136. löggjafarþing — 34. fundur
 24. nóvember 2008.
vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar, frh. einnar umræðu.
þáltill. SJS o.fl., 173. mál. — Þskj. 209.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[19:02]

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Till.  felld með 42:18 atkv., að viðhöfðu nafnakalli, og sögðu

  já:  JBjarn,  JM,  KJak,  KolH,  MS,  SF,  SJS,  VS,  ÞBack,  ÖJ,  AtlG,  ÁI,  BJJ,  EyH,  GMJ,  GAK,  HSH,  HöskÞ.
nei:  JónG,  KVM,  KÓ,  KHG,  KÞJ,  KLM,  LB,  ÓN,  PHB,  RGuðb,  RR,  SKK,  SVÓ,  ÞKG,  ÞSveinb,  ÖS,  ArnbS,  ÁÓÁ,  ÁKÓ,  ÁPÁ,  ÁJ,  ÁMM,  ÁRJ,  ÁMöl,  BÁ,  BjarnB,  BjörkG,  BBj,  EKG,  EMS,  EBS,  GHH,  GuðbH,  GSB,  GÞÞ,  GSv,  HHj,  HerdÞ,  IllG,  ISG,  JóhS,  StB.
3 þm. (KaJúl,  ÁÞS,  BjörgvS) fjarstaddir.
13 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[18:43]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Okkur er öllum ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr er rúin trausti. Það bíða mikil verkefni fram undan bæði uppgjör við liðna tíð og líka uppbygging á nýjum grunni. Það gerist ekki á trúverðugan hátt nema Alþingi hafi fengið nýtt umboð frá kjósendum, frá almenningi í landinu. Þess vegna tel ég það skyldu ríkisstjórnar og Alþingis að boða til kosninga svo fljótt sem verða má, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir, og hér sitji ríkisstjórn í endurnýjuðu umboði. Þetta snýst um traust og þetta snýst um trúnað. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur hann ekki. Ég segi því já við þessari tillögu, herra forseti.



[18:45]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Að mörgu leyti hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni í dag en ansi hefur hún verið rýr af hálfu þeirra sem til hennar efndu. Fullkomlega ábyrgðarlaust er að vera með eins lítt rökstuddan málflutning og kalla yfir okkur að eyða mikilvægum tíma þingsins í svona orðagjálfur.

Við þessar aðstæður (Gripið fram í.) — að láta sér detta í hug að það besta sem geti komið fyrir þjóðina við aðstæðurnar sem uppi eru í samfélagi okkar sé að efna til kosninga.

Það sem við þurfum núna er að geta unnið áfram að þeim verkefnum sem unnið hefur verið að undanfarnar vikur og við þurfum að geta lokið verkefninu og við þær aðstæður skulum við taka ákvörðun um hvort við þurfum að efna til kosninga í landinu. En að etja Alþingi (Gripið fram í.) út í kosningar við þessar aðstæður og koma á (Forseti hringir.) þeirri upplausn í þinginu sem það mundi valda er ekki góður málflutningur og ekki góð tillaga. Ég segi nei. [Háreysti á þingpöllum.]



[18:46]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson kallar það orðagjálfur þegar leitað er eftir því af stjórnarandstöðunni að við njótum hér þess sem segir í 1. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. þingbundinnar stjórnar, þar sem þingið segir til um hvort það vill þola ríkisstjórnina eða ekki. Þetta er einn af þeim mikilvægu, lýðræðislegu hornsteinum sem við byggjum þjóðfélag okkar á.

Þess vegna fer stjórnarandstaðan fram með þessum hætti. Þetta er ekki marklaust orðagjálfur. Við erum að nýta okkur þann lýðræðislega rétt, þá lýðræðislegu möguleika sem við höfum sem löggjafarvaldið til að koma frá ráðþrota, vonlausri ríkisstjórn. Ég segi já.



[18:47]
Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Þegar mikinn vanda ber að höndum og áföll dynja á er mikilvægt að fólk standi saman. Þetta á bæði við um líf fjölskyldna og líf þjóðar. Ég vil ekki að við förum út í kosningabaráttu og kosningar núna og síst af öllu vil ég styðja tillögu sem er þannig gerð að ný framboð gætu komið fram. (Gripið fram í: Ha?) Ég vil styðja tillögur sem auka lýðræðið í landinu en ekki tillögu eins og þá sem hér er lögð fram og hefur þær afleiðingar að aðrir gætu ekki boðið fram nema við mjög erfið skilyrði. (Gripið fram í.)

Hluti lýðræðisins er sá að þingmenn fái að tala hér (Forseti hringir.) og segja frá skoðunum sínum án þess að gargað sé og gripið fram í fyrir þeim. (Forseti hringir.) Eitt af því sem hefur einkennt stjórnarandstöðuna í dag er að hún reynir að trufla (Forseti hringir.) málflutning fólks að ósekju og mjög illa. Ég er ósáttur við þetta og lýsi yfir óánægju minni.

Að lokum vil ég segja, (Forseti hringir.) herra forseti, að ég harma það að nefndin sem á að leiða (Forseti hringir.) sannleikann í ljós sé ekki komin fram og (Forseti hringir.) hvernig stendur á því? (Gripið fram í.)

(Forseti (StB): Hvað segir hv. þingmaður?)

Þingmaðurinn segir nei móti kosningu, á móti glundroða Vinstri grænna.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa gott hljóð. Við erum að greiða atkvæði um tillöguna.)



[18:50]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er verkefni stjórnvalda, sérstaklega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar, næstu mánuði að vinna að endurreisn fjármálakerfisins og tryggja fjárhag heimila og fyrirtækja landsins. Það er verkefni stjórnvalda að sjá til þess að orsakir bankakreppunnar verði rannsakaðar og upplýstar og þáttur hvers og eins greindur og ábyrgð hans. Þannig að almenningi verði gert kleift að taka yfirvegaða ákvörðun í alþingiskosningum í kjölfarið og velja á milli stjórnmálaflokka sem hver um sig ber fram svar sitt og stefnu.

Verkefni stjórnvalda er að virða réttarríkið og tryggja sanngjarna málsmeðferð og traustar upplýsingar. Samþykkt tillögunnar og þingkosningar nú munu færa vinnu stjórnvalda frá lausn á aðsteðjandi vanda yfir til baráttu um hylli kjósenda þar sem þjóðarhagur víkur fyrir flokkshagsmunum. Tillagan er fjarri því að vera tímabær og ég segi því nei.



[18:51]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

(Gripið fram í: Ætlarðu að segja já?) Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur dregið mjög skýrt fram að ekki eru aðrir kostir í stöðunni en núverandi ríkisstjórn. Umræðan sem hér hefur farið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur dregið fram að það eru engar tillögur, engar hugmyndir og engar lausnir. Í því ljósi, virðulegi forseti, getur meiri hlutinn ekki sagt annað en nei við tillögunni. Þannig að ríkisstjórnin geti haldið áfram að vinna úr því ástandi sem hér ríkir til að tryggja að heimilin og fyrirtækin komist skammlaust frá stöðunni sem nú er uppi.

Ég tel að deginum hafi ekki verið vel varið í umræðuna sem hér fer fram vegna þess að nauðsynlegt er að nýta tímann vel og með fullri virðingu fyrir stjórnarandstöðunni, sem mér þykir vænt um, þá hefur hún ekki nýtt tímann vel í dag. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn segir nei.



[18:53]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Tillaga sú sem hér er til atkvæða er um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof fyrir áramót og kosningar fyrir miðjan febrúar. Við höfum rökstutt tillögu okkar. Hún er um vantraust á ríkisstjórnina. Við viljum að þjóðin fái að kjósa. Við viljum að lýðræðið virki.

Sjálfstæðismenn, þar á meðal varaformaður flokksins, hæstv. menntamálaráðherra, hafa talað um að nú eigi að víkja flokkshagsmunum til hliðar. Það hljómar fallega. En hverjir skyldu nú víkja flokkshagsmunum til hliðar? Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki í kosningar. Þorir ekki að horfast í augu við þjóð sína. Því miður ætlar Samfylkingin að hjálpa honum við það og bjóða þjóðinni áfram upp á Sjálfstæðisflokkinn við völd eftir sautján og hálft ár og hélt ég þó að nóg væri komið.

Ekki er eftir neinu að bíða með að hefja undirbúning að kosningum upp úr áramótum þannig að ný ríkisstjórn með þjóðina að baki sér (Forseti hringir.) geti snúið sér að þeim miklu verkefnum sem fram undan eru á Íslandi. Þessari stjórn mun ekki takast það. Hún muna að þurfa að játa sig (Forseti hringir.) sigraða og aðeins er tímaspursmál hvenær það verður.

(Forseti (StB): Hvað segir þingmaðurinn?)

Þingmaðurinn segir já.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. gesti á þingpöllum að gefa góðan frið hér til starfa.)



[18:55]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrr við atkvæðagreiðsluna var sagt að hún snerist um traust og trúnað. Gagnvart hverjum? Gagnvart íslensku þjóðinni. Hvort eigi að trúa henni fyrir eigin örlögum, eigin framtíð. Þetta er atkvæðagreiðsla annars vegar um lýðræði og hins vegar um forræðishyggju. Jafnvel þótt forræðishyggja Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar kunni að verða ofan á í atkvæðagreiðslunni er ég sannfærður um að þetta eru engin endalok. Það er að rísa í þjóðfélaginu alda. Lýðræðisleg alda sem mun feykja valdaflokkunum, Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni úr valdastólum sínum.

(Forseti (StB): Og þingmaðurinn segir?)

Já.



[18:56]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Valdstjórnin á Íslandi er hrædd. Stjórnarliðið á Alþingi er hrætt. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar kveinkar sér jafnvel undan umræðum á Alþingi um störf og stefnu og framtíð ríkisstjórnarinnar.

Dapurlegt hefur verið að heyra mótrök stjórnarliða við tillögunni og þeim verður best lýst þannig að menn reyna í örvæntingu að slökkva ljós annarra í þeirri von að þeirra auma tíra skíni þá ögn skærar. Við skulum gefa þjóðinni heimild til að kjósa sér nýja ríkisstjórn. Um miðjan febrúar eða upp úr því er rétti tíminn kominn. Ég skora á þá sem eftir eiga að greiða atkvæði að fylgja samvisku sinni og ég segi já.

(Forseti (StB): Forseti verður að biðja gesti á þingpöllum að virða þær reglur sem gilda á Alþingi Íslendinga.)



[18:58]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Við alþingismenn og hæstv. ríkisstjórn höfum verk að vinna til varnar og sóknar fyrir heimilin og atvinnulífið í landinu. Sjálfstætt Ísland.

Við þolum enga bið, engar frátafir, engan verkkvíða, engan hengilmænuhátt.

Spúlum dekkið, hv. þingmenn. Lítum upp. Keyrum vélina og setjum hrygg í málið, þótt í hnotskurn sé meiningin sögð til heilla íslenskri þjóð. Ég segi nei.



[18:59]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Í umræðunum í dag hefur verið leitt í ljós að tillaga stjórnarandstöðunnar, eða réttara sagt hluti hennar, á engan rétt á sér. Glapræði væri við núverandi aðstæður að samþykkja hana. Ég segi nei.



[19:00]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Skútan er strand og skipstjórinn og stýrimenn hans missa allir réttindin. (Gripið fram í: En hásetarnir?) Hásetarnir verða atvinnulausir (Gripið fram í.) og ég segi já.



[19:00]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er lýðræðislegur réttur þingmanna í stjórnarandstöðu að bera fram vantrauststillögu á ríkisstjórn. Við núverandi aðstæður styður innan við helmingur þeirra sem lýsa yfir stuðningi við núverandi ríkisstjórnarflokka ríkisstjórnina. Ef þetta er ekki dómur um að ríkisstjórnin standi ekki undir verkum sínum þá veit ég ekki hvað er dómur um það. Ég segi já.