136. löggjafarþing — 16. fundur
 29. október 2008.
um fundarstjórn.

ummæli þingmanns.

[14:03]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil bara vísa því til forseta þegar hv. þingmenn beita því orðalagi að menn séu ómerkingar og að þá sé að minnsta kosti sett ofan í við þá þegar þeir nota ræðustólinn á þann hátt sem hér er gert.

Hv. þingmaður sem fyrir nokkrum dögum studdi þá ákvörðun og flokkur hans hefur lýst þeirri skoðun sinni að skynsamlegt sé að leita á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins kemur hingað upp í kjölfar þess að ákvörðun er tekin og lýsir því yfir án þess að blikna að menn séu ómerkingar orða sinna og án þess að færa fyrir því nokkur rök. Ég tel, virðulegi forseti, að nægur orðaflaumur eigi sér nú stundum stað hér þó að menn beiti ekki svona orðfæri við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég held að hv. þingmaður verði að gæta orða sinna og ég held að það sé mikilvægt að forseti líti til með honum þegar hann er hér í ræðustól.



[14:04]
Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Ég vil reyndar bera af mér sakir. Í fyrsta lagi fyrir það að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur ekki það góða heyrn að hann taki rétt eftir því hvað sagt er. Ég hef ekki sagt að hann væri ómerkingur. Það er töluverður munur á því eða að segja að menn séu ómerkir orða sinna. Á þessu er grundvallarmunur og ráðlegg ég hv. þingmanni að kynna sér muninn á þessum hugtökum. Þar fyrir utan sem skiptir nokkru máli í þessu þá hef ég einungis gagnrýnt það að menn komi hér upp og tali gegn ákvörðun eigin ríkisstjórnar. Það er vítavert á þeim tímum sem nú eru. Það er rétt, ég hef ekki eða við í Framsóknarflokki (Gripið fram í: Hver var að því?) töluðum ekki gegn henni. Við höfum staðið með ríkisstjórninni á ögurtímum. Við höfum ekki beitt okkur þvert gegn því (Forseti hringir.) að leitað sé til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. (Gripið fram í.) Við stóðum með neyðarlögunum en vandinn við stjórn landsins nú (Forseti hringir.) er samstöðuleysi í ríkisstjórninni og orðaflaumur samfylkingarmanna sem (Forseti hringir.) koma hér upp og kalla þingmenn stjórnarandstöðunnar kjölturakka ef þeir voga sér að fara í málefnalega umræðu.