136. löggjafarþing — 45. fundur
 8. desember 2008.
dýravernd, 1. umræða.
stjfrv., 186. mál (hlutverk tilraunadýranefndar og gjaldtökuheimild). — Þskj. 229.

[16:38]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dýravernd, nr. 15/1994. Meginforsendur þessara breytinga eru þær að gera hlutverk tilraunadýranefndar skýrara jafnframt því að tryggja henni lagastoð til að standa undir þeim kostnaði er óhjákvæmilega hlýst af störfum nefndarinnar.

Verkefnum nefndarinnar hefur fjölgað og er því nauðsynlegt að gera breytingar á þeim ákvæðum laganna sem varða hlutverk og verkefni hennar til samræmis við framvindu þá sem orðið hefur á starfi hennar.

Í frumvarpinu er lagt til að skerpt verði á hlutverki tilraunadýranefndar einkum varðandi afgreiðslu umsókna um leyfi til dýratilrauna, leyfi til þess að halda og annast tilraunadýr, svo og því hlutverki að sinna sértæku eftirliti með aðbúnaði og meðferð tilraunadýra. Einnig er lagt til að gjaldtökuheimild verði sett svo tilraunadýranefnd geti mætt þeim kostnaði er hlýst af vinnu við útgáfu leyfa og því sérstaka eftirliti sem nefndinni er ætlað að sinna.

Eðlilegt verður að teljast að þeir aðilar sem njóta þjónustu tilraunadýranefndar greiði kostnað nefndarinnar. Er mikilvægt að nefndin fái þessar tekjur til að tryggja rekstur hennar.

Þá er í frumvarpinu kveðið á um kröfur um menntun og þjálfun þeirra er nota dýr í tilraunaskyni en mikilvægt þykir að meginatriðum um það sé skipað með lögum fremur en ákvæðum reglugerðar, eins og verið hefur.

Við gerð þessa frumvarps var haft samráð við tilraunadýranefnd sem er samþykk þeim breytingum sem hér er mælt fyrir um.

Ég legg til frú forseti að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar til umfjöllunar.



[16:40]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hefði alveg þegið að fá meiri fræðslu um þetta mál í ræðu hæstv. umhverfisráðherra. Ég verð að segja að mér kemur það nokkuð á óvart að sjá hversu mikið það virðist hafa aukist að hér séu notuð dýr í vísindatilraunir hvers konar. Ég hefði haldið að við hefðum þurft á því að halda að fá upplýsingar um hvers konar tilraunir þetta eru. En ég geri engu að síður ráð fyrir að slíkar upplýsingar komi til nefndarinnar þegar farið verður að vinna að málinu.

Annars vil ég lýsa yfir ákveðnum vonbrigðum, hæstv. forseti, með að hér skuli komið fram frumvarp til laga sem breytir dýraverndarlögum, því hæstv. umhverfisráðherra hefur frá því að hún tók við embætti tilkynnt að von væri á heildarendurskoðun laga um dýravernd.

Ég hélt satt að segja þegar ég sá að verið var að útbýta fyrir helgina málum hæstv. ráðherra og rak augun í að það var verið að dreifa frumvarpi um dýravernd að hér væri heildarendurskoðunin komin. En svo er ekki. Það eru því mikil vonbrigði að hér skuli komið frumvarp sem lýtur einungis að þessum tiltekna þætti, þ.e. gjaldheimildum þessarar tilraunadýranefndar, þannig að við getum fengið í gegnum ríkissjóð fjármuni til að standa undir kostnaði þeirrar nefndar en allir aðrir þættir dýraverndarlaga, sem er gríðarlega mikilvægt að fara að breyta og koma skikki á, liggja enn inni í ráðuneyti.

Síðan vil ég spyrja, af því mér er alls ekki ljóst af því sem segir í umsögn fjármálaráðuneytisins, hvort sú leið sem hér er mælt fyrir um er fjármálaráðuneytinu að skapi eða ekki. Fjármálaráðuneytið segir í umsögn sinni að það telji það ekki heppilegt fyrirkomulag að ríkistekjur séu markaðar með þeim hætti sem hér er mælt fyrir um. Ég les það svo að sá háttur eða máti sem hér er mælt fyrir um í innheimtu ríkistekna sé fjármálaráðuneytinu ekki að skapi. Mér finnst það undarlegt að fá umsögn sem leiðir það í ljós að það sé mat ráðuneytisins að tekjur sem kveðið er á um í lögum og teljast til ríkistekna, eigi að renna í ríkissjóð og ákvörðun um fjárheimildir verkefna verði tekin af fjárlögum hverju sinni. Þannig skil ég þetta en ég bið hæstv. ráðherra að bregðast við og leiðrétta mig ef ég hef misskilið þetta í umsögn fjármálaráðuneytisins en það lítur út eins og fjármálaráðuneytið sé ekki sátt við það háttalag sem hér er mælt fyrir um.

Að öðru leyti verður málið auðvitað skoðað í umhverfisnefndinni og ég sé að hæstv. ráðherra leggur áherslu á að þetta verði afgreitt fyrir áramót til þess að hægt sé að fara að innheimta gjöld fyrir tilraunadýranefndina eins og hér er mælt fyrir um.



[16:43]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil sem formaður umhverfisnefndar fagna framkomnu frumvarpi og, ólíkt hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, fagna ég því tækifæri sem það gefur hv. umhverfisnefnd til þess að fara yfir það sem að þessum málum kemur, umfangi, aðferðum og stöðu mála almennt. Ég held að full ástæða sé og tilefni til þess að gera það þótt vissulega geti menn haft skoðun á því að fleiri þættir í dýraverndarlögunum mættu vera undir til athugunar. En ráðherra hefur boðað að von sé á heildarendurskoðun laganna. Ég held að það sé ágætt að nefndin kynni sér einfaldlega vel þá þætti sem núna eru undir.

Ég held sömuleiðis að það sé eðlilegt af hálfu þingnefndar að hún leiti eftir því hjá fjárlaganefnd þingsins hvaða augum hún líti á innheimtu ríkistekna með þeim hætti sem hér er lagt til. Ef það eru einhver áhöld um það með hvaða hætti það sé heppilegast þá hljótum við að kalla eftir stefnu þeirrar þingnefndar sem lögin setur og stefnuna marka, eða eiga að gera það, að minnsta kosti hjá þeim sem hafa metnað fyrir störfum hv. Alþingis.

Ég vil í tilefni orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur taka undir að vissulega er brýnt að fyrirætlanir hæstv. ráðherra um það að koma með inn í þingið endurskoðuð dýraverndarlög, að þau gangi fram og við treystum því auðvitað að svo verði enda liggur fyrir að unnið er í málinu í ráðuneytinu nú þegar.



[16:45]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Mér er ljúft og skylt að svara spurningum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hvað varðar gang við heildarendurskoðun dýraverndarlaga, sem er vissulega í gangi en eins og flest verkefni sem maður tekur sér fyrir hendur ganga þau ekki eins hratt og maður hefði óskað. Þetta gengur vel og unnið er að heildarendurskoðun dýraverndarlaga sem ég tel bæði tímabæra og mjög mikilvæga. Ég hvet hv. þingmenn og hv. umhverfisnefnd til að kynna sér það mál sérstaklega, ekkert er því til fyrirstöðu á meðan endurskoðun á vegum nefndarinnar sem ég hef skipað þar til er í gangi og það er vissulega mikilvægt og tengist málinu.

Ástæða þess að þetta tiltölulega litla frumvarp kemur fram núna er að verkefnum tilraunadýranefndar hefur fjölgað meira en menn gátu séð fyrir. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að svo mörg tilfelli þyrftu að fara fyrir nefndina til að fyrirtæki eins og Íslensk erfðagreining, að einhverju leyti, og tilraunastöðin á Keldum fái leyfi til að starfa með og nýta tilraunadýr. Þannig að þetta er víðar en maður gerir sér grein fyrir við fyrstu sýn eða fyrstu skoðun.

Hvað varðar álit fjármálaráðuneytisins eða kostnaðarmatið sem fylgir þessu frumvarpi, eins og öllum öðrum frumvörpum, hef ég svo sem ekkert annað um það að segja en að ég samsinni þeim ekki sem telja það löst í fari fagráðuneytanna að reyna að koma sér upp mörkuðum tekjustofnum. Ég held að sú leið sé mjög skynsamleg til að hafa jafnar og stöðugar fjárveitingar í tiltekin lögboðin verkefni. Í þessu tiltekna dæmi þarf einfaldlega að greiða fyrir mjög sértæka þjónustu sem ekki margir nýta sér en þeir sem þurfa að nýta sér hana munu væntanlega í fyllingu tímans njóta einhverra ávaxta af því að hafa gert þessar tilraunir. Því finnst mér fyllilega eðlilegt að gera þetta með þessum hætti enda er það lagt til í frumvarpinu og ekki beinlínis lagst gegn því í áliti fjármálaráðuneytisins þó að mér sé vel kunnugt um að þar á bæ hafi menn aðrar skoðanir um málið.



[16:48]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta. Það varpar nokkuð alvarlegu ljósi á samskipti fagráðuneyta og fjármálaráðuneytisins að fjármálaráðuneytið skuli lýsa yfir í frumvarpi frá fagráðuneyti um að það sé ósátt við þann framgangsmáta sem fagráðuneytið leggur til. Ég spyr hvort virkilega þurfi að hafa þennan háttinn á í stjórnsýslunni eða hvort fjármálaráðuneytið og fagráðuneytin geti ekki komið sér saman um með hvaða hætti tekjur verði innheimtar og hvaða framgangsmáti sé hafður í þeim efnum.

Ég sé ekki betur en hér sé búið að afhjúpa fremur kauðslegan núning á milli ráðuneytanna og hefði mælt með því að ríkisstjórnin kæmi sér saman um afgreiðslumáta og með hvaða hætti þessum málum er fyrir komið í ríkisstjórninni en afhjúpaði ekki svona ágreining í umsögn við frumvarp frá fagráðuneyti.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til umhvn.