136. löggjafarþing — 23. fundur
 11. nóvember 2008.
strandsiglingar, fyrri umræða.
þáltill. JBjarn o.fl., 39. mál (uppbygging). — Þskj. 39.

[18:20]
Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tala fyrir tillögu til þingsályktunar um strandsiglingar. Fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Jón Bjarnason, en ásamt honum flytja tillöguna sá sem hér stendur og hv. þingmenn Katrín Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman, Kolbrún Halldórsdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að undirbúa að strandsiglingar verði hluti af vöruflutninga- og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni, ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út. Ráðherra skili niðurstöðum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2009.“

Ég legg áherslu á að það er kannski mikilvægara nú en oft áður að þessi tillaga verði tekin alvarlega. Hér voru strandsiglingar um áratugaskeið við Íslandsstrendur, mikið var fjárfest í höfnum og mannvirkjum sem síðan hafa ekki verið nýtt sem skyldi. Öllum sem skoðað hafa málið ber saman um að frá umhverfislegu sjónarmiði og þjóðhagslegu er þetta skynsamleg ráðstöfun. Það virðast allir leggjast á sveif í orði en skort hefur á að menn séu tilbúnir að fylgja þessu eftir í verki.

Þessi tillaga hefur verið lögð fram áður, og nokkuð oft, á 127., 128., 131., 132., 133. og 135. löggjafarþingi, og er nú lögð fram að nýju, örlítið breytt.

Ég vísa til umræðu sem fram hefur farið um þetta þingmál í þingsal. Ég vísa til greinargerðar sem fylgir frumvarpinu og ætla ekki að fjölyrða um það meira. Ég legg til að málinu verði vísað til samgöngunefndar að umræðu lokinni.



[18:23]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Þessi ágæta þingsályktunartillaga um strandsiglingar á fullan rétt á sér með tilliti til þess að nú stöndum við kannski frammi fyrir því að hafnir víðast hvar eru illa nýttar hringinn í kringum landið og vegir á landinu þola illa þá þungaflutninga sem eru í dag. Ef hægt væri að auka flutninga með skipum hringinn í kringum landið væri það til góðs fyrir vegakerfið okkar, ég tala nú ekki um ef litlir peningar verða til á næstunni í viðhald og viðgerðir og nýlagningu vega.

Það er kannski ekki mikið sem þarf að segja um þetta og ég hvet þingheim allan, hvar sem hann er staddur, og ef hann er að hlusta og horfir á og fylgist með þeim umræðum sem hér eru í gangi, að hann nýti sér það og veiti þingsályktunartillögunni brautargengi.



[18:25]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér er gamall kunningi eins og fleiri mál sem mælt er fyrir í dag og er um strandsiglingarnar. Sá sem hér stendur er einn af flutningsmönnum tillögunnar og telur að hún eigi fyllsta rétt á sér, hún sé bæði þjóðhagslega hagkvæm og einnig umhverfislega hagkvæm. Hún muni leiða til þess að þjóðvegir landsins verði ekki fyrir því mikla álagi sem er í dag vegna þungaflutninga meðal annars og eðlilegt sé að tekist verði á við málið. Það er líka eðlilegt að vekja athygli á því að krafa hefur verið um að reyna að koma strandsiglingunum á á nýjan leik, við Íslendingar erum ekki einir um að ræða það eða vilja framkvæma það. Á vegum Evrópusambandsins hefur verið lagt til — þeir hafa heimilað fyrir sitt leyti sérstaka styrki, að ríkisstjórnum sé heimilt að styðja við strandflutninga með því að styrkja flutningana og efla þannig samkeppnisstöðu sjóflutninga. Núverandi hæstv. samgönguráðherra hefur iðulega talað fyrir því að eðlilegt væri að koma upp strandflutningum á nýjan leik og tryggja að þeir komist á með því að taka m.a. á því að bjóða út ákveðnar siglingaleiðir sem njóti þá ákveðinna styrkja o.s.frv.

Það er svo sem ekki mikið meira um þetta að segja. Þessi þingsályktunartillaga hefur, eins og ég segi, oft verið flutt hér áður. Ég vænti þess að hún fái nú afgreiðslu. Ég tel það til mikilla bóta, hæstv. forseti, eins og ég sagði áður, bæði þjóðhagslega og umhverfislega, að standa að því að sjóflutningar við strendur Íslands verði aftur settir á laggirnar umfram það sem nú er með okkar ferjuflutningum, sem eru á þremur stöðum, þ.e. til Vestmannaeyja frá Þorlákshöfn og yfir Breiðafjörð og síðan á Eyjafirði út í Hrísey og Grímsey.

Hæstv. forseti. Ég vænti þess að málið fái jákvæða umfjöllun og komi hér inn í þing að nýju eftir þá umfjöllun og fáist afgreitt sem ályktun Alþingis við 2. umr.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til samgn.