136. löggjafarþing — 45. fundur
 8. desember 2008.
lyfjalög, 1. umræða.
frv. heilbrn., 203. mál (gildistaka greinar um smásölu). — Þskj. 258.

[19:02]
Frsm. heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, með síðari breytingum. Frumvarpið er flutt af hv. heilbrigðisnefnd.

Frumvarpið er einfalt í sniðum. Með því er lagt til að frestað verði að hluta gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, sem eru lyfjalög sem voru samþykkt á vorþingi 2008, þ.e. breyting á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum. Þetta varðar eingöngu þann þátt 10. gr. laganna er snýr að smásölu lyfja. Þeim hluta ákvæðisins var frestað á haustþingi í september sl. til 1. janúar 2009 en nú er gert ráð fyrir að þetta ákvæði taki gildi 1. apríl 2009, en með frestuninni sem gerð var í september var gert ráð fyrir að nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja kæmi til framkvæmda um áramót en þær breytingar hafa nú frestast. Það er mjög mikilvægt að afslættir af lyfjum í smásölu haldist í hendur við nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja og af þeim sökum er lagt til að ákvæðið taki ekki gildi fyrr en 1. apríl 2009. Á þeim tíma er talið, þ.e. fram til 1. apríl 2009, að möguleiki sé á að þróa og ljúka gerð hins nýja greiðsluþátttökukerfis.

Eins og ég sagði fyrr varðar þetta eingöngu frestun á banni við afsláttum í smásölu en annað ákvæði 10. gr. varðandi bann við afsláttum í heildsölu hefur þegar tekið gildi, sem þýðir að heildsalar bjóða í dag öllum smásölum sama verð sem hefur m.a. átt þátt í því að lækka lyfjaverð í landinu.

Þar sem frumvarpið er flutt af heilbrigðisnefnd tel ég rétt að það fari ekki til nefndar heldur beint til 2. umr. hér á hinu háa Alþingi.



[19:05]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er rétt að þetta frumvarp er hér flutt af hv. heilbrigðisnefnd í heild. Þau ákvæði sem hv. formaður heilbrigðisnefndar rakti í 10. gr. laga um breytingu á lyfjalögum átti upphaflega að taka gildi 1. október sl. Við fulltrúar Vinstri grænna í nefndinni vöruðum eindregið við þessu ákvæði 10. gr., um bann við afsláttum í smásölu, m.a. þeim afsláttum sem hagsmunasamtök á borð við Hjartavernd höfðu náð fram og hafa náð fram fyrir félagsmenn sína. Við greiddum þess vegna á sínum tíma atkvæði gegn ákvæðinu og af sjálfu leiðir að við studdum frestun á gildistöku til áramóta og að við fögnum og flytjum nú með öðrum nefndarmönnum hv. heilbrigðisnefndar tillögu um að fresta þessu enn frekar, þ.e. til 1. apríl 2009, og erum tilbúin til þess að fresta þessu enn lengur eða fella þetta alveg úr gildi ef þörf krefur.



Frumvarpið gengur til 2. umr.