136. löggjafarþing — 33. fundur
 21. nóvember 2008.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[10:56]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur til margra ára verið úthlutað af hálfu ríkisins töluvert minna fé til rekstrar en öðrum og sambærilegum heilbrigðisstofnunum og er þar átt við heildarfjármagn sem stofnunin hefur til umráða að teknu tilliti til íbúafjölda. Í ár hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja haft innan við 40% þess fjármagns sem sjúkrahúsið á Sauðárkróki hefur haft, um 56% af því sem sjúkrahúsið á Akranesi hefur haft og 78% af því sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur haft.

Þvert á það sem ráðherra fullyrti áðan er mér sagt að fyrirmæli hafi borist um 10% flatan niðurskurð ofan í þessi lægstu framlög sem þekkjast á landsvísu, auk tilmæla um lokun nýrra skurðstofa sjúkrahússins sem einstaklingar og fyrirtæki á svæðinu hafa ekki bara beðið eftir í mörg ár heldur safnað og gefið fé til þeirrar uppbyggingar. Skurðstofur sem eru m.a. forsenda þess að hægt sé að halda úti fæðingardeild með fullri þjónustu.

Ég vil nota þetta tækifæri í dag og beina máli mínu til hæstv. heilbrigðisráðherra og spyrja um þrennt: Í fyrsta lagi, er það rétt að stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafi verið gefinn sólarhringur til að bregðast við tilmælum um útfærslu á niðurskurði, ofan í lægstu fjárframlög til nokkurra heilbrigðisstofnana á landinu og finnst hæstv. heilbrigðisráðherra það boðlegt?

Í annan stað: Er búið að undirbúa kvennadeild Landspítalans til að taka við þeim tilvikum þar sem fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verður ekki gert kleift að ráða við sín verkefni? Og ég minni á að árið 2007 fæddust 250 börn á stofnuninni og útlit er fyrir að fleiri börn fæðist á svæðinu en áður vegna aðflutnings ungs fólks. Þessi viðbót jafngildir að minnsta kosti heilum mánuði á Landspítalanum.

Í þriðja og síðasta lagi: Getur ráðherrann upplýst um það í hvaða erindagjörðum einn þekktasti auðmanna Íslands var með starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins fyrir skemmstu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem mér er sagt að hann hafi sýnt nefndum skurðstofum sérstakan áhuga?



[10:58]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þingmanns þá er rétt að fara yfir ákveðna hluti. Í fyrsta lagi þegar talað er um sambærilegar stofnanir á landsbyggðinni þá er ekki mjög einfalt að leggja þær að jöfnu en ef talað er um að framlög séu mismunandi eftir íbúafjölda þá er það alveg hárrétt. Þau eru mjög mismunandi og því skal til haga haldið að þeim módelum sem nú eru í gangi hefur ekki verið breytt frá því að sá sem hér stendur tók við heldur tók hann við þeim módelum frá þeim ráðherra sem var áður.

Ef menn vilja hafa framlögin föst á hvern íbúa — sem er alveg sjónarmið — þá erum við að tala um að færa þjónustustigið gríðarlega mikið niður á fámennustu og dreifbýlustu stöðum landsins. Það er algjörlega ljóst svo menn hafi það í huga. En heilbrigðisþjónustan snýr ekki bara að fjölda fólks. Hún snýr líka að öryggi og þannig eru hæstu framlögin á hvern einstakling t.d. á Hólmavík, af augljósum ástæðum ef menn þekkja eitthvað til landshátta á Íslandi og vita hvar hún er staðsett.

Það hafa ekki verið gefin nein fyrirmæli um flatan niðurskurð. Það sem var gert var það að þegar menn fengu bréfið á föstudegi þá var það framsent til stofnana og beðið um hugmyndir. Varðandi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þá liggur alveg fyrir að þar hafa ýmsir þættir verið skoðaðir, með stjórnendum og starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, til að sjá hvað þar megi betur fara og til að bera stofnunina saman við aðrar stofnanir.

Það sem helst hefur verið skoðað núna er það sem kalla má skipulagsbreytingar, þar er t.d. verið að skoða hina svokölluðu kragaspítalanna sem eru á Suðurnesjum, Suðurlandi, St. Jósefsspítala og á Akranesi og (Forseti hringir.) og hvernig sé best að haga þeim verkum sem vinna þar á hverjum spítala.



[11:00]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir útúrsnúninga um sambærileika og spyr aftur um hlutverk auðmanna. Hvert er hlutverk auðmanna í heilbrigðisstefnu hins nýja Íslands hjá núverandi ríkisstjórn? Hversu miklu hlutverki eiga auðmenn að gegna í heilbrigðisþjónustunni? Getur hæstv. heilbrigðisráðherra upplýst okkur um þennan tiltekna auðmann sem heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins og sýndi þar sérstakan áhuga nefndum skurðstofum sem heilbrigðisráðuneytið hefur óskað eftir að verði lokað?



[11:02]
heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Auðmönnum er ekki ætlað neitt sérstakt hlutverk í heilbrigðisþjónustu landsmanna annað en það að þeir mega væntanlega fá þjónustu eins og aðrir landsmenn. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður talar um það sem útúrsnúning þegar ég reyni að útskýra hvernig fjárframlög eru til heilbrigðisstofnana. Er hv. þingmaður að segja að það módel sem farið er eftir núna og sem ekki verður breytt sé meingallað? Er hv. þingmaður að segja það? Það er ekki gagnrýni á þann sem hér stendur, það er væntanlega gagnrýni á þann sem byggði upp það kerfi og það er svo sannarlega ekki ég heldur flokkssystir hv. þingmanns, svo að því sé algerlega til haga haldið.

Hins vegar er það svo að ég get ekki svarað fyrir allar heimsóknir í heilbrigðisstofnanir, þær eru margar. En sem betur fer hafa mjög margir aðilar, innlendir og erlendir, veitt því eftirtekt að það eru gríðarlega mikil gæði í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Eins og margir hafa kannski séð í fréttum huga menn jafnvel að innflutningi sjúklinga (Forseti hringir.) til landsins og er það vel.