136. löggjafarþing — 18. fundur
 31. október 2008.
hækkun stýrivaxta.

[10:34]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. forsætisráðherra í framhaldi af því sem gerðist í gær og varðar hækkun stýrivaxta og þá yfirlýsingu og þann pólitíska rökstuðning sem kom frá Seðlabankanum í gær. En samkvæmt viljayfirlýsingu sem Seðlabankinn hefur nú gert opinbera að hluta til þrátt fyrir að um trúnaðarmál sé að ræða — og er það kannski önnur spurningin til hæstv. forsætisráðherra, hvort hann telji að Seðlabankinn hafi brotið trúnað með því að senda frá sér þá yfirlýsingu sem kom fram í gær, ég ætla ekki að fara yfir hana, hæstv. forsætisráðherra hlýtur að hafa kynnt sér hana — en í stuttu máli kemur þar fram að sú ákvörðun sem tekin var um stýrivaxtahækkun upp á 6 prósentustig sé í raun ekki tekin af Seðlabankanum heldur af alþjóðlegri stofnun í samstarfi við ríkisstjórnina eins og þetta lítur út. Þá er náttúrlega stóra spurningin sú hvort Seðlabankinn sé ekki enn þá sjálfstæð stofnun sem tekur ákvörðun um stýrivaxtahækkanir eða lækkanir eftir því sem verða vill.

Ég spyr svo í framhaldinu hæstv. forsætisráðherra: Hefði þurft að breyta lögum um Seðlabankann á hv. Alþingi áður en sú ákvörðun var tekin að hækka stýrivextina? Ég spyr líka: Var hæstv. forsætisráðherra kunnugt um að stýrivaxtahækkunin færi fram á þessum degi þegar a.m.k. helmingurinn af ríkisstjórninni var í útlöndum ef ekki meira?



[10:37]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að útskýra þetta mál eina ferðina enn. Í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans tóku þátt í bæði á vettvangi sérfræðinga en einnig á vettvangi ráðherra og bankastjóra var gert bráðabirgðasamkomulag sem kynnt var síðastliðinn föstudag. Það samkomulag á eftir að leggja fyrir stjórn sjóðsins. Það gerist vonandi í næstu viku. Á meðan er ekki hægt að birta þetta samkomulag vegna þess að um slík mál gilda ákveðnar birtingarreglur innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem við verðum að lúta en við munum auðvitað birta þetta skjal um leið og það er hægt.

Samkomulagið er í mörgum liðum. Það er í grunninn byggt á yfirlýsingu eða bréfi frá okkur til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem verður síðan tekið til afgreiðslu. Við höfum auðvitað farið vandlega yfir þann texta með sendinefnd sjóðsins sem hér var í síðustu viku. Í þessu samkomulagi er gert ráð fyrir vissum sveigjanleika hvað varðar vaxtastig og ég man ekki betur en að hv. þingmaður og fyrirspyrjandi hér hafi verið í hópi þeirra þingmanna á Alþingi sem einna fyrstur kvað upp úr með það að leita ætti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna þessa máls. Það er gert ráð fyrir sveigjanleika í sambandi við vexti og það lá fyrir að í upphafi þyrfti að hækka vextina vegna þess að það vantaði viðspyrnu á gjaldeyrismarkaðnum til að koma fótunum undir íslensku krónuna til að ná niður með þeim hætti verðbólgunni sem er forsenda fyrir vaxtalækkunum í framhaldinu. Þannig var þetta og það lá fyrir að slík vaxtahækkun þyrfti að gerast áður en málið kæmi til afgreiðslu í stjórn sjóðsins. Seðlabankinn tekur hina formlegu ákvörðun um það. Hún var kynnt á þriðjudaginn. Þar með er sú tala að sjálfsögðu ekki lengur neitt leyndarmál, hún getur ekki verið það.



[10:39]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst leiðrétta það að ég var ekki að fjalla efnislega um hækkun stýrivaxta, ég er ekki að gagnrýna það. Ég er að gagnrýna það hvernig þetta birtist þjóðinni og nógir eru erfiðleikarnir samt hjá íslensku þjóðinni þó að hún þurfi ekki að fá þessi misvísandi skilaboð endalaust frá ríkisstjórninni, misvísandi skilaboð frá stjórnarflokkunum og svo bætist Seðlabankinn við. Í yfirlýsingunni sem kemur frá Seðlabankanum er verið að réttlæta þessa gjörð en jafnframt sagt að hún sé alls ekki tekin af bankanum sjálfum, hún sé tekin af annarri alþjóðlegri stofnun. Þar með erum við ekki lengur að fara að lögum er varða Seðlabankann sem segja að bankinn sé sjálfstæð stofnun og taki ákvörðun um stýrivexti í landinu. Þetta er aðalatriðið og hæstv. forsætisráðherra verður að einbeita sér að því að svara þessu. Þetta er stóra málið. Sennilega hefur hann ekki reiknað með því að Seðlabankinn kæmi fram með þessum hætti og segði frá öllu málinu. (Forseti hringir.) En í Seðlabankanum stjórnar maður sem lætur ekki berja á sér eins og honum hefur greinilega fundist gert í gær og svarar fullum hálsi sem er óþolandi og segir okkur líka að það þarf að gera breytingar í Seðlabankanum.



[10:40]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði áðan og mér vannst ekki tími til að svara því hvort breyta hefði þurft lögunum um Seðlabankann áður en síðasta vaxtaákvörðun var tekin. Það tel ég ekki vera. Það er auðvitað bankinn sjálfur sem formlega tekur þessa ákvörðun lögum samkvæmt og kynnir hana, enda eru þetta vextir Seðlabankans í viðskiptum við aðra banka. Það er ekkert vafamál um það. En að baki þessari ákvörðun liggur samkomulag sem gert hefur verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til að tryggja fyrirgreiðslu á hans vegum. Það liggur fyrir samkomulag þriggja aðila, tveggja íslenskra, ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, (ÖJ: Leynibréf.) það verður undirritað af báðum aðilum þegar þetta bréf fer héðan vestur um haf og mótaðilinn er svo sjóðurinn sem á eftir að afgreiða þetta formlega á sínum vettvangi.