136. löggjafarþing — 36. fundur
 26. nóvember 2008.
geymslumál safna.
fsp. KolH, 167. mál. — Þskj. 198.

[15:31]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Fyrirspurn sú sem ég hef hér lagt fram fyrir hæstv. menntamálaráðherra á sér rætur í umræðum sem fóru fram hér á síðasta þingi. Þá ræddum við í menntamálanefnd talsvert mikið um geymslumál Listasafns Íslands sem eru í miklum ólestri og fórum í sérstaka heimsókn til listasafnsins og sáum með eigin augum á hvern hátt málum er ábótavant í þeirri ágætu stofnun. Þar ríkir mikið ófremdarástand og menntamálanefnd var sammála um að vinda yrði bráðan bug á geymslumálum Listasafns Íslands. Í framhaldi af því rak svo á fjörur mínar skýrsla sem samin var fyrir menntamálaráðherra í nóvember 2006 sem varðar varðveislu- og geymslumál menningarstofnana. Sennilega er sú skýrsla kveikjan að því að á fjárlögum yfirstandandi árs eru 70 millj. kr. áætlaðar til að gera úrbætur í geymslumálum safna.

Ljóst er af skýrslu þeirri sem ég nefndi að það er mikil þörf til staðar en brýnustu varðveisluverkefnin samkvæmt skýrslu nefndarinnar eru hjá Listasafni Íslands og Þjóðskjalasafni Íslands og að þau verði leyst nú þegar. Það kemur líka fram í skýrslunni að það séu ákveðin áform um sameiginlegt þjónustu- og varðveisluhús fyrir höfuðsöfnin tvö sem starfa að safnalögum, þ.e. Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands, og að slíkt hús verði byggt á lóð Þjóðminjasafnsins við Vesturvör. Í skýrslunni er líka fjallað um þörfina á að taka ákvörðun um framtíðarsetur Þjóðskjalasafns Íslands við Laugaveginn. Það mál hefur líka komið til skoðunar í menntamálanefnd. Samkvæmt skýrslu nefndarinnar er talið að leigja þurfi eða byggja allt að 5.400 fermetra varðveislubyggingu fyrir fjargeymslur Þjóðskjalasafns Íslands og Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns og að full þörf sé á að veita fjármuni til að ljúka innréttingum í geymslum Kvikmyndasafns Íslands á næstu fimm árum. Að lokum telur nefndin svo að leigja þurfi eða byggja allt að 1.500 fermetra geymslubyggingu fyrir Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn.

Við skulum athuga það, hæstv. forseti, að hér er ekki um geymslur undir eitthvert gamalt dót að ræða. Hér er um að ræða geymslur yfir þjóðararfinn okkar, þjóðargersemar okkar. Það er mjög mikilvægt að búin verði til skipuleg eða heildstæð áætlun um það á hvern hátt eigi að forgangsraða í þessum málaflokki, hver fjárþörfin er og hvernig farið verði í framkvæmdir. Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra um stöðu þessara mála og er forvitin að fá að heyra hvernig þeim 70 millj. kr. sem ætlaðar eru til þessara mála á yfirstandandi fjárlagaári hefur verið ráðstafað.



[15:34]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spyr að því hvað líði úrbótum á geymsluhúsnæði Listasafns Íslands. Því er til að svara að unnið hefur verið að því að bæta brýnasta geymsluvanda listasafnsins í samvinnu við safnið sjálft og fasteignir ríkisins og það hefur gefist ágætlega. Þegar hefur verið samþykkt heimild fyrir auknu geymsluhúsnæði til bráðabirgða fyrir safnið í húsi Listaháskóla Íslands í Laugarnesi. Gert er ráð fyrir að þar verði sköpuð aðstaða fyrir safnið til að geyma m.a. umbúðir og flutningakassa, ýmsa rúmfreka safnmuni sem og aðra safngripi sem telst hentugt að varðveita í slíku húsnæði. Með flutningi slíkra safnmuna úr núverandi geymslum í hið nýja húsnæði skapast um leið svigrúm í húsnæði listasafnsins sjálfs til að búa og hlúa enn betur að þeim munum og listaverkum sem þurfa að vera í sérhæfðum geymslum við fullkomnar aðstæður til að fyllsta öryggis þeirra sé gætt.

Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta eru ekki bara einhverjir gamlir munir, þetta eru þjóðargersemar, þetta er hluti af okkar menningararfi. Það má m.a. þess vegna segja að það var ástæðan fyrir því að ég lét gera skýrsluna um geymslumál safna. Ég vissi að það yrði ekkert mjög þægilegt fyrir starfandi ráðherra en þetta er hluti af þeirri ábyrgð sem við og hv. þingmaður öxlum m.a. sameiginlega, að við þurfum að bæta. Það hefur að hluta til verið gert en samt ekki nægilega. Ég kem að því síðar.

Tekin hefur verið ákvörðun um að koma listaverkum úr Ásgrímssafni sem eins og hv. þingmaður, sem er vel inni í þessum málum, veit að er ekki nægjanlega öruggt húsnæði. Við erum búin að koma listaverkum þaðan í varanlega geymslu og nú er m.a. verið að vinna enn frekar að því og tryggja að verkin verði flutt í geymslur í aðalsafni og í geymslu Listasafns Íslands í Listaháskólanum í Laugarnesi.

Hvað varðar þær 70 millj. kr. sem er að finna í fjárlögum yfirstandandi árs og ætlaðar eru til úrbóta í geymslumálum safna þá hefur þeim fjármunum ekki verið ráðstafað í heild, ekki settir á einn stað, enda er unnið að frekari stefnumörkun vegna allrar húsnæðisþarfar menningarstofnana ráðuneytisins þar sem geymslumálin sjálf eru bara hluti af húsnæðisvanda þeirra, eins og hv. þingmaður veit. Við þurfum að koma upp varanlegu húsnæði fyrir Þjóðskjalasafnið, hluti af því eru geymslurnar en stærri hluti þess verks er náttúrlega að starfsumhverfi þess sé meira en viðunandi. Því er verið að skoða geymslumálin í samhengi m.a. við stefnumörkun um framtíðarhúsnæði nokkurra menningarstofnana. Hluta þessa fjár, 70 milljóna, verður varið til að kosta þær breytingar á geymslumálum Listasafns Íslands sem ég rakti að framan en heildarútgjöld vegna þeirra breytinga liggja ekki fyrir, en 70 milljónirnar verða að hluta settar í það.

Þjóðskjalasafn Íslands hefur einnig fengið til afnota geymslurými til bráðabirgða í sama húsnæði Listaháskólans sem hefur gert Þjóðskjalasafninu kleift að tæma tímabundið hluta þess húsnæðis sem það hefur yfir að ráða í gömlu mjólkurstöðinni við Laugaveg sem síðan hefur verið unnið við að endurbæta og laga að framtíðarþörfum safnsins. Þegar þeirri vinnu verður lokið verður umrætt húsnæði tilbúið til að taka á móti gögnum, sem flutt voru annað tímabundið, með þeim hætti sem hentar til framtíðarvarðveislu þeirra.

Við erum að huga annars vegar að tímabundnum brýnum verkefnum, passa upp á verðmæti sem verða að komast í varanlega geymslu og það kostar heilmikla fjármuni, m.a. þær 70 milljónir sem til staðar eru, og hins vegar þurfum við að huga að framtíðarhúsnæði yfir þessar menningarstofnanir. Ég hef sagt það áður að brýnustu verkefnin varðandi húsnæðismál á sviði menningarmála eru náttúrlega að halda áfram endurbótum og uppbyggingu Þjóðleikhússins, það þarf að klára það verk að mínu mati og huga líka að stækkun. Nú eru aðrar aðstæður en þetta er engu að síður það verkefni sem við blasir. Það sama á við um Þjóðskjalasafnið og listasafnið. Verkefni og erfiðleikar Listasafns Íslands tengjast ekki bara geymslumálum, þau tengjast líka því að það þarf aukið húsnæði til sýningarrýma og til annars konar rýma fyrir þá starfsemi sem er innan safnsins.

Auðvitað má segja að þetta sé framtíðarmúsík en ég held að það sé mikilvægt að við ræðum þetta og áttum okkur á því þegar við stöndum frammi fyrir erfiðri forgangsröðum hvar eigi að bera niður. Þetta eru alveg tvímælalaust þau verkefni sem ég legg áherslu á sem menningarráðherra að við þurfum að ráðast í. Hvenær það verður er ekki gott að segja. Ég vil líka minna á að við erum með í gangi núna Árnastofnun þar sem hönnunarkostnaður liggur fyrir og hönnunarvinnan er á fleygiferð. Við munum að sjálfsögðu halda áfram með það verkefni (Forseti hringir.) fyrir aðrar dýrmætar eigur þjóðarinnar sem eru náttúrlega handritin okkar. Við erum að halda áfram (Forseti hringir.) uppbyggingu þó að við förum stundum hægt, frú forseti.



[15:40]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að ráða í þetta svar hæstv. ráðherra. Ég skil hana þó þannig að hún líti á það sem sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að gera úrbætur, að forgangsraða og tryggja að geymslumál safnanna verði í viðunandi horfi til langrar framtíðar. Á sama tíma getur hún ekki svarað því með skýrum hætti hvernig þessum 70 milljónum hefur verið ráðstafað. Ég les það út úr svari hæstv. ráðherra að þær hafi að hluta til farið í að bæta úr brýnni þörf Listasafns Íslands en það sé þó einungis tímabundin ráðstöfun, bráðabirgðaráðstöfun í húsi Listaháskóla Íslands í Laugarnesi. Eftir því sem ég best veit er það hús á sölulista og sú lausn þá ekki nema til einhverrar skammrar framtíðar. Ég sé því ekki betur en að peningarnir hafi farið í þessa bráðabirgðalausn og mögulega í einhvers konar bráðabirgðalausn á sama stað fyrir Þjóðskjalasafnið. Þar með sýnist mér að hæstv. ráðherra hafi farið illilega á svig við þær tillögur sem hún fékk í nóvember 2006, þ.e. fyrir tveimur árum síðan, þar sem raðað er niður hver séu brýnustu verkefnin og hvað það sé nákvæmlega sem þurfi að gera.

Geymsla Þjóðminjasafnsins í Vesturvör er ónýt þar sem bátarnir eru og stærstu munirnir. Hugmyndir skýrsluhöfunda ganga út á það að Listasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands geti á einhvern hátt samnýtt geymsluhúsnæði og í skýrslunni er lagt til að þessar tvær stofnanir fái byggingu sem henti þeim og þær geti nýtt sameiginlega. Þetta nefndi hæstv. ráðherra ekki í svari sínu.

Ég lít því svo á, hæstv. forseti, að hér hafi lítið gerst annað en að mögulega hafi einhverjir eldar verið slökktir á þessu ári sem við höfum þó haft 70 milljónir (Forseti hringir.) úr ríkissjóði í þessi brýnu verkefni.



[15:42]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mótmæli því eindregið að lítið hafi verið gert í geymslumálunum. Við greindum vandann og hann var náttúrlega brýnn. Hann var annars vegar brýnn og hins vegar vandi sem við þurfum að leysa til lengri tíma. Þar tengjast húsnæðismálin. Það er ekki hægt að slíta í sundur annars vegar geymsluvandann til lengri tíma og síðan húsnæðismál þessara menningarstofnana. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála hvað það varðar að finna þarf varanlegt húsnæði fyrir þær stofnanir sem ég talaði um.

Það er hins vegar alveg rétt að við höfum ekki fundið varanlegar geymslur í heild sinni fyrir listasafnið, Þjóðminjasafnið og hugsanlega Þjóðskjalasafnið líka til lengri tíma. Við höfum einfaldlega ekki fundið slíkt húsnæði og við gátum ekki og höfðum ekki fjármuni til að ráðast í byggingu sem væri sérstaklega ætluð sem geymsla. Ég held hins vegar að hluti af þeirri heildarmynd sem blasir við okkur og við þurfum að ná niðurstöðu um sé að líta til þeirra kosta að samnýta geymslur þessara menningarstofnana og það verði þá þvert á menningarstofnanir. Við höfum ekki enn fundið slíkar lausnir.

Mikilvægast fyrir okkur er að menningarverðmætin glatist ekki, að þau eyðileggist ekki. Það er að sjálfsögðu rétta forgangsröðunin að setja þau verk og þá muni sem eru í bráðri hættu í slíkar geymslur, vel útbúnar geymslur og góðar geymslur, að þeir eyðileggist ekki. Þessum fjármunum, þ.e. 70 milljónum, höfum við varið m.a. í að setja yfir muni í Listasafni Íslands, yfir skjöl úr Þjóðskjalasafninu til að byggja þar þannig umhverfi að ekki hljótist skaði af. Það er hinn bráði vandi, síðan getum við alltaf rætt um framtíðarmúsíkina eins og ég talaði um, hvernig við sjáum hag Listasafns Íslands til lengri tíma borgið, Þjóðminjasafnsins, Þjóðleikhússins og síðan ekki síst Náttúruminjasafnsins sem við höfum oft rætt í þessum sal.