136. löggjafarþing — 45. fundur
 8. desember 2008.
uppbygging og rekstur fráveitna, 1. umræða.
stjfrv., 187. mál (heildarlög). — Þskj. 230.

[16:50]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Frumvarpið var samið af nefnd sem í sátu fulltrúar frá umhverfisráðuneytinu, félagsmálaráðuneytinu, sem þá fór með sveitarstjórnarmál, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samorku. Upphaf þess starfs má rekja til erindis frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem sambandið lýsti þeirri skoðun að eðlilegt væri að skýrt yrði kveðið á í lögum um skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum. Má því segja að frumkvæði að frumvarpsgerðinni hafi komið frá sveitarfélögunum og komu sjónarmið þeirra vel fram í starfi nefndarinnar.

Í þessu frumvarpi til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna eru afmarkaðar helstu skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum og er gerð tillaga um þá meginreglu að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu. Í raun hafa sveitarfélög um langa hríð sinnt framkvæmdum við fráveitur og rekið fráveitur án þess að rammi utan um þessi verkefni sveitarfélaga hafi verið vel afmarkaður. Þó má geta þess að í gildi eru lög og reglugerðir sem skilgreina þær umhverfis- og mengunarvarnakröfur sem gilda um fráveitur og skólp.

Frumvarpinu er þannig annars vegar ætlað að kveða skýrt á um ábyrgð sveitarfélaga á uppbyggingu fráveitna og að afmarka skyldur sveitarfélaga til að koma á fót og starfrækja fráveitur. Hins vegar er einnig lagt til að heimilað verði að fela sjálfstæðum félögum rekstur fráveitna með svipuðum hætti og gildir um vatnsveitur.

Fráveitukerfi eru afar mikilvæg þjónustukerfi og eðlilegt er, a.m.k. í þéttbýli, að sveitarfélög annist starfrækslu fráveitna. Talið er æskilegt að fráveitukerfi séu skipulögð samhliða skipulagi byggðar og er frumvarp þetta samið með það í huga. Í frumvarpinu er gengið nokkuð lengra en að afmarka skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum. Lagt er til að kveðið verði á um skyldur landeigenda til að sjá til þess að skólp sé hreinsað þar sem hlutverki sveitarstjórna til starfrækslu fráveitna sleppir. Þá er í frumvarpinu að finna ákvæði um rétt til aðgangs að fráveitu sem fyrir er.

4. grein frumvarpsins afmarkar helstu skyldur sveitarfélaga í fráveitumálum. Meginreglan er sú að sveitarfélag ber ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu. Sveitarstjórnum er með ákvæðinu ætlað að samþætta áætlanir um fráveitur við skipulagsgerð. Talið er rétt að leggja ótvíræða framkvæmdarskyldu á sveitarfélög í þéttbýli, enda verður fráveitum vart komið við á þeim svæðum á annan hátt en með sameiginlegu kerfi fyrir alla íbúa. Einnig var talið nauðsynlegt að sveitarstjórn beitti sér fyrir því að skólpi og ofanvatni væri safnað saman með safnkerfi og sameiginlegu hreinsivirki í dreifbýli. Þykir ástæða til að kveða á um í lögum með skýrari hætti, en nú er gert, á hvaða svæðum skuli koma á fót safnkerfi og sameiginlegu hreinsivirki sem og hver ber þá skyldu.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn setji í deiliskipulag ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki þar sem þess er þörf. Með þeim hætti næst fram sú samþætting sem ég gat um hér áðan. Jafnframt kemur fram að sveitarstjórn skuli senda áætlun um nýjar og endurbættar fráveitur til heilbrigðisnefndar. Með þessu er leitast við að tryggja samfellu og samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Meginreglan er því sú að safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki sé til staðar. Telji sveitarstjórn hins vegar ekki þörf á að setja ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsvirki á viðkomandi svæði, svo sem ef kostnaður er óvenjumikill miðað við umhverfislegan ávinning, getur heilbrigðisnefnd heimilað að beitt sé öðrum lausnum. Þetta ákvæði, þ.e. að meta megi hvort raunveruleg þörf sé á safnkerfi, er í samræmi við tilskipun um hreinsun skólps í þéttbýli sem innleidd var með reglugerð um fráveitur og skólp. Með þessum hætti er undirstrikað að safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki sé meginregla á framangreindum svæðum og frávik frá því þurfa að vera vel rökstudd.

Lagt er til í frumvarpinu að sveitarstjórn sé heimilt að koma á fót og starfrækja fráveitur í dreifbýli. Getur það haft í för með sér minni neikvæð umhverfisáhrif en ef um er að ræða mörg stök hreinsivirki og stuðlað að hagkvæmni í landnotkun. Er sveitarfélagi því heimilt að ganga lengra en því er skylt. Þar sem sveitarfélag hyggst nýta heimild sína hefur það forgangsrétt til fráveituframkvæmda utan þéttbýlis.

Samkvæmt frumvarpinu eiga fráveitur sem sveitarfélög setja á fót að vera í eigu sveitarfélaga. Þó er gert ráð fyrir að heimilt sé að fela félagi í meirihlutaeigu sveitarfélaga skyldur og réttindi til uppbyggingar, reksturs og eignarhalds fráveitna. Það fyrirkomulag að fráveitur séu í eigu sveitarfélaga er talið tryggja best þjónustu til handa íbúum sveitarfélaganna. Þar sem sveitarfélagi er skylt að reka og koma á fót fráveitu skal það, samkvæmt tillögum frumvarpsins, hafa einkarétt til þess. Sama gildir þar sem sveitarfélag nýtir forgangsrétt sinn til að koma á fót fráveitu.

Í III. kafla frumvarpsins er fjallað um svæði þar sem skyldum sveitarfélaga sleppir og sveitarfélög nýta ekki heimildir sínar til að koma á fót fráveitu. Kveðið er á um skyldu landeigenda til að sjá til þess að skólp sé hreinsað þar sem sveitarstjórn nýtir ekki heimild sína. Einnig er kveðið á um að landeigandi skuli koma á fót fráveitu þar sem frístundabyggð er skipulögð. Er þetta talið afar mikilvægt í ljósi sívaxandi fjölda frístundahúsa, en ráðuneytið hefur kynnt þetta ákvæði fyrir Landssambandi sumarhúsaeigenda.

Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um fráveitulagnir. Eiganda húseignar er skylt að annast lagningu heimæða á sinn kostnað en eigandi fráveitu sér um lagningu og viðhald allra fráveitulagna. Þá er kveðið á um rétt til tengingar við fráveitu.

Í V. kafla frumvarpsins eru ákvæði um gjaldtöku fyrir tengingu og afnot af fráveitukerfi. Gjaldtökuákvæðin í frumvarpinu eru skýrari en í gildandi lögum. Samkvæmt frumvarpinu skal stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda.

Nýmæli er að finna í frumvarpinu varðandi losun í fráveitukerfi sveitarfélags frá atvinnustarfsemi eða vegna losunar sem er frábrugðin losun frá heimilum. Í þessum tilfellum er heimilt að innheimta gjald miðað við innrennsli vatns. Þegar vatn er notað til framleiðslu og því er ekki veitt í fráveitukerfi má notandi mæla notkun vatnsins og einungis greiða fyrir það frárennsli sem frá starfseminni kemur. Þetta getur t.d. átt við um gosdrykkjaframleiðslu eða átöppunarverksmiðjur. Einnig er lagt til að heimilt verði að innheimta sérstakt aukagjald ef frárennsli er svo mengað að það leiði til sérstakra aðgerða við fráveitukerfið. Þetta getur til að mynda átt við þegar mengandi starfsemi fær tímabundna undanþágu frá starfsleyfi vegna viðgerða eða viðhalds á mengunarvarnabúnaði. Ákvæðið tekur mið af sambærilegu ákvæði í dönskum lögum og mengunarbótareglu sem er ein af meginreglum umhverfisréttarins.

Í VI. kafla frumvarpsins eru ýmis ákvæði. Þar er kveðið á um aðgang að fráveitu sem fyrir er og aðgang að landi vegna fráveituframkvæmda, þ.m.t. eignarnám. Þá er einnig kveðið á um hlutlæga bótaábyrgð vegna tjóns á fráveitu vegna losunar.

Að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga voru forsendur kostnaðaráhrifa vegna frumvarpsins metnar í umhverfisráðuneytinu í samræmi við samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Ekki er gert ráð fyrir teljandi kostnaðarauka hjá sveitarfélögum frá þeim kröfum sem eru í lögum í dag.

Eins og áður segir eru í frumvarpinu skyldur sveitarfélaga auknar að því leyti að þeim er gert skylt að koma á fót og starfrækja fráveitu í þéttbýli. Í reynd hefur lengi verið litið svo á að uppbygging og rekstur fráveitna í þéttbýli sé verkefni sveitarfélaga og því í raun ekki um nýjan kostnað að ræða.

Verði frumvarpið að lögum getur mögulegur kostnaðarauki fyrir sveitarfélög einkum falist í ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að tengingar í einkaeign sem lagðar hafa verið fyrir gildistöku laganna verði eign fráveitu í framhaldi af endurnýjun þeirra. Verður fráveitu skylt að yfirtaka tengingu frá stofnæð að lóðamörkum sveitarfélagsins ef eigandi tengingar óskar eftir því. Að auki má vænta þess að sveitarfélög verði fyrir auknum kostnaði vegna ákvæðis 4. gr. þar sem segir að sveitarstjórn setji í deiliskipulag ákvæði um safnkerfi og sameiginlegt hreinsivirki þar sem þess er þörf.

Gert er ráð fyrir að gjaldtökuheimildir samkvæmt frumvarpinu nægi til þess að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum sveitarfélaganna þannig að ekki verði um útgjöld að ræða umfram gjaldtöku. Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.



[17:00]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjuefni að fá frumvarp þetta til umfjöllunar Alþingis og hv. umhverfisnefndar og má segja að það sé löngu tímabært að skýrt og greinilega sé kveðið á um það í lögum hverjar skyldur aðila, einkum í þéttbýli, til lagningar á fráveitu eru. Á þessu sviði hefur verið unnið gríðarlega mikið og gott starf á vegum sveitarfélaganna sl. 15 ár og í raun og veru hefur verið lyft þar grettistaki, m.a. í tengslum við innleiðingu tilskipana en það var Evrópusamstarfið sem varð mönnum hvatning á sínum tíma til þess að taka sér tak hér á landi í frárennslismálum sem veitti víða ekki af, ekki síst hjá okkur hér í þéttbýlinu. Það lýsir kannski um sumt þeim viðhorfum sem áður voru nokkuð rík að sú gjaldtaka eða skattlagning sem menn lögðu á í tengslum við þá uppbyggingu alla var á stundum í pólitískri orðræðu okkar kölluð „skítaskattur“ og þótti ekki mjög fín.

Núna 15 árum síðar er sannarlega búið að vinna mikið starf á vegum sveitarfélaganna. Þau eiga hrós skilið fyrir það og er ánægjuefni að samkomulag sé á milli allra helstu málsaðila um hvernig best verði skerpt á lagaskyldum aðila og tryggt að framkvæmdin sé öll hin besta. Ég tel að sú íþyngjandi ákvörðun um að sveitarfélögin eignist einkaæðar við endurnýjun þeirra sé sannarlega tímabær og verði til þess að auka skilvirkni í þessum rekstri með svipuðum hætti og var þegar vatnsveiturnar tóku að eigin frumkvæði yfir heimaæðar til þess að leysa mörg vandamál sem upp gátu komið þegar einstaklingar höfðu ekki bolmagn til þess að endurnýja lagnir sínar. Er miklu eðlilegra að þær stofnanir sem sjá um innviðina í samfélaginu beri kostnað af þessu og dreifi honum yfir lengri tíma og stærri hóp.



[17:03]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir framsöguna með þingmálinu sem hér er til umfjöllunar en það er frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Ég segi það strax í upphafi að ég tel eins og síðasti ræðumaður að það sé löngu tímabært að sett verði heildarlöggjöf um starfsemi fráveitna í landinu. Ég tel að það sé mjög til bóta að skilgreina þá starfsemi og þær skyldur sem löggjafinn hyggst setja á herðar m.a. sveitarfélögunum varðandi uppbyggingu og rekstur slíks kerfis. Þess vegna held ég ekki að ástæða sé til þess að ætla annað en að um þetta mál geti í öllum meginatriðum verið nokkuð góð samstaða á þinginu og í hv. umhverfisnefnd sem fær málið til meðferðar.

Það eru þó nokkur atriði sem ég vil aðeins fjalla um í þessu samhengi og byrja á því að rifja það upp að á tíunda áratug síðustu aldar var farið af stað með heilmikið átak til þess að koma fráveitumálum í landinu, einkum og sér í lagi á þéttbýlisstöðum, í viðunandi horf frá því sem áður hafði verið. Það er rétt sem komið hefur fram að það byggðist m.a. á tilskipun frá Evrópusambandinu þótt út af fyrir sig hefði verið hægt að fara í framkvæmdir á sviði fráveitumála burt séð frá henni. Sveitarfélög og aðrir aðilar — þá ríkið eftir atvikum — geta tekið ákvörðun um slíkt. Engu að síður er það staðreynd að tilskipunin sem var þá hluti af EES-samningnum fól í sér að það var skylda að fara í heilmiklar framkvæmdir við hreinsun strandlengju og við að koma fráveitumálunum í viðunandi horf. Það hefur sannarlega verið gert allvíða.

Jafnframt var ákveðið á þeim tíma að ríkið mundi koma að fjármögnun þess viðamikla verkefnis með því að endurgreiða virðisaukaskatt af þessum framkvæmdum. Upphaflega átti að gefa tíu ár, frá 1995 til 2005, til þess að koma þeim verkefnum sem lögin eða tilskipunin tók til í framkvæmd og átti ríkið að koma inn í framkvæmdina með þeim hætti. Það er alveg ljóst að kostnaður við þessar fráveituframkvæmdir hefur reynst sveitarfélögunum gríðarlega mikill. Það er reyndar rétt sem hæstv. umhverfisráðherra sagði í framsöguræðu sinni, að þessi mál séu nú þegar á hendi sveitarfélaganna og þau líti á þau sem skylduverkefni þó að það hafi ekki verið bundið í lög. Hæstv. ráðherra sagði að þar af leiðandi væri ekki mikið um nýjan kostnað en þó verður að halda því til haga að í gegnum árin frá því að þessi tilskipun var innleidd hefur kostnaður sveitarfélaganna verið geysilega mikill en tölur eru ef til vill á reiki um það.

Í skýrslu sem utanríkisráðherra lagði hér fram á Alþingi að beiðni minni og annarra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem óskað var eftir því að ráðherra flytti skýrslu um skuldbindingar íslenskra sveitarfélaga í EES-samningnum, kemur fram um fráveitumálin á bls. 19 í þeirri skýrslu sem er á þskj. 875 frá síðasta löggjafarþingi, að árið 1993 hafi verið lagt mat á kostnað við að koma þessum málum í viðunandi horf á Íslandi. Hann hafi þá numið á verðlagi þess tíma, 1993, 10–12 milljörðum. Gert var ráð fyrir því að framlag ríkisins yrði um 200 millj. kr. á ári á þessu tíu ára tímabili, frá 1995–2005, ætti að vera um 20% af heildarkostnaði.

Síðar hafa sveitarfélögin metið það svo að kostnaðurinn við fráveituframkvæmdirnar á grundvelli þessarar tilskipunar hafi verið nær 20 milljörðum kr. fyrir sveitarfélögin en framlög ríkisins voru um 2 milljarðar, ef ég man þetta rétt, þ.e. um 10%. Það er því ljóst að sveitarfélögin hafa haft verulegan kostnað af þessari framkvæmd án þess að um það hafi sérstaklega verið samið við þau eða þeim tryggðir sérstakir tekjustofnar til að standa undir öllum þessum kostnaði. Að vísu hafa sveitarfélögin heimildir til þess að innheimta holræsagjald eins og kunnugt er en það er alveg ljóst að þarna er um verulegan kostnað að ræða sem ég tel að liggi enn þá að verulegu leyti óbættur hjá garði, ef svo má segja, gagnvart sveitarfélögunum í landinu í gegnum þessi ár. Ég mun kalla eftir frekari upplýsingum í vinnu nefndarinnar um hvernig þeim málum er háttað og hver staða þeirra er í dag.

Aðeins síðan aftur að frumvarpinu. Í 4. gr. er farið í hlutverk sveitarfélaga og það skilgreint annars vegar varðandi hlutverk sveitarfélaganna í þéttbýli og hins vegar í dreifbýli og utan þéttbýlis. Ég velti því upp hvort ekki sé full ástæða til þess að skoða betur skyldur sveitarfélaganna í dreifbýli vegna þess að ég held að víða í dreifbýli séu þessi mál ekki í nægilega góðu lagi. Ég segi það þó með vissum fyrirvara. Það eru áreiðanlega frávik frá því líka en allvíða held ég að þeim málum sé ekki nægilega vel fyrir komið og bendi þá sérstaklega á, sem kemur reyndar fram í frumvarpinu, að það er sívaxandi frístundabyggð í landinu. Það er mikilvægt að fráveitumálin séu líka í góðum farvegi þar. Ég velti því upp hvort hugsanlega þurfi að vera ríkari skyldur til þess að þessi mál séu þar örugglega á hendi sveitarfélaganna eins og í þéttbýli.

Í 5. gr. er talað um rekstur fráveitunnar og kveðið á um að sveitarstjórn fari með rekstur og stjórn fráveitna á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi sérstaklega verið ákveðið og er þar vísað til 6. gr. Einnig er heimild til þess að gera þjónustusamninga við einkaaðila um rekstur einstakra þátta fráveitunnar. Í gjaldtökuákvæðum er síðan tekið fram að heimilt sé að skipta starfsvæði fráveitu í fráveitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert veitusvæði. Þegar maður les þetta í samhengi veltir maður því fyrir sér hvort verið sé að gefa kost á því að t.d. í stóru þéttbýlissveitarfélagi séu búin til fleiri en eitt svæði sem hugsanlega eru bútuð niður og gerðir samningar við einkaaðila um rekstur á tilteknum hluta, til að mynda í einu hverfi. Það er ekki víst að sá sé tilgangur frumvarpsins yfirleitt en þarna finnst mér vera alla vega vera atriði sem taka þarf til skoðunar.

Síðan er í 6. gr. sagt, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi sem að meiri hluta er í eigu sveitarfélaga skyldur sínar og réttindi hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna samkvæmt lögum þessum.“

Og áfram:

„Við ráðstöfun skv. 1. mgr. skal í samningi, eftir því sem við á, kveðið á um eignarrétt á fráveitu, eftirlit sveitarstjórnar með rekstri fráveitunnar og innlausnarrétt sveitarfélagsins á fráveitu og fastafjármunum fráveitunnar auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg.“

Um þetta vil ég segja að ég tel að fráveitan sé eitt af grundvallarveitukerfum og grunnþjónustuþáttum í hverju samfélagi. Þess vegna er það afstaða mín að hún eigi tvímælalaust að vera á hendi opinberra aðila, þ.e. sveitarfélaganna. Hér er að vísu vísað til þess að nú þegar séu einhver dæmi um að félög í eigu sveitarfélaganna séu með þennan rekstur á sínum snærum og þess vegna þurfi að vera þannig um hnútana búið í löggjöfinni að þau geti haldið því áfram. Það er nokkuð sem mér finnst líka mikilvægt að við skoðum. Ég set að minnsta kosti verulegan fyrirvara varðandi eignarréttinn á fráveitunni jafnvel þó að menn kjósi að vera með sérstakt félag — eins og ég þekki hér á höfuðborgarsvæðinu varðandi vatnsveituna, hitaveituna og rafveituna þar sem fráveitan er nú hluti af — sem er að öllu leyti í eigu sveitarfélaganna, ekki bara að meiri hluta.

Ég hef vissan fyrirvara á því er varðar eignarréttinn sjálfan. Ég er ekki viss um að það sé heppilegt og vísa til þess sem gerst hefur á undanförnum vikum í samfélagi okkar með hruni bankakerfisins og mörg fyrirtæki farið illa samhliða því, m.a. fyrirtæki sem keypt hafa eignir af sveitarfélögunum sem gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki, svo sem skóla. Þegar þessi fyrirtæki verða gjaldþrota sitja íbúar sveitarfélagsins eftir með sárt ennið og hugsanlegt er að sveitarfélögin þurfi að leysa til sín þessi mannvirki á nýjan leik með ærnum tilkostnaði. Þetta er ekki starfsemi sem er undir samkeppnissjónarmiðum komin nema síður sé. Ég sé ekki fyrir mér að mikil samkeppni verði í fráveitustarfsemi einstakra sveitarfélaga þannig að ég tel enga sérstaka þörf á því að því sé gefið undir fótinn að eignarrétturinn á fráveitunni geti farið til annarra aðila en sveitarfélaganna sjálfra. Það er því atriði sem ég hef fyrirvara á í þessu frumvarpi og mun koma honum frekar á framfæri við vinnu í umhverfisnefnd.

Síðan vil ég nefna það sem talað er um varðandi skyldur landeigenda í dreifbýli. Það snýr að því sem ég nefndi áðan um stöðu mála í dreifbýli. Ég velti því alla vega fyrir mér hvort rétt sé að leggja þessar skyldur á landeigendur og með hvaða hætti þeir eigi þá að standa straum af kostnaði við slíkt. Það eru sannarlega gjaldtökuheimildir í þessu frumvarpi en mér finnst að skýra þurfi betur hlutverk sveitarfélaganna sjálfra sem fara jú með umboð almennings og íbúanna í sveitarfélaginu í þessu efni þannig að það sé ekki aðeins á hendi landeigenda, eins og gert er ráð fyrir í 9. gr. um frístundabyggð, að koma á fót fráveitu. Hér er reyndar sagt: „að höfðu samráði við sveitarstjórn“. Þarna finnst mér að frumkvæðið þurfi hugsanlega að vera ríkara hjá sveitarstjórninni sjálfri.

Aðeins í lokin, því að tími minn er á þrotum, vil ég nefna 21. gr. sem talað er um reglugerð og segir þar, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila, að setja reglugerð um fráveitur sveitarfélaga þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd fráveitumála.“

Það hefur á stundum komið upp í umræðu um lagafrumvörp þar sem verið er að setja almennar reglugerðarheimildir að eðlilegt sé að reglugerðarheimildir til handa framkvæmdarvaldinu séu skýrar afmarkaðar en hér er gert ráð fyrir, að það sé ekki bara ein grein sem fjallar um almenna heimild ráðherra til að setja reglugerð um hvaðeina óskilgreint sem lýtur að þessum lögum. Ég er þeirrar skoðunar að almennt eigi að vera betur skilgreint í lögum um efni reglugerða, um hvaða þætti laganna ætlast er til að ráðherra geti sett reglugerð en ekki bara með einni allsherjarsetningu eins og hér er lagt til.

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp. Eins og ég sagði í upphafi held ég að þetta sé þjóðþrifamál í sjálfu sér og ekki ágreiningur um það burt séð frá einstaka útfærsluatriðum sem hér er gerð grein fyrir. Ég áskil mér og flokki mínum rétt til þess að láta skoða þessi atriði frekar og hugsanlega munum við beita okkur fyrir einhverjum breytingum á frumvarpinu hvað þau varðar.



[17:17]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir innlegg hans í umræðuna um frumvarp til laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Margt af því sem þingmaðurinn bendir á hefur verið til umfjöllunar í nefndinni. Það er ástæða til að ítreka að frumvarpið sem slíkt er unnið að frumkvæði sveitarfélaganna og að beiðni þeirra og mjög tímabært að málum sé þannig skipað að lög kveði skýrt á um rekstur fráveitna.

Ég vil bregðast við nokkrum atriðum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé afar mikilvægt að fráveitur séu í meirihlutaeigu sveitarfélaga og það sé ekkert umsemjanlegt. Þannig á það að vera, almannaþjónustan á að vera í meirihlutaeigu sveitarfélags. Við vitum hins vegar að oft þarf að hafa sveigjanleika í rekstrarformum eins og mörg sveitarfélög hafa nýtt sér.

Til að svara spurningunni um svæðin þá er einmitt verið að hugsa um það út frá mismunandi þjónustustigi ef um stór svæði er að ræða sem hafa ekki öll sama þjónustustig. Ég er sammála hv. þingmanni um það að seint verður mikil samkeppni um persónueiningarnar, alla vega er það ekki fyrirsjáanlegt. (Gripið fram í.) Staðan í dreifbýli er auðvitað allt önnur en í þéttbýlinu og frá því að sveitarfélögin fóru í sitt stóra og mikla fráveituátak á tíunda áratugnum hafa ekki minna en 80% landsmanna, allur þorri landsmanna hefur þá fráveituþjónustu sem ég tel hann eiga fullan rétt á. Hins vegar eru dreifðar byggðir og lítil sveitarfélög sem hafa ekki mikla fjárhagslega burði og búa líka á þannig svæði að erfitt er að koma við fráveitu til sjávar sem eiga eftir að klára málið og það þarf kannski að finna aðeins öðruvísi lausnir á þeim svæðum.

Hvað kostnaðinn varðar þá hefur ríkið eins og menn vita endurgreitt virðisaukaskattinn. Vissulega eru þetta mjög miklar upphæðir, háar upphæðir sem sveitarfélögin hafa lagt í þetta, margir milljarðar króna eins og fram kom í máli hv. þingmanns. Ég vil taka fram af þessu tilefni að við lifum nú á miklum niðurskurðartímum, m.a. hefur verið mikil vinna í gangi á undanförnum dögum og vikum við frumvarp til fjárlaga 2009 og menn reyna að skera þar nokkuð niður. Ég hef staðið fast á því að til yrðu peningar í ríkissjóði samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs til að endurgreiða þær 200 millj. kr. sem lögum samkvæmt eiga að fara til að endurgreiða framkvæmdir á þessu ári, árinu 2008, sem er lögum samkvæmt síðasta árið eftir framlengingu sem sú endurgreiðsla fer fram. Hvort síðan eigi að grípa til annarra ráðstafana verður í raun að vera viðræða á milli ríkis og sveitarfélaga og það er náttúrlega eitt af þeim mörgu verkefnum sem þarf að ræða um útfærslu á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil að lokum þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna um þetta frumvarp og vænti þess að það fái góða umfjöllun í umhverfisnefnd.



[17:21]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögðin við ræðu minni. Það er tvennt sem ég mundi vilja hnykkja á eða inna hæstv. ráðherra eftir og það er um eignarhaldið. Við erum bersýnilega alveg sammála um að það er ekki fyrirséð mikil samkeppni í þessum málaflokki og ég er sammála hæstv. ráðherra um að það má vera og þarf að vera sveigjanleiki í kerfinu. En um eignarhaldið á þessu grunnveitukerfi, að það sé ótvírætt hjá sveitarfélögunum, er ráðherra sammála því viðhorfi? Telur ráðherra að skoða þurfi hvort staðan sé þannig, sem ég er ekki viss um, að framlengja þurfi þetta ákvæði enn einn ganginn hvað varðar endurgreiðslur ríkisins á hlutdeildinni í stofnkostnaði við þessar framkvæmdir, þ.e. þær 200 milljónir sem verið hafa?



[17:23]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel ótvírætt að fráveiturnar verði að vera í meirihlutaeigu sveitarfélaga eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Ég tel það mjög mikilvægt og ég sé í raun ekki í fljótu bragði hverjir aðrir mundu vilja kaupa sig inn í það fyrirtæki en þó er aldrei að vita, en meirihlutaeigan verður að vera sveitarfélagsins þannig að sú almannaþjónusta sé ótvírætt á hendi þess.

Hvað varðar endurgreiðsluna, sem er í raun annað mál, þá var eins og þingmenn vita fyrst ákveðið að framkvæma hana á árunum 1995–2005, í tíu ár, og það var síðan framlengt um þrjú ár. Þá var um það rætt í hv. umhverfisnefnd, sem ég átti sæti í þá, að þar með væri því lokið. En eigi að taka upp viðræður um að framlengja þetta eða halda því áfram með öðrum hætti þá er það eitthvað sem ég held að taka verði upp í formlegum viðræðum á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins, væntanlega fjármálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis, ef það á að gerast og ef það er vilji manna almennt. Ég skal ekki útiloka það en ég minni á að þegar endurgreiðslan var framlengd um þrjú ár var það skilningur manna að þar með væri því ferli lokið.



[17:24]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var aðallega þetta sem ég vildi fá fram en kannski líka hvort staða þessara mála væri slík að það væri þrátt fyrir allt það miklu ólokið að efnislegt tilefni væri til að framlengja þetta. Ég veit ekki hver staðan er nákvæmlega í þessu efni þannig að þetta er bara spurning af minni hálfu hvort staðan kunni að vera sú að þess þurfi, og kannski ekki síst í ljósi þeirra efnahagsaðstæðna sem núna eru að það sé þá a.m.k. einhver hvati fyrir þau sveitarfélög sem enn kunna að eiga eftir að ljúka þessum málum hjá sér að þau dragi ekki úr því heldur sé einhver innibyggður hvati hvað það snertir að ljúka þeim framkvæmdum.

Ég heyri að við ráðherra erum meira og minna sammála um eignarhaldið, það er kannski aðeins blæbrigðamunur á því. Ráðherrann segir að sveitarfélögin þurfi að eiga meiri hluta og ég gerði grein fyrir þeim viðhorfum mínum að ég sé enga sérstaka þörf fyrir að opna á eignarhald fyrir aðra aðila en sveitarfélögin á þessari grunnveitu af því að hún er þess eðlis að hún verður á ábyrgð sveitarfélaganna og það verður engin samkeppni á þessu sviði. Þetta snýst meira um að kannski sé óþarfi að opna á það eins og frumvarpið gerir ráð fyrir en þá umræðu er að sjálfsögðu hægt að taka áfram á vettvangi umhverfisnefndar.



[17:26]
umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það væri ráð að fara yfir það í hv. umhverfisnefnd hvaða sveitarfélög það eru nákvæmlega — þau eru nokkuð mörg en þau eru mjög fámenn — sem hafa ekki komið sér upp almennilegum fráveitum. Ég hygg að flest eða næstum öll sveitarfélög á landinu sem hafa kost á því að koma fráveitumálum sínum þannig fyrir, fjölmenn sveitarfélög, að geta haft fráveitu út í sjó séu búin að því eða vinni í því og það skýrir auðvitað að þorri landsmanna hefur þessa þjónustu nú þegar.

Ég er ekki frá því að að skoða þurfi sérstaklega aðstæður þeirra sveitarfélaga, bæði fjárhagslegar og landfræðilegar, sem eiga eftir að gera slíkt, hvort yfir höfuð er mögulegt að gera það með þeim hætti sem hingað til hefur verið gert eða hvort finna þurfi einhverjar aðrar lausnir á því. Ég vil ekki útiloka neitt í því en ég vil heldur ekki lofa upp í ermina á mér að það þýði að þá verði áframhald á endurgreiðslunum, af því að það er eins og hv. þingmenn vita hluti af þeim samræðum sem þurfa að fara fram milli ríkis og sveitarfélaga um tekjuöflun, tekjustofna og annað slíkt og hvort setja eigi önnur lög um það.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til umhvn.