136. löggjafarþing — 16. fundur
 29. október 2008.
framkvæmdir við Gjábakkaveg.
fsp. ÁI og KolH, 76. mál. — Þskj. 76.

[14:22]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það veldur mér nokkrum vonbrigðum ef hv. þingmenn Norðurlandskjördæmis vestra hafa ekki áhuga á vegabótum nema í sínu kjördæmi, því að þeir fóru úr salnum einir tveir. En miklar deilur hafa staðið … (GAK: Sá þyngsti situr eftir.) Já, hann situr eftir og það er góð vigt í því. Miklar deilur hafa staðið um fyrirhugaðan Gjábakkaveg, frú forseti, sem er ætlað að koma í stað núverandi Kóngsvegar milli Þingvalla og Laugarvatns og framkvæmdir munu hafnar við. Það komu nokkrar leiðir til greina í upphafi og m.a. sú að byggja núverandi Kóngsveg upp og bæta hann og töldu náttúruverndarar það besta kostinn. Vegstæðið sem valið var er hins vegar umdeilt og færð hafa verið haldgóð rök fyrir því að áformaður vegur komi til með að valda óafturkræfum spjöllum á landslagi og náttúru svæðisins og jafnvel mengun í lífríki Þingvallavatns. Vatnalíffræðingar með dr. Pétur Jónasson í broddi fylkingar hafa varað eindregið við þeirri hættu sem Þingvallavatni og vatnasviði þess getur stafað af aukinni niturmengun. Því hefur verið lýst þannig að í stað blátærs fjallavatns geti Þingvallavatn orðið grænt og gruggugt af þörungavexti og því miður, frú forseti, benda nýjar rannsóknir á tærleika Þingvallavatns til þess að hann sé að minnka. Hér vísa ég til nýrra rannsókna sem hafa verið birtar og Náttúrufræðistofa Kópavogs vann á árinu 2007. Samanburður við eldri mælingar frá árunum 1974–1982 sýna að rýni eða gegnsæi vatnsins hefur minnkað úr 10–12 metrum að meðaltali niður í aðeins 6 metra í október 2007. Þessar vísbendingar um breytingar á vatnsbolnum á aðeins 25–30 ára tímabili eru skýr viðvörunarmerki sem taka ætti alvarlega. En það náðist ekki sátt um vegstæðið í þessu máli frekar en í Teigsskógsmálinu og því neyddist Pétur Jónasson vatnalíffræðingur, doktor og prófessor emeritus, til að stefna Vegagerðinni og það gerði hann í mars sl. Málflutningur er hins vegar ekki fyrirhugaður fyrr en 17. nóvember. Hann óskaði því eftir því 30. maí sl. að framkvæmdum yrði frestað þar til niðurstaða héraðsdóms lægi fyrir. Ég tel þetta eðlilega ósk vegna þess að framkvæmdir við vegagerðina eru óafturkræfar að miklu leyti.

Ég spyr um viðbrögð hæstv. ráðherra við þessum erindum og einnig um framkvæmdir við veginn. Hvenær hófust þær? Hvað verður um núverandi Gjábakkaveg þegar nýr vegur hefur verið lagður? Ég spyr um þá ósk að framkvæmdum verði frestað þar til niðurstaða fæst í málinu og hvort ráðherra hafi brugðist við henni og þá hvernig. Og loks hvort ráðherra telji að sú ákvörðun að ganga frá verksamningum geti skapað ríkinu skaðabótaskyldu falli dómsmál málshöfðanda í vil.



[14:25]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Sem svar við fyrstu spurningu hv. fyrirspyrjanda á þskj. 76 vil ég segja þetta: Verkið var boðið út í apríl sl. og tilboð opnuð 20. maí sl. Skrifað var undir verksamning við lægstbjóðanda, Klæðningu ehf., þann 4. júlí sl. og hófust framkvæmdir í byrjun ágúst. Verkinu á að vera lokið fyrir 15. október 2010 samkvæmt verksamningi.

Í öðru lagi er spurt: „Hvað verður um núverandi Gjábakkaveg þegar nýr vegur hefur verið lagður?“ Núverandi vegur verður að mestu notaður sem göngu- og reiðleið samkvæmt aðalskipulagi Laugardalshrepps frá 2000–2012 og samþykkt við aðalskipulag Þingvallasveitar 2004–2016. En einnig eru uppi hugmyndir um að á um 2 kílómetra kafla á milli tenginga við vegslóða til suðurs vestan Litla-Reyðarbarms sem mun tengjast nýjum Lyngdalsheiðarvegi og vegslóða til norðurs um Bragarbót sem liggur inn af hálendinu verði vegurinn að einhverju leyti notaður af annarri umferð vegna útivistar á svæðinu. Á þessum vegarkafla eru upphaflegur Kóngsvegur og núverandi akvegur að mestu aðskildir og þannig gæti Kóngsvegurinn nýst hestamönnum svo dæmi sé tekið.

Svar við þriðju spurningunni er einfaldlega nei.

Í fjórða lagi er spurt: „Telur ráðherra að sú ákvörðun að ganga frá verksamningum og hefja framkvæmdir við vegarlagninguna skapi ríkinu skaðabótaskyldu falli dómur kærendum í vil? Því er til að svara að matsnefnd eignarnámsbóta fjallar nú um bætur til landeigenda fyrir það land sem fer undir Lyngdalsheiðarveg. Ekki er gert ráð fyrir að til frekari bóta muni koma.



[14:27]
Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum um þennan merkilega vegarkafla sem hefur orðið mörgum þyrnir í augum og menn hafa talið að líkur séu á að af honum skapist aukin niturmengun í Þingvallavatni. Ég vil gera athugasemdir við þennan málflutning þar sem mjög margt bendir til þess að umferð inn á vatnasvæði Þingvallavatns verði ekki meiri við lagningu þessa vegar, heldur er í raun og veru í dag verið að beina umferðinni úr Reykjavík og til Reykjavíkur aftur. Það eru ákveðnir hagsmunir af því. En við sem búum í Árnesþingi teljum gott að umferðin fari frá Þingvöllum og síðan áfram inn í sýsluna og þá verður umferðin eftir þessum vegi sem er að langstærstum hluta, og það skiptir mjög miklu máli í þessu, á vatnasvæði Laugarvatns því að vötn falla ævinlega eftir Newton-lögmálinu. (Forseti hringir.) Að öðru leyti er ég feginn því að ekki hafi verið ráðist í það að leggja veginn ofan í gamla vegstæðið sem eru hinar merkustu fornminjar.



[14:28]
Sturla Böðvarsson (S):

Virðulegur forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar og þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram vil ég segja að það var mikil nauðsyn á því að endurbyggja Gjábakkaveginn og leggja nýjan veg til að auka umferðaröryggi. Það er mikil umferð þarna miðað við aðstæður á veginum og óforsvaranlegt að hafa hann í óbreyttri mynd áfram.

Ég vil jafnframt vekja athygli á því að þessi vegarlagning er í fullu samráði og í sátt við þingmenn Suðurkjördæmis og forsvarsmenn þjóðgarðsins á Þingvöllum voru að sjálfsögðu hafðir með í ráðum við undirbúning málsins. Hins vegar hefur einn aðili, vatnalíffræðingur, lagt sig fram við að reyna að tefja og koma í veg fyrir þessa framkvæmd og ég tel að það hafi ekki verið ástæða til að hlaupa á eftir þeim sjónarmiðum sem þar voru sett fram. Við hljótum að fagna því að vegakerfið við þjóðgarðinn sé endurbætt.



[14:29]
Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Svar hans við þriðju spurningunni undrar mig þó, þ.e. hvort ráðherra hafi brugðist við ósk þess efnis að framkvæmdum verði frestað þar til niðurstaða fæst í málið sem höfðað var gegn Vegagerðinni vegna framkvæmdanna og ef svo er þá hvernig. Svarið var nei. Hann hefur ekki brugðist við því.

Ég spyr: Barst ráðherra ekki erindi þess efnis eða kaus hann að bregðast ekki við því? Er það rangt sem haldið hefur verið fram að ráðherra hafi borist erindi 30. maí síðastliðinn sem hann hafi svarað 5. ágúst síðastliðinn og þá vísað til þess að ekkert væri hægt að gera vegna þess að búið hafi verið að semja við verktaka? Það var ekki gert fyrr en fimm vikum eftir að erindið barst. Ef rétt er með farið er það ótrúleg stjórnsýsla sem vart fær staðist skoðun. Hitt er þó sýnu verra, ef þetta er rétt, að ráðherra skuli koma hér upp og neita því. Ég óska eftir að fá frekari skýringar á því.

Ég nefndi áðan að það er að verða plagsiður að almenningur þarf að fara að leita til dómstóla til þess að verja náttúru Íslands. Mér þykir miður að hlusta á þann valdhroka og mannfyrirlitningu sem komið hefur fram hjá mönnum í umræðum um þessar tvær fyrirspurnir. Þá á ég við hversu menn tala af mikilli lítilsvirðingu um þá sem sækja rétt sinn og rétt náttúrunnar sem eðlilegt er og rétt og skylt samkvæmt íslenskum lögum.

Ég hef haft góða stöðu til þess sem náttúrufræðingur og ritstjóri Náttúrufræðingsins í tíu ár að fylgjast með þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á Þingvallavatni. Allir þeir sem haft hafa færi á því vita að rannsóknir dr. Péturs M. Jónassonar eru þess eðlis að þær bera höfuð og herðar yfir annað sem unnið hefur verið á sviði (Forseti hringir.) vatnarannsókna á Íslandi. Það mjög miður að menn skuli tala um að þar sé einhver einn aðili sem sé ekki ástæða til þess að hlaupa eftir. Ég (Forseti hringir.) minni á að menntamálaráðherra, dómsmálaráðherra, umhverfisráðherra og Þingvallanefnd hafa lýst óánægju með þessa niðurstöðu. Það er samgönguráðherra sem ræður þessu og við heyrðum í (Forseti hringir.) honum hér áðan.



[14:32]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ef til vill er fyrirspyrjandi enn þá að ræða um hvað sé það síðasta sem sett var fram um málið en það er annar handleggur. Ég hef svo sem ekki miklu við þetta að bæta þar sem ég hef svarað fyrirspurninni. Kæran frá landeiganda sem hefur neitað að láta land undir veg, eins og hann kallar það sjálfur, er lögð fram vegna deilu eins landeiganda út af ákveðinni framkvæmd líkt og þeirra tveggja landeigenda í Teigsskógi sem við ræddum um áðan. Það gerist stundum að landeigendur vilja ekki láta land undir veg og þá hafa þeir sinn rétt og geta varið þann rétt. Hér er ekki um neinn valdhroka að ræða. Málið er búið að fara alla leið í gegnum kerfið í umhverfismat, svo að það komi nú fram.

Ég hef lesið öll þau gögn sem borist hafa út af þessum vegi og frá Pétri M. Jónassyni. Ég tek líka eftir því að mest er talað um nítrítmengun í vatninu. Mér kemur á óvart að sami aðili beitti sér fyrir því að Þingvellir kæmust á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þá má alveg leiða líkur að því að við það að setja Þingvelli inn á heimsminjaskrá aukist mjög umferð um svæðið og þar með mengun. Það má líka spyrja sig að því hvort mengunin sem berst í Þingvallavatn frá sumarbústöðum, m.a. í þessu landi, sé ekki töluvert mikil. Það er því alltaf spurning um hvað á að taka til.

Ég ítreka þau svör sem ég gaf áðan og segi að málið er í vinnslu eins og kom fram. Framkvæmdir hófust á þessum tíma og verklok hafa verið áætluð.