136. löggjafarþing — 14. fundur
 16. október 2008.
hönnun og stækkun Þorlákshafnar, fyrri umræða.
þáltill. ÁJ o.fl., 22. mál. — Þskj. 22.

[13:38]
Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu um undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar ásamt hv. alþingismönnum Lúðvíki Bergvinssyni, Guðna Ágústssyni, Kjartani Ólafssyni, Björk Guðjónsdóttur, Grétari Mar Jónssyni og Bjarna Harðarsyni.

Tímabært er að reyna að tryggja stöðu Þorlákshafnar með stækkun sem gæti rímað við þá möguleika sem fram undan eru á næstu árum með nýtingu og uppbyggingu margþættra hugmynda um stórvirkar framkvæmdir, sem ítarlega hefur verið rætt um í Þorlákshöfn. Ástæða er að skora á samgönguráðherra að fela Siglingastofnun Íslands að hefja nú þegar undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar svo hún geti þjónustað allt að 60.000–80.000 tonna og 225 metra löng skip.

Eins og höfnin er í dag komast ekki þangað skip sem eru meira en 150 metrar og 20 þúsund tonn. Miklu munar til að það geti tryggt eðlilega uppbyggingu á komandi árum, bæði á Íslandi og ekki síst í Þorlákshöfn. En þar, í næsta nágrenni orkukatla þjóðarinnar, hefur lengi verið biðstaða.

Mikil uppbygging er fyrirhuguð í Þorlákshöfn á næstu árum á sviði iðnaðar, stóriðju og matvælaiðnaðar. Þess vegna er það einmitt mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafi á takteinum hugmyndir að stærð og gerð hafnar á næstu missirum. Þorlákshöfn er eina þjónustuhöfnin fyrir allt Suðurlandsundirlendið, en þar er mjög mikil uppbygging atvinnurekstrar og byggða eins og sést hefur á undanförnum missirum og árum.

Árnessýsla og Rangárvallasýsla eru mjög ört vaxandi athafnasvæði og mesta uppbygging á landinu er í Árnessýslu. Erlend stórfyrirtæki í ýmsum greinum stóriðju standa nú í viðræðum við bæjaryfirvöld í Ölfusi um uppbyggingu þar, sem mun hafa mikla og jákvæða þýðingu fyrir Suðurland og landið allt. Því skiptir miklu að geta brugðist við eftirspurninni með stuttum fyrirvara.

Ugglaust eru vandkvæði á því að stækka Þorlákshöfn verulega án þess að það kosti mjög mikið en þessa úttekt þarf að ganga í. Siglingastofnun á að vinna það verk og hefur hún að mestu lokið líkanaprófum á öllu svæði hafnarinnar í Þorlákshöfn. Það gæti verið að byggja þurfi nýja höfn til að sinna verkefninu en einnig þarf að gera ítarlegar úttektir á því hvort hægt sé að breyta mannvirkjum núverandi hafnar þannig að hún stækki líkt og hér er talað um og geti sinnt allt að 225 metra löngum og 60.000–80.000 tonna skipum.

Mikilvægt er að gengið sé í þetta nú þegar. Það er borð fyrir báru hjá Siglingastofnun í nýtingu líkanaprófunarstöðvar og það er vinna sem þarf að vinna í framhaldi af því sem hefur þegar verið gert í Þorlákshöfn en því þarf að fylgja eftir til að freista þess að nýta stækkun hafnarinnar á skynsamlegan hátt. Nær 100 stór flutningaskip og farþegaskip koma nú þegar árlega til Þorlákshafnar og mikil aukning er fyrirsjáanleg við eðlilegar aðstæður — sem hljóta að skapast á næstu mánuðum og missirum á Íslandi — auk alls fiskiskipaflotans sem Þorlákshöfn þjónustar, bæði lítil og stór skip.

Þetta er verkefni sem þarfnast ekki margra orða en er eitt af brýnu verkefnunum sem varða landsbyggðina, nýtingu hennar og traustari styrkingu fyrir allt samfélagið og skynsamlega staðsetningu hafnar á einu uppbyggilegasta svæði landsins í dag og á næstu árum og áratugum. Það er mikill munur fyrir allt sem lýtur að skiparekstri og samgöngum við landið að geta sloppið við Reykjanesröstina að einhverju leyti eða fara með djúpsiglingar þar. Fyrir utan það að aðstæður eru allar þannig í nágrenni Þorlákshafnar að þar liggur fyrst og fremst krafa um að gerð verði stærri höfn sem geti sinnt nútímakröfum.



[13:44]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér þingsályktunartillögu um undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar. Hv. frummælandi og framsögumaður, Árni Johnsen, hefur farið nokkrum orðum um málið. Ég er ásamt öðrum þingmönnum úr Suðurkjördæmi meðflutningsmaður tillögunnar sem ég er í raun að sjá fullprentaða núna.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt þegar við ræðum þessa tillögu að við áttum okkur á hver staða málsins er. Hún er sú að það er nýbúið að stækka höfnina í Þorlákshöfn og sú stækkun miðaðist við þær þarfir sem eru í dag fyrir vinnu og framkvæmdir í höfninni í Þorlákshöfn, þ.e. skipakomur þangað.

Það er hárrétt hjá hv. flutningsmanni Árna Johnsen að það hefur staðið nokkuð lengi mikil umræða um stóriðjuframkvæmdir í Þorlákshöfn. Hjá nefnd á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga sem sveitarstjórnarmenn í Ölfusi hafa tekið þátt í hafa þessir möguleikar verið ræddir beint við aðila sem eru í álframleiðslu og ýmsum öðrum þungaiðnaði en þær viðræður taka alltaf mið af því að byggð verði stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Það verður hvorki álver né þungaiðnaður sem þarf mikla hráefnisflutninga að eða frá nema byggð verði stórskipahöfn í Þorlákshöfn. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur að huga að því máli.

Hins vegar er staðreyndin sú að þegar líkanaprófi sem gert var í líkanamiðstöð Siglingamálastofnunar í Kópavogi var lokið og farið var í að bjóða út þær hafnarframkvæmdir sem nú er lokið við í Þorlákshöfn þá fengust fjármunir fyrir tilstuðlan samgönguráðuneytisins á þeim tíma til að gera líkanapróf af stórskipahöfn og það var gert einmitt vegna þess að botnlíkanið af Þorlákshöfn var til í líkanamiðstöðinni í Kópavogi. Það kostaði því tiltölulega lítið að breyta því líkani þannig að gerð væri slík höfn. Það var keyrt í nokkra mánuði í Kópavogi. Þetta er höfn sem gert er ráð fyrir að taki um 220–230 metra löng skip sem rista um það bil 14–15 metra. Það eru þeir möguleikar sem eru í Þorlákshöfn.

Gerð var gróf kostnaðaráætlun um hvað slík höfn mundi kosta og á þeim tíma var talað um 5–6 milljarða. Það eru líklega ein fjögur ár síðan. Hluti af því var dæling á sandi innan þessarar nýju hafnar sem mig minnir að hafi verið reiknaður á milljarð. Þetta var sundurgreint og er til áætlun um það. Það sem strandar á eru verkefni fyrir svo dýra og viðamikla höfn. Hún verður ekki byggð nema verkefni séu fyrir hana sem borga þann kostnað sem af hlýst. Það er í rauninni það sem ég vil að þessi þingsályktunartillaga beinist meira að og að unnið verði þannig með hana í hv. samgöngunefnd; að menn skoði þar reiknimódel og hagkvæmni þess ef til stóriðnaðar kæmi í Þorlákshöfn sem mundi nýta þessa höfn. Það er aðalmálið. Við vitum nákvæmlega hvernig líkanið lítur út og sú hönnun sem Siglingamálastofnun gerði og hvaða möguleika sú höfn hefur til að taka við stórum skipum.

Mikil vinna hefur verið í gangi í sambandi við stóriðju og orkufrekan iðnað í Þorlákshöfn, sem því miður hefur ekki gengið sem skyldi, en ekki er mjög langt síðan greint var frá því að fyrirtæki sem heitir REC og hafði mikinn áhuga á þessari staðsetningu fyrir sólarselluframleiðslu hafi hætt við og mun setja starfsemi sína upp í Kanada. Það var mikið áfall eftir þá miklu vinnu sem búið var að leggja í varðandi orkufrekan iðnað í Þorlákshöfn.

Það eru enn miklir möguleikar, við eigum mikla orku á þessu svæði og það eru auðvitað skýrar óskir og krafa þess fólks sem býr við Þjórsár/Tungnaársvæðin, Hellisheiðina, að sú orka verði nýtt til atvinnuuppbyggingar á þessu svæði.

Mér er kunnugt um að orkufyrirtækin, bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur, hafa mikinn hug á að þangað megi beina orku- og atvinnuuppbyggingu í sambandi við þeirra vinnslu. Við skulum stuðla að því að svo megi verða að þessi orka megi notast í heimabyggð til atvinnuuppbyggingar þar. En varðandi höfnina sem slíka þá liggur allt fyrir hve stórum skipum þessi höfn geti þjónað, þetta er hægt. Við þurfum að fá rekstrarmódel með tilliti til þess hvaða iðnaður kemur á svæðið. Það er það sem okkur liggur mest á að fá að vita núna.



[13:51]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Stórskipahöfn í Þorlákshöfn er auðvitað sjálfsagt mál og ég er einn af meðflutningsmönnum hv. þm. Árna Johnsens á þessari þingsályktunartillögu. Þetta er mjög þarft verk. Í Þorlákshöfn er í dag flutt mikið út af vikri. Væntanlegur er mikill útflutningur á vatni, vatnsútflutningur. Þegar vatnsverksmiðjan verður komin á fullt verður það gríðarlegt magn. Eftir því sem ég best veit þá er talað um að þegar allt verður komið á fulla ferð í vatnsútflutningnum fari einn gámur á þriggja mínútna fresti frá verksmiðjunni niður að höfn. Menn eru jafnvel með hugmyndir um að setja upp járnbrautarteina og flytja vatnið þannig niður að höfn.

Það er auðvitað full þörf á því núna að við hugleiðum hvernig við getum nýtt orkuna. Við þurfum að fara fram á það við Landsvirkjun að hún endurskoði hugmyndir sínar um stóriðju með því að virkja neðri hluta Þjórsár. Þetta eru hlutir sem gætu auðveldað atvinnuuppbyggingu. Ef við gætum fengið útlendinga til að koma inn í landið með peninga þá væri enginn staður hagkvæmari þegar búið er að ákveða að virkja í Helguvík og á Bakka við Húsavík en að fara í stóriðjuframkvæmdir í Þorlákshöfn eða einhvers konar stóriðju þar.

Það liggur fyrir að hvergi er framleitt meira rafmagn en einmitt í Árnes- og Rangárvallasýslum og þetta er eina höfnin á því svæði í dag sem er möguleg fyrir útflutning á ýmiss konar vöru. Auðvitað er verið að byggja líka höfn núna austar í kjördæminu, þ.e. á Bakka, sem gæti orðið útflutningshöfn með tíð og tíma ef hún verður alvöruhöfn sem ég held að hún verði. Þegar búið verður að setja yfir 20 milljarða í hana verður kannski hægt að nota hana. Þá verður þar stórskipahöfn líka þó svo að ég hafi ekki verið sammála því að fara í þær framkvæmdir. Ég vildi frekar fara í framkvæmdir í Þorlákshöfn. En það er annað mál og framkvæmdir eru hafnar þannig að vonandi hefur maður haft rangt fyrir sér hvað varðar höfnina á Bakka í framtíðinni.

Það er mjög þarft að undirbúa stórskipahöfn í Þorlákshöfn og standa klár að því, því að slíkt tekur allt sinn tíma. Og þó svo að menn séu að byrja á því að undirbúa stækkun og rannsóknir tekur þetta langan tíma og vonandi verðum við komin í annað umhverfi en við erum í akkúrat í dag þegar við getum farið í framkvæmdir þarna, sem verður vonandi sem fyrst.

En þegar verið er að tala um orku í Árnessýslu má ekki gleyma því að það eru bara nokkrir kílómetrar frá þessari væntanlegu höfn og upp í Hellisheiðina. Þar er mikil orkuframleiðsla sem hægt væri að nýta til ýmiss konar atvinnustarfsemi í Þorlákshöfn. Þess vegna held ég að allir sjái að það er auðvitað sjálfsagt að fara í framkvæmdir eða rannsóknir og undirbúning fyrir stækkun Þorlákshafnar eða jafnvel nýja höfn fyrir stórskip í Þorlákshöfn .

Ekki má gleyma því að hv. þm. Kjartan Ólafsson flutti ásamt öðrum þingmönnum úr Suðurkjördæmi þingsályktunartillögu um veg yfir Kjöl sem gæti einmitt orðið til þess að mikill útflutningur á fiski og öðrum sjávarafurðum yrði frá Norðurlandi í gegnum Þorlákshöfn. Það mundi stytta siglingaleið verulega að sigla með fisk frá Þorlákshöfn fremur en frá Eyjafjarðarsvæðinu. Mér sýnist því ef af þessu verður að þetta yrði mjög gott fyrir þjóðfélagið í heild sinni og allir mundu njóta góðs af.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til samgn.