136. löggjafarþing — 24. fundur
 12. nóvember 2008.
Íbúðalánasjóður.
fsp. JBjarn, 108. mál. — Þskj. 116.

[14:19]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég tel afar mikilvægt að allri óvissu um stjórnsýslulega stöðu Íbúðalánasjóðs sé eytt. Við höfum heyrt það frá stjórnarflokkunum, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, núna síðustu missirin að stjórnsýsluleg staða Íbúðalánasjóðs geti verið í óvissu. Stöðugt koma fram breytilegar upplýsingar eða áform um hver hún skuli vera. Ég er t.d. með viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hæstv. utanríkisráðherra, frá 27. maí 2007 þar sem rætt er um að færa Íbúðalánasjóð undir fjármálaráðuneytið. Það sem hæstv. ráðherra segir er ekki orðið að veruleika enn þá en það er í umræðunni.

Síðan höfum við heyrt að til standi að breyta rekstrarformi Íbúðalánasjóðs, að minnsta kosti að hluta. Þvílíkar yfirlýsingar hafa gengið ítrekað og leitt til óöryggis í kringum Íbúðalánasjóð. Við sem höfum staðið vaktina um Íbúðalánasjóð og barist gegn öllum áformum og hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna um einkavæðingu Íbúðalánasjóðs eða skerða stöðu hans eða hlutverk á einhvern hátt, getum nú fagnað því að við höfum Íbúðalánasjóð og þakkað fyrir það. Þá þurfum við líka að eyða allri þessari umræðu, öllum þessum áformum, öllu því sem valdið getur tortryggni um stöðu Íbúðalánasjóðs. Við heyrðum hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan að hann treysti sér ekki til að kveða skýrt upp úr um það af sinni hálfu að Íbúðalánasjóður ætti skilyrðislaust að vera áfram sem þjónustustofnun í eigu ríkisins og kæra á hendur honum verði afturkölluð. Hann treysti sér ekki til að gefa þá yfirlýsingu og því spyr ég nú hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur:

Hyggst ríkisstjórnin draga til baka öll áform sín um uppskiptingu og hlutafélagavæðingu Íbúðalánasjóðs og tryggja óumdeilda stöðu hans án þess að vera stöðugt að koma með hugmyndir um breytingar þar á? Ég held að það sé mikilvægt að við fáum hrein og skýr svör þannig að veruleikinn um stjórnsýslulega framtíð Íbúðalánasjóðs sé klár.



[14:22]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú krafa hefur verið upp í nokkurn tíma af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA að gerðar verði tilteknar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs þannig að hún samræmist betur ríkisstyrkjareglum EES-samningsins. Byggir sú aðstaða stofnunarinnar m.a. að dómi EFTA-dómstólsins frá því í apríl 2006 þar sem dómurinn benti m.a. á að í reglum um almenn lán Íbúðalánasjóðs skorti takmörkun á því til hve dýrra eða stórra íbúða heimilt væri að lána til. Fyrir vikið væri sú almannaþjónusta sem Íbúðalánasjóði væri ætlað að sinna ekki nægilega skýrt afmörkuð í lögum með hliðsjón af umræddum ríkisstyrkjareglum.

Áform ríkisstjórnarinnar í samræmi við framangreint hafa beinst að því að skilgreina og afmarka lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs þannig að hún samræmist umræddum ríkisstyrkjareglum. Íslensk stjórnvöld hafa í því sambandi haldið því fram við ESA að allur meginþorri af lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs geti talist þjónusta í almannaþágu í skilningi EES-samningsins og sé þar með innan leyfilegra marka samkvæmt samningnum. Hvar mörkin liggja í þessu efni er hins vegar óljóst á þessari stundu og hafa íslensk stjórnvöld unnið að því að útfæra mögulegar niðurstöður í því efni í samráði við ESA.

Hins vegar er ljóst að þær afar sérstöku kringumstæður sem nú ríkja hér á landi og víða um heim hafa áhrif á mál ESA gagnvart íslenskum stjórnvöldum og má í raun segja að það sé út af borðinu í bili að minnsta kosti. Er óhjákvæmilegt að málinu sé frestað meðan verið er að endurreisa og endurskipuleggja fjármálakerfið. Hefur fulltrúum ESA verið gerð grein fyrir þeirri stöðu og hafa þeir sýnt henni skilning. Ég vil hins vegar undirstrika að íslensk stjórnvöld geta ekki meinað ESA með formlegum hætti að skoða málið áfram né að farið fram á það með formlegum hætti að skoðun af hálfu ESA verði formlega stöðvuð. Það hef ég sérstaklega kynnt mér enda kom ósk um það í félags- og trygginganefnd fyrir skömmu. ESA ber á hverjum tíma að fylgjast með framkvæmd einstakra ríkja og starfsemi stofnana og fyrirtækja með ríkisábyrgð. Það er hins vegar öllum ljóst að málið er lagt til hliðar þar sem verkefni dagsins eru af allt öðrum toga og lúta m.a. að því að endurreisa og endurskipuleggja fjármálakerfið í landinu í heild sinni. Þegar kemur að því að taka afstöðu til þessara mála á nýjan leik mun ég sem fyrr standa vörð um meginstarfsemi Íbúðalánasjóðs sem er að veita almenningi hér á landi húsnæðislán á viðunandi kjörum. Öruggt og aðgengilegt húsnæði er einn af hornsteinum velferðarkerfisins hér á landi og út frá því mun ég nálgast það viðfangsefni sem hér um ræðir.

Ég hef margoft sagt það í ræðustól Alþingis eftir að ég tók við embætti félagsmálaráðherra að ég mundi standa vörð um Íbúðalánasjóð. Ég er í hópi þeirra sem eru talsmenn fyrir því, m.a. hv. fyrirspyrjandi, að standa vörð um Íbúðalánasjóð og það mun ég gera. Ég tel að heiti fyrirspurnarinnar sé einfaldlega rangt vegna þess að þar stendur: Hyggst ríkisstjórnin draga til baka áform sín um uppskiptingu og hlutafélagavæðingu Íbúðalánasjóðs? Það er hægt að aðskilja starfsemi Íbúðalánasjóðs í félagsleg og almenn lán eins og krafan hefur verið uppi um án þess að hlutafélagavæða sjóðinn þannig að það hefur ekkert komið fram af minni hálfu í þessu efni frá því að málið kom til umræðu að hlutafélagavæða ætti sjóðinn jafnvel þó að fara þyrfti út í það að aðskilja almenn félagsleg lán.



[14:26]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda, Jóni Bjarnasyni, fyrir að vekja máls á þessu. Það er nefnilega eðlilegt að spurt sé því að hæstv. ráðherra sagði á Alþingi í síðustu viku, eins og ég skildi hana, að ekki ætti að halda þessu máli til streitu. Síðan kemur hæstv. fjármálaráðherra upp, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og segir að málið eigi að ganga sinn veg. Ég skil ekki á hvaða vegferð hæstv. ríkisstjórn er, frú forseti.

Hvor stjórnarsáttmálinn er uppi núna? Er það stjórnarsáttmáli Samfylkingarinnar eða stjórnarsáttmáli Sjálfstæðisflokksins? Maður er gersamlega orðinn ringlaður. Hverjir stýra þessu samfélagi? Hæstv. ráðherra hefur talað um að standa eigi vörð um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Af hverju í ósköpunum dregur þá ríkisstjórnin ekki kæru ríkisbankanna til baka eins og hún getur gert? Af hverju? Er það vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki að það verði gert? Á málið að ganga sinn veg? (Forseti hringir.) Það er eðlilegt að spurt sé. Hver stýrir þessu ríkisstjórnarfleyi? Ætlar ríkisstjórnin sér að hafa (Forseti hringir.) tvær skoðanir í málefnum Íbúðalánasjóðs eins og í flestum öðrum málum sem snerta íslenskan almenning?



[14:27]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í haust voru boðaðar breytingar á Íbúðalánasjóði. Frumvarp þess efnis hefur ekki verið lagt fram en okkur var greint frá því að til stæði að aðgreina hinn félagslega þátt og hinn almenna þátt. Hvort það yrði gert í hlutafélagi eður ei, eins og mér skildist reyndar að til stæði að gera, stendur hitt eftir að menn ættu að markaðsvæða almenna hlutann eða láta hann starfa á sama grundvelli og fjármálastofnanir gera almennt. Þetta er tillaga um markaðsvæðingu húsnæðiskerfisins. Engu að síður ætla stjórnvöld að áskilja sér rétt til að sinna tilteknum félagslegum úrræðum. Það tel ég afar varhugavert og ég vek athygli á því þegar ráðherra og ríkisstjórn tala um kröfu frá ESA — engin slík krafa eða álit hafa borist, hvað þá bráðabirgðaálit. Að sjálfsögðu eiga stjórnvöld nú — og áttu náttúrlega alltaf að gera það — að hafa þá döngun (Forseti hringir.) í sér að draga það til baka. Fjármálaráðherra kom upp áðan og las upp úr endalausum reglugerðum um að slíkt væri ekki hægt. (Forseti hringir.) Hvers vegna í ósköpunum er ekki látið á það reyna og ríkisstjórnin hverfi þá frá öllum áformum (Forseti hringir.) um markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins?



[14:29]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að fá skýrari svör en komu fram hjá hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar því að spurt er um áform ríkisstjórnarinnar. Hyggst hún draga til baka þau áform sem kynnt hafa verið um framtíð Íbúðalánasjóðs? Það hefur ekki komið skýrt fram. Það hefur hins vegar komið fram af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra að hann þurfi að semja nýjan stjórnarsáttmála. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Á að standa í þeim stjórnarsáttmála að Íbúðalánasjóður starfi eins og hann er eða eins og áform hafa verið kynnt um að hann verði? Er að mati hæstv. ráðherra eitthvað um það í nýja stjórnarsáttmálanum að draga til baka kæru viðskiptabankanna til ESA? Hæstv. ráðherra getur ekki verið trúverðugur í þessu máli ef hann segir eitt en ríkisstjórnin framkvæmir annað. Það er algerlega óásættanlegt og gerir ekkert annað en þyrla ryki í augu kjósenda vegna þess að niðurstaðan er sú að sú stefna er framkvæmd sem boðuð hefur verið.



[14:30]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Þessi viðbrögð ráðherra, hvort heldur sem hæstv. félagsmálaráðherra eða hæstv. fjármálaráðherra, hljóta að valda okkur miklum ugg. Hvers vegna á ekki að koma með pólitíska, afdráttarlausa yfirlýsingu um að öll áform um breytingar á rekstrarformi Íbúðalánasjóðs, eins og það var kallað, þ.e. uppskiptum hans, verði dregin til baka? Hvers vegna er ekki hægt að koma með afdráttarlausa yfirlýsingu um að kæra íslensku viðskiptabankana sem nú heyra undir ríkið á hendur Íbúðalánasjóði verði dregin til baka?

Menn bera við einhverjum ESA-reglum. Var það samkvæmt einhverjum ESA-reglum að búið er að ríkisvæða alla bankana? Var ESA spurt að því? Er það ekki fleira sem við gerum núna sem ESA er ekki spurt um? Eða er búið að senda erindi til ESA um hvort ríkið hafi mátt ríkisvæða bankana? Þýðir það þá ekki nánari skoðun sem tekur þrjú ár eða meira?

Svona málflutningur af hálfu ráðherra ríkisstjórnar er forkastanlegur við þær aðstæður sem við búum nú, að þylja hér upp einhverjar reglugerðir um ESA en brjóta þær nánast allar samtímis eins og hvað varðar bankana. Og svo segir ráðherra: Þetta fer á ís í bili, þessu hefur verið frestað. Síðan þegar aðstæður breytast muni ESA-dómstóllinn kannski taka málið aftur upp.

Ég vil fá að sjá bréf frá hæstv. félagsmálaráðherra þar sem hún krefst þess og leggur fram þá kröfu að kæra viðskiptabankanna á hendur Íbúðalánasjóði verði dregin til baka formlega og skriflega. (BJJ: Við munum styðja það.) (Forseti hringir.)



[14:32]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef bara alls ekki orðið vör við það á þeim tíma sem ég hef setið sem félags- og tryggingamálaráðherra, í eitt og hálft ár eða hvað það er, að verið hafi miklar deilur milli mín og Sjálfstæðisflokksins eða Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins um að hlutafélagavæða eigi Íbúðalánasjóð. (JBjarn: Ég hef það skjalfest meira að segja.) Það hafa bara alls engar deilur verið um það. Málið hefur ekki komist á það stig að verið hafi neinar deilur um það. Við höfum verið sammála um að við höfum orðið að svara því sem fram hefur komið hjá ESA um að þeir hafa talið að við hefðum verið að brjóta ríkisstyrkjareglurnar. Það höfum við verið sammála um að þurfi að skoða. Og við höfum verið sammála um að ef niðurstaðan væri sú að við hefðum brotið þær reglur þyrfti að aðskilja almenna starfsemi og félagslega starfsemi Íbúðalánasjóðs. En ég kannast ekki við það sem fram kom hjá einum hv. þingmanni áðan að meiningin með því hefði verið að Íbúðalánasjóður ætti bara að sinna félagslegum úrræðum. Langt í frá. Niðurstaðan var sú að Íbúðalánasjóður ætti að starfa áfram og sinna almennum og félagslegum lánveitingum. Það hefur margkomið fram hér í ræðustól. Annað sem sagt er í því efni er hreinn útúrsnúningur.

Spurt er um hvort ég muni gera einhverjar kröfur í nýjum stjórnarsáttmála til þess að gerðar verði einhverjar breytingar þar á. Ég sé nú margt brýnna í svona samræmdri aðgerðaráætlun sem ég vona að stjórnarflokkarnir komi sér saman um en að fara að gera kröfu um það. Við vitum það allir stjórnmálaflokkar að það þarf að endurskipuleggja fjármálamarkaðinn hér. Það þarf algjörlega að endurskipuleggja húsnæðiskerfið miðað við breyttar aðstæður og við skulum skoða hvernig sú leið er.

Ég frábið mér að ég sé í hópi einhverra sem vilja markaðsvæða Íbúðalánasjóð. Ég vil fyllilega standa vörð um hann eins og ég held að flestir þingmenn vilji gera. Það hefur aldrei sýnt sig eins vel og nú að það er nauðsynlegt að hafa (Forseti hringir.) starfræktan Íbúðalánasjóð eins og verið hefur. (JBjarn: Þá köllum við kæruna til baka formlega.)