136. löggjafarþing — 16. fundur
 29. október 2008.
framkvæmdir við Vestfjarðaveg.
fsp. ÁI, 75. mál. — Þskj. 75.

[14:06]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Einstaklingar og félagasamtök hafa á undanförnum missirum aftur og aftur orðið að grípa til þeirrar nauðvarnar að höfða mál fyrir dómstólum til að verja náttúru Íslands fyrir atgangi stóriðjufyrirtækja og Vegagerðar. B-leið Vestfjarðavegar númer 60 um Barðaströnd milli Bjarkarlundar og Reykhólahrepps er ein þeirra framkvæmda sem rataði fyrir dómstóla. En á þeirri leið er áætlað að leggja veginn í gegnum Teigsskóg sem er upprunalegur og ósnortinn birkiskógur á náttúruminjaskrá og yfir þveran Gufufjörð og Djúpafjörð og svo nærri gamalgrónum arnarsetrum að sérfræðingar telja einsýnt að þau verði afrækt úr ábúð fyrir vikið.

Skipulagsstofnun lagðist á sínum tíma gegn þessum framkvæmdum og taldi þær hafa umtalsverð og neikvæð umhverfisáhrif. Í því dómsmáli sem hér er vitnað til var tekist á um lögmæti úrskurðar fyrrverandi umhverfisráðherra sem sneri við þeirri afstöðu Skipulagsstofnunar. Það voru landeigendur, Náttúruverndarsamtök Íslands og Fuglavernd sem höfðuðu málið og þann 26. september síðastliðinn felldi Héraðsdómur Reykjavíkur þann úrskurð ráðherra úr gildi sem fjallar um þennan umdeilda kafla milli Bjarkarlundar og Reykhólahrepps.

Bent hefur verið á, frú forseti, að réttara væri að leggja veginn á þessum kafla í göngum undir Hjallaháls og Gufudalsháls og að það væri í samræmi við framtíðarsýn um vegagerð á Vestfjörðum. Trúlega er það ekki ódýrasta lausnin en gangalausnin hefur þó hvorki verið skoðuð í umhverfismati né lagt mat á endanlegan kostnað við hana. Það eina sem heyrist er að hún sé of dýr. Ég spyr ekki aðeins um framkvæmdakostnaðinn heldur um ávinninginn í heild. Ég spyr um viðhald og snjómokstur. Ég spyr um umferðaröryggi, arðsemi af styttingu vegarins um eina 30 kílómetra og bendi á að mikil verðmæti eru fólgin í ósnortinni náttúru á Vestfjörðum.

Nú má enginn túlka þessi orð mín sem andstöðu við vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum. Samgöngubætur á Vestfjörðum eru forgangsmál og varða landsmenn alla. En þau má hins vegar ekki leysa á kostnað ósnortinnar náttúruperlu sem Teigsskógur er eða á kostnað aldagamalla arnarsetra. Vegagerðin tók hart til varna í þessu máli og hefur lýst vonbrigðum með niðurstöðuna og því er eðlilegt að spyrja ráðherra hér og nú um viðbrögð.

Ég dreg enga dul á að ég tel að Vegagerðin eigi að sætta sig við niðurstöðu héraðsdóms og hef bent á að hún er í samræmi við upphaflega afstöðu Skipulagsstofnunar og í samræmi við framtíðaráform um vegagerð á Vestfjörðum. Ég bendi því á að í niðurstöðu dómsins felast tækifæri fyrir samgönguyfirvöld til að endurskoða þetta vegarstæði, leita sáttar um það og nýta tímann til að setja gangalausnina í umhverfismat. Og spurningin er, frú forseti: Hvernig hyggst ráðherra bregðast við dómi héraðsdóms um þetta efni?



[14:09]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur á þingskjali 75 vil ég segja þetta: Í dómi héraðsdóms um téðan áfanga Vestfjarðavegar var niðurstaðan sú að umhverfisráðherra hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem í matsferlinu hafi ekki farið fram mat á líklegum umhverfisáhrifum þverunar Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Hins vegar hafnar dómurinn öllum öðrum málsástæðum stefnanda þar á meðal að umhverfisáhrif framkvæmda á gróðursamfélag hafi ekki verið upplýst þegar ráðherra féllst á leið B.

Andstaða við þessa mikilvægu samgöngubót fyrir sunnanverða Vestfirði hefur einkum mótast af áhyggjum um áhrif vegarins á Teigsskóg í Þorskafirði en niðurstaða dómsins tekur af öll tvímæli um að ráðherra hafi haft nægilegt svigrúm til að kveða á um mótvægisaðgerðir og séu í úrskurði hans sett fram slík skilyrði.

Fram hefur komið að jarðgangavalkostur með göngum undir Hjallaháls og göngum undir Gufudalsháls er um 3 milljörðum kr. dýrari en leið B. Það er mikill munur á að hægt sé að taka jarðgöng sem raunhæfan valkost. Vegagerðin hefur haft til umfjöllunar dóm héraðsdóms og forsendur hans og hefur ákveðið að áfrýja honum til Hæstaréttar.



[14:11]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna ákvörðun hæstv. ráðherra um að fara með þetta mál til Hæstaréttar. Það er full ástæða til að reyna að hnekkja þeirri niðurstöðu sem þarna varð samhliða því að rétt er að vekja athygli á að helstu málsástæðurnar, sem voru þær að Vegagerðin mundi skaða Teigsskóg um of, var í raun og veru vísað frá í héraðsdómi. Héraðsdómur hafnaði kröfum um það efni og öðrum sem tjaldað var til til að reyna að koma í veg fyrir þessa vegagerð að undanskildu einu atriði sem varðar þverun tveggja fjarða.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að mér ofbýður algjörlega framganga félagasamtaka eins og fuglaverndarsamtakanna og Náttúruverndarsamtaka Íslands þar sem þau leggja sig í líma við að torvelda vegagerð, þarfa vegagerð á landsbyggðinni, en þegja þunnu hljóði þegar Vatnsmýrin í Reykjavík er grafin sundur og saman í byggingum. Grafin sundur og saman (Forseti hringir.) án þess að nokkurt hljóð heyrist úr horni frá þessum ágætu samtökum.



[14:12]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil sömuleiðis fagna niðurstöðu hæstv. samgönguráðherra að senda þetta mál áfram til Hæstaréttar. Þetta er mjög sérkennilegt mál að því leyti að þarna eru heimamenn sem búa á sunnanverðum Vestfjörðum og hafa allir stutt þá vegarlagningu sem áætluð var og þekkja hvað best til náttúrunnar og bera hagsmuni hennar hvað mest fyrir brjósti. Ég hef litið þannig á að þarna hafi nokkrir einstaklingar farið offari í sambandi við þetta mál og á stundum hefur mig grunað að menn væru bókstaflega að reyna að sækjast eftir einhverjum bótum sjálfum sér til handa svo ég sé svolítið grófur. (Gripið fram í.) Ég ætla rétt að vona að það hafi ekki verið ástæðan. En sjálfur er ég þeirrar skoðunar að þetta sé eingöngu til að tefja mjög mikilvægar framkvæmdir sem er löngu orðið tímabært að ráðast í.



[14:13]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þá ákvörðun að þessu máli skuli vera áfrýjað til Hæstaréttar. Ég tel að í þessu máli og við staðsetningu vegarins um Teigsskóg hafi verið leitað allra þeirra eðlilegu leiða sem hægt var að leita og vegarstæðið fært m.a. til að valda sem minnstum spjöllum. Ég tel að það sé svo mikil og róttæk aðgerð að stöðva þessar framkvæmdir að ekki sé við það unað, bara alls ekki við það unað, hæstv. forseti. Búið er að tefja þessar framkvæmdir árum saman með þessu þrasi fram og til baka og það er bara ekki búandi við slíkt vinnulag. Ég sé ekki annað, ef þetta á að ganga svona fram, en að þá neyðist menn til að fara að endurskoða það ferli sem verið hefur um framkvæmdir almennt.



[14:15]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu ekkert athugavert við það að látið sé reyna á mál af þeim toga sem hér er til umfjöllunar fyrir öllum dómstólum, þar á meðal Hæstarétti. Ég vek þó athygli á því að það mun að sjálfsögðu lengja eitthvað í málinu frá því sem verið hefur og kemur þá dálítið spánskt fyrir sjónir að þeir þingmenn sem fagna því sérstaklega að þetta mál fari til Hæstaréttar kvarti einmitt yfir því að málið hafi dregist úr hömlu og ekki sé við það unandi. (Gripið fram í.) Ég verð að segja alveg eins og er burt séð frá efnisatriðum þessa máls að mér finnst alvarlegt þegar þingmenn koma hér upp og gera athugasemdir við að lögformleg ferli séu nýtt af þeim aðilum sem vilja sækja rétt sinn og mega það samkvæmt íslenskri stjórnskipun. Það hljótum við að vilja hafa í heiðri, virðulegi forseti. (KHG: Taka sér fimm og hálft ár í þras.) Þingmaðurinn getur kallað það þras ef honum sýnist svo en það er lýðræðislegur réttur í okkar samfélagi (KHG: Þetta er afskræming á lýðræðinu.) og ef menn vilja snúa af þeirri braut væri fróðlegt að fá að heyra þingmenn segja það.



[14:16]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka það fram vegna orða Vestfirðinga sem hér hafa talað að málflutningi í þessu máli er lokið. Það þýðir ekkert að standa hér í ræðustóli Alþingis og halda áfram að deila við dómarann. Niðurstaða er fengin og ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að það er ekkert eðlilegra, ef menn svo kjósa, en að fara með málið fyrir Hæstarétt.

Ég vek athygli á að það voru fleiri kostir í boði og enn er sá kostur í boði að fara með málið fyrir Hæstarétt en nýta tímann til þess að setja gangaleiðina í umhverfismat og til að ganga úr skugga um raunverulegan kostnað við hana, því að við vitum það sem hér erum inni að bent hefur verið á það af mætri verkfræðistofu og verkfræðingi hér í borginni sem hefur unnið við vegagerð áratugum saman að útreikningar Vegagerðarinnar hvað varðar þessa gangaleið (KHG: Það er málsaðili.) þurfa ekki endilega að standast. Já, hv. þingmaður, það er málsaðili. Það er líklega einn af þessum málsaðilum frá Fuglavernd sem eiga heima á þessu svæði eða hvað? Ég vil benda á að þeir sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson talaði um áðan eru meðal annarra landeigendur á því svæði sem vegurinn á að fara um, landeigendur sem munu ekki vera tilbúnir til að selja land sitt, landeigendur sem núna bíða eignarnáms sem í uppsiglingu hlýtur að vera.

Ég skora á hæstv. ráðherra að sitja ekki með hendur í skauti, og allra síst þegar þau brýningarorð eru uppi um að ekki megi tefja eitt eða neitt, heldur nýta tímann og fara með gangaleiðina í mat og láta finna út raunverulegan kostnað. Það er alveg klárt að það þarf að bæta vegina þarna en það má ekki gera það á kostnað viðkvæmrar náttúru og af skammsýni einni. (KHG: 3 milljarðar.)



[14:18]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég segja vegna þess að það kemur ekki einu sinni heldur tvisvar fram hjá hv. fyrirspyrjanda að gangaleið hafi ekki verið skoðuð með tilliti til kostnaðar. Vegagerðin hefur öll þau gögn sem þarf til að meta kostnað við þessi jarðgöng. Hv. þingmaður vitnar í einn málsaðila sem hefur lagt fram gögn máli sínu til stuðnings um kostnaðarmun milli leiðar B og gangaleiðarinnar. Þar er ekki verið að bera saman alveg nákvæmlega sömu hlutina. Vegagerðin telur að miðað við að vera Þorskafjarðarmegin í 60 metra hæð yfir sjávarmáli þurfi að gera jarðgöng sem eru 3,8 km löng. Viðkomandi aðili setur fram göng sem eru 2,8 km, styttir leiðina um jarðgöngin um einn kílómetra og fer upp í 110 m yfir sjávarmál og sama má segja um Gufudalsveit. Það er því ekki verið að bera saman sömu kosti. Við setjum ekki peninga í dag í það að búa til fullkomin almennileg jarðgöng með því að fara lengst upp í fjöll með þau. Þess vegna er ekki hægt að bera þetta saman. Það er 3 milljarða kostnaðarmunur á gangaleiðinni og leið B. Það er óumdeilanlegt. Vegagerðin hefur öll gögn til að vega og meta kostnað við þetta og þarf ekki að fara í umhverfismat til þess. Þetta er bara tekið úr kostnaðar- og gagnabanka.

Ég fagna því hins vegar að þeir þingmenn sem hér hafa talað fagni því að málinu skuli áfrýjað til Hæstaréttar. Ég taldi það strax nauðsynlegt að láta það koma fram. Ég fagna þó alveg sérstaklega yfirlýsingu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að það sé ekkert athugavert við áfrýjunina. Sei, sei. Gott og vel. Og hv. fyrirspyrjandi (ÁI: Kom þér það á óvart?) tók undir það (ÁI: Ertu hissa?) að þetta væri gert og þess vegna er það bara ágætismál að við erum svona sammála um að láta málið fara til Hæstaréttar og klára það fyrir dómstólum vegna þess að málflutningi er ekki lokið eins og hv. þingmaður talaði um. Hæstiréttur er eftir og hann hefur endanlegt úrskurðarvald og sjáum hvað gerist þar.