136. löggjafarþing — 51. fundur
 11. desember 2008.
tímabundnar ráðningar í utanríkisráðuneytinu.

[10:41]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég lagði nýlega fram fyrirspurn til forsætisráðherra og spurði m.a. um tímabundnar ráðningar í ráðuneytunum. Mér bárust svör ráðherra sem voru athyglisverð. Þar kom m.a. fram að það er gríðarlegur fjöldi, vil ég segja, sem hefur fengið tímabundnar ráðningar í ráðuneytunum. Ef ég fer aðeins yfir þetta eru það fimm í forsætisráðuneyti, þrír í dómsmálaráðuneyti, sex í félags- og tryggingamálaráðuneyti, sjö í fjármálaráðuneyti, tveir í heilbrigðisráðuneyti, tveir í iðnaðarráðuneyti, sjö í menntamálaráðuneyti, enginn í samgönguráðuneyti, enginn í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, enginn í umhverfisráðuneyti og tveir í viðskiptaráðuneyti.

Það sem var kannski athyglisverðast við þessi svör var að ekkert svar barst um það hvernig staðan er í utanríkisráðuneytinu. Þess vegna fæ ég tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvers vegna utanríkisráðuneytið gefur engin svör um tímabundnar ráðningar, hvort utanríkisráðuneytið er ekki enn þá hluti af Stjórnarráðinu og íslenskri stjórnsýslu.

Svo vil ég taka það fram, hæstv. forseti, að reglur sem gilda um auglýsingar eru mjög strangar. Þetta eru reglur fjármálaráðuneytisins um auglýsingar og þar segir, með leyfi forseta:

„Ekki er skylt að auglýsa“ — sem sagt, reglan er að auglýsa — „störf í eftirfarandi tilvikum:

1. Störf sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur.

2. Störf við afleysingar, svo sem vegna orlofs, veikinda, barnsburðarleyfis [o.s.frv.].

3. Störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði.“

Miðað við öll stóru orðin hjá formanni Samfylkingarinnar fyrr á árum í ýmsum Borgarnesræðum og fleiri ræðum um gagnsæjar leikreglur lýðræðisins og að umgangast beri vald af virðingu og þar fram eftir götunum (Forseti hringir.) spyr ég hæstv. utanríkisráðherra um skýringar.



[10:43]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa það að eins og ýmsir aðrir þingmenn fer ég stundum inn á bloggsíður. Ég villtist inn á bloggsíðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur í fyrradag og þar sá ég að hún var einmitt að blogga um það að ekki hefðu borist nein svör frá utanríkisráðuneyti, það hefði bara sagt pass við þessari fyrirspurn. Ég verð að játa að mig rak í rogastans yfir að þetta skyldi hafa gerst, fletti þá upp á þessari fyrirspurn þingmannsins og sá að það var ekkert svar frá utanríkisráðuneytinu. Ég hafði samband við ráðuneytið og spurði hverju þetta sætti. Það svar sem ég hef fengið frá starfsmannastjóra ráðuneytisins er að þessi beiðni hafi einfaldlega ekki komið inn á hans borð einhverra hluta vegna og hann ætlar að skoða málið fyrir mig í framhaldi af þessu. Þarna eru væntanlega einhver mistök á ferðinni sem ég bið þá bara forláts á en ég hef a.m.k. sett það í gang að það sé skoðað hvernig það megi vera að beiðni um svar við þessari tilteknu fyrirspurn hafi ekki komið til starfsmannastjóra ráðuneytisins.



[10:45]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé kannski dæmigert um samstarfið eða samstarfsleysið innan ríkisstjórnarinnar, að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki einu sinni fengið upplýsingar um að henni bæri að svara þessari fyrirspurn hæstv. forsætisráðherra. Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra, því hún á væntanlega eftir að koma hér upp aftur, hvað henni finnist um þessar gríðarlegu tímabundnu ráðningar sem ástundaðar eru innan Stjórnarráðsins og m.a. í ráðuneytum flokksmanna hennar því þetta kostar mikla peninga. Þarna er um að ræða að starfsfólk ráðuneytanna er ekki notað heldur er annað fólk ráðið inn til að vinna vinnuna. Þetta er gagnrýnivert og ég bið hæstv. ráðherra að gefa mér skýringar á því hvers vegna svona margt fólk er ráðið tímabundið.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég svo lýsa ánægju með að hæstv. ráðherra les bloggsíðuna mína. [Hlátrasköll í þingsal.]



[10:46]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Já, ég las bloggsíðuna í þetta sinn hjá þingmanninum og hef svo sem gert það áður. Ég reyni að fylgjast með þeim skoðunum sem uppi eru hjá stjórnarandstöðunni og tel að það skipti nokkru máli að fylgjast ekki bara því sem sagt er í þingsölum heldur líka því sem fólk skrifar í greinum eða á bloggsíðum.

En varðandi þessar tilteknu upplýsingar þá mun ég sjá til þess að þær berist og það verður þá að prenta upp þetta skjal þannig að utanríkisráðuneytið sé með inni í því.

Hvað varðar tímabundnar ráðningar sem hv. þingmaður biður um skýringar á þá finnst mér mjög erfitt að gefa eitthvert algilt svar um það. Tímabundin ráðning getur komið í veg fyrir að sett sé upp ný staða í ráðuneytinu sem getur verið erfiðara að losna við aftur og hún getur líka sparað aðkeypta vinnu. Það er því ekki hægt að gefa neitt algilt svar við því hvort rétt sé að beita tímabundnum ráðningum eða fara frekar í aðkeypta vinnu eða að setja upp stöður sem eru auglýstar. Við tilteknar aðstæður má haga hlutum með þessum hætti. Ég hef auðvitað aðstöðu til að skoða hvernig þingmaðurinn, þegar hún var ráðherra, hagaði þessum hlutum í ráðuneyti sínu. (VS: Þar var sko allt á hreinu.) [Hlátrasköll í þingsal.]