136. löggjafarþing — 22. fundur
 10. nóvember 2008.
upplýsingagjöf um aðgerðir í efnahagsmálum.

[15:05]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þó að í símskeytastíl verði sé ég mig knúinn til að ræða við hæstv. forsætisráðherra um stöðuna í því sem kalla má meintar yfirstandandi björgunaraðgerðir í efnahagsmálum og ekki síður þó hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að upplýsingagjöf til almennings. Við finnum öll reiði- og óánægjuöldurnar rísa æ hærra í þjóðfélaginu. Þær eru skiljanlegar og meira en það, þær eru réttmætar. Íslenska þjóðin á betra skilið en það sem mætir henni nú.

Ríkisstjórnin verður að skynja ábyrgð sína við þessar aðstæður og auðvitað Alþingi allt. Almenningur á heimtingu á upplýsingum, almenningur verður að geta treyst því að mál verði rannsökuð og menn axli ábyrgð. Og, hæstv. forsætisráðherra, er eftir nokkru að bíða? Er ekki tímabært að gefa þjóðinni skýrt og bindandi fyrirheit um að um leið og aðstæður leyfa verði boðað til kosninga? Lýðræðið er það tæki sem við höfum, það úrræði sem stjórnskipun okkar byggir á til að leysa úr aðstæðum eins og þeim sem nú eru komnar upp á Íslandi. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja heimilin og atvinnulífið næstu daga, næstu vikur? Þau mál þola ekki bið. Hæstv. ríkisstjórn verður að átta sig á því að nánast hver einasti dagur sem líður í óvissu og aðgerðaleysi er ákaflega dýrkeyptur. Hann er það gagnvart ástandinu í þjóðfélaginu, hann er það í reynd gagnvart fyrirtækjum sem eru að komast í þrot og gagnvart fólki sem er að missa vinnuna. Við verðum öll að vanda okkur við að glíma við þessar aðstæður til að komast sem klakklausast frá þeim. Þess vegna bið ég hæstv. forsætisráðherra að upplýsa hér hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að þessum hlutum hvað varðar upplýsingagjöf til almennings, kynningu á stöðunni og því sem gert verður næstu daga og vikur til að rétta þjóðarbúið af.



[15:07]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Mér heyrðist þingmaðurinn drepa á þrennt. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að það eru engin áform um að flýta kosningum að svo stöddu. Í öðru lagi að því er varðar rannsókn mála, rannsókn á því sem miður kann að hafa farið við aðdraganda þessa máls, þá hafa formenn flokkanna unnið að því upp á síðkastið og munu funda síðar í dag þar sem leitað verður leiða til að hægt verði að flytja sameiginlegt þingmál um það efni og vona ég að það geti orðið sem allra fyrst að hægt verði að setja lög og koma þeim málum öllum í viðunandi farveg. Það hefur staðið til allan tímann og verður ekki unað við annað en að slíkt verði gert og helst af öllu hefði ég viljað að það væri á ábyrgð allra stjórnmálaflokkanna og hef ekki fundið annað en formenn flokka séu inni á því.

Í þriðja lagi að því er varðar upplýsingagjöf til almennings, þá þykir mér miður ef það er almenn tilfinning að þar sé pottur brotinn. Við munum gera hvað við getum til að bæta þar úr. Opnað hefur verið sérstakt símaver sem veitir upplýsingar. Öll ráðuneytin veita upplýsingar og eru auðvitað reiðubúin að liðsinna hverjum og einum eftir mætti. Ýmsar stofnanir ríkisins eins og Íbúðalánasjóður og Vinnumálastofnun og fleiri slíkar stofnanir vinna hörðum höndum að því að greiða úr málefnum einstaklinga og einstaka málum. Við munum reyna að bæta þessa þjónustu eins og hægt er og því hefur verið beint til viðskiptabankanna þriggja að þeir, hver á sínum vettvangi, reyni að leiðbeina fólki og liðsinna eftir því sem mögulegt er. Við munum að sjálfsögðu reyna að bæta þá þjónustu sem hið opinbera veitir í þessum efnum. Allar góðar hugmyndir í því efni eru vel þegnar og mun verða unnið úr þeim eftir fremstu getu.



[15:09]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tel óskynsamlegt af hæstv. forsætisráðherra að taka enn svo til orða eins og hann gerði hér í sambandi við mögulegar kosningar. Þó að hann segði að vísu að að svo stöddu væru engin áform um að flýta kosningum, þá held ég að það sé veruleikafirring að horfast ekki í augu við að þetta mun aldrei ganga án kosninga innan skamms.

Í öðru lagi fögnum við því að sjálfsögðu að vilji standi til þess að setja rannsókn á þessum atburðum öllum í farveg en tíminn til gera það er mjög naumur. Við höfum áður tekið það upp hér og ég hef áður lagt á það áherslu og ég vildi helst að í þessari viku sjáist það í verki í formi frumvarpa á borðum þingmanna þannig að þjóðin geti þó a.m.k. treyst því.

Í þriðja lagi varðandi upplýsingagjöf. Ferlið er allt of lokað, hæstv. forsætisráðherra. Það sem hefur gerst í skjóli skilanefnda og tímabundinna bankaráða er of lokað. Þaðan leka út fréttir í fjölmiðla, jafnvel frá stjórnvöldum sjálfum. Þetta er ekki nógu gott og þjóðin þolir ekki þetta ástand lengur. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur þó a.m.k. að skynja sína þjóðarsál þannig að það stefnir í óefni og ríkisstjórnin verður að horfast í augu við það.



[15:11]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég hygg að við verðum öll að kannast við það að upp hafa komið í þjóðfélaginu aðstæður sem enginn okkar hefur þurft að glíma við áður, enginn þingmaður, enginn ráðherra. Allir sem hafa komið að þessu ferli hafa reynt að vinna sín verk eins vel og þeir hafa mögulega getað. Það er engum blöðum um það að fletta. Það á við um skilanefndirnar í bönkunum, það á við um hin tímabundnu bankaráð og það mun eiga við um nýju bankaráðin sem við gengum frá fyrir helgi í góðu samstarfi allra flokka. Þetta eru nokkrir af þeim aðilum sem eru á vettvangi í þessu máli en auðvitað koma margir fleiri að. Gagnvart almenningi er auðvitað mikilvægast að fólk hafi á tilfinningunni að það sé rétt og eðlilega að hlutum staðið, að það sé hvergi mismunað, að allir sitji við sama borð og allir eigi sama rétt bæði á upplýsingum og á sömu meðferð gagnvart stofnunum hins opinbera. Þannig er það, þannig viljum við hafa það og munum reyna að tryggja að það verði svo.