136. löggjafarþing — 33. fundur
 21. nóvember 2008.
framhaldsskóli í Grindavík.

[10:49]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hæstv. heilbrigðisráðherra um mikilvægi þess að vernda velferðarkerfið, það er eitt af því sem við þurfum að standa dyggan vörð um. Á sama hátt vil ég lýsa því yfir að við viljum líka standa dyggan vörð um menntakerfið. Þessa þætti þurfum við að leggja ríka áherslu á núna og á þeim tímum sem fram undan eru.

Mig langaði að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra varðandi þann möguleika að stofna menntaskóla í Grindavík. Bæjarstjórn Grindavíkur hefur lagt mikla vinnu í að undirbúa stofnun slíks skóla og hefur lagt á það ríka áherslu að koma að stofnun hans. Bæjarstjórnin gerir sér ljóst hver staðan í ríkisfjármálunum er og það liggur fyrir að hún er tilbúin til að leggja mikið á sig til þess að af stofnun slíks skóla geti orðið. Í því samhengi hefur m.a. verið horft til Borgarness og víðar.

Bæjarstjórnin hefur einnig lagt upp með að þarna geti orðið framhaldsskólabrautir og þriggja ára nám til stúdentsprófs, hraðbraut. Þeir leggja áherslu á fleiri þætti, t.d. að þarna geti orðið menningarmiðstöð bæjarins. Hugmyndir bæjarstjórnar eru fyrst og fremst að sameina þessa þætti og byggja upp öfluga stofnun fyrir bæinn og vissulega skiptir miklu máli að nemendur í Grindavík geti sótt nám heima og mikilvægt að samfélagið geti tekið utan um fjölskyldur á þeim tímum sem nú eru.

Það liggur líka fyrir að í dag greiðir ríkið töluvert með nemendum frá bæjarfélögum líkt og Grindavík og miðað við það fæ ég ekki séð að um mikil (Forseti hringir.) viðbótarútgjöld yrði að ræða. Mig langar því að beina fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um stöðu þessa máls sem ég veit að hæstv. ráðherra þekkir.



[10:52]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni og fagna því sérstaklega að við erum sammála hvað þetta varðar, að á tímum þrenginga eins og við stöndum frammi fyrir núna þá þurfum við að standa vörð um velferðarkerfið, þar með talið menntakerfið. Ég held að skilaboð okkar frá þinginu eigi að vera þau að skólarnir eigi að vera opnir, jafnt á framhaldsskólastigi sem háskólastigi.

Varðandi Grindavík þá vil ég taka það sérstaklega fram að á undanförnum missirum og árum hef ég lagt mig fram um að færa menntunina nær fólkinu, þar sem það er hægt. Ég vil nefna Fjölbrautaskólann á norðanverðu Snæfellsnesi. Ég vil einnig nefna framhaldsdeildina, tilraunadeildina sem við erum með frá Patreksfirði, á sunnanverðum Vestfjörðum. Við erum að athuga núna skóla við norðanverðan Eyjafjörð og við munum halda áfram þeirri uppbyggingu sem þar er í samvinnu við sveitarfélögin.

Hvað Suðurnesin varðar þá vil ég taka það fram að á sínum tíma var hópur sem fór yfir landið og kortlagði hvar þörfin á framhaldsskólum væri mest og Grindavík var ekki talin meðal þeirra svæða sem þyrfti strax að fara í. Á hinn bóginn hef ég lagt áherslu á að skoða hvaða möguleika við höfum í Grindavík til að færa námið nær fólkinu og þá sérstaklega fyrstu námsárin í framhaldsskóla. Á móti kemur að skólaumhverfið á Suðurnesjunum er breytt og þá er ég náttúrlega með Keili í huga. Þar er komin ný framhaldsskólastofnun, stofnun á framhaldsskólastigi og því eru Suðurnesin í heild betur sett hvað varðar menntunarmál en áður var og ég held að við þurfum að líta til þeirra breytinga.

Ég vil líka geta þess að skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur verið að skoða m.a. útfærslu á ákveðinni námsbraut sem hægt væri að færa til Grindavíkur og vinna í samvinnu við heimamenn.



[10:54]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé afar mikilvægt að nemendur á framhaldsskólastigi geti sótt nám í heimabyggð sinni, það skiptir mjög miklu máli því Grindvíkingum þykir, líkt og öðrum, talsvert að ferðast til og frá skóla hálftíma eða 40 mínútur á hverjum degi. Það skiptir miklu máli að hægt sé að byggja upp slíka stofnun.

Grindavík er að nálgast að verða 3.000 manna bær og ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra að það er mikilvægt að færa menntunina nær fólkinu. Mér fannst á svari hennar áðan að þótt ýmislegt væri í deiglunni þá væri þetta eitt af því sem væri til skoðunar og ég vil lýsa því yfir að ég vil fá að vinna það áfram með henni.



[10:55]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er rétt að við skoðum þessi mál áfram. En við verðum líka að hafa það í huga þegar við viljum færa menntunina nær fólkinu hvernig menntun við ætlum að bjóða upp á, hvernig skóla. Það ánægjulega hefur gerst í þeirri þróun sem við höfum upplifað á undanförnum missirum að við sjáum nú skóla með mismunandi brag, með mismunandi stefnu, þar má t.d. nefna annars vegar nýstofnaðan menntaskóla í Borgarnesi og hins vegar skólann á norðanverðu Snæfellsnesi sem er með öðrum hætti, þar sem er verið að reyna að nýta dreifmenntunina og nýta þá tækni sem fyrir er og þá verða áherslurnar aðrar. Ég held að það skipti miklu máli að við lítum til fjölbreytni þegar við erum að færa námið nær fólki.

Ég vil líka geta um fleiri staði þar sem við erum að reyna að huga að því hvernig hægt er að færa námið nær fólkinu. Til dæmis hef ég verið í ágætu samstarfi við Rangárþing eystra varðandi það að koma hugsanlega upp framhaldsdeild á Hellu, ef til vill í samvinnu við Fjölbrautaskóla (Forseti hringir.) Suðurlands annars vegar og líka Fjölbrautaskóla Vestmannaeyja þegar Bakkafjöruhöfn verður komin.