136. löggjafarþing — 16. fundur
 29. október 2008.
störf þingsins.

[13:33]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mitt í öllu efnahagsóveðrinu berast okkur Íslendingum þær fréttir að færeyska landsstjórnin hafi ákveðið að leggja til við færeyska lögþingið að rétta okkur hjálparhönd á óvenjurausnarlegan hátt. Með því sýna Færeyingar okkur mikinn drengskap og veglyndi sem snertir streng í hjörtum allra Íslendinga. Færeyingar hafa áður sýnt í verki vináttu og frændrækni þegar við höfum þurft á að halda. Ég veit að fjölmargir hafa nú þegar brugðist við þessu vinarbragði og fréttum og sent færeyska lögþinginu og færeyskum fjölmiðlum persónulegar þakkir.

Það er einnig sérstaklega ánægjulegt að í færeyska lögþinginu virðist vera alger pólitískur einhugur um að rétta Íslendingum hjálparhönd með lánveitingu á sérstökum vildarkjörum enda þótt málið hafi ekki enn þá fengið fullnaðarafgreiðslu í færeyska lögþinginu. Það sýnir svo ekki verður um villst að vinátta Færeyinga í okkar garð er fölskvalaus og einlæg og verðskuldar að við þökkum fyrir okkur með sóma og á afgerandi hátt. Ég álít að forseti Alþingis ætti að beita sér fyrir því á vettvangi forsætisnefndar eða ásamt formönnum þingflokka að Alþingi Íslendinga sendi færeyska lögþinginu, þegar það hefur fjallað um málið, og færeysku þjóðinni þakkir þings og þjóðar fyrir einstakan vinargreiða og stórlyndi.



[13:35]
Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að sá vinarhugur og höfðingsskapur sem Færeyingar sýna okkur Íslendingum með þeim tillögum sem fram hafa komið hjá landsstjórninni snerta strengi djúpt í hjörtum okkur. Það er rétt að minnast þess að það er ekki í fyrsta sinn sem Færeyingar hafa sýnt slíkan höfðingsskap þegar á móti hefur blásið hjá okkur Íslendingum.

Sá sem hér stendur var búsettur vestur á Flateyri þegar snjóflóðið hræðilega féll á þorpið. Það er mér ógleymanlegt og í miklu minni hvernig Færeyingar, þegar á móti blés hjá þeim sjálfum og efnahagslíf þeirra var í lægð, stóðu fyrir mikilli söfnun sem síðan gerði það kleift að byggja stóran og mikinn leikskóla á Flateyri sem var stór hluti í því að byggja upp þorpið eftir það áfall sem þar hafði orðið. Þetta kemur því ekki á óvart. Ég tek undir að ég tel að það sé mjög vel við hæfi og beini því alveg sérstaklega til hæstv. forseta þingsins að komi til þess að færeyska þingið samþykki tillögu landsstjórnarinnar munum við koma þakklæti okkar með mjög skýrum hætti til færeysku þjóðarinnar. Tel ég að forseti muni leiða það starf vel og dyggilega.

Við höfum sjálf lært mikið af þessu. Hvað varðar samskipti okkar við Færeyinga höfum við sýnt að hér eru vinaþjóðir sem vinna vel saman. Það hefur verið gott samstarf t.d. um veiðar Færeyinga inni á lögsögu okkar. Við höfum veitt þeim ákveðinn forgang hvað það varðar og við eigum, nú sem endranær, að styðja öll okkar samskipti við Færeyinga. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hóf máls á þessu áðan og þess vegna vil ég nefna að við verðum báðir á EFTA-fundi á næstunni. Þar eigum við að beita okkur af mikilli hörku og festu við það að fylgja eftir hugmyndum Færeyinga um að þeir fái aðild að EFTA. (Forseti hringir.) Ég held að þetta eigi að hvetja okkur til þess að sýna stuðning (Forseti hringir.) við færeysku þjóðina hvað það varðar.



[13:37]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa fallið í garð Færeyinga fyrir þeirra rausnarlega tilboð og væntanlega ákvörðun um lánveitingu til okkar og er ekkert ofmælt í þeim efnum sem hér hefur verið sagt.

Mig langar að víkja að öðru sem ég held að sé meira aðkallandi að fá botn í í þinginu og það er stýrivaxtahækkunin sem ákveðin var í gær. Hæstv. forsætisráðherra lýsti því í útvarpsfréttum að vaxtahækkunin væri í samræmi við samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og staðfesting á því að tilgangurinn með hækkuninni væri að styrkja krónuna. Það sama kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra í hádegisfréttum í dag þar sem ráðherrann sagðist ekki geta annað en stutt þessa stýrivaxtahækkun.

Hins vegar lýsti hæstv. menntamálaráðherra því yfir í viðtali við Stöð 2 í gær að sér fyndist stýrivaxtahækkun ekki heppileg og er afar óhress með hana. Ríkisstjórnin situr í umboði þingsins þannig að það sem hún gerir þarf að vera þingmeirihluti á bak við. Mig langar að forvitnast um það hjá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna hvort stýrivaxtahækkunin sé liður í aðgerð sem ríkisstjórnin hafi samþykkt og stjórnarflokkarnir standi á bak við. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að það sem ríkisstjórnin gerir og semur um við erlenda stofnun eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé í umboði meiri hluta þingsins. Það gengur auðvitað ekki að ríkisstjórnin tali tveimur tungum í þessu máli. Annars vegar koma tveir ráðherrar og lýsa yfir stuðningi við aðgerðina og telja hana nauðsynlega. Hins vegar kemur einn ráðherra og varpar allri ábyrgð af herðum sér yfir á herðar annarra. Ég fer fram á það, virðulegur forseti, að botn fáist í málið.



[13:40]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þakklæti til Færeyinga fyrir að hafa sýnt okkur þann vinarhug í verki að styðja okkur á þessum erfiðu tímum. En ég held að það sé líka mikil ástæða til þess að ræða það mál sem kom fram í gær, þ.e. stýrivaxtahækkunina. Ég fullyrði, alla vega fyrir mína hönd, að við vorum ekki upplýstir um það, formenn stjórnarandstöðuflokkanna, að slík skilyrði væru inni í samningum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og umsókn um lán frá honum að hækka ætti stýrivexti upp í 18%, um 50% frá því sem áður hafði verið ákveðið. Ég get sagt það hreinskilnislega að við forustumenn stjórnarandstöðunnar lýstum því sérstaklega yfir að við teldum að halda ætti stýrivöxtunum alla vega óbreyttum við núverandi aðstæður.

Ég sá í Morgunkorni Glitnis að vísasta leiðin til að lækka vexti einn, tveir og þrír væri bara að lýsa því yfir að Íslendingar væru á leiðinni inn í ESB og tækju upp evruna. Það mundi strax hafa áhrif. Ég spyr: Í hvers umboði tala greiningardeildir bankanna núna? Þetta eru ríkisbankar og við höfum notið leiðsagnar greiningardeilda þeirra á undanförnum árum og höfum nú lent í dæmalausu klúðri og vandræðagangi í fjármálum þess vegna. Ég spyr: Ef svona „patent“-lausn er fyrir hendi, (Forseti hringir.) hvar voru þessir menn þegar við fórum í þann vandræðaferil sem við erum í nú?



[13:42]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að fagna og þakka framgöngu Færeyinga í okkar garð. Færeyringar hafa alla tíð stutt okkur með ráðum og dáð og það er alveg klárt mál að á vettvangi alþjóðasamfélagsins voru Færeyingar okkur bestu og kannski einu sönnu vinir. Vinátta þeirra hefur aldrei verið háð skuldbindingum. Það þurfum við að meta, það þurfum við að rækta. Þess vegna þurfum við að gæta þess að styrkja Færeyinga í einu og öllu sem við getum, eins og hér hefur komið fram, virðulegi forseti.

Það er vonandi að það fari að minnka froðulöðrið í umræðunni sem verið hefur síðustu daga um alvöru málsins. Vonandi beina menn sjónum að því sem skiptir miklu máli nú, þ.e. að því að létta róðurinn hjá þeim sem verst fara út úr ágjöfinni, hjá fjölskyldum og fyrirtækjum, að finna þar flöt sem getur brúað bil. Það eru hlutir sem þarf að ræða og skoða í fullri alvöru án þess að góna á „glimmer“ Evrópubandalagsins sem er hvorki í nálægð né í framtíðinni svo að mark sé á takandi miðað við þann tíma sem allt slíkt tekur. Þess vegna er rétt að menn spóli sig aðeins niður. Það væri kannski ekki svo vitlaust að kanna það að taka upp færeyska krónu í samfloti með Færeyingum á jafnréttisgrundvelli. En öll mál þarf að skoða.



[13:44]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs í kjölfar þess að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kallaði eftir því hvort ríkisstjórnin hefði meirihlutastuðning á Alþingi við þær aðgerðir sem hún hefði gripið til, þ.e. vegna stýrivaxtahækkunar sem Seðlabankinn tók ákvörðun um. Það má ekki gleyma því að Seðlabankinn er sjálfstæð stofnun og tekur sína ákvörðun.

Það samkomulag eða áætlun sem íslensk stjórnvöld hafa sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á eftir að taka fyrir í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hefur hún ekki enn tekið afstöðu til þeirrar áætlunar. Afstaða stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins liggur því ekki á þessu stigi fyrir nema að komið hafa vilyrði úr þeirri átt. Seðlabankinn tók þá ákvörðun í gær að hækka stýrivexti úr 12% í 18% og hækkaði þar um 6 prósentustig. Væntanlega gerir Seðlabankinn það til að reyna að standa vörð um krónuna og til að reyna að fá verð á hana. Staðreyndin er vitaskuld sú að um það bil 80% af skuldum fyrirtækja eru í erlendri mynt og það er mikill hagur fyrir fyrirtækin að fá verð á krónuna þannig að hægt sé að meta þær skuldir af einhverju viti. Ég get ímyndað mér að 20% heimila séu með erlendar skuldir og það er því mikill hagur fyrir heimilin og innflutninginn að fá verð á krónuna. Varðmenn krónunnar, þeir sem telja að krónan sé framtíðarmynt íslensku þjóðarinnar, hljóta að dásama þessa aðgerð. (Forseti hringir.) Fyrir hina sem telja skynsamlegra að leita annarra leiða, (Forseti hringir.) til að mynda að ganga til liðs við Evrópusambandið, horfa menn á þetta sem tímabundna aðgerð (Forseti hringir.) til að krónan fái verðgildi.



[13:47]
Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég kem hér til þess að ræða aðeins mál málanna, stýrivaxtahækkunina. Ég get þó ekki látið hjá líða að taka undir þær þakkir sem fluttar hafa verið Færeyingum. Ég tel líka ástæðu til að Alþingi hafi hugfast að þrátt fyrir nokkurn fjandskap sem Bretar, og jafnvel fleiri þjóðir, hafa sýnt okkur, sérstaklega þó Bretland, eigum við þar líka marga vini. Í stjórnmálum Bretlands hafa margir — kannski ekki kratarnir — tekið svari okkar.

Varðandi þá umræðu sem verið hefur í samfélaginu er ég ekki einn um það — ég hygg að svo sé með þjóðina alla að hún sé nokkuð ráðvillt í því hver fari með völd. Framan af þessu kjörtímabili báru ráðherrar Samfylkingarinnar því fyrir sig að þeir hefðu engin völd, allt hefði verið ákveðið af fyrri ríkisstjórn. Nú er viðbáran sú að þeir hafi engin völd, þetta sé allt ákveðið uppi í Seðlabanka. Málflutningur af þessu tagi nær ekki máli að mínu viti.

Ástæða er til þess að það sé á hreinu hver afstaða Samfylkingarinnar er til stýrivaxtahækkunarinnar — þetta er pólitísk ákvörðun, ákvörðun sem tekin er í samskiptum Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fylgt eftir af embættismönnum sem starfa á vegum og í umboði framkvæmdarvaldsins og lúta þar með vissum hætti pólitísku valdi. Enda hefur ekki heyrst nein breyting á því að valdskiptingin sé þrískipt, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Það hefur ekki verið gefið út að það fyrirkomulag sé með neitt öðrum hætti. Það að fulltrúar Samfylkingarinnar skjóti sér bak við hið svokallaða sjálfstæði Seðlabankans þykir mér ekki mjög stórmannlegt.

Við áttum fund um þetta í fjárlaganefnd í morgun og ég kalla eftir svörum fjárlaganefndarmanns frá Samfylkingunni, hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, um það hver afstaða hennar er (Forseti hringir.) til þeirrar stýrivaxtahækkunar sem nú (Forseti hringir.) hefur verið ákveðin og ég tel að sé ekki að öllu leyti farsæl fyrir þjóðina.



[13:49]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að beina þessari fyrirspurn til mín. Fyrst hélt ég að hann væri að því vegna þess að ég gegni formennsku í samgöngunefnd þingsins en ég heyrði það á ræðu hans að það er vegna setu minnar í fjárlaganefnd.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði að á fund fjárlaganefndar í morgun komu m.a. fulltrúar frá Seðlabanka Íslands, frá fjármálaráðuneyti og hagfræðingar frá háskólasamfélaginu til að ræða efnahagsmálin og ekki síður stýrivaxtahækkunina. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir það sem þar kom fram enda veit hv. þingmaður það eins vel og ég — þær upplýsingar voru gefnar þar — að Seðlabanki Íslands tók ákvörðun og kynnti þessa tilhögun um hækkun stýrivaxta. Það er jú Seðlabankinn sem fer með þetta vald lögum samkvæmt og hann tilkynnti þetta í gær. Hvorki ég né hv. þingmaður eða aðrir hafa einhverjar forsendur til að efast um þá hækkun á þessum tímapunkti.

Fyrst ég er komin upp í þennan ræðustól er ágætt að rifja það upp — af því að hv. þingmaður kemur úr Framsóknarflokknum — að á síðasta kjörtímabili stóð Framsóknarflokkurinn fyrir gríðarlegum stýrivaxtahækkunum með tilheyrandi vandræðum. Nú glímum við við allt annan veruleika í íslensku efnahagslífi, við erum fyrst og fremst að reyna að ná stöðugleika gengis og gjaldmiðils og ná niður verðbólgu. Við skulum vona að þessi stýrivaxtahækkun sem Seðlabankinn hefur kynnt nái markmiðum sínum en verði ekki til þess sem gerðist hér á síðasta kjörtímabili og hv. þingmaður þekkir býsna vel.



[13:51]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þær undirtektir sem ég hef fengið við það mál sem ég tók upp í upphafi þingfundar um vinarbragð Færeyinga í okkar garð. Ég verð ekki var við annað en að breið pólitísk samstaða sé um þá afstöðu sem ég þá lýsti. Ég get tekið undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni þar sem hann fjallaði m.a. um afstöðu okkar Íslendinga til aðildarumsóknar Færeyinga að EFTA. Það viðhorf hefur komið fram í máli íslenskra stjórnvalda og þingmannanefndar EFTA að við eigum að styðja við beiðni þeirra þar að lútandi. Í heimsókn EFTA-nefndarinnar til Færeyja nú fyrir skemmstu kom fram í máli okkar hv. þm. Jóns Gunnarssonar — við vorum fulltrúar Alþingis þar — stuðningur við það.

Ég ætla aðeins að víkja að hinu málinu sem tekið hefur verið upp undir þessum dagskrárlið en það er stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Það er nokkuð sérkennilegt að verða vitni að því að ráðherrum í ríkisstjórninni ber ekki saman um það hvort þetta sé hefðbundin stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans, á þeim forsendum sem hann leggur venjulega til grundvallar, eða hvort þetta sé í samhengi við ákvörðun stjórnvalda um að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er mjög mikilvægt að fá það á hreint hvað er satt og rétt í því máli. Ríkisstjórnin hafði lýst þeirri skoðun, gagnvart stjórnarandstöðunni a.m.k., að engin skilyrði héngju á spýtunni gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ekki væru ásættanleg. Ég tel að þessi mikla hækkun, 50% stýrivaxtahækkun, sé ekki ásættanlegt skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Réttilega er hægt að færa hagfræðileg rök fyrir því að slík hækkun sé sett fram til þess að reyna að styrkja gengi íslensku krónunnar en margar ákvarðanir af þessum toga hafa í gegnum tíðina haft þveröfug áhrif víða um heim þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur komið að. (Forseti hringir.) Það er því ekki sjálfgefið að menn nái fram þeim markmiðum sem að er stefnt með þessari ákvörðun.



[13:54]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir mál þeirra þingmanna sem hafa fært þakkir til Færeyinga fyrir þeirra vinarhug og það sem landstjórnin hefur sett fram um að þeir muni koma að því að lána Íslendingum á þessum hörðu tímum hjá okkur.

Það er ljóst að allir flokkar nema Vinstri grænir kölluðu eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það var jafnframt ljóst að í því samstarfi sem tekið var upp við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn mundi felast að hækka þyrfti stýrivexti. Það kom hins vegar töluvert á óvart að sú hækkun þyrfti að vera jafnmikil sem raun bar vitni í gær, þ.e. að grípa þyrfti til svo róttækra ráðstafana.

Það er hins vegar mjög mikilvægt að gjaldeyrismarkaðurinn komist á rétt ról og að það gerist sem fyrst. Þetta er liður í því að það gerist og við skulum vona að stýrivaxtahækkunin hafi tilætluð áhrif þannig að eftir frekar skamman tíma verði hægt að lækka stýrivexti og atvinnulífið eigi bærilega möguleika á að lifa í gegnum þá kreppu sem við göngum nú í gegnum. Það skiptir máli að atvinnulífið komist sem fyrst í gang og það eru okkar meginhagsmunir að svo verði.

Ég ítreka það að menn vildu, og (Forseti hringir.) töldu það einu leiðina, að farið yrði í samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og að því stóðu flestallir flokkar.



[13:56]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa fært Færeyingum þakkir fyrir þann stórhug og vinarþel sem þeir hafa sýnt í garð okkar Íslendinga. Ég vil sérstaklega þakka Árna Þór Sigurðssyni fyrir að vekja máls á því atriði. Mér finnst full ástæða til þess að við Íslendingar sendum Færeyingum hlýjar kveðjur og þökkum fyrir — þegar við þurfum á að halda er ljóst að við eigum þar mjög góða vini.

Varðandi stýrivextina liggur það fyrir að hingað til hefur verið miðað við það í hagstjórninni að stýrivextir séu notaðir til að koma í veg fyrir verðbólgu. Seðlabankinn hefur miðað við að hækka stýrivexti til að draga úr þenslu í þjóðfélaginu, það er það sem Seðlabankinn hefur haft fram að færa hvað það varðar. Seðlabankinn hefur farið fram með þeim hætti á undanförnum árum, með mjög óábyrgum stýrivaxtahækkunum, að hann gerði íslenska gjaldmiðilinn að ákveðnum lottógjaldmiðli sem varð til þess að færa upp gengi gjaldmiðilsins án nokkurra eðlilegra viðmiðana. Nú þegar beita á þessari aðferð við þessar aðstæður er það rangt.

Ég vil vekja athygli á því að í gær talaði hæstv. iðnaðarráðherra með þeim hætti að það varð ekki skilið öðruvísi en svo að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði ekki sett þau skilyrði að stýrivextir yrðu hækkaðir eins og hér er um að ræða. Því verður að líta svo á að þetta sé fyrst og fremst mál Seðlabanka Íslands og ekki annarra meðan annað er ekki upplýst. Þetta er mjög óráðlegt. Það skiptir mestu máli í dag að koma hjólum atvinnulífsins í gang, gera fyrirtækjunum og heimilunum mögulegt að starfa. Það gerum við ekki með því að hækka vexti. (Forseti hringir.) Við gerum það með því að lækka vexti og skapa skilyrði vaxtar og eðlileg lánakjör í landinu.



[13:58]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þingmenn taka undir þær þakkir sem hafa verið færðar til frænda okkar Færeyinga. Ég vil þakka Árna Þór Sigurðssyni fyrir að taka það mál upp hér og ræða. Það er afar mikilvægt að finna stuðning hjá frændþjóð við þessar aðstæður og staðreyndin er sú að í hvert skipti sem á móti hefur blásið hjá okkur, og má þá nefna Vestmannaeyjagosið, snjóflóð o.fl., hafa Færeyingar staðið upp og reynt að styðja okkur sem mest þeir mega og fyrir það eiga þeir þakkir skildar.

Það þarf ekki að koma á óvart að þingmenn séu örlítið hugsi eða undrandi yfir því hvernig Seðlabankinn hefur komið þessum stýrivaxtahækkunum á framfæri. Seðlabankinn tekur þessa ákvörðun, um að hækka stýrivexti um 6 prósentustig, dálítið óvænt en gerir það síðan þannig að það sé vegna samkomulags ríkisstjórnarinnar við IMF, sem reyndar er ekki komið á. Ef Seðlabankinn hefur gert það vegna þess er hann í reynd að lýsa því yfir að hann sé hættur að styðjast við sjálfstæða peningastefnu, þ.e. þá er hann ekki lengur sjálfstæður, yfirlýsing hans felst í því. Ef hann er hættur að taka sjálfstæðar ákvarðanir á eigin forsendum en gerir það á einhverjum öðrum forsendum þá er hann í reynd að lýsa því yfir að hann sé ekki lengur sjálfstæður, en á sama fundi lýsti Seðlabankinn því yfir að hann væri sjálfstæður. Það þarf því ekki að koma á óvart að ýmsir þingmenn séu hugsi yfir þessari stöðu.

Staðreyndin er hins vegar sú að í augnablikinu eigum við fáa aðra kosti en að styðjast við krónuna. Í því eru tveir kostir, að setja hana á flot eða festa gengið. Báðir kostirnir eru erfiðir. Í þeirri áætlun sem lögð hefur verið fram hefur verið lagt upp með að setja krónuna á flot og forsenda þess að það geti gengið (Forseti hringir.) er sú að krónan fái verð. Þetta er liður í því og þetta er líka liður í því að ná verðbólgunni niður og að (Forseti hringir.) lækka skuldir fyrirtækja og heimila í landinu, þó að stýrivaxtahækkunin sé að sjálfsögðu erfið fyrir fólk og fyrirtæki sem þurfa að styðjast við krónuna.



[14:01]
Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu um stýrivextina en ég verð að játa að ræða hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar um sjálfstæði Seðlabankans minnti mig helst á rausið í Bjarti í Sumarhúsum svo undarlegt sem það er og á skjön við allar þær reglur sem gilda. Seðlabankinn hefur visst sjálfstæði en fylgir stefnu stjórnvalda, það er alveg ljóst. Og sé það svo að um það hafi verið samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þeim drögum að samningi sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vitnaði hér til eins og plaggs sem hann hefði lesið en sagði í hinu orðinu að væri ekki til vegna þess að það væri ekki búið að skrifa undir það — auðvitað er plaggið til þó að ekki sé búið að ganga endanlega frá því til undirskriftar — ef svo er að þar sé gert ráð fyrir þessari stýrivaxtahækkun þá er alveg ljóst að bæði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hæstv. iðnaðarráðherra, sem talaði hér í gær, eru algjörlega ómerkir orða sinna. Þeir hafa algjörlega vísað því á Seðlabankann sem sjálfstæðri ákvörðun hans. Þetta er pólitísk ákvörðun. Það er pólitísk ákvörðun um hvað er samið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er ekki bara einhliða skilyrði heldur er það ákvörðun sem tekin er í stjórnmálum. Það er kallað eftir því hér að Samfylkingin átti sig á að hún er í ríkisstjórn við mjög erfiðar aðstæður og það er mikilvægt að ríkisstjórnin komi fram í samstöðu á slíkum tímum en að annar ríkisstjórnarflokkurinn standi ekki upp í Alþingi og mótmæli þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin hefur tekið og standi svo fyrir mótmælaaðgerðum á tröppum Ráðherrabústaðarins um helgar gegn þeirri ríkisstjórn sem hann sjálfur situr í. Við búum orðið við algjört stjórnarfar fáránleikans með því að hafa aðra eins menn við stjórnvölinn.

Hitt er miklu lengra mál en svo að ég geti lokið því á tveimur sekúndum sem ég á eftir (Forseti hringir.) af ræðutíma mínum að ræða um gildi þessarar stýrivaxtahækkunar. Ég held að það hefði verið farsælla að skoða aðrar leiðir (Forseti hringir.) en aðalatriðið hefði þó verið að það væri samstaða innan ríkisstjórnarinnar um þá leið sem farin er.