136. löggjafarþing — 42. fundur
 4. desember 2008.
viðvaranir Seðlabankans um ástand bankakerfisins.

[10:56]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Davíð Oddsson seðlabankastjóri kom á fund viðskiptanefndar í morgun til þess að gera grein fyrir afstöðu Seðlabankans vegna hruns bankanna á síðustu mánuðum. Í máli hans kom fram að stjórn Seðlabankans hefur á undangengnum mánuðum margvarað ráðherra ríkisstjórnarinnar við hruni bankanna. Eru þar nefndir forustumenn stjórnarflokkanna Geir H. Haarde, hæstv. forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hæstv. utanríkisráðherra.

Í júní sl. fundaði yfirstjórn Seðlabankans með ráðherrum í ríkisstjórn Íslands þar sem kom fram að það væru 0% líkur á því að bankarnir mundu lifa aðsteðjandi erfiðleika af, 0% líkur. Þetta vissi ríkisstjórnin í júní sl.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. bankamálaráðherra hvort hann hafi verið á umræddum fundum og hvort hann hafi verið á mörgum fundum með yfirstjórn Seðlabanka Íslands. Það virðist vera, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra hafi ekki verið efnislega mikið inni í erfiðleikum bankanna því að hæstv. ráðherra skrifaði í Viðskiptablaðið í ágúst og á heimasíðu sína í september mikla lofræðu um stöðu íslensks efnahagslífs og banka. Það virðist því vera, hæstv. forseti, að hæstv. viðskiptaráðherra hafi einfaldlega verið haldið frá fundum með yfirstjórn Seðlabanka Íslands og þó erum við að ræða hér um sjálfan hæstv. bankamálaráðherrann.

Ég spyr því, hæstv. forseti: Hafði ráðherrann enga hugmynd um grafalvarlega stöðu bankanna í sumar og reyndar fyrr? Ég spyr jafnframt að lokum í ljósi erfiðra samskipta Samfylkingarinnar, ráðherra Samfylkingarinnar og þingmanna, hvort hæstv. viðskiptaráðherra beri yfir höfuð eitthvert traust til yfirstjórnar Seðlabanka Íslands.



[10:58]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Frá því að krónan féll um 30% í mars var öllum Íslendingum morgunljóst að við værum í efnahagslegum erfiðleikum. Það var hins vegar enginn sem spáði því, hvorki þá né síðar að það leiddi sjálfkrafa til þess að bankarnir féllu. Það gerist eftir fall Lehman Brothers 15. september og þá lausafjárkreppu sem nú ríkir alls staðar í heiminum.

Hins vegar liggur til grundvallar allri umræðunni stöðugleikaskýrsla Seðlabankans frá því í maí. Seðlabankinn hefur það hlutverk samkvæmt lögum að hafa eftirlit með fjármálalegum stöðugleika í landinu og í umræddri skýrslu kynnti Seðlabankinn formlega afstöðu sína til fjármálalegs stöðugleika í landinu og stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja sem hann sæi að væri samkvæmt skýrslunni almennt góð. Seðlabankinn dró það sterkt fram í skýrslunni að staða íslensku bankanna væri almennt góð borin saman við stöðu banka annars staðar í heiminum o.s.frv.

Hvað fór fram á einhverjum óskilgreindum fundum með seðlabankastjóra og einhverjum ráðherrum hef ég ekki hugmynd um. Ég fundaði með seðlabankastjóranum í nóvember árið 2007 og hitti Davíð Oddsson næst tæpu ári síðar á fundi ríkisstjórnar í september sem margfrægt er þegar hann kom þar og lagði til myndun þjóðstjórnar. Það var í fyrsta sinn sem ég hitti þann ágæta mann frá því í nóvember árið 2007. (Gripið fram í: Af hverju varstu ekki á fundinum?) Af hverju seðlabankastjóri kaus að kynna mér ekki viðhorf sín, sem þó komu ekki fram í gögnum bankans, formlegum og opinberum, eins og stöðugleikaskýrslunni hef ég ekki hugmynd um. Hann hlýtur að þurfa að svara fyrir það einhvers staðar annars staðar nema hann bregði fyrir sig bankaleynd, eins og hann gerði víst á fundi viðskiptanefndar í morgun þegar hann var spurður um yfirlýsingar sínar um það að hann vissi hvað varð til þess að Bretarnir ruddust inn í Singer & Friedlander. En alltént var ég ekki á þessum júnífundi og hef aldrei heyrt þessa frásögn hans. Ég hef hins vegar lesið ítarlega og margoft stöðugleikaskýrslu Seðlabankans frá því í maí þar sem (Forseti hringir.) ekkert slíkt kemur fram.



[11:00]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er grafalvarlegt ef ráðherra bankamála hefur ekki hugmynd um stöðu íslensks fjármálalífs, ef ráðherra bankamála er ekki kvaddur á fund með yfirstjórn Seðlabanka Íslands sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eiga sæti í.

Það er grafalvarlegt, hæstv. forseti, ef forustumenn ríkisstjórnarinnar sem eiga að boða ráðherra sína með á svona fundi hafa ekki boðað hæstv. viðskiptaráðherra á þá. Og það er grafalvarlegt, hæstv. forseti, að viðskiptaráðherra skuli ekki hafa átt nein samskipti við yfirstjórn Seðlabanka Íslands frá því í nóvember á síðasta ári. Heilt ár leið á meðan gjörningaveður gekk yfir íslenskt efnahagslíf og íslensk fjármálafyrirtæki.

Það er grafalvarlegt, hæstv. forseti, að ekkert traust skuli ríkja á milli ráðherra Samfylkingarinnar og (Forseti hringir.) yfirstjórnar Seðlabanka Íslands og ég endurtek spurningu mína hvort hæstv. ráðherra treysti yfirstjórn Seðlabanka Íslands eins og málum er nú fyrirkomið.



[11:01]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú skulum við líta á staðreyndir. Í úthendunni Fjármálastöðugleiki árið 2008, sem var kynning Seðlabanka Íslands fyrir fréttamenn og bankana 8. maí árið 2008, stendur um stöðu bankanna, með leyfi forseta:

„Eiginfjárhlutföll bankanna eru viðunandi, afkoma þeirra úr fjölbreyttum rekstri er góð og eignir dreifðar. Lausafjárstaða bankanna hefur verið viðunandi en á hana reynir í ár.“

Þetta er orðrétt upp úr fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans frá því í maí og í sérstakri kynningu fyrir banka og fréttamenn 8. maí.

Þetta kemur fram í opinberum gögnum Seðlabankans. Af hverju blessaður bankastjórinn heldur því fram að hann hafi sagt eitthvað annað á óskilgreindum fundum með einhverju fólki sem hann nefnir ekki einu sinni til sögunnar hef ég ekki hugmynd um.

Þetta eru opinber gögn frá Seðlabanka Íslands og hví skyldum við vefengja þau? Hér stendur nákvæmlega það (Gripið fram í.) sem ég las upp áðan að Seðlabankinn sagði að lausafjárstaða bankanna, sem hann hefur formlegt eftirlitshlutverk með, (Forseti hringir.) væri góð og á hana hefði reynt, (Forseti hringir.) eiginfjárhlutföll væru viðunandi o.s.frv.