136. löggjafarþing — 45. fundur
 8. desember 2008.
frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 179. mál (framlenging aðlögunartíma). — Þskj. 222.

[16:12]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga með síðari breytingum.

Þann 1. ágúst 2007 tóku gildi samningar um inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í Evrópska efnahagssvæðið en í samningaviðræðum um aðild ríkjanna að Evrópusambandinu var gert ráð fyrir að sömu reglur giltu á öllu svæðinu. Í samningnum um inngöngu ríkjanna í Evrópusambandið var þó ekki gert ráð fyrir að þau ákvæði í löggjöf Evrópusambandsins er varða frjálsa för ríkisborgara þessara ríkja sem launamanna innan svæðisins taki gildi fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2009. Enn fremur var aðildarríkjum Evrópusambandsins gert heimilt að fresta gildistöku þessara tilteknu ákvæða í tveimur áföngum í allt að 5 ár til viðbótar eða til 1. janúar 2014. Frá árinu 2007 hafa ákvæði í löggjöf Evrópusambandsins sem varða frjálsa för því ekki gilt um ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu sem launamanna innan sambandsins. Einstök ríki Evrópusambandsins gátu hins vegar við inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu sett samhljóða ívilnandi reglur í landslög og hvenær sem er síðan á fyrsta tveggja ára aðlögunartímabilinu, allt til 1. janúar 2009. Sérstaklega var þó kveðið á um að ríkinu væri ekki heimilt að setja strangari skilyrði fyrir dvalar- og atvinnuréttindum ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu en giltu á þeim degi er ríkin tvö gerðust aðilar að Evrópusambandinu.

Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa sömu heimildir og Evrópusambandsríkin til að beita tímabundnum takmörkunum varðandi frjálsa för launamanna frá Búlgaríu og Rúmeníu á yfirráðasvæðum viðkomandi ríkja. Samkvæmt ákvæðum aðildarsamnings EES frá 2007 um frjálsa för launafólks er gert ráð fyrir að hvert aðildarríki beiti eigin landslögum og/eða ákvæðum tvíhliða samninga um aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að vinnumarkaði sínum fyrstu tvö árin frá stækkun svæðisins.

Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi 13. júní 2007 um breytingu á lögum vegna samnings um þátttöku lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu nýttu íslensk stjórnvöld sér fyrrnefndar heimildir til að takmarka aðgang ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að innlendum vinnumarkaði. Löggjöf Evrópusambandsins heimilar enn frekari frestun á gildistökuákvæðum um frjálsa för í allt að þrjú ár til viðbótar eða til 1. janúar 2012. Þeim ríkjum sem kjósa að gera slíkt ber að tilkynna það framkvæmdastjórninni. Sendi ríki ekki frá sér slíka tilkynningu verður litið svo á að ákvæðin er varða frjálsa för ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu sem launamanna innan svæðisins taki að fullu gildi að því er varðar þau ríki frá 1. janúar 2009. Ríkjunum er heimilt að hverfa frá takmörkunum sem þau hafa viðhaft og taka upp hinar sameiginlegu reglur bandalagsréttarins um frjálsa för launafólks. Geri þau það er hins vegar ekki unnt að snúa til baka, þ.e. frá hinum sameiginlegu reglum Evrópusambandsins til ákvæða í landslögum, nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum sem m.a. lúta að aðstæðum á vinnumarkaði.

Að því er varðar EES- og EFTA-ríkin ber þeim að tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA fyrir fram um áætlanir sínar um frestun á gildistöku umræddra ákvæða. Samkvæmt upplýsingum Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nýta öll gömlu Evrópusambandsríkin að Finnlandi og Svíþjóð undanskildum umræddar heimildir til að takmarka aðgang ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að vinnumarkaði viðkomandi ríkja og samkvæmt sömu heimildum bendir allt til þess að svo verði áfram.

Virðulegi forseti. Ljóst er að vegna þrenginga í efnahagslífi þjóðarinnar ríkir nokkur óvissa um stöðu og þróun á innlendum vinnumarkaði á næstu mánuðum. Atvinnuleysi hefur aukist hratt undanfarnar vikur og mældist 1,9% í október 2008. Miðað við skráningu fólks á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar nú í nóvember má gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,4% um mánaðamótin nóvember/desember 2008 og verði nálægt 8% um mánaðamótin janúar og febrúar 2009. Á innlendum vinnumarkaði hafa aðstæður því breyst mjög hratt til hins verra á undanförnum vikum og erfitt að meta hversu langt er að bíða þess að atvinnuástand batni á nýjan leik. Að teknu tilliti til þessara aðstæðna og þá sér í lagi þeirrar óvissu sem ríkir er lagt til með frumvarpi þessu að gildistökuákvæði 1.–6. gr. reglugerðar nr. 1612/68/EBE, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, ásamt síðari breytingum, verði enn frestað tímabundið til 1. janúar 2012 að því er varðar aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að íslenskum vinnumarkaði. Í því skyni eru með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga þess efnis að ákvæði laganna sem snúa að takmörkun á frjálsri för ríkisborgara þessara ríkja sem launamanna innan svæðisins haldi gildi sínu fram til 1. janúar 2012. Þannig er gert ráð fyrir að ákvæði fyrrnefndra laga um rétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu til að starfa hér á landi sem launamenn gildi áfram fram til 1. janúar 2012 .

Virðulegi forseti. Þessar breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins og lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga sem ég hef rakið hér að framan eru lagðar til í ljósi þess ástands sem ríkir á innlendum vinnumarkaði um þessar mundir. Við verðum að bregðast við ástandinu með öllum tiltækum ráðum í því skyni að lágmarka eins og kostur er þann skell sem heimilin í landinu verða fyrir þessa dagana. Okkur ber einfaldlega skylda til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga eins mikið og við getum úr yfirvofandi atvinnuleysi hér á landi á komandi vikum og mánuðum. Einnig verðum við að nýta okkur áfram þær heimildir sem ég hef lýst.

Ég vil geta þess að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpi þessu í lögum um útlendinga eru gerðar í fullu samráði við hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra og við smíði frumvarpsins var enn fremur haft samráð við utanríkisráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. félags- og tryggingamálanefndar.



[16:19]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á af því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, í fyrsta lagi að þegar reglur Evrópusambandsins hafa verið teknar upp verður ekki unnt að snúa til baka eins og segir í greinargerð með frumvarpinu og kom fram í máli hæstv. ráðherra, þ.e. frá hinum sameiginlegu reglum til ákvæða í landslögum. Með öðrum orðum, þegar Evrópusambandsreglurnar hafa verið teknar upp, hvort sem við gerum það sem EES-ríki eða aðildarríki Evrópusambandsins, missa menn forræðið á því að breyta þeim. Það verður ekki snúið til baka. Það liggur alveg ljóst fyrir og það er ástæða til að vekja athygli á því.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, rökstyður hæstv. ráðherra þessa breytingu sem er sú að fresta því að opna vinnumarkaðinn hér á landi fyrir vinnuafli frá Rúmeníu og Búlgaríu með tilvísun til ástands heimilanna á Íslandi. Aðgerð til þess að verja stöðu heimilanna í ástandinu á Íslandi í dag er sem sé sú að opna ekki vinnumarkaðinn. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Til hvaða ráða hefði ráðherrann gripið ef við hefðum verið í dag í Evrópusambandinu og reglurnar gengið í gildi eins og þær munu gera?

Ég held að það sé ástæða til að fá fram (Forseti hringir.) úrræðin sem menn eiga þá á hendi til að beita síðar meir við sambærilegar aðstæður.



[16:22]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig í ræðu minni áðan hafa skýrt af hverju við grípum til þess ráðs að framlengja þetta ákvæði sem við getum svo enn framlengt til 2014 ef ástæða er til. Ef ég man það rétt, sem ég skal skoða nánar, er hægt að framlengja þetta lengur ef mjög sérstakar aðstæður eru á vinnumarkaði. Ég þarf bara að skoða það. Það er svolítið síðan ég skoðaði þessi ákvæði.

Við getum bara ekki valið úr eitt og hafnað öðru. Þetta er með þeim hætti að við höfum tekið upp þennan EES-samning og búið við hann í langan tíma. Ég hygg að flestir hafi góða reynslu af honum og hafi ekki viljað snúa til baka með það. Við sem heild og þjóðarbúið höfum haft af honum ávinning.

Ég hygg að aðstæður séu þannig núna á vinnumarkaðnum þar sem við sjáum fram á verulegt atvinnuleysi eins langt og við getum spáð, kannski um 8%, að full ástæða sé til þess að takmarka áfram frjálsa för þessara þjóða til landsins. Eins og sagði áðan hafa flestar Evrópuþjóðirnar tekið upp þetta ákvæði og nýtt sér það, þessa framlengingu. Það er ekki vafi í mínum huga að við erum að gera rétt með því að framlengja þetta ákvæði nú.



[16:23]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ágreining við ráðherrann um það. Það er rétt að beita þessu úrræði í ljósi vaxandi atvinnuleysis og þeirra slæmu horfa sem eru á vinnumarkaði í náinni framtíð.

Ég vek hins vegar athygli á því að ekki er beitt ákvæðum EES-samningsins, 112.–113. gr., sem gefur stjórnvöldum heimild til að takmarka aðgengi að íslenskum vinnumarkaði samkvæmt ákvæðum sem þar greinir frá. Það er ekki verið að nota þær heimildargreinar í samningnum heldur er frestað með vísan til ákvæða sem sett voru þegar þessi ríki gengu í Evrópusambandið. Þau ákvæði renna út árið 2014 í síðasta lagi. Það er mér tilefni til að spyrja — komi upp sambærilegar aðstæður þá og núna eru — hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hafi til þess að verja stöðu íslenskra heimila. Rökstuðningur ráðherrans fyrir aðgerðum núna er sá að verja stöðu íslenskra heimila en ekki hefur verið hægt að nota neitt ákvæði til þess að takmarka aðgang inn á íslenskan vinnumarkað.

Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða úrræði hún mundi þá leggja til að yrði beitt í ljósi þess að ráðherrann telur nauðsynlegt að við göngum í Evrópusambandið.



[16:25]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ósk mín og von og sjálfsagt síðasta ræðumanns líka að atvinnuástandið breytist fyrr hér en að við þurfum að búa við svona þrengingar í mörg ár í viðbót. Við vonum að það geti farið að birta til á íslenskum vinnumarkaði innan ekki margra missira.

Ég sagði áðan að við gætum framlengt þetta ákvæði, sem við erum nú að framlengja, til 2012–2014. Ef það er mjög slæmt ástand á vinnumarkaðnum eftir 2014 er hægt að framlengja ákvæðið í samningum við EES áfram. Við hljótum bæði að undirstrika að við hljótum að vinna okkur miklu fyrr út úr þessum hremmingum sem við erum í núna.



[16:26]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Meginröksemdafærsla hæstv. félagsmálaráðherra fyrir frumvarpi því sem hér liggur fyrir er sú að draga þurfi svo mikið sem unnt er úr áhrifum efnahagskreppunnar á íslenskan atvinnumarkað en ég vil halda fram því sjónarmiði hér, hæstv. forseti, að þessi aðgerð í sjálfu sér hafi ekkert með þann tilgang að gera. Mér er nefnilega til efs að framlenging þeirra takmarkana sem hér er mælt fyrir um komi að miklu eða jafnvel nokkru marki til með að hafa áhrif á íslenskan vinnumarkað.

Þeir einstaklingar sem leita sér að störfum innan Evrópska efnahagssvæðisins reyna að sækja til þeirra svæða þar sem atvinnuástand er sæmilegt. Nú háttar svo til hér að atvinnuástand er allt annað en sæmilegt. Það er verulega slæmt þannig að ég velti fyrir mér hvaða hætta sé yfirvofandi vegna þeirra 8 milljóna Búlgara og 22 milljóna Rúmena á vinnumarkaði sem telur um 500 milljónir manna og er opinn evrópskum vinnumarkaði. Mér finnst í sjálfu sér ekki sannfærandi að það sé einhver þörf á því að loka þessum markaði sem við erum nú þegar inni á fyrir aðilum frá þessum tveimur löndum.

Þegar þessum lögum var breytt í þeim tilgangi að nýta okkur aðlögunarfrestinn síðast, þ.e. lög sem tóku gildi 13. júní 2007, höfðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrirvara á því að við skyldum nýta okkur frestinn og rökstuddum hann með þeim hætti að við teldum að ekki hefði verið rökstutt í umræðunni með fullnægjandi hætti að ástæða væri til að beita þeirri aðlögun. Við sátum hins vegar hjá við málið af því að við ákváðum að leggja ekki neinn stein í götu þess ef stjórnvöld vildu fara þessa leið og lýstum ábyrgðinni á hendur stjórnvalda.

Í nefndaráliti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skilaði við þá umræðu kvartaði hann undan því að aðlögunartíminn frá 2004 hefði ekki verið notaður nægilega vel og að enn hefði skort á markvissa heildarstefnu stjórnvalda og miklu markvissari aðgerðir í málefnum innflytjenda sem koma hingað til lands til vinnu til lengri eða skemmri tíma. Hann krafði ríkisstjórnina um að taka sér tak, vinna heimavinnuna sína og rökstyðja þetta með þeim hætti að fullnægjandi væri.

Frestun á frjálsri för borgara frá Rúmeníu og Búlgaríu dregur að okkar mati ekki á nokkurn hátt úr þörfinni fyrir það að íslensk stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins beiti sér með beittari og markvissari hætti en gert hefur verið hingað til gegn því að erlent launafólk sæti félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Þau hafa verið til staðar. Ég sé ekki að á þeim tíma sem liðinn er frá því í júní 2007 hafi verið gert eitthvað meira en gert hafði verið á aðlögunarfrestinum. Ég kvarta enn undan því að íslensk stjórnvöld skuli hafa látið undir höfuð leggjast að fara í þá vinnu sem við töldum á 134. löggjafarþingi nauðsynlegt að fara í.

Meðan á þessum aðlögunarfresti stendur má gera ráð fyrir því að borgarar frá Rúmeníu og Búlgaríu komi hingað í hópi þess vinnuafls sem kemur hingað í gegnum starfsmannaleigur. Við höfum kvartað undan því vegna þeirra einstaklinga sem koma í gegnum starfsmannaleigurnar að þar sé hætta á verulega slakri stöðu gagnvart íslenskum kjarasamningum og réttindum á íslenskum vinnumarkaði. Við teljum óviðunandi að fólk skuli þurfa að lúta því og teljum fulla ástæðu til þess að íslensk stjórnvöld taki af alvöru á þessum málum. Hins vegar er, eins og ég sagði í upphafi, hættan kannski ekki jafnmikið til staðar núna og þegar við ræddum þetta mál hér síðast vorið 2007.

Ég vil svo bara segja í lok míns máls, hæstv. forseti, að það kom fram í máli hæstv. ráðherra að gömlu ESB-löndin muni að öllum líkindum nýta sér frestina til 1. janúar 2012. En það kemur líka fram í máli hæstv. ráðherra að Finnland og Svíþjóð hafi ákveðið að gera það ekki. Ég hefði viljað fá að vita við umræðuna hvaða rök Finnland og Svíþjóð höfðu fyrir því að nýta sér ekki frestinn og hvort hæstv. ráðherra telji ekki að við gætum farið í spor Svía og Finna úr því að þau tvö lönd hafa ákveðið að nýta sér þá ekki. Benda þá ekki líkur til þess að önnur ríki slaki þarna á og fari að dæmi þessara tveggja þjóða? Hvers vegna getum við þá ekki gert það líka?

Eins og ég segi tel ég að hér hafi menn ekki nýtt sér þann tíma sem liðinn er frá því að við breyttum þessum lögum síðast og ákváðum að nýta okkur aðlögunarfrestinn og sé ekki að ástandið sé með þeim hætti núna að það skipti sköpum að loka íslenskum vinnumarkaði fyrir borgurum þeirra tveggja þjóða sem hér um ræðir.



[16:32]
félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mál og ég heyri að ég og þeir tveir þingmenn sem hafa tekið til máls um það höfum á því skiptar skoðanir hvort það sé rétt og eðlilegt að við nýtum okkur frekari aðlögun í þessu efni.

Ég er fullkomlega sannfærð um að rétt sé að gera það. Ef við horfum til atvinnuleysis í öðrum Evrópulöndum þá mældist atvinnuleysi í Evrópuríkjunum samtals 6,9% að meðaltali á þriðja ársfjórðungi 2008 og 7,2% á árinu 2007. Við sjáum að t.d. Búlgaría var á þriðja ársfjórðungi 2008 með 5,6% atvinnuleysi sem hefur að vísu heldur dregið úr, var 6,9% á árinu 2007.

Ég tel því fulla ástæðu til þess miðað við það sem við horfum fram á á vinnumarkaðnum hér á landi að við beitum þessu ákvæði og við verðum auðvitað að gera það núna fyrir áramótin ef við ætlum að nýta það á annað borð. Það er annaðhvort að taka ákvörðun um það nú eða ekki. Við getum ekki tekið ákvörðun um það á næsta ári. Þarna er fyrst og fremst um að ræða öryggisatriði sem ég tel að við eigum að beita með tilliti til þess ástands sem er á vinnumarkaðnum.

Þó að atvinnuleysið mælist ekki mjög mikið einmitt í dag, en þó of mikið, þá stefnum við kannski í 7–8% atvinnuleysi í janúar sem er nálægt meðaltali annarra þjóða ef okkur tekst ekki að snúa því við. Ég tel þetta því fullkomlega eðlilegt öryggisatriði fyrir vinnuafl okkar að gera þetta með þessum hætti.

Af því að hv. þingmaður nefndi áðan að lítið hefði verið gert á umliðnum árum til þess að styrkja stöðu okkar og styrkja stöðu innflytjenda og þeirra sem koma til landsins þá hefur ýmislegt verið gert ef allrar sanngirni er gætt. Við höfum ekki gömul lög, ég held að það hafi verið á síðasta þingi sem sett voru ný lög um þjónustuviðskipti sem ég held að séu til mikilla bóta. Við höfum lög um starfsmannaleigur sem eru ekki mjög gamlar. Við höfum stefnumótun í málefnum innflytjenda og það sem er kannski hvað mikilvægast er að við erum að undirbúa og ganga frá frumvarpi, fyrsta frumvarpinu eða lögunum um málefni innflytjenda en slík lög hafa verið í gildi í mörg ár á hinum Norðurlöndunum. Þar lærum við af öðrum þjóðum og af því tekur þetta frumvarp mið sem ég vona að við getum lagt fram fljótlega en væntanlega þó ekki fyrr en eftir áramótin.

Ég tel því, út af spurningum hv. þingmanns, að við höfum gert ýmislegt í þessum málaflokki. Ég tel einnig að eðlilegt sé að grípa til þess öryggisatriðis sem hér um ræðir vegna þess hvernig atvinnuleysi er almennt í Evrópu. Það er minna núna hér en við nálgumst það að fara í það sama og er í hinum Evrópulöndunum.

Hv. þingmaður spyr um Finnland og Svíþjóð en atvinnuleysi í þeim löndum er nú 5,6%. Ég kann ekki að greina frá ástæðunum fyrir því af hverju þeir hafa ekki gripið til þessa ráðs. En ég skal sannarlega afla mér þeirrar vitneskju. Ef mér tekst ekki í þessari umræðu að koma því til hv. þingmanns þá skal ég sjá til þess að hv. þingmaður fái þær upplýsingar við 2. umr. eða nefndin sem fær málið til umfjöllunar.



[16:36]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hennar. Ég er hins vegar ekki sannfærð eftir ræðu hennar um að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að beita þessu ráði sem hæstv. ráðherra kallar öryggisatriði. Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að það er minna atvinnuleysi í Búlgaríu núna en gert er ráð fyrir að verði á Íslandi á næstunni og því sé ég ekki að hættan sé fyrir hendi.

Hæstv. ráðherra benti á það sem gert hefur verið á þeim aðlögunarfresti sem við höfum haft, á þeim tíma sem liðinn er frá því að við samþykktum aðlögunarfrestinn. Það hafa verið sett lög um þjónustuviðskipti, það hafa verið sett lög um starfsmannaleigur og við höfum stefnumótun í málefnum innflytjenda.

Ég hefði haldið að öll sú löggjöf ætti að nægja okkur sem öryggisventill eða ætti að nægja sem umhverfi fyrir þann vinnumarkað sem við viljum sjá hér og hafa.

Ég elti ekki frekar ólar við þetta. Þetta er 1. umr. um málið og það á eftir að fara til umræðu í nefnd en ég geri ráð fyrir að við þingmenn Vinstri grænna munum áfram sitja hjá við afgreiðslu þess eins og við gerðum þegar við afgreiddum það á 134. löggjafarþingi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fél.- og trn.