136. löggjafarþing — 30. fundur
 17. nóvember 2008.
greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, 2. umræða.
stjfrv., 159. mál (greiðslujöfnunarvísitala). — Þskj. 185, nál. 192.

[22:11]
Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Félags- og tryggingamálanefnd hefur tekið til umræðu frumvarp um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga og nefndarálit liggur fyrir.

Nefndin fjallaði um málið nú í kvöld og fékk á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Eddu Rós Karlsdóttur og Þorkel Helgason frá starfshópi sem félags- og tryggingamálaráðherra fól að skoða leiðir til að koma til móts við vanda lántakenda vegna verðtryggingar, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Kennarasambandi Íslands, Sigurð Geirsson frá Íbúðalánasjóði, Hauk Hafsteinsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Valgarð Sverrisson frá Lífeyrissjóði verslunarmanna, Árna Guðmundsson frá Gildi lífeyrissjóði, Kristján Örn Sigurðsson frá Sameinaða lífeyrissjóðnum, Arnar Sigurmundsson og Hrafn Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Guðjón Steingrímsson frá Reiknistofu bankanna, Guðjón Rúnarsson og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Odd Ólason frá Glitni.

Ástæðan fyrir því að ég les þetta allt upp hér er sú að við kölluðum þessa aðila alla í einu á fund nefndarinnar, fórum yfir málið, fengum góða kynningu frá fulltrúum félagsmálaráðuneytisins og frá þeim sem unnu í þessum starfshópi og almennt voru engar athugasemdir gerðar. Menn mæltu eindregið með því að afgreiðslu málsins yrði flýtt og reynt yrði að hrinda því í framkvæmd sem fyrst. Við leyfðum okkur því að ljúka málinu á einum degi og koma því aftur inn í 2. umr. á þinginu strax í kvöld. Ástæða er til að þakka bæði nefndarmönnum og þeim sem brugðust skjótt við og komu á fund nefndarinnar og unnu með okkur fyrir að vinna vel og hratt í málinu.

Frumvarpinu, eins og komið hefur fram áður, var vísað til nefndarinnar í dag og var þá þegar tekið til umræðu. Um er að ræða frumvarp sem ætlað er að koma til móts við lántakendur og hindra að hækkandi greiðslubyrði heimilanna af fasteignalánum komi fjölskyldum í þrot þar sem laun hafa ekki tekið samsvarandi hækkunum. Frumvarpið hefur að markmiði að jafna greiðslubyrði fólks og draga úr misræmi milli launa og lána. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að hækkun viðmiðunarvísitölu láns umfram hækkun launa verði til þess að greiðslubyrði af lánum þyngist. Lagðar eru til gagngerar breytingar á lögum nr. 63/1985, um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Meðal annars er lagt til að gildissvið laganna verði fært út þannig að þau nái til verðtryggðra fasteignaveðlána hjá opinberum lánastofnunum, lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum og er skylda lögð á þessa lánveitendur að greiðslujafna afborgunum af fasteignaveðlánum í samræmi við ákvæði laganna óski lántakandi eftir því. Þá kveður frumvarpið á um að greiðslumark laganna sé 1. janúar 2008 þar sem þegar hefur orðið mikið misgengi á launum og lánum á fyrri hluta ársins. Einnig er kveðið á um nýja vísitölu, greiðslujöfnunarvísitölu, sem skilgreina skal og nota í stað launavísitölu við greiðslujöfnun samkvæmt frumvarpinu. Þessi nýja vísitala skal miðast við launavísitölu Hagstofu Íslands sem skal vegin með atvinnustigi til að endurspegla samdrátt í atvinnu og tekjum landsmanna.

Þau atriði sem fengu hvað mesta umfjöllun í nefndinni voru m.a. sjónarmið er varða rétt síðari veðhafa við greiðslujöfnun láns, kostir og ókostir greiðslujöfnunar og mikilvægi þess að uppfræða lántakendur um þessa kosti og galla. Einnig var áhersla lögð á að meta hversu brýn þörf er á að lögin taki gildi sem fyrst. Það varð sem sagt niðurstaðan eftir umræðuna að brýnt væri að ljúka þessu þannig að hægt yrði að breyta afborgunum nú strax 1. desember. Það kemur fram í álitinu.

Nefndin telur brýna þörf á að frumvarpið verði afgreitt frá Alþingi sem fyrst enda séu einungis nokkrir dagar í að greiðsluseðlar vegna gjalddaga 1. desember verði keyrðir út. Nú þegar hefur kaupmáttur heimilanna minnkað, margir hafa orðið fyrir skerðingu á starfshlutfalli og samsvarandi tekjuskerðingu og búist er við hækkandi verðbólgu í desember. Í ljósi þessa þykir nefndinni augljóst að það skipti sköpum að fá lækkun greiðslubyrði strax um mánaðamótin. Þá telur nefndin þörf á að flýta lagasetningunni svo að hægt sé að upplýsa lántakendur um hvað í greiðslujöfnuninni felst og útrýma þeirri óvissu sem nú ríkir í samfélaginu um úrræði vegna verðtryggðra fasteignaveðlána.

Þær upplýsingar komu fram á fundi nefndarinnar að til að breyta skilmálum veðlána með þeim hætti sem frumvarpið mælir fyrir um þurfi samþykki síðari veðhafa þar sem veðréttur er eignarréttarvarinn og greiðslujöfnun getur rýrt veðrétt þeirra. Í nefndinni kom fram vilji gesta til að beita sér fyrir samkomulagi fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs til þess að fyrir lægi samþykki síðari veðhafa þegar lánum yrði greiðslujafnað samkvæmt frumvarpinu. Nefndin styður slíkt samkomulag enda er það bæði tímasparnaður og hagræði fyrir lántakendur ef slíkt samþykki liggur fyrir.

Nefndin áréttar mikilvægi þess að lántakendum séu kynntir kostir og ókostir greiðslujöfnunar og leggur áherslu á að lánveitendur verði upplýstir um að greiðslubyrði sé tímabundin en greiðslujöfnunin leiði síðar til aukins heildarkostnaðar í formi vaxta og verðbóta.

Í nefndinni komu fram þau sjónarmið að við greiðslujöfnun þyrfti að tryggja að lánveitandi gæti ekki krafist endurskoðunar annarra skilmála lánanna, þ.e. ekki er verið að taka ný lán þar sem hægt er að breyta lánaskilmálunum heldur er eingöngu verið að fara inn í umrædda greiðslujöfnun og ekki er hægt að breyta vöxtum eða öðru slíku.

Nefndin áréttar að gefa þurfi svigrúm til að koma greiðslujöfnun á og að í reglugerð þurfi að kveða á um að umsókn um greiðslujöfnun þurfi að berast ákveðnum dagafjölda fyrir þann gjalddaga sem jöfnunin á að taka til. Því til áherslu er lögð til breyting á 7. gr. laganna.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, en þar er ítrekað að ráðherra getur sett í reglugerðinni tímamörk, þ.e. að ekki sé hægt að koma 29. eða 30. dag einhvers mánaðar og segjast vilja fá greiðslujöfnun sem taki gildi tveimur dögum seinna. Það er óframkvæmanlegt fyrir þá sem eiga að sýsla með lánin og þess vegna óskum við eftir því að ráðherra fái heimild til að setja ákvæði um einhvern ákveðinn dagafjölda þó að það verði að vera afar fáir dagar núna til þess að framkvæmdin náist fyrir 1. desember. Í nefndinni kom raunar fram að ekki er alveg víst að allar lánastofnanir nái þessu á þessum tíma en þær munu gera allt sem hægt er til þess að svo verði.

Við afgreiðsluna skrifuðu fulltrúarnir Árni Þór Sigurðsson, Helga Sigrún Harðardóttir og Kristinn H. Gunnarsson undir álitið með fyrirvara. Sá fyrirvari lýtur m.a. að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós og aðrar leiðir að sama marki hafi ekki verið kannaðar gaumgæfilega. Þetta var fyrirvari minnihlutafulltrúanna.

Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta skrifa ég sem formaður, Guðbjartur Hannesson og hv. þingmenn Ármann Kr. Ólafsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Karl V. Matthíasson og Jón Gunnarsson og áðurnefndir með fyrirvara.

Ég vona að málið verði afgreitt í kvöld. Það skiptir mjög miklu að málið komist í höfn sem hluti af þeim lausnum sem verið er að vinna að til að bæta hag heimilanna og til þess að reyna að tryggja að fólk lendi ekki í þrotum við þær erfiðu aðstæður sem að okkur steðja í augnablikinu. Síðasta föstudag voru kynnt margþætt úrræði í sama tilgangi og að auki hafa verið nefnd önnur úrræði sem eru til skoðunar. Verið er að vinna að greiðsluaðlögunarfrumvarpi og verið er að ræða með hvaða hætti hægt sé að nýta séreignarsparnað. Taka þarf á varðandi myntkörfulánin þegar frystingu þeirra lýkur — með hvaða hætti menn fara út úr því. Allt er þetta í vinnslu ásamt fjölmörgu öðru sem hlýtur að verða að skoða til að tryggja að fólk lendi ekki í vandræðum eða missi húsnæði sitt.



[22:20]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur gert grein fyrir nefndaráliti frá félags- og tryggingamálanefnd varðandi frumvarp það sem hér er á dagskrá um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga. Hann gerði jafnframt grein fyrir því að þrír fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, undirritaður ásamt Helgu Sigrúnu Harðardóttur og Kristni H. Gunnarssyni, skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara sem lýtur m.a. að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós og aðrar leiðir að sama marki hafi ekki verið kannaðar gaumgæfilega.

Ég vil í upphafi geta þess að við gagnrýndum það við 1. umr. málsins að frumvarpið var lagt fram hér síðdegis í dag, milli fjögur og fimm. Þá var mælt fyrir því og jafnframt óskað eftir því að um það gæti orðið góð samstaða að það yrði að lögum nú á þessum sama sólarhring. Við gagnrýndum það að enn einu sinni kemur hingað inn í sali Alþingis frumvarp frá ríkisstjórninni sem hefur verið til meðferðar á vegum ríkisstjórnarflokkanna, bæði í ráðuneytunum um nokkurra vikna skeið og í þingflokkum stjórnarflokkanna — þingmenn stjórnarflokkanna hafa haft ráðrúm til að fjalla um það en stjórnarandstöðunni er gert að taka það til umfjöllunar á örfáum klukkutímum og gera það að lögum.

Sú gagnrýni er óháð efni frumvarpsins og óháð efni annarra frumvarpa sem koma inn með þessum sama hætti. Þessi vinnubrögð eru ekki til fyrirmyndar og það er við slíkar aðstæður sem mistök gerast í lagasetningu.

Fróðlegt er að rifja það upp að árið 1995 þegar sett voru lög um greiðslujöfnun fasteignaveðlána, þau lög sem nú er verið að gera breytingar á — (Gripið fram í.) 1985, var umræða um það mál hér á hv. Alþingi. Þá flutti hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, sem þá var þingmaður en ekki ráðherra, ræðu og sagði út af málsmeðferðinni á því frumvarpi, með leyfi forseta:

„Við erum á þessum síðustu vikum þingsins að sigla inn í hefðbundin vinnubrögð við þinglok, að Alþingi er í raun ekkert annað en stimpilstofnun fyrir frumvörp ríkisstjórnarinnar sem samin eru af embættismönnum og fá þar ítarlega skoðun og umfjöllun, þar sem embættismennirnir taka sér þann tíma sem þeir þurfa, en alþingismönnum, sem ábyrgð bera á lagasetningunni, er ætlaður skammur tími, kannski örfáir dagar, til skoðunar á málum, til að mynda þessu máli.“

Þetta voru orð hæstv. núverandi félagsmálaráðherra árið 1985 þegar (Gripið fram í.) þetta mál var til umfjöllunar. Ég dreg þetta fram hér til að benda á að þetta eru nákvæmlega þau vinnubrögð sem hæstv. félagsmálaráðherra ætlast til að við viðhöfum í þessu máli í dag og ef eitthvað er á heldur skemmri tími en hæstv. félagsmálaráðherra gafst árið 1985. (Gripið fram í.) Hún var þá þingmaður Alþýðuflokksins og vísar oft (Gripið fram í.) í tillögur hans.

Nei, virðulegur forseti, þetta er ekki til að auka virðingu Alþingis og ég geng út frá því sem vísu að ráðherrunum þyki ekki gaman að standa í vinnubrögðum af þessu tagi, að þeir hafi ekki sérstakan áhuga á því. Mér finnst ekkert — (Gripið fram í.) ég ætla að biðja hæstv. iðnaðarráðherra að hafa sig hljóðan á meðan þetta mál er til umfjöllunar.

Ég sagði strax í upphafi að þó að við áteljum vinnubrögðin hafi það ekkert með málið sjálft að gera, hvorki þetta mál né önnur sem koma inn með þessum hætti. Þetta er ekki til fyrirmyndar. Ráðherrar Samfylkingarinnar gagnrýndu margoft, þegar þeir voru í stjórnarandstöðu, vinnubrögð af þessu tagi og hægt er að draga fram ræður um það eins og ég hef þegar gert þar sem hæstv. félagsmálaráðherra á í hlut. (Iðnrh.: Dæmi frá 1985.) Ég ætla að biðja hæstv. forseta að þagga niður í iðnaðarráðherra meðan þessi umræða fer hér fram. (Gripið fram í.)

Víkjum aðeins að málinu sjálfu. Við 1. umr. sagði ég að flokkur minn mundi ekki leggjast fyrir fram gegn þessu máli nema síður væri. Hér væri á ferðinni mál sem gæti verið til hagsbóta fyrir fjölmarga en við mundum að sjálfsögðu áskilja okkur rétt til þess að fara betur yfir það í nefnd. Við höfum setið á nefndarfundi í nokkra klukkutíma og eins og fram kom í máli framsögumanns, formanns nefndarinnar, komu fjölmargir á fund hennar og tjáðu sig um einstök efni málsins og svöruðu fyrirspurnum.

Það kom líka fram að við skrifum þrjú undir þetta álit með fyrirvara. Það þýðir að við styðjum málið og munum greiða atkvæði með því við þessa afgreiðslu. Engu að síður höfum við fyrirvara sem m.a. lýtur að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós og aðrar leiðir að sama marki hafi ekki verið kannaðar gaumgæfilega. Vil ég skýra þetta aðeins betur.

Í fyrsta lagi það sem lýtur að því að heildaraðgerðir í þágu heimilanna hafi ekki litið dagsins ljós: Það hefur komið fram í umfjöllun hv. þingnefndar að fleiri þingmál séu í vinnslu á vegum hæstv. félagsmálaráðherra er lúta að aðgerðum í þágu heimilanna. Talað hefur verið um þingmál sem snertir greiðsluaðlögun en við gagnrýnum að frumvarpið sem við afgreiðum hér er aðeins einn bútur af þessum heildarpakka. Við hefðum gjarnan talið mikilvægt að þessi heildaráætlun lægi fyrir þannig að menn sæju í hvaða samhengi þetta mál er allt og hvað annað verður sett, til að mynda úr ríkissjóði, í aðgerðir til að bæta hag fjölskyldna. Í þessu máli eru ekki fólgin nein sérstök framlög úr ríkissjóði til að koma til móts við heimilin. Það eina sem hér er talað um er að þetta getur skapað vissan lausafjárvanda hjá lánveitendum sem ríkissjóður og/eða Seðlabankinn eiga þá að standa undir. Í greinargerð með frumvarpinu er lagt á það mat að sá lausafjárvandi geti verið á bilinu 13–15 milljarðar á næsta ári en samt var upplýst af fulltrúa Íbúðalánasjóðs, sem er með um 40% af þessum lánum, að Íbúðalánasjóður mundi ekki þurfa á þessari fyrirgreiðslu að halda á næsta ári vegna þess að hann gæti með lausafjárstýringu hjá sér staðið undir þessum skuldbindingum. Þetta eru því miklu lægri upphæðir en þarna er um að ræða og ekkert til heimilanna sjálfra. Við höfum því þennan fyrirvara.

Að því er varðar aðrar leiðir að sama marki spurðist ég fyrir um það hjá nefndinni hvort hún hefði t.d. skoðað möguleika á því að auka vaxtabætur og/eða húsaleigubætur til að koma til móts við aukna greiðslubyrði þeirra sem eru með lágar tekjur og meðaltekjur þar sem þessar bætur eru tekjutengdar eins og kunnugt er. Upplýst var að þetta hefði verið skoðað að því er varðar vaxtabætur, ekki að því er varðar húsaleigubætur en nefndin sem hér var að vinna hefði talið að það væri allt of dýrt fyrir ríkið og að þar væri líka um mjög almenna aðgerð að ræða. Frekari skýringar komu ekki fram á því hve stórar upphæðir þetta hefðu verið enda hefði það væntanlega verið háð því hvaða hækkun á vaxtabótum hefði þá verið ákveðin og hvort tekjutengingunni hefði verið breytt eða eitthvað þess háttar. Ég sakna þess að þessi leið hafi ekki verið skoðuð og vonast til að það verði samt sem áður gert í næstu skrefum.

Í öðru lagi vildi ég vita hvort nefndin hefði skoðað möguleika á vaxtalækkun, hreinlegri vaxtalækkun. Fram kom að það hefði ekki verið skoðað. Ég undrast það að nefndin, sem starfar á vegum félagsmálaráðherra, hafi ekki skoðað þá leið að setja a.m.k. eitthvert þak á vexti ofan á verðtryggingu. Ég minni þá aftur á að árið 1985, á 107. löggjafarþingi, þegar málið um greiðslujöfnun fasteignaveðlána var til umfjöllunar, lagði núverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, það til, í umræðum um það mál, að vextir af húsnæðislánum yrðu lækkaðir og yrðu aldrei hærri en 3% af húsnæðislánum. Þetta kom fram í málflutningi núverandi hæstv. félagsmálaráðherra á þeim tíma sem aðgerð í þessu efni. Ég undrast því að nefndin sem starfar nú á vegum þessa sama hæstv. ráðherra hafi ekki skoðað þennan þátt málsins, möguleika á því að grípa til aðgerða af þessu tagi. Er þá rétt að vísa til þess, sem reyndar kom fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar við 1. umr. málsins, að þingmenn úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa nú lagt fram frumvarp hér á Alþingi þess efnis að vextir ofan á verðtryggingu verði aldrei hærri en 2%.

Einnig var spurt um það hvort skoðaðir hefðu verið möguleikar á því að veita skattafslátt, þ.e. að misgengi vísitalnanna frá þeim tíma sem við erum að tala um hér verði endurgreitt í formi skattafsláttar. Það sagði talsmaður nefndarinnar að hefði ekki verið skoðað og þeim hefði ekki hugkvæmst að skoða það. Ég vísaði þá til þess að það var ein af þeim leiðum sem Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. félagsmálaráðherra, lagði til árið 1985 að yrði skoðuð í tengslum við greiðslujöfnun fasteignaveðlána. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi ekki látið það hvarfla að sér, núna þegar hún er í aðstöðu til þess, að einhver slík leið verði skoðuð, hvort þetta væri hagkvæmt fyrir fjölskyldurnar í landinu, hvernig hægt væri að útfæra það, hvað það mundi kosta og hvernig það mundi skila sér í buddu heimilanna. Hér eru því allmargar leiðir sem að okkar mati hefði mátt skoða en hefur ekki verið gert. Kannski kemur það til af því að allt er þetta gert í miklum flýti. Auðvitað er verið að bregðast við mjög miklum aðsteðjandi vanda sem kemur til á tiltölulega skömmum tíma. Eftir sem áður hefði ég gjarnan viljað heyra það í þessari umræðu frá hæstv. félagsmálaráðherra að leiðir af þeim toga sem hér hafa verið nefndar, og eru m.a. sóttar í smiðju til hæstv. ráðherra, verði skoðaðar í framhaldinu sem liður í frekari aðgerðum, einhvers konar heildaraðgerðum, í þágu heimilanna.

Ég ítreka það sem ég hef þegar sagt að við teljum að í þessum aðgerðum sé alls ekki verið að koma með beint fjármagn til þess að létta byrðar heimilanna. Hér er farin sú leið að gefa fjölskyldum eða heimilum kost á að fresta afborgunum þannig að þær komi fyrir aftan gildistíma núverandi láns. Það þýðir einfaldlega að hluti af afborgununum er í raun tekinn að láni, fluttur á sérstakan jöfnunarreikning og tekur að sjálfsögðu vexti samkvæmt skilmálum lánsins á þeim tíma. Þegar upp er staðið mun heildargreiðslubyrðin verða hærri hjá þeim sem velja þennan kost en ella.

Ég vil ekki gera lítið úr því að fyrir margar fjölskyldur verður þetta kærkomin leið til að draga úr greiðslubyrði í augnablikinu og er hún jákvæð sem slík fyrir þá sem telja sér þetta hagkvæmt. Það er ástæða þess að við stöndum að nefndarálitinu og munum styðja frumvarpið. Hins vegar er afskaplega þýðingarmikið að hafa það í huga í þessu samhengi að á þessum tíma er mikilvægast fyrir okkur að slá skjaldborg um heimilin í landinu. Það á ekki að líðast að neitt heimili fari í gjaldþrot vegna bankahrunsins, vegna aðstæðna sem heimilin bera enga ábyrgð á. Það þarf að tryggja og til þess að svo megi verða þarf ábyggilega víðtækari aðgerðir en þær sem felast í frumvarpinu sem við höfum til umræðu. Sagt var í nefndinni að frekari aðgerðir væru á prjónunum en við höfum því miður ekki séð þær. Vel kann að vera að þegar þær líta dagsins ljós og koma til umfjöllunar á Alþingi verði heildarmyndin skýr, ég vona það sannarlega, og einkum og sér í lagi það að við sláum skjaldborg um heimilin, að gripið verði til trúverðugra aðgerða til að koma til móts við þann vanda sem fjölmörg heimili í landinu munu mæta á næstu vikum og mánuðum.

Að öðru leyti, virðulegur forseti, vísa ég til þess sem kemur fram í nefndarálitinu og þess sem ég hef nú þegar sagt um þetta mál. Við styðjum frumvarpið en gerum það með fyrirvara sem ég tel að ég hafi gert ágæta grein fyrir. Við hefðum gjarnan viljað sjá frekari aðgerðir, heildstæðari pakka og beint framlag af hálfu ríkissjóðs til þess að létta byrðarnar, einkum og sér í lagi hjá þeim sem mest þurfa á því að halda, sem eru fjölskyldur með lágar tekjur og miðlungstekjur og mikla framfærslubyrði. Það gerist ekki með þessu máli en það breytir því ekki að þetta mál þjónar tilgangi sínum og kemur til móts við tiltekna hópa og það er í sjálfu sér jákvætt.



[22:37]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Grein hefur verið gerð fyrir þeim fyrirvara sem við, fulltrúar stjórnarandstöðunnar, settum við málið og ég hef ekki miklu við það að bæta. Ég tek undir þá gagnrýni að farið sé með mikilsvert mál í gegnum þinglega meðferð á afbrigðum á óeðlilega skömmum tíma og í þessu máli má segja að lengra sé gengið en oft áður því að þegar þingfundur hófst í dag lá þetta þingmál ekki einu sinni fyrir og ekki var búið að útbýta því þannig að menn vissu ekki af tilvist þess aðrir en þeir sem höfðu fengið að vita um það eftir öðrum leiðum. Þó að málin séu ágæt, eins og í þessu tilviki, er málsmeðferðin ekki til fyrirmyndar og einn þeirra sem hefur verið ólatur við að gagnrýna slíka málsmeðferð á umliðnum árum er einmitt hæstv. félagsmálaráðherra, eins og hér var minnt á. Við eigum mikið safn af gömlum ræðum hæstv. félagsmálaráðherra þar sem þáverandi þingmaðurinn gagnrýndi í kjarnyrtu máli málsmeðferð þáverandi ríkisstjórnar á ýmsum málum sem þingmaðurinn lét sig varða.

Ég vona að þessari óvenjulegu málsmeðferð á þingi linni nú og menn fari að taka sér og gefa þinginu þann rúma tíma sem þarf til að tryggja vandaða lagasetningu. Ég vona líka að hæstv. félagsmálaráðherra beiti sér fyrir þessu því honum hefur verið það umhugað — kannski umfram marga aðra þingmenn á liðnum árum — að svo sé. Fleira ætla ég ekki að segja um gagnrýni á málsmeðferð að þessu sinni. Ég held að engum tilgangi þjóni að tala meira um það í þessum sal. Við þingmenn eigum að kappkosta að bæta starfshætti Alþingis og sjá til þess að meðferð mála í þinginu sé með þeim hætti að mikill sómi sé að og við séum eins vissir um og hægt er að við afgreiðum málin frá okkur þannig að góð mál séu gerð betri og lagasetningin standist tímans tönn, a.m.k. næstu daga eftir að hún er sett.

Málið sem hér um ræðir hefur sína kosti, eins og komið hefur fram í máli þeirra sem töluðu á undan mér. Það getur gagnast sumum lántakendum og er nýtt úrræði eða endurvakið gamalt framsóknarúrræði sem bætist við flóruna sem fyrir er og getur verið gagn að því. Engin ástæða er til að leggja stein í götu þess að þessi leið sé opnuð á nýjan leik og að þingið leggi nokkuð á sig til að það geti orðið fyrr en seinna. Menn verða þó að átta sig á umfangi vandans. Tilgangurinn er að standa vörð um stöðu heimilanna, en breytingarnar sem verða á tekjum heimilanna og almennum útgjöldum þeirra munu leiða til þess að minna verður til ráðstöfunar til að standa undir afborgunum skulda en áður hefur verið. Tilgangurinn er að sjá til þess að á tímabilinu sem fram undan er — eitt, tvö eða þrjú ár — geti heimilin komist í gegnum skuldbindingar sínar án þess að það leiði til erfiðari stöðu eins og nauðungarsölu eða jafnvel gjaldþrots. Þetta er liður í því og við samþykkjum það og teljum ágætt að því marki en menn verða að hafa í huga að umfang málsins er ekki talið vera meira en 10–13 milljarðar kr. og getur greiðslubyrði heimilanna lækkað sem því nemur á einu ári. (Gripið fram í.) Frestað, lækkað og frestað en þýðir auðvitað að greiðslubyrðin hækkar svo eftir einhver ár þannig að þegar upp er staðið er ekkert slegið af.

Umfang vandans er miklu meira. Við vitum ekki hversu miklu meira, en svartsýnustu spár eru að kaupmáttur ráðstöfunartekna falli um allt að 25%. Með hæfilegri nálgun á stærðir getur það þýtt að þetta séu tölur allt að 150 milljörðum kr. Við skulum vona að það sé minna en ef það er í efri mörkum þess sem spáð hefur verið, þá mætir aðgerðin aðeins um einum tíunda af áætluðum vanda heimilanna og þá spyr maður: Hvar eru ráðin til að mæta því? Hvar eru ráðin sem eiga að vera heimilunum bjargráð til að komast í gegnum erfiðleika næstu ára? Þau hafa ekki komið fram, virðulegi forseti, og talað er óljóst um það sem kann að koma. Væntanlegt frumvarp um greiðsluaðlögun getur og mun örugglega hafa áhrif á að dreifa hluta af greiðslubyrði næsta árs yfir lengra tímabil en svo er ekki margt fleira sem við vitum um. Aðeins hefur heyrst talað um að heimilað verði að séreignarlífeyrissparnaður verði tekinn út og greiddur, notaður til að greiða skuldir. Ég hef að vísu efasemdir um þá leið en fer ekki frekar út í það hér. Segjum að það verði gert, þá eru það tvö úrræði til viðbótar og hvað duga þau langt til að mæta vanda sem getur verið allt upp í 150 milljarðar kr.? Ég held að töluvert gat verði þegar búið verður að skoða þær leiðir eða sýna þær sem eru í skoðun hjá hæstv. ríkisstjórn. En við skulum bíða og sjá þar til frumvörpin koma fram eða málin og hvað þau duga langt upp í vandann. En niðurstaðan er sú að það sem ríkisstjórnin hefur sýnt er um og innan við einn tíundi af vandanum, ef við miðum við hámarkið um 25% lækkun ráðstöfunartekna, sem er örugglega svartsýnasta spáin og vonandi ekki sú rétta. Þá verða menn að átta sig á því að ríkisstjórnin kastar fram máli til að friða sjálfa sig og kjósendur til að almenningur sjái að verið sé að gera eitthvað og haldi að verið sé að gera margt. En lítið er gert og ríkisstjórnin er ekki komin nægilega langt enn þá, þrátt fyrir allar vikurnar sem unnið hefur verið hörðum höndum að því að finna lausnir.

Maður hlýtur að spyrja hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félagsmálaráðherra: Hvenær koma alvöruúrræðin, virðulegi forseti? Hvenær koma aðgerðirnar sem raunverulega skipta máli? Hvenær kemur lausn á stærsta hluta þess sem þarf að leysa? Við þurfum svör við því. Ekki er nóg að halda blaðamannafund á föstudegi og segja: Hér koma aðgerðirnar, og kaupa síðan heilsíðublaðaauglýsingar í öllum dagblöðum landsins til að auglýsa hvað ríkisstjórnin er að gera ef það er svo ekki nema brotabrot af því sem þarf. Fólk hefur enn ekki fengið almennileg svör, virðulegi forseti, við því hvað ríkisstjórnin ætlar að bjóða til að mæta erfiðleikunum sem fram undan eru hjá heimilum landsmanna. Það stendur upp á ríkisstjórnina að koma með svörin. Hvar eru alvöruúrræðin, virðulegi forseti? Það sem er í þessu frumvarpi er bara smotterí, virðulegi forseti. Þó að það sé góðra gjalda vert er það bara smotterí miðað við vandann sem við sjáum fram undan. Við hljótum að kalla eftir því að ríkisstjórnin segi þjóðinni og þinginu hvað hún ætli að gera. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera, virðulegi forseti? Menn geta ýmislegt gert, sé ég, en það er ekki lausn á greiðsluvanda heimilanna að vísa bara í þetta eina frumvarp um að fresta greiðslum um tíma, tiltölulega litlum hluta af þeim vanda sem fólk stendur frammi fyrir. Ef við skoðum frumvarpið, sjáum við að það tekur aðeins á verðtryggðum fasteignaveðlánum. Það tekur ekki á öðrum veðlánum, t.d. gengistryggðum lánum. Ríkisstjórnin skilar auðu í þeim málum. Auðu um alla milljarðana sem heimili landsins skulda í gengistryggðum lánum. Ekkert í frumvarpinu lýtur að þeim skuldum, ekki neitt, engin úrræði. Bara misvísandi, veikburða tilmæli hjá einstaka ráðherra til lánastofnana um að þær frysti eða fresti eða geri eitthvað. Úrræði og svör vantar, virðulegi forseti. Frumvarpið tekur heldur ekki á öðrum skuldum en fasteignaveðskuldum. Landsmenn skulda fullt umfram það sem eignir eru veðsettar fyrir og ríkisstjórnin býður ekki upp á neitt hvað þær skuldir varðar.

Virðulegi forseti. Hvað ætlar ríkisstjórnin að leggja til svo hægt sé að lina vanda skuldsettra heimila þegar kemur að óverðtryggðum skuldum og skuldum án veðsetningar? Eiga heimili landsins að bera þær skuldir óbreyttar? Á greiðslubyrðin á þeim að vera óbreytt á næsta ári, tveimur árum eða þremur árum. Hvenær koma tillögur frá ríkisstjórninni um það? Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ekki getað komið fram með tillögur um það eins og um verðtryggð fasteignalán? Er það vegna þess að ríkisstjórnin nær ekki samkomulagi? Er það vegna þess að hinn stóri meiri hluti getur ekki náð samkomulagi um þessi mikilsverðu hagsmunamál almennings? Hver er ástæðan, virðulegi forseti? Ég fer fram á að hæstv. ráðherra leiti að svörunum í skjóðu sinni á meðan hún flettir þessum blöðum. Hver er ástæðan fyrir því að við fáum engin svör varðandi tillögur ríkisstjórnarinnar um þessar miklu skuldir sem frumvarpið nær ekki til? Við hljótum að kalla eftir því, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin fari að sýna einhverjar alvörutillögur, einhver alvöruúrræði. Þó að þetta sé góðra gjalda vert þá er það tiltölulega lítið mál og segir lítið við vandanum sem fram undan er og það held ég að hljóti að verða meginniðurstaðan af umræðunni um þetta mál og vonandi afgreiðslu þess í kvöld að þrátt fyrir afgreiðslu frumvarpsins er vandi heimilanna að mestu leyti óleystur af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.



[22:50]Útbýting:

[22:50]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Frú forseti. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ætla að bæta miklu efnislega við athugasemdirnar sem hafa komið fram með þeim fyrirvara sem settur er við nefndarálitið. Í fyrsta lagi er það innihald málsins, um er að ræða almennar tillögur sem rista grunnt, skammt og stutt. Þær eru ágætar svo langt sem þær ná en ýmislegt vantar inn í heildarmyndina sem erfitt er að gera sér grein fyrir en þar sem ég hef lýst því áður að ég teldi þingið eiga að flýta fyrir svona málum en ekki tefja, þá samþykki ég í kvöld. Fyrirvarinn lýtur ekki síst að málsmeðferðinni en hér hafa mál verið afgreidd undanfarnar vikur með afbrigðum á afbrigði ofan og ekki eru nema rétt liðlega sex vikur — ætli það séu ekki sex vikur í dag — síðan lög, nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, voru samþykkt. Ég veit ekki betur en lögfróðustu menn landsins hafi setið með þau lög síðan og enn ekki fundið út úr því hvað þau þýða þannig að það er með ákveðinni hræðslu sem nýr þingmaður sest inn og á að afgreiða lög, sem keyrð eru í gegnum þingið á einum degi með sama hætti og neyðarlögin, og hafa ekki tíma til að setja sig inn í málin og gera sér grein fyrir hvaða afleiðingar lögin munu hafa. Vissulega komu margir gestir á fund nefndarinnar í kvöld og er það vel og vil ég nota tækifærið og þakka þeim fyrir en ég get ekki séð að vinnubrögð af þessu tagi séu þinginu til framdráttar og geri þá kröfu að menn vandi sig aðeins betur. Ég veit að aðstæður eru erfiðar og að vinna þarf hratt en við hljótum að geta gert örlítið betur en þetta.

Frú forseti. Ég vil að lokum þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að halda því til haga að hér er endurflutt 23 ára gamalt mál sem Framsóknarflokkurinn átti á sínum tíma, árið 1985. Að vísu voru aðeins aðrar aðstæður uppi þá en ef það getur gagnast okkur af einhverju tagi í dag þá er það hið besta mál.



[22:54]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ástæða er til að standa upp í lok 2. umr. og þakka hv. félags- og trygginganefnd fyrir afgreiðslu á málinu. Ég get tekið undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að ekki er til fyrirmyndar að ætlast til afgreiðslu á málinu á svo stuttum tíma. Við fórum yfir það við 1. umr. málsins af hverju það væri. Það er ekki bara sú sem hér stendur heldur hafa fleiri lagt áherslu á að málið gæti haft áhrif á greiðslubyrði lána þeirra sem velja þessa leið um næstu mánaðamót. Ég sé á nefndarálitinu að ítarlega hefur verið farið yfir málið í nefndinni og væntanlega geta þeir sem hafa komið fyrir nefndina tekið undir það að dagana sem eru til mánaðamóta þurfi til að hægt sé að haga kynningu með þeim hætti að fólk hafi svigrúm og ráðrúm til að skoða hvort þetta sé leið sem hentar þeim eða ekki.

Það er alveg rétt og satt sem hér hefur verið sagt að gegnum árin hef ég oft ásakað ríkisstjórnir fyrir svona vinnubrögð að koma seint og illa með mál til þings, oft rétt fyrir jól og rétt fyrir vor, og það hefur iðulega verið. Af því að vísað var til sambærilegs máls frá 1985 og 1991 þá hygg ég að ekki sé hægt að líkja ástandinu í þjóðfélaginu þá við það sem nú er. Í máli mínu greindi ég frá af hverju ég tel að liggi á þessu.

Það er auðvitað enginn fyrirvari heldur þótt ég hafi kallað formenn flokkanna eða staðgengla þeirra á fund minn á föstudaginn þegar málið var tilbúið til að fara yfir það með þeim og sent þeim frumvarpið um helgina til að þingmenn gætu farið yfir það og vona ég að það sé þá virt til betri vegar. Frumvarpið var a.m.k. sent um leið og það lá fyrir og þingmenn stjórnarflokkanna höfðu ekki lengri tíma til að fjalla um það og í þingflokki mínum var málið afgreitt sama dag og það var lagt fyrir.

Ekki er alls kostar sanngjarnt að fara mörgum orðum um að ekkert hafi verið gert að því er varðar heimilin í landinu og mér fannst einn ræðumanna láta líta svo út áðan að nánast ekkert hefði verið gert nema þetta eina mál sem nú er rætt um. Ég ætla ekki að fara ítarlega ofan í það sem gert hefur verið, en þingmenn vita að ýmislegt hefur verið bætt til muna, sérstaklega hvað varðar Íbúðalánasjóð og greiðsluúrræði hans, a.m.k. að því er varðar innheimtuferli á einstaklinga í miklum vanskilum o.s.frv. Þingmál sem nú er til umræðu í félags- og trygginganefnd fjallar um að hægt verði að skuldbreyta vanskilum úr 15 árum í 30 ár og ég hygg að það skipti marga máli.

Hér er látið líta út fyrir að ekkert hafi verið gert. Á eftir er mál á dagskrá þar sem stimpilgjöld og þinglýsingargjöld af skilmálabreytingum eru afnumin. Ég hygg að það skipti máli fyrir marga sem og frumvarp sem er til meðferðar í félags- og tryggingamálanefnd og ég nefndi áðan og snertir það að ef fólk er komið að því að missa húsnæði sitt verði ekki selt ofan af því heldur því gefinn kostur á að leigja íbúðina. Þetta gildir líka um leigjendur leigufélaga í greiðsluþroti, en Íbúðalánasjóður getur tekið þær íbúðir yfir svo þeir missa ekki leiguíbúðir sínar. Hér er um ýmis og margs konar úrræði að ræða og úrræðið sem við ræðum í dag nær til allra lánastofnana sem skiptir gífurlega miklu máli.

Við höfum líka afgreitt — af því að hér er látið líta út sem ríkisstjórnin haldi að sér höndum og geri ekki neitt — mikilvægt frumvarp um að atvinnurekendur sem þurfa að segja upp starfsfólki vegna rekstrarerfiðleika hafi þó þann valkost að geta boðið fólki upp á hlutastarf og síðan komi atvinnuleysistryggingar á móti. Það frumvarp er orðið að lögum þannig að alls ekki er hægt að halda því fram að hér hafi ekkert verið gert fyrir heimilin í landinu. Það hefur verið boðað að þetta séu ekki neinar lokatillögur að því er varðar hag heimilanna. Ýmislegt er enn í skoðun og undirbúningi, m.a. frumvarp sem kallað var eftir um greiðsluaðlögun sem ég held að sé mjög mikilvægt og hefur verið í þingsölum í 10 ár, vegna þess að ég hef a.m.k. flutt það 10 sinnum á þingi. Það er nú til meðferðar hjá dómsmálaráðherra og ég hef vonir og væntingar til að við getum afgreitt það fyrir jól og ég vona að það verði ekki það seint á ferðinni að þingmenn hafi ekki svigrúm til að fjalla um það.

Ýmis önnur mál hafa verið nefnd sem eru enn í skoðun og ég get ekki frekar en aðrir sagt hver verður niðurstaða þeirra. T.d. að í vissum tilvikum sé heimilt að nýta séreignarsparnað og eins sú hugmynd sem hefur verið nefnd að lífeyrissjóðir í Íbúðalánasjóði geti átt möguleika á því að eignast hlutdeild í íbúð — sem ég tel að hafi galla sem verið er að skoða og ekki ástæða til að hlaupa að því fyrr en menn hafa séð alla galla og kosti í því máli.

Hér var minnst á húsaleigubætur og vaxtabætur. Ekki er langt síðan húsaleigubæturnar voru hækkaðar verulega og þá höfðu þær ekki hækkað frá árinu 2000 þannig að töluvert er búið að gera fyrir leigjendur. Einnig hefur töluvert verið gert varðandi Íbúðalánasjóð. Lengi hefur verið kallað eftir því að brunabótamat væri afnumið. Það var gert fyrir ekki svo löngu síðan og skiptir verulegu máli fyrir þá sem eru að kaupa sér íbúð, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þegar miðað er við kaupverð íbúða. Það skiptir verulegu máli vegna þess að þegar brunabótaviðmiðið var í gildi fékk fólk ekki lánað nema kannski 50% af verði íbúðar, en því hefur verið breytt.

Að því er varðar vaxtabæturnar þá hefur það verið nefnt og skoðað — og af því að ég var spurð um hvort sérfræðinganefndin hafi ekki fengið beiðni um að skoða hitt og þetta þá hafði hún algerlega frjálsar hendur um hvað eina sem hún vildi skoða í þessu sambandi. En þetta varð niðurstaða hennar.

Ég tel ekki ástæðu til að fara frekar út í það sem rætt var í dag af hverju ekki var hægt að setja þak á vexti eða miða verðtrygginguna eða þessa útreikninga við ákveðið verðbólgustig fyrir hrunið. Við fórum í gegnum hvaða áhrif það gæti haft og ég tel ekki ástæðu til að nefna það frekar.

Varðandi gengistryggðu lánin sem hér voru nefnd þá hef ég farið yfir það og fengið yfirlit hjá bankastofnunum hvernig þær hafa staðið að málunum. Það yfirlit er til og getur verið aðgengilegt fyrir hvern sem er. Gengistryggðu lánin hafa verið fryst í töluverðum mæli. Sumar lánastofnanir fara þá leið að borgað er miðað við ákveðna vísitölu fyrir hrunið og hinu safnað inn á reikning sem er ekki ósvipuð aðferð og hér þannig að bankastofnanir hafa að þessu leyti einnig tekið á málinu. Það mál er ekki sérstaklega á minni könnu heldur heyrir undir viðskiptaráðherra og ég geri ráð fyrir að hann sé að skoða hvort gera þurfi einhverjar lagabreytingar eða reglugerðarbreytingar í þá veru. Þessi mál eru ekki bara til skoðunar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu, heldur einnig í öðrum ráðuneytum.

Þegar talað er um hag heimilanna er mikilvægt að líka sé ráðist í aðgerðir að því er varðar fyrirtækin í landinu. Ég get fullvissað hv. þingmann um að verið er að vinna að tillögum að því er varðar aðgerðir fyrir fyrirtækin í landinu vegna þess að auðvitað þurfum við að halda atvinnulífinu gangandi og aðgerðir í þá veru verða væntanlega kynntar mjög fljótlega. Síðan munum við vinna áfram tillögur og hugmyndir sem hafa verið uppi á borðinu og snerta frekar íbúðaeigendur og hag heimilanna.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakklæti mitt til nefndarinnar fyrir að hafa afgreitt þetta fljótt og vel og skal sannarlega segja í lokin að ekki er til fyrirmyndar að óska eftir því að mál séu afgreidd með þeim hraða sem hér hefur verið en ég hef farið yfir það af hverju ég taldi nauðsynlegt að freista þess að þingið gerði það með þessum hætti núna.



[23:04]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina þar sem hún svaraði nokkru af því sem til hennar var beint. Ég verð nú segja hæstv. félagsmálaráðherra það til hróss að það bitastæðasta sem komið hefur frá ríkisstjórninni að undanförnu hefur flest komið úr ráðuneyti félags- og tryggingamála. Það er rétt að halda því til haga. Hins vegar má kannski segja að ráðherranum hafi ekki gengið allt of vel að eiga við fjármálaráðherrann því að auðvitað kosta bitastæðar aðgerðir fé og fjármálaráðherrann hefur ekki verið tilbúinn til þess að láta það fé af hendi rakna. Það getur því vel verið að þar sé einhverra skýringa að leita í þessu efni. Ég fagna því líka að boðaðar eru frekari aðgerðir og að væntanleg séu frekari frumvörp um þetta efni, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Varðandi þá gagnrýni sem við höfðum uppi á málsmeðferðina er rétt hjá hæstv. ráðherra að málið var kynnt fyrir talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna núna á föstudaginn og frumvarpið var að líta dagsins ljós og taka breytingum fyrir helgina. En það er auðvitað alveg hægt og ekkert sem bannar ráðherrum að draga fulltrúa stjórnarandstöðunnar inn í mál á fyrri stigum, á undirbúningsstigum, sérstaklega ef málin eru þannig vaxin að það stefnir í að þau þurfi að komast í gegnum þingið á tiltölulega skömmum tíma. Það er ekkert sem bannar að reynt sé að hafa meira samráð um mál, þess vegna á meðan þau eru í vinnslu hjá ráðherra. Ég vil leyfa mér að benda hæstv. ráðherra á það í allri vinsemd (Forseti hringir.) að því er lýtur að þeim málum sem boðað er að komi inn á næstunni.



[23:07]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðallega að gera athugasemd við lítillæti hæstv. ráðherra. Hún nefnir ýmis atriði sem hafa verið gerð til hagsbóta fyrir fjölskylduna. Hún gleymir aðalatriðinu sem eru neyðarlögin sem við settum og forðuðum fjölskyldum þessa lands frá hörmungum, frú forseti.

Ef greiðslukerfi landsins hefðu hrunið og hin venjulega fjölskylda í landinu hefði ekki getað keypt í matinn kannski í viku eða lengur og ef sparifjáreigendur hefðu ráðist á bankann og tekið innstæður sínar út og valdið með því hruni fjármálakerfisins — það eru meginatriðin sem ríkisstjórnin spornaði gegn og forðaði þannig fjölskyldum frá hörmungum.