136. löggjafarþing — 19. fundur
 4. nóvember 2008.
samstarf um nýtt lagaumhverfi fyrir fjármálakerfið.

[14:03]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fjármálakerfið á Íslandi er komið á hliðina. Efnahagskerfið í heild sinni á í miklum alvarlegum og vaxandi erfiðleikum en það sorglega er að þetta hefði ekki þurft að fara svona. Það sorglega er að ef löggjafinn hefði reist nauðsynlega múra til varnar almenningi og heimilum í landinu hefði t.d. Icesave-hneykslið ekki orðið að veruleika og við stæðum ekki frammi fyrir þeirri hrikalegu katastrófu sem við nú gerum.

Ég nefni sem dæmi um reglur og löggjöf sem setja hefði þurft um ýmislegt sem snertir krosstengsl í viðskipta- og fjármálalífinu, lög um aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarsjóða sem hefðu komið í veg fyrir Icesave-hneykslið þar sem viðskiptahlið bankans fóðraði óseðjandi fjárfestingarófreskjuna. Nú þegar við stöndum frammi fyrir því að greiða úr þeim flækjum sem eru í fallít fjármálakerfi þjóðarinnar blasir við okkur annað og ekki síður alvarlegt og mikilvægt verkefni en það er að reisa nýtt fjármálakerfi. Þá skiptir miklu máli hvernig til tekst um allt lagaumhverfið og ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort hann muni beita sér fyrir þverpólitískri aðkomu alls þingsins að því starfi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum aftur og ítrekað á undanförnum mánuðum, missirum og árum lagt fram tillögur í þessa veru. Þær hafa allar verið hunsaðar og nú spyr ég: Er hæstv. forsætisráðherra reiðubúinn að efna til þverpólitísks samstarfs um nýtt lagaumhverfi fyrir íslenska fjármálakerfið?



[14:05]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður veit byggist lagaumgjörðin um fjármálakerfið á Íslandi á samevrópskum reglum. Bæði hér á landi og annars staðar hafa þær að ýmsu leyti reynst mjög gallaðar. Það þarf að laga til í þeim efnum og við eigum að taka forustu um það á Íslandi sjálf, það sem snýr að okkur. Atriði eins og hv. þingmaður kallaði réttilega Icesave-hneykslið mega ekki koma upp í nokkurri mynd aftur. Þetta verkefni sem við í ríkisstjórn og fólk á okkar vegum er nú að eyða dýrmætum tíma sínum í að reyna að greiða úr, er auðvitað ömurlegt mál á alla lund.

Samkvæmt verkaskiptingu í Stjórnarráðinu hefur viðskiptaráðherra frumkvæði að undirbúningi löggjafar um regluverkið á fjármálasviðinu. Eftir það kemur málið til ríkisstjórnar og þingflokka hennar og síðan til Alþingis þannig að á þeim vettvangi koma allir flokkar að og ég er alveg sannfærður um að góð ráð úr ranni Vinstri grænna verða ekki síður vel metin en annarra í þessum efnum. Það er eitt og annað í regluverki okkar sem eftir á að hyggja reyndist ekki vel og krosseignarhald, eignarhald eignarhaldsfélaga á hlutabréfum í bönkunum og fleira af því tagi eru atriði sem við höfum brennt okkur illilega á. Koma þarf í veg fyrir að lagaákvæði um þetta og evrópskar reglur verði misnotaðar af öflum og aðilum sem ekki hafa hagsmuni þjóðarbúsins að leiðarljósi.



[14:07]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ýmislegt sem við getum ekki breytt sem er orðið að veruleika. Ég nefni andvaraleysi og fyrirhyggjuleysi fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar. Ég nefni stefnu fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar. Ég nefni afstöðuna sem var að finna í fjármálakerfinu hjá þeim sem þar stýrðu för. Þetta er liðin tíð. En nú þurfum við einnig að horfa til framtíðar og ég tók það sem svo að hæstv. forsætisráðherra væri því fylgjandi að efnt yrði til þverpólitískrar samstöðu um smíði nýs lagaumhverfis fyrir fjármálakerfið í landinu. Það er mjög mikilvægt að við komum öll að því verki.



[14:08]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ef það yrði skoðað hvernig lög um regluverk á fjármálamarkaðnum hafa verið afgreidd á Alþingi á undanförnum árum allt frá því að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu kæmi í ljós að flestöll lagafrumvörp um þetta efni hafa verið samþykkt samhljóða út úr þinginu, að hvorki Vinstri grænir, forverar þeirra né aðrir stjórnmálaflokkar hafi gert veigamiklar athugasemdir við það regluverk. Vill þingmaðurinn gera athugasemd? (ÖJ: Ekki gleyma ... söguð út af borðinu.) Það er nefnilega það. En ég vildi segja að frumkvæðisrétturinn í þessu máli og skyldan er að sjálfsögðu hjá ríkisstjórninni og viðskiptaráðherra hennar en atbeini annarra þingflokka kemur að sjálfsögðu til skjalanna hér í Alþingi. Ekki verður fúlsað við athugasemdum eða hugmyndum hvaðan svo sem þær koma úr hinu pólitíska litrófi í því starfi sem fram undan er í þessum efnum. En fyrst þarf að vinna þetta mál á vettvangi ríkisstjórnarinnar. (ÖJ: Hættu að snúa út úr ...) Kemur það ekki úr hörðustu átt þegar hv. þingmaður segir öðrum að hætta að snúa út úr?