136. löggjafarþing — 18. fundur
 31. október 2008.
aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum, fyrri umræða.
þáltill. SF o.fl., 30. mál. — Þskj. 30.

[11:50]
Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Meðflutningsmenn með þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Kolbrún Halldórsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Katrín Júlíusdóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir og Magnús Stefánsson.

„Alþingi ályktar að félagsmálaráðherra feli Jafnréttisstofu það verkefni að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum.“

Tillagan var áður flutt á 135. löggjafarþingi og flutningsmenn telja að það sé mjög mikilvægt nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að beitt verði markvissum aðgerðum til að bæta hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ein leiðin að því markmiði er að fela Jafnréttisstofu, sem þekkir þessi mál mjög vel í samfélaginu, að annast slíkar aðgerðir. Samhliða því þyrfti að auka fjármagn til Jafnréttisstofu.

Næstu sveitarstjórnarkosningar verða haldnar vorið 2010. Það hefur verið talsverð umræða um að efla þurfi hlut kvenna í þeim kosningum en það er alveg ljóst að þrátt fyrir umræðu í gegnum árin og ýmis átaksverkefni vantar enn þá töluvert upp á að hlutur kvenna í sveitarstjórnum geti talist eðlilegur.

Ég rifja það upp að í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2006 var hlutur kvenna 35,9% og svipaðar prósentutölur má sjá í stjórnum, nefndum og ráðum sveitarfélaganna. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur aukist mjög hægt eins og menn geta séð á öllum tölulegum upplýsingum. Það er líka rétt að minnast þess að síðustu alþingiskosningar skiluðu ekki til baka því hlutfalli sem við höfðum náð á fyrri tíð. Á kjörtímabilinu 1999–2003 voru konur 34,9% fulltrúa á Alþingi en við kosningarnar 2003 varð mikið bakslag og hlutfallið fór niður í 30,2%. Í síðustu kosningum fór prósentutalan aðeins upp á við, upp í 31,7%, en náði ekki fyrra hlutfalli sem var 34,9%. Við erum því enn þá neðar í dag en við vorum á tímabilinu 1999–2003 og það er auðvitað mjög alvarlegt að bakslög verði sem við náum ekki að rétta almennilega við. Þetta gerðist í alþingiskosningunum og er mjög brýnt að ekki verði hliðstætt bakslag í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010. Við höfum reynslu af bakslögum og við viljum ekki upplifa þau í sveitarstjórnunum.

Gert hefur verið átak á svipaðan hátt og verið er að fjalla um í þessari tillögu. Það var þingsálykunartillaga sem sú er hér stendur flutti og var samþykkt á 122. löggjafarþingi, um aðgerðir til þess að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Það var einnig þverpólitísk samstaða um þá tillögu. Í kjölfarið var sett á fót þverpólitísk nefnd, opinber nefnd, sem fékk fjármagn af fjárlögum og hún stóð fyrir aðgerðum í um fimm ár.

Árangurinn af verkefnum og starfi þessarar nefndar var mjög góður. Þá jókst hlutur kvenna á þingi um 10% í alþingiskosningunum 1999, m.a. vegna aðgerðanna sem nefndin fór í og þeirrar umræðu sem aðgerðirnar sköpuðu, bæði í flokkunum og í samfélaginu.

Hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir tjáði sig þá í fjölmiðlum og dró fram að vinna nefndarinnar og sú umræða sem skapaðist í kringum þá vinnu hefði orðið til þess að hjálpa henni að ná góðum árangri í prófkjöri sem þá fór fram innan Sjálfstæðisflokksins. Konur hafa því komið fram og sagt að þetta skipti mjög miklu máli.

Gefin var út skýrsla eftir að verkefninu lauk. Þar kemur fram að konur eru helmingur þjóðarinnar og það sé réttlætismál að fleiri konur gefi kost á sér til stjórnmálastarfa. Tilgangurinn er að konur og karlar taki sameiginlega ákvarðanir í stjórnmálum og þar með aukast líkurnar á að ákvarðanir séu teknar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Maður hlýtur að spyrja sig: Hvað þarf til þess að hlutur kvenna í stjórnmálum verði aukinn? Það er ljóst að konur þurfa að gefa meira kost á sér til stjórnmálastarfa. Það þarf meiri fræðslu til almennings, það þarf fræðslu í fjölmiðlum og í skólum um mikilvægi þess að konur séu til jafns við karla í stjórnmálum. Konur þurfa meiri hvatningu en karlar og þær hafa færri fyrirmyndir í stjórnmálum þannig að það þarf að hvetja þær alveg sérstaklega. Svo þarf að sjálfsögðu, og það er kannski það mikilvægasta, að vera vilji innan stjórnmálaflokkanna til að fjölga konum á framboðslistunum og skipta þar fyrstu sætin mestu máli.

Þar sem reynslan af átaksverkefnum sem þessum er góð leggjum við flutningsmenn eindregið til að farin verði sama leið gagnvart sveitarstjórnarkosningunum svo að við sækjum fram en upplifum ekki bakslag í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum taka sérstaklega fram að Kvenréttindafélag Íslands hélt fund um málið fyrir stuttu síðan. Það ályktaði í lok fundarins og skoraði á Alþingi að samþykkja þessa tillögu. Vísað var sérstaklega til þessarar tillögu í þeirri áskorun þannig að hópar í samfélaginu sem fylgjast vel með jafnréttismálum standa á bak við tillöguna og skora á þingið að samþykkja hana.



[11:56]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er lögð fram og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur mælt fyrir. Það er reyndar í annað sinn sem tillagan er sett fram hér í þinginu. Hún var einnig sett fram á síðasta þingi og þá tjáði ég mig ásamt nokkrum fleiri þingmönnum um hana. Ég játa það þó að ég hefði gjarnan viljað heyra fleiri taka til máls og ekki síður karla en konur vegna þess að þetta er mál sem skiptir ekki bara konur máli heldur allt samfélagið. Það er rétt sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á að Kvenréttindafélag Íslands hefur látið sig þetta mál miklu varða og hélt m.a. fund nýlega þar sem það var til umræðu. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og ég vorum á þeim fundi. Það er rétt að það er ákveðinn hópur í samfélaginu sem hefur mikinn áhuga á jafnréttismálum og fylgist með því sem fram fer hér á Alþingi, hvaða mál eru lögð fram til þess að stuðla að jafnrétti. Þess vegna skiptir tillöguflutningur af þessu tagi afar miklu máli.

Mér finnst ég alltaf vera að segja sömu hlutina aftur og aftur og tala stundum fyrir daufum eyrum en í jafnréttismálum þarf alltaf að vera á vaktinni, því miður. Við sjáum það t.d. á þeim tölum sem fylgja með greinargerðinni með þingsályktunartillögunni að okkur miðar afar hægt. Það þarf alltaf að koma með hugmyndir um aðgerðir og setja málin á dagskrá til þess að ná einhverjum árangri.

Þar skipta mjög miklu máli þær aðferðir sem notaðar eru. Komið er inn á það í greinargerðinni með tillögunni að það þarf að vera vilji til þess innan stjórnmálaflokkanna að fjölga konum á framboðslistum og þar skipta fyrstu sætin mestu máli. Það er auðvitað kjarni málsins. Það er ekki nóg að vera bara með konur til jafns við karla á framboðslistum ef þær eru allar í þeim sætum sem ekki eru örugg og ekki miklar líkur á að þær komist inn sem fulltrúar. Þess vegna eru stjórnmálaflokkarnir sjálfir lykillinn að því að konur komist að.

Sá fundur sem ég nefndi áðan sem haldinn var á vegum Kvenréttindafélags Íslands fjallaði m.a. um aðferðir sem flokkarnir hafa notað til þess að velja fólk á lista. Þar hefur lenskan verið sú að margir flokkar hafa notað opin prófkjör en staðreyndin er sú, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að það er aðferðafræði sem hefur ekki gagnast konum sérstaklega vel. Það eru margar rannsóknir sem styðja það og margir fræðimenn hafa skoðað það mál. Margt hefur þar áhrif í prófkjörum: Kostnaður við prófkjör, afleiðingar fyrir flokkinn af því þegar slegist er um sæti og margt fleira. Ég held því að þegar til stykkisins kemur séu það stjórnmálaflokkarnir sjálfir sem skipta þar afar miklu máli.

Flokkur minn hefur sett sér ákveðna reglu um hlut kvenna á framboðslistum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar sem formaður kvennahreyfingar Samfylkingarinnar að ég hefði viljað sjá minn flokk ganga lengra og taka af skarið varðandi það að sé karl í fyrsta sæti eigi kona að vera í öðru og svo framvegis. Sé kona í fyrsta sæti eigi karl að vera í öðru sæti og svo koll af kolli. Um það hefur m.a. kvennahreyfingin ályktað en auðvitað eru skiptar skoðanir um það. Ég held því að stjórnmálaflokkarnir sjálfir skipti afar miklu máli þarna.

Í umræðunni var einnig talað um fyrirmyndir. Þær skipta auðvitað mjög miklu máli hér. Við sem störfum á Alþingi erum fyrirmyndir. Fólk horfir til okkar, tekur eftir því hvað við segjum og gerum, bæði konur og karlar þannig að það sem við segjum skiptir máli. Fjöldi kvenna á löggjafarþinginu og í sveitarstjórnum skiptir miklu máli fyrir ungar stelpur sem hafa áhuga á pólitík.

Af því að ég er farin að tala um fyrirmyndir er rétt að nefna að ég held að árangur kvennalandsliðsins okkar í gær í fótbolta skipti t.d. afar miklu máli. Ég vil nota tækifærið, hæstv. forseti, til þess að óska þeim hjartanlega til hamingju með árangurinn því að hann er algerlega stórkostlegur. Ég er sannfærð um það og ég tel mig reyndar vita að árangur þeirra hefur gríðarlega mikil áhrif á stelpur sem æfa og spila fótbolta. Þarna erum við komin með landslið kvenna í fótbolta sem hefur sýnt það og sannað að þær eru með þeim bestu í heiminum. Stelpurnar sjá að þær geta ef þær bara vilja og fá tækifæri til þess. Þess vegna skipta fyrirmyndirnar mjög miklu máli.

Þessi tillaga til þingsályktunar skiptir máli varðandi þau skilaboð sem Alþingi sendir hér út um þau mál sem hér eru til umfjöllunar. Í dag var einnig lagt fram frumvarp sem ég mun væntanlega mæla fyrir á næstu dögum, frumvarp til breytinga á lögum um fjármálastofnanir, kannski að gefnu tilefni í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi að undanförnu. Þar legg ég til ásamt nokkrum öðrum þingmönnum að norska leiðin verði farin, að sett verði í lög að jafnmargar konur og karlar verði í stjórnum fjármálastofnana. Skilaboðin sem koma héðan frá Alþingi í jafnréttismálum, hvort sem það er í þessu máli um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum eða öðru, skipta máli og eitt útilokar ekki annað í þeim efnum.

Ég varð vör við það í umræðum þetta mál og fleiri á síðasta vetri að það varð opinber umræða um að búið væri að ná tilteknum árangri og óþarfi væri að setja svona mál á dagskrá. Ég er algjörlega ósammála því. Við eigum alltaf að vera á vaktinni og við eigum alltaf að ræða þessi mál því að sagan hefur sýnt okkur konum að ef við erum ekki á vaktinni, flytjum þessi mál og tölum fyrir þeim gerir það enginn annar.



[12:04]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Sambærileg tillaga hefur áður komið fram og hefur að sumu leyti verið framkvæmd í nefnd sem fékk það hlutverk á sínum tíma að auka hlut kvenna í stjórnmálum, eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Það var alveg ljóst að sú herferð vakti mikla athygli og hafði áhrif á margar konur til aukinnar þátttöku og vitundar um aukna þátttöku kvenna í stjórnmálum eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni.

Það hefur verið mikið rætt af hverju konur og karlar skila sér í mismunandi mæli í stjórnmálin og einnig hvort konur og karlar hafi mismunandi áherslur í stjórnmálum. Flokkarnir hafa lagt mikla áherslu á að virkja konur til þátttöku í stjórnmálum með einum eða öðrum hætti. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi að hún væri formaður kvennasamtaka Samfylkingarinnar og ég er fyrrverandi formaður kvennasamtaka sjálfstæðiskvenna og við höfum báðar velt þessum málum mikið fyrir okkur.

Einmitt þessa dagana hef ég verið að safna saman ýmsum tölum varðandi aukinn hlut kvenna á ýmsum vettvangi á sviði stjórnmála og stjórnsýslu og í samfélaginu vegna fyrirlesturs sem ég mun halda í annarri viku hér frá. Ég tók saman tölur frá árinu í ár til samanburðar við það sem var 2004 þegar ég hélt sambærilegan fyrirlestur.

Það kom mér töluvert á óvart hvað mikið hafði áunnist á þessum stutta tíma, m.a. varðandi ráðherraembætti. Það er ekki síst að þakka þátttöku Samfylkingarinnar í núverandi ríkisstjórn að hlutur kvenna í ríkisstjórn hefur aukist úr 25% í 33%. Hins vegar hefur verið töluverð stöðnun í hlut kvenna á þinginu. Af 33% þingmanna voru tæplega 32% þegar þing kom saman eftir kosningarnar í fyrravor. Ég bendi á að hlutfallið var komið í 36,5% fyrir kosningar 2007 og reyndar einnig árið 2003 var það komið í 36,5% þannig að það lækkaði við kosningarnar.

Það sem kom mér líka á óvart var hve hlutur kvenna innan stjórnsýslunnar hefur aukist. Á árinu 2004 voru 15% ráðuneytisstjóra konur en eru núna 33%. Árið 2004 voru konur í nefndum og ráðum á vegum ríkisins 30% en það hlutfall var komið í 36% á síðasta ári. Árið 2004 var hlutfall kvenna í stöðum sendiherra 3% en var komið í 14% í árslok 2007. Einnig kemur í ljós að í stjórnum aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins var hlutfallið árið 2004 2% en fór upp í 9% 2006. Það er reyndar ekki stórt stökk hlutfallslega séð þótt það sé stórt stökk frá 2 upp í 9% og hefur því í rauninni fimmfaldast. Framkvæmdastjórar starfandi fyrirtækja í landinu eru enn þá í kringum 25%. Við höfum því séð ákveðin skref fram á við í þessu á örfáum árum. En betur má ef duga skal.

Mig langar aðeins að fjalla í ræðu minni um rannsókn sem fór fram á vegum IPU, Inter-Parliamentary Union, Alþjóðaþingmannasambandsins en ég er formaður Íslandsdeildar þeirra samtaka. Fyrr á þessu ári kom út skýrsla á vegum samtakanna um jafnrétti í stjórnmálum sem byggð er á viðtölum við konur og karla í þingum. Þar kemur skýrt fram, svart á hvítu, hvað áherslur karla og kvenna í stjórnmálum eru mismunandi og líka hversu þeir þættir sem letja karla og konur til þátttöku í stjórnmálum eru mismunandi. Til dæmis varðandi virkni kvenna í mismunandi málaflokkum, þ.e. hvaða þættir og málaflokkar það eru sem konur beita sér fyrir. Þar kemur í ljós að hjá konum eru í fyrstu fimm sætunum eftirfarandi þættir í þessari röð, þ.e. málefni kvenna í fyrsta sæti, jafnréttismál í öðru sæti, félagsleg málefni í þriðja sæti, fjölskyldutengd málefni í fjórða sæti og menntun í fimmta sæti.

En ef maður horfir á forgangsröðun karla þá eru utanríkismál í fyrsta sæti hjá þeim, í öðru sæti eru efnahags- og viðskiptamál, í þriðja lagi menntun, í fjórða lagi dóms- og stjórnarskrármál og í fimmta lagi félagsleg málefni. Betri rökstuðning fyrir því að konur og karlar eigi að taka jafnan þátt í pólitík hef ég ekki fengið. Áherslurnar eru svo ólíkar að í raun bæta þær hver aðra upp varðandi þau samfélagslegu málefni sem karlar og konur taka til umfjöllunar og gera það að verkum að þörfum allra sviða samfélagsins er betur mætt með því að hafa konur og karla til jafns við þátttöku í stjórnmálum.

Annað sem líka vekur athygli er þegar litið er til bakgrunns þeirra sem taka þátt í þjóðþingum og hvað það var sem leiddi til þátttöku karla og kvenna í stjórnmálum. Þá kemur í ljós að tveir þriðju karla eiga pólitískan bakgrunn eða þeir koma inn á þing eftir þátttöku í pólitísku starfi. En það á einungis við um rúmlega helming kvenna.

Konur eru líklegri til að koma inn í pólitík en karlar vegna fyrri starfa að félagslegum málum, m.a. á vegum frjálsra félagasamtaka og vegna starfa í sveitarstjórnum. Það segir okkur einmitt, af því að í þessari þingsályktunartillögu er lögð áhersla á að hvetja konur til aukinnar þátttöku í sveitarstjórnum, að það er ein leiðin til þess að fá konur inn á þing.

Það er ekki síður athyglisvert að skoða hvaða þættir það eru sem letja konur til þátttöku í stjórnmálum. Þingmenn voru þarna beðnir um að setja á skalann einn til fimm hvaða þættir það eru sem þeir draga fram sem þætti sem letja fólk til þess að taka þátt yfirleitt í stjórnmálum. Þá eru fyrstu þættirnir hjá konum fjölskylduábyrgð, hæst 3,4 af 5, síðan ríkjandi viðhorf gagnvart hlutverki kvenna í samfélaginu, þá skortur á stuðningi í fjölskyldu, í fjórða lagi skortur á sjálfstrausti og í fimmta lagi fjármagnsskortur.

Það má segja að þegar þetta er metið á skalanum einn til fimm þá þurfi maður að komast aftur í ellefta sæti hjá konum til þess að komast í fyrsta sæti hjá körlunum. Þannig að þegar konur eru búnar að meta fyrstu ellefu þættina þá fyrst kemur að körlunum á sama skala að meta hvað það er sem letur þá. Og í fyrsta sæti hjá þeim er stuðningsleysi frá kjósendum. Í öðru lagi fjármagnsskortur. Í þriðja lagi skortur á pólitískum stuðningi frá stjórnmálaflokki. Í fjórða lagi reynsluleysi í að koma fram og í fimmta lagi er skortur á sjálfstrausti. En það vekur líka athygli að fjármagnsskortur vegur hátt hjá körlunum sem og hjá konunum en hann vegur mun hærra hjá konunum varðandi mat á skalanum einn til fimm.

Mér fannst þessar upplýsingar sem ég hef ekki séð áður settar fram með þessum hætti vera mjög áhugaverðar og að þær eigi að geta hjálpað okkur til þess að styðja við bakið á konum til þess að taka þátt í stjórnmálastarfi. Þarna sjáum við bæði rökstuðning fyrir því af hverju konur og karlar eiga að taka til jafns þátt í stjórnmálum og í öðru lagi hvað það er sem veldur því að konur veigra sér við að taka þátt í stjórnmálum. Ég vildi í þessari stuttu ræðu minni koma þessu á framfæri og ljúka með því að vísa í þingmenn sem vísað er í í skýrslunni, um mismunandi áhrif karla og kvenna. Kona sem er þingmaður í Kenía segir hér, með leyfi forseta:

„Konur og karlar eru jöfn en þau eru ólík. Konur líta mun meira á fjölskyldumálefni. Þær horfa á hvort það er rennandi vatn, hvort það er næg fæða og hvort það er öryggi í umhverfinu. En karlar horfa meira á samgöngur, vegi, samskipti, íþróttir og stríð.“

Þetta er dæmi um sjónarmið sem komu þarna fram og þau voru reyndar ekki mjög ólík því sem kom fram í þessari beinu tilvísun. Á svona rannsóknum getum við byggt þegar við erum að taka ákvarðanir og erum að ákvarða hvaða áherslur skulu lagðar varðandi það hvernig við eigum að takast á við þetta málefni.



[12:14]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða mjög mikilvægt mál um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Hlutur kvenna í stjórnmálum er ekki eðlilegur miðað við það að konur eru helmingur landsmanna. Hér hefur verið rækilega farið yfir það hvernig málin hafa þróast.

Árin 1999–2003 var staða kvenna góð ef við horfum aðeins til þingsins. Hér hefur komið fram að það er m.a. þakkað því að í þinginu kom fram þingmál 1997–1998, sem var samþykkt, um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Þetta var fimm ára aðgerðaáætlun, nefnd var sett á laggirnar og í kjölfar þeirrar vinnu jókst hlutfall kvenna á þingi um 10%, þ.e. á árunum 1999–2003. Ég verð að segja að með þá reynslu að hafa setið á þingi fyrir og eftir þann tíma hefur þróunin því miður orðið aftur á bak og við finnum fyrir því. Við finnum fyrir því, konur, þegar fækkar í okkar hópi, t.d. innan þingflokkanna, á vinnubrögðum og umræðunni.

Eftir kosningarnar árið 1999 var sá þingflokkur sem ég átti sæti í, þingflokkur Samfylkingarinnar, með fleiri konur en karla. Það var mjög óvenjulegt, það er í annað skipti sem það gerist en fyrri þingflokkurinn sem var með fleiri konur en karla — fyrir utan náttúrlega Kvennalistann á sínum tíma þar sem voru engir karlar — var þingflokkur Þjóðvaka þar sem voru fleiri konur en karlar. Það skiptir verulegu máli, það er öðruvísi tekið á hlutunum þar sem konurnar eru ráðandi. Það er mikill munur að starfa við þær aðstæður, sérstaklega þegar horft er til jafnréttismála og þeirra mála sem konur telja mikilvægust.

Mig langar að nefna aðeins þetta átak sem farið var í eftir að þingsályktunartillagan var samþykkt á 122. löggjafarþingi. Þetta átak vakti nefnilega mikla athygli, m.a. hefur auglýsingaherferðin sem farið var í síðar verið kennsluverkefni í kennslubókum í Bandaríkjunum og hefur vakið athygli eiginlega á heimsmælikvarða sem ég vil geta hér úr því að við erum að ræða þessi mál.

Mér fundust líka athyglisverð þau atriði sem hv. þm. Ásta Möller nefndi hér, bæði hvað varðar þær tölur sem hún hefur tekið saman um þróunina hér á landi og sömuleiðis þessi könnun sem Alþjóðaþingmannasambandið hefur farið í og niðurstöður hennar, mjög athyglisverðar niðurstöður þar á ferðinni og mikil og góð röksemdafærsla fyrir því að fara í aðgerðir til að auka hlut kvenna bæði á þingi og í sveitarstjórnum.

Kvenréttindafélag Íslands hefur samþykkt áskorun til Alþingis um að samþykkja þessa tillögu. Ég verð að segja að ég tek undir þá áskorun, ég tel mjög mikilvægt að við samþykkjum tillöguna. Hún mun fara til hv. félags- og tryggingamálanefndar að lokinni þessari umræðu og það verður að segja um þá nefnd að þar er aðeins ein kona, þar er nú ekki jafnréttinu fyrir að fara, en sú sem hér stendur á sæti í þeirri nefnd og mun leggja því lið að þetta mál verði samþykkt þar. Það er verulega mikilvægt að farið verði í þá vinnu sem hér er lögð til. Skýr skilaboð verða að koma frá Alþingi um að það þurfi að bæta stöðu kvenna, bæði í sveitarstjórnum og á þingi.

Svona hluti þarf að tala um, það þarf að tala um þá þangað til árangur næst. Þannig er það með jafnréttismálin, það þarf að tala um þau þangað til við náum jafnréttinu fullkomlega. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrstu sætin skipta mestu máli. Þar verða konur að vera og þær þurfa að vera í öruggum sætum. Stjórnmálaflokkarnir verða að taka ábyrgð, taka málin í sínar hendur og tryggja að konur komist í þessi sæti.

Ég hef verið í stjórnum margra kvennahreyfinga, m.a. í Kvenréttindafélaginu, og unnið að þessum málum. Ég hef verið hlynnt því að farið verði í átaksaðgerðir. Ég hef ekki verið sammála fléttulistaaðferðinni og hef ekkert legið á því. Það er nefnilega þannig að flokkarnir eru missterkir eftir kjördæmum og það verður að vera þannig að t.d. tvær konur geti verið í tveim efstu sætunum eins og hefur verið hjá Samfylkingunni. Árið sem við konurnar vorum fleiri í þingflokki Samfylkingarinnar en karlarnir voru tvær konur í efstu sætum á höfuðborgarsvæðinu þar sem við vorum sterkust. Ef við hefðum verið með fléttulista, ein kona og karl til skiptis, hefðum við ekki verið eins margar. Það sést ef við skoðum reynsluna. Sama á við í Suðvesturkjördæmi þar sem konur voru fleiri í öruggu sætunum. Við þurfum að horfa á þetta aðeins víðar en með fléttulistana.

Ég tek undir það að prófkjör eru karlaaðferð. Það er mjög erfitt fyrir konur að fara í prófkjör, það er mjög erfitt fyrir konur að skuldsetja sig í slíkri baráttu og það er skaðlegt fyrir flokkana að vera með átök inn á við þannig að samherjar takist á við að komast áfram í stjórnmálum. Það er skaðlegt og það er ekki gott fyrir flokka að vera alltaf með prófkjör. Það getur vel verið að það sé hægt að koma því þannig fyrir að vera stundum með prófkjör en ekki við hverjar kosningar, það er ekki gott.

Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir nefndi kvennaknattspyrnuna og glæsilegan árangur okkar kvenna í gærkvöldi og ég er alveg sammála því að þetta á eftir að skila miklum árangri, breyta afstöðu ungra stúlkna og auka sjálfstraust þeirra á allan hátt.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leggja því lið að hvetja til þess að þetta þingmál verði samþykkt. Ég mun gera það í nefnd þegar málið kemur til hv. félags- og tryggingamálanefndar en þetta er vissulega mál sem þarf að huga að. Við vitum ekkert hvaða kosningar verða næstar þannig að ég held að það þurfi að huga að konum í bæði alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Við vitum a.m.k. hvenær sveitarstjórnarkosningar verða og mikilvægt er að samþykkja þetta mál í ljósi þess að þær eru fram undan, en munum líka eftir konum á þingi því að viðhorf kvenna þurfa að vera sterk hvort sem er á löggjafarsamkundunni eða í sveitarstjórnum.



[12:23]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu um að auka aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum er flutt af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum og því augljóst að hún hefur breiðan pólitískan stuðning. Þessi tillaga var áður flutt á síðasta löggjafarþingi en var þá ekki afgreidd þannig að hún er endurflutt hér.

Ég vil strax í upphafi lýsa því yfir að ég er eindreginn stuðningsmaður þess að þessi tillaga nái fram að ganga og verði samþykkt og tel að sá breiði pólitíski stuðningur sem er við hana í formi þess að flutningsmenn eru úr öllum flokkum eigi að vekja vonir um að hún geti náð fram að ganga á þessu þingi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum skilgreint okkur sem femínískan flokk og ég veit að það eru að sjálfsögðu femínistar í öllum flokkum, eða vona það a.m.k., og þess vegna erum við mjög eindregnir stuðningsmenn þess að auka og jafna hlut kynjanna á hvaða vettvangi sem er, m.a. í hinu pólitíska umhverfi.

Eins og hér hefur komið fram hjá þeim sem þegar hafa tekið til máls í þessari umræðu er í raun ekki boðlegt að hinn pólitíski vettvangur sé jafnmisskiptur milli kynja og raun ber vitni, að ég tali ekki um þegar horft er til þess að við höfum horft upp á bakslag í þessari baráttu og þessari stöðu á undanförnum árum. Í greinargerð með þessari tillögu er einmitt birt yfirlit yfir hlut kvenna í sveitarstjórnum annars vegar og á Alþingi hins vegar nokkrar kosningar aftur í tímann. Þó að vissulega hafi orðið aukning á hlut kvenna bæði í sveitarstjórnum og á Alþingi yfir lengri tíma litið horfum við upp á það að t.d. í þingkosningunum 2003 varð nokkurt bakslag miðað við kosningarnar 1999 og það þokaðist ákaflega lítið áfram í kosningunum 2007. Það má segja það sama með sveitarstjórnirnar, hlutur kvenna er þar enn þá of rýr, í kosningunum 2006 var hann tæp 36%, talsvert hærri þó en hlutur kvenna á Alþingi og er það að sjálfsögðu vel en breytir ekki því að hér þarf að gera betur.

Það er einfaldlega þannig að alls staðar í heiminum sæta konur í raun misrétti vegna kynferðis. Það er staða sem stríðir gegn grundvallarmannréttindum, það er staða sem endurspeglast líka í menningarlegri, félagslegri, efnahagslegri og stjórnmálalegri stöðu kvenna. Við höfum að sjálfsögðu lagt áherslu á það í mínum flokki að berjast fyrir fullum mannréttindum, og kvenréttindi og kvenfrelsi eru hluti af þeirri stefnumótun. Sú barátta kallar vissulega á breytt hugarfar, hún kallar á uppstokkun ríkjandi gilda í samfélaginu og felur í sér að það verður að beita aðgerðum á vettvangi stjórnsýslu og sameiginlegra stofnana samfélagsins til að ná viðunandi árangri í þessari baráttu.

Ég held að þegar við horfum á stöðuna í stjórnmálum megi kannski segja að á þeim vettvangi sé jafnvel meira jafnrétti en á mörgum öðrum sviðum samfélagsins. Afsakar það að sjálfsögðu ekki þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir á Alþingi og í sveitarstjórnum en ef við horfum t.d. til viðskiptalífsins, atvinnulífsins, er mjög mikið verk óunnið á þeim vettvangi. Hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir greindi frá því að hún flytti hér þingmál þar sem m.a. er tekið á hlutfalli kynjanna í stjórnum fyrirtækja, (SVÓ: Fjármálafyrirtækja.) fjármálafyrirtækja og vísaði þar til hinnar svokölluðu norsku leiðar. Ég tek undir það með henni að það er leið sem ég held að við verðum að fara að fara vegna þess að það virðist ekki vera hægt að ná árangri öðruvísi en með því að grípa til markvissra aðgerða í þessu sambandi.

Hér kom m.a. fram í máli hv. flutningsmanns þessarar tillögu og reyndar í máli annarra þingmanna líka að sú vinna sem fór fram í kjölfar þingsályktunar sem samþykkt var hér fyrir allmörgum árum hefði leitt til þess að hlutur kvenna jókst umtalsvert í þingkosningunum 1999 en þá fór hlutfall kvenna úr rúmum 25% í tæp 35% á milli kjörtímabila sem var auðvitað umtalsvert stökk og verulegur árangur. Ég segi bara fyrir mína parta að ef aðgerðir af þessum toga, átaksverkefni eða hvaða aðgerðir aðrar sem menn telja að séu til þess fallnar að rétta hlut kynjanna, skila árangri á þessum skala, t.d. í næstu sveitarstjórnarkosningum, verðum við í allt annarri stöðu en við erum í í dag. Ég held því að það sé sannarlega tímabært að grípa til ráðstafana í þessu efni.

Hér hefur verið talað um hlutverk stjórnmálaflokkanna og að þeir verði að vera reiðubúnir til þess að vinna þetta mál innan frá, ef svo má segja, hver í sínum ranni. Ég tek undir það, ég held að það sé afar þýðingarmikið. Hlutur kvenna verður auðvitað ekki aukinn, hvorki í sveitarstjórnum né á Alþingi, nema í gegnum stjórnmálaflokkana og þá þau samtök eða stjórnmálahreyfingar sem bjóða fram og þá verða menn að vera reiðubúnir á þeim vettvangi til að vera með kerfi getum við sagt sem tryggir jafnrétti, sem tryggir jafnan hlut beggja kynja.

Auðvitað hafa verið farnar ýmsar leiðir í þessu og það má kannski segja að margar leiðir geti verið færar. Við höfum farið þá leið í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, bæði til alþingiskosninga síðast og eins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, að vera með svokallaða fléttulista þar sem við höfum a.m.k. í prófkjörum gengið þannig frá málum að kynjunum sé raðað á listana til skiptis. Reyndar höfum við líka sagt að jákvæð mismunun geti komið til álita þar sem hlutur annars kynsins er umtalsvert minni en viðunandi er og í stjórnmálunum á það fyrst og fremst þá við um hlut kvenna. Þannig háttaði t.d. til í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur hjá okkur í VG fyrir síðustu þingkosningar að í fjórum efstu sætunum í Reykv. n. eru tvær konur og tveir karlar, þ.e. kona í 1. og 4. sæti og karl í 2. og 3., en í Reykv. s. eru í fjórum efstu sætunum þrjár konur og einn karl. Þrjár konur í fyrstu þremur sætunum og karl í 4. sæti. Þetta töldum við okkur geta gert á grundvelli ákvæðis um jákvæða mismunun þó að meginreglan í prófkjörinu hefði verið fléttulisti. Í öðrum kjördæmum höfum við notast við fléttulista sem virkar þá þannig að ef karl er í 1. sæti er kona í 2. og síðan getur þá verið hvort sem er karl eða kona í 3. og svo öfugt í 4. Þetta höfum við notað með ágætum árangri og í okkar níu manna þingflokki eru sem sagt fjórar konur og fimm karlar þannig að það er eins jöfn skipting og fæst miðað við oddatölufjölda.

Fyrir hönd okkar í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tek ég undir það þingmál sem hér hefur verið mælt fyrir og tel að í raun og veru sé ekki eftir neinu að bíða að taka það til umfjöllunar í nefnd og helst afgreiða sem allra fyrst því að um það á að vera nokkuð breið samstaða þannig að Jafnréttisstofa geti þá, verði þessi tillaga samþykkt, farið af stað með þetta verkefni í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum fyrir næstu kosningar. Að sjálfsögðu má hugsa sér að víkka það jafnvel út til næstu þingkosninga í framhaldinu því að það er ekki eftir neinu að bíða í því efni. Eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir gat um er aldrei að vita hvenær þær fara fram.



[12:33]
Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að bregðast við því sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni um aðferðafræði flokkanna. Ég er honum hjartanlega sammála nánast um hvert atriði sem hann gat um í ræðu sinni. Þetta er því kannski hugleiðing frekar en beint andsvar við ræðu hans. En þó, það snýr að þessu með prófkjörin og kvótana.

Við verðum að hafa í huga að við viljum byggja á jafnræði í samfélaginu. Við erum ekki að tala um að konur séu settar framar eða þeim sé hyglað á framboðslistum eingöngu vegna kynferðis og markmiðið sé að konur verði fleiri en karlar. Það hlýtur að vega þyngst, eins og hv. þm. Ásta Möller kom hér inn á, að kynin hafa mismunandi áherslur og mismunandi áhugamál og það skiptir miklu máli að sjónarmið beggja kynja komi alltaf fram.

Ég vil því segja varðandi prófkjörin og fléttulistana að útfærslan á því getur verið með ýmsum hætti. Það var nefnt að í einhverjum tilfellum væru konur fleiri en karlar og þess vegna væru fléttulistar þar sem kynin skiptust á ekki heppilegir. Ég hefði frekar viljað nálgast það þannig að flokkarnir skoðuðu það að ef fjórir öruggir þingmenn eru í tilteknu kjördæmi þá hafi flokkurinn þá reglu að það skuli vera tvær konur og tveir karlar.

Ef flokksmenn velja síðan að tvær konur séu í tveimur efstu sætunum og tveir karlar í tveimur neðri eða öfugt þá er það allt í lagi svo fremi sem menn ganga út frá því að þessir fjórir séu þá öruggir fyrir viðkomandi flokk. Það má líka útfæra þetta á þennan hátt án þess að þetta sé endilega alltaf kona, karl, kona, karl eða karl, kona, karl, kona.



[12:35]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála því sem hv. þingmaður segir að aðferðafræði flokkanna skiptir miklu máli og hægt er að fara ýmsar leiðir í þessu sambandi. Nú er að vísu svo að það er ekkert öruggt í henni veröld þegar kemur að sætum til þings eða sveitarstjórna hvað flokkana varðar. Auðvitað getur fylgið hreyfst á milli flokka. Það er ekkert fast bundið eða öruggt í því efni.

Flokkarnir vita í stórum dráttum hvað þeir geta reiknað með að hafa af fulltrúum í sveitarstjórnum og á þingi og auðvitað skipta efstu sætin mestu máli.

Það er líka hægt að segja að ef menn eru með prófkjör – og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt með prófkjörin, þau geta í fyrsta lagi verið hagfelldari fyrir karla en konur almennt séð og líka hagfelldari fyrir þá sem fyrir sitja en nýliða, það er tvennt í því.

Ef slíkar leiðir eru farnar má hugsa sér að sá sem tekur þátt í prófkjöri þurfi að kjósa bæði karl og konu vegna þess að við gerum ráð fyrir því að skipting karla og kvenna sé jöfn. Ekki vegna þess að fólk eigi að komast inn á kynferði heldur vegna þess að það er svo mikilvægt fyrir breiddina í hinni pólitísku umræðu að hún sé spegill samfélagsins. Það gerist ekki ef hlutfall kynjanna er ójafnt. Það er því hægt að hugsa sér margar aðferðir í þessu sambandi. Ég held að við hv. þm. Steinunn Valdís Óskarsdóttir séum í öllum meginatriðum sammála í þessu álitaefni. (SVÓ: Eins og í mörgu öðru.)



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til fél.- og trn.