136. löggjafarþing — 53. fundur
 11. desember 2008.
olíugjald og kílómetragjald, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og bifreiðagjald, 2. umræða.
stjfrv., 233. mál (hækkun gjalda). — Þskj. 321, nál. 329.

[19:16]
Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum frá meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson, Árni Páll Árnason og Rósa Guðbjartsdóttir.



[19:17]
Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að inna hv. þingmann, formann nefndarinnar, Pétur Blöndal eftir því hvort hann geti upplýst um hvað þessi breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald þýðir mikla kostnaðarhækkun á almenningssamgöngur í landinu. Mér þykir mikilvægt að fá upplýsingar um það vegna þess að mér finnst að til þess hefði átt að horfa við lagasetninguna að reyna að koma sérstaklega til móts við almenningssamgöngur, ekki síst á þessum tímum þegar við höfum og oft og tíðum í vetur rætt um mikilvægi þess að efla almenningssamgöngur.



[19:18]
Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér breytingu á þessum gjöldum um 12,5% í staðinn fyrir 11,5% eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Ekki var fjallað sérstaklega um breytingu á styrkjum eða niðurgreiðslum til almenningssamgangna en það er þá sérmál.