136. löggjafarþing — 25. fundur
 13. nóvember 2008.
lífsýnasöfn, 1. umræða.
stjfrv., 123. mál (skil milli þjónustusýna og vísindasýna o.fl.). — Þskj. 133.

[12:08]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn. Frumvarpið var samið af nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins.

Núgildandi lög tóku gildi 1. janúar 2001 og hafa almennt reynst vel. Síðastliðin ár hafa þó komið fram ábendingar um að nauðsynlegt sé að greinarmunur sé gerður á sýnum sem safnað er vegna vísindarannsókna eingöngu og sýna sem safnað er vegna þjónustu við sjúklinga. Jafnframt er talin þörf á að skoða ákvæði um afturköllun samþykkis lífsýnisgjafa, varðveislu lífsýna, aðgang að lífsýnum til vísindarannsókna og eftirlit með lífsýnasöfnum.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru eftirfarandi:

Lagt er til að hugtakið persónugreinanlegt lífsýni verði skilgreint í 3. gr. laganna, en það þykir nauðsynlegt í tengslum við afturköllun ætlaðs samþykkis lífsýnisgjafa svo og varðandi aðgang að sýnum vegna vísindarannsókna. Lífsýni telst persónugreinanlegt ef unnt er að rekja það til lífsýnisgjafa beint eða óbeint svo sem með tilvísun í kennitölu, kóða eða með öðrum hætti.

Í núgildandi lögum eru ekki skýr skil milli lífsýna sem safnað er vegna vísindarannsókna og lífsýna sem tekin eru vegna þjónustu við sjúklinginn og hefur það valdið vandkvæðum við framkvæmd laganna. Því er lagt til að gerður sé greinarmunur á lífsýnum sem safnað er í vísindalegum tilgangi og lífsýnum sem tekin eru vegna heilbrigðisþjónustu og hugtökin vísindasýni og þjónustusýni skilgreind og gerður greinarmunur á lífsýnasöfnun þjónustusýna og lífsýnasöfnun vísindasýna.

Tilgangur lífsýnasafna þjónustusýna er fyrst og fremst að vista lífsýni vegna mögulegra viðbótarrannsókna í þágu lífsýnisgjafans. Tilgangur lífsýnasafna vísindasýna er hins vegar að varðveita vísindasýni í þágu vísindarannsókna. Lagt er til að kveðið verði á um það í 5. gr. laganna að séu vísindasýni og þjónustusýni í sama lífsýnasafni skuli þau vera skýrt aðgreind og merkt þannig að tryggt sé að varsla, meðferð og nýting þeirra sé í samræmi við ákvæði laganna. Enn fremur er lagt til að tekið verði fram í 2. málslið 4. mgr. 7. gr. laganna að beiðni lífsýnisgjafa um afturköllun ætlaðs samþykkis til vistunar í lífsýnasafni til notkunar skv. 9. gr. laganna geti varðað öll persónugreinanleg lífsýni sem þegar hafi verið tekin eða kunni að verða tekin úr honum. Sé um að ræða sýni sem ekki er unnt að rekja beint eða óbeint til lífsýnisgjafa er ljóst að ekki er hægt að verða við beiðninni vegna þess að ekki er hægt að finna lífsýnisgjafann. Ekki verður heldur séð að slík notkun gæti með nokkru móti skaðað hagsmuni lífsýnisgjafa.

Þá eru lagðar til breytingar á 6. og 7. málslið 4. mgr. 7. gr. Í núgildandi ákvæðum er gert ráð fyrir að úrsagnaskrá landlæknis sé aðgengileg stjórnum lífsýnasafna. Ekki verður séð að nauðsynlegt sé að stjórn lífsýnasafns hafi aðgang að skránni. Hins vegar er nauðsynlegt að ábyrgðarmaður lífsýnasafns hafi aðgang að skránni þannig að hann viti hvaða sýni má nota til vísindarannsókna. Hér er því lagt til að ábyrgðarmaður lífsýnasafns hafi skilgreindan aðgang að úrsagnaskrá lífsýnasafna hjá landlækni svo hann geti merkt sýni í sinni vörslu með viðeigandi hætti og þannig tryggt að vilji einstaklings sé virtur.

Samkvæmt núgildandi ákvæði 1. mgr. 8. gr. skulu öll lífsýni varðveitt án persónuauðkenna. Þegar um er að ræða þjónustusýni getur það hins vegar farið gegn hagsmunum sjúklings þar sem þjónustusýni eru í eðli sínu eins og hver önnur sjúkragögn og getur verið nauðsynlegt að þau séu varðveitt með nafni og/eða kennitölu sjúklings til að koma í veg fyrir mistök. Því er lagt til að krafa um að lífsýni séu varðveitt án persónuauðkenna taki einungis til vísindasýna.

Þá er lagt til að bætt verði við 9. gr. laganna nýrri málsgrein þess efnis að þegar þjónustusýni eru afhent til vísindarannsókna skuli þau að jafnaði afhent án persónuauðkenna. Um afhendingu með persónuauðkennum yrði aðeins að ræða í undantekningartilfellum og þá með leyfi Persónuverndar.

Loks er lagt til að eftirlit með lífsýnasöfnum vísindasýna sé hjá vísindasýnanefnd en eftirlit með lífsýnasöfnum þjónustusýna hjá landlækni enda flokkast starfsemi þeirra undir heilbrigðisþjónustu.

Drög að frumvarpinu voru send til sautján aðila og sendu sjö inn umsagnir. Í umsögnum komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem tekið var tillit til við samningu frumvarpstextans.

Að mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins leiðir frumvarpið ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það að lögum.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Ég tel mikilvægt að frumvarp þetta nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að því verði vísað til hv. heilbrigðisnefndar og til 2. umr.



[12:13]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn, nr. 110/2000.

Það sem hér er lagt til er til mikilla bóta. Að skilgreina persónuauðkennanleg lífsýni, eða persónugreinanleg lífsýni, og veita heimild til að búa til sérstakan flokk, sérstakt safn, sérstakt hugtak lífsýna sem eru persónugreinanleg og tekin vegna heilbrigðisþjónustu. Sýnin verða að vera persónugreinanleg til að þau geti gagnast viðkomandi og þeim verður síðan haldið aðgreindum í söfnum þar sem eru bæði slík þjónustusýni og vísindasýni.

Ég tel líka rétt, eins og lagt er til, að landlæknir annist lífsýnasöfn þjónustusýna en eftirlit með vísindasýnum, sem eru skilgreind og eingöngu tekin í vísindalegum tilgangi og þess vegna ekki persónugreinanleg, verði í höndum vísindasiðanefndar.

Ég hef ekki haft tóm til að skoða frumvarpið nægilega vel, en það mun væntanlega gefast í hv. heilbrigðisnefnd. Í greinargerð og máli ráðherra er sagt að skýrar sé kveðið á um samþykki lífsýnisgjafa og afturköllun, varðveislu lífsýna, aðgang að lífsýnasafni og notkun lífsýna. Ég átta mig ekki alveg á til hvers er vísað þar, það kann að vera d-liður 3. gr. frumvarpsins en mér þætti ágætt að fá upplýsingar um það.

Lykilatriði í öllum þessum málum er að vilji einstaklingsins sé virtur. Ég hef á undanförnum árum gagnrýnt að sýni sem tekin eru, til að mynda við krabbameinsleit, skuli ekki vera rekjanleg þannig að þeir sem taka þátt í leitinni geti haft af því gagn. Mikilvægt er að fólk hafi val um að hafa persónugreinanlegar upplýsingar um sig og ætt sína ef það vill, þannig að hægt sé að nýta söfnun lífsýna í vísindalegum tilgangi, við lækningar og kortlagningu áhættuhópa. Þar held ég að pottur hafi verið brotinn hjá okkur. Þetta kann að virðast erfitt vegna persónuverndarhagsmuna en ef leitað er samþykkis fyrir því að slík sýni séu persónugreinanleg ætti að vera hægt að komast fyrir það horn. Þetta er eitt af því sem ég mun reyna að fá umræður um í hv. heilbrigðisnefnd en ég reikna með að hún fái frumvarpið til umfjöllunar.



[12:18]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til 1. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 110/2000, um lífsýnasöfn, með síðari breytingum. Megintilgangur frumvarpsins er að gera greinarmun milli lífsýna sem eru tekin annars vegar í vísindaskyni og hins vegar sem hluti af þjónustu við sjúklinginn og hluti af rannsóknum til greiningar sjúkdóma. Frumvarpið byggir á lögum frá árinu 2000 þannig að komin er ákveðin reynsla á framkvæmd þessara þátta við meðhöndlun lífsýna. Ég sé það í greinargerð með frumvarpinu að mjög stór hópur sérfræðinga hefur komið að samningu frumvarpsins sem hefur þekkingu á því hvernig þessu verður best fyrir komið og hvaða vanda verið er að leysa með frumvarpinu.

Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis og taka á ákveðnum praktískum þáttum í framkvæmd en það er erfitt fyrir nefndina að setja sig inn í þau mál nema að kynna sér þau rækilega. Ég mun beita mér fyrir að hv. heilbrigðisnefnd muni skoða málið til hlítar. Hlutverk heilbrigðisnefndar varðandi frumvarpið er fyrst og fremst að fara yfir það og skoða ákveðna þætti, svo sem að persónuverndarsjónarmiða sé gætt, jafnframt að meðhöndlun sýna sé í samræmi við viðurkenndar reglur um slíkt og um leið að réttinda sjúklinga sé gætt. Síðast en ekki síst þarf að skoða málið í samhengi við að það geti stuðlað að auknum vísindarannsóknum hér á landi. Þar fari þá saman þarfir vísindasamfélagsins og sjónarmið sjúklinga varðandi persónuvernd.

Frumvarpið er fremur tæknilegt en ég sé það bæði af þeim sérfræðingum sem komið hafa að samningu frumvarpsins og þeim sem gáfu umsögn um það meðan frumvarpið var til athugunar innan heilbrigðisráðuneytisins að það hljóti að vera vel ígrundað. Hv. heilbrigðisnefnd mun taka frumvarpið til skoðunar, fá til sín gesti og ræða það.



[12:21]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þingmönnum fyrir innlegg þeirra í umræðuna og ég held að öllum sé ljóst sem hlusta á umræðuna að um er að ræða mjög tæknilegt mál. En markmiðin eru skýr með þeirri vinnu sem fram undan er. Í fyrsta lagi reynum við að ganga þannig fram að lífsýnasöfnin nýtist í þjónustu við sjúklinginn. Í öðru lagi að þau nýtist í þágu heilbrigðisvísinda án þess þó að skerða þau persónuverndarsjónarmið sem ég held almenn sátt sé um innan þingsins og hjá almenningi og við viljum viðhalda. Ég held þess vegna að mikilvægt sé að nefndin fari vel yfir þau atriði sem hér koma fram og eru mjög tæknileg. Ég treysti hv. heilbrigðisnefnd til að gera það vel því að okkur er öllum ljóst að hér er mál sem ekki þarf að vera pólitísk deila um heldur er það þvert á móti eitt af þeim úrlausnarefnum sem við höfum og er afskaplega mikilvægt sem slíkt. Lögð hefur verið mikil vinna í frumvarpið og ég veit að sú vinna sem fer fram í heilbrigðisnefndinni mun aðeins bæta það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég vil að endingu þakka hv. þingmönnum fyrir þeirra innlegg í umræðuna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til heilbrn.