136. löggjafarþing — 27. fundur
 17. nóvember 2008.
gjaldeyrislán frá öðrum þjóðum.

[15:40]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hefði viljað að hæstv. forsætisráðherra staðfesti yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra sem kom fram áðan: Við erum búin að skuldbinda okkur til að fara þessa leið. Sem sagt, við erum búin að skuldbinda okkur til að afsala okkur rétti til þess að láta reyna á mál fyrir dómstólum og lögformlegum leiðum sem við gætum átt rétt á.

Hæstv. forsætisráðherra sagði: Við höfum tekið ákvörðun um hvernig frá þessum málum verður gengið. Þá spyr ég, hæstv. forseti: Er líka búið að ganga frá því hvaða þjóðir ætla að lána okkur fé, úr því að þetta liggur svona klárt fyrir? Er búið að ganga frá því hvaða lánakjör eru í boði? Er búið að ganga frá því hvort afborgunarleysi er inni í lánakjörunum? Er vaxtaleysi inni í lánakjörunum til einhverra ára? Er það svo að í því samkomulagi, sem búið er að taka ákvörðun um að við gerum, sé viðurkenning Evrópusambandsins á því að ef Íslendingar ráða alls ekki við þær skuldbindingar sem ríkisstjórnin ætlar að gangast undir fái þeir einhverja neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu? Er það inni í þessum drögum?

Menn hljóta að vita hvað felst í drögunum úr því að hæstv. forsætisráðherra segir að við höfum tekið ákvörðun um hvernig frá þessum málum verði gengið. Það getur ekki verið mikill vafi í því, hæstv. forseti, og ég krefst svara. Skýrra svara.



[15:42]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Þetta mál er með eftirfarandi hætti. Í fyrsta lagi verður umsókn Íslands til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins tekin til afgreiðslu þar væntanlega á miðvikudag. Í kjölfarið á því mun skýrast hvaða þjóðir innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru tilbúnar að leggja okkur fjárhagslegt lið til viðbótar því sem kemur frá sjóðnum sjálfum en þá á eftir að ganga frá lánsskilmálum hvað þau lán varðar. Þetta er það fyrra.

Síðara málið snýr svo að þessum Icesave-reikningum. Þar liggur fyrir það samkomulag sem hefur hér verið kynnt um að fara samningaleiðina en það liggur ekki fyrir hvað muni felast nákvæmlega í þeim samningum. Þar koma auðvitað til skjalanna atriði eins og þau sem hv. þingmaður nefndi, lánstími, vaxtakjör, greiðsluskilmálar að öðru leyti o.s.frv. og einnig ýmis önnur atriði sem við höfum hug á að taka upp.

Fólki er tíðrætt um stöðu Alþingis í þessu máli. Vissulega hefur Alþingi síðasta orðið. Það dettur engum í hug að draga það í efa. Við munum reyna að finna leið sem kallar fram vilja þingsins í þessu máli eins fljótt og auðið er. Þegar hlutir eru undirritaðir með fyrirvara um samþykki Alþingis kemur það venjulega til afgreiðslu þegar fjárlög eða fjáraukalög eru afgreidd. Ég get hins vegar vel séð fyrir mér að við fyndum aðra leið til þess að glíma við þetta tiltekna mál, í formi einhvers konar þingsályktunar eða með öðrum hætti, þannig að það komi alveg skýrt fram hvort Alþingi vilji að um þessi mál verði samið eða hvort þingið vill taka slaginn og hætta ýmsum öðrum hagsmunum með því að fara ekki samningaleiðina.



[15:44]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ef ég veit rétt um skipulag vinnu þessa þings, það er náttúrlega alls ekki víst að ég viti það, verður enginn þingfundur hér fyrr en á fimmtudag. Ef ég hef tekið rétt eftir upplýsti hæstv. forsætisráðherra að á miðvikudag lægi fyrir afgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hvaða ríki mundu koma inn í lánasamninginn eða lánapakka að því er varðar Ísland. Þessir hlutir eru þá frágengnir áður en Alþingi getur tekið þessi mál til meiri efnislegrar umræðu að því er varðar framgang og fyrirkomulagið allt saman.

Ég spyr einnig, hæstv. forseti, hvort núna liggi fyrir samkomulag um að þær eignir sem bankarnir eiga í Evrópusambandslöndunum verði verndaðar. (Forseti hringir.) Það séu þá sameiginlegir hagsmunir Evrópusambandsins, Evrópusambandslandanna og Íslands að standa vörð um þær eignir og þær gangi upp í allar skuldir (Forseti hringir.) sem Íslendingar taka á sig.



[15:45]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Auðvitað er allt gert til að reyna að vernda þær eignir sem íslenskir aðilar eiga í útlöndum og það eru sameiginlegir hagsmunir þar gagnvart Evrópulöndum og kröfuhöfum í bankana. Icesave-málið er liður í því að reyna að verja eignir Landsbankans í útlöndum, sérstaklega í Bretlandi. Það er eitt af markmiðum okkar í þessu máli að reyna að standa vörð um þær eignir þannig að þær glatist ekki.

Varðandi gjaldeyrissjóðinn er hugmyndin sú að það mál verði afgreitt á vettvangi sjóðsins. Þar með er hann búinn að segja sitt varðandi málið en tillaga til þingsályktunar, sem hér kemur fram í dag, kemur til afgreiðslu eitthvað á eftir afgreiðslu sjóðsins. Það skiptir ekki nokkru máli. Ef á daginn kemur að Alþingi kærir sig ekki um þessa fyrirgreiðslu verður ekkert af henni, óháð því hvað búið er að samþykkja í stjórn sjóðsins. Dagsetningarnar í þessu eru því ekki aðalatriðið. Það er hins vegar mikilvægt að fá niðurstöðuna frá gjaldeyrissjóðnum.