framhaldinu og í kjölfarið voru skipaðar bráðabirgðastjórnir yfir bankana, Landsbankann í síðustu viku og Glitni í dag. Með því er tryggt að þau flóknu umskipti sem nú fara fram gangi eins hnökralítið og snurðulaust fyrir sig og kostur er. Þess vegna er rétt að árétta að undanfarna daga hefur verið unnið gríðarlegt starf til að koma þessu öllu áfram, til að koma í veg fyrir að brestir verði á afgreiðslusviði bankanna og því fólki sem þar átti hlut að máli vil ég þakka sérstaklega.

Á næstu dögum verður gengið frá málum með bankana, í dag með Glitni og til að árétta sérstaklega þá eru bankaráðin eingöngu skipuð til bráðabirgða, til að tryggja hnökralausa yfirfærslu þarna á milli og verða í framhaldinu, vonandi eftir örfáa daga, eingöngu og algerlega skipuð á faglegum forsendum og þar verður í engu farið eftir úreltum helmingaskiptasjónarmiðum liðinnar aldar. Enda hefur það ávallt verið skýr stefna okkar að berjast gegn hvers kyns leynimakki og vinveittum stöðuveitingum á vegum hins opinbera og við munum hafna uppbyggingu á hvers konar fyrirgreiðsluverksmiðjum. Ég fullyrði að við munum kappkosta að finna hæfasta og besta fólkið til að taka þessi verkefni að sér.

Það vita allir sem hafa fylgst með umræðunum upp á síðkastið að nú eru uppi viðræður af hálfu lífeyrissjóðanna við skilanefnd Kaupþings, um að taka yfir eða kaupa hlut af þeim rekstri. Seinni partinn í gær eða í dag kom tilboð frá lífeyrissjóðunum þangað inn og viðræður standa yfir milli aðila um það mál. Við vitum ekki núna hvernig það fer en það vita allir að það væri miklu af okkur öllum létt ef einn banki væri í rekstri annarra en ríkisins. Við sjáum hvernig þessu vindur fram og hvernig tilboðið lítur út.

Undanfarna daga höfum við séð betur en nokkru sinni fyrr hvernig fjármálalegur stöðugleiki getur farið úrskeiðis á skömmum tíma og það er brýnt að ríkisvaldið tryggi það til framtíðar að fjármálalegum stöðugleika á Íslandi verði aldrei aftur teflt í tvísýnu. Það er einn af meginlærdómunum sem við þurfum að draga af þessu og þar hljótum við að sjálfsögðu að líta til eignarhalds á íslenskum bönkum í framtíðinni.

Að sama skapi hefur þessi mikli umbrotatími kennt okkur, auðvitað með gríðarlega kostnaðarsömum og alvarlegum hætti, að félagsleg samstaða og lýðræðislegir stjórnarhættir eiga að vera meginstoðir alls staðar í samfélaginu. Þannig má segja að núna fari í hönd nýir tímar með nýju gildismati. Tími ofurlaunanna er liðinn og við taka nýir tímar með félagslegum, sanngjörnum og siðferðilegum undirstöðum.

Það er mjög mikilvægt, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan, að fram undan sé og fari fram hispurslaust uppgjör við fortíðina og aðdragandann að þessu máli öllu saman. Að því uppgjöri er mjög mikilvægt, að mínu mati, að Alþingi og allir flokkar komi. Það hispurslausa og heiðarlega uppgjör er grundvöllur endurreisnar að nýju, að betra og sanngjarnara Íslandi. Það er mikilvægt fyrir þjóðfélagið og almenning í landinu og öll íslensk fyrirtæki að nota tækifærið og draga lærdóm af reynslunni, skoða hvernig málum var háttað og af þessum sökum er það algert lykilatriði að uppgjörið fari fram. Þar verða öll spil lögð á borðið, engum hlíft og engum skotið undan. Þar verður litið til allra átta. Við drögum ekki fram neina sökudólga fyrir fram. Við förum einfaldlega heiðarlega í gegnum málið allt. Slík rannsókn er forsenda þess að við Íslendingar og þjóðfélag okkar geti lært af reynslunni og jafnframt notað þessa bitru reynslu til að efla jöfnuð hjá okkur, félagslegar framfarir og fjármálalegan stöðugleika. Það er einnig brýnt að almenningur í landinu geti treyst því að fram komi með skýrum hætti hvernig framvinda og aðdragandi allra þessara mála var. Þannig og aðeins þannig verður hægt að endurvinna það traust sem nauðsynlegt er og hefur beðið hnekki á meðal almennings og ýmissa máttarstoða í þjóðfélaginu. Í framhaldi af því munum við svo að sjálfsögðu endurskoða allt okkar regluverk, fjármálaumhverfið og þannig standa vörð um okkar öfluga velferðarkerfi.

Það er trú mín, virðulegi forseti, að þrátt fyrir allt, þrátt fyrir þá erfiðleika sem ganga núna yfir íslenskt þjóðfélag og íslenskt viðskiptalíf, yfir allt samfélagið, þá muni Íslendingar rísa með undraverðum hraða upp að nýju og ná sínum fyrri styrk. Við munum ná okkar fyrri styrk og við munum gera miklu betur, miklu fyrr en margir halda nú þegar þessi áföll ganga yfir okkur. Okkur mun ganga vel að vinna okkur út úr þessu. En til þess að það verði mögulegt þá er höfuðatriði að við leggjum öll spil á borðið og förum heildstætt yfir málið allt. Atburðir síðustu daga hafa sýnt okkur hvernig við verðum að gera betur á svo mörgum sviðum og þar verðum við að líta til allra átta. Við munum rísa upp sterkari en nokkru sinni fyrr. Það var mikið verk að ná utan um afleiðingar af falli bankanna. Við þurfum að greiða úr þeirri stöðu. Það er langt frá því að því verki sé lokið. Þar er mikið verkefni fram undan fyrir Alþingi. Við munum slá skjaldborg utan um hagsmuni Íslendinga allra. Svartasti kaflinn er vonandi og örugglega að baki. Nú tekur við tími endurreisnar, uppbyggingar, auðvitað uppgjörs líka eins og við höfum talað um í dag. Það liggur endurreisninni algerlega til grundvallar, en við munum byggja upp nýtt, betra og réttlátara samfélag eftir þessi áföll öll.



[14:20]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Allt hefur farið á versta veg, bæði hér og um víða veröld. Segja má að heimsstyrjöld geisi um viðskipti og fjármagn, þannig að þetta eru erfiðir tímar sem við lifum á. Auðvitað sá enginn þessa þróun fyrir, það sá enginn að þessir atburðir gætu átt sér stað. Hitt er ljóst að margir fluttu varnaðarorð um heimskreppuna í fjármálum þegar hún var að hefjast í Bandaríkjunum fyrir rúmu ári og hafa viðhaldið þeim varnaðarorðum. Á þau hefur því miður ekki verið nóg hlustað hér og aðgerðaleysi og lítill undirbúningur segir sína sögu.

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi segja: Ábyrgðina, uppgjörið og sannleikann um ástæður alls þessa verður að greina. Þar verða að koma að virtir endurskoðendur, virtir lögmenn, allir flokkar á Alþingi og þess vegna erlendir aðilar til að vinna að slíku með okkur.

Við framsóknarmenn stóðum að setningu neyðarlaganna hér á Alþingi. Við sáum í hendi okkar, eins og ástandið var, að hér var þjóðarvoði og að skjótt yrði að bregðast við. Við treystum okkur ekki til annars en að greiða neyðarlögunum atkvæði okkar. Við töldum þau björgunarbát til þess að fara í það stóra verkefni að bjarga hagsmunum almennings, fjármagni fólks og fyrirtækja, aðskilja íslenska og erlenda hagsmuni til þess að Ísland gæti risið á ný til sóknar ekki hlaðið skuldum og þeim miklu erfiðleikum sem við blöstu. Ég vona sannarlega að sú vegferð gangi.

Ég verð að gagnrýna ríkisstjórnina og forsætisráðherrann sérstaklega fyrir það að hafa ekki þegar snúist af fullri hörku og ákært þegar breska forsætisráðherrann og bresku ríkisstjórnina fyrir fólskulega og hatramma árás á íslensku bankana í Bretlandi, á íslenska þjóð. Þeir beittu hryðjuverkalögum þegar þeir réðust inn í Landsbankann þar vegna Icesave-innlánsreikninganna. Þeir réðust jafnframt inn í Kaupþingsbankann þar með sama hætti sem var breskur banki á EES-svæðinu í góðri stöðu og fullum rétti. Hryðjuverkalög — fáheyrð aðferð gegn lítilli vinaþjóð. Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti. Hinn siðmenntaði heimur hlýtur að fordæma slík vinnubrögð.

Aðferð Landsbankans, að opna og reka innlánsstarfsemi í Bretlandi og Hollandi, er ámælisverð, með ríkisábyrgð Íslendinga á bak við sig. Íslenskir, hollenskir og breskir eftirlitsaðilar þurfa að svara því af hverju ekki var gripið í taumana í ljósi áhættunnar sem okkur var sköpuð. Ég varð hins vegar aldrei var við að íslenskir ráðamenn segðu að þeir ætluðu að hundsa og hafa að engu þessa ábyrgð. Ég trúi því ekki að fjármálaráðherra hafi sagt breskum kollega sínum að það væri ætlunarverk okkar.

Hitt þarf svo að vera á hreinu að í þessu efni sem öðru förum við ekki fram úr skyldum íslenska ríkisins. Hinu hlýtur breski forsætisráðherrann, Gordon Brown, að hafa gert sér grein fyrir, að hryðjuverkalög og vopnuð lögregla mundi einnig ríða Kaupþingsbankanum breska og móðurfélaginu íslenska að fullu. Það var framið vopnað rán. Banka var rænt og móðurfélagið féll samstundis hér heima. Íslenska þjóðin var samstundis rúin mannorði sínu og heiðarleika í samfélagi þjóðanna. Lítil drengskaparþjóð sem er þekkt fyrir það eitt að leggja gott til málanna. Þvílík meðferð. Dýr mundi Hafliði allur, var sagt forðum. Þessi fólska gerði það að verkum að íslenska ríkisstjórnin fékk alla bankana þrjá í fangið með þeim ofvöxnu fjárfestingum sem þeim tilheyrðu. Risavaxið verkefni. Allt benti til þess að Kaupþingsbankinn mundi standa af sér bankakreppuna, það sögðu Svíar, það sagði Seðlabankinn hér.

Við framsóknarmenn teljum að Bretana eigi að kæra strax, kæra þá sem samstarfsþjóð á hinu Evrópska efnahagssvæði, kæra þá fyrir ólögmæta og einstaka aðför að lítilli vinaþjóð og fyrir að úthrópa Ísland gjaldþrota. Það gerði forsætisráðherra þeirra. Slík yfirlýsing hafði lamandi áhrif á framsækin íslensk fyrirtæki. Út á þessa yfirlýsingu Browns er verið að stöðva viðskipti Íslendinga um víða veröld fram á þennan dag. —Við Íslendingar töldum okkur starfa samkvæmt löggjöf á forsendum samninga og siðareglna á hinu Evrópska efnahagssvæði. — Við eigum að kæra bresku ríkisstjórnina til Brussel, kæra breska heimsveldið til hæstu skaðabóta. Breskar lögmannsstofur hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé réttur Íslands. Ég hef sannfrétt að til Íslands séu þegar komnir breskir lögmenn vegna Kaupþingsmálsins. Fróðlegt væri fyrir þingnefndir Alþingis, á sviði laga og réttar og viðskipta, að fara yfir stöðu þessa máls með bresku lögmönnunum sem hingað eru komnir. Ég tel enn fremur að við eigum að kæra breska forsætisráðherrann og ríkisstjórn hans sem brotlega þjóð til alþjóðasamfélagsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, framferði þeirra er mannréttindabrot af verstu gráðu.

Breska þjóðin fordæmir örugglega ráðamenn sína. Breska þjóðin veit að hér á hún vini í varpa sem í heimsstyrjöldinni opnuðu land sitt. Landhelgisstríðin voru að vísu hörð en þeim lauk með því að þjóðarleiðtogar beggja landanna hjuggu á þann gordíonshnút. Við urðum að vísu að grípa til örþrifaráða. Geir Hallgrímsson og Ólafur Jóhannesson beittu þeirri nauðvörn að slíta stjórnmálasambandi við Bretland. Þarf þess nú, hæstv. forseti? Við Íslendingar vinnum ekki heiminn á okkar band nema bæði með mýkt og hörku. Mannorðið er farið. Við verðum að verjast. Við verðum að sækja okkar rétt og sýna bresku ríkisstjórninni að drenglynd og heiðarleg þjóð ver mannorð sitt með kjafti og klóm. Við framsóknarmenn óttumst að ómarkviss og taugaveikluð vinnubrögð af hálfu íslenskra stjórnvalda kunni að valda því að íslenska ríkið verði að taka á sig óbærilegar byrðar horft til framtíðar.

Hæstv. forseti. Ég trúi því að á rústum þessarar fjármálakreppu rísi hið nýja Ísland, framsækið, varkárt og heiðarlegt. Fláræðið og frjálshyggjan hafa fengið löðrung. Græðgin verður að víkja fyrir þeim lögmálum viskunnar sem gamla fólkið kenndi okkur í frumbernsku. Eitt þeirra var: Allt kann sá sem hófið kann — að best væri að þræða hinn gullna meðalveg milli öfganna.

Er hætta á því að í hinu fallna bankakerfi séu að störfum menn sem nú standi uppi við pappírstætarana og eyði upplýsingum? Ég spyr. Þjóðin sem nú tekur á sig ómældar fórnir af völdum fárra manna gerir kröfur um að öll kurl komi til grafar. Það þarf eftirlit Alþingis á bak við skilanefndirnar. Það þarf þess vegna erlenda löggilta endurskoðendur til að skapa traust. Jafnræði þarf að gilda milli vinnubragða skilanefndanna. Einstaklingar og fyrirtæki þurfa að njóta jafnræðis. Mikilvægt er að tryggja að eignir bankanna, sem nú eru eignir ríkisins, fari ekki fyrir lítið. Þessum eignum verða skilanefndir bankanna að gera sem mest verðmæti úr til þess að þjóðarskuldir verði sem allra minnstar. Annars rís Ísland ekki til nýs hagvaxtar. Þá flytur ungt fólk frá okkur. Þá hverfur líka margt duglegt fólk á braut. Það er flókin leið að endurreisa Kaupþing með lífeyrissjóðunum. Þar ber að vanda sig, ekki síst að samstarfsaðilinn sé hreinn ef til þess kemur. Ég tel mikilvægt að hið fjölþætta og almenna starfsfólk Kaupþings verði með í ráðum. Þessi skoðun má ekki tefja endurreisn Kaupþings í marga daga því að það þarf að rísa til viðskipta.

Það vaka ýmsir hrægammar, íslenskir sem erlendir, yfir því að ná eignunum af íslenskri þjóð. Það var óheppilegt að viðskiptaráðherra skyldi fram hjá skilanefndunum eiga fund með íslenskum auðmanni og breskum auðmanni sem var hingað kominn í þeim tilgangi að klófesta á engu verði eignir sem eiga að ganga upp í skaðann. Slíkir fundir ráðherra skaða íslenskan trúverðugleika og skapa áhættu.

Það var enn fremur stór frétt, sem þarf að skýra við þessa umræðu, í sjónvarpinu í gærkvöldi. Sagt var að Landsbankinn hefði beðið breska hagfræðinga að vinna skýrslu þar sem í ljós hefði komið að íslenska bankakerfið stæðist ekki til lengdar. Þessari skýrslu á að hafa verið stungið ofan í skúffu af ráðherra eða ráðherrum. Ég spyr: Sáu og lásu forustumenn ríkisstjórnarinnar þessa skýrslu?

Ég óttast að ríkisstjórnin sé ósamstiga. Þar tala bæði ráðherrar og þingmenn því miður út og suður. Hvers vegna kýs formaður Samfylkingarinnar að hræra í blóði Sjálfstæðisflokksins við þessar aðstæður? Evran og Evrópusambandið eru ekki verkefni dagsins. Þær umræður voru lýðræðislegar fyrir einum mánuði, nú þjóna þær ekki tilgangi. Við erum stödd í verstu krísu lýðveldistímans. Leiðin að myntsamstarfi Evrópu verður ekki á dagskrá í bráð. Við skulum nú sitja einir að auðlindum Íslands, Íslendingar, bæði til lands og sjávar. Þar munum við endurreisa efnahag okkar. Að fórna þremur seðlabankastjórum er fánýt umræða. Ég tel meira að segja að ríkisstjórnin, sem ég hef litla trú á, verði að sitja og eigi að róa á bæði borð. Það er hægt að kjósa og gera pólitíkina upp síðar.

Annar flokkurinn sér bara Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem lausn. Liggja skilyrði hans fyrir ef eftir láni yrði leitað? Hver eru skilyrðin? Fyrr er ekki hægt að ræða eða fortaka fyrir hjálp hans. Ég þekki það hins vegar að úrræði sjóðsins eru harðsoðin. Stýrivaxtalækkun er, að mér er sagt, talin vont úrræði á þeim bæ. Þeir vilja jafnvel hækka þá. Íbúðalánasjóður fólksins sem við framsóknarmenn höfum byggt upp og varið verður að lifa. Stýrivaxtalækkunin er mikilvægasta og brýnasta efnahagsaðgerðin á síðustu mánuðum. Útlánsvextir í 25% eru drápsklyfjar fólks og fyrirtækja. Ég fagna sérstaklega stýrivaxtalækkun Seðlabankans í morgun. Betur má ef duga skal.

Við framsóknarmenn höfum margbent á að sú hagfræði sem allar ríkisstjórnir og seðlabankar beita sér fyrir síðustu mánuði er að keyra niður stýrivexti til bjargar fólki og fyrirtækjum, það er leiðin. Við þurfum enn fremur við þessar aðstæður að sækja auð í auðlindir okkar. Þorskveiðikvóta verður að auka strax. Nú þakka allir fyrir að eiga bændur og landbúnað, að matvælaöryggið sé tryggt. Hálft ár er frá því að ráðherrar í ríkisstjórninni vildu fórna svína-, eggja- og kjúklingaframleiðslunni. Ég skora á landbúnaðarráðherra að flýta sér ekki að lögfesta matvælalöggjöf Evrópu við þessar aðstæður.

Ísland á í gegnum ferðaþjónustu að geta risið til að skapa hér miklar tekjur. Það hefur gengið vel á síðustu árum. Við verðum enn fremur að losa bæði Helguvík og Húsavík úr fari hindrana. Báðar þessar framkvæmdir eru í undirbúningi og verða nú að fá framgang. Samfylkingin getur ekki dauðrotað þessi verkefni.

Hvað með íslenska ákvæðið í Kyoto? Verður því haldið til haga áfram? Hvar stæði þessi þjóð ef ekki hefði á síðustu árum ríkt framleiðslu- og útflutningsstefna á Íslandi á öllum sviðum? Gengi krónunnar þarf að styrkja og það verður að vera í þágu útflutnings og framleiðslunnar til að gjaldeyrir komi inn í landið.

Hæstv. forseti. Ég trúi því að Ísland muni rísa þegar moldviðrinu linnir. Við erum dugleg þjóð og fljót á lappirnar á ný. Við erum oft snarpari þegar gefur á bátinn. Mannauðurinn er dýrmætasta auðlindin. Við bítum á jaxlinn og bölvum í hljóði. Nú beitum við oddinum fast. Ísland skal rísa og líta margan hamingjudag. Ég vona þrátt fyrir allt að sterkir íslenskir og norskir kögglar í hæstv. forsætisráðherra færi honum þrek. Færi honum þrek til að skapa samstöðu í ríkisstjórn sinni og skapa samstöðu með íslenskri þjóð til þess að komast yfir heiðina í þessu illviðri. Það þarf eina þjóðarsál og samstöðu. Það er það eina sem við þurfum nú á að halda, Íslendingar.



[14:35]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra gaf okkur áðan munnlega skýrslu um stöðu bankakerfisins og þann vanda sem orðinn er í kjölfar gjaldþrots Landsbanka Íslands, Glitnis og Kaupþings eins og við þekkjum. En hvernig sem á skýrslu hæstv. forsætisráðherra er litið og málin metin er ekki hægt að komast hjá þeirri hugsun og niðurstöðu að ríkisstjórnin og stjórnkerfið brugðust. Okkur hefur verið sagt að hingað hafi borist skýrslur um hvað í vændum var en þeim var stungið undir stól vegna þess að þær þóttu innihalda skaðlegar upplýsingar um fjármálakerfi íslensku bankanna. Ljóst er að bæði Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið máttu sýna meiri leiðsögn við þessar aðstæður. Það var vísbending um lítið traust fjármálayfirvalda í Bretlandi á íslenskum fjármálafyrirtækjum að illa gekk að koma Icesave-reikningsstarfseminni í Landsbanka Íslands yfir í breskt fyrirtæki. Það bendir allt til þess að ráðherrarnir hafi sofið á vaktinni og þess vegna kom þetta okkur í svo opna skjöldu sem raun varð á. Fjöldamörgum spurningum er ósvarað og þrátt fyrir að mikið hafi verið unnið að þessum málum víða í kerfinu höfum við ekki fengið nein svör. Ég spyr, hæstv. forseti: Hvenær koma þau? Það má m.a. spyrja um eftirfarandi?

Var starfsemi bankanna eðlileg og lögleg síðustu vikur og mánuði? Hvenær fer rannsókn af stað um störf og stöðu þeirra sem stjórnuðu og áttu mest í bönkum? Seldir voru hlutir í Landsbanka Íslands skömmu fyrir gjaldþrotið. Af hverjum voru hlutirnir keyptir? Mun misferlið leiða til frekari bótaskyldu íslenska ríkisins sem ábyrgðaraðila? Vita svokallaðar skilanefndir í dag, þó að það hafi ekki verið upplýst, hvort íslenska ríkið hafi gengist í ábyrgð fyrir bankana víðar, hvort meira kemur í ljós og þá hvar, varðandi hvaða störf og starfslönd bankanna?

Í fyrradag bárust okkur fréttir um 46 milljarða ábyrgðir í Þýskalandi. Spyrja má um önnur lönd. Hvað með Lúxemborg? Hvað með Belgíu? Er von á meira og þá hvaðan? Það er von að spurt sé hvort við höfum heildaryfirlit í dag yfir skuldir og ábyrgðir Íslendinga og eignir bankanna á móti eins og þær eru metnar. Það er vissulega rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði í skýrslu sinni að það liggur mikið við að vernda eignir íslensku bankanna, reyna að viðhalda eignastöðunni og fá sem mest fyrir eignirnar til að minnka þær skuldbindingar sem ella munu lenda á íslenska ríkinu.

Þar sem minnst var á lán frá Rússum sem hafa boðið okkur fyrirgreiðslu af velvild, að því ég vil meina, hefði verið fróðlegt að fá svör við því hvort þau mál verða kláruð í dag, hvort sendinefndin í Rússlandi hefur það umboð að klára að ganga frá málum við Rússa með lánasamningi ef mál skipast með þeim hætti eða munu þau verk dragast á langinn? Þarf sendinefndin að koma heim til að fá nýtt og endurnýjað umboð til framhaldsins? Mér finnst skorta á að við fáum skýr svör þó að hæstv. ráðherrar komi og tali um vandamálin og skilgreini þau. Ég tel að taka eigi það lán sem Rússar bjóða, sérstaklega í núverandi stöðu. Það væri best að það lán væri áfangalán sem við gætum tekið eftir brýnum þörfum þjóðarinnar í áföngum eins og við sjálf teljum henta við núverandi aðstæður. Það væru líka skilaboð til þeirra þjóða sem veist hafa að okkur með óvild eins og ég tel að gert hafi verið undir forustu Gordons Browns. Þar hefur verið vegið að íslenskum hagsmunum með ódrengilegum hætti og allt að því unnin skemmdarverk gagnvart okkur Íslendingum.

Eitt er víst, hæstv. forseti, að við þurfum núna lánsfé án þeirra skilyrða sem við getum átt von á frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við þurfum að geta metið okkar eigin stöðu án þess að okkur séu sett of stíf skilyrði í núverandi stöðu. Við verðum að tryggja viðskipti okkar og gjaldeyrisforða sem allra fyrst og kortleggja stöðu okkar vegna þeirra áfalla sem glæfrafjárfestingar fárra manna hafa sett þjóðina í. Hvað gert verður við bankana í framtíðinni er síðari tíma mál. Við þurfum núna örugg og trygg bankaviðskipti. Áratugaviðskiptasambönd manna og fyrirtækja erlendis geta verið í hættu ef greiðslur í gjaldeyri eru fastar í kerfinu. Hvernig lítur ríkisstjórnin á að lífeyrissjóðirnir kaupi meiri hluta í Kaupþingi eins og látið hefur verið í ljós af þeirra hálfu? Hvernig á með þau mál að fara? Ætlar ríkisstjórn áfram að eiga í Kaupþingi ef af verður eða ætlar ríkisstjórnin að losa sig við það ef einhverjir fjárfestar vilja kaupa alla hluti. Ég vil lýsa skoðun minni á því máli: Ég tel að þó að lífeyrissjóðirnir kaupi 51% hlut í bönkunum eigi ríkissjóður samt sem áður ekki að selja allan sinn hlut, hann eigi að halda þar 30% að lágmarki. Það er skoðun mín í núverandi ástandi. Okkur liggur ekki á að selja bankana aftur í einkarekstur eftir þá meðferð sem íslenska þjóðin hefur fengið undir einkarekstri þeirra.

Hæstv. forseti. Á morgun er ætlunin að ræða fjáraukalagafrumvarp fyrir árið 2008. Eins og ástandið er nú er að sjálfsögðu allt í uppnámi og sama má segja um fjárlög næsta árs. Vafalaust verðum við að skera niður á næsta ári þó að það verði ekki auðvelt, enda verðum við að standa að verklegum framkvæmdum og ríkissjóður þarf að vera virkur þátttakandi í því að halda uppi atvinnu á samdráttar- og jafnvel krepputímum. Við þurfum með öllum ráðum að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fólks og fyrirtækja svo að atvinnulífið haldi sem best áfram.

Ég spyr, hæstv. forseti, hvort ríkisstjórnin hafi rætt við aðila sem starfa á byggingamarkaði um horfur til þess að verkum verði haldið áfram? Það skiptir miklu fyrir atvinnustigið hvort verktakar í byggingarstarfsemi ná að halda áfram starfsemi sinni þó að vissulega sé ljóst að mínu viti að þar muni ekki allir halda velli. Hvers er að vænta varðandi aukningu kvóta í þorski og síld og hugsanlega öðrum fisktegundum nú þegar? Með því að auka kvótann mundum við stuðla að auknum tekjum. Ég heyrði orð hæstv. forsætisráðherra þar sem hann talaði um að það væri nokkuð sem við ættum í handraðanum fyrir framtíðina. Ég spyr hvort við þurfum ekki að bregðast við í núinu, afla okkur tekna, auka bjartsýni í íslensku þjóðfélagi og stuðla að auknu atvinnuöryggi. Framleiðsla, tekjur og störf eru skilyrði þess að við komumst sem best frá þeim þrengingum sem vissulega verða á vegi okkar Íslendinga næstu árin. Það mun reyna á velferðarkerfi okkar og afkoma aldraðra, öryrkja, atvinnulausra og láglaunafólks verður erfið. En einkum þess vegna þurfum við að standa vörð um velferðarkerfi okkar og styrkja afkomu fólks eftir megni. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum lagt það til með þingmáli í Alþingi að tekjur fólks úr almennum lífeyrissjóðum verði með frítekjumark gagnvart tekjutryggingu úr almannatryggingum líkt og atvinnutekjur og síðan séreignarsparnaður um næstkomandi áramót. Ég tel að sú tillaga sé þáttur í því að hjálpa fólki að bregðast við þeim aðstæðum sem nú eru uppi, minnkandi tekjum og minni tekjumöguleikum.

Það var merkilegt að heyra fréttaviðtal Stöðvar 2 við Ágúst Einarsson, rektor við Viðskiptaháskólann í Bifröst, í gærkvöldi. Ágúst er, eins og kunnugt er, fyrrverandi alþingismaður jafnaðarmanna á Íslandi og nú síðast fyrir Samfylkinguna sem nú er í ríkisstjórn. Ágúst var ómyrkur í máli og sagði að stjórnvöld hefðu staðið sig afburðailla. Allt hafi verið gert vitlaust í þeirri kreppu sem steðjað hefur að og skollin er á af fullum þunga. Búið sé að leggja bankakerfið í rúst á tveimur og hálfri viku og búa þannig um hnútana að hér verður stórfellt atvinnuleysi og kjaraskerðing sem mun vara um mörg ár, jafnvel áratugi. Ágúst sagði einnig að þótt margt hefði verið óumflýjanlegt vegna ytri aðstæðna hefðu verið gerð mistök í þessu ferli. Hann talaði um dæmalaust viðtal bankastjóra Seðlabankans í sjónvarpi og viðtal íslenska fjármálaráðherrans við þann breska. Það hafi valdið því að mannorð okkar í viðskiptum erlendis sé nú „farið fjandans til“, svo að vitnað sé beint í orð rektors, með leyfi forseta, og óvíst hvenær við vinnum það aftur. Viðskiptaprófessorinn sagði að fyrir löngu hefði átt að vera búið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum. Töf á því valdi nú stórkostlegu tjóni.

Virðulegi forseti. Þar talaði einn af okkar virtustu fræðimönnum innan efnahagsmála og hagfræði. Hann er ekki samflokksmaður þess sem hér stendur heldur tengdur innsta hring Samfylkingarinnar, varfærinn og athugull maður, einn af okkar helstu trúnaðarmönnum í forustu Samfylkingarinnar. Varaformaður Samfylkingarinnar sagði í þinginu í gær að mikið hafi farið úrskeiðis í fjármálakreppu þjóðarinnar. En þegar hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, var spurður um ábyrgð benti hann á Fjármálaeftirlitið og Landsbankann sem ekki fóru að kröfum Fjármálaeftirlitsins. Ég spyr, hæstv. forseti: Hvar var ríkisstjórnin og hið virka aðhald Samfylkingarinnar í þessum málum? Viðskiptaráðherra ber ábyrgð á þessum málum, eins og segir í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta í 8. gr. laganna. Það geta þingmenn kynnt sér og lesið. Þar ber viðskiptaráðherra beina ábyrgð á því að sjá til þess að óeðlileg starfsemi haldi ekki áfram. Ég spyr hvort sú aðvörun sem viðskiptaráðherra á að senda bönkunum hafi verið send samkvæmt þeirri lagagrein. Voru ráðherrarnir á vakt, í þessu tilfelli hæstv. viðskiptaráðherra? Er það svo að stór hluti þingmanna Samfylkingarinnar reyni nú að færa ábyrgð sína sem aðilar að ríkisstjórn, yfir á aðra? Rætt er um aðild að Evrópusambandinu eins og það bjargi einhverju í þeirri stöðu sem við erum nú í. ESB-veiki sumra þingmanna Samfylkingarinnar skaðar okkur öll við núverandi aðstæður. Hún veldur okkur erfiðleikum og býr til þá skoðun í þjóðfélaginu að ríkisstjórnin sé alls ekki samtaka í málinu, höndli ekki málin sem verið er að vinna með. Ég mælist til þess að Samfylkingin ýti nú þeirri umræðu til hliðar þannig að hún valdi ekki frekari skaða á þessum erfiðu tímum en þegar er orðið. Ég tel að annað sé ábyrgðarleysi.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að íslenska þjóðin muni vinna sig út úr þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Það getur þurft að taka á mörgum erfiðum hlutum, skattbreytingum og mörgu öðru, en þá á sérstaklega að horfa til þeirra (Forseti hringir.) sem hafa ofurtekjur í þjóðfélaginu.



[14:51]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Eftir að alþjóðlega lánsfjárkreppan kom íslenskum bönkum og fjármálalífi í þrot í síðustu viku er óhætt að segja að íslenska þjóðin standi á krossgötum. Það fárviðri sem nú geisar á fjármálamörkuðum um allan heim hefur komið sérstaklega illa niður hér á landi og við höfum misst mikið. Enda voru bankarnir okkar meðal stærstu fyrirtækja landsins með starfsemi úti um allan heim sem hefur fært okkur miklar tekjur og mikil verðmæti undanfarin ár. Hugur minn og okkar allra í ríkisstjórninni er með þeim sem eiga nú um sárt að binda vegna áfalla sem orðið hafa. Ég vil fullvissa fólk um að stjórnvöld eru að gera og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að veita aðstoð, upplýsingar og ráðgjöf.

Ég vil sérstaklega fagna því, frú forseti, sem forsætisráðherra gat um hér áðan, að rannsaka beri það sem úrskeiðis hefur farið. Það er mikilvægt að brugðið verði upp heildstæðri mynd af því sem gerðist og að allir flokkar komi að þeirri myndbirtingu. Ég vil hins vegar vara við því að farið verði af stað með fullyrðingar og sleggjudóma er byggja einvörðungu á vangaveltum og getgátum, hvort sem það er hér í þingsal eða annars staðar. Við höfum slæma reynslu af slíku.

Á fundi sem haldinn var fyrir skömmu með Fjármálaeftirlitinu í einum af bönkunum stóð upp kona og bað fyrir skilaboð til stjórnmálamanna og ráðamanna að þau sem bankastarfsmenn væru ekki brotamenn. Við skulum því tala gætilega, stjórnmálamenn í öllum flokkum, hvar sem okkur er að finna í þjóðfélaginu. Einnig skulum við óhikað fara vel yfir fortíðina og þannig styrkja okkur í nútíð og efla okkur til framtíðar.

Á sama tíma og við reynum að ná áttum og takast á við erfiða stöðu er ljóst að framtíðin bíður ekki eftir okkur. Við megum engan tíma missa í uppbyggingu og eigum að ganga keik og ákveðin til verkanna sem fram undan eru. Okkur gefst ótrúlegt tækifæri til að stokka spilin og setja okkur ný markmið. Þegar við lítum til baka eftir nokkur ár og veltum fyrir okkur því sem gerst hefur, munum við ekki síður horfa til þess hvernig við sem þjóð nýttum tækifærið til þess að snúa vörn í sókn og byggja okkur upp til framtíðar.

Fyrstu skrefin á þeirri vegferð eru að tryggja að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast. Ríkisstjórnin leggur nú allt kapp á að gjaldeyrisviðskipti við útlönd komist í lag og að traust myndist milli manna þannig að gjaldeyrir flæði eðlilega um kerfið, bæði hér heima og á milli landa. Gífurlega mikilvægt er að koma því í lag sem allra fyrst og ég skora á alla að gera sitt til að svo geti orðið.

Það er fagnaðarefni að Seðlabankinn tók af skarið í dag og lækkaði vexti og byrjaði þannig að losa fyrirtæki úr spennitreyju hávaxtastefnunnar. Þetta var skynsamleg ákvörðun. Við þurfum á öllu okkar að halda og höfum ekki efni á að fyrirtæki leggi upp laupana.

Mikið áhyggjuefni er hversu erfitt hefur verið að þjónusta íslenska nemendur erlendis og koma til þeirra framfærslueyri. Allra leiða er nú leitað til að koma því í eðlilegt horf. Þetta er algjört forgangsmál því að við verðum að tryggja að ástandið hafi sem minnst áhrif á námsmenn okkar erlendis og trufli þá ekki í námi.

Hæstv. forseti. Á grundvelli neyðarlaganna sem Alþingi samþykkti í síðustu viku til að tryggja hagsmuni almennings hefur Fjármálaeftirlitið tekið yfir starfsemi Landsbanka, Glitnis og Kaupþings. Starfsemi þeirra tveggja fyrstnefndu hefur verið komið inn í félög sem hafa þegar tekið til starfa. Skjót vinnubrögð í því máli ber að þakka enda höfum við engan tíma mátt missa. Brýnt er að tryggja að innviðir bankakerfis okkar séu virkir bæði innan lands og við útlönd.

Í fjölmiðlum hefur að undanförnu komið fram að lífeyrissjóðir hafi lýst yfir áhuga á að festa kaup á ráðandi hlut í Kaupþingi. Ég fagna því ef unnt verður að koma málum svo fyrir að hér starfi alla vega einn stór banki í einkaeigu. Lífeyrissjóðir hafa hag af því að vinna til baka tapið sem þeir urðu fyrir vegna falls Kaupþings og því tel ég brýnt að þessi möguleiki verði skoðaður vandlega.

Í umróti undanfarinna daga hafa ýmsir haldið því fram að einkavæðing bankanna hafi verið mistök, að hinn opni og frjálsi markaður hafi verið mistök. Ég mótmæli þessu harðlega og hvet menn til að hafa í huga þau verðmæti, þá nýsköpun og þann kraft sem einkavæðing, til að mynda banka og annarra ríkisfyrirtækja, gaf okkur, en öllu frelsi fylgir mikil ábyrgð. Ábyrgðarhlutverkið var ekki tekið nægilega alvarlega á síðustu missirum.

Vissulega gerðum við öll mistök, við verðum öll að líta í eigin barm eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, stjórnmálamenn, forustumenn fyrirtækja, eftirlitsstofnanir, Seðlabanki og ekki síst fjölmiðlar, allir eiga hér hlut að máli. (Gripið fram í.) Breytingar sem urðu á samfélaginu gerðu það að verkum að Ísland varð eftirsóknarverður staður. Unga fólkið okkar kom heim, vel menntaða fólkið okkar kom heim, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Við fengum kraftmikið og vel menntað fólk inn í samfélagið og hefur það gefið af sér mikil verðmæti. Við verðum að muna úr hvaða ástandi við vorum að koma þegar tekin var ákvörðun um að einkavæða bankana, sem höfðu verið í ríkiseigu með tilheyrandi pólitískum áhrifum og ítökum í starfsemi þeirra. Það væri mikil afturför ef áföll liðinnar viku yrðu til þess að við mundum hverfa varanlega aftur til þess tíma þegar bankarnir lutu alfarið pólitísku valdi og flokksskírteini en ekki færni réð því hverjir fengu lán og fyrirgreiðslu hjá bönkunum.

Ég tel afar brýnt, hæstv. forseti, að við skerum sem allra fyrst á naflastrenginn sem er byrjaður að myndast á milli ríkisvaldsins og nýju bankanna og sést m.a. á því að pólitískir fulltrúar sitja í stjórnum nýju bankanna. Tími pólitískra pótintáta má ekki renna upp að nýju í bankakerfinu. Núverandi ástand er algjör bráðabirgðaráðstöfun á meðan verið er að ganga frá lausum endum en ég tel forgangsmál að fagfólk komi að stjórnun nýju bankanna og stefnumótun þeirra alveg frá byrjun. Ljóst er að öðruvísi skapast ekki traust á starfseminni. Ég fagna sérstaklega ummælum hæstv. viðskiptaráðherra hér áðan þar sem hann dró þetta sérstaklega fram en sá ágæti maður hefur heldur betur staðið vaktina vel að undanförnu.

Með uppskiptingu bankanna kemur margt hæfileikaríkt og velmenntað starfsfólk út á vinnumarkaðinn. Ég legg mikla áherslu á að við höldum vel utan um þennan hóp og tryggjum honum næg viðfangsefni hér heima enda væri miður ef við misstum þetta öfluga fólk úr landi. Undanfarin ár höfum við sem betur fer lagt áherslu á að byggja upp og styrkja umhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja hér á landi og ég vona að þar finni sem flestir kröftum sínum farveg á næstunni. Við þörfnumst frumkvöðla og framsækinna hugmynda og þess að ríki, sveitarfélög, háskólar, fjármálastofnanir og fyrirtæki vinni saman að því að virkja sprengikraftinn sem í þessum mannauði felst. Það mun skila okkur fyrr inn í gifturíka framtíð.

Frú forseti. Nú sem fyrr skiptir máli að byggja upp í menntamálum. Við stöndum á krossgötum og verðum að hafa kjark til að forgangsraða og taka stórar ákvarðanir. Engin fjárfesting er tryggari fyrir framtíðina en að fjárfesta í menntun, rannsóknum og nýsköpun enda sýnir reynsla þjóða sem það hafa gert að slíkar ákvarðanir margborga sig og leiða til aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu. Þar bendi ég sérstaklega á reynslu Finna sem tóku þá ákvörðun í erfiðri stöðu á sínum tíma að veðja á menntun, ákvörðun sem hefur svo sannarlega margborgað sig fyrir finnskt samfélag. Í byrjun síðasta áratugar gengu þeir í gegnum eina dýpstu efnahagslægð vestrænna landa í marga áratugi. Bankakerfið skall harkalega niður eftir að hafa vaxið hratt, vextir voru háir og gengið óstöðugt. Kannast ekki einhver við þessa lýsingu? Vöxtur finnska hagkerfisins hefur verið stöðugur upp á við síðan hefðbundið iðnaðarsamfélag þróaðist yfir í hátækniþekkingarsamfélag. Við eigum að skoða hvað aðrar þjóðir hafa lært af áföllum, hvað hefur gengið vel og hvað illa.

Við höfum verið í mikilli menntasókn á öllum stigum. Árið 1997 voru nemendur á háskólastigi um 7.500 en nú nálgast þeir 20.000. Fyrr á þessu ári var tíu ára afmæli Háskólans í Reykjavík fagnað, fyrsta einkarekna skólans á háskólastigi, en hann hefur sýnt sig og sannað þrátt fyrir að hafa verið umdeildur þegar til hans var stofnað. Tilkoma einkaskóla og aukinnar samkeppni á háskólastigi hefur haft jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir alla skólana. Breyttar aðstæður í fjármálakerfi þjóðarinnar búa til tómarúm sem háskólasamfélagið á að nýta sér með því að leggja áherslu á enn frekari tengsl við atvinnulífið á næstu árum. Þetta er tími djarfra ákvarðana sem fela í sér langtímalausnir. Við höfum ekki efni á skammtímalausnum eða smáskammtalækningum.

Hæstv. forseti. Ekkert okkar gat séð fyrir þá atburði sem síðustu dagar og vikur hafa borið með sér. Margt af því sem gerðist var ósanngjarnt og óverðskuldað og þar vísa ég ekki síst til framgöngu Breta, gamallar vinaþjóðar, gegn okkur. Sú deila sem hefur skapast hefur ekki verið Bretum til mikils sóma. Aðgerðir þeirra gegn Kaupþingi í Bretlandi voru algjörlega óafsakanlegar og urðu til þess að fyrirtækið fór í þrot. Íslendingar hafa verið í hlutverki ábyrga aðilans í samskiptum við þetta gamalgróna og reynslumikla heimsveldi. Við höfum reynt eftir fremsta megni að útskýra stöðu okkar og leiða málið til lykta með diplómatískum leiðum. Hins vegar hefur komið á daginn að við áttum í höggi við ófyrirleitna spunamenn sem notfærðu sér vanda og erfiða stöðu smáþjóðar til að reyna að klóra í bakkann í pólitísku dauðastríði sínu í Bretlandi.

Við breytum hins vegar ekki því, virðulegi forseti, sem gerst hefur og eina leiðin í stöðunni er að horfa fram á við. Ísland er ríkt af auðlindum og hæfileikaríku fólki sem hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir aðgerðaleysi eða kyrrstöðu. Efnahagsleg áföll, sama hversu alvarleg — og það er engin klisja heldur bláköld staðreynd — munu ekki svipta íslensku þjóðina þeim eiginleikum, sem hafa einkennt hana og fleytt áfram hingað til, bjartsýni, samheldni, æðruleysi og dugnaði. Með slíka eiginleika er og verður framtíðin okkar.



[15:01]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á mér brenna eins og hverjum öðrum Íslendingi margar spurningar við þær aðstæður sem nú eru uppi. Sú fyrsta snýr að hugmyndafræði, hugmyndafræðinni sem átti sinn þátt í því að fjármálakerfið raknaði upp eins og lausprjónuð lopapeysa og liggur nú eins og lúinn garnflóki. Við gætum rætt hvaða hugmyndafræði við ætlum að hafa þegar við fitjum upp á nýtt. Sjálf er ég ekki í neinum vafa um það. Nú er tími fyrir félagshyggju og jöfnuð, tími fyrir sjálfbæran hugsunarhátt á öllum sviðum samfélagsins.

Ég átta mig hins vegar ekki á því, herra forseti, hvert ríkisstjórnin stefnir í sínum hugmyndafræðilega prjónaskap. Hæstv. forsætisráðherra talaði hér um frjálsan markað. Viðskiptaráðherra talaði um að tími ofurlauna væri liðinn og kominn tími fyrir félagsleg gildi. Þarf það ekki að liggja fyrir hvert við stefnum, virðulegi forseti? Á að endurheimta gamla kerfið, gera það sama og áður? Á að stoppa í verstu götin með skýrari löggjöf og regluverki? Eða á jafnvel að gera róttækari breytingar á kerfinu og auka félagslegar áherslur í samfélagi okkar? Við verðum að hafa þessa spurningu í huga í öllu því sem gengur á.

Ég hef fleiri spurningar. Í gær var greint frá skýrslu tveggja hagfræðinga frá London School of Economics sem unnin var að beiðni Landsbankans. Í fréttum kom fram að hrunið hefði verið fyrirsjáanlegt. Ekki væri vafi á því hver bæri ábyrgð á því, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn og fjármálayfirvöld. Þessari skýrslu, þar sem fram kom að bankakerfið mundi springa framan í okkur af því það væri orðið talsvert stærra en hagkerfi okkar, var stungið undir stól að beiðni fulltrúa ríkisstjórnarinnar, það kom fram í fréttunum. Hverjir eru þeir fulltrúar? Þarf ekki að svara því? Af hverju var ekki brugðist við? Mér er spurn.

Önnur spurning sem á mér brennur varðar gjaldeyrisvaraforðann blessaðan sem við vinstri græn lögðum til í mars sl. að yrði aukinn en fengum þá lítil viðbrögð. Síðan hefur þörfin bara vaxið og möguleikar á góðum lánskjörum minnkað. Allir eru sammála um að íslenska þjóðin þarf á lánsfé að halda en upplýsingarnar hafa verið misvísandi. Tilkynnt var um rússneskt lán og svo sagt að það væri reyndar ekki í höfn en það er verið að vinna í því, gott og vel. Rætt hefur verið um lánsfé frá Norðurlöndum. Er búið að leita til Norðurlanda umfram þær lánalínur sem komið var á í sumar? Hvernig stendur á því að fulltrúar norrænna ríkisstjórna segja að ekkert hafi verið talað við þá? Hefur verið leitað til annarra vinaþjóða okkar í Evrópu? Eða stefnum við beint á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Eru fjárhæðirnar sem við þurfum svo háar að við þurfum að fé frá öllum þessum aðilum? Fær Alþingi eitthvað að vita um þetta eða er þetta allt saman leyndó?

Þegar kemur að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mundi ég líka vilja vita hvað íslensk stjórnvöld ætla að biðja um. Er um að ræða lán? Ráðgjöf? Eða ferli sem mörg þróunarríki hafa lent í með misjöfnum árangri, mikilli markaðsvæðingu en ekki endilega framförum?

Spurningarnar hrannast upp. Í morgun er grein í Morgunblaðinu eftir Stefán Má Stefánsson og Lárus Blöndal þar sem því er haldið fram að ríkinu beri ekki lagaleg skylda til að tryggja innstæður umfram það fé sem liggur í innstæðu í tryggingasjóði. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni tryggja allar innlendar innstæður og það er gott, en þarf að skýra lagaheimildir fyrir þeirri yfirlýsingu?

Ef þetta liggur fyrir þá velti ég líka vöngum yfir misvísandi skilaboðum um það hvort eitthvað verði komið til móts við þá sem lögðu allan sinn sparnað í þessa blessuðu sjóði. Þeir sem lögðu fyrir í hverjum mánuði til að eiga eitthvað í ellinni, til að komast í sumarfrí eða til að stækka við sig og var sagt að þetta væri fullkomlega áhættulaust. Verður eitthvað komið til móts við þá?

Hvað með þau líknarfélög og góðgerðasamtök sem nú sitja handlama af því að allur sparnaður þeirra lá í þessum sjóðum? Og hver fylgist með ferlinu núna? Hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra tala um að helmingaskiptu bankaráðin, sem komið var á strax í byrjun, starfi tímabundið. Ég spyr: Hverjir eiga að hafa eftirlit með eignasölu bankanna núna? Hvernig hefur verið staðið að uppsögnum og mannaráðningum? Þarf ekki þingið að koma hér að?

Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að við getum lært margt af kreppunni, það er margt sem við þurfum að tileinka okkur. Við þurfum að fá rannsóknarnefndir. Við þurfum að fá hjálp erlendra sérfræðinga. Við þurfum að fela Ríkisendurskoðun hlutverk og þingið þarf að koma að þessum málum. Við verðum að endurskoða lagaumhverfið og hugmyndafræðina.

Hæstv. forsætisráðherra ræddi um þórðargleði þeirra sem töluðu um dauða kapítalismans. Hann er ekki dauður, hæstv. forsætisráðherra. Það er nú víst aldeilis rétt því að kreppan sem nú ríður yfir er ekkert frávik frá gangverki hans. Hún er eðlilegur hluti hans — loftbólan þar sem reynt er að hámarka skyndigróðann og hrunið sem kemur á eftir. Á þessu áttuðu menn sig eftir heimskreppuna og þess vegna varð velferðarkerfið til eins og við þekkjum það í dag og blandað hagkerfi. Það er nefnilega ekki hægt að búa við hreinan kapítalisma. Sá lærdómur sögunnar er fyrir hendi einu sinni enn og við verðum að læra af því. Ég segi því: Það er rétt að láta hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar gossa og setja núna félagshyggjuna í öndvegi.



[15:07]
Guðmundur Magnússon (Vg):

Frú forseti. Þegar vel árar eru menn ekki að hugsa um jafnrétti eða jöfnuð þegnanna heldur gleðjast yfir öllum stóru molunum sem hrjóta af allsnægtaborðinu. Frjálshyggju, útrás og svokallaða velmegun síðustu árin á Íslandi má líkja við Titanic, skipið sáluga. Þar hélt almúginn til í þrengslum þriðja farrýmis og einn og einn stalst upp í dýrðina á meðan fína og ríka fólkið boltraði í óhófi og lúxus á fyrsta farrými. En þegar gat kom á skrokkinn og sjórinn byrjaði að fossa inn bitnaði það fyrst á þeim sem neðst voru í skipinu. Og ekki nóg með það, ekki voru til nægilega margir björgunarbátar. Hver reyndi að bjarga sér í óðagoti. Þeir sem voru neðst í skipinu áttu óhægt um vik að ekki sé talað um þau sem stríða við einhvers konar fötlun eða hömlur.

Frú forseti. Það er einmitt á tímum eins og nú sem hafa þarf í heiðri hin gullnu hugtök jafnrétti og bræðralag. Að allir hafi sama tækifæri til lífsins. Nú ríður á að við vinnum saman og hjálpumst að. Ekki að sumir komist upp með að nota lítilmagnann sem flotholt til að bjarga sjálfum sér.

Öryrkjabandalag Íslands hélt aðalfund sinn 4. október sl. og sendi frá sér ályktun sem hefst á þessa leið, með leyfi forseta:

„Slæmt efnahagsástand þjóðarinnar hefur haft alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir fjölda öryrkja, sjúklinga og ellilífeyrisþega. Sú staðreynd að einstaklingar hafa 130 þús. kr. á mánuði eftir skatt og hjónafólk 116 þús. kr. hvort eftir skatt til framfærslu er engan veginn ásættanlegt. Aðalfundur ÖBÍ skorar á stjórnvöld að grípa til aðgerða með markvissum hætti og hækka bætur almannatrygginga til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi.“

Þetta var áður en botninn datt úr efnahagslífi þjóðarinnar. Áður en upp komst að búið var að veðsetja land og lýð og hneppa næstu kynslóðir í skuldaklafa. Hér var fyrst og fremst verið að vitna til aðgerða síðasta vetrar þegar ákveðið var að hækka lægstu laun um 18 þús. kr. á mánuði. Þá fengu öryrkjar 4–5 þús. kr. eða um 4% hækkun.

Ég er ekki að gleyma þeim lagfæringum sem gerðar voru í vor og sumar þegar skerðing bóta vegna tekna maka var afnumin og þegar frítekjumarkið var hækkað í 100 þús. kr. á mánuði. Hvort tveggja löngu tímabærar aðgerðir sem öryrkjum hafði verið lofað um árabil. Sumir flokkar buðu hins vegar miklum mun betur í kosningaloforðum sínum.

Rétt er að minna á að þegar herti að við upphaf tíunda áratugs síðustu aldar var gerð svokölluð þjóðarsátt sem m.a. fól í sér að launafólk með lágar eða miðlungstekjur, að ógleymdum elli- og örorkulífeyrisþegum, tók á sig skerðingar. Því var lofað að þeim yrði bætt það upp um leið og betur áraði. En í öllu útrásar- og græðgisfylliríinu gleymdust þessir hópar eða nutu að minnsta kosti ekki nema brotabrots af gróðanum. Samt er alveg ljóst að það voru ekki þessir hópar sem settu landið á hliðina með græðgi sinni.

Nú verða þessir hópar að fá forgang og það strax. Nú þegar óðaverðbólga geisar eru allir á sama báti hvað varðar húsnæðis- og bílalán sem margfaldast við hver mánaðamót. En fáir eru jafnháðir bifreiðum og þeir sem stríða við einhvers konar hreyfihömlun. Undantekningarlaust verða menn að bæta í þegar þeir skipta um bifreið á fimm ára fresti og að sjálfsögðu eru elli- og örorkulífeyrisþegar með húsnæðislán líkt og aðrir þegnar þessa lands. Það er því forgangsverkefni að finna leiðir til að aðstoða þessa hópa sérstaklega sem hafa mjög takmarkaða möguleika á að auka tekjur sínar.

Að þessu sögðu vil ég sérstaklega brýna félags- og tryggingamálaráðherra til áframhaldandi góðra verka því oft var þörf en nú er nauðsyn. Má þar minna á samning Sameinuðu þjóðanna sem undirritaður var 30. mars sl. þar sem aðildarríkin skuldbundu sig til að viðurkenna rétt fatlaðra og fjölskyldna þeirra til betri lífskjara og lífsskilyrða.

Það er sama hvert litið er. Samfélagsleg úrræði eru þau einu sem duga í slíkum hremmingum sem nú ganga yfir. Nú þegar bankarnir eru komnir í eigu þjóðarinnar er áríðandi að þeir verði nýttir til að jafna byrði af verðtryggingunni. Seðlabankinn verður að lækka stýrivexti enn meir og er óskiljanlegt að það hafi ekki gerst fyrr.

Einu verð ég að koma að áður en ég hverf aftur af þingi í lok vikunnar. Það er sú þjóðarskömm sem kallast vasapeningar. Allir flokkar hafa verið sammála um að afnema þá smán. Mikið vildi ég gefa til að geta sagt að núverandi félags- og tryggingamálaráðherra gangi í þetta og klári sem allra fyrst. — Góðar stundir.



[15:13]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það áfall sem þjóðin gengur nú í gegnum snertir með einum eða öðrum hætti hvert einasta heimili á landinu. Því þarf að grípa til margvíslegra aðgerða á öllum sviðum þjóðlífsins, bæði til lengri og skemmri tíma. Þegar við sjáum til lands í þessu ölduróti, sem vonandi verður fyrr en seinna, hefst endurreisn og umsköpun á samfélagi okkar og endurmat á þeim lífsgildum sem við viljum sjá í þjóðfélaginu. Við þurfum endurskoðun á leikreglum, ekki bara í fjármálakerfinu heldur í samfélaginu í heild. Við höfum alla burði til að vinna uppbyggingarstarfið þannig að þjóðin standi sterkari á eftir. Það er frumskylda að við treystum allar undirstöður velferðarkerfisins og atvinnulífsins, endurreisum grunn- og siðferðisgildi í samfélaginu, hverfum frá ofurlauna- og kaupréttarkerfum og að stjórnendur og stjórnmálamenn verði ábyrgir gjörða sinna.

Þau gífurlegu áföll sem þjóðin hefur orðið fyrir krefjast þess að við lærum af þessari dýru reynslu og tryggjum meira réttlæti og jafnræði í samfélaginu. Liður í því er að fram fari umfangsmikil rannsókn þar sem dregið verði fram í dagsljósið allt það sem leitt hefur til þeirrar erfiðu stöðu sem þjóðin er í. Þar getum við ekki bara kennt um alþjóðlegri fjármálakreppu, þó að hún sé vissulega stór hluti af hremmingunum, heldur kemur einnig til of mikill glannaskapur auðjöfra í íslensku útrásinni þar sem djarft var spilað með almannafé. Greinilega eru líka miklir veikleikar í eftirlitskerfinu og peningastefna þjóðarinnar hefur beðið skipbrot.

Virðulegi forseti. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og stofnanir þess hafa unnið markvisst undanfarna daga að fjölþættum aðgerðum til að vernda sem best hag einstaklinga og heimila og draga úr þeim skakkaföllum sem fólk verður óhjákvæmilega fyrir. Við höfum gengið frá breytingum á greiðsluerfiðleikaúrræðum sem Íbúðalánasjóður hefur yfir að ráða, þar sem verulega eru rýmkaðar heimildir sjóðsins til forvarna fyrir þá sem eru að komast í mikla greiðsluerfiðleika og eins aðgerða sem milda innheimtu hjá þeim sem lenda í vanskila- og nauðungarferli. Heimildir Íbúðalánasjóðs gefa okkur líka færi á því að fresta greiðslum lána tímabundið í allt að þrjú ár, hvort sem lánin eru innlend eða erlend. Það úrræði getur verið mikilvægt að nýta tímabundið vegna gengisbundinna lána þar til meiri ró kemst á gengismálin. Við verðum þó að muna að þeir sem tóku gengistryggð lán höfðu val. Þeir voru að taka áhættu og forðast á sama tíma verðtryggingu lána sem þorri Íslendinga sér nú fram á að fari í risavaxnar hæðir. Það þarf að breyta peningastefnunni í uppbyggingunni fram undan. Þá hljótum við að skoða hvernig við getum farið út úr verðtryggingunni og hvernig við á sama tíma getum komið til móts við fólk sem sér höfuðstól lána og afborgana hækka mikið. Þar sem yfirtaka bankanna á lánum Íbúðalánasjóðs tekur nokkurn tíma er mikilvægt að greiðsluerfiðleikaúrræði Íbúðalánasjóðs séu líka virk gagnvart þeim sem eru með lán í bankakerfinu og hefur ríkisstjórnin beint slíkum tilmælum til stjórnenda bankanna.

Ég tel mikilvægt að eignarhald allra fasteignaveðlána nýju viðskiptabanka ríkisins verði fært til Íbúðalánasjóðs og því verði flýtt eins og kostur er. Yfirtakan á íbúðalánum í bönkunum þarf að vera með þeim hætti að stöðu Íbúðalánasjóðs sé ekki teflt í tvísýnu. Lágmarka þarf áhættu sjóðsins sem allra mest. Mikilvægt er einnig að sem fyrst verði lögfest frumvarp um greiðsluaðlögun sem hjálpar skuldugum heimilum og flytja þarf frumvarp um að breyta lögum um Íbúðalánasjóð þannig að lánstími skuldbreytingalána verði lengdur úr 15 árum í 30 ár. Verkefnið fram undan er síðan að endurskipuleggja íbúðakerfið til framtíðar og skipuleggja eðlilegan aðgang fólks að íbúðalánum. Þar þarf m.a. að endurmeta þau skilyrði sem Íbúðalánasjóður setur um hámark lána og hvernig fasteignaviðskiptum eða umsýslu annarra lánastofnana með fasteignalán verði best fyrir komið í framtíðinni. Í þeim efnum getum við ýmislegt lært af þróun undangenginna mánaða á húsnæðismarkaði.

Á meðan við erum að komast í gegnum skaflana á næstu vikum og mánuðum þurfum við líka að skoða hvernig við getum mildað innheimtuaðgerðir annarra opinberra aðila. Við ætlum t.d. að endurskoða lög sem heimila innheimtumönnum ríkissjóðs að taka 75% af launum vegna skulda við ríkissjóð og undanskilja að skuldajafna megi barnabótum vegna opinberra gjalda og meðlagsskulda, a.m.k. tímabundið meðan við erum að ganga gegnum mestu hremmingarnar. Um þetta hefur þó ekkert verið ákveðið enn sem komið er.

Ég hvet einnig til þess að aðrir innheimtuaðilar utan opinbera kerfisins reyni eins og kostur er að ganga ekki óþarflega hart fram í innheimtuaðgerðum gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum sem eru í miklum fjárhagsvanda.

Herra forseti. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna leggja nú nótt við dag til að lágmarka þann skaða sem lífeyrissjóðirnir verða fyrir. Mikilvægt er að reynt verði að búa svo um hnútana að ekki þurfi að koma til skerðingar á lífeyrisréttinum og minnka með því eins og hægt er þann kvíða og ótta sem lífeyrisþegar finna nú fyrir. Þrátt fyrir skakkaföll nú eru lífeyrissjóðir landsmanna áfram traustir eftir mikla uppgangstíma undanfarinna ára, þeir traustustu í heimi, og nauðsynlegt er að sýna þjóðinni það samhjálpargildi sem þeir eru byggðir á. Ég hvet forsvarsmenn lífeyrissjóðanna til að ganga nú af krafti til samstarfs um heildarlausn á grundvelli þeirrar vinnu sem nú er í gangi í ráðuneyti mínum og hefur m.a. það að markmiði að koma í veg fyrir víxlverkun almannatrygginga og lífeyrissjóðanna. Við verðum líka að endurreisa traust á sparnaði í landinu þannig að þjóðin þurfi ekki að búa við þann ugg að ævisparnaður fólks brenni upp á einni nóttu.

Virðulegi forseti. Nýfrjálshyggjan hefur beðið mikinn hnekki í þessum alþjóðlega fjármálaskelli. Af því eigum við að draga þann lærdóm að markaðslausnir eiga að vera í þágu almannahagsmuna, almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. Við eigum nú að hverfa frá því einstaklingshyggjusjónarmiði að hver sé sjálfum sér næstur, að stærra hús, stærri bíll, snekkjur og einkaþotur séu þau lífsgildi sem mestu máli skipti. Við eigum að endurreisa gildi samhjálpar og jafnaðar. Við eigum að nýta kosti markaðarins til að bæta lífskjör almennings en ekki til að hygla sífellt meira þeim sem mest hafa fyrir. Það er gífurlega mikilvægt að byggja upp traust almannatrygginga- og velferðarkerfi í anda okkar norrænu vinaþjóða.

Það er sannarlega miður á þessum örlagatímum þjóðarinnar að ekki skuli hafa verið byggt upp traustara velferðar- og öryggisnet þegar við vorum í mikilli uppsveiflu í efnahagslífinu á síðustu 10–15 árum. Nú þarf sem aldrei fyrr að slá skjaldborg um velferðar- og grunnþjónustu, mennta-, heilbrigðis-, félags- og almannatryggingakerfin sem mikið mun mæða á á næstu mánuðum og árum. Nú gildir að verja grunnstoðir samfélagsins. Það er það sem almenningur mun setja traust sitt á á þessum erfiðu tímum.

Virðulegi forseti. Þjóðin hefur aldrei þurft eins mikið á því að halda og einmitt nú að standa sterk saman. Munum það sem Bubbi söng á Austurvelli nú á dögunum: Við erum öll ein fjölskylda. Saman eigum við að horfast í augu við það að um stund munum við ganga í gegnum erfiðleika. Lífskjörin munu dragast saman og atvinnuleysi aukast. Í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins erum við í félags- og tryggingamálaráðuneytinu að fara yfir hvernig mest og best sé hægt að draga úr skakkaföllum sem fólk verður fyrir vegna atvinnuleysis sem vonandi verður bara tímabundið. Mikilvægt er að það fólk sem nú er að missa vinnuna finni að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins láti einskis ófreistað til að tryggja atvinnuöryggi þeirra. Við eigum sóknarfæri og tækifæri í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í. Okkur verður að takast að koma atvinnulífinu til bjargar, m.a. með breytingu á peningastefnunni og nýjum sóknarfærum í atvinnulífinu.

Við verðum öll að skoða með opnum hug aðild að Evrópusambandinu. Þjóðin veit ekki hvað hún fær nema hún sæki um aðild. Aðildinni er þá hægt að hafna í þjóðaratkvæðagreiðslu ef okkur finnst það sem við fáum óaðgengilegt. Vissulega var ekki samið um þetta milli stjórnarflokkanna. En nú er allt breytt. Þjóðfélagið er annað í dag en það var í gær. Allt á að vera undir. Aðild að Evrópusambandinu, upptaka evru og nýting náttúruauðlindanna þar sem umhverfisvernd verður þó í fyrirrúmi. Ekkert á að vera tabú hvað það varðar að skoða og endurmeta hlutina hjá stjórnarflokkunum. Fyrir fram eigum við heldur ekki að útiloka aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að minnsta kosti ekki fyrr en við sjáum að skilyrðin verði algerlega óaðgengileg og óásættanleg.

Herra forseti. Nú þarf að sækja fram. Það gerum við öll saman. Stjórn, stjórnarandstaða, aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélögin og öll íslenska þjóðin. Þá mun okkur takast að breyta nótt í dag fyrr en okkur órar.



[15:22]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Umræðuefni dagsins er annars vegar: Hvernig gat þetta gerst? Og hins vegar: Hvað skal til bragðs taka? Það er dálítið sérstakt að umræðan skuli fara fram á þessum degi, 15. október, sem er í raun örlagadagurinn í bankakreppunni á Íslandi. Það er ekki fyrr en á þessum degi sem brimskaflinn þurfti að skella á okkur sem þýðir að við höfðum meiri tíma. Við þurftum ekki að vera á undan öðrum löndum í þeim miklu erfiðleikum sem að steðja. En ákvörðunartaka umrædda helgi, 27. og 28. september, verður lengi í minnum höfð og ekki síður það sem kom í framhaldinu. Mjög margt bendir til að ákveðið óðagot hafi einkennt vinnubrögð af hálfu Seðlabanka og ríkisstjórnar og framkoma ríkisstjórnar Bretlands í framhaldinu er náttúrlega algerlega mál út af fyrir sig og formaður Framsóknarflokksins hefur farið vel yfir það.

Það er hárrétt, sem hefur komið fram hjá forsætisráðherra, að regluverkið sem spilað er eftir á fjármálamarkaði kemur að mestu leyti frá Evrópusambandinu og það hefur verið ærið verk að innleiða alla þá löggjöf í íslenskan rétt og það þekkja þingmenn best. En svo virðist sem þessi löggjöf geri ekki ráð fyrir því fyrirbæri, ef þannig má að orði komast, sem íslenski fjármálamarkaðurinn hefur þróast í. Það eru engar sérstakar reglur t.d. um getu og stærð lánveitenda til þrautavara fyrir bankakerfið.

Vissulega hefur Seðlabankinn það hlutverk að tryggja fjármálastöðugleika og samkvæmt orðum formanns bankastjórnar Seðlabankans hafði hann margvarað við ástandinu. Það sem hér verður að koma fram er hverjir það voru sem hann varaði við. Voru það eingöngu bankastjórarnir eða var það ríkisstjórnin líka? Það er svo að sjálfsögðu umhugsunarefni að ekkert var gert með þær viðvaranir sem komu fram.

Hæstv. forseti. Hvers vegna var skýrslu bresku hagfræðinganna, sem margoft hefur verið nefnd í umræðunni, ýtt til hliðar? Samkvæmt fréttum dagsins var leitað til þessara sérfræðinga á þessu ári af hálfu Landsbankans og þeir beðnir um að skrifa skýrslu um ástæður efnahagsörðugleika sem Ísland og bankarnir stæðu andspænis. Í júlímánuði var skýrslan kynnt. Viðstaddir voru hagfræðingar frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, einkageiranum og háskólasamfélaginu. Hver varð niðurstaða þessara sérfræðinga frá Bretlandi? Hún hefur lítið verið rædd hér hvernig sem á því stendur.

Niðurstaða þeirra var sú að landið gæti haldið alþjóðlegu bankakerfi sínu en það krefðist þess að það skipti um gjaldmiðil, það þyrfti að leggja af krónuna og leita inngöngu í Evrópusambandið til að verða fullgildur þátttakandi í myntbandalaginu og taka upp evru sem gjaldmiðil. Eins gæti Ísland haldið gjaldmiðlinum en þá þyrfti að flytja alþjóðlegan hluta bankakerfisins úr landi. Viðskiptaumhverfið réði ekki við að halda alþjóðlegri starfsemi bankanna í landinu og hafa um leið eigin gjaldmiðil.

Hvers vegna skyldi ekki neitt hafa verið gert með þessa niðurstöðu? Ástæðuna vita flestir sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum. Sjálfstæðisflokkurinn, með Davíð Oddsson í broddi fylkingar, og Sjálfstæðisflokkurinn, undir forustu Geirs H. Haarde, ræðir ekki þann möguleika að ganga í Evrópusambandið. Þetta er orðið íslensku þjóðfélagi dálítið dýrt. En ég lýsi að sjálfsögðu ánægju með skrif varaformanns flokksins, sem hafa komið fram nýlega, þau eru vísbending um breytta afstöðu í flokknum í Evrópumálum — hæstv. menntamálaráðherra kom þó ekkert inn á það í máli sínu áðan. En ég get tekið undir það með síðasta ræðumanni að það þarf allt að vera undir í þessari umræðu.

Hvað er að gerast einmitt í dag? Leiðtogar Evrópusambandsins funda um fjármálakreppuna. Þeir vilja skjóta styrkari stoðum undir evrópska banka en áætlunin hljóðar upp á milljarða evra. Búist er við að leiðtogar Evrópusambandsríkjanna 27 muni styðja áætlunina sem ríkin 15 sem eru í myntbandalagi Evrópu samþykktu á sunnudag. Þeir vilja affrysta bankakerfið þannig að bankarnir hefji aftur að lána hver öðrum og efla markaðinn. Á sama tíma erum við Íslendingar að pukra ein í okkar horni — og þegar ég segi okkar horni þá sé ég fyrir mér Evrópukortið eins og við höfðum það fyrir augunum í barnaskóla. Við vorum þar vissulega úti í horni og þar erum við og erum aðallega að ræða við Rússa um hugsanlegt lán. Reyndar hafa lánalínur til Norðurlandanna verið virkjaðar að einhverju leyti en samkvæmt fréttum í gær taldi seðlabankastjóri ekki fyrr en núna að ástandið á Íslandi væri það slæmt að ástæða væri til að virkja þessa möguleika.

Fréttir af erfiðleikum íslenskra fyrirtækja við að koma vörum á markað erlendis eru samt ekki nýjar. Fréttir af fyrirtækjum sem ekki geta leyst út vöru eru samt ekki nýjar. Nei, það átti að þráast við. Ég hef áhyggjur af að Ísland einangrist frá umheiminum og ég hef áhyggjur af að við verðum vinalaus í þessum opna heimi með þessu áframhaldi.

Hæstv. forseti. Icesave er stórt mál sem ekki sér fyrir endann á. Fjármálaeftirlitið er í lykilhlutverki á markaði og getur kallað fram hvaða upplýsingar sem er. Spurningin sem liggur í loftinu er sú hvernig það gat gerst að Icesave gæti hafið sams konar starfsemi í útibúi Landsbankans í Hollandi í júní þar sem Fjármálaeftirlitið hafði verið að ráðleggja Landsbankanum að koma því fyrir í dótturfyrirtæki í Bretlandi af því að útibúaleiðin væri of áhættusöm. Ég spyr því hæstv. viðskiptaráðherra: Fór Fjármálaeftirlitið þess á leit við viðskiptaráðuneytið að styrkja lagagrundvöll eftirlitsins þannig að það gæti komið í veg fyrir að það sama gerðist í Hollandi? Ég minni á að viðskiptaráðherra hefur tvívegis beitt sér fyrir bráðabirgðalagasetningu á sínum stutta ferli sem ráðherra þannig að varla hefði verið fyrirstaða að setja eins og ein þess háttar lög til viðbótar ef það hefði hjálpað.

Hæstv. forseti. Hvað er fram undan? Það þarf að byggja upp nýtt Ísland, segja ýmsir, og það þarf að hafa hraðar hendur. En það er að mínu mati ekki nægilega traustvekjandi að fá fréttir af því á meðan á þessari umræðu stendur að efnahagsráðgjafi forsætisráðherra hafi sagt upp störfum. Hvað er að gerast? Ríkir alger ringulreið á stjórnarheimilinu? Þetta finnast mér ekki vera góðar fréttir, burtséð frá því hvort þessi einstaklingur hafi verið rétti einstaklingurinn í starfið. Að mínu mati þarf að ræða sem allra fyrst við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að koma hér inn með aðstoð og ráðgjöf og það þarf að auka möguleika á menntun þess fólks sem missir vinnuna. Við eigum enn þá marga möguleika, Íslendingar, ef við höldum rétt á málum.

Nýting orkulinda til lands og sjávar verður áfram mikilvæg. Ég tek eftir því að þrátt fyrir neikvæða umræðu um útrás hefur fólk enn trú á því að útrás á þekkingu í orkugeiranum sé eitthvað sem við eigum að einbeita okkur að. Ég tel því mikilvægt að mennta fleiri Íslendinga á því sviði og bendi m.a. á að við orkuskólann á Akureyri, RES-orkuskólann, er boðið upp á meistaranám á því sviði sem er rannsóknartengt og alþjóðatengt. Ég tel að þar geti verið tækifæri fyrir Íslendinga eins og svo víða annars staðar í menntun, það hefur komið fram hjá hæstv. menntamálaráðherra hér í umræðunni.

Þau eru vissulega mikið til umræðu núna gömlu gildin og það er vel. Ég vil engu að síður taka undir með hæstv. forsætisráðherra þegar hann segir að þessir atburðir séu ekki andlát frjálsrar verslunar. Við getum allflest dregið saman í neyslu en þessi nýja staða kemur mjög illa við marga Íslendinga og hugur okkar er hjá þeim.

Að síðustu, hæstv. forseti, er það ímynd Íslands. Við höfum lagt mikið á okkur við að efla og styrkja hana. Nú hefur hún beðið hnekki og verk er að vinna í þeim efnum. Þar verðum við öll að taka höndum saman um að vinna okkar vinnu.



[15:32]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Íslendingar horfa upp á þrot íslensku bankanna. Erlendis eru miklar skuldir sem ríkið, skattgreiðendurnir eiga að borga samkvæmt yfirlýsingum forsætisráðherra og viðskiptaráðherra. Margir sjá fram á að fá ekki peningana sína út úr gjaldþrota bönkum vegna þess að þeir voru ekki á sparireikningum sem eru tryggðir eða á að tryggja. Í því sambandi ber að leggja áherslu á að margir voru í raun blekktir, fólk taldi sig vera að leggja peninga sína inn á öruggar sparnaðarleiðir sem reyndist svo ekki vera. Fjármálamarkaðurinn er svo margslunginn að venjulegt fólk og jafnvel þeir sem eiga að heita sérfræðingar höfðu ekki yfirsýn yfir kosti einstakra aðgerða eða ókosti. Tjón þjóðfélagsins og allra venjulegra Íslendinga er gríðarlegt. Nútíðin og framtíðin verða skuldsett miðað við yfirlýsingar þeirra ráðamanna sem ég gat um áðan og spurningin er: Hvernig gat þetta gerst?

Miðað við reglur sem gilda um greiðslur af reikningum fjármálafyrirtækja þá hefur verið talað um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að þar verði gengið mun lengra en almennar reglur ná, þ.e. almennar reglur um neytendavernd. Þegar svo er liggur náttúrlega fyrir að það er Alþingis að ákveða hvernig með það skuli fara og þá er spurningin: Eiga þá ekki allir að fá greitt sem höfðu reikninga í þessum lánastofnunum? Hverja á að skilja eftir? Þegar vikið er frá hinum almennu reglum, frá þeirri löggjöf sem mörkuð hefur verið og teknar ákveðnar geðþóttaákvarðanir verður að gæta þess að jafnræðis og jafnréttis sé gætt. Það getur verið vandmeðfarið við aðstæður eins og þessar.

Það er eðlilegt að nú sé spurt: Hvernig gat það gerst að allur bókfærður hagnaður af bönkum undanfarin ár, samanlagður hagnaður undanfarin þrjú ár á yfir 500 milljarða skuli allt í einu hafa gufað upp? Hvar er allt þetta fé? Er það ekki tiltækt þegar til á að taka? Var það ef til vill aldrei til? Var þetta kannski spilaborð og munum við upplifa það að unga fólkið í landinu greiði atkvæði með fótunum vegna þess að það getur betur freistað gæfunnar og leitað auðnu sinnar annars staðar en á Íslandi sem er, miðað við yfirlýsingarnar sem ég gat um áðan, skuldsett algjörlega út yfir öll mörk?

En það sem ég bjóst við að mundi koma hjá hæstv. forsætisráðherra voru upplýsingar til Alþingis og þjóðarinnar um hvort þetta hefði þurft að gerast. Voru þær aðgerðir sem gripið var til nauðsynlegar? Í ræðu sinni áðan vék hæstv. forsætisráðherra að því að nauðsynlegt væri að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf. Það liggur fyrir að að sjálfsögðu ber brýna nauðsyn til þess en af hverju fóru gjaldeyrisviðskiptin úr eðlilegu horfi? Það var vegna aðgerða sem gripið var til auk þess sem sú tímasprengja að hafa gjaldmiðilinn á floti hlaut einhvern tímann að springa með þeim hætti sem nú hefur gerst.

Þá vísaði hæstv. forsætisráðherra til þess að það hefði orðið mikill samdráttur í innlendri eftirspurn á undanförnum mánuðum. Það er ljóst og það vita allir sem fylgjast með íslensku þjóðfélagi. Í því sambandi talaði hann um að í dag hefði Seðlabankinn lækkað stýrivexti. Stýrivextir voru lækkaðir mjög óverulega miðað við þá ofurhæð sem stýrivextir hafa verið í. Danske Bank mat það svo að það skipti í sjálfu sér sáralitlu máli, það þyrfti að lækka stýrivexti mun meira. Ég tel að stýrivaxtabrjálæði Seðlabankans hafi gjörsamlega keyrt yfir öll mörk og drepið niður framtak íslensku þjóðarinnar. Það eru fyrst og fremst rangar aðgerðir Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar sem við horfum framan í í dag. Í raun hefði Seðlabankinn þurft að lækka stýrivexti sína niður í svipaða tölu og seðlabanki Evrópu hefur gert og jafnvel niður fyrir það til að koma íslensku atvinnulífi í virkilegan gang. (GÁ: Heyr, heyr.)

Varðandi ummæli hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, um aðgerðir Breta, um aðgerðir Gordons Browns, flokksbróður hæstv. iðnaðarráðherra, þá er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skyldu ekki hafa beitt sér af alefli og leitað allra færra leiða. Af hverju tókum við það ekki upp hjá Atlantshafsbandalaginu þegar bandalagsþjóð beitti hryðjuverkalögum gagnvart bandalagsþjóð sinni? Af hverju tókum við þetta ekki upp í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna? Af hverju slitum við ekki stjórnmálasambandi við Breta þegar þeir beittu okkur hryðjuverkalögum? Það var engin ástæða til að leggjast á hnén gagnvart Bretum. Við höfum fyrr átt í útistöðum við Breta og þá var það forsætisráðherra úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem tók þá afdrifaríku ákvörðun að slíta stjórnmálasambandi við Breta þegar framferði þeirra keyrði um þverbak og þá fyrst fóru hlutirnir að gerast og bandalagsþjóðir okkar að gera ráðstafanir til að tryggja það að Ísland nyti ákveðinna réttinda en þyrfti ekki að lúta í (GÁ: Sama gerði Geir.) gras fyrir stórþjóðinni.

En ég spyr og ég bjóst við að heyra það frá forsætisráðherra — hann talar um uppgjör við fortíðina, það sem við stöndum í núna er fyrst og fremst spurning um nútíðina, uppgjörið við fortíðina kemur síðar — en spurningin sem á okkur brennur núna er þessi: Var nauðsynlegt að fara þá leið sem farin var? Maður sér í erlendum blöðum sem fjalla um fjármál m.a. í Financial Times frá 13. október eða á mánudaginn en þar talar blaðið um hin hræðilegu mistök sem séu á bak við íslensku fjármálakreppuna og í blaðinu segir að íslensku bankarnir hafi verið taldir of áhættusamir af því að Seðlabanki Íslands virtist ekki hafa traust sem þrautavaralánveitandi. Og um leið var ríkisstjórnin og Seðlabankinn ekki talin nægilega traust af því að þau gætu þurft að taka bankana yfir.

Hver er þá spurningin? Báru slæmir bankamenn ábyrgðina á þessum hlutum sem sumir hafa haft stór orð um eða var það vegna þess að við höfðum byggt upp stjórnkerfi sem var ekki nægilega virkt og sem brást þegar á reyndi? Spurningin er að sjálfsögðu um þetta. Um þetta hefðum við þurft að fjalla og þetta hefði þurft að vera þungamiðjan í þeirri skýrslu sem hæstv. forsætisráðherra flutti Alþingi um gang mála.

Þá segir einnig í umfjöllun Financial Times frá því á mánudaginn að allir íslensku bankarnir hafi verið gjaldfærir og allir sýnt góða niðurstöðu í hálfs árs uppgjöri og enginn þeirra hafði það sem blaðið kallaði „eitrað eða ónógt öryggi“. Þetta er niðurstaða einna fremstu sérfræðinga sem um er að ræða á alheimsvísu í efnahagsmálum. Og þá er niðurstaðan sú að það voru ríkisstjórnin og Seðlabankinn sem brugðust. Það er sama niðurstaða og rektor Háskólans á Bifröst, sem hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson vísaði í áðan, komst að og rakti fyrir nemendum sínum í gær.

Fleiri fjalla um málið með þessum hætti erlendis og það er iðulega þannig að fjallað er með öðrum hætti um efnahagsmál erlendis en hér á landi. Meðal annars segir í Sunday Times frá því á sunnudaginn var að Ísland hefði fengið mýkri lendingu ef Seðlabankinn hefði lækkað stýrivexti sína og sett bremsu á útlán, eins og við í Frjálslynda flokknum höfum verið að leggja áherslu á að þyrfti að gera. Við höfum talað um mannúðlega markaðshyggju, ekki græðgishyggjuna sem hefur riðið hér röftum frá því um 2000. Það þurfti að gera hlutina öðruvísi.

Ég er sammála þeim sem hafa talað um að við þurfum að sjálfsögðu að glíma við þann vanda sem um er að ræða sameiginlega. Við þurfum að sækja fram sameiginlega sem þjóð. Að sjálfsögðu gerum við það. En til þess að við getum sótt fram og til þess að við tökum réttar ákvarðanir og komumst að réttum niðurstöðum þurfum við að hafa forustu sem dugar. Ekki aðeins ríkisstjórn heldur líka Alþingi og líka Seðlabanka. Allir þurfa að vinna saman og það þarf að vera skilvirk forusta. Og ég segi að eitt af því fyrsta sem Alþingi á að gera á tímum þrenginga er að skera niður hjá sjálfu sér, að horfast í augu við sjálft sig, eftirlaunin og allt sem hefur verið hlaðið utan á.

Ríkisstjórnin þarf að veita forustu og ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er nauðsynlegt að efna til kosninga eins fljótt og auðið verður þegar þjóðin hefur stýrt í gegnum mesta brimskaflinn til að þjóðin fái þá forustu sem hún á skilið.



[15:42]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni hafa ýmsir ræðumenn vakið máls á nauðsyn þess að rannsakað verði hvort refsivert athæfi af einhverju tagi tengist fjármálakreppunni og falli þriggja stærstu banka landsins. Um þennan þátt málsins fer að sjálfsögðu að lögum og í því tilliti ber m.a. að líta til hlutverks ríkissaksóknara. Við áttum fund í gær og í framhaldi af honum ritaði ég ríkissaksóknara svofellt bréf sem ég les í heild, með leyfi forseta:

„Vísað er til viðræðna okkar, herra ríkissaksóknari, fyrr í dag, þar sem þér tjáðuð mér að þér munduð hafa forustu um gerð skýrslu um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana á þessum tímamótum í rekstri þeirra og eignarhaldi auk aðdraganda hinna miklu umskipta sem orðið hafa í rekstri þeirra. Til að draga upp heildarmynd af stöðunni, eftir því sem unnt er við núverandi aðstæður, er ég sammála því að þér fáið til liðs við yður fulltrúa frá embætti skattrannsóknastjóra, Fjármálaeftirliti og Ríkisendurskoðun. Með gerð skýrslunnar yrði aflað staðreynda um starfsemi bankanna Glitnis hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings hf., útibúa þeirra og fyrirtækja í þeirra eigu, tilfærslu eigna, einkum á síðustu mánuðum starfseminnar. Markmiðið yrði að kanna hvort sú háttsemi hefði getað átt sér stað sem gæfi tilefni til lögreglurannsóknar á grundvelli laga um meðferð opinberra mála. Þess er vænst að gerð skýrslunnar verði hraðað og að því stefnt að hún liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2008.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið vinnur að löggjöf um stofnun sérstaks embættis sem ætlað er að sjá um rannsóknir og eftir atvikum saksókn vegna þeirra réttarbrota sem kunna að koma í ljós í tengslum við atburði sem orðið hafa í starfsemi fjármálastofnana að undanförnu.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun óska eftir fjárveitingu til embættis yðar, að höfðu nánara samráði við yður, til að standa undir kostnaði sem leiðir af ofangreindum störfum svo sem við að ráða tímabundið faglega menntaða starfsmenn, útvegun starfsstöðvar og annað sem af þessu leiðir.“

Virðulegi forseti. Í þessu bréfi felst í fyrsta lagi að ég styð þá ákvörðun ríkissaksóknara að leita liðsinnis frá embætti skattrannsóknastjóra, Fjármálaeftirliti og Ríkisendurskoðun og hef ég samhliða þessu bréfi óskað eftir því við þessar stofnanir að þær tilnefni án tafar fulltrúa sína til þessa samstarfs. Í öðru lagi segir í bréfinu að ég muni beita mér fyrir því að tryggðar séu fjárveitingar til að vinna skýrslu af þessu tagi en til þess þarf að ráða sérstaka starfsmenn. Heiti ég á stuðning Alþingis í því efni. Engum ætti að vera ljósara en okkur sem hér sitjum hve miklu skiptir fyrir allt jafnvægi og jafnræði í þjóðfélaginu að leitast sé við að gæta laga og réttar með hverjum þeim úrræðum sem nauðsynleg eru hverju sinni. Í þriðja lagi boða ég í bréfinu til ríkissaksóknara að á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sé verið að semja frumvarp að sérstakri löggjöf um að stofnað verði tímabundið rannsóknarembætti sem taki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði sem sprottnir eru af eða tengjast falli bankanna. Ráðinn verði sérstakur forstöðumaður þessa embættis sem starfi í nánu samstarfi við hverja þá opinbera stofnun, innan lands og utan, sem getur lagt liðsinni við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfi undir forræði ríkissaksóknara sem gæti ásamt forstöðumanni ákvarðað hvaða rannsóknarefni féllu til þess.

Það mun að sjálfsögðu verða undir Alþingi komið hvernig lög um þetta efni verða í endanlegri mynd, en hitt er ljóst af minni hálfu að réttarvörslukerfið getur ekki brugðist við auknu álagi vegna þessara atburða án þess að gripið sé til sértækra aðgerða. Við setningu laga um þetta efni er eðlilegt að því sé velt fyrir sér hvort samhliða því sem þessi nýskipan er lögfest verði einnig ákveðið að koma á laggirnar samráðs- og eftirlitsnefnd með fulltrúum allra þingflokka sem hitti forstöðumann hins nýja embættis reglulega og geti í þeim trúnaði sem ber að virða, fylgst með framvindu mála.

Virðulegi forseti. Við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að gera allt sem skynsamlegt er til að efla traust á þeim innviðum sem eru meginstoðir réttarríkisins. Þá er afar mikilvægt að ekki sé hrapað að neinu eða gefa sér í anda nornaveiða að lög hafi verið brotin. Ég heiti á samstöðu þingmanna um úrlausn hinna brýnu verkefna sem við íslensku þjóðinni blasa á þessari örlagastundu.



[15:47]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Okkur Íslendingum hefur verið sagt að upp á síðkastið hafi alþjóðafjármálakerfið fylgst með íslensku efnahagskerfi eins og kanarífugli í námu. Á daginn kom, hæstv. forseti, að íslenska efnahagskerfið var jafnviðkvæmt og kanarífugl. Eiturgufurnar í námu heimskapítalismans, þar sem gullgrafararnir athafna sig, reyndust svo eitraðar að kanarífuglinn komst ekki undan þeim.

Úr munni ræðumanna kemur spurningin: Hvernig gat þetta gerst? Við höfum síðustu daga hlustað af athygli á hæstv. forsætisráðherra og oft hefur mér fundist hann hafa tilhneigingu til að einfalda vandann, jafnvel afneita ákveðnum þáttum hans. Hæstv. ráðherra hefur ekki getað sannfært þjóðina um að allt sé gert til að bregðast við vandanum. Ekki hefur almannavarnaráð enn verið kallað saman.

Hæstv. forseti. Í ræðu sinni hér áðan upplýsti hæstv. forsætisráðherra að málin væru í höndum ráðherrateymis fjögurra ráðherra og stýrihóps ráðuneytisstarfsmanna og tiltekinna stofnana. Ég verð að segja að mér er ekki mikið rórra. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum gert kröfu um að Ríkisendurskoðun fái skilgreint hlutverk sem endurskoðunar- og eftirlitsaðili við ráðstöfun þeirra miklu fjármuna sem koma í hendur ríkisins með yfirtöku bankanna. Gríðarlegir almannahagsmunir eru í húfi og útilokað annað en að opinbert eftirlit og endurskoðun komi til.

Hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað hafa ekki látið í ljósi neinar skoðanir á kröfunni en henni er ekki beint til þeirra heldur til forsætisnefndar Alþingis. Því nú er nauðsynlegt að skilja á milli þings og ríkisstjórnar og að hér verði á ný þingbundin stjórn en ekki ríkisstjórnarbundið þing. Talsvert vantar upp á, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin geri allt sem í hennar valdi stendur. Ég furða mig til að mynda á því hvers vegna hæstv. forsætisráðherra sagði ekkert um tilraunir ríkisstjórnarinnar til að leita aðstoðar ríkisstjórna nágrannaríkja okkar. Mér er óskiljanlegt hvers vegna enn hafa ekki verið send formleg erindi til ríkisstjórna Norðurlandanna um aðstoð. Þær hljóta að bíða eftir formlegri beiðni og lánalínurnar sem voru virkjaðar í gær eða dag eru ekki hluti formlegs erindis til ríkisstjórnanna. Í hugann koma líka EFTA-þjóðirnar, Sviss og Liechtenstein, og vinaþjóð í vestri, Kanada. Ég spyr: Eru engin formleg samtöl í gangi við ríkisstjórnir þessara þjóða?

Hæstv. forseti. Tími ofurlaunanna er liðinn, sagði hæstv. viðskiptaráðherra áðan í ræðu sinni og ég krefst þess að fá að sjá það í vinnu við fjárlagafrumvarp fyrir 2009. Krafa þjóðarinnar er sú að stjórnmálamenn taki sig á og axli hluta byrðanna. Það getum við gert með því að jafna launakjör þeirra sem sitja í salnum. Ef tími ofurlauna er liðinn, afnemum þá ofurlaun í opinbera kerfinu líka og byrjum á eftirlaunaskandalnum. Setjum alla þingmenn og aðra sem gegna toppstöðum hjá hinu opinbera á sömu laun, einfalt þingfararkaup væri sanngjarnt. Viðskiptaráðherra undirstrikar að nú þurfi að endurvinna traust þjóðarinnar og gæti aðgerð af þessu tagi verið liður í því að endurvinna traust á þeim sem með valdið fara.

Hæstv. forseti. Nú er nauðsynlegt að finna grundvöll að sátt við íslensku þjóðina, leggja öll spil á borðið og opna aðgang að öllum upplýsingum um það sem gerst hefur. Þjóðin hefur ekki fengið skýr svör um það hjá ríkisstjórninni hvernig þetta hafi getað gerst eða hvaða aðgerðir ríkisstjórnin sér til lausnar á vandanum.

Hæstv. forseti. Við okkur blasir hrun þess þjóðfélagsmunsturs sem byggt hefur verið á skammsýni og taumleysi. Tímabært er að leiða önnur gildi til öndvegis svo sem hófsemi og nægjusemi og huga að samfélagslegum gildum og siðferðislegum. Ég sé ekki að þessari ríkisstjórn sé treystandi til þess. Fulltrúar hennar og stuðningsmenn á Alþingi virðast einungis kalla á meira af því sama. Við heyrum vanhugsað ákall stjórnarþingmanna um að nauðsynlegt sé að ýta til hliðar lögum um mat á umhverfisáhrifum svo virkja megi fyrir stóriðju án þess að leggja mat á skaðann sem af hlýst. (Forseti hringir.) Ákall um nýtt fix, ekki lausn.



[15:53]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Umræðurnar í dag hafa verið hreinskiptar og menn hafa skipst á skoðunum með málefnalegum hætti. Áherslan sem flestir þingmenn hafa lagt á nauðsyn þess að þjóðin standi saman hefur birst í ræðum þeirra sem hafa talað í dag og ég segi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að við erum líkt og síðustu daga reiðubúin til að hlusta á öll ráð og fá stuðning frá stjórnarandstöðunni.

Þetta hafa verið erfiðir tímar og sérstök ástæða er til að þakka þjóðinni fyrir einurðina sem hún hefur sýnt með því að leitast við að sýna okkur sem í þessu stöndum samstöðu. Ég vil, eins og svo margir á undan mér, þakka æðruleysið sem þjóðin hefur sýnt. Það hefur staðfest það sem við vissum áður að þjóðin hefur alltaf getað komist í gegnum erfiða tíma með því að standa saman. Eins og ég sagði áðan vil ég þakka stjórnarandstöðunni fyrir það hvernig hún hefur komið með ábyrgum hætti að málum. Sérstaklega vil ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, fyrir traustsyfirlýsinguna sem hann gaf ríkisstjórninni áðan. Líkt og fram kom í máli hans tók hann ekki undir þá ósk, sem kom t.d. fram hjá hv. síðasta ræðumanni og formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um kosningar eða þjóðstjórn. Hv. þm. Guðni Ágústsson sagði: Þessi ríkisstjórn á að sitja. Í því hlýtur að felast sá dómur að hann telji að stjórninni takist þokkalega upp við erfiðar aðstæður.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi gert mistök, eins og eðlilegt er við aðstæður sem þessar, en hún hefur gengið af fumleysi til verkanna sem hennar hafa beðið og notað þær stofnanir og tæki sem hún hefur átt völ á til að koma málum í sem bestan farveg. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki hikað við að fá hingað til lands með örskotshraða erlend ráðgjafarfyrirtæki sem hafa reynslu af því að sigla bönkum og þjóðum í okkar stöðu gegnum fjármálakreppur. Því álít ég ríkisstjórnina hafa brugðist við með réttum hætti við ákaflega erfiðar aðstæður. Við höfum fyrst og fremst hugsað um hag almennings í landinu, unnið að því að koma á stöðugleika í fjármálum og reynt að verja hagsmuni sparifjáreigenda. Við höfum ekki gleymt þeim sem voru með gylliboðum fengnir til að leggja — í sumum tilvikum ævisparnað sinn — í sjóði sem áttu að vera gulltryggir. Einnig höfum við unnið hörðum höndum að því með þeim ráðum sem okkur eru tæk að koma aftur á virku bankakerfi til að tryggja að hjól atvinnulífsins hætti ekki að snúast.

Síðustu daga höfum við lagt langmesta áherslu á að verja eignir og skiptir það öllu máli ef við eigum að komast með sem minnstar byrðar út úr þessum erfiðu tímum. Reynslan sýnir að við aðstæður sem þessar geta eignir rýrnað með ógnarhraða. Við höfum reynt að vinna að þessu undanfarna daga og tekist þokkalega upp, held ég, með aðstoð góðra ráðgjafa. Ég tel að í þeirri stöðu sem við Íslendingar erum núna verðum við að skoða alla kosti þegar við horfum til framtíðar.

Hjá formönnum allra þriggja stjórnarandstöðuflokkanna kom fram að þeir telja sérstaklega ámælisvert að Samfylkingin skuli nú sem áður viðra þá skoðun sína að Ísland væri betur komið innan Evrópusambandsins. Herrar mínir, Samfylkingin lætur hvorki beita sig skoðanakúgun né þöggunarstefnu. Eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði áðan á allt að vera undir og okkar skoðun er sú að við værum ekki í þessari stöðu ef við hefðum gengið í Evrópusambandið fyrr og tekið upp evruna. Við hljótum, þegar við skoðum veginn til framtíðar, að leggja viðhorf okkar inn í umræðuna og það vill svo til að meiri hluti þjóðarinnar hefur verið okkur sammála. Meiri hluti kjósenda Steingríms J. Sigfússonar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) og Framsóknarflokksins lýsa sömu skoðun í könnunum. Við þessar aðstæður verður einfaldlega allt að vera undir og við þurfum að skoða allt.



[15:58]
Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Íslenska þjóðin stendur nú á tímamótum. Reynsla síðustu daga hefur verið okkur öllum mjög erfið en ber þess merki að sá heimur og það fyrirkomulag sem við höfum lifað við er að mörgu leyti að líða undir lok. Það hefur miklar og margvíslegar afleiðingar fyrir samfélagið, við stöndum á krossgötum og verðum að velja þá leið sem við viljum og ætlum að fara til móts við framtíðina.

Undanfarnar vikur og daga hafa verið teknar stórar og afdrifaríkar ákvarðanir. Það hefur komið fram gagnrýni á margar þeirra og framganga valdamikilla manna verið gagnrýnd. Hér hefur m.a. verið vísað til gagnrýni rektors Háskólans á Bifröst sem hefur haft uppi stór orð um þessi mál og margir spyrja sig í dag: Getur verið að hann hafi rétt fyrir sér?

Hér hefur verið minnst á skýrslu breskra hagfræðinga sem vöruðu við því að íslenska fjármálakerfið gæti hrunið. Það var ekkert gert með þessi aðvörunarorð (Gripið fram í: Það var mikið gert) og margir spyrja sig hvers vegna og vilja fá svör við því. Það ástand sem skapast hefur í alþjóðlegum fjármálaheimi er að miklu leyti afleiðing græðgi, metorðagirndar, botnlausrar peningahyggju og trúnaðarbrests. Við höfum upplifað það allt hér í samfélagi okkar og verðum að segja skilið við það. Við sem þjóð verðum að setja okkur ný markmið til framtíðar, endurmeta gildi okkar og hafa þau að leiðarljósi.

Eitt allra mikilvægasta verkefnið og viðfangsefnið nú er að tryggja að atvinnulífið missi ekki mátt og að hér verði ekki mikið atvinnuleysi. Það verður að gera allt til þess að halda atvinnulífinu gangandi. Stýrivextirnir verða að lækka meira en ákveðið var í morgun, það finnast ekki einföld rök fyrir því að þeim sé haldið í himinhæðum.

Hæstv. forseti. Það eru margar spurningar sem liggja í loftinu og þarf að leita svara við. Eftir hvaða hugmyndafræði vinna skilanefndir bankanna? Hvernig verða eignir þeirra meðhöndlaðar sem felast í skuldum atvinnulífsins og einstaklinga? Hvernig verða ákvarðanir teknar um hvaða atvinnufyrirtæki lifa og hver geta haldið áfram? Kemur til greina að fá erlenda sérfræðinga til að vinna með skilanefndunum að því mikilvæga verkefni sem þær vinna? Verður ekki að gera það til að skapa sem mest traust á verk þeirra?

Hver er þjóðréttarleg staða Íslands gagnvart skuldbindingum um innstæðutryggingar, t.d. hjá Icesave og hvernig lítur samningurinn við Holland út? Er hann í samræmi við skuldbindingarnar? Spyr sá sem ekki veit. Er samningurinn við Hollendinga þeim og öðrum þjóðum mikilvægur til að koma í veg fyrir að innstæðueigendur taki út fjármuni sína og tæmi erlenda banka í viðkomandi löndum, að upp komi svonefnt „run“? Á Ísland að taka á sig slíka ábyrgð?

Það hafa komið fram mjög misvísandi upplýsingar og yfirlýsingar um raunverulega ábyrgð ríkisins á innstæðum í Icesave. Það mál er líklega það stærsta og mikilvægasta hvað varðar efnahagslega framtíðarhagsmuni þjóðarinnar og við verðum að fá botn í það sem allra fyrst.

Síðan er spurt: Hverjir eru heildarhagsmunir okkar Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi? Liggur fyrir eitthvert mat á því hver heildarmyndin er varðandi fjárhagslegar ábyrgðir okkar, t.d. varðandi bankastarfsemi á við Icesave?

Almenningur spyr hvort raunveruleg rök og efni séu fyrir öllum yfirlýsingum ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi inneignir fólks í fjármálafyrirtækjum. Tugir þúsunda Íslendinga eru í mikilli óvissu um fjárhagslega framtíð sína og það má ekki undir neinum kringumstæðum senda þeim misvísandi skilaboð eða vekja með þeim óljósar væntingar með óvarlegum yfirlýsingum. Ég er hræddur um að það hafi þegar verið gert.

Alþingi verður að fjalla um og greina hvað fór úrskeiðis, hvar ábyrgðin liggur o.s.frv. Við verðum og eigum að gera það bæði til þess að læra af því og til þess að gera okkur grein fyrir því hvort nauðsynlegt er að lagfæra löggjöf og regluverk. Almenningur kallar eftir því og við verðum að gera það á faglegan hátt í samstarfi við færustu sérfræðinga á hverju sviði. Í því sambandi fagna ég yfirlýsingu hæstv. forsætisráðherra í framsögu hans og einnig því frumkvæði sem dómsmálaráðherra hefur gert grein fyrir.

Virðulegur forseti. Nú skiptir miklu að við göngum fram af ábyrgð með bjartsýni og trú á framtíðina. Við eigum mörg tækifæri. Við höfum áður staðið frammi fyrir erfiðum málum og jafnan unnið okkur út úr vanda og erfiðum aðstæðum. Við sem þjóð verðum nú að setja okkur ný markmið, móta nýja framtíðarstefnu og ná samstöðu um þá uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað í framtíðinni. Það er verkefnið fram undan nú þegar við göngum til móts við nýja tíma.



[16:03]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Á undanförnum dögum hafa stjórnvöld þurft að glíma við ótrúlegar aðstæður og óvænta erfiðleika sem ég býst við að fæst okkar muni upplifa á nýjan leik. Ég vil segja að þessa daga finnast mér þeir tveir ráðherrar sem málið hefur mest hvílt á, hæstv. forsætisráðherra og viðskiptaráðherra, hafa staðið sig vel í störfum sínum, komist vel frá verkum, og það er ástæða til að vekja athygli á því og þakka þeim fyrir framgöngu þeirra.

Ég er sammála því sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra að huga beri alvarlega að því að skoða möguleikana á lögsókn í Bretlandi á hendur breskum stjórnvöldum fyrir framferði þeirra, bæði gagnvart Landsbankanum og Kaupþingi. Sú framkoma var ótrúleg og engu lagi lík og sæmir ekki þjóð sem vill kalla sig vinaþjóð okkar Íslendinga. Mér finnst meiri mannsbragur á því að bregðast við framkomu Gordons Browns og Alistairs Darlings með þessum hætti en hinu að nota þessar aðstæður til þess að tala fyrir því að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið í ljósi þess sem við vitum öll, að jafnvel þó að við hefðum verið komin í Evrópusambandið og haft evruna hefðum við eftir sem áður staðið ein á báti. Vandi okkar hefði verið sá sami og niðurstaðan sú sama, að skuldir íslenska bankakerfisins voru margfalt meiri en íslenska ríkið gat ábyrgst. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri í Evrópusambandinu hefur lýst því yfir að hún ábyrgist bankakerfi sitt en engin þeirra, svo að ég viti til, hefur lýst því yfir að hún taki ábyrgð á bankakerfi annars ríkis, hvort sem það er í Evrópusambandinu eða Evrópska efnahagssvæðinu.

Mér fannst, virðulegi forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra gengi fram með yfirlýsingu sem er algjört nýmæli, hún lýsti því í raun yfir að stjórnarsáttmálinn væri úr gildi fallinn, aðstæður hefðu breyst svo mikið að ákvæði í honum ættu ekki lengur við og nú ætti ríkisstjórnin að söðla um, þótt ekki væri um það samið á milli stjórnarflokkanna, og sækja um inngöngu í Evrópusambandið. Við vitum hvað í því felst, þá opnum við fiskveiðilögsögu okkar aftur upp í 12 mílur fyrir Breta. (Gripið fram í.) Viljum við gera það fyrir Breta í staðinn fyrir það sem þeir hafa gert okkur? Við vitum að við opnum fyrir það að breski ríkissjóðurinn og bresk fyrirtæki geti keypt hér upp útvegsfyrirtæki og fiskveiðiheimildir og nýtt þær á þann hátt sem þeim sýnist. Finnst einhverjum hér líklegt að þeir muni setja íslenska hagsmuni ofar sínum eigin? Við vitum það, hæstv. forseti.

Það sem við vitum ekki er hvað þeir vilja sem tala fyrir því að við göngum inn í Evrópusambandið. Vill Samfylkingin ganga að sjónarmiðum Evrópusambandsins, sem eru þekkt, eða setur hún einhver samningsmarkmið af sinni hálfu í þessu efni? Vill varaformaður Framsóknarflokksins ganga að sjónarmiðum Evrópusambandsins eða setur hún einhverja fyrirvara og skilyrði fyrir því að samningar geti tekist? Það kom ekki fram, það var enginn fyrirvari um það hjá þeim sem nú hafa fjallað um málið. Ég hlýt að álykta sem svo að þau séu sammála stefnunni sem Evrópusambandið hefur í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hefja endurreisnarstarfið. Þungamiðjan í því hlýtur að hvíla á Seðlabanka Íslands. Við erum í þeirri stöðu að annar stjórnarflokkurinn hefur lýst yfir vantrausti á aðalbankastjóra Seðlabankans. Ég fæ ekki séð hvernig ríkisstjórnin á að geta fylgt fram stefnu sinni með trúverðugum hætti til að endurreisa íslenskt atvinnulíf öðruvísi en að á bak við þá sem þeirri stefnu eiga að fylgja, og sem þeir setja fram af hálfu Seðlabankans, ríki fullkomin eining. Menn verða að greiða úr því vantrausti áður en lengra er haldið, virðulegi forseti. Ég vona og tek undir það með hv. formanni Framsóknarflokksins að á þessum dögum þýðir ekki að henda mönnum úr bátnum þegar við erum í brimlendingunni. Það verður að láta áhöfnina ná landi (Forseti hringir.) áður en menn huga að því.



[16:08]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég hef hlustað á þessar umræður af mikilli athygli og ég fagna því hvað þær hafa verið málefnalegar, æsingalausar og ábyrgar. Það er mjög mikilvægt að við komum þannig fram sem samstillt heild hér á Alþingi þegar við tökumst á við þann gríðarlega vanda sem nú blasir við okkur. Enn á ný vil ég fagna þeirri samstöðu sem hér virðist almennt vera gagnvart þessum vanda.

Það má margt segja um orsakir hans. Ég fór vel yfir hann í ræðu minni, ég hef gert það margoft áður en ég tel og vil láta það koma fram að bankarnir hefðu átt möguleika og hefðu getað komist í gegnum þessa erfiðleika ef bankakreppan, hin alþjóðlega kreppa, hefði ekki skollið á af jafnmiklum þunga hér á landi og raun bar vitni. Að vísu má segja að margt í verkum þeirra og störfum hafi verið glannalegt, sérstaklega þegar horft er til baka, og að það hefði átt að gera ráðstafanir til að minnka bankakerfið sem hlutfall af þjóðarframleiðslu okkar og hagkerfi. En ég tel eigi að síður að hefði þeim unnist tími til að vinna sig úr þeim vanda áður en holskeflan reið endanlega yfir hefði þetta getað bjargast. Því miður varð raunin ekki sú.

Nú segja menn: Íslenska ríkisstjórnin og Seðlabankinn gerðu mistök á þessari leið. Það getur vel verið að gerð hafi verið einhver mistök, það væri mjög undarlegt að takast á við svona erfiðleika án þess að einhvers staðar væru gerð mistök. Ég hygg þó að það sé alveg sama, þegar menn líta í baksýnisspegilinn, til hvaða ráða hefði verið gripið þegar komið var fram undir lok septembermánaðar. Niðurstaðan blasti við, bankarnir voru að komast í þrot vegna þess að þeir gátu hvergi endurfjármagnað sig. Þess vegna breytti í raun og veru litlu til hvaða ráða var gripið af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabanka hvað það varðar, þroti þeirra varð ekki afstýrt. Menn geta komið eftir á og sagt: Ef stjórnin hefði gert þetta eða Seðlabankinn hitt hefði þetta kannski farið eitthvað öðruvísi. Ég tel að það sé rangt vegna þess að niðurstaðan varðandi bankana blasti við eftir þá atburði sem gerðust vestur í Bandaríkjunum 15. september þegar Lehman-bræður fóru á hausinn með þeim afleiðingum sem það hafði á alþjóðafjármálakerfið og allir þekkja.

Nú er verið að reyna að reisa við bankakerfi um allan heim með þvílíkum fjárveitingum og stuðningi hins opinbera að annað eins hefur aldrei sést. Ganga þar fremst í flokki forusturíki alþjóðakapítalismans, Bandaríkin og Stóra-Bretland, og beita hiklaust ríkissjóðum sínum til þess að koma hér til aðstoðar. Þau standa ekki frammi fyrir því sem ríki að nánast allt bankakerfi þeirra hafi verið komið að fótum fram þó að margir stórir og fornfrægir bankar hafi mátt lúta í lægra haldi gagnvart þessum ósköpum. Vandi okkar er hins vegar sá að langstærsti hlutinn af bankakerfi okkar voru þeir þrír bankar sem nú hafa átt við erfiðleika að stríða sem við erum nú að fást við afleiðingarnar af.

Ég tel að sú leið sem við fórum sem Alþingi samþykkti og lagði blessun sína yfir í síðustu viku hafi verið hin rétta við þessar aðstæður og nú er unnið að því á öllum vígstöðvum að koma þessum málum í heila höfn eftir því sem aðstæður frekast leyfa. Það er gert í skilanefndum bankanna þriggja, það er gert innan nýju bankanna sem nú er verið að endurreisa. Það er gert á vettvangi Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans, í ráðuneytunum og annars staðar í okkar opinbera kerfi þar sem þessi mál eru til umfjöllunar.

Ég tel að allir sem að þessum málum koma með einhverjum hætti séu að reyna að gera sitt besta og við höfum leitað til erlendra ráðgjafa sem þekkja til mála þessum skyldum til þess að hjálpa okkur að greiða úr því að það vitum við, eins og hv. formaður Framsóknarflokksins sagði, að við aðstæður sem þessar er þess aldrei langt að bíða að hrægammar, innan lands og utan, gefi sig fram með sínum hætti. Það þarf að verjast þeim, það þarf að verja eignirnar sem eftir eru í bankakerfinu og svo þarf að nýta þær með sem allra skynsamlegustum hætti til að standa skil á skuldum, innstæðum og síðan að sjálfsögðu til áframhaldandi uppbyggingar hérna í landinu. Það er verkefnið og það er vissulega risavaxið eins og margoft hefur komið fram. Við sem berum ábyrgð á þessum málum í dag ætlum ekki að hlaupa frá verkinu eða gefast upp í miðjum klíðum. Við erum í miðjum brimgarðinum og við ætlum okkur að ná landi á nýrri strönd — eins og formaður Framsóknarflokksins mundi orða það — á hinu nýja Íslandi sem mun rísa eftir að við erum komin í gegnum þessar hremmingar.

Gátum við séð þetta fyrir? Ja, menn geta verið vitrir eftir á. Ég tel að ég sé búinn að svara þeirri spurningu með því að fullyrða bankarnir hefðu getað komist í gegnum erfiðleikana ef þeir hefðu ekki fengið náðarhöggið nú síðast í september ofan í það sem yfir þá hefur gengið frá því að undirmálslánakreppan byrjaði í Bandaríkjunum síðla sumars (GÁ: Og helvítis Bretinn.) í fyrra. Það bætti svo ekki úr skák, eins og hv. þingmaður kallar hér fram í, hver framkoma Breta var í okkar garð í síðustu viku vegna þess að ég tel að Kaupþing hefði átt möguleika á að komast í gegnum þetta ef það hefði ekki fengið svo óréttmæta meðferð sem raun bar vitni. Þess vegna veitti Seðlabankinn þeim sérstakt risavaxið þrautavaralán, með góðum tryggingum að sjálfsögðu, sem allir töldu að mundi duga bankanum til að fleyta sér yfir mesta vandann.

Menn hafa talað hér mikið um Bretland. Ég ætla að bæta því við að auðvitað þurfum við samstarf við bresku ríkisstjórnina um að komast í gegnum þetta. Við þurfum t.d. samstarf um að gera okkur þann mat úr eignum Landsbankans sem hægt er og Kaupþings í Bretlandi. Ég tel að þakkarvert sé að breska ríkisstjórnin beitti sér fyrir láni til Landsbankans upp á 100 milljónir punda fyrr í þessari viku til að rekstri bankans væri hægt að halda áfram til að varðveita innviði hans og eignir. Ég tel að það hafi þó bætt úr skák miðað við það ástand sem upp var komið. Það snýr að Landsbankanum.

Hitt er svo annað mál að ég tel að það sé ófyrirgefanlegt að beita lögum um varnir gegn hryðjuverkum gegn Íslendingum. Ég tel afar ólíklegt, ef ekki óhugsandi, að það hefði verið gert gagnvart einhverri stærri og voldugri þjóð en okkur. Því miður horfir það þannig við mér. Hitt er svo annað mál að í þessum lögum eru ákvæði sem hugsanlega mætti beita við aðrar aðstæður en það breytir ekki eðli málsins að fyrst og fremst er þetta löggjöf sem ætluð er til þess að varna árás hryðjuverkamanna. Ég hélt að við værum bandamenn Breta og Atlantshafsbandalagsríkjanna allra í baráttunni gegn hryðjuverkamönnum. Við höfum tekið málið upp á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og kvartað undan þessu og munum fylgja því eftir þar sem við höfum aðstöðu til. En ég legg áherslu á að við munum þurfa að eiga gott samstarf við breska ríkið, við bresk fyrirtæki — fyrirtæki okkar þurfa að gera það áfram — og að sjálfsögðu við breskan almenning sem við höfum alla tíð litið á sem vini okkar.