136. löggjafarþing — 42. fundur
 4. desember 2008.
skipalyftan í Vestmannaeyjum.

[10:49]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um málefni skipalyftunnar í Vestmannaeyjum.

Hinn 17. október 2007 eyðilagðist ein mikilvægasta lífæð atvinnu í Vestmannaeyjum þegar skipalyftan eyðilagðist. Síðan hefur málið staðið í miklu þófi og í blaðinu Fréttum sem nýlega kom út er haft eftir Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, undir fyrirsögninni: „Ráðherra svari“ að bærinn sé tilbúinn með fjármuni og áætlun en það standi á svörum frá hæstv. samgönguráðherra. Hann segir orðrétt í viðtalinu:

„Nú er svo komið að við verðum að fá svar af eða á frá samgönguráðherra. Við hjá bænum höfum tekið frá fé til að ráðast í þetta og værum klár á morgun ef samgönguráðherra stæði við aðkomu ríkisins.“

Í blaðinu er enn fremur viðtal við Stefán Jónsson, framkvæmdastjóra skipalyftunnar, þar sem hann segir hárrétt að ótækt sé að stærsta verstöð landsins sé án upptökumannvirkja. Hann segir einnig að málið hafi tafist vegna málskots til ESA sem afar auðvelt sé að leysa með því að veita fyrirgreiðsluna með fyrirvara um þá niðurstöðu, það sé ekki eðlilegt að stærsta verstöð landsins sé án upptökumannvirkja. Síðan segir hann orðrétt:

„Við erum með öfluga útgerð og við viljum þjónusta hana vel. Málið er komið í þá stöðu að það þarf að taka ákvörðun um hvort menn vilji fara í þetta eða ekki. Það er fyrst og fremst ákvörðun samgönguráðherra með stuðningi fjármálaráðherra.“

Þetta segir Stefán Jónsson, verkstjóri skipalyftunnar.

Ég spyr hæstv. ráðherra hverju hann svari Vestmannaeyingum í þessu brýna hagsmunamáli þeirra.



[10:51]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti gerir ekki athugasemdir við tilvitnanir í það ágæta blað sem hv. þingmaður var með í höndunum en minnir á þá reglu þingskapa að óskað sé heimildar til þess að vitnað sé í skrifaðan texta.



[10:51]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Málefni skipalyftunnar í Eyjum hafa verið lengi og sumir segja auðvitað allt of lengi í kerfinu. Sem þingmaður í samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili vann ég að samgönguáætlun og man eftir því að þar voru settar inn 200 millj. kr. sem voru eyrnamerktar skipalyftunni í Vestmannaeyjum vegna viðgerða.

Hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður minnist á að málinu var skotið til ESA og þar hefur það verið mjög lengi. Eftir því sem ég veit best er ekki enn komin skrifleg niðurstaða frá ESA en ég bendi á að það verkefni er á vegum fjármálaráðuneytis. Við í samgönguráðuneytinu höfum hins vegar átt a.m.k. tvisvar sinnum fund með fulltrúum ESA, í annað skiptið hér heima og í hitt skiptið úti, þar sem þetta var rætt.

Ég ítreka að skrifleg niðurstaða er ekki komin þó svo að menn á vegum ráðuneytanna tveggja séu farnir að tala um að niðurstaðan sé komin. En vonandi verður hún á þann veg að ESA muni ekki koma og lemja okkur í hausinn fyrir þá leið sem verður valin, að það verði samþykkt leið.

Ég átti nýverið fund með fulltrúum frá skipalyftunni í Vestmannaeyjum og bæjaryfirvöldum í Vestmannaeyjum á aðalfundi SSS, Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi, þar sem farið var vel yfir þetta mál og það rætt. Í framhaldi af því hefur það verið í vinnslu hjá aðstoðarmönnum, annars vegar mínum og hins vegar aðstoðarmanns hæstv. fjármálaráðherra, og ég hef fulla trú á því að málið sé að þokast vel áfram. En vegna þeirra atriða sem skotið var til ESA og er verið að ræða þar, og ég tek það skýrt fram að það er fyrst og fremst þess vegna sem tafir hafa orðið á málinu. Það er rétt (Forseti hringir.) að hafa það líka í huga, virðulegi forseti, — ja, ég kem kannski að því í síðari ræðu.



[10:53]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Mér láðist að ávarpa herra forseta og vitna rétt, sem er auðvitað ekki gott mál. Ég hef þó meiri áhyggjur af stjórnarskránni en því.

Ég verð að taka það fram í þessu samhengi að Vestmannaeyjar eru eyjabyggð. Um eyjabyggðir og jaðarbyggðir gilda sérreglur, samkvæmt reglum Evrópusambandsins. Það má veita þeim styrki til að styrkja atvinnuuppbyggingu. Það er ekkert að því og það eru fjöldamörg dæmi um undanþágur veittar jaðarbyggðum eða eyjasamfélögum.

Málið var einfaldlega unnt að leysa strax eftir að skipalyftan hrundi með fyrirgreiðslu og setja áskilnað með fyrirvara í þá fyrirgreiðslu um niðurstöðu ESA. Eftir það var hæglega unnt, ef niðurstaða ESA hefði orðið okkur andstæð, (Forseti hringir.) að breyta þeirri niðurstöðu. Það er auðvitað óþolandi að ESA eða Evrópusambandið sé dragbítur á atvinnu í landinu.



[10:54]
samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Jú, jú, það er öllum auðvitað kunnugt um að Vestmannaeyjar eru eyjabyggð, það er ekkert nýtt og hefur verið unnið eftir því. Ég hef svo sem ekki miklu við fyrra svar mitt að bæta öðru en því að ég á þá ósk auðvitað heitasta að niðurstaða komi sem fyrst í þetta mál. Við verðum líka að gæta að okkur að gera þetta ekki þannig að við fáum ESA í hausinn vegna þess að við vitum af því, og það er kannski að tefja málið, að það eru ýmsir hér innan lands sem vaka yfir þessu máli og bíða eftir niðurstöðu og nefni ég engin nöfn önnur en samkeppnisaðila. Það er öllum ljóst og hefur alla tíð verið og þess vegna er eins gott að fara rétt að í þessu máli og fá góða niðurstöðu áður en farið er í framkvæmdir.

Ég nefndi það áðan, virðulegi forseti, að aðstoðarmenn okkar hafa verið að vinna að þessu máli, svo og þingmenn stjórnarflokkanna í umræddu kjördæmi sem eru drjúgir við það og minna oft á þetta mál og ýta á eftir því. En eins og ég segi þá á ég enga ósk heitari en að farsæl niðurstaða fáist í þetta mál en það verður þá innan þess (Forseti hringir.) ramma að við fáum ekki á okkur kæru út af málinu á eftir.