136. löggjafarþing — 51. fundur
 11. desember 2008.
afbrigði um dagskrármál.

[11:14]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli forseta á því að annan eða þriðja daginn í röð er dagskrá fundarins með þeim hætti að svo til öll mál eru tekin á dagskrá með afbrigðum. Það á að fara að ræða ein átta, níu lagafrumvörp sem þingmenn hafa ekki séð fyrr en kannski að morgni þess dags þegar fundur hefst.

Við ræddum aðeins í gær, að mínu frumkvæði, um fyrirkomulag þingstarfa á næstunni. Ég innti hæstv. forseta eftir því hvort ætlunin væri að semja nýja starfsáætlun sem tæki þá að minnsta kosti til tímans fram að jólum eða fram að áramótum. En mér sýnist að fyrirkomulag þessara mála sé að lenda í hinu mesta óefni og ekki sé sérstaklega góður svipur á því að dag eftir dag sé dagskrá þingsins sett upp með þeim hætti að veita þurfi afbrigði fyrir nánast hverju einasta máli og ný og ný mál komi hér á dagskrá sem þannig háttar til um.

Ég vil líka spyrja hæstv. forseta: Hefur hann rætt við ríkisstjórnina um það hvernig hún er á vegi stödd með málatilbúnað sinn hér fyrir þinglok um áramót? Er við því að búast (Forseti hringir.) að þetta verði svona áfram næstu daga, að 5–10 mál komi á hverjum degi frá ríkisstjórninni sem öll eigi að taka á dagskrá með afbrigðum?



[11:15]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna athugasemda hv. þingmanns vill forseti geta þess að í gær var farið yfir þá dagskrá sem er í dag með formönnum þingflokkanna. Jafnframt var farið yfir áform um þau dagskrármál sem nú liggja fyrir á næstu dögum og fram til þingloka fyrir jólahlé. Verið er að reyna að þoka þessu áfram en það liggur ljóst fyrir að fjölmörg mál koma fram með stuttum fyrirvara vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í þjóðfélaginu. Forseti hefur góðan skilning á því að mikið er á þingmenn lagt að kynna sér þau mál á skömmum tíma og verður þess vegna að taka eins mikið tillit til þessara aðstæðna og kostur er við afgreiðslu mála.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[11:16]

3.–8. og 11. dagskrármál voru of seint komin fram. — Samþ. með 35 shlj. atkv. að taka þau til meðferðar og sögðu

  já:  ArnbS,  ÁÓÁ,  ÁKÓ,  ÁPÁ,  ÁRJ,  ÁMöl,  BJJ,  BjörgvS,  BjörkG,  EKG,  EyH,  GHH,  GuðbH,  HSH,  HHj,  HerdÞ,  HöskÞ,  IllG,  ISG,  JóhS,  JónG,  JM,  KVM,  KÓ,  KHG,  KLM,  LB,  PHB,  RGuðb,  SJS,  SVÓ,  StB,  VS,  ÞKG,  ÞBack.
4 þm. (AtlG,  ÁI,  ÁÞS,  GMJ) greiddu ekki atkv.
24 þm. (ÁJ,  ÁMM,  BÁ,  BjarnB,  BBj,  EMS,  EBS,  GSB,  GAK,  GÞÞ,  GSv,  JBjarn,  KJak,  KaJúl,  KolH,  KÞJ,  MS,  ÓN,  RR,  SKK,  SF,  ÞSveinb,  ÖJ,  ÖS) fjarstaddir.