136. löggjafarþing — 36. fundur
 26. nóvember 2008.
umræður utan dagskrár.

efling gjaldeyrissjóðsins.

[14:00]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í maílok á þessu ári veitti Alþingi Íslendinga heimild sína til erlendrar lántöku upp á 500 milljarða kr. Aðdragandi þeirrar lántöku var allnokkur og á það raunar við um allt ferlið sem leiddi til setningar neyðarlaga 6. október sl. Óveðursskýin voru þegar tekin að hrannast upp á haustmánuðum í fyrra, lausafjárkreppan er, eins og allir vita, að stofni til alþjóðleg efnahagskreppa.

Upp úr síðustu áramótum tóku sjónir manna að beinast að Íslandi. Í janúar greindi ráðgjafi í gjaldeyrisviðskiptum hjá Merrill Lynch frá því að við versnandi aðstæður og vaxandi áhættufælni fjárfesta á alþjóðamörkuðum yrði íslenska krónan fyrsti gjaldmiðillinn sem fjárfestar losuðu sig við. Í janúar lagði Ólafur Ísleifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, út frá niðurstöðu skýrslu matsfyrirtækisins Moody's á þann veg að efla þyrfti starfsumhverfi bankanna með því að styrkja gjaldeyrisforðann og bæta aðgengi að lausu fé eða að draga úr skilyrtum ábyrgðum ríkisins með því að bankarnir drægju saman seglin í útlöndum eða flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.

Hæstv. viðskiptaráðherra sagði í kjölfar þess ekki koma til greina að missa bankana úr landi, ríkisstjórnin ynni að því hörðum höndum að styrkja starfsumhverfi bankanna. Eftir 20% fall íslensku krónunnar á einum mánuði sagði hæstv. forsætisráðherra um miðjan mars að ástandið á gjaldeyrismarkaði væri ekki komið á það stig að það kallaði á aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra vildi jafnframt ekki breyta stefnunni í efnahagsmálum vegna tímabundins vanda og taldi ekki að langvarandi kreppa væri í uppsiglingu.

Á ársfundi Seðlabanka Íslands í lok mars taldi hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að halda áfram á þeirri braut að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans. Jafnframt vildi ráðherrann kanna hvort Seðlabankinn gæti tekið upp samstarf við seðlabanka í þeim ríkjum þar sem íslensku bankarnir væru umsvifamiklir. Forsætisráðherra sagði á hinu háa Alþingi í lok mars að á fyrsta viðskiptadegi eftir ársfund Seðlabankans hefði krónan styrkst nokkuð myndarlega og að allt benti til þess að botninum í þessum efnum væri náð. Steininn tók þó úr þegar formaður fjárlaganefndar sagði þann 1. apríl að við horfðum fram á bjartari tíma.

Hæstv. forseti. Nú vitum við að formenn stjórnarflokkanna og bankastjórar Seðlabankans höfðu náið samráð. Formaður Samfylkingarinnar hefur nýverið upplýst um a.m.k. sex leynifundi á þessum tíma. Mörgum er í fersku minni mikill fundur í byrjun apríl sem átti samkvæmt fréttum að vera undanfari umfangsmikilla aðgerða í peningamálum. Fundurinn sá var svo mikilvægur að formennirnir tveir gátu ekki frestað honum, heldur brugðu á það ráð að fljúga að honum loknum með einkaflugi til Rúmeníu til að ná á NATO-fund. Lítið gerðist þó í framhaldinu.

Um þetta leyti mátu erlend blöð ástand á Íslandi hins vegar þá þegar það slæmt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kynni að verða að koma Íslandi til bjargar sem þrautalánaveitandi vegna lausafjárkreppunnar. Maður spyr sig hvaða kjörum hefði verið hægt að ná hjá sjóðnum á þeim tíma. Hæstv. utanríkisráðherra sló því um svipað leyti föstu í samtali við danska blaðið Berlingske tidende að allir bankar landsins gætu reiknað með stuðningi frá ríkisvaldinu ef þeir lentu í vandræðum. Vilji hennar stæði til þess að styðja bankana beint með framlögum úr ríkissjóði og einnig að auka gjaldeyrisvarasjóð landsins.

Sannarlega athyglisvert í ljósi þess sem síðar gerðist — eða ekki gerðist.

Hæstv. forseti. Ég minni á að á miðstjórnarfundi okkar framsóknarmanna 3. maí sl. flutti Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, þarft erindi þar sem hann sagði að þá steðjaði meiri vá að íslensku efnahagslífi en áður í lýðveldissögunni. Ástæðan væri sú að erlendir aðilar treystu ekki bönkunum til að borga skuldir sínar. Bakábyrgð Seðlabankans og ríkisins væri ekki til staðar þar sem bankarnir væru of stórir fyrir íslenska hagkerfið. Hann lagði því til að tekið yrði hátt erlent lán til að styrkja gjaldeyrisforðann en með því móti mundu erlendir aðilar hætta að vantreysta bönkunum.

Þess ber að geta að um þetta leyti var skuldatryggingarálag íslenska ríkisins um 50 punktar en í dag er líklegt að þeir séu hátt í þúsund. Er að undra, hæstv. forseti, að spurt sé: Hvernig var staðið að eflingu gjaldeyrisforðans? Auðvitað er maður að velta fyrir sér hvort það hafi verið vilji til að efla gjaldeyrisforðann og hvort það hafi verið samstaða á milli ríkisstjórnar og Seðlabanka um að það skyldi gert. Þar sem Alþingi veitti heimild fyrir 500 milljarða lántöku til þess að efla (Forseti hringir.) sjóðinn er ekki óeðlilegt að spurt sé hér á hv. Alþingi hvernig allt þetta fé hafi verið notað.



[14:05]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við í ræðu sinni og rifjaði upp ýmislegt sem gerst hefur fyrr á árinu í þessum efnum. Það er ljóst að ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa gert sitt ýtrasta á þessu tímabili til að reyna að styrkja og efla gjaldeyrisforðann enda nam hann nú í októberlok 409 milljörðum kr. en í árslok árið 2006 var forðinn rúmlega tvöfaldaður með lántöku upp á einn milljarð evra. Fyrir þá aðgerð var forðinn um 70 milljarðar kr., en aðeins 7 milljarðar á árinu 2001 ef ég fer rétt með. Þetta er til upprifjunar, virðulegi forseti.

Á þessu ári gerði Seðlabanki Íslands ýmsar tilraunir til að ná samkomulagi við aðra seðlabanka um fyrirgreiðslu í formi gjaldeyrisskiptasamninga eða gjaldmiðlaskiptasamninga en þegar á reyndi voru einungis norrænu seðlabankarnir þrír sem standa utan við Seðlabanka Evrópu tilbúnir í slíka samninga og leiddu þeir á endanum til þess að í maímánuði voru gerðir samningar við hvern og einn þeirra um 500 milljóna evra lánamöguleika í formi gjaldeyrisskipta. Þessir samningar voru nú nýlega endurnýjaðir, þ.e. 20. október sl., og gilda til ársloka árið 2009 og vil ég leyfa mér að fagna því.

Þessir gjaldmiðlaskiptasamningar sem gerðir voru í maímánuði höfðu strax jákvæð áhrif á markaðina. Í kjölfarið var ákveðið að leita þegar í stað á alþjóðlegan skuldabréfamarkað. Þrír erlendir og alþjóðlegir bankar voru fengnir til að hafa forustu um það mál og efnt til nauðsynlegra kynninga meðal fjárfesta víða um Evrópu í seinni hluta maí og byrjun júní. Í maí höfðu markaðsaðstæður hins vegar batnað verulega frá því sem var í mars og fram í apríl þegar þær voru með versta móti. Um það leyti sem kynningu á þessu máli var lokið snerust markaðirnir á nýjan leik og verulega þyngdi undir fæti. Vegna eindreginna ráðlegginga forustubankanna þriggja var horfið frá því að leita á markað á þeim tíma enda hefðu kjörin orðið þannig að orðspor ríkissjóðs hefði hugsanlega beðið hnekki af, m.a. með hliðsjón af lánshæfismati ríkissjóðs eins og það var þá.

Í júlí hóf Seðlabankinn hins vegar að stækka forðann með útgáfu skammtímavíxla á Evrópumarkaði og um sama leyti var gengið frá lántöku hjá nokkrum erlendum bönkum. Aðstæður á skuldabréfamarkaði bötnuðu hins vegar ekki og þangað var ekki fé að sækja. Skilyrði á þeim markaði voru slæm í allt sumar, og eru enn, og engin leið að fara í skuldabréfaútboð eða taka önnur lán. Það er mikill misskilningur sem hefur komið fram hjá einstaka manni að ríkissjóður Íslands hefði á þessum tíma getað sótt fjárhæðir sem einhverju máli skiptu á alþjóðlegan lánamarkað og lýsir slíkur málflutningur því miður ákveðnum misskilningi eða vanþekkingu á þessum aðstæðum.

Það var mjög gott samstarf um þessi mál á milli Seðlabankans, forsætis- og fjármálaráðuneytanna og fylgdust aðrir ráðherrar með eftir atvikum. Fundur sá sem gjarnan er vitnað til í febrúarmánuði þar sem bankastjórn Seðlabankans greindi frá för sinni til Lundúna, greindi okkur utanríkisráðherra m.a. frá þeirri för, snerist að stærstum hluta um það að segja frá því hverjir möguleikarnir væru fyrir íslenska ríkið að taka lán og hvernig erlendu bankarnir mætu þá stöðu á þeim tíma, snemma í febrúar eða í lok janúar. Niðurstaðan úr þeim viðræðum var sú að markaðsaðstæður væru slíkar að það væri ekki heppilegt og hugsanlega ekki mögulegt fyrir íslenska ríkið að reyna fyrir sér á alþjóðlegum lánamarkaði á þeim tíma og það gæti haft þveröfug áhrif, a.m.k. mjög óheppileg áhrif á kjör eða orðspor ríkissjóðs á þeim tíma og hugsanlegt að ekki hefði verið neitt lán að hafa þótt reynt hefði verið til hins ýtrasta.

Þannig var staðan þá og ég hef rakið hér hvað gerðist síðan. Nú er aftur staðan sú að við höfum náð samkomulagi við nokkur lönd eins og kunnugt er um að koma til liðs við okkur um lánsfjáröflun. Vænti ég að það megi allt saman fram ganga í samræmi við það sem lýst hefur verið hér í tengslum við önnur þingmál.



[14:10]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ein fyrsta krafa Alþjóðgjaldeyrissjóðsins til íslenskra stjórnvalda var hækkun stýrivaxta sem átti að vera liður í því að standa vörð um og treysta gjaldeyrisforðann og draga úr hættu á útflutningi fjármagns. Nýjustu upplýsingar sýna að sú aðgerð var tilgangslaus og margir hafa orðið til að gagnrýna þessa stefnu, hækkun stýrivaxta til að efla gjaldeyrisforðann.

Af því sem kemur fram af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áskilur hann sér rétt til þess að krefjast enn hærri stýrivaxta. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvaða rök og hvaða skipulögð vinna liggur að baki því að stýrivaxtahækkun sé nauðsynleg til að treysta gjaldeyrisforða þjóðarinnar? Mér sýnist miklu mikilvægara að standa vörð um og efla þær atvinnugreinar sem afla útflutningsteknanna og skila erlendum gjaldeyri inn í landið (PHB: Álið?) á þann hátt og það er ekki gert með háum stýrivöxtum sem eru að sliga atvinnugreinarnar. Það er svipuð aðferð og að ætla að seðja bráðasta hungrið með því að höggva af sér hægri höndina og éta hana. (Forsrh.: Meira ál.) Ef forsætisráðherra er svo skyni skroppinn að halda að það besta fyrir sjávarútveginn og útflutningsgreinarnar sé að hækka stýrivextina til að efla gjaldeyrisforðann finnst mér hæstv. forsætisráðherra ekki starfi sínu vaxinn (Forseti hringir.) enda höfum við flutt tillögu um að hann segi af sér. (Forsrh.: Það er búið að hafna því.) Ég held að það sé brýnt fyrir íslenskan gjaldeyrisforða.



[14:13]
Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að verja tíma mínum til þess að fara yfir söguna fram að þessu, heldur einbeita mér að því ástandi sem við blasir núna.

Við höfum fengið lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum vinaþjóðum. Það hefur verið upplýst hversu mikið það er og ég held að það sé sú líflína sem við eigum í augnablikinu og fyrsta skrefið til að styrkja krónuna sem er auðvitað algjört forgangsmál fyrir atvinnulífið, peningamálin, heimilin og fjölskyldurnar í landinu. Um þessa stöðu og þetta markmið verður þjóðin að sameinast, bæði til þess að fólk viti hvaða verðmæti það hefur í höndunum í krónum og gjaldeyri talið og hafi trú og traust á þeim aðgerðum sem fram undan eru. Í raun og veru snýst þetta allt núna um trú og trúverðugleika.

Ríkisstjórnin, Seðlabankinn og Alþingi verða að ganga í takt. Úr því sem komið er er engin önnur leið og það verður að útskýra á mannamáli og það verður að skýra og stimpla inn hvað þessar ráðstafanir hafa í för með sér, bæði það jákvæða sem hið erfiða, hvernig þessi áætlun er hugsuð og hvert er stefnt.

Virðulegur forseti. Óvissan og óttinn í þjóðfélaginu hefur skapast fyrst og fremst vegna þess að skilaboðin hafa ekki verið nægilega skýr. Úr því verður að bæta því að Íslendingar hafa bæði kjark og getu til að brjótast út úr erfiðleikunum þegar þeir vita hvað er fram undan. Samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur verið samþykkt og ákveðið, alþjóðasamfélagið vill núna rétta okkur hjálparhönd og nú ríður á að við göngum öll í takt hvar í flokki sem við stöndum til að taka þennan slag. Seðlabanki og ríkisstjórn verða að stýra þessari för þannig að við hin, óbreyttir þingmenn (Forseti hringir.) og þjóðin öll, skilji að framtíðin stendur og fellur með því að þetta takist.



[14:15]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Síðast þegar að var gáð þurfti 180 kr. til að kaupa eina evru, um 100 kr. meira en fyrir rúmu ári til að kaupa þann gjaldmiðil og ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir þá góðu upprifjun og að vekja máls á þessu atriði varðandi gjaldeyrisvarasjóðinn. Það liggur fyrir að því fór fjarri að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri nægur. Það sem orsakaði það bankahrun sem við urðum vitni að í byrjun október var að það skorti gjaldeyri, það skorti gjaldmiðil. Það er staðreyndin í málinu. Það kann vel að vera að illa hefði farið en það var ekki það sem olli því að bankarnir lögðu upp laupana. Það var gjaldeyrisskortur sem segir að ekki hafi verið staðið nógu vel að því að hafa nægjanlegan gjaldeyrisvaraforða.

Nú er verið að leggja af stað í nýja vegferð og að sjálfsögðu vonast allir til þess að sú vegferð geti gengið sem best. Við í Frjálslynda flokknum höfum þó lýst efasemdum um það að þarna væri farið rétt af stað. Við höfum ítrekað talað um vandamál gjaldmiðilsins, vakið athygli á því að það væri nauðsynlegt að íslenska krónan yrði tengd stærra myntkerfi. Ef við hefðum alþjóðlega mynt eða værum með tengingu við alþjóðlegt myntkerfi þyrftum við ekki stóran gjaldeyrisvarasjóð. Stór gjaldeyrisvarasjóður er afleiðing af því að við höfum mynt sem almennt er ekki gjaldgeng, mynt sem er ekki treyst. Það er út úr þeim vítahring sem við verðum að stefna, það er hið nýja Ísland.



[14:17]
Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert og mun verða athyglisverðara í framtíðinni að rifja upp þann tíma sem liðinn er á þessu ári og aðdragandann að bankahruninu, allar viðvaranir sem komu fram framan af ári um hvert stefndi og um yfirlýsingarnar um að botninum væri náð, að bjart væri fram undan og að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar hefði farið að bera árangur í sumar. Þetta verður auðvitað allt rætt síðar. Það er ljóst að hæstv. ríkisstjórn ber mjög mikla ábyrgð á þessu ferli öllu saman en þrátt fyrir það hefur komið fram hjá formanni Samfylkingarinnar að sá flokkur ber ekki mikla ábyrgð. Það kom fram á fundi flokksins um síðustu helgi og ég túlka það sem svo að þar með vísi Samfylkingin allri ábyrgð á þessum málum yfir á samstarfsflokkinn, yfir á Sjálfstæðisflokkinn. Það verður fróðlegt að heyra hvað sjálfstæðismenn, hv. þingmenn og ráðherrar, segja við því.

Hæstv. forsætisráðherra hefur farið yfir skýringar sínar á ferlinu frá því að Alþingi veitti lántökuheimild til að styrkja gjaldeyrisforðann og það er alveg augljóst að íslenska ríkið og Seðlabankinn höfðu ekki aðgang að lánsfé. Hæstv. forsætisráðherra skýrði það hér þó að ýmsar spurningar vakni við það. Ég vil leyfa mér að beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvort það hafi ekki komið til greina um eða fyrir mitt árið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um samstarf á þeim tíma þegar ljóst var að ekki fékkst erlent lánsfé til að styrkja gjaldeyrisforðann þrátt fyrir að menn teldu það mjög mikilvægt og nauðsynlegt í ljósi þess sem menn töldu sig sjá fyrir. Ég vildi gjarnan heyra hæstv. forsætisráðherra fara yfir það hér hvort slíkt hafi komið til greina á þeim tíma til að bregðast við í raun og veru áður en að verulegt vandamál kæmi upp. Mér sýnist á öllu, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hafi ekki gert sér grein fyrir því í aðdraganda þessa hruns (Forseti hringir.) hvert stefndi. Það er auðvitað miður.



[14:19]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þm. Jóni Bjarnasyni fyrir hugmyndir hans um að fjölga störfum með því að auka álframleiðslu og því um líkt, það er nauðsynlegt að fjölga störfum þannig, en ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur frummælanda því að hún ræddi eingöngu um atvik í fortíðinni. Það er eins og að við gætum breytt fortíðinni. Það er eitthvað sem við getum ekki gert og ég er fyrir löngu búinn að átta mig á því. Jafnvel hugmyndaríkustu spámönnum datt ekki í hug að þrír stærstu bankarnir á Íslandi færu á hausinn. Ég hef hvergi nokkurs staðar séð þann spádóm, enginn spáði fyrir um það þannig að fortíðarhyggja hefur lítið upp á sig. Öll berum við náttúrlega meira og minna ábyrgð á því sem gerðist, öll, við skulum ekkert skorast undan því. Alþingi líka. (VS: Þetta mál er um fortíðina.)

Við þurfum að horfa til framtíðar. Við þurfum að horfa út frá þeirri stöðu sem við búum við í dag, við þurfum að koma gjaldeyrismarkaðnum í gang. Við þurfum að auka traust þeirra sem eiga krónubréf á Íslandi, jöklabréfin, um að þeir geti beðið hérna með þær krónur, og við þurfum að vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að því að koma á gjaldeyrismarkaði þannig að fólk sem skuldar í erlendri mynt og útflytjendur hafi traust á því og flytji gjaldeyrinn sinn heim. Þetta er verkefnið sem við þurfum að vinna að, ekki að velta okkur upp úr því hvað gerðist í fortíðinni með hitt og þetta þó að það sé örugglega mjög mikilvægt að draga lærdóm af því og draga þá til sektar sem þar hafa brotið einhver lög.



[14:21]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að fortíðin komi ekki framtíðinni við. Svo er í reynd og það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin þarf að segja af sér.

Við ræðum hér heimildir til lánveitinga og lántöku frá því í vor upp á 500 milljarða kr. og hvernig til hafi tekist með ráðstöfun þeirra fjármuna. Ég minni á að þegar þetta kom til afgreiðslu á Alþingi var það með mjög ströngum fyrirvörum af hálfu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er að finna í framsöguræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar, í ræðum sem hér voru fluttar og atkvæðaskýringum, og lutu m.a. að því að við vildum að gengið yrði í það verk að aðgreina viðskiptabanka frá fjárfestingarsjóðum. Við vöruðum við því að bankarnir væru að vaxa íslensku þjóðfélagi yfir höfuð og hvað það gæti þýtt. Við vitum svo hver niðurstaðan varð.

Það er hlálegt að heyra sérstaklega fulltrúa Samfylkingarinnar segja við umræðu um þessi mál að Samfylkingin hafi lagt sig í líma við að reisa múra almenningi til varnar. Það er alrangt. Þess sér hvergi stað í þingsögunni undanfarna mánuði og undanfarin missiri. Það sem ríkisstjórnin hins vegar gerði með oddvita stjórnarflokkanna í broddi fylkingar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar, var að leggjast í útrásarvíking með útrásarvíkingunum til New York og til Evrópu til að hvetja fólk til að halda áfram að fjárfesta sem síðan hefur orðið til þess að skuldir landsmanna eru að verða óbærilegar. Þetta er skýringin á því að enginn vildi veita okkur lánafyrirgreiðslu. Ríkisstjórnin, (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra, forsvarsmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, (Forseti hringir.) var rúin trausti. Það er mergurinn málsins. Við getum horft á eftirlitsstofnanirnar (Forseti hringir.) en þarna er hin raunverulega ástæða fyrir því að við höfum ekki fengið lánafyrirgreiðslu. (Forseti hringir.) Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts. (Forseti hringir.) Það er alveg hárrétt, hv. þm. Ellert B. Schram. (Forseti hringir.) Þetta snýst um trú og trúverðugleika og ríkisstjórnin hefur hvorki trú né trúverðugleika.



[14:24]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna þingmenn á að halda ræðutíma sinn.



[14:24]
Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skal halda mig við ræðutímann. Ég þakka formanni Framsóknarflokksins fyrir þetta innlegg um gjaldeyrisforðann og mikilvægi þess að auka hann. Allir flokkar á Alþingi hafa verið talsmenn þess að auka gjaldeyrisforðann. Við fórum í gegnum þá umræðu í vor þegar við tókum í gegn heimild til ríkissjóðs Íslands um sérstaka lántöku á árinu 2008 en sú lántaka hafði ekki áhrif á aðrar lántökuheimildir ríkissjóðs samkvæmt 5. gr. fjárlaga fyrir þetta ár. Í þeirri umræðu greiddu því allir atkvæði enda var grunntónninn í henni og því leiðarstefi sem var lagt upp með að það væri mikilvægt að styrkja og efla gjaldeyrisforðann.

Það var farið yfir það í þeirri umræðu hvernig ríkisstjórn Íslands og Seðlabankinn hefðu á undanförnum árum markað ákveðnar leiðarlínur í því að efla gjaldeyrisforðann og, virðulegi forseti, ég mun ekki fara frekar í það.

Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að henni hafi þótt það skrýtið að formanni fjárlaganefndar hafi þótt bjart fram undan. Ég tel það hlutverk stjórnmálamanna hverju sinni að tala stöðuna upp frekar en niður og ég mun alltaf gera það. Ég mun ekki víkja mér undan því og þrátt fyrir að nú gefi til að mynda á í fjárlögum hér á landi og fjárlagagatið stækki skiptir verulegu máli að tala hlutina upp. Ég veit ekki betur en að formaður Framsóknarflokksins hafi gert það á umliðnum árum, hafi frekar talað upp en niður.

Virðulegi forseti. Við vitum að fram undan er erfiður vetur fyrir landsmenn alla og við þurfum að taka á okkur auknar byrðar. Skiptir því verulegu máli að menn geri sér grein fyrir því (Forseti hringir.) að þegar við eflum gjaldeyrisforðann erum við um leið að auka fjármagnskostnað (Forseti hringir.) ríkisins sem þýðir það að ríkisútgjöldin aukast.



[14:26]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Aðgerðir eða aðgerðaleysi í fortíðinni eru væntanlega orsök þess sem við stefnum í. Og í hvað stefnum við? Við stefnum í skuldafen. Við stefnum í mjög erfiða stöðu og það er alveg óþarfi og í raun og veru óheiðarlegt af okkur þingmönnum að segja ekki satt um það sem við vitum sannast og réttast í því.

Íslenska þjóðin mun lenda í verulegum erfiðleikum á komandi árum við að standa við þær skuldir og skuldbindingar sem á okkur munu lenda vegna þess sem ekki var gert eða var gert. Stjórnvöld héldu því jafnvel fram að þau væru að vinna tíma í þessari umræðu. Lánsheimild var veitt í maí til að takast á við það að efla gjaldeyrissjóðinn og e.t.v. þar af leiðandi að styrkja stöðu okkar fyrir framtíðina og koma jafnvel í veg fyrir það sem síðar skall á okkur. Ég tek undir orð hv. þm. Ellerts B. Schrams sem sagði að við ættum að tala skýrt um það sem fram undan er. Það sem fram undan er byggist á því sem var í fortíðinni og var ekki gert. Sá vandi er vandi framtíðar fyrir íslensku þjóðina. Íslenska þjóðin er auðvitað dugleg og hefur oft brugðist við erfiðum vandamálum. Það breytir samt ekki því að það sem íslenska þjóðin þarf að bera á næstu áratugum verður mjög erfitt og er óþarfi að draga úr því. Það verður mjög erfitt. Það mun þýða skattahækkanir, það mun þýða niðurskurð (Forseti hringir.) á ýmsu í fjárlögunum okkar og það mun þýða erfiðleika (Forseti hringir.) fyrir íslensku þjóðina.



[14:29]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja út af orðum hv. þm. Péturs Blöndals að hann hefur talað mikið fyrir virðingu og mikilvægi Alþingis. Þess vegna finnst mér mikilvægt að hér fari fram umræða um það hvernig staðið var að eflingu gjaldeyrisforðans þegar Alþingi hafði heimilað með mjög skömmum fyrirvara og mjög hraðri meðferð, má segja, 500 milljarða lántöku. En nóg um það.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin sem voru ekki alveg nægilega nákvæm að mínu mati. Það var mikið um að hæstv. ráðherra talaði eins og að þetta hafi allt saman verið mjög erfitt. Ég efast ekki um að það hafi verið það, ef ég gríp niður í ræðu hæstv. ráðherra var hún svona:

Menn hafa gert sitt ýtrasta, gerðu ýmsar tilraunir, það var horfið frá því að reyna, ekkert fé að sækja, markaðsaðstæður þannig, ekki mögulegt að taka lán.

Þetta er kannski í stuttu máli ástandið eins og það var og miðað við það að ástandið var svona getur maður ekki annað en ályktað sem svo að hæstv. forsætisráðherra og forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi gert sér nokkra grein fyrir því að það var vá fyrir dyrum. En hæstv. ráðherra talaði um að samstaða hefði verið milli ríkisstjórnar og Seðlabanka um það hvernig staðið skyldi að málum. Það var ekki alveg að mínu mati miðað við það sem kemur fram í fréttum, það var t.d. um miðjan apríl sem hæstv. utanríkisráðherra sagði að bankarnir gætu búist við stuðningi ríkisvaldsins og þá sagði formaður bankastjórnar Seðlabankans að það væri meginverkefni bankanna að bjarga sér sjálfir.

Hæstv. forseti. Ég tel engu að síður ástæðu (Forseti hringir.) til að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin þótt þau hefðu mátt vera nákvæmari.



[14:31]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu ítreka að á þeim mánuðum sem á undan eru gengnir hafa allir sem að þessum málum hafa komið að sjálfsögðu lagt sig alla fram við úrlausn mála eins og ætlast verður til. Fyrr á árinu hefði verið tekið erlent lán ef það hefði fengist á viðunandi kjörum. En því var ekki að heilsa. Þess vegna þýðir ekkert um það að tala í dag.

Við héldum í einlægni fyrr á árinu að botninum væri náð í þessum efnum og ég lét þau orð falla hér úr ræðustóli Alþingis í marslok eins og margir hafa rifjað upp. Við sáum ekki fyrir að lausafjárkreppan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum mundi breytast í efnahagslega heimskreppu eins og hún er núna að verða. Og ég segi fyrir mig að mikið er ég feginn því að við Íslendingar erum um þessar mundir að koma okkar málum í skjól í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vinaþjóðir okkar áður en þessi fellibylur ríður af öllum þunga yfir nálæg lönd og önnur ríki sem þá munu eiga fullt í fangi með að hugsa um sín eigin mál og væntanlega ekki hafa mikið aflögu til að lána Íslendingum.

Við getum verið ánægð með það hversu langt mál eru komin núna. Við þurfum auðvitað að standa við það sem við höfum samið um, m.a. gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Auðvitað þurfum við fyrst af öllu að búa þannig um hnútana að við þurfum ekki að nota það lánsfé sem um er að tefla frá sjóðnum eða öðrum nema í mjög litlum mæli.

Hefðum við getað farið til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrr á árinu? Ég efast um að grundvöllur hefði verið fyrir því þá. Hv. frummælandi spurði hvaða kjör við hefðum þá getað fengið á lánum þar. Ég get ekki fullyrt það en ég held að það sé svipað og við eigum í (Forseti hringir.) vændum núna.