136. löggjafarþing — 56. fundur
 12. desember 2008.
vextir og verðtrygging, 1. umræða.
stjfrv., 237. mál (lækkun dráttarvaxta). — Þskj. 332.

[17:27]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, sem er 237. mál þingsins á þskj. 332.

Frumvarpið er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna sem kynnt var 14. nóvember sl. af formönnum stjórnarflokkanna í umfangsmiklum aðgerðapakka. Þetta var ein af þeim hugmyndum sem kynntar voru þá og kemur núna inn í þingið svo við getum freistað þess að afgreiða það fyrir jól. Hér er um að ræða eitt af mikilvægu málunum sem léttir byrði margra. Því er ætlað er að koma til móts við fjölskyldur og heimili í landinu í kjölfar fjármálakreppunnar sem ríður nú yfir heiminn, en í áætluninni kemur m.a. fram að áætlað sé að endurskoða lög um dráttarvexti með það að markmiði að þeir vextir lækki.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu varðandi útreikning dráttarvaxta sem miða að því að lækka dráttarvexti. Breytingarnar eru þríþættar.

Í fyrsta lagi er lagt til að dráttarvextir miðist framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabankans til lánastofnana, en í gildandi lögum er kveðið á um að dráttarvextir eigi að vera samtala gildandi algengustu vaxta skammtímalána Seðlabanka til lánastofnana auk 11% álags, þ.e. verið er að lækka álagið um 4%, úr 11 í 7.

Í öðru lagi er lagt til að heimild Seðlabanka til að ákveða annað vanefndaálag ofan á viðmiðunarvexti verði felld brott, en samkvæmt gildandi lögum hefur Seðlabanki Íslands heimild til að ákveða annað vanefndaálag en 11%, þ.e. frá 7% og upp í 15%

Loks er lagt til að Seðlabankinn birti ákvörðun um dráttarvexti fjórum sinnum á ári í stað tvisvar sinnum nú. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að heimilt verði að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta og um fastan hundraðshluta dráttarvaxta, nema þegar um neytendalán er að ræða.

Eins og ég nefndi áðan er þetta eitt af mörgum málum sem voru kynnt í viðamiklum pakka sem formenn stjórnarflokkanna kynntu um daginn til að létta undir með heimilum í landinu. Margt er að sjálfsögðu enn í vinnslu og skoðun og útfærslu. Sumu er hægt að breyta með einföldum lagabreytingum eins og þessum er hafa strax áhrif, sérstaklega á þá sem eiga í mestu erfiðleikunum núna út af fasteignakaupum og tekjusamdrætti og erfiðum og dýrari lánum og því er þetta aðgerð sem ætti að skipta talsverðu máli.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að dráttarvextir miði framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabanka í stað 11% nú. Auk þess er lagt til að heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag verði felld brott. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni lækka um 674 milljónir á árinu 2009. Hins vegar verður ekki séð að frumvarpið muni hafa í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.



[17:31]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er hægt að fagna frumvarpinu sem hér liggur fyrir þar sem það miðar að því að lækka dráttarvexti. Við skulum þó gera okkur grein fyrir því að dráttarvextir eru vextir sem leggjast á vegna vanskila og að sjálfsögðu skiptir máli fyrir þá sem vilja komast út úr vanskilum að ekki leggist óhóflegir vextir á þá vanskilaskuld sem um er að ræða. Meginatriði í einu þjóðfélagi er samt sem áður að þjóðfélagsþegnar lendi ekki í vanskilum og komist þannig hjá því að greiða dráttarvexti.

Fyrst verið var að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu hefði ég vænst þess og viljað sjá þann skilning hjá ríkisstjórninni á þeim vanda sem við er að etja hjá flestum fjölskyldum í landinu, og sérstaklega yngra fólkinu, sem hefur þurft að taka verðtryggð lán og aðrar skuldbindingar og verður nú jafnvel að horfa fram á að lánin hækki og verði meiri en þau verðmæti sem keypt voru fyrir viðkomandi lán og það er óviðunandi.

Þá er líka um það að ræða að við búum við Evrópumet í stýrivöxtum Seðlabanka og æskilegt hefði verið, og raunverulega forsenda þess að hér geti risið öflugt atvinnulíf í landinu, að þeir stýrivextir lækki mjög hratt sem allra fyrst og í kjölfar fylgi vaxtalækkun til einstaklinga og fyrirtækja. Það eru forsendur þess að um sé að ræða að eitthvert réttlæti verði í þessu þjóðfélagi. Ég bíð, virðulegi forseti, eftir slíku frumvarpi og vænti þess að ríkisstjórnin muni leggja það fram áður en þetta þing lýkur störfum fyrir næstkomandi áramót því að það er það sem á þarf að halda.

Hér er um að ræða lítið skref í rétta átt hvað það varðar að koma til móts við þá sem eiga í verulegum fjárhagserfiðleikum, þ.e. þá sem lentir eru í vanskilum, en meira þarf að koma til. Frumatriðið er að hér geti búið bjargálna þjóð og að sem flestir geti verið eignafólk. Til þess að það geti orðið verður að vera eðlilegt vaxtaumhverfi, það verður að vera lánaumhverfi sem er í samræmi við það sem gengur og gerist í okkar heimshluta. Það er gjörsamlega útilokað að við getum haldið uppi lífskjörum, staðið undir eðlilegu þjóðfélagi, ef hér eiga að gilda allt önnur lögmál og sjónarmið hvað varðar vexti — og hafa svo verðtryggingu ofan á — en aðrar þjóðir í okkar heimshluta.



[17:34]
viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var góð ræða hjá hv. þm. Jóni Magnússyni eins og svo margar sem hann heldur um mál sem snerta þetta allt og mælir hann þar af góðri þekkingu. Þetta mál er eitt af mörgum málum sem við þurfum að koma fram með á næstu vikum, mánuðum og missirum til að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera.

Eins og þingmaðurinn gat um varðar þetta mál sérstaklega lækkun dráttarvaxta hjá þeim sem eru í vanskilum. Margir munu lenda í vanskilum, tímabundið vonandi, og langstærsta verkefni ríkisstjórnarinnar og fjármálafyrirtækjanna á næstu vikum og mánuðum er að koma í veg fyrir að fólk og fyrirtæki lendi í vanskilum og alvarlegum erfiðleikum. Það þarf að grípa til greiðsluaðlögunar í samfélaginu með tilliti til efnahagsþrenginganna og efnahagsáfallsins, allt er það rétt.

Þingmaðurinn nefndi sérstaklega að stóra málið væri lækkun vaxtastigsins sjálfs og við vitum öll að það tengist tímabundið hástigavöxtunum, áætlun sem íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerðu um að koma málum aftur af stað, koma verði á krónuna og koma gengismálum okkar í gang. Langstærsta og mikilvægasta verkefnið af þeim öllum, og sú aðgerð sem skiptir meira máli en allar hinar samanlagðar, er að koma genginu vel af stað og koma réttu verði á krónuna, koma jafnvægisgengi á.

Við getum síðan velt því fyrir okkur sérstaklega hvert leiðir liggja til framtíðar þegar menn ræða um gjaldmiðilsmálin og vaxtastig almennt. Við getum litið aðeins aftur til síðustu ára og borið saman vexti á Íslandi og í öðrum löndum o.s.frv. Það er stór og mikil og spennandi umræða sem mun víða fara fram á næstu vikum eins og við þekkjum. Í dag á milli kl. 4 og 6, held ég, er vinna sjálfstæðismanna í Evrópumálum kynnt o.s.frv., allt ber það að sama brunni.

Þetta mál er sérstaklega til þess að létta þeim byrðar sem lenda í vanskilum og svo er það annað stórt mál að koma í veg fyrir að vaxandi fjöldi fólks lendi í þeirri stöðu.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til viðskn.