136. löggjafarþing — 24. fundur
 12. nóvember 2008.
vistakstur.
fsp. MÁ og KVM, 95. mál. — Þskj. 102.

[14:46]
Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Frú forseti. Við orkuvanda, loftslagsbreytingar og hörmuleg umferðarslys síðustu ár hefur athygli áhugamanna og sérfræðinga um samgöngur og umferð m.a. beinst að vistakstri, þeim vinnubrögðum við akstur bifreiða sem beinast að ýtrasta eldsneytissparnaði. Saga vistaksturs er orðin nokkur hérlendis, ökukennarar byrjuðu að huga að honum í tengslum við norræna félaga sína fyrir um sjö eða átta árum. Samtök þeirra og einstakir ökuskólar hafa staðið fyrir námskeiðum í vistakstri, m.a. fyrir atvinnubílstjóra og hafa þátttakendur látið vel af. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því framtaki Landverndar að flytja hingað ökuherma fyrir vistakstur, m.a. fyrir atbeina hæstv. samgönguráðherra. Þessir hermar hafa vakið mikinn áhuga og er skemmst að minnast frækilegs sigurs hæstv. forsætisráðherra í sérstakri vistaksturskeppni á ráðstefnu um vistvænar bifreiðar.

Ávinningur vistaksturs er þrefaldur. Eldsneytissparnaður er allt að 10%, að því er starfsmenn Landverndar segja, útblástur minnkar, og við vitum hvað það þýðir, og slysum fækkar, menn aka varlegar, huga betur að aksturslagi sínu o.s.frv. Til að ná árangri verðum við að hafa í huga að vistakstur á ekki að vera einhvers konar jaðarsport eða fyrir sérstaka áhugamenn, hann þarf að snerta alla sem koma að akstri og þá skiptir máli að ungir og nýir ökumenn tileinki sér þessi fræði frá upphafi og líti á vistakstur sem eðlilegt aksturslag.

Í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni í vor kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra að talsvert starf væri í gangi í þessum efnum og breyta ætti lögum og reglugerðum. Þess vegna spyrjum við Mörður Árnason varaþingmaður: Hvað líður undirbúningi þessara breytinga?

Í annan stað hefur verið starfshópur að störfum til að efla vistakstur og því spyrjum við Mörður Árnason einnig hvenær megi vænta tillagna frá starfshópnum.

Ég veit að hæstv. samgönguráðherra er mikill áhugamaður um málið sem og öryggi í umferð og þess vegna geri ég ráð fyrir að hæstv. ráðherra svari spurningunum fúslega og með gleði.



[14:49]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Karl V. Matthíasson og Mörður Árnason hafa lagt fyrir mig tvær spurningar. Sú fyrri er svohljóðandi:

„1. Hvenær má búast við að starfshópur sem nú er að störfum til að efla vistakstur skili tillögum sínum?“

Með mikilli gleði segi ég að tillögur starfshóps um vistakstur hafa verið afhentar mér, en þeim er ætlað að hvetja til að einstaklingar og fyrirtæki geri vistakstur að sjálfsögðum hlut í daglegu starfi sínu. Tillögurnar eru í aðalatriðum eftirfarandi:

1. Áróðursherferð og vitundarvakning meðal almennings. Gefinn verður út bæklingur þar sem kostir og hugmyndafræði vistaksturs eru dregin fram. Með auglýsingum verður almenningur hvattur til að kynna sér vistakstur og tileinka sér slíkan akstur í þágu hagkvæmni, umhverfis og aukins umferðaröryggis.

2. Ökukennarafélag Íslands hefur verið í fararbroddi fyrir kynningu á vistakstri. Félagar þess eru reiðubúnir að standa fyrir námskeiðum fyrir almenning og mun samgönguráðuneytið m.a. bjóða starfsmönnum sínum að sýna gott fordæmi með því að sækja slík námskeið. Hvatt verður til þess að einstaklingar sem og fyrirtæki sæki slík námskeið.

3. Beina mætti þeirri hugmynd til tryggingafélaga að veita afslátt af iðgjöldum bílatrygginga þeirra ökumanna sem sýna fram á staðfesta þátttöku í námskeiði í vistakstri.

4. Samgönguráðuneytið styður kynningu ríkisstjórnarinnar á vistakstri með ökuhermum sem hleypt var af stokkunum síðla sumars í samstarfi við ýmsa aðila.

Með vistakstri er talið að draga megi úr eldsneytisnotkun um 10%–12%. Það hefur í för með sér hagkvæmari rekstur bíla og minni útblástur mengandi lofttegunda. Með hugmyndafræði vistaksturs verða ökumenn meðvitaðri um daglegan akstur sinn og sýna meiri ábyrgð í akstri sem skilar sér í auknu umferðaröryggi.

Samgönguráðherra hvetur til að menn gefi gaum að vistakstri og bendir á að árangursríkasta leiðin til að tileinka sér slíkan akstursmáta er að sækja námskeið hjá ökukennara.

Virðulegi forseti. Önnur spurningin hljóðar svo:

„Hvað líður undirbúningi breytinga á lögum og reglugerðum til að gera vistakstur að formlegum hluta ökunáms?“

Í skýrslu starfshóps samgönguráðherra um ökukennslu, ökupróf, starfsleyfi ökukennara og starfsleyfi ökuskóla sem lögð var fram í september 2008 koma fram ýmsar tillögur um aukið vægi vistaksturs í ökunámi. Eftir er að vinna úr tillögunum en stefnt er að því að sú vinna fari af stað nú á næstunni. Felst hún m.a. í endurskoðun á reglugerð um ökuskírteini en lagt er til í skýrslunni að reglugerðinni verði skipt í tvennt, annars vegar reglugerð um ökuskírteini og hins vegar reglugerð um ökunám, ökupróf og endurmenntun ökumanna.

Í skýrslunni er lagt til að 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar hljóði svo, með leyfi forseta:

„Við samningu námskrár á grundvelli þessarar reglugerðar er ráð fyrir því gert að nemendum í grunnskóla sé veitt umferðarfræðsla í samræmi við viðmið þar um og stefnt skuli að því að allir nemendur í efstu bekkjum grunnskólans (8.–10. bekk) stundi á vegum viðkomandi grunnskóla aðfaranám að ökunámi. Þar sé áhersla m.a. lögð á umhverfislega þætti sem umferð tengjast, farandfræðilega þætti, kostnaðarþætti bæði fyrir einstaklinga sem og samfélagið í heild ásamt nauðsynlegustu umferðarmerkingum og fræðslu um eðli umferðar.“

Enn fremur leggur starfshópurinn til að þegar bráðabirgðaskírteini er endurnýjað og sótt er um fullnaðarskírteini skuli handhafi þess hafa lokið akstursmati hjá ökuskóla sem fengið hefur heimild til að hafa með höndum akstursmat. Í akstursmati skuli annars vegar kanna hvort mat ökumanns á eigin hæfni og akstursháttum séu í samræmi við raunverulega getu hans og hins vegar hvort hann hafi tamið sér vistvæn viðhorf í akstri sínum. Nauðsynlegt er að endurskoða námskrá vegna ökunáms til að gera vistakstur skilgreindan hluta ökunáms og verður það gert í tengslum við endurskoðun reglugerðar um ökuskírteini.



[14:54]
Fyrirspyrjandi (Karl V. Matthíasson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tíðindin í svari hans. Ljóst er að þetta er eitt af því sem varðar daglegt líf allra, þ.e. umferðin og aksturinn, ekki síst núna þegar eldsneytisverð er mjög hátt og margir sem eiga ekki mikla peninga. Þá skiptir miklu að menn komist leiðar sinnar á sem ódýrastan hátt og hluti af því er að temja sér vistakstur.

Mjög ánægjulegt er að í væntanlegri reglugerð er tekið sérstaklega á þessum málum og lagt fyrir að þau eigi að vera í ökunámi og almennu námi í grunnskólum. Það er mjög gott og vona ég að þeir sem standa að umferðarfræðslu í skólum, eins og t.d. í Grundaskóla á Akranesi, og hafa sérstakt hlutverk, hugsi um þetta og ég veit að þetta er í efni þeirra.

Annað sem lýtur að vistakstri og hlýtur að koma inn í umræðuna er akstur utan vega. Mjög mikilvægt er að fólk átti sig á því þegar það ekur utan vega, sem er ólöglegt, að það getur skaðað náttúruna og umhverfi okkar sem tekur mörg ár að bæta.

Að lokum, frú forseti, vil ég bara ítreka þakklæti mitt til hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin og vona að allt sem hann hefur í hyggju með þetta og ráðuneytið leiði til góðs.



[14:56]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim fyrirspyrjendum Merði Árnasyni varaþingmanni og hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir fyrirspurnina og vona að svar mitt hafi sýnt fram á að við í samgönguráðuneytinu viljum vinna að þessu verkefni og teljum okkur vera að gera það. Eins og kom fram í fyrirspurn og ræðu hv. þingmanns er aðalatriðið að fólk, íbúar þessa lands, ökumenn temji sér vistakstur sem eðlilegt aksturslag. Það er kannski það mikilvægasta. Eitt er að sækja námskeið, sem er jú ágætt, en menn geta líka dálítið lært þetta með því að fylgjast með ökuhraða og hvernig þeir keyra. Það er einmitt það sem ég vildi m.a. geta hér um, virðulegur forseti, vegna þess að á heimasíðu Vegagerðarinnar eru nýjar upplýsingar sem sýna að hraði ökutækja hefur minnkað og það er mjög ánægjulegt bæði út frá umferðaröryggismálum og ekki síst út af þessu.

Ætli fólk hafi ekki, virðulegi forseti, m.a. út af háu bensín- og olíuverði gefið meiri gaum að því að mikill aksturshraði og miklar akstursbreytingar gera það að verkum að bílar eyða miklu eldsneyti og það hafi áhrif. Vonandi er að hraði hafi líka minnkað út af þessu.

Þótt það sé ekki endilega tengt þessu, virðulegur forseti, þá sjást líka á hinni ágætu heimasíðu Vegagerðarinnar upplýsingar um að síðustu þrjá ef ekki fjóra mánuði hefur umferð á landinu minnkað töluvert, þannig að allt þetta hefur áhrif.

Ég ítreka virðulegi forseti, þakkir til fyrirspyrjenda fyrir þessa áhugaverðu fyrirspurn.