136. löggjafarþing — 36. fundur
 26. nóvember 2008.
tekjur af endurflutningi hugverka.
fsp. KolH, 165. mál. — Þskj. 196.

[14:58]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Þannig háttar til í skattkerfi okkar að eignatekjur bera 10% skatt. Þar er t.d. um að ræða leigutekjur af húseignum og öðrum eignum og hlunnindi, t.d. vegna bújarða og einnig má nefna veiðihlunnindi.

Listamenn hafa lengi sóst eftir því að tekjur af endursölu hugverka verði skattlagðar með sama hætti. Ekki er um það deilt að eðlilegt sé að tekjur af frumsölu hugverka séu skattlagðar sem launatekjur en þegar um endursölu er að ræða horfir málið öðruvísi við. Þá má líta svo á að hugverkið, sem eitt sinn aflaði höfundi sínum launatekna, sé orðið eign hans og beri því að skattleggja tekjur af endursölu þess sem tekjur af eign þeirri eða með 10% álagsprósentu.

Þetta er talsvert hagsmunamál fyrir listamenn þar sem fjöldi listamanna starfar í landinu og í ljósi hvatninga um að nú verði í auknum mæli horft til skapandi starfa við verðmætasköpun í samfélaginu og enduruppbyggingu efnahagskerfisins tel ég sjálfsagt að gera þessa leiðréttingu á kjörum listamanna, nefnilega að skattleggja tekjur vegna endursölu listaverka með svipuðum hætti og eignatekjur.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra 6. maí í vor hvort hann teldi koma til greina að gera þessa breytingu. Hann svaraði því til að starfshópur væri að störfum í fjármálaráðuneytinu, hann samanstóð af starfsmönnum ráðuneytisins og fulltrúum ríkisskattstjóra og átti að fjalla um þessa skattlagningu, og ráðherrann undirstrikaði það í svari sínu að starfshópurinn væri ekki að störfum nema vegna þess að hann sjálfur teldi koma til greina að hugverk verði skattlögð á sama hátt og fjármagns- eða eignatekjur.

Áður hafði ég spurt hæstv. menntamálaráðherra sambærilegrar spurningar. Hún sagði í svari sínu að hún teldi koma til greina að hugverk gætu fallið undir skilgreiningu á eign í skattalegu tilliti en vísaði að öðru leyti til hæstv. fjármálaráðherra með frekari svör.

Í svari hæstv. fjármálaráðherra kom fram varðandi starfshópinn að gert væri ráð fyrir að hann skilaði vinnu sinni í júní sl. og á grundvelli þeirrar niðurstöðu ætlaði ráðherrann að taka ákvörðun um það hvort lengra yrði farið með málið. Nú eru liðnir u.þ.b. fimm mánuðir frá því að starfshópurinn átti að skila af sér til ráðherrans. Af því tilefni spyr ég:

Hverjar voru niðurstöður starfshóps ráðherra sem fjallaði um skattlagningu tekna af endurflutningi hugverka og hvaða breytinga er að vænta á skattlagningu slíkra tekna í kjölfarið?



[15:01]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Vinnu starfshópsins miðar vel áfram en hann hefur ekki enn skilað af sér. En ég á von á að það gerist fyrir áramót og þá verður tímabært að taka afstöðu til þessa áhugaverða máls.



[15:01]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég átti von á lengra svari frá hæstv. ráðherra en þá liggur fyrir að starfshópurinn hefur enn ekki skilað af sér en kemur til með að gera það fyrir áramót. Ég mun að sjálfsögðu fylgjast með niðurstöðunni en afsakaðu, hæstv. forseti. Er þetta ekki orðinn fulllangur tími fyrir einn starfshóp til að skila niðurstöðu um mál sem ég hefði talið að ætti ekki að þurfa að vefjast mikið fyrir neinum? Sérstaklega ekki fólki sem þekkir vel til skattalaga og -reglna. Þannig að ég hef áhuga á að heyra frá hæstv. ráðherra hvort þetta viti á gott eða slæmt eða hvað vefjist fyrir starfshópnum?

Hvers vegna í ósköpunum þarf að taka meira en ár fyrir starfshóp að finna niðurstöðu í svo einföldu máli sem ég hefði talið að ætti að vera einfalt? Kannski er starfshópurinn með fleiri verkefni, ég þekki það ekki til hlítar. En ég hefði haldið að hægt ætti að vera að vinna þetta á skemmri tíma en hér er gert.



[15:02]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ekki er óeðlilegt að hv. þingmaður velti fyrir sér hvað dvelji starfið. En eins og hv. þingmaður veit hefur verið í ýmsu að snúast hjá starfsmönnum ráðuneytisins og ríkisskattstjóra á þessu tímabili og í því felast væntanlega skýringarnar á því að ekki hefur verið komist að niðurstöðu í starfshópnum.