136. löggjafarþing — 35. fundur
 25. nóvember 2008.
íslenska ákvæðið og fundur um loftslagsmál í Kaupmannahöfn.

[14:17]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Kyoto-bókunin frá 1997 kveður á um loftslagsmál og viðmiðanir í þeirri bókun eru frá árinu 1990. Segja má að í kvótaúthlutun kemur þessi tímasetning illa út fyrir Ísland. Þetta var eftir að hitaveita var að mestum hluta tekin við sem orkugjafi til húshitunar og var mikið af stóriðju í pípunum sem ekki var komin til framkvæmda eða í gang á þessum tíma.

Á sínum tíma var bókað svokallað íslenskt ákvæði en í ákvörðun var undanþága fyrir smáhagkerfi eins og Ísland vegna einstakra framkvæmda um ákveðinn hluta af heildarlosun sem nýta endurnýjanlega orku og nota bestu fáanlegu tækni. Íslenska ákvæðið á að tryggja að stóriðja á Íslandi valdi lágmarks mögulegri losun á heimsvísu.

Ber að nefna í þessu að orðið hefur mikil framför í tækniþróun og losun flúorkolefna frá álframleiðslu dróst saman á Íslandi um 300 þúsund tonn frá árinu 1990–2004 þrátt fyrir að álframleiðsla hefði aukist mikið á því tímabili. Íslenska ákvæðið er samt sem áður mjög mikilvægur grundvöllur fyrir Ísland til framtíðaruppbyggingar og stóriðju. Ég spyr því umhverfisráðherra: Hvernig er hagað undirbúningi fyrir fundinn í Kaupmannahöfn á næsta ári? Hver eru markmið okkar og er ekki öruggt að allt kapp verði lagt á að tryggja áfram hið svokallaða íslenska ákvæði?



[14:19]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Eins og kom fram í máli hans þá fékk Ísland eitt iðnríkja eða svokallaðra Annex I ríkja í Kyoto-bókuninni að auka losun sína innan Kyoto-tímabilsins sem nú stendur yfir, 2008–2012. Á meðan önnur ríki þurftu að draga saman fékk Ísland að auka losun um 10% sem flestir sem tóku þátt í að semja um það segja að hafi verið m.a. vegna þess að önnur ríki tóku tillit til þess að Ísland hafði á 8. áratugnum og þeim 9. sett á hitaveitu í landinu eins og við vitum sem er, má segja, nær einstakt á heimsvísu. Þá var einnig samið um svokallað íslenskt ákvæði, ákvörðun 14/CP.7 sem var síðan gengið formlega frá. Það var ekki samið um hana í Kyoto 1997 en gengið var formlega frá henni í Marrakesh 2001, ef ég man rétt.

Eins og hv. þingmaður veit hafa þessi mál verið til stöðugrar umræðu, bæði í ríkisstjórn og stjórnarflokkum samkvæmt þeim samningsmarkmiðum sem lögð voru fram fyrir Balí-fundinn í fyrra og eru þau samningsmarkmið sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér til og með aðildarríkjafundinum í Kaupmannahöfn sem verður í desember 2009. Ég get einnig upplýst þingmanninn um að skipuð hefur verið af hálfu stjórnvalda formleg samninganefnd sem í eiga sæti fulltrúar sjö frekar en átta ráðuneyta, allra þeirra ráðuneyta sem með einhverjum hætti koma að eða hafa með loftslagsmál að gera. En eins og þingmenn vita eru þau mjög víðfeðm þannig að undirbúningur er í fullum gangi og ég mun þá auðvitað reyna að svara því ef ég fæ tækifæri til að koma aftur upp.



[14:21]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur var íslenska ákvæðið meðal annars sett til að tryggja að stóriðja á Íslandi valdi lágmarks mögulegri losun á heimsvísu. Ég held að hafa beri það í huga og jafnframt hversu mikilvægt ákvæðið er fyrir framtíðaruppbyggingu atvinnustarfsemi þar sem nýting náttúruauðlinda verður í forgrunni. Ef til þess kemur að við missum þá forgjöf sem við höfum til uppbyggingar hér mun það kosta þau fyrirtæki sem hafa verið að byggja upp starfsemi og sem koma til með að byggja upp starfsemi sem þarf kvóta af þessu tagi, alveg gríðarlega fjármuni. Þar er um að ræða margra milljarða ef ekki tugmilljarða kostnað á hverju einasta ári fyrir þau fyrirtæki. Það er alveg ljóst að ef við gætum ekki hagsmuna þeirra er fullkomlega sjálfhætt við þessi verkefni og óljóst er hvort við munum yfir höfuð geta fundið fyrirtæki sem vilja koma með starfsemi til Íslands og þurfa á losunarkvótum að halda.



[14:22]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að átta sig á því í þessu samhengi að innleiðing viðskiptakerfis Evrópusambandsins um losunarheimildir sem þarf að fara fram hér á landi eigi síðar en 2012 samkvæmt EES-samningnum mun hafa mjög mikil áhrif á starfsumhverfi og viðskiptaumhverfi stóriðju og allra þeirra atvinnugreina sem ETF-kerfið eða viðskiptakerfið tekur til. Eins og menn vita er það nú í umræðu og undirbúningi innan Evrópusambandsins. Það mun m.a. valda því að flugið verður kvótasett árið 2012 eins og þingmenn þekkja og álframleiðsla verður væntanlega kvótasett árið 2013. Þar sem við erum innan EES-samningsins og þurfum að innleiða þetta mál hefur það verið rætt ítarlega í ríkisstjórn og annars staðar. Kortleggja þarf nákvæmlega hvað það þýðir í samningaviðræðum okkar innan Sameinuðu þjóðanna og í samskiptum okkar við Evrópusambandið og það gæti jafnvel farið svo að það væri best fyrir íslenskan iðnað (Forseti hringir.) að vera innan Evrópusambandsins en ekki utan þess.