136. löggjafarþing — 58. fundur
 15. desember 2008.
fjárlög 2009, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 1. mál. — Þskj. 1, nál. 337 og 349, brtt. 338, 339, 340 og 341.

[13:30]
Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. 2. umr. um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 fer nú fram við mjög óvenjulegar og í reynd einstæðar aðstæður. Við sem þjóð stöndum í raun frammi fyrir gríðarlega erfiðu og flóknu verkefni við að vinna okkur út úr þeim ótrúlegu aðstæðum sem við erum komin í og svo að ég tali fyrir mig finnst mér að fyrir fram hafi þetta verið óhugsandi aðstæður.

Októbermánuður 2008 mun um ókomna tíð vera ein af lykiltímasetningum í sögu landsins þar sem yfir 80% bankakerfisins féll nánast í einu vetvangi. Íslenska þjóðin og efnahagskerfið urðu fyrir miklu áfalli við þessa atburði og því má halda fram að aldrei í heimssögunni hafa aðrar eins hamfarir átt sér stað í einu landi, ekki síst ef litið er til umfangs efnahagskerfisins. Almenningur stendur nú frammi fyrir auknu atvinnuleysi, minnkandi tekjum, hærri sköttum og álögum, auknum framfærslukostnaði og lækkandi eignavirði ásamt hinu himinháa vaxtastigi og mikilli verðbólgu sem nú geisar. Á sama tíma og skuldir aukast, hvort sem um er að ræða verðtryggðar, óverðtryggðar eða gengistryggðar, fellur kaupmáttur ráðstöfunartekna. Það er, virðulegi forseti, sá ískaldi veruleiki sem þjóðin stendur nú frammi fyrir.

Undanfarnar vikur hefur mikið verið fjallað um aðdraganda þessara atburða. Margir aðilar, innlendir og erlendir, höfðu haft uppi viðvörunarorð til stjórnvalda um að í aðsigi væru mikil vandræði í efnahagsmálum. Því miður lét ríkisstjórnin þessar viðvaranir sem vind um eyru þjóta. Síðustu 12–15 mánuði hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar haft uppi yfirlýsingar um að allt væri í besta standi og fram undan væri betri tíð í efnahagsmálum. Nú hefur komið í ljós að á sama tíma voru ráðherrar ítrekað varaðir við ótryggu ástandi og sagt að þörf væri á því að bregðast við ef ekki ætti illa að fara.

Það er ljóst að stjórnvöld hafa í mörgum tilfellum brugðist skyldum sínum. Það liggur líka fyrir að samskipti innan ríkisstjórnarinnar og í raun innan stjórnsýslunnar hafa verið með þeim hætti að það bauð hættunni heim. Nefna má sem dæmi að enginn kannast við að hafa átt samtöl við seðlabankastjóra sem segist hafa varað ráðherra við yfirvofandi hættu varðandi bankakerfið. Tveir hæstv. ráðherrar virðast hafa átt aðild að einhverjum dýrasta misskilningi sögunnar í samskiptum sínum við fjármálaráðherra Breta í aðdraganda þess að beitt var hryðjuverkalögum á eigur Íslendinga í Bretlandi.

Það má nefna margt fleira sem er gagnrýnisvert við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar á undanförnum mánuðum. Af nógu er að taka sem hefur komið fram í umræðunni en ég ætla ekki að eyða lengri tíma í þau mál. Ég vísa til nefndarálits minni hluta fjárlaganefndar þar sem ýmislegt er dregið fram.

Frumvarp til fjárlaga 2009 var lagt fram í byrjun þings í október og fór til umfjöllunar og vinnslu í fjárlaganefnd eins og lög gera ráð fyrir. En nánast á sama tíma reið fall bankanna yfir og öllum var ljóst að við þá atburði brustu forsendur fjárlaganna. Í framhaldinu mun lítið hafa verið fjallað um frumvarpið í fjárlaganefnd vikum saman. Ég tek fram að ég er nýkominn til starfa í fjárlaganefnd þannig að ég tala út frá því sem ég hef heyrt um. Hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin tóku frumvarpið aftur í sínar hendur með vilja og stuðningi þingmanna stjórnarflokkanna. Fjárlaganefndin fékk breytingartillögur ríkisstjórnarinnar á sitt borð fyrir fjórum dögum, nánast nýtt frumvarp. Um sólarhring síðar afgreiddi meiri hluti fjárlaganefndar frumvarpið úr nefndinni til 2. umr. Í raun og veru var ekkert svigrúm fyrir fjárlaganefnd til að fara eðlilega yfir tillögurnar og meta áhrif þeirra. Við í minni hluta fjárlaganefndar höfum gagnrýnt það og komum því á framfæri þegar meiri hlutinn ákvað að afgreiða málið með þessum hætti úr nefndinni. En áður en það gerðist lagði minni hlutinn fram ýmsar spurningar sem við óskuðum eftir að fá svör við og var þeim beint til fjármálaráðuneytisins. Það verður að segjast, virðulegi forseti, að svör við spurningum okkar voru vægast sagt mjög fátækleg. Ég ætla að nefna örfáar af þeim fjölmörgu spurningum sem minni hlutinn lagði fram.

Við spurðum um nýja þjóðhagsspá. Það væru gerbreyttar aðstæður og því væri þörf á að gera nýja þjóðhagsspá. Við spurðumst fyrir um hvort eitthvað slíkt lægi fyrir núna áður en fjárlög yrðu afgreidd. Svörin voru þau að ný, endurskoðuð þjóðhagsspá verði lögð fram í janúar. Spurt var fyrir síðustu helgi hver yrði væntanleg rekstrarniðurstaða ríkissjóðs árið 2008. Þá var vísað til fjáraukalagafrumvarps sem hafði ekki komið fram en eins og kom fram í umræðum í dag var það lagt fram á Alþingi í morgun. Það er í raun og veru með ólíkindum að meiri hluti fjárlaganefndar skuli hafa ákveðið að afgreiða frumvarpið úr nefndinni á föstudaginn án þess að frumvarp til fjáraukalaga lægi fyrir þannig að menn gætu gert sér grein fyrir stöðu málsins. Við spurðum um áætlaðar vaxtatekjur á síðasta ári. Þá var vísað í tillögur sem eru væntanlegar fyrir 3. umr. fjárlaga. Allt í lagi með það, við munum fjalla um þær þegar þar að kemur.

Eitt af því sem spurt var um var hvernig búvörusamningar við bændur yrðu meðhöndlaðir. Í svari ráðuneytisins var vísað í forsendur upphaflega fjárlagafrumvarpsins um verðlagsuppfærslur upp á 5,7% að meðaltali yfir næsta ár. Við sem höfum fylgst með þróun verðbólgu undanfarið og séð þær spár sem menn hafa verið að velta fyrir sér miðað við næsta ár sjáum að þarna er um verulega skert framlög að ræða.

Það eru auðvitað fjölmargar fleiri spurningar sem væri vert að fara yfir en ég vísa í fylgiskjöl með nefndaráliti minni hlutans þar sem þær koma fram sem og svör ráðuneytisins við þeim. En það er sem sagt ekki búið að endurmeta þjóðhagsspána. Vísað er til þess að hún muni koma fram í janúar en hún er auðvitað ein mikilvægasta forsendan fyrir fjárlögunum. Við höfum ekki endurskoðaða spá og þess vegna teljum við í minni hlutanum að við séum hreinlega ekki í stakk búin til að fjalla um þessar breytingartillögur við frumvarpið eins og það liggur fyrir.

Það eru engar greiðsluáætlanir, engar rekstraráætlanir, engin stefnumótun um ríkisfjármálin og það hafa ekki verið lagðar fram áætlanir um lántökur eða lánsfjárþörf ríkissjóðs á næstu árum eða lánakjör. Við höfum kallað eftir því hvernig menn sjá fyrir sér að þjóðin vinni sig í gegnum vandann á tveimur til þremur árum eins og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gerir ráð fyrir. Slíkar upplýsingar hafa ekki komið fram. Það má segja, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn, fyrst og fremst þó ríkisstjórnin, skili auðu varðandi margar grundvallarforsendur frumvarpsins. Ég verð að segja að mér finnst aumt að a.m.k. fjármálaráðuneytið skuli ekki sýna neina viðleitni til að reyna að draga fram hvað við erum að tala um þannig að fjárlaganefndin og þingið geti með einhverjum hætti gert sér grein fyrir hvað er í gangi. Við mótmæltum því í minni hlutanum að frumvarpið yrði afgreitt úr nefnd með þeim hætti sem gert var og með þeim rökum sem við höfum farið yfir. En taka ber fram að við gerum ráð fyrir því að fá ýmsar upplýsingar, a.m.k. tillögur, þegar nefndin mun fjalla um frumvarpið fyrir 3. umr. Við verðum auðvitað að lifa í þeirri von — kannski er hún mjög veik — að nefndin fái frekari gögn frá fjármálaráðuneytinu þannig að menn geti áttað sig á því hvað er í gangi. Ég veit að hv. formaður fjárlaganefndar mun ganga eftir því. Ég hef orðið var við það að hann er mjög harður í horn að taka þótt því miður sé árangurinn allt of lítill.

Ég verð að segja að ef ekki koma frekari upplýsingar af þessu tagi er það að mínu mati ábyrgðarlaust að afgreiða fjárlög án þess að þingið viti hvað að baki liggur. Það er hins vegar, eins og við vitum, lögbundið að slíkt skuli gert.

Ég nefni enn einu sinni að frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram í dag og ítreka að mér finnst með ólíkindum að meiri hlutinn skuli hafa ákveðið að afgreiða frumvarpið til 2. umr. án þess að vita í raun og veru hvert stefndi í ríkisrekstrinum á árinu 2008.

Hæstv. forseti. Eins og við vitum stefnir í stórfellda skuldsetningu ríkissjóðs á næstu árum. Við höfum kallað eftir einhverri áætlun um hvaða stærðir geti verið þar að ræða, lánakjör og greiðsluáætlanir, og ég hef þegar farið yfir það. Við í minni hluta fjárlaganefndar reyndum að reyna að átta okkur á því hvert umfangið gæti verið, til og með árinu 2011. Ég ætla að hlaupa yfir nokkrar tölur sem við komumst yfir og ég held að þessi lauslega áætlun okkar sé ekkert vitlausari en hvað annað, að minnsta kosti hefur engin áætlun komið frá fjármálaráðuneytinu.

Samkvæmt upplýsingum sem við fengum í Seðlabankanum voru skuldir ríkissjóðs í lok október sl. 564 milljarðar. Áætlað er að halli fjárlaga 2008 samkvæmt fjáraukafrumvarpinu sem kom fram í morgun sé um 5 milljarðar þannig að skuldir ríkissjóðs verða í upphafi árs 2009 um 570 milljarðar. Við teljum að halli ríkissjóðs samanlagt til og með árinu 2011 geti numið allt að 500 milljörðum eða tæplega fjárlögum eins árs. Þar af teljum við að halli á fjárlögum ársins 2009, þegar upp verður staðið, geti nálgast 200 milljarða. Komið hefur fram að fjármögnun nýju ríkisbankanna sé einhvers staðar nálægt 385 milljörðum en gert er ráð fyrir að ríkissjóður gefi út skuldabréf fyrir því. Við áætlum að endurfjárþörf Seðlabankans gæti numið um 150 milljörðum.

Þá er ég kominn að því máli sem enginn veit hvernig mun enda, þ.e. uppgjör á hinum svonefndu Icesave-innstæðum í Bretlandi og Hollandi. Ýmsar tölur hafa flogið í því sambandi en við teljum að það geti verið allt að 600 milljarðar, vonandi miklu minna en um það ríkir alger óvissa. Samkvæmt þessu lauslega mati okkar erum við að tala um að fjármögnunarþörf ríkissjóðs út árið 2011 geti verið einhvers staðar nálægt 1.700 milljörðum en að sjálfsögðu eru allir fyrirvarar settir við það enda er óvissan mikil og við höfum ekki fengið neinar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um það. Ljóst er að ef lánsfjárþörf ríkisins verður eitthvað með þessum hætti sjáum við fram á gríðarlegan vaxtakostnað ríkissjóðs á næstu árum.

Fram undan eru gríðarlegir erfiðleikar í ríkisfjármálum. Við sjáum fram á mikið tekjufall. Raunar lít ég svo á að tekjuáætlun frumvarpsins sé ófrágengin og ekki fullgerð. Ég á von á því að það komi einhverjar breytingartillögur fyrir 3. umr. um lækkun á tekjuáætlun. Viðskiptabankarnir sem féllu skiluðu um 13 milljörðum í tekjusköttum til ríkissjóðs á þessu ári. Við vitum að miklir erfiðleikar eru í atvinnulífinu og að sjálfsögðu allt útlit fyrir að tekjuskattstekjur af lögaðilum muni falla. Það er því skoðun mín og mat að tekjuáætlun komi endurskoðuð fyrir 3. umr. með lægri tölu. Ég vona að sjálfsögðu að svo verði ekki en ég óttast að það gerist.

Við sjáum fram á að það eru lækkanir á mörkuðum erlendis fyrir íslenskar vörur. Komið hefur fram að heimsmarkaðsverð á áli hefur lækkað. Við höfum upplýsingar um að verð á sérstaklega dýrari sjávarafurðum hafi lækkað og við fengum fréttir af því í morgun að nú hafi þau fyrirtæki sem hafa haft uppi áform um uppbyggingu eða stækkun álveranna slegið því á frest. Það er því ekki beint bjart yfir þessum málum, því miður. En á sama tíma eykst þrýstingur á útgjöld, sérstaklega í velferðarmálum og það stafar auðvitað af versnandi ástandi í þjóðfélaginu almennt.

Áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gerir ráð fyrir því að jafnvægi náist í ríkisfjármálum á tveimur til þremur árum. Það þýðir að sjálfsögðu að ef ná á þeim árangri þarf að ráðast í verulegan niðurskurð á útgjöldum. Ég held að menn hljóti að sjá að það eru ekki margir aðrir möguleikar fyrir hendi. Áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins geri ráð fyrir að fjárlagahallinn á árinu 2009 verði einhvers staðar á bilinu 165–170 milljarðar en eins og ég sagði áðan kæmi mér ekki á óvart að hann yrði meiri og vísa ég m.a. í að það er innbyggður halli í kerfinu og margar stofnanir hafa verið í rekstrarvanda.

Síðan endurtek ég það sem ég sagði áðan, það liggur ekki enn þá fyrir hver vaxtakostnaðurinn er áætlaður á næsta ári. Ég geri ráð fyrir að tillögur um það komi fram fyrir 3. umr. en það er alveg ljóst að við erum að tala þar um tugi milljarða, sennilega eitthvað nálægt 100 milljörðum á næsta ári sem er auðvitað gríðarleg fjárhæð. En við allar þessar aðstæður er auðvitað, má segja, velferðarkerfið í hættu. Ég gagnrýni þau vinnubrögð sem koma fram í breytingartillögum meiri hlutans sem byggja á tillögum ríkisstjórnarinnar, þar er gert ráð fyrir flötum niðurskurði á allar stofnanir þó að við vitum að margar stofnanir hafa verið í rekstrarhalla, þó að í fjáraukalagafrumvarpinu sem liggur fyrir núna sé að hluta til tekið á því hjá nokkrum stofnunum.

Það liggur fyrir að ýmsar heilbrigðisstofnanir eru í miklum rekstrarvanda. Ef ég man rétt kemur fram í áliti minni hluta heilbrigðisnefndar sem byggja á upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu að halli heilbrigðisstofnananna sé einhvers staðar nálægt 2,2 milljörðum. Eins og ég sagði er að einhverju leyti verið að taka á því í fjáraukalagafrumvarpi með fjárlagafrumvarpinu. Það stefnir líka í mikinn halla á Landspítalanum, ef ég man rétt um 2 milljarða, en það eru líka einhverjar tillögur um að taka á því að hluta í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég gagnrýni þessi vinnubrögð, svona flatan niðurskurð án þess að menn hafi farið yfir hverja stofnun fyrir sig og reynt að finna út úr því hvernig megi leysa þessi mál og hvernig þetta kemur fyrir. Það væri fróðlegt að heyra hvort forustumenn fjárlaganefndar hafa einhverjar hugmyndir um hvernig á að vinna úr þessu á næsta ári og næstu árum, eða jafnvel fjármálaráðherra sem því miður er ekki við þessa umræðu á þessari stundu. Reyndar vek ég athygli á því, virðulegi forseti, að það er ekki einn einasti ráðherra við 2. umr. um fjárlög sem er meginumræðan um fjárlagafrumvarpið. Þetta er kannski eitt dæmið af mörgum um það hvaða virðingu hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar sýna Alþingi, eða hitt þó heldur. Að vísu er hæstv. félagsmálaráðherra í hliðarsal.

Í breytingartillögum meiri hlutans er vandanum velt yfir á almenning og sjúklinga og þá sem þurfa á velferðarþjónustunni að halda. Það má nefna hækkun á tekjuskatti sem fellur auðvitað á þá sem eru vinnandi. Það er verið að hækka komugjöld á heilbrigðisstofnanir og það er gert ráð fyrir að auka greiðsluþátttöku vegna lyfja. Fleira mætti nefna. Það er holt og bolt um allt frumvarp verið að skera niður útgjöld. Nefna má rannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun en auðvitað vitum við að í því árferði sem er fram undan er kannski aldrei meiri þörf á að efla nýsköpun og atvinnuþróun. Það er verið að klippa á það eins og annað.

Ef maður rennir yfir þessar tillögur er verið að skera niður stórar og smáar fjárhæðir um allt frumvarpið og að mörgu leyti kemur það illa niður víða úti um landið. Það er alls kyns starfsemi sem verður hnífnum að bráð og ég sé því miður fyrir mér að þetta muni þýða að þó nokkuð margir muni missa atvinnu vegna þess að rekstur stofnana hefur ekki fjárheimildir til að reka sig og þá þarf auðvitað að skera niður starfsemina. Við þekkjum það að í mörgum tilfellum er launakostnaður uppistaðan í útgjöldunum og t.d. í heilbrigðiskerfi má áætla að launakostnaður sé einhvers staðar nálægt 80% af útgjöldunum.

Ég vil líka, virðulegi forseti, koma inn á það að ég lýsi miklum áhyggjum af stöðu sveitarfélaganna í landinu. Það má segja að þau séu skilin eftir í hálfgerðu uppnámi. Það er ljóst að framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga dragast verulega saman vegna minnkandi skatttekna og í þessum breytingartillögum er ekki að sjá að gert sé ráð fyrir að jöfnunarsjóður fái aukaframlag frá ríkisstjórninni eins og hefur verið undanfarin ár. Við þekkjum það sem þekkjum til sveitarstjórnarstigsins að þessi framlög frá Jöfnunarsjóði til sveitarfélaganna, að ég tali ekki um aukaframlagið, hafa skipt sköpum fyrir mörg sveitarfélög. Að vísu eru þau misjafnlega sett fjárhagslega en ég óttast að þetta muni koma allillilega niður á mörgum sveitarfélögum ef niðurstaðan verður þessi. Hins vegar ber auðvitað að geta þess að það er gert ráð fyrir því að heimild sveitarfélaga til álagningar útsvars verði hækkuð en ég fullyrði að sú útsvarshækkun muni ekki vega á móti fjármunum sem ýmis sveitarfélög munu tapa af minnkandi framlögum úr jöfnunarsjóði. Ég ítreka að ég lýsi miklum áhyggjum af hagsmunum sveitarfélaganna í landinu svo ég tali ekki um ýmislegt annað sem því tengist.

Það er auðvitað eðli stjórnarandstöðunnar að gagnrýna stjórnarmeirihlutann og finna að því sem gert er og jafnframt hlýtur þá að vera eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn kalli eftir tillögum stjórnarandstöðunnar, hvernig menn vilja vinna málið með öðrum hætti. Ég vil hins vegar segja það, virðulegi forseti, okkur til málsbóta að það er á vissan hátt mjög óeðlilegt að krefja okkur um tillögur við þær aðstæður sem nú eru uppi. Fjárlaganefndin hefur mjög lítið tekið tíma í að fara yfir þessar tillögur og grunnforsendur liggja ekki fyrir. Fjáraukalagafrumvarpið lá ekki fyrir fyrr en í dag þannig að fleira mætti nefna í því sambandi.

Fjárlaganefndin lauk umfjöllun um þessar tillögur á einum sólarhring og ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst í raun og veru miklu eðlilegra að spyrja hvernig í ósköpunum meiri hlutinn lætur sig hafa það að afgreiða málið út úr fjárlaganefnd við þessar aðstæður í stað þess að gefa því lengri tíma. Ég geri mér grein fyrir því að tíminn er ekki ótakmarkaður, það styttist í áramótin og allt það, en þetta eru hins vegar ekki góð vinnubrögð. Ég geri mér þó grein fyrir því, eins og ég tel að allir geri, hver staða mála er sem er til komin, a.m.k. að miklu leyti, vegna aðgerðaleysis eða framgöngu ríkisstjórnarinnar á síðustu mánuðum, því miður. Það er alveg ljóst að ef við ætlum að ná jafnvægi, t.d. ef við lítum til samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, verðum við annaðhvort að auka tekjurnar eða skera niður gjöldin. Það er svo einföld regla — nema hvort tveggja sé auðvitað. Ríkisstjórnin verður að hafa einhverja stefnu í þessum málum og ég lít svo á að hún liggi ekki fyrir, hún er ekki til nema stefnan sé sú að hafa ekki stefnu en það er ljóst að það þarf að forgangsraða upp á nýtt í öllum ríkisútgjöldum út frá aðstæðunum. Útlitið gefur ekki tilefni til annars.

Þar sem ég er að tala um stefnu vil ég nefna að vegna þess niðurskurðar sem liggur fyrir í þessum breytingartillögum, þessum flata niðurskurði, er það þannig að heilbrigðiskerfið okkar er á fullu við að sinna sinni góðu þjónustu en ég tel að það vanti algerlega nýja stefnumótun fyrir heilbrigðisþjónustuna á grundvelli breyttra aðstæðna og þrenginga hjá ríkissjóði sem eru fyrir hendi og við sjáum að munu verða á næstu árum. Almenningur hlýtur að gera kröfu til þess að sjá hvernig stjórnvöld ætla sér að leysa þessi verkefni út frá þeim aðstæðum sem upp eru komnar í ríkisfjármálunum. Ég tel, virðulegi forseti, að það verði að fara kerfisbundið yfir nánast hvern einasta útgjaldalið fjárlaga og leita allra leiða til að spara útgjöld. Í því sambandi er mikilvægt að verja það sem við getum sagt að sé lífsnauðsynlegt, þ.e. á sviði heilbrigðis- og velferðarmála en að leita allra leiða til að draga úr fjárheimildum þar sem nokkur kostur er, þ.e. ef við ætlum að vinna okkur út úr þessum vanda og ná jafnvægi í ríkisbúskapinn. Það er það sem við verðum að gera. Við getum ekki leyft okkur að velta þessu máli yfir á komandi kynslóð. Það er bara svo einfalt.

Ég bendi líka á það, virðulegi forseti, að mörg undanfarin ár hafa ýmsar stofnanir ekki nýtt fjárheimildir sínar og meira að segja hefur Ríkisendurskoðun ítrekað gert athugasemdir við það. Ég vísa því til forustu fjárlaganefndarinnar, hv. þingmanna, að nú verði skoðað hvort ekki eru leiðir til að spara útgjöld með því að klippa hreinlega ónýttar fjárheimildir af einhverjum stofnunum. Það getur þess vegna numið einhverjum milljörðum.

Hér hef ég nefnt nokkur atriði sem ég tel að eigi að skoða alvarlega varðandi ríkisútgjöldin. En það er ljóst að fram undan eru miklir erfiðleikar í þjóðarbúskapnum og atvinnulífinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir því að á næsta ári verði samdráttur í þjóðarframleiðslu upp á hátt í 10% og jafnvel enn meira árið 2010. Það er gríðarlegt áfall fyrir okkur ef þetta gengur eftir. Fjármálakerfið er í miklum vanda, byggingarstarfsemin hefur að miklu leyti stöðvast og af þessu öllu saman eru mikil margfeldisáhrif sem valda samdrætti um allt kerfið. Við horfum upp á aukið atvinnuleysi og því miður eru líkur á því að það muni eitthvað aukast frá því sem nú er. Það er gríðarlegt áfall fyrir þjóðina. Þess vegna, virðulegi forseti, verðum við að leita allra leiða til að halda atvinnulífinu gangandi og auka framleiðslu í samfélaginu. Helsta vonin í því er að við nýtum náttúruauðlindir okkar af skynsemi og leitum allra leiða til að auka verðmæti og verðmætasköpun í samfélaginu. Það er grundvallarvelferðarmál að halda atvinnulífinu gangandi og byggja það upp. Þá legg ég áherslu á, eins og ég hef áður sagt, að örva nýsköpun og atvinnuþróun og þá vitna ég m.a. til þess að við eigum margt vel menntað fólki. Við vitum að einhver hópur af vel menntuðu fólki hefur tapað atvinnu sinni og við verðum að gera allt til að koma í veg fyrir að þessi auðlind okkar færist úr landi.

Ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu fyrir nokkrum dögum um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi atvinnufyrirtækjanna. Þar var m.a. nefnd lenging lána, niðurfærsla skulda, breyting lána í eigið fé o.s.frv. Ég vil nefna í þessu sambandi að það getur gengið hratt á eigið fé nýju ríkisbankanna ef mikið verður um slíkar aðgerðir og ég lýsi jafnframt áhyggjum af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gera ekki ráð fyrir því að ríkissjóður hafi mikinn sveigjanleika til að koma bönkunum frekar til aðstoðar.

Það er eitt atriði, virðulegi forseti, sem er vert að nefna í þessu sambandi öllu saman og það er íslenska krónan. Við höfum séð það, bæði í aðdraganda að hruninu og ekki síst núna eftir að það reið yfir, hvað íslenska krónan er veikur gjaldmiðill. Gengi hennar hrundi í kjölfar falls bankanna og það hefur valdið okkur meiri vanda en kannski hefði ella þurft að vera. Ég tel að í ljósi þessarar reynslu þurfi að leita allra möguleika á því að taka upp alvörugjaldmiðil með einhverjum hætti. Ég er ekki endilega að tala um að við eigum að ganga í Evrópusambandið en ýmsar hugmyndir hafa komið fram frá ýmsum sérfræðingum um það með hvaða hætti við getum gert þetta. Það er auðvitað hugsanlegt að niðurstaðan verði sú að Ísland óski eftir aðild að Evrópusambandinu en það er önnur umræða sem ég ætla ekki að fara út í hér. Ég vildi bara nefna þetta lauslega.

Hæstv. forseti. Ég legg fram þá kröfu hér og nú að stjórnarmeirihlutinn sjái til þess að Alþingi hafi með höndum sitt lögboðna hlutverk í stað þess að örfáir einstaklingar í ríkisstjórninni haldi öllum málum í sínum höndum og matreiði þau síðan til afgreiðslu á Alþingi eins og við höfum margoft séð að undanförnu. Hinn fjölmenni meiri hluti stjórnarliðsins hefur þetta á valdi sínu og á í raun og veru að tilkynna ríkisstjórninni að svona geri menn ekki þannig að Alþingi geti sinnt störfum sínum og haft þau verkefni og það hlutverk sem því ber samkvæmt lögum. Ég legg í því sambandi áherslu á eftirlitshlutverk Alþingis með framkvæmd fjárlaga. Það verður að tryggja að fjárlaganefnd hafi grundvöll til að sinna því hlutverki sínu sem er mjög mikilvægt. Ég legg áherslu á það.

Ég vil líka nefna það sem reyndar hefur komið fram í þessari umræðu að ég tel að Alþingi verði að fjalla um fjárlög næsta árs fyrir lok næsta vorþings og vísa þar til þess sem ég hef sagt, og fleiri, um það hve mikið vantar upp á að forsendur þessa frumvarps liggi fyrir. Í svari fjármálaráðuneytisins til minni hluta fjárlaganefndar kom fram að endurskoðuð þjóðhagsáætlun mun liggja fyrir í janúar. Samkvæmt samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er gert ráð fyrir að hann fylgist með framvindu mála, ef ég man rétt ársfjórðungslega, og ég tel að fjárlaganefnd verði að fara í gegnum þetta mál og meta frumvarpið í raun og veru upp á nýtt þegar forsendur liggja fyrir.

Ég vil líka nefna, virðulegi forseti, að ég tel að leggja eigi fram ríkisreikninginn endurskoðaðan í febrúar í stað þess að hann sé lagður fram að hausti. Þetta getur verið liður í aðhaldi með framkvæmd fjárlaga. Ég tel einnig að það eigi að leggja fram endurskoðunarskýrslu með ríkisreikningi, helst í febrúar. Ég legg enn fremur áherslu á það og tel mikilvægt að mánaðarlegt uppgjör verði í rekstri ríkisins og það síðan borið saman við áætlanir þannig að menn geti fylgst náið með framvindunni. Þar komi þá fram greiningar og skýringar á hugsanlegum frávikum. Í framhaldi af því verði síðan að sjálfsögðu metið hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða til að fjárlögin haldi.

Annað mál vil ég nefna í ljósi þess hvernig farið hefur fyrir okkur eða allt útlit er fyrir að fari fyrir okkur varðandi innstæðuábyrgðir á þessum Icesave-reikningum sem byggja á samningum um hið Evrópska efnahagssvæði og tilskipun Evrópusambandsins og hefur komið nánast öllum í opna skjöldu. Ég legg til að farið verði skipulega yfir alþjóðlega samninga sem við erum aðilar að til að komast að raun um hvort fleiri svona mál leynast í slíkum samningum þannig að menn séu a.m.k. klárir á því hvað felst í þeim og við getum gert okkur grein fyrir því ef þar er um að ræða einhver slík mál.

Virðulegi forseti. Ég fer að ljúka máli mínu og vil enda á því að segja að þær breytingartillögur sem hér eru til umræðu eru auðvitað á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans. Staða efnahagsmála og ríkisfjármála og horfur þeirra til framtíðar eru að langmestu leyti á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það er ljóst að framganga ríkisstjórnarinnar undanfarna 12–15 mánuði í efnahagsmálum er að reynast þessari þjóð okkar dýrkeypt og ábyrgð hennar er mikil.

Það er sorglegt hvernig komið er fyrir okkur sem þjóð ef við horfum á stöðu mála og hvernig þetta hefur allt þróast að undanförnu. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst átakanlegt að fjalla um fjárlög ríkisins við þær aðstæður sem nú eru og þær sem við horfum upp á til framtíðar.

Ég vil að lokum taka undir það sem hv. formaður fjárlaganefndar sagði og nefndi í sinni ræðu, að þakka nefndarmönnum fyrir gott samstarf. Ég tel að þrátt fyrir að ég sé aðeins búinn að hnippa í forustu nefndarinnar haldi hún vel utan um starf nefndarinnar og ég þakka henni fyrir það. Ég vil líka að lokum þakka starfsmönnum fjárlaganefndar fyrir ómetanlega aðstoð við okkur í minni hlutanum um margt af því sem þeir eru að starfa.



[14:02]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir ræðu hans og innlegg. Þingmaðurinn hefur þá sérstöðu að hafa hvort tveggja gegnt stöðu formanns fjárlaganefndar og einnig setið í ríkisstjórn þannig að hann þekkir mjög vel hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig og þrátt fyrir að hér hafi verið vikið að ábyrgð ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans í ræðunni gagnvart ýmsu sem kemur fram í breytingartillögunum ætla ég ekki að víkja að því í þessu stutta andsvari. Stjórnarmeirihlutinn ber auðvitað ábyrgð á þessum tillögum sem hér koma og ríkisstjórnin bar fram við 2. umr. inn í nefndina. Við víkjum okkur ekkert undan þeirri ábyrgð þannig að það liggi alveg ljóst fyrir.

Á sama hátt get ég tekið undir, eins og ég lýsti fyrr í dag í magnaðri ræðu minni, er varðar upplýsingastreymið að það hefði mátt vera meira og betra og ég vonast svo sannarlega til þess að upplýsingastreymi til þingsins almennt verði betra á næstu mánuðum og árum. Við höfum gengist fyrir því á fjárlaganefndarsviði að þessar upplýsingar berist með skýrari hætti. Vissulega vantar ýmsar upplýsingar, grundvallarupplýsingar, eins og hér hefur verið rætt fyrr í dag. Þar af leiðandi tek ég undir þau sjónarmið hv. þingmanns og þakka honum um leið þær upplýsingar sem hann bar hér fram í ræðu sinni og ályktanir um fjármagnskostnað og vaxtagjöld og ýmislegt fleira sem hefur ekki verið í umræðunni í dag.



[14:04]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir mjög málefnalega, góða og ítarlega yfirferð um hans sýn til þessa verkefnis sem við stöndum öll frammi fyrir, vandasömu verkefni. Það var nokkuð annar bragur yfir yfirferð hans en félaga hans, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, fyrr í umræðunni um þann vanda sem við stöndum saman frammi fyrir.

Þar sem stigmögnunin í mati á gæðum framsöguræðu hv. formanns fjárlaganefndar fer vaxandi eftir því sem líður á umræðuna, eins og einn hv. þingmaður benti mér á, held ég að í ljósi þeirrar greiningar sem hv. þm. Magnús Stefánsson nefndi áðan um fjármögnunarþörf ríkisins sé augljóst að við er að glíma gríðarlegan stabba, háar fjárhæðir, og þá væri ekkert úr vegi að kalla eftir því, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem hv. þingmaður hefur gegnt á Alþingi, hvernig hann sjái best tekið á þeim vanda sem við blasir. Við erum að ræða það að áætlaður halli sé um 160–170 milljarðar og mat manna liggur til þess að tekjuspáin eigi hugsanlega eftir að leiða til enn stærra gats og að útgjaldaþörfin sé vanmetin. Það fer ekki saman í umræðunni hjá meiri hlutanum hvaða leiðir menn vilja sjá, annars vegar í því að taka á rekstri ríkisins og hins vegar í þeim verkefnum sem annars staðar geta blasað við, svo sem í uppbyggingu á atvinnulífinu. Þess vegna væri mjög fróðlegt að heyra hv. þingmann fylgja því örlítið nánar eftir í svari við þessu andsvari mínu.



[14:07]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og við auðvitað gerum okkur öll grein fyrir stöndum við frammi fyrir gríðarlegum vanda og mjög erfiðri stöðu í efnahagsmálum og ríkisfjármálum. Það er bara staðreyndin, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og við þurfum að vinna okkur út úr því. Eins og ég sagði í ræðu minni verða menn þegar þeir standa frammi fyrir rekstrarhalla, hvort sem það er ríkissjóður eða í einhverjum öðrum rekstri, auðvitað að leita leiða til þess að jafna hann, annaðhvort með auknum tekjum eða lægri gjöldum. Ég fór í ræðu minni yfir nokkrar ábendingar, ekki tæmandi, alls ekki, um það með hvaða hætti menn gætu hugsanlega nálgast það. Þá legg ég m.a. áherslu á að fara yfir forgangsröðun útgjalda og ég nefndi það líka að við ættum að reyna að slá skjaldborg utan um velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið. Þetta getum við rætt vel saman í fjárlaganefnd og ég veit að meiri hlutinn er tilbúinn til þess.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég sagði, þetta er erfitt verkefni og ég verð að viðurkenna að mér líst í raun og veru lítið á blikuna til næstu ára.



[14:08]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessar umræður og stórmerku ræður sem hér hafa verið fluttar, eins og hv. formaður fjárlaganefndar Gunnar Svavarsson hefur sagt, og þakka Magnúsi Stefánssyni fyrir málefnalegt innlegg í þetta. Ég hefði svo sem ekki komið hingað nema vegna þess að undir lok ræðu sinnar mælti hann svo hraustlega að sú efnahagskreppa sem nú dynur yfir þjóðina, mátti skilja á honum, væri um að kenna hagstjórninni á síðustu 12–15 mánuðum.

Þetta fannst mér djarflega mælt af manni sem átti hlutdeild í ríkisstjórn í 12 ár og sem fór svo illa að ráði sínu síðasta kjörtímabilið í þeirri ríkisstjórn að ekki aðeins var efnt til mikilla stóriðjuframkvæmda með tilheyrandi þenslu heldur líka skattalækkana og samkeppni á íbúðalánamarkaðnum sem sprengdi upp verðið á markaðnum og orsakaði þá bólu sem nú er að springa. Það er því djarflega mælt af hv. þingmanni að tala með þessum hætti og þannig eiginlega vísa frá sér allri ábyrgð á því ástandi sem er í landinu. Ég tel að það eigi m.a. rót sína að rekja til þessa, fyrir utan það að skýringanna sé m.a. að leita í einkavæðingu bankanna árið 2001 sem byrjaði þannig að það átti að vera dreifð eignaraðild en endaði síðan í eignaraðild fárra stórra aðila.

Á þessum góðærisárum hérna — í Biblíunni segir að það séu sjö feit ár og sjö mögur og það er nokkuð til í því — á þessum feitu árum hefði auðvitað átt að safna betur í hlöður en gert var í stað þess að grípa til þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin á þeim tíma gerði. Þingmaðurinn getur ekki komið hér upp og talað eins og ábyrgðin sé allra annarra en þeirra sem sátu í ríkisstjórn á þessum 12 árum og þingmaðurinn átti hlutdeild í.



[14:10]
Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki skilið allt sem ég sagði, en fyrst hún vildi koma hér og nota tækifærið til að gagnrýna samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn fyrir hagstjórn síðustu ára er það hennar mál.

Það sem ég var að tala um er það, og það er ekki umdeilt, að síðustu 12–15 mánuði hafa komið fram ítrekaðar viðvaranir frá ýmsum aðilum, sérfræðingum og stjórnmálamönnum, innlendum og erlendum, um að fram undan væru blikur á lofti í efnahagsmálum. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og snúa út úr því. Það er staðreynd og ég held að hæstv. ráðherra ætti frekar að sjá sóma sinn í að viðurkenna hana.



[14:11]
utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef margsinnis héðan úr ræðustól Alþingis og annars staðar gagnrýnt hagstjórnina á síðasta kjörtímabili og ég fer ekkert að breyta því þó að ég sé komin í ríkisstjórn. Það voru gerð hagstjórnarmistök á því kjörtímabili og við erum að súpa seyðið af því.

Hvað varðar það að menn hafi bent á að blikur væru á lofti er það alveg rétt. Við vissum öll að það voru blikur á lofti en við stóðum andspænis því að við vorum með bankakerfi sem var 10 eða 12 sinnum stærra en hagkerfið okkar, við vorum með gjaldeyrisvarasjóð sem ekki var nægilega sterkur til að standa við bakið á þessu bankakerfi og það var samþykkt hér á þinginu, m.a. vegna þess að ríkisstjórnin fór fram á það, lánsfjárheimild til ríkisstjórnarinnar til að stækka gjaldeyrisvarasjóðinn vegna þess að allir vissu að það var þó eitthvað sem við urðum að gera. Jafnvel þó að það hefði gengið eftir segir mér svo hugur um að það hefði ekki dugað til að afstýra því hruni sem við stöndum núna andspænis vegna þess að bankakerfið okkar var einfaldlega (Forseti hringir.) orðið allt of stórt miðað við íslenska hagkerfið.



[14:12]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er kannski best að byrja á því að þakka fyrir samstarfið í fjárlaganefnd sem hefur að mörgu leyti verið ágætt og ekkert undan þeim samskiptum að kvarta. Það er hins vegar undan því að kvarta að upplýsingar hafa ekki fengist sem beðið hefur verið um og ég hygg að það muni koma fram í ræðu minni og er auðvitað skrifað í nefndarálit minni hlutans, að það er ýmislegt slíkt sem að er að finna. Þótt ræða hv. formanns fjárlaganefndar hafi ekki verið mjög löng held ég að ég geti tekið undir að hún hafi verið þokkalega frábær og jafnvel mögnuð. Ég veit ekki hvaða orðum á að bæta við þetta, en ég segi þetta og get alveg glaðst með hv. formanni fjárlaganefndar vegna ræðu hans. (Gripið fram í: Áhrifarík.) Ja, það er náttúrlega ekki skrifað vegna þess að áhrif koma fram á einstaklingnum, það getur enginn borið um það hvað er áhrifaríkt og hvað ekki, hæstv. forseti.

Við höfum nýverið sett lög á hv. Alþingi, lög um sérstaka rannsóknarnefnd sem ætlað er að leiða fram það sem sannast og rétt er talið um hrun fjármálakerfisins og þann gríðarlega efnahagsvanda sem af því leiðir. Það er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að í þeim ræðum og nefndarálitum sem hér hafa verið kynnt hafa menn fjallað um þennan vanda sem upp er kominn í þjóðfélagi okkar, þennan gríðarlega efnahagsvanda.

Öll þjóðin á kröfu til þess að við rannsókn þessara mála verði allt uppi á borðum, engum verði hlíft við að leita að því sem sannast reynist í þessum málum. Vandi okkar næstu árin er hins vegar risavaxinn og hann lendir vissulega á mörgum sem enga sök eiga á þeim áföllum sem þjóðin tekur nú á sig vegna, ég vil leyfa mér að segja, fjárglæfra fárra og einnig eftirlitsleysis ríkisstjórnarinnar, eftirlitsleysis einstakra ráðherra og stofnana sem með okkur fylgjast. En um þetta, ágæti forseti, segir svo í upphafi nefndarálits minni hlutans, með leyfi forseta:

„Öllum má vera ljóst að íslenska þjóðin og efnahagskerfi hennar urðu fyrir miklu áfalli þegar þrír stærstu viðskiptabankar landsins féllu í byrjun október 2008. Fram hefur komið það álit að um sé að ræða mesta hrun bankakerfis í heimssögunni miðað við umfang efnahagskerfisins. Á innan við viku frá þessum atburðum hafði virði íslensku krónunnar fallið um meira en 70% og hlutabréfamarkaðurinn tapað yfir 80% af verðmæti sínu. Þessi áföll munu hafa mikil áhrif á íslenskt samfélag til langrar framtíðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að þjóðarframleiðsla muni dragast saman um 9,6% á árinu 2009 og enn meira árið 2010. Tekjur ríkissjóðs munu dragast verulega saman á sama tíma og þrýstingur á aukin útgjöld til velferðarmála mun aukast vegna versnandi ástands í þjóðfélaginu.

Almenningur á Íslandi stendur nú frammi fyrir auknu atvinnuleysi, minnkandi tekjum, hærri sköttum, auknum framfærslukostnaði, okurvöxtum og lækkandi eignavirði. Almennur kaupmáttur fellur á sama tíma og skuldir aukast, hvort sem þær eru verðtryggðar, óverðtryggðar eða í erlendri mynt. Misgengishópar myndast og þeir hafa litla og oft enga möguleika á að bjarga sér út úr ástandinu. Eins og nú horfir blasir við fjöldagjaldþrot hjá einstaklingum og fyrirtækjum með sársaukafullum afleiðingum fyrir bæði atvinnulíf og kjör almennings. Þrátt fyrir að eitt mikilvægasta hlutverk yfirvalda sé að gæta hagsmuna þegnanna bárust þegnunum engar viðvaranir frá yfirvöldum um hvað væri í aðsigi. Á undanförnum vikum hefur verið gert opinbert að stjórnvöld höfðu ítrekað verið vöruð við, bæði af innlendum og erlendum sérfræðingum, í hvað stefndi með bankana og fjármálalíf þjóðarinnar. Stjórnvöld völdu hins vegar að ana áfram í sjálfsblekkingu og láta sem ekkert væri. Á síðastliðnum vetri varaði stjórnarandstaðan á þingi ítrekað við því að óbreytt stjórnarstefna, erlend skuldasöfnun og taumlaus óráðsía innan fjármálakerfisins gæti leitt til mikils ófarnaðar fyrir efnahagslíf landsins ef ekki væri þegar í stað brugðist við.“

Hæstv. forseti. Fram á þetta ár var venjulega hressilegt yfirbragð á ríkisstjórninni sem jafnan talaði um að við værum í góðri stöðu, við værum í öflugri útrás og við værum vel í stakk búin til að takast á við einhvern samdrátt í þjóðartekjunum. Má ég þá minna á, hæstv. forseti, orð hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegsráðherra um að við værum í góðri stöðu til þess m.a. að skera niður þorskveiði um árabil, eins og Hafrannsóknastofnun lagði til, vegna þess hve vel við stæðum atvinnu- og efnahagslega, þessi þjóð. En eins og þeir muna sem kynnt sér hafa taldi Hafrannsóknastofnun að hér þyrfti að skera niður þorskafla til fimm ára, að lágmarki.

Hæstv. forseti. Nú krefst minni hluti fjárlaganefndar þess að ríkisstjórnin leggi fram skýra og trúverðuga stefnu um það hvernig eigi að leggja upp með áætlun um það að vinna þjóðina út úr þeim mikla vanda sem við erum stödd í og blasir einnig við fram undan næstu árin. Þjóðin stendur nú frammi fyrir gífurlegu tapi og risavöxnum skuldbindingum til næstu áratuga sem leggjast á þjóðina.

Minni hlutinn krefst þess að ríkisstjórnin leggi fram skýra stefnu um það hvernig eigi að vinna þjóðina út úr þeim mikla vanda sem nú blasir við. Minni hlutinn átelur ríkisstjórnina og önnur stjórnvöld fyrir þátt þeirra í aðdraganda hruns bankanna, sem m.a. felst í andvaraleysi, aðgerðaleysi og um margt röngum viðbrögðum. Fram undan eru á næstu árum risavaxin og erfið verkefni sem felast í því að ná efnahagskerfinu og ríkissjóði aftur á réttan kjöl. Greiðslubyrði þjóðarinnar, lántökur, vaxtabyrði, lánstími og afborgunarskilmálar eru enn þá óþekktar stærðir þegar við ræðum fjárlögin við 2. umr. Undir þannig óvissu er ógjörningur að sjá til lands um afkomu ríkisins og álögur þær sem þjóðinni er ætlað að takast á við næstu árin.

Vissulega var sofið á verðinum í aðdraganda þess sem síðar hefur orðið og um það segir svo í áliti minni hluta fjárlaganefndar við 2. umr., með leyfi forseta:

„Allt frá því um mitt ár 2007 hafa komið fram viðvaranir um að í vændum væru miklir efnahagslegir erfiðleikar vegna þróunar mála á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Fjölmargir aðilar, innlendir og erlendir, hafa á þeim tíma sem liðinn er komið fram með rökstuddar viðvaranir til ríkisstjórnarinnar án viðbragða af hennar hálfu. Allt árið 2008, í aðdraganda hruns bankanna, fór þunginn í þessari umræðu stigvaxandi eftir því sem á leið. Ríkisstjórnin sýndi engin merki um viðbrögð og er engu líkara en hún hafi ekki gert sér grein fyrir þróun mála eða ekki viljað gera það. Stjórnarandstaðan á Alþingi hóf umræðu um þessi mál hvað eftir annað á vettvangi þingsins, lagði fram rökstuddar viðvaranir, krafði ríkisstjórnina um svör og hvatti til aðgerða. Engin viðbrögð komu fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, því var gjarnan svarað til að allt væri í góðu lagi og engar ástæður til að hafa áhyggjur af þróun mála. Í mars 2008 sagði hæstv. forsætisráðherra í ræðu á Alþingi að botninum væri náð og fram undan væru bjartir tímar í efnahagsmálum. Sams konar ummæli féllu hjá fleiri fulltrúum stjórnarmeirihlutans á Alþingi á vordögum 2008. Ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi voru í raun fjarri raunveruleikanum í þessum efnum eins og fjölmörg fleiri dæmi úr umræðu síðustu mánaða sýna.

Fram hefur komið að forustumönnum ríkisstjórnarinnar, forsætisráðherra og utanríkisráðherra, var gerð grein fyrir alvarleika málsins á fundi með aðalseðlabankastjóra í febrúar sl. Eftir að þessar upplýsingar komu fram upplýstu forustumennirnir að einir sex fundir hefðu verið haldnir um málin, sá fyrsti 6. febrúar með aðalseðlabankastjóra. Það undarlega er að öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, t.d. iðnaðarráðherra, sem var staðgengill utanríkisráðherra í veikindum hennar, og viðskiptaráðherra var, að þeirra sögn, ekki kunnugt um þessa fundi. Þeir hvorki sátu þessa fundi né var sagt frá þeim. Rétt er einnig að taka fram að formönnum stjórnarandstöðunnar, sem sátu marga svokallaða samráðsfundi með forustumönnum ríkisstjórnarinnar frá byrjun október sl., var aldrei skýrt frá þessum fundum eða innihaldi þeirra. Aldrei.

Á samráðsfundi formanna stjórnarandstöðuflokkanna með forsætisráðherra og utanríkisráðherra í maí sl. um sérstaka lántökuheimild til ríkisstjórnarinnar sem Alþingi veitti upp á 500 milljarða kr. yfirdráttarheimild hjá seðlabönkunum á Norðurlöndum voru heldur engar upplýsingar veittar um áðurnefnda fundi eða samtöl.

Eitt af því sem fram hefur komið er að aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands hafi í júní sl. sagt við ráðherra ríkisstjórnarinnar að engar líkur væru á að íslenska bankakerfið gæti staðið af sér það ástand sem fram undan væri. Enginn ráðherra kannast við að hafa fengið slíkar viðvaranir, þar stendur orð gegn orði og það er krafa minni hlutans að sannleikurinn í þessu máli komi fram. Þetta er lýsandi dæmi um samskipti ráðamanna, ástandið og vinnubrögð stjórnvalda.

Minni hlutinn telur að viðskiptaráðherra hafi sofið á verðinum hvað varðar eftirlitsskyldu sína. Hann hefur sjálfur lýst því að hafa ekki átt bein samskipti við yfirstjórn Seðlabanka Íslands í tæpt ár, frá því í nóvember 2007. Svo virðist sem viðskiptaráðherra hafi verið haldið utan við fundi ráðherra ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans þegar fjallað var um málefni viðskiptabankanna.“

Með samþykki neyðarlaganna 6. október var ljóst að bankarnir þrír yrðu yfirteknir af ríkinu og að ríkissjóður yrði að fjármagna bankana. Jafnframt var ljóst að ríkið yrði að fá aðgang að lánsfé frá öðrum sjóðum. Sá sem hér stendur hvatti mjög til þess að við næðum sem fyrst samningum við hverja þá þjóð sem vildi lána okkur og um það væri samráð sem allra fyrst. Bæði Norðmenn og Rússar gátu komið til greina um lán á þessum fyrstu dögum. Það hefði að mínu viti styrkt samningsstöðu okkar í framhaldinu ef samningar hefðu tekist við þessar þjóðir. Ríkisstjórnin tók aðra stefnu í málinu og um það segir svo í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands gengu frá samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um aðgerðaáætlun í efnahagsmálum og lánveitingar sjóðsins til að efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans. Í aðdraganda þess var farið með málið sem hernaðarleyndarmál. Alþingi fékk engar upplýsingar um málið þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um, bæði á Alþingi og í þingnefndum. Á sama tíma var byrjað að vinna eftir áætluninni, fyrst með mikilli hækkun stýrivaxta úr 12 í 18%. Þá var ekki búið að samþykkja áætlunina á hv. Alþingi. Sú aðgerð var reyndar harðlega gagnrýnd og stjórnvöld og einstakir ráðherrar vísuðu hver á annan í ábyrgð á þeim gjörningi þar til Seðlabankinn neyddist til að gefa út yfirlýsingu um að þessi stýrivaxtahækkun væri að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og samkvæmt samkomulagi sem enn hefði ekki verið birt. Þrátt fyrir alla leyndina gagnvart Alþingi komst eitt dagblaðanna að lokum yfir samkomulagið við sjóðinn og áætlunina sem íslenskum stjórnvöldum væri gert að fylgja og birti hana. Það voru fyrstu upplýsingar sem alþingismenn fengu um samkomulag íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessi vinnubrögð eru afar gagnrýnisverð og lýsa lítilsvirðingu af hálfu framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ber alla ábyrgð á því. Þegar Alþingi fjallaði loks um samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fengust takmarkaðar grunnupplýsingar um málið. Á fundum fjárlaganefndar fengust engar upplýsingar eða gögn um forsendur, svo sem áætlanir o.fl. Minni hlutinn vísar í gagnrýni sína á þessi vinnubrögð í nefndaráliti sínu um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu Alþingis á samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og minni hluti fjárlaganefndar vísar í það álit. Þá er enn fremur gagnrýnt að ríkisstjórnin skuli í upphafi hafa bundið sig við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýtrustu skilmála hans í stað þess að leita annarra valkosta í stöðunni eins og ég vék að áður. Ýmsir sérfræðingar, bæði innan lands og utan, hafa bent á að til væru aðrar leiðir sem hefði mátt skoða sem lausn á þeim vanda sem upp var kominn.

Þingmenn Frjálslynda flokksins gerðu kröfu til þess þegar umræða fór fram í þinginu nýverið að gerð yrði krafa á Breta vegna beitingar hryðjuverkalaga þar í landi gegn íslenskum fjármálafyrirtækjum. Krafan byggði á því sem sneri að eignum fyrirtækjanna í Bretlandi. Ákvörðun breskra stjórnvalda hefur verið hagsmunum Íslands mjög skaðleg og nú stöndum við frammi fyrir því að Íslendingar þurfa að bera miklar fjárhagslegar byrðar, að því er virðist vegna þess hvernig þau mál fóru milli íslenskra ráðherra og breskra. Fullyrða má að þar sé á ferðinni einhver dýrasti misskilningur sem um getur á síðari tímum. Viðskiptaráðherra Íslands og fjármálaráðherra Íslands virðast ekki hafa talað saman um málin, en þeir ræddu við breska fjármálaráðherrann með nokkurra vikna millibili og úr varð dýrasti misskilningur Íslandssögunnar. Ráðherrarnir ræddu málefni Landsbankans hvor í sínu lagi og olli það þessum dýra misskilningi.

Í nefndaráliti minni hlutans er það orðað svo, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðherra taldi sig vera að ræða um lántöku Landsbanka Íslands hf. hjá ríkissjóði en breski fjármálaráðherrann taldi að ríkisstjórn Íslands væri að hafna boði bresku ríkisstjórnarinnar um að gegn tiltekinni greiðslu mundu þarlend stjórnvöld taka allar skuldbindingar Icesave-reikninganna á breska innlánstryggingakerfið og þar með hlífa Íslandi við þeim gífurlega kostnaði sem var fyrirséður og stjórnvöldum beggja landa fullljós. Ljóst virðist að fjármálaráðherra hafi ekki verið skýrt frá fundarefni viðskiptaráðherra Íslands með breska fjármálaráðherranum í lok ágúst sl. þar sem umfjöllunarefnin voru Icesave-reikningar Landsbanka Íslands í Bretlandi. Furðulegt má telja að ekki skuli vera til minnisblöð um þennan fund, sbr. svör viðskiptaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um það mál.

Misskilningurinn lá í því að verið var að fjalla um tvö mismunandi málefni bankans án þess að aðilar málsins gerðu sér grein fyrir því á þeim tíma. Afleiðingin varð beiting svonefndra hryðjuverkalaga á Landsbankann í Bretlandi og eignir íslenskra fyrirtækja þar í landi, sem leiddi til þess að íslenska þjóðin mun að öllum líkindum sitja uppi með hundraða milljarða króna skuldbindingar til framtíðar. Þetta er lýsandi dæmi um samskiptaleysið og vinnubrögðin hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar eins og það blasir við minni hlutanum.“

Í þessu sambandi er rétt að draga fram þá stöðu sem íslenska þjóðin stendur að öllum líkindum frammi fyrir en hvernig þau mál geta litið út veldur miklum áhyggjum. Um það segir í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir þær breytingartillögur sem ríkisstjórnin lagði fram, og meiri hluti fjárlaganefndar hefur gert að sínum, vantar enn mikið upp á að fyrir liggi heildarmynd af frumvarpinu. Enn hafa ekki komið fram tillögur varðandi vissa útgjaldaliði. Um er að ræða vaxtagjöld af auknum skuldum sem ríkissjóður þarf að taka á sig. Einnig vantar endurmat á verðlags- og gengisforsendum, en horfur eru á að þau áhrif verði mjög íþyngjandi. Þá er í fyrirliggjandi breytingartillögum ekki gert ráð fyrir breytingum á öðrum liðum sjóðstreymis eða á 5. gr., lánsfjárgrein frumvarpsins, né á 6. gr., heimildagreininni. Breytingartillögur er varða þessa liði verða lagðar fram fyrir 3. umræðu.

Minni hlutinn hefur leitast við að leggja mjög lauslegt mat á lánsfjárþörf ríkissjóðs, en tekur fram að allar grunnforsendur vantar til að matið geti talist nákvæmt og auk þess er ekki tekið tillit til krafna ríkisins. Í lok október sl. námu skuldir ríkissjóðs 564,3 milljörðum kr. Ekki liggur fyrir hver afkoma ríkissjóðs verður á árinu 2008, en fram komnar upplýsingar benda til halla. Í upphafi árs 2009 nema skuldir a.m.k. 560 milljörðum kr. Halli ríkissjóðs samanlagt til ársloka 2011 gæti hugsanlega numið 500 milljörðum kr.“

„Ætla má að […] fjármögnun vegna ábyrgða Icesave í Bretlandi og Hollandi nemi allt að 660 milljörðum kr. Þá er ekki tekið tillit til hugsanlegrar fjármögnunar innlánsreikninga bankanna í öðrum löndum.“

Hvað segir þessi samantekt okkur?

„Fjármögnunarþörf ríkisins til ársloka 2011 mun samkvæmt þessu lauslega mati nema a.m.k. 1.700 milljörðum kr., sé gengið út frá fyrrgreindum forsendum. Enn fremur má benda á að í ljós hefur komið að hollensk stjórnvöld hafa undirritað viljayfirlýsingu um að fjármagna Icesave-innlán þar í landi fyrir íslensk stjórnvöld en ekki liggur fyrir lánssamningur.

Miðað við þessar forsendur og að kostnaður af fjármögnun ríkisskuldabréfa nemi 13–17% á 5–10 ára skuldabréfum má gera ráð fyrir að vaxtagjöld geti numið á þriðja hundrað milljarða kr. til ársloka 2011. Hjaðni verðbólga eins og áætlanir gera ráð fyrir mun draga úr þessum vaxtakostnaði. Minni hlutinn vekur athygli á því að ef bankarnir geta ekki fjármagnað vandamál sem upp eru komin í íslensku atvinnulífi mun koma til kasta ríkissjóðs. Fjárþörf ríkissjóðs kann því að verða önnur en hér kemur fram. Óvissa ríkir um hvenær eignir bankanna erlendis verða innleystar, hvaða verðmæti er um að ræða og hvaða áhrif þær koma til með að hafa á skuldbindingar ríkissjóðs.“

Hæstv. forseti. Ljóst er að við tökumst á við gríðarlega mikinn vanda á næstu árum. Þá stóru spurningu vantar í upplýsingar um fjárlögin, hvernig við ætlum að taka á honum. Með hvaða hætti ætlum við að taka þessi lán? Hver verða vaxtakjör þeirra? Verður afborgunarleysi á einhverjum tíma lánanna sem við tökum? Hvernig tökum við lán til að borga niður lán þegar við munum ekki ráða við kúfinn?

Ég veit að formaður fjárlaganefndar áttar sig á um hvað ég ræði í þessu sambandi.

Við getum lent í því, sem er mjög líklegt, að þurfa að taka lán til að borga niður önnur lán og fleyta okkur þannig áfram. Við horfum sem sagt á það að næstu 10 árin verðum við með mjög mikla vaxtabyrði og mjög mikla afborgunarbyrði. Þess vegna liggur algerlega ljóst fyrir, hæstv. forseti, að við munum þurfa sameiginlega — og þar undan getur stjórnarandstaðan ekki heldur skorast — að taka á því að koma fjárlögum Íslands til næstu ára á réttan kjöl.

Það þýðir að bæði þarf mikið aðhald og niðurskurð. Einnig verðum við að afla allra þeirra tekna inn í þjóðfélagið sem mögulegt er og nýta alla þá kosti sem eru í boði í atvinnumálum. Það þýðir að við verðum að auka þorskveiðina. Menn ættu varla að vera á tauginni yfir því lengur eftir að fundið var út að einn þorskstofn hafi sett Íslandsmet í vexti og stækkað um 70% á milli ára. Ekki bara Íslandsmet, ég hugsa að þetta sé heimsmet.

Þetta segir auðvitað bara einn sannleika sem er að vitlaust var metið í fyrra og hittiðfyrra. Nú er verið að finna mikið af stórum fiski og þó að við séum guðs börn dettur þessi þorskur ekki af himnum, heldur vex hann og hefur þar af leiðandi verið í sjónum síðustu tvö, þrjú, fjögur eða fimm árin. Ef þessi fiskur finnst núna í sjónum var hann að stórum hluta til í fyrra þó að (Gripið fram í: … mælst núna.) mönnum hafi ekki tekist að mæla hann.

Ég hef heyrt þessa kenningu, hv. þingmaður, hún kallast að veiðanleiki sé svo mikill að menn geti allt í einu farið að veiða svo rosalega mikið að allt sem menn gerðu mælist kolvitlaust. Á venjulegu veiðimannamáli hét það nú að fiskur væri í göngu og þétti sig og er ekkert nýtt við það á Íslandsmiðum. Hann gerir það og á því byggjast allar fiskveiðar.

Það eru ánægjuleg tíðindi að þessi skekkja skuli hafa verið leiðrétt og ég tel að við verðum að bregðast við með því að auka þorskaflann. Við verðum að ná í meiri tekjur. Það eru váleg tíðindi sem bárust í morgun, ef rétt er haft eftir í blöðunum, að menn ætli ekki að aðhafast við neitt sem heitir uppbygging á þeim álverum sem tekin hafði verið stefna á. Það setur atvinnumál á svæðum eins og Húsavík í uppnám og þá framtíð sem menn horfðu þar á varðandi orkunýtingu. Það segir hins vegar ekki að ekki séu til aðrir kostir til orkunýtingar og þar verða menn að svipast um og reyna að finna atvinnutækifæri sem hægt er að nýta orkuna í. Það er nú einu sinni þannig að álverð á heimsmarkaði hefur jafnan verið breytilegt, nú er það lágt og má búast við því að dragi úr framkvæmdum á þessu sviði. Ef við getum fundið fleiri möguleika til að nýta orkuna en að festa hana í álveri fagna ég því. Það er gott fyrir íslensku þjóðina að setja ekki öll eggin í sömu körfuna, byggja ekki á einni atvinnugrein að langmestu leyti þó að það verði sennilega ekki í stóriðjunni. Margir voru samt farnir að tala um að stóriðjan, álframleiðslan, yrði okkar stærsti framleiðsluatvinnuvegur.

Ferðaþjónustan er eitt af því sem við getum örugglega bætt í og aukið við. Við þurfum auðvitað að meta það og stjórnvöld þurfa sérstaklega að skoða hvernig þau geta stutt við ferðaþjónustuna í landinu og aukið ferðamannastraum. Þar er eftir mikilli auðlegð að slægjast og miklum möguleikum fyrir framtíðina.

Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að við þurfum líka að skera niður. Það er ekki hægt að gagnrýna allt sem gert er í þeim efnum þó að við setjum vissulega fyrirvara í nefndarálit okkar að því er varðar niðurskurð á heilbrigðisstofnunum og öldrunarstofnunum vegna þess að við sjáum ekki hvernig það á að samrýmast þeim markmiðum að viðhalda hér velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni að fara í málin eins og lagt er til núna í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar. Ég held að menn verði að skoða þau mál betur á milli 2. og 3. umr. eins og fjöldamargt annað sem hér er til umræðu, hæstv. forseti.

Það er alveg ljóst að við eigum mikið undir því að velferðarkerfi okkar haldi, að velferðarkerfið geti tekist á við þá niðursveiflu sem er í þjóðfélaginu, um það þurfum við að sameinast. Næsta ár verður vafalaust mjög erfitt og ég held að menn þurfi að leggjast í það sameiginlega að vinna þessi mál til betri vegar, hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að stjórnarandstaðan bauð fram beina samvinnu um þessi mál þegar á haustdögum þegar það ástand var að skella á okkur sem varð. Þetta viðhorf okkar í stjórnarandstöðunni hefur reyndar margoft komið fram, að við værum tilbúin til að leggja því lið að vinna að því að koma íslensku þjóðinni út úr þeim gríðarlegu erfiðleikum sem fram undan eru.

Ég verð að segja alveg eins og er að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og samþykki meiri hluta fjárlaganefndar á þeim vinnubrögðum með því að taka þennan pakka á fimmtudaginn og gera hann að sínum buðu ekki upp á þetta samráð.

Það eru nokkrir dagar eftir af þessu ári og við í minni hlutanum höfum sagt það í nefndaráliti okkar að við teldum óframkvæmanlegt að fara fram með fjárlögin miðað við þær upplýsingar sem nú lægju fyrir, það yrðu að koma upplýsingar um lánsfjárpakkann, samsetningu lánanna, greiðslukvaðirnar og einhver framtíðarsýn um það hvernig við sæjum til lands næstu 3–4 árin varðandi þá stöðu sem við erum að lenda í. Það er ekki hægt að tala neina tæpitungu um þetta mál. Þetta er alveg grafalvarlegt sem við erum að lenda í. Byrðarnar sem munu lenda á fólkinu í landinu verða miklar, þar þurfum við líka að forgangsraða og mér finnst ekki mikil forgangsröðun í þeirri stefnumótun að fara núna í flata skattahækkun í stað þess að skoða, hvað eigum við að segja, hver voru baráttumál Samfylkingarinnar í skattamálum? Var það ekki þrepaskipt skattkerfi sem gæti leitt til þess að skatturinn yrði minni á þeim sem voru með lægri tekjurnar en meiri á þeim sem væru með hærri tekjurnar? Og hvert var forgangsmál Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili í skattamálum? Að afnema hátekjuskattinn í staðinn fyrir að horfa frekar til þess að hann væri raunverulegur hátekjuskattur og að horfa til þess að hin ótrúlegu laun sem voru greidd í þessu þjóðfélagi væru skattlögð, m.a. í gegnum hátekjuskattsþrep. Nei, menn gerðu það ekki, menn völdu þá leið að segja sem svo að hátekjuskatturinn væri farinn að teygja sig of neðarlega í launastiganum eins og hann var. Það kunna vel að hafa verið rétt rök, en þá áttu menn bara að hækka launalínuna, færa hana upp og hafa hátekjuskattinn inni þar ofan við.

Nú leggur ríkisstjórnin það til að við alþingismenn og æðstu embættismenn lækkum laun okkar, að við förum þá leiðina til að ná niður þessum hæstu tekjum. Ég hefði talið miklu betra að gera það í gegnum skattkerfið, en ef við ætlum að gera það hér með lögum gagnvart okkur sjálfum mælist ég til þess, hæstv. forseti, að við gerum það sjálf, við klárum það sjálf hér í Alþingi að ákveða hvað við ætlum að skera launin niður um mörg prósent en vísum því ekki út í bæ.

Ef það tekst og ef einnig tekst að semja niður við aðra þá standa lögin um kjararáðið samt óbreytt, og hvernig virkar þá kjararáð þegar launin hafa verið skorin niður? Þá ber því að taka mið af því að lækka launin og vinnur þá eftir sínum lögum.

Þannig skil ég þessi lög, hæstv. forseti. Við bættum síðast inn þegar við breyttum lögunum um kjararáð, sem er ekki langt síðan, að taka mið af því sem gerðist á almennum vinnumarkaði. Ég held að það hafi verið réttmæt breyting en mér hefur alltaf fundist það dálítill aumingjadómur, fyrirgefðu orðbragðið, hæstv. forseti, þegar við þingmenn sjálfir þorum ekki að tala um eigin kjör, hvorki eftirlaunin okkar í æðstu störfum né kjör okkar eins og þau eru.

Það er kannski vegna þess að ég var svo vanur að tala um kjörin mín í 25–30 ár meðan ég var í forustu fyrir mína stétt, skipstjórnarmenn á Íslandi og aðra yfirmenn á skipum. Ég tel ekki að það sé neitt til að skammast sín fyrir, að tala um kjörin sín. Menn eiga bara að tala um þau og þjóðin á alveg að fá að vita hvað við höfum í laun. Ég skorast hvorki undan því að ræða kjarahlið alþingismanna né undan því að ræða hið svokallaða eftirlaunafrumvarp. Ég vil að það sé rætt með rökum, út frá talnalegum forsendum og skynsamlegum rökum, hvernig sem við förum í gegnum það.

Allt er þetta partur af ríkisfjármálunum og þeim kostnaði sem ríkið hefur.

Hæstv. forseti. Ég sé að tíma mínum er að verða lokið. Ég hef flutt hér alveg sérstaklega frábæra ræðu, held ég. Maður verður að gefa sér einkunn sjálfur þegar hv. formaður fjárlaganefndar gengur hér hjá og lýsir bara eigin ágæti en ekki annarra. Ég þakka að lokum fyrir samstarfið í nefndinni og þó að mér finnist að vegna þeirra aðstæðna sem núna eru uppi hafi ekki tekist að vinna verkin eins og ég hefði viljað sjá, eða að við stjórnarandstaðan hefðum fengið að koma miklu fyrr að þeim pakka sem ríkisstjórnin lagði fyrir og skoða hann og leggja kannski eitthvað gott til málanna get ég samt sagt að það er ágætt að vinna með forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna í fjárlaganefnd. Ég kvarta ekki undan því og ég þakka starfsmönnum fjárlaganefndar fyrir frábært samstarf og þjónustu við okkur í minni hlutanum.



[14:52]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir frábæra ræðu, tímamótaræðu og ódauðlega í alla staði. Hún var einnig kröftuglega flutt.

Ég hélt um tíma að hv. þingmaður gæti ekki komið þorskinum að í ræðu sinni því að hann var búinn að tala í meira en hálftíma án þess að minnast á hann. Það sagði mér að hv. þingmanni væri mikið niðri fyrir varðandi ýmislegt annað en síðan vék hann að þeim þáttum, varðandi hugsanlega aukna þorskveiði eins og hann hefur jafnan gert og hefur haldið á lofti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka það af honum. Hins vegar vék hann svolítið að því í ræðu sinni að fara þyrfti fram með mikið aðhald og niðurskurð í ljósi þeirra upplýsinga sem þó eru til staðar, þótt af skornum skammti séu. Því væri kostur að vita hvar hv. þingmanni þætti best að bera niður varðandi þær hagræðingaraðgerðir sem er ljóst að þarf að fara í. Ég tek undir að það sem er veikt í upplýsingastreyminu og ég hef áður vikið að því í ræðu minni, þrusuræðu, er að hafa ekki nákvæmt yfirlit yfir lánsfjármögnun og vaxtagjöld ríkissjóðs en það er boðað að þær upplýsingar komi fram við 3. umr.

Einnig vil ég ítreka varðandi umræddar tillögur ríkisstjórnarinnar sem fjárlaganefnd hefur til umfjöllunar að við í stjórnarmeirihlutanum berum auðvitað fulla ábyrgð á þeim gjörningum og þeim tillögum sem hér eru (Forseti hringir.) til umræðu.



[14:55]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvar skyldi ég eiga að byrja að telja upp þegar benda skal á það sem mætti huga að? Við getum litið yfir farinn veg og skoðað hvað hefur orðið úr þeim stofnunum sem við höfum búið til á undanförnum árum og áratugum. Hvernig hafa þær þróast? Hafa þær fylgt einhverri markvissri áætlun? Ég held að svo sé ekki. Eina áætlunin sem þær stofnanir sem við höfum sett á fót hafa fylgt er útþensla. Þær hafa stækkað og stækkað og stækkað.

Fyrsta stofnunin sem mig langar að minnast á er Fiskistofa. Þegar Þorsteinn Pálsson mælti fyrir þeirri tillögu á fiskiþingi fyrir mörgum árum lýsti hann því yfir þegar gengið var á hann um kostnað og útþenslu og annað slíkt að sú stofnun yrði aldrei — taktu eftir, hv. formaður — stærri en 11 manna stofnun. Ég held að með virkum lagfæringum á fiskveiðistjórnarkerfinu sé enginn vandi að breyta starfsemi Fiskistofu verulega. Með því að hafa kerfið þannig hannað að það líti meira eftir sér sjálft og að meiri hvati sé í kerfinu sjálfu en það þurfi ekki endalaust að vera með eftirlit yfir sjálfu sér.

Ég vil líka segja, hæstv. forseti, að mér finnst koma mjög vel til greina að skoða varnarmálaþáttinn sem við höfum tekið upp á undanförnum árum. Mér finnst koma meira en til greina að skoða svokallaða Varnarmálastofnun. Mér finnst líka koma til greina (Forseti hringir.) að skoða fyrirhugaða sjúkratryggingastofnun, hvort hún eigi rétt á sér því þó að ég hafi greitt henni atkvæði þá eru bara breyttir tímar núna.



[14:57]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilin svör. Ég tíni til tillögur stjórnarandstöðunnar varðandi hugsanlega hagræðingu og niðurskurð. Jón Bjarnason var búinn að benda á Varnarmálastofnun en framlög til hennar eru að vísu skorin niður í tillögum ríkisstjórnarinnar um 20% en hún er hins vegar með fjárveitingar upp á um 1.100 millj. kr. og hins vegar stuðning við NATO upp á 70 millj. kr. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson bætir við og nefnir Fiskistofu og síðan hugsanlega sjúkratryggingastofnun. Þar sem tíminn var úti ætla ég að gefa hv. þingmanni tækifæri til að koma hér í síðara andsvari sínu og bæta við listann því það liggur fyrir að víða þurfi að hagræða og þess vegna er gott að fá upplýsingar frá hv. þingmönnum eins og Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem hefur verið lengi að störfum á þinginu um þessa hluti.



[14:58]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held einnig að það þurfi að fara sameiginlega — þess vegna sagði ég að ég saknaði þess að stjórnarandstaðan hefði ekki fengið að koma að þessum pakka sem ríkisstjórnin komi með fram — í gegnum allar tillögur sem geta orðið til sparnaðar. Ég hef hins vegar þann fyrirvara sem ég nefndi í ræðu minni varðandi velferðarstofnanir og heilbrigðiskerfið. Það er af þeirri ástæðu að það mun reyna mjög á velferðarkerfið á næstunni og þess vegna jafnvel heilbrigðiskerfið á komandi árum.

Ég held einnig, hæstv. forseti, að takist okkur að styðja verulega við atvinnulífið muni það gefa okkur auknar tekjur. Það mun gefa okkur auknar tekjur og það mun draga úr atvinnuleysisbótaþættinum og þeim kostnaði sem fylgir atvinnuleysinu. Þetta er samspil þess að reyna að auka tekjurnar, halda uppi atvinnustiginu og þess að skera niður.

Ég hef ekki gert aðra fyrirvara í máli mínu, hæstv. forseti, en þann að ég teldi að það þyrfti að verja velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið. Ég held að við getum skoðað mjög marga þætti í ríkisfjármálunum til að leita að sparnaði. Það er ljóst að þjóð sem á að taka á sig 60–100 milljarða í vaxtakostnaði af ekki stærra hlutfalli fjárlaga en íslenska þjóðin er með mun þurfa mikið aðhald á næstu árum. Við verðum að leita þess þar sem við teljum að hægt sé að skera niður án þess að dýpka þá lægð sem við erum að lenda í.



[15:01]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur lækki um 36,2 milljarða og verði 395,8 milljarðar í þessu frumvarpi. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar við 2. umr. og varða A-hluta fjárlaga nema samtals 18,3 milljörðum til lækkunar á sundurliðun II í frumvarpinu. Hlutfallslega verður mesti samdráttur rekstrargjalda í utanríkisþjónustunni og hjá æðstu stjórn ríkisins en almennt er samdráttur í rekstri ráðuneyta á bilinu 5–7%. Gert er ráð fyrir að gjöld og samningar sem taka breytingum á milli ára samkvæmt verðlagi hækki í samræmi við þær áætlanir sem settar voru fram í fjárlagafrumvarpinu í byrjun október þar sem verðhækkanir ársins 2008 voru áætlaðar 11,5% en hækkun ársins 2009 var áætluð 5,7%.

Talsverður samdráttur verður í nýframkvæmdum á árinu 2009 frá því sem áður var áformað. Samtals mun lækkun framkvæmda nema 11 milljörðum kr. eða 21% af áætluðum kostnaði við nýframkvæmdir ársins. Þrátt fyrir þessar breytingar verður árið 2009 samt sem áður eitt mesta framkvæmdaár sögunnar með tilliti til fjárveitinga ríkisins að óbreyttum þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Þannig eru megindrættir frumvarps að fjárlögum ríkisins sem hér liggja fyrir til 2. umr. og meginspurningin sem hv. alþingismenn standa frammi fyrir er sú hvort þessi áform muni duga til svo unnt sé að hefja endurreisn efnahagslífs landsins. Ég hef ástæðu til að ætla að ekki sé nægilega langt gengið í átt til þess að taka á ríkissjóðshallanum.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands voru erlendar skuldir Íslands í lok þriðja ársfjórðungs u.þ.b. 12.257 milljarðar kr. og erlendar eignir á sama tíma námu tæplega 10 þúsund milljörðum kr. Alls skuldaði þjóðarbúið því um 2.300 milljörðum meira erlendis en það átti í eignum. Í Hagtíðindum Hagstofu Íslands kemur fram að tekjuhalli hins opinbera á þriðja ársfjórðungi 2008 nam 15 milljörðum kr. samanborið við um 17 milljarða kr. tekjuafgang á sama tíma fyrir ári síðan.

Á fyrstu níu mánuðum ársins var tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 2,2 milljarða kr., sem samsvarar 0,2% af landsframleiðslu, en á sama tíma árið 2007 var tekjuafkoman hins vegar jákvæð um rúmlega 51 milljarð kr. eða 4% af landsframleiðslu. Í Hagtíðindum kemur einnig fram að tekjuafkoma sveitarfélaganna var neikvæð á þriðja ársfjórðungi um 3,9 milljarða kr. og því mun lakari en á sama tíma árið 2007 þegar hún var jákvæð um 1,4 milljarða.

Fyrstu níu mánuði ársins mældist tekjuafkoma sveitarfélaganna neikvæð um 5,2 milljarða kr. samanborið við jákvæða afkomu upp á 6,1 milljarð fyrir sama tímabil árið 2007.

Viðskiptahalli undanfarinna ára hefur verið skýr vísbending um að til umskipta kæmi í rekstri hins opinbera en í kjölfar þessa þriðja ársfjórðungs hrundi íslenska bankakerfið og umskiptin í rekstrinum eru til muna meiri en nokkurn gat órað fyrir. Frá þeim tíma hafa stjórnvöld verið bundin við björgunarstarf og leitað leiða til að hefja endurreisn íslensks efnahagslífs.

Sú gagnrýni sem m.a. hefur komið fram hér í dag á fjárlagaferlið og það sem betur hefði mátt fara í því verki öllu á að mörgu leyti fullan rétt á sér en hafa ber jafnframt í huga að þær aðstæður sem við er að glíma eru með eindæmum erfiðar og á margan hátt afar afbrigðilegar. Þetta ástand kallaði á það að verkefnum yrði forgangsraðað og það sem mestan forgang verður að hafa er gerð áætlana sem miða að lausn þeirra vandamála sem heimili landsins og fyrirtæki verða að takast á við. Jafnframt hefur þurft að vinna að endurreisn bankakerfisins og standa í erfiðum samningum við aðrar þjóðir. Þessi verkefni öll hafa að sjálfsögðu sett mark sitt á vinnu við gerð fjárlaganna og óhjákvæmilegt er að röskun verði á ýmsum verkþáttum í því markaða ferli. Í kjölfar bankahrunsins hefur lánshæfismat íslenska ríkisins lækkað verulega og í því endurspeglast veikari fjárhagsstaða ríkissjóðs en áður var. Skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu aukast mikið, öll fjármögnun verður dýrari, tekjur ríkissjóðs dragast saman og verulegur halli er fyrirsjáanlegur á fjárlögum næstu ára.

Stjórnvöld hafa náð samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að vinna með skipulögðum hætti á heildarvanda efnahagslífsins og sú vinna miðar m.a. að því að ná hér stöðugleika og styrkja stoðir atvinnulífsins og á endanum mun það væntanlega skila sér í því að lánshæfismat okkar styrkist á nýjan leik. Sú efnahagsáætlun sem unnið er eftir með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mun gera kröfu til okkar allra og þá sérstaklega okkar á hinu háa Alþingi við það verk að rétta af rekstur ríkissjóðs.

Í ræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, fyrr í dag kom fram að hallinn á ríkissjóði hefði að óbreyttu fjárlagafrumvarpi, sem lagt var fram í byrjun október, stefnt í 215 milljarða. Með þeim tillögum ríkisstjórnarinnar að lækkun útgjalda sem hér liggja fyrir er gert ráð fyrir að hallinn á fjárlögum næsta árs verði á bilinu 160–170 milljarðar kr. Þetta eru gríðarlegar fjárhæðir og í ágætum takti við umræðu undangenginna vikna um fjárhagsstærðir í íslensku efnahagslífi. Þar er um svo stórar upphæðir að ræða að almenningur á erfitt með að skilja og á í vandræðum með að setja þær í samhengi við daglegan veruleika. Fjárlagahalli að upphæð 160–170 milljarðar kr. er hins vegar að mínu mati ekki í neinum takti við þann veruleika sem við blasir í fjármálum ríkissjóðs og ég tel algjörlega nauðsynlegt að taka fastar á og draga enn frekar úr væntum hallarekstri ríkissjóðsins.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar sem lagðar voru fyrir fjárlaganefnd Alþingis fyrir 2. umr. fjárlaga er gert ráð fyrir að sparnaður í rekstrarútgjöldum og tilfærslum nemi u.þ.b. 19 milljörðum kr. eða einungis um 3,7% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka. Er bæði um að ræða samdrátt í núverandi rekstri og frestun verkefna sem enn eru ekki komin til framkvæmda. Að sjálfsögðu er óhjákvæmilegt að stjórnvöld þurfi að skuldsetja ríkissjóð við þessar aðstæður. Gríðarlega umfangsmikill rekstur hins opinbera verður ekki dreginn saman á einu augnabliki og því er mikill hallarekstur óumflýjanlegur um einhvern tíma og við þetta bætast svo skuldbindingar sem ríkissjóður þarf að taka á sig í kjölfar bankahrunsins.

Eins og hér hefur komið fram í dag liggur ekki fyrir ný þjóðhagsspá en Seðlabankinn spáði í nóvember að halli á ríkisfjármálunum yrði um 13% á næsta ári, 12% árið 2010 og 8% árið 2011, og gert er ráð fyrir að afgangur verði á rekstri ríkissjóðs fyrst á árinu 2013. Þegar haft er í huga að því verri sem afkoma ríkissjóðs er þeim mun erfiðari verður afkoma heimilanna í landinu, þá er í mínum huga ljóst að við þessari spá Seðlabankans er ekki nema eitt svar og það er að draga verður meira saman í rekstrinum en tillögur liggja fyrir um. Með þeim eina hætti að tryggja efnahag ríkissjóðs er unnt að standa vörð um þá þjónustu sem almenn sátt er um að sé við lýði í norrænu velferðarþjóðfélagi. Jafnframt er það höfuðnauðsyn fyrir afkomu heimilanna í landinu að afkoma hins sameiginlega sjóðs landsmanna sé með þeim hætti að hann njóti trausts og tryggt sé að hann geti staðið af eigin aflafé undir þeirri þjónustu sem honum er ætlað að kosta. Almenn samstaða er um það í þjóðfélaginu við aðstæður sem þessar að leitað sé allra leiða til að verja ákveðna þætti velferðarmála, heilbrigðiskerfisins, menntamála og löggæslunnar. Þess í stað verði leitað allra leiða til þess að hagræða og ná niður kostnaði í rekstri stjórnsýslustofnana og ráðuneyta. Þessar áherslur koma ágætlega fram í þeim tillögum sem ríkisstjórnin skilaði inn til fjárlaganefndar á fimmtudaginn og koma fram í því frumvarpi sem hér liggur fyrir til umræðu.

Í samræmi við þá vinnureglu sem við hv. formaður fjárlaganefndar höfum unnið eftir gerði hann í framsöguræðu sinni allnokkra grein fyrir meginlínum frumvarpsins varðandi tekju- og gjaldahlið þess. Ég mun aftur á móti gera á eftir grein fyrir helstu gjaldabreytingum einstakra málaflokka milli 1. og 2. umr. fjárlaganna.

Framlög til æðstu stjórnar ríkisins lækka um 298 millj. kr. og þar vegur mest lækkun til Alþingis að fjárhæð um 215 milljónir. Framlög til forsætisráðuneytisins lækka um 133 milljónir. Framlög til menntamálaráðuneytisins lækka um tæpa 4,4 milljarða en framlag til Háskóla Íslands lækkar um tæpar 952 milljónir, Háskólans á Akureyri um 128 milljónir, Háskólans í Reykjavík um rúmlega 154 millj. kr. Þarna er um að ræða áform sem stóð til að veita til nýrra rannsókna á vegum þessara háskóla. Stofnkostnaðarframlag að fjárhæð 300 millj. kr. til Stofnunar Árna Magnússonar er fellt niður og sömuleiðis er gert ráð fyrir að framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna lækki um 1.360 millj. kr.

Framlög til utanríkisráðuneytisins lækka um tæpa 2,4 milljarða. Þar vegur þyngst lækkun á framlagi til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, 777 millj. kr., til þróunarmála og alþjóðastarfsemi um 546 milljónir, alþjóðastofnanir lækka um tæpar 384 milljónir, Varnarmálastofnun um 257 milljónir og sendiráð Íslands um tæpar 230 milljónir. Framlög til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins lækka um 408 millj. kr. og þar er mest lækkunin til Hafrannsóknastofnunar, tæpar 78 milljónir, og einnig er um að ræða lækkun til Fiskistofu og Matvælastofnunar samtals um rúmlega 92 millj. kr.

Framlög til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins lækka um rúmlega 4,1 milljarð kr. og þar vegur að sjálfsögðu langmest lækkun til Landhelgissjóðs Íslands upp á 2,3 milljarða sem felst í seinkun áformaðra framkvæmda við flugvél og skip. Framlag til fangelsisbygginga lækkar einnig um 350 millj. kr. og Landhelgisgæslunnar um tæpar 300 milljónir og sömuleiðis sóknargjöld í kirkjumálaráðuneytinu um 230 milljónir.

Framlög til félags- og tryggingamálaráðuneytisins hækka um rétt tæpa 11 milljarða. Tilfærslur hækka um 11,4 milljarða og þar vegur þyngst viðbót sem lögð er inn í Atvinnuleysistryggingasjóð. Framlög til rekstrar hækka um 720 milljónir en framlög til viðhalds og stofnkostnaðar lækka um 1,1 milljarð kr. Framlög til heilbrigðisráðuneytisins er ráðgert að lækki um rúmlega 6,9 milljarða, þar af lækka framlög til Landspítalans um tæpa 5 milljarða og til Sjúkrahússins á Akureyri um rúmar 312 millj. kr. Framlag til stofnkostnaðar vegna áforma um byggingu hátæknisjúkrahúss lækkar um 400 millj. kr. úr 800 milljónum. Framlög til fjármálaráðuneytisins lækka um tæpa 1,5 milljarða kr., þar af er gert ráð fyrir lækkun á fjárveitingum til fyrrum varnarsvæðis við Keflavíkurflugvöll um 586 milljónir og Endurhæfingarsjóður um 500 millj. kr.

Ráðgert er að framlög til samgönguráðuneytisins lækki um tæpan 8,1 milljarð, samgönguverkefni lækki um tæpa 6 milljarða, framlög til Umferðarstofu um rúmar 236 milljónir, hafnarframkvæmdir er ráðgert að lækki um rúman hálfan milljarð, 506 millj. kr., flugvellir og flugleiðsöguþjónusta lækkar um 1.250 milljónir og Fjarskiptasjóður um 410 millj. kr.

Framlög til iðnaðarráðuneytisins lækka um 9,1 milljón. Framlög til viðskiptaráðuneytisins lækka um 31,1 milljón. Loks vil ég nefna að framlög til umhverfisráðuneytisins lækka um rúmar 695 millj. kr. en þar vegur mest lækkun til Úrvinnslusjóðs upp á 220 millj. kr. og Umhverfisstofnunar um rúmar 125 millj. kr.

Virðulegi forseti. Við þær aðstæður sem nú ríkja í íslensku efnahagslífi er forgangsverkefni stjórnvalda að leita allra leiða til að ná jöfnuði í rekstri ríkisins og þeirra stofnana og fyrirtækja sem það ber ábyrgð á. Mistök sem geta orðið á þeirri vegferð munu einungis tefja fyrir nauðsynlegri styrkingu þeirrar velferðarþjónustu sem við öll viljum að landsmenn búi við. Höfuðforsenda þess að ná þeim bata sem allir vilja sjá er sú að takast ákveðið á við þær tímabundnu þrengingar sem óhjákvæmilega eru fram undan. Því er afar brýnt að sem flestir horfist í augu við þann vanda sem þjóðarbúið stendur andspænis og það verða allir að skilja að við vinnum okkur ekki út úr þessum aðstæðum nema allir taki þátt. Það er hvorki einfalt né sársaukalaust verkefni sem bíður þjóðarinnar en því fyrr og þeim mun ákveðnar sem ráðist er til verka þeim mun hraðar mun batinn nást.

Það er ljóst að draga mun úr opinberri þjónustu um skeið. Það er ljóst að kjarabætur eru hvorki á dagskrá á næstunni hjá hinu opinbera né á almennum vinnumarkaði. Það er ljóst að margvísleg og metnaðarfull verkefni sem unnið hefur verið að á undanförnum árum munu þurfa að bíða betri tíma og það er ljóst að skattar munu hækka.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að fyrir 3. umr. um fjárlög næsta árs komi fram enn frekari og nauðsynlegar tillögur til sparnaðar í ríkisútgjöldum.



[15:17]
Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hlutverk varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, var ekki öfundsvert, að lesa upp niðurskurðartillögurnar. Ég hafði vissa samúð með honum í þeim efnum. Vissulega er þetta mikið niðurskurðarfrumvarp og í máli sínu skoðaði hv. þingmaður enn frekari niðurskurðartillögur við seinni umfjöllun fjárlagafrumvarpsins.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þeim gríðarlega vanda sem við stöndum frammi fyrir í þessum efnum en mig langar þó að spyrja hv. þingmann hvað liggi að baki þessum niðurskurðartillögum. Hvað liggur að baki í forgangsröðun? Hvað liggur að baki í skilgreiningu á þjónustustigi? Í aðra röndina er sagt að halda eigi uppi og verja þjónustustigið, verja heilbrigðisþjónustuna o.s.frv., og svo er líka sagt að verja eigi atvinnustigið. Ég spyr: Hvernig er það skilgreint? Hvar á að setja mörkin? Við hvað er miðað þegar verið er að leggja fram svona gildislægt mat? Og síðan kemur bara niðurskurður.

Ég velti því fyrir mér hvort mat hafi verið lagt á það hvaða áhrif niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu hefur á þjónustustigið. Hvaða áhrif hefur niðurskurður í heilbrigðiskerfinu á fjölda starfa? Að langmestu leyti er um laun að ræða og ef skera á niður fleiri milljarða í heilbrigðiskerfinu hlýtur það að koma niður í launum og störfum. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hversu mörg störf er verið að skera niður?



[15:19]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætli það sé ekki rétt að hefja þetta andsvar á því að þakka fyrir auðsýnda samúð í minn garð (Gripið fram í.) en ég tel litla þörf á að við stöndum í slíku. Þetta eru nauðsynleg verkefni. Ekki auðveld, langur vegur frá, en einhverjir verða að taka að sér að vinna okkur niður til lausnar í þessum efnum. Veruleikinn sem við okkur blasir er einfaldlega sá, hvort sem mönnum líkar betur eða verr að heyra það, að ríkissjóður hefur ekki efni á að standa við óbreytta þjónustu eins og hún birtist okkur í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 eins og það var lagt fram í byrjun október sl. Þannig að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að reyna að forgangsraða og reyna að ramma útgjöld okkar innan hæfilegra marka þannig að við getum séð að ríkissjóður geti staðið við þær skuldbindingar sem honum er ætlað að standa undir.

Ég hef ekki haldið því fram að unnt sé að verja alla þá þjónustu sem ríkið hefur staðið í óbreytta. Ég hef ekki haldið því fram að hægt sé að verja atvinnustigið í landinu á kostnað ríkissjóðs. Ég hef haldið því fram að ríkissjóður þurfi að ráðast í endurgerð þeirrar þjónustu sem hann er að veita hverju sinni og hefur veitt á undanförnum árum og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en að í þeim tillögum sem hér liggja fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar felist von um og áform um að á því verði tekið. Ég geri mér fullljóst að það mun taka lengri tíma en menn hafa haft til verka hér og nú að breyta því kerfi sem við höfum byggt upp á umliðnum árum. Það verður sársaukafullt. Það er erfitt og það verður þungt í framkvæmd en engu að síður er nauðsynlegt að hefja það verk.



[15:21]
Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson undirstrikar einmitt meginveikleika þessa frumvarps og tillagna ríkisstjórnarinnar, þ.e. að ekki hefur verið lagt neitt mat á það til hvers það leiðir. Við gerum okkur öll grein fyrir alvarleika málsins en þeim mun mikilvægara er að geta metið áhrifin af þessum niðurskurði og þá forgangsraða. Ég kalla eftir slíkri ábyrgri vinnu áður en menn vaða beint út í þennan niðurskurð.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Í samkomulaginu sem ég kalla nú bara skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en stjórnarmeirihlutinn vill kalla samkomulag því að það lætur betur í eyrum en að heyra um þvingunarsamkomulagið — hvenær er gert ráð fyrir því að ríkissjóður eigi að vera orðinn hallalaus? Hallalaus rekstur ríkissjóðs í þessu samkomulagi? Mig minnir að það sé árinu 2011–2012 eða fyrr sem reksturinn eigi að vera orðinn hallalaus.

Til þess verðum við ekki hvað síst að efla og auka framleiðsluna einmitt til að skapa meiri útflutningstekjur. Í frumvarpinu sýnist mér það ekki vera sett í forgang. Ég spyr því hv. þingmann: Hvenær, samkvæmt samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, á rekstur ríkissjóðs að vera orðinn hallalaus? Hvaða líkur telur hv. þingmaður á að það náist? Og hver ætti þá að vera greiðslubyrðin á þeim árum, 2010–2012, af lántökum ríkissjóðs, hve stór hluti fjárlaganna verður þá að fara í að (Forseti hringir.) greiða vexti og afborgun af okurlánunum sem við verðum að taka erlendis ef fer sem horfir í þeim efnum?



[15:23]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þótti mér hjartanlega vænt um að heyra frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hann gerði sér grein fyrir því að við yrðum að auka framleiðsluna og verðmætasköpunina í landinu til þess að geta staðið undir framtíðarskuldbindingum. Ég hlakka til að eiga við hann skoðanaskipti um það við gott tækifæri og rifja þá upp ýmsar tillögur hans í þeim efnum, m.a. um landbúnaðarmál, sem ég vil gjarnan að við stöndum vörð um saman.

Hann spyr um það hvernig innihaldið í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sé varðandi greiðsluafkomu ríkissjóðs og hvenær við getum gert ráð fyrir því að hann eigi að fara að skila afgangi. Ef ég man rétt er gert ráð fyrir því að það gerist á árinu 2012. Það kunna að vera heimildir til þess að víkja eitthvað frá því ef aðstæður á þeirri braut munu skapa okkur svigrúm til þess.

Hitt er annað sem hv. þingmaður kallar eftir varðandi laun og áhrif niðurskurðar og hagræðingar ríkisins á velferðarstörf. Það þarf ekki að spyrja með þessum hætti. Það vita allir að þegar þrengt er að stofnunum, sama hvort það er hjá hinu opinbera eða í einkarekstri, með þeim hætti að skera niður útgjöld til þeirra sem hingað til hafa verið ákveðin þá kemur það niður á launum. Það kemur að sjálfsögðu niður á atvinnu fólks. Það verður reynt að mæta því, vænti ég, með því að reyna að lækka fyrst launastigið áður en til uppsagna kemur. Ég ætla forstöðumönnum ríkisstofnana að vinna með þeim hætti. Síst af öllu viljum við vinna með þeim hætti að senda fólk út á atvinnuleysisskrá. Ég ætlast til þess að forstöðumenn ríkisstofnana vinni þetta með þeim hætti að þeir reyni fyrst að leita leiða til þess að dreifa þessum byrðum innan þeirra stofnana þar sem það á við. Það er að mínu mati það verklag sem mönnum ber að hafa.

En óhjákvæmilegt er í þeim verkefnum sem bíða okkar að umfang ríkisrekstrarins á komandi árum verði allt annað og minna en verið hefur í þeim stöðuga (Forseti hringir.) vexti sem undanfarin ár hefur ríkt.



[15:26]Útbýting:

[15:26]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér í 2. umr. frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009. Í byrjun október var frumvarpið lagt fram af fjármálaráðherra en nokkrum dögum síðar hrundu íslensku bankarnir hver af öðrum og fjármálaástandið hefur síðan gjörbreyst og áætlanir allar riðlast.

Þess vegna hefur verið erfitt að ná utan um verðlags- og gengisspár og nær útilokað að spá nákvæmlega um forsendur fjárlaga hvort heldur eru tekjur eða útgjöld komandi árs.

Óljóst er hvernig verðbólgan þróast en hún ræðst nær eingöngu af gengi íslensku krónunnar og erfitt er að spá um atvinnuleysi á komandi ári en þar ráða útgjöld ríkissjóðs einnig miklu.

Eftir að samkomulag náðist milli íslenska ríkisins, fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka og svo Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um helstu kennitölur á næstu missirum hófst bið eftir ákvörðun sjóðsins um lánveitingar og það þekkja allir þá sögu vel.

Við höfum átt hér nokkra orðræðu um það hvort fjárlög stjórnist af tilskipun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég hef sjálfur sagt það frá upphafi að alltaf hafi legið fyrir að ef við þyrftum að leita til alþjóðasamfélagsins um lántökur væri gerð ein krafa. Það var að fyrir lægi áætlun um hvernig við endurgreiddum þau lán og um það snýst samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Reynt er að meta og gera grein fyrir helstu forsendum og gera síðan áætlun um með hvaða hætti og hvenær ríkissjóður getur greitt skuldir sínar. Auðvitað er þetta háð mikilli óvissu og verður að skoðast sem slíkt.

Öll þessi óvissa — auk óvissu um umfang björgunaraðgerða, upphæð á kostnaði við lántökur, skuldbindingar vegna Icesave-reikninga o.fl. — varð til þess í fjárlagavinnunni að það dróst að leggja fram tillögur fyrir 2. umr. fjárlaga. Eins og áður sagði er hér um ófullkomna áætlun að ræða sem verður strax að endurmeta fyrir 3. umr. síðar í vikunni.

Ég hef sagt að við þessar aðstæður sé rétt að reikna með endurskoðun fjárlaga reglulega á næsta ári. Fyrst strax í mars og síðan á þriggja mánaða fresti og aukafjárlög verði unnin til að bregðast við ástandinu sem verður þá. Í þessu umhverfi hefur fjárlaganefnd þingsins starfað og stundum beðið eftir tölum frá hagdeild fjármálaráðuneytisins hvað varðar forsendur.

Það hefur komið fram í umræðunni áður, og í þeim gögnum sem lögð voru fram fyrir fjárlaganefnd, að miðað við óbreyttar forsendur varðandi tekjur og annað hefði stefnt í 214 milljarða halla á ríkissjóði en með tillögum um 45 milljarða leiðréttingu þar sem tekjur eru auknar og útgjöld lækkuð er í endurskoðuðum tillögum reiknað með 165–170 milljarða kr. halla miðað við greiðslugrunn.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að heildarlækkun útgjalda samkvæmt tillögum meiri hlutans miðast við lækkun frá fjárlagafrumvarpi en er ekki lækkun frá fjárlögum yfirstandandi árs, þ.e. ársins 2008. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þar sem fjárlög 2009 gerðu ráð fyrir um það bil 70 milljarða hækkun frá árinu 2008 en eftir breytingar eru fjárlögin eftir sem áður með verulegri krónutöluhækkun frá fjárlögum 2008. Þá er gert ráð fyrir gjaldskrárhækkunum, þ.e. það koma inn þarna, meðal annars er búið að leggja hér fyrir tillögur um hækkun á gjöldum á áfengi og eldsneyti og þó þessar hækkanir vegi töluvert þá eru þær undir verðlagsþróun, þ.e. þessi gjöld fylgja í rauninni ekki verðbólguþróuninni. En vandinn við slíka tekjustofna er auðvitað að þessar hækkanir telja inn í verðbólgu eða verðtrygginguna og þar með hækka húsnæðisskuldir og að þessu leyti er þetta afar vandmeðfarinn tekjustofn. En það er vandséð hvernig hægt er að komast hjá því að láta neysluvörur eins og áfengi ekki fylgja verðlagi.

Í þessum breytingum er einnig reiknað með 1% hækkun tekjuskatts og heimild til þess að hækka útsvar. Á móti þessum tekjuskattshækkunum kemur að áður samþykkt hækkun á persónuafslætti stendur óbreytt og tryggir það að tekjuskatturinn hækkar ekki hjá þeim tekjulægstu andstætt fullyrðingum hv. þm. Jóns Bjarnasonar hér fyrr í umræðunni.

Auðvitað er ástæða til þess að skoða hvernig við tökum okkar skatta. Sjálfur hef ég horft til þess í mörg ár að eðlilegast væri að hafa einhvers konar þrepaskatt, þ.e. að við næðum til hækkunar á tekjum með aukinni skattheimtu og við þær aðstæður sem nú eru hefði það að mörgu leyti verið eðlilegra vegna þess að það er eðlilegt að við reynum að ná til þeirra sem hafa mjög há laun ef þeir draga þau ekki saman í því ástandi sem nú er.

Auk þess sem hér var sagt að framan er rétt að benda á að þær tillögur sem eru lagðar fram í 2. umr. eru fyrst og fremst unnar af ríkisstjórninni en ákveðið var að láta þær fara óbreyttar inn í þingið til að spara tíma. Á milli 2. og 3. umr. verða málin síðan skoðuð betur og farið betur ofan í einstaka liði og gengið frá sundurliðun liða svo sem hinna frægu safnliða.

Allar þær breytingar sem boðaðar eru verður að skoða í samhengi við samþykktir um hækkanir vegna verðlagsbreytinga en inni í frumvarpinu er gert ráð fyrir 10% hækkun launa frá 2008, eða var það í upphaflega frumvarpinu og er það enn þá. En í tillögum hér í 2. umr. er gert ráð fyrir lækkunum launa, til dæmis þingmanna og þeirra sem heyra undir kjararáð. Á öðrum liðum var í frumvarpinu gert ráð fyrir 13,5% hækkun vegna verðlags. Í frumvarpi til fjárlaga 2009, í upphaflegu útgáfunni á blaðsíðu 216, stendur, með leyfi forseta:

„Til viðbótar þessum launa- og verðlagshækkunum kemur fram talsverð raunaukning útgjalda í frumvarpinu. Þar vega þyngst ákvarðanir um að hrinda í framkvæmd mörgum áformum úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem fela í sér ýmsar veigamiklar útgjaldaskuldbindingar. Mest munar um málefni sem snúa að ákvörðunum um uppbyggingu á almannatryggingum, félagslegum bótum og menntamálum auk framkvæmda á vegum ríkisins, sérstaklega í samgöngumálum. Fjármálaráðuneytinu telst til að ný útgjöld sem falla til þegar á árinu 2009 vegna ýmissa slíkra sértækra ákvarðana sem heimfæra má á áform úr stefnuyfirlýsingunni nemi 14 milljörðum kr. á verðlagi ársins 2008. Því til viðbótar eru ýmsar aðrar fyrirliggjandi útgjaldaskuldbindingar sem greindar hafa verið sérstaklega við undirbúning frumvarpsins metnar á rúmlega 6 milljarða kr. þegar jafnframt hefur verið tekið tillit til framlaga til tímabundinna verkefna sem falla niður á næsta ári. Þar er t.d. um að ræða kerfislægan vöxt í skólakerfinu,“ — það er inni í þessari aukningu — „námslánum, sjúkratryggingum, almannatryggingum og í þjónustu við sjúklinga, aldraða og fatlaða einstaklinga.“

Ég les þennan kafla hér upp vegna þess að þegar menn eru að ræða niðurskurð þá er rétt að skoða hvaða aukningar voru boðaðar í frumvarpinu fyrir 2009. Í frumvarpinu námu einmitt hækkanir á bótum almannatrygginga, atvinnuleysisbótum og bótum til fjölskyldna svo sem vegna fæðingarorlofs, barnabóta og vaxtabóta alls um 8 milljörðum kr.

Rétt er að hafa í huga að í öllum breytingum var reynt að hafa að leiðarljósi að verja grunnþjónustuna, velferðarkerfið, þ.e. menntakerfi, heilsugæslu og almannatryggingakerfið og raunar löggæsluna einnig. Að halda því fram, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, að niðurskurðurinn hafi verið tilviljanakenndur og ekki byggður á neinum grundvallarhugmyndum um hvar ætti að bera niður er einfaldlega alrangt. Það hefur verið viðleitnin í öllum niðurskurðinum að verja hagsmuni þeirra sem minnst mega sín og þeirra sem hafa lægstar tekjur.

Samhliða breytingum í rekstrinum þurfti að huga að því að draga ekki um of úr framkvæmdum og hindra þannig eftir mætti aukningu atvinnuleysis og loks varð að huga að sveitarfélögunum sem reka stóran hluta grunnþjónustunnar. Horft var frekar til þess að draga úr aðkeyptum fjárfestingum og horft til að halda í störf í landinu. Dæmi um þetta var að hætt er við kaup á nýrri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna.

Allt þetta var haft í huga við breytingar á fjárlögunum. Sveiflujöfnuninni var haldið með því að hafa inni mikinn halla, halla sem er einungis réttlætanlegur til að reyna að hindra stóraukið atvinnuleysi. Það er vandhitt á þann niðurskurð sem ekki veldur beinu atvinnuleysi vitandi að við aukið atvinnuleysi hjá opinberum aðilum færist launakostnaðurinn beint frá viðkomandi stofnunum yfir á Atvinnuleysistryggingasjóð og er þá til lítils sparað ef það fer beint þar á milli.

Ég ætla að skoða sérstaklega í ræðu minni breytingar hjá félagsmálaráðuneytinu og stofnunum þess þar sem ég stýri félags- og tryggingamálanefnd. Ef farið er yfir liði í fjárlagafrumvarpinu og skoðaðir einstakir liðir þá voru í fyrsta lagi áætlaðar 55 millj. kr. til verkefna vegna aðgerðaáætlunar til að styrkja stöðu barna í samfélaginu og 34 millj. kr. til að þjónusta börn með athyglisbrest og ofvirkni. Þessum tölum er haldið inni sem og miklu af þeim upphæðum sem ætlaðar voru í aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna í samfélaginu. Aftur á móti er frestað 20 millj. kr. framlagi til aðgerðar gegn mansali enda liggur áætlun ekki fyrir um þá aðgerð.

Áður samþykkt afnám tekjutengingar vegna launa maka stendur óbreytt sem og hækkun tekjuskerðingarmarka vegna barnabóta og vaxtabóta. Þá stendur hækkun vegna málefna fatlaðra einnig en skerðing er þó á rekstrarframlögum til stofnana fatlaðra sambærileg þeim sem verða yfir heildina eða 2–4,5% lækkun á áætluðum hækkunum til rekstrar. Allur slíkur niðurskurður í rekstri stofnana, meðal annars hjá fötluðum er auðvitað sársaukafullur og á stofnunum sérstaklega sem fyrir er þröngt í rekstri.

Í öðru lagi var í frumvarpinu, ef maður lítur á hlut félags- og tryggingamálaráðuneytisins, reiknað með tvöföldun á framlagi til niðurgreiðslu vaxta af lánum vegna 750 leiguíbúða. Framlagið var 1.100 millj. kr. 2008 og átti að hækka, eða tvöfaldast fara í 2,2 milljarða. Horfið er frá þessari hækkun og miðað við að niðurgreiðslur vaxta vegna lána til 400 leiguíbúða standi eins og árið 2008.

Í þriðja lagi birtast víða í fjárlögum tölur til lækkunar vegna þjónustu við blinda og sjónskerta en öll þessi framlög færast saman í nýjan lið undir félagsmálaráðuneytinu, í lið sem heitir Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Í félags- og tryggingamálanefnd liggur fyrir frumvarp til laga um þessa miðstöð og verður það vonandi að lögum fyrir jól og þar með jólagjöfin til þessa hóps. Í fjárlögum eru nettó 311 millj. kr. til þessa málefnis en ekki er um útgjaldaaukningu að ræða frá frumvarpinu heldur millifærslu á milli liða.

Í fjórða lagi vil ég nefna lið sem fjallar um bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Það er liður sem kallaður er heimilisuppbót. Hann lækkar í fjárlögunum um 87 millj. kr., annars vegar um 12 millj. kr. þar sem reglur um tekjutengingar atvinnutekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga eru samræmdar reglum fyrir 60–70 ára. Þetta var þannig að það var ákveðið fyrst að tekjur 70 ára og eldri hefðu ekki áhrif til skerðingar á lífeyri almannatrygginga á neinn hátt. Aftur á móti varðandi 67–70 ára var tekjumarkið 100 þús. kr. Nú er þetta samræmt þannig að það er sama tekjumark fyrir 67 ára og eldri og miðað við 100 þús. kr.

Hins vegar varðandi þennan lið var 75 millj. kr. lækkun vegna breytinga þar sem fjármagnstekjur umfram 90 þús. kr. frítekjumark á ári skulu metnar að fullu til útreiknings á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk og tekjutryggingu. Þessi breyting hefur líka áhrif á aðra liði sem ég nefni hér síðar, bæði frítekjumarkið, þ.e. 100 þús. fyrir þá sem voru 70 ára og eldri og fjármagnstekjurnar umfram 90 þús. kr. Þetta hefur sem sagt áhrif á lífeyristryggingarnar með sama hætti og þarna er um að ræða lækkanir um 156 millj. kr. vegna atvinnuteknanna og fjármagnsteknanna og örorkulífeyrir lækkar um 12 millj. vegna breytinga á liðnum um fjármagnstekjur eins og áður var nefnt. Þess skal þó getið að reiknað er með því að frítekjumarkið hjá öryrkjum, 100 þús. kr. — það er komið frumvarp um að framlengja gildistíma þess. Það átti að renna út um áramót og samhliða átti að verða endurskoðun á lögunum og taka inn starfsendurhæfingu. Þeirri vinnu er ekki lokið og þess vegna er tillaga um að framlengja þetta ákvæði um 100 þús. kr. eitt ár í viðbót.

Það kemur hérna önnur hækkun á þessum lið nr. 07-827 í fjárlögunum. Þar hækka framlög sem heita Sérstök viðbót ellilífeyrisþega frá frumvarpinu um 1.200 millj. kr. og liðurinn Sérstök viðbót örorkulífeyrisþega um 800 millj. kr. Þarna er um að ræða 2 milljarða sem koma til hækkunar í frumvarpinu en hvort tveggja er vegna verðlagsþróunar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækka bætur um 9,6%. En við síðari útreikning stefnir í 13% hækkun á árinu 2008 og áætluð verðbólga á næsta ári hækkar þetta enn frekar. Ef fylgja ætti hækkun á lífeyri samkvæmt eldri ákvörðun hefði þurft að hækka lífeyri um tæp 20% nú um áramótin.

Við endurskoðun frumvarpsins var ákveðið að tryggja þeim sem hafa lágmarksbætur eða lægstu bæturnar 19,9% hækkun en öðrum 9,6% hækkun eins og áætlað var upphaflega í fjárlagafrumvarpinu. Full hækkun mun þannig ná til fjórðungs lífeyrisþega en því miður ekki til allra og það er auðvitað meðvituð ákvörðun að reyna að tryggja að þeir sem lægstar bæturnar hafa fái þá að minnsta kosti um það bil 20% hækkun strax um áramót.

Liður sem breytist líka í frumvarpinu er Ábyrgðasjóður launa sem hækkar um 862 millj. kr. þar sem það fer upp í 1.883 millj. kr. eða hækkar sem sagt þarna verulega þar sem reikna má með fleiri gjaldþrotum fyrirtækja. Það er svona varúðarákvörðun eða spá um það sem hugsanlega gæti gerst.

Sömuleiðis hækkar framlagið til Atvinnuleysistryggingasjóðs um rúma 10 milljarða og verður 17,6 milljarðar og þá eru millifærðar inn á Atvinnuleysistryggingasjóð 110 millj. kr. undir liðnum Námskeiðahald og átaksverkefni og önnur úrræði til þess að tryggja að menn geti sinnt betur þessum þáttum í vaxandi atvinnuleysi.

Þá nefna lækkun um 400 millj. kr. til fæðingarorlofssjóðs en sá liður verður 10 milljarðar kr. í stað 10,4 milljarða. 80% hlutfalli af launum er haldið en sett hámark við 400 þús. kr. greiðslu á mánuði. Tekjuviðmiði var breytt á síðasta þingi og fært nær í rauntíma og það verður óbreytt. Þarna er enn eitt dæmið um að menn reyna að hlífa þeim sem hafa lakari tekjurnar en taka örlítið meira af þeim sem hafa betri tekjurnar þar sem er sett tekjuhámark út úr fæðingarorlofssjóðnum við 400 þús. kr. Maður gerir sér grein fyrir því að þetta getur haft áhrif á töku fæðingarorlofs — hugmyndin um að hafa þetta hámark mun hærra var einmitt til þess að tryggja að feður tækju fæðingarorlof og þetta gæti hugsanlega haft einhver áhrif á það en það verður þá að koma í ljós og endurskoða síðar ef menn eru ósáttir við þessa breytingu.

Það eru síðan nokkrar færslur og það hefur verið að þvælast fyrir fólki sem hefur verið að skoða allar þessar breytingartillögur að það er töluvert af færslum á milli liða í frumvarpinu og hefur það valdið töluverðum misskilningi.

Þannig er t.d. breyting til lækkunar á félagsmálum, ýmis starfsemi í liðnum 07-799. Þar er um að ræða lækkun upp á 526 millj. kr. sem reiknast sem lækkun hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu en um er að ræða fyrst og fremst færslu á liðum á milli ráðuneyta þar sem t.d. meðlög sem heyra undir ráðuneyti sveitarstjórnarmála færast yfir til samgönguráðuneytisins og sérstakar ráðstafanir vegna aflasamdráttar færast einnig til samgönguráðuneytisins og skýrir það töluna.

Ég tók þarna aðeins stærstu liðina sem heyra undir ráðuneytið en almennt lækka ríkisstofnanir um 2%–4% jafnvel allt að 4,5% samkvæmt tillögunum. Auðvitað er þetta umtalsverður niðurskurður þó að skoða verði hann í samhengi við tekjurnar. Ef við tökum vaxtagjöldin annars vegar og tekjurýrnunina hins vegar þá minnka ráðstöfunartekjurnar um næstum fjórðung og þá er ekki stórt skorið ef menn geta komist af með að lækka útgjöld um 2%–3%.

Í lokin varðandi félags- og tryggingamálaráðuneytið er mjög mikilvægt að gengið verði sem fyrst frá flutningi málefna aldraðra frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins og gengið verði frá þeim tekjubreytingum og gjaldabreytingum sem því fylgja í fjárlagavinnunni. Vonandi hefst það fyrir 3. umr. Eftir umræður á sameiginlegum fundi félags- og tryggingamálanefndar og heilbrigðisnefndar um stöðu Tryggingastofnunar og Sjúkratryggingastofnunar er ljóst að betur þarf að fara yfir skiptin þar á milli og skoða hvort þau hafa einhver áhrif á fjárlagaliði.

Í þessu samhengi er rétt að skoða framlög til öldrunarstofnana og hvernig verkaskiptingin er þar á milli. Það liggur fyrir að öldrunarstofnanirnar eru með töluverðan halla á þessu ári en aðeins lítill hluti er bættur í fjáraukalögum. Spáð hefur verið að halli öldrunarstofnana á landinu sé hálfur til heill milljarður og verði það niðurstaðan getur verið erfitt að skera enn frekar niður á þessum stofnunum þannig að ég áskil mér rétt til að þetta verði skoðað sérstaklega í nefndinni í framhaldinu.

Ég valdi að fjalla fyrst og fremst um félags- og tryggingamálin en ætla aðeins að koma inn á menntamálin. Þar eru stærstu upphæðirnar í tengslum við háskólana þar sem greiðslur til Háskóla Íslands lækka um 833 millj. kr., fyrst og fremst vegna frestunar á 656 millj. kr. framlagi til rannsókna. En framlagið var samkvæmt samningi og var fyrsta greiðslan á árinu og nú er framlagi næsta árs frestað. Auðvitað er mjög erfitt að glíma við það að skera niður rannsóknarsjóðina þótt það sé að sumu leyti réttlætanlegt vegna þess að þar er ekki um að ræða fastlaunaða vinnu. Ef menn hafa ætlað að ná svipuðum árangri hefði þurft að fara í niðurskurð á störfum innan háskólanna. Rannsóknarframlag til annarra háskóla er skorið niður og þetta eru sársaukafullir niðurskurðir þegar efla þyrfti rannsóknir. Þó er reynt að halda framlögum til rannsókna á atvinnuvegum á öðrum liðum.

Þetta ásamt lækkun á greiðslum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna eru stærstu sparnaðarþættirnir í framlögum til menntamála. Þó verður að taka fram að í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir 30% hækkun frá áætlun 2008 til lánasjóðsins eða um 1.785 millj. kr. Þar er m.a. gert ráð fyrir 2 milljarða framlagi í afskriftarsjóð. Við endurskoðun áætlunar fyrir 2009 hvað varðar nemendafjölda telur sjóðurinn sig geta lækkað framlög til LÍN um 469 millj. kr. og þess þarf þó að gæta þegar sú upphæð er nefnd að þá er búið að gera ráð fyrir 200 millj. kr. hækkun vegna breytinga á útlánareglum sjóðsins frá því í nóvember síðastliðnum þar sem reynt var að koma til móts við tillögur Sambands íslenskra námsmanna erlendis og hækka framlög til námsmanna erlendis.

Í frumvarpinu er jafnframt hækkun upp á 109 millj. kr. vegna vaxtastyrks samkvæmt sama samkomulagi en í tillögunni eins og hún er lögð fram hér í 2. umr. fjárlaga er reiknað með að lánasjóðurinn gangi á eigið fé, sem nemur einum milljarði kr., og lækkar þá ríkisframlagið sem því nemur. Ekkert af þessu á að leiða til rýrnunar á kjörum námsmanna umfram verðbólgu, sem skerðir kjör námsmanna eins og annarra, og verður að treysta á að svo verði ekki í ár, þ.e. að niðurskurður á lánasjóðnum gangi einungis tímabundið á eigið fé en verði ekki til skerðingar hjá námsmönnum.

Almennt eru framlög til skóla lækkuð um 3% sem verður að teljast allvel sloppið þegar haft er í huga að fjárlögin gerðu ráð fyrir 10% hækkun á launum og 13,5% á öðrum þáttum, eins og áður sagði, og tekjufall ríkisins er margfalt hærra en þessi 3%.

Nokkur atriði eru í tillögum menntamálaráðuneytisins um niðurskurð eða atriði sem ekki ná inn í fjárlögin sem valda mér töluverðum áhyggjum og vonbrigðum. Ég átti ekki von á að rannsóknarsetur Háskóla Íslands úti á landi yrðu skorin niður. Spara á um 24 millj. kr. á Snæfellsnesi, Hornafirði, Húsavík og Austurlandi eða um 6 millj. á hverjum stað. Allt eru þetta góð verkefni sem stuðla að uppbyggingu atvinnulífs á þessum svæðum og þetta þarf að skoða á milli 2. og 3. umr.

Það sama gildir um skráningu skjala á vegum Þjóðskjalasafns en skráningin hefur verið í gangi úti á landi og verið hluti af atvinnuátaki. Hér er lækkunin 25 millj. kr. og þetta þarf einnig að skoða milli 2. og 3. umr. Loks má nefna að hætt er við tvö störf sem áttu að koma til í Húnavatnssýslu samkvæmt nýrri áætlun um uppbyggingu atvinnulífs á Norðvesturlandi á svæði sem hefur búið við neikvæðan hagvöxt og var látið gjalda þenslunnar á liðnum árum.

Fyrir liggja skýrslur bæði fyrir Norðausturland og Norðvesturland þar sem átti að bregðast við byggðaþróuninni með því að leggja 200 millj. til uppbyggingar atvinnumála á hvoru svæði og auðvitað þarf að ræða á milli 2. og 3. umr. hvort menn ætli ekki að standa við þessar nýju skýrslur. Erfitt er að að sætta sig við að einn liður sé skorinn út í Húnavatnssýslunum um 17 millj. kr.

Þá batt ég vonir við að menn létu í friði fjárveitingar sem voru samkvæmt Vestfjarðaskýrslu og nýjum áætlunum fyrir svæðið, eins og ég sagði áður, og treysti á að menn skoði þetta betur síðar.

Að venju undanfarinna ára, eins undarlegt og það nú er, virðist fjárlaganefnd hafa haft það hlutverk að bæta alltaf inn upphæðum einhvers staðar á bilinu 7–8 millj. kr. á hverja náttúrustofu. Sem er það framlag sem menn hafa saknað og spurt um hér í 2. umr. og það hlýtur að koma til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og væntanlega verður bætt við náttúrustofurnar.

Auðvitað kalla allar aðgerðirnar á að menn skoði fleiri þætti með hugsanlegan niðurskurð í huga til þess að geta gert þessar leiðréttingar og auðvitað snúa fleiri sársaukafullir þættir sérstaklega að landsbyggðinni. Það er alvarlegt að í þessari umræðu virðast menn líta á atvinnuleysistölur og tala um að atvinnuleysi sé lítið á Vestfjörðum eða á Norðvesturlandi. En staðreyndin er sú að af þessum svæðum hefur fólk flutt jafnóðum og það hefur tapað vinnunni. Við höfum horft á fólksfækkun upp á tugi prósenta og menn mega ekki falla í þá gildru að halda að þess vegna þurfi ekkert að gera á þessum svæðum. Þeim mun frekar þarf að hindra að fólksflóttinn eigi sér stað með því að efla atvinnu á viðkomandi svæðum.

Í menntamálum ætla ég að minnast á landbúnaðarháskólana. En ekki hefur tekist að ljúka yfirfærslu skólanna á Hólum og Hvanneyri frá landbúnaðarráðuneyti yfir í menntamálaráðuneyti með nægri fjárveitingu. Þessir skólar eru báðir orðnir háskólar en hafa ekki fengið fjárveitingu sem slíkir. Að vísu er gert ráð fyrir töluverðri fjárveitingu í fjáraukalögum og þar með gerður upp hali sem hefur fylgt Hólaskóla. Ég átti þátt í gerð skýrslu og tillögusmíð fyrir háskólann á Hólum sem byggði á að skólanum yrði sköpuð þau skilyrði sem lög um háskóla gera ráð fyrir.

Frá stofnun háskólans hafa fjárframlög til hans verið í fjáraukalögum og það er raunar einnig nú. En til að skólinn fái tíma og tækifæri til endurskipulagningar og aðlögunar að almennum háskólalögum samþykkti starfshópur um skólann að leggja ætti skólanum til árlega 115 millj. kr. til viðbótar næstu þrjú árin, að minnsta kosti á meðan væri verið að endurskipuleggja starfið í skólanum og raunar á svæðinu, vegna þess að undir þessum fjárveitingum hafa verið óskýrð mörk á milli sjálfs skólastarfsins og staðarhalds svo eitthvað sé nefnt.

Þessi samþykkt starfshópsins hefur ekki ratað inn í fjárlögin þrátt fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar á tillögu starfshópsins. Þetta tel ég að þurfi að laga því annars mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Hólaskóla nema að menn ætli enn einu sinni að gera út á það að treysta á fjáraukalög á nýju ári.

Þannig er raunar farið með fleiri stofnanir. Þegar ég kom að gerð fjárlaga í fyrsta skipti í fyrra kom mér á óvart að svo virðist sem ákveðnar stofnanir, einkum heilbrigðisstofnanir, gera út á að fá leiðréttingar í fjáraukalögum. Þannig hafa ráðuneyti reynt að veita aðhald með því að áætla heldur naumt en reyna að skera menn niður úr snörunni með fjáraukalögum árið eftir.

Af því að ég nefndi hér nokkur hagsmunamál landsbyggðarinnar sérstaklega get ég ekki yfirgefið ræðustólinn án þess að skora á samgönguráðherra og samgöngunefnd að gæta þess að í 5,5 milljarða niðurskurði á vegaframkvæmdum verði ekki aftur skornir niður sömu vegaspottarnir og voru látnir gjalda þenslunnar fyrir tveimur til þremur árum. Brýnt er að halda áfram framkvæmdum við Vestfjarðaveg 60 á sunnanverðum Vestfjörðum og ég treysti að menn hafi það í huga í framhaldinu.

Auðvitað eru fleiri verkefni sem er sárt að sjá á eftir í þessari fjárlagagerð. Hér eru t.d. tillögur um að fresta byggingu gestastofu í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi og á Látrabjargi. Reiknað er með lokun Hornstrandastofu og Surtseyjarstofu og alls á að spara með þessu um 92 millj. kr. Þetta er í sjálfu sér ekki í samræmi við hugmyndir um að efla ferðamennsku og reyna að færa hana á fleiri svæði út frá Gullfoss- og Geysissvæðinu og Bláa lóninu yfir á fjarlægari svæði. Töluvert hefur verið horft á Snæfellsnesið og jafnvel út á Látrabjarg sem og á fleiri staði. Ég held að menn þurfi að huga að þessu í tengslum við umræðu um ferðaþjónustu.

Ég hef ekkert fjallað um atvinnumálin sem eru veigamikill þáttur í sambandi við fjárlögin þ.e. með hvaða hætti okkur tekst að auka framleiðslu, nýta orku og auka matvælaframleiðslu til að spara okkur gjaldeyri. Hvernig við getum snúið okkur í því að nýta betur það sem íslenskt er? Ég nefndi einhvers staðar í stuttri umræðu utan dagskrár að nú ættum við að nýta okkur íslenska sementið og hætta að flytja sement inn frá Danmörku. Við eigum öfluga sementsverksmiðju sem getur annað allri innanlandsþörf miðað við samdráttinn og hefur framleitt 150 þús. tonn og stefnir í að framleiðslan detti niður fyrir 100 þús. tonn að óbreyttu en stórar steypustöðvar flytja enn inn erlent sement, að því ég best veit. Gengisskráningin ætti að hjálpa okkur að flytja slík viðskipti hingað heim.

Ég hef sjálfur verið óhræddur við að segja að menn eigi að skoða áframhald hvalveiða. En þar verður að vega hagsmunina. Nefnt hefur verið í umræðunni og full ástæða til að benda á að við eigum að nýta okkur ferðamannastrauminn og þá aðstöðu sem til er til að taka á móti ferðamönnum og reyna að auka gjaldeyrinn.

Tíminn leyfir í sjálfu sér ekki að ég fari ítarlegar yfir fjárlögin að öðru leyti. Mikil vinna er eftir við að fínpússa þau. Bæta inn safnliðum og skoða frekar einstaka liði fyrir 3. umr. Ég ítreka þá skoðun mína að fjárlögin og framkvæmd þeirra eigi að vera í stöðugri endurskoðun og skoðast formlega á þriggja mánaða fresti á næsta ári. Þar sem við fótum okkur í nýju umhverfi, þurfum við að geta fylgst með atvinnuástandi, tekið ákvarðanir til að bregðast við varðandi úrræði fyrir heimilin og vegna hugsanlegs verðbólguskots, skoða gengisþróun og fleira í þeim dúr.

Heilmikil vinna er eftir en ljóst að fjárlögin eru gerð við óvenjulegar aðstæður og þess vegna er rétt að við höfum í huga að þau þurfa endurskoðun fljótlega.



[16:00]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef setið og fylgst með þessari umræðu og velti aðeins fyrir mér aðstandendum þessa frumvarps. Hér í salnum er að vísu hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, og er það vel. Sömuleiðis kom til leiks hæstv. umhverfisráðherra skömmu eftir að hæstv. félagsmálaráðherra gekk á braut en aðra ráðherra eða ábyrgðarmenn þessa frumvarps hef ég ekki séð plaga mikið setu á bekkjum. Það hefði verið fróðlegt að eiga orðastað við t.d. formenn stjórnarflokkanna og/eða eftir atvikum hæstv. fjármálaráðherra, m.a. af því að ég er svolítið að velta því fyrir mér hvernig sé með þetta frumvarp, eða hálfdrætting að fjárlagafrumvarpi, sem hér er komið á okkar borð og eins með þessa ríkisstjórn. Ég velti því fyrir mér hvers konar ríkisstjórn er í landinu nú um þessar mundir, hvort þetta sé einhver biðstjórn fram að landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok janúar.

Framsögumenn meiri hlutans hafa að vísu haft allmikla fyrirvara á máli sínu, eins og síðasti hv. ræðumaður sem tók held ég milli 10 og 20 sinnum fram að mjög mikið af þessu þyrfti að endurskoða í fyrsta lagi fyrir 3. umr. og síðan aftur strax á nýju ári. Það er vel. Menn eru þá ekki að þykjast með að hér er lagt fram plagg sem ábyggilega á eftir að teljast einstakt í þingsögunni eða svo til, af því að það er að stofninum til nýtt fjárlagafrumvarp þótt vanti um það bil helminginn á það og í því séu stór göt. Þá veltir maður því fyrir sér, herra forseti, hvort ekki sé nánast verið að fara á svig við þingsköpin sem gera ráð fyrir að fjárlagafrumvarp fari í gegnum þrjár umræður. Fyrsta frumvarpið sem birtist í haust er ónýtt, það er búið að henda því enda minnist enginn maður á það.

Þetta frumvarp er frá ríkisstjórninni og framsögumenn meiri hluta fjárlaganefndar taka skýrt fram að í raun og veru eru þeir pósthólf fyrir niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar inn í þingið. Þeir fengu tillögurnar sl. fimmtudag. Þá stefnir sennilega í að fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2009 fari í gegnum eina og hálfa umræðu í staðinn fyrir þrjár. Þessa hálfu umræðu sem verður núna þar sem öllum óvissuatriðum er vísað inn í 3. umræðu og síðan þá þriðju, því það er tæplega hægt að telja með 1. umræðuna um gerónýtt plagg frá því í haust sem allir eru búnir að gleyma. Er ekki dálítið óvandað að ríkisstjórnin skyldi þá ekki vinna nýtt frumvarp og leggja fram nýtt frumvarp með nýju númeri sem gæti farið í gegnum þrjár umræður og fengið eðlilega skoðun?

Mér finnst reyndar að meiri hluti fjárlaganefndar eigi hrós skilið fyrir að vera ekki að þykjast í þessum efnum, reyna ekki að láta líta svo út sem þeir hafi sett þetta í sjálfstæða skoðun. Ég varð að vísu dálítið spenntur þegar ég sá nefndarálitið. Það er nokkuð þykkt en þegar ég fletti því yfir á annað blað sá ég að það endar þar. Nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar er tæplega ein blaðsíða. Restin er einhver fylgigögn, álit fagnefndanna og síðan heilmikil sundurliðun eða útskýring á niðurskurðartillögum sem komu frá ríkisstjórninni sl. fimmtudag. Svona er málið vaxið í grófum dráttum, ekki satt?

Þá leyfi ég mér að segja: Þetta er varla marktæk umræða. Auðvitað getur Alþingi látið sig hafa þetta ef því býður svo við að horfa en mér finnst ekki mikill svipur á þessu. Menn geta heldur ekki skýlt sér á bak við efnahagsáföll eða breyttar forsendur hvað varðar að reyna ekki eftir sem áður að vanda vinnubrögð. Einhverjir mundu segja hið gagnstæða. Þá er nauðsyn sem aldrei fyrr að skoða eins vel og við mögulega getum hvernig er hægt á sem sársaukaminnstan hátt að takast á við þetta, forgangsraða og verja það mikilvægasta. Er það gert á örfáum sólarhringum í hálfgerðri málamyndaumræðu? Ég efast um það. Ég er farinn að hallast að þeirri skoðun, eftir að hafa skoðað það sem fyrir liggur af gögnum og hlustað hér á umræður, að það sé hið mesta óráð að setja þetta ekki í miklu vandaðri vinnu. Ekki víst að árið mundi duga til, þ.e. þá ætti að afgreiða fjárheimildir um áramótin og halda áfram skoðun fjárlagafrumvarpsins á nýju ári þannig að við gætum kannski um 20. janúar verið komin með nokkurn veginn fullburðuga vinnu í þessum efnum. Verður óvissan þó örugglega næg samt þótt menn reyndu að fara í þetta einhvern veginn svona.

Ekki bætir úr skák ef ríkisstjórnin situr sem einhvers konar bráðabirgðastjórn þar til ljóst verður hvort hún lifir af landsfund Sjálfstæðisflokksins. Þau óvæntu tíðindi hafa nú gerst að formaður stjórnarflokks, formaður Samfylkingarinnar, hefur stillt samstarfsflokknum upp við vegg og sagt að ef hann geri ekki svo vel og leggist á hliðina eða kviðinn í Evrópumálunum sé stjórnin búin og þá eigi að kjósa. Þá á allt í einu að nota lýðræðið. Það hlýtur að teljast dálítil óvissa um hvort Sjálfstæðisflokkurinn lýtur þessum afarkostum eða hvort vænta má þess að stjórnarslit verði í lok næsta mánaðar.

Það er reyndar mjög athyglisvert að Samfylkingin setur þetta fyrir sig sem stjórnarslitaefni. Einhverjum hefði dottið í hug að jafnaðarmannaflokkur, sem svo kallar sig, hefði frekar uppi stjórnarslitahótanir vegna þess sem hér er á dagskrá þegar skera á niður velferðarútgjöld og þjarma að samneyslunni í landinu þannig að önnur dæmi slíks eru engin á seinni árum, hygg ég. Nei, Samfylkingin hótar ekki að ef ekki verði reynt að standa betur vörð um velferðarsamfélagið megi stjórnin missa sig. Það er ekki af hræðslu við að almenningur í landinu missi húsin sín þúsundum saman á næstu mánuðum sem Samfylkingin hótar stjórnarslitum. Það er ekki af ótta við að hér verði mikið atvinnuleysi, m.a. vegna þess að menn dýpki kreppuna með vanhugsuðum ráðum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem Samfylkingin hótar stjórnarslitum. Nei. Ef ekki er hægt að leggja drög að því að við komumst inn í Evrópusambandið eftir nokkur ár, þá gæti farið að hrikta í að mati Samfylkingarinnar, það er forgangsverkefni í íslenskum stjórnmálum að mati þess flokks. Þetta er umhugsunarefni, virðulegi forseti.

Lítill endir ætlar að verða á hremmingum okkar og margra fleiri sem leiðir af þessu hruni nýfrjálshyggjukapítalismans. Fréttirnar í gær og í dag voru ískyggilegar, t.d. frá evrópskum bönkum um nýjasta hneykslið, nýjasta áfallið, þar sem bankar og fjármálastofnanir, ekki síst í Evrópu, standa frammi fyrir að tapa stórfé á svikamyllu yfirmanns eins stærsta verðbréfamarkaðar í heiminum. Madoff mun hann heita, þessi höfðingi á Nasdaq sem setti þar upp svikamyllu og þar af leiðandi á evrópskt fjármálakerfi í vændum milljarðatuga bandaríkjadala tap. Meira að segja tölurnar sem að Íslendingum snúa um þessar mundir verða næstum því litlar séu þær settar í samhengi við tap stærstu spænsku, frönsku, skosku og þýsku bankanna. Með öðrum orðum, þetta er býsna rotið kerfi sem leikur heimsbyggðina grátt, þetta móverk sem menn mærðu hér og göptu upp á. Það hét að vera framsýnn, trúa á framtíðina og vera ekki íhaldssamur eða afturhaldssamur að falla fram og lúta þessu. (Gripið fram í.) Já og allt það. Svona er þetta nú samt og maður spyr sig: Ætla þessi ósköp engan endi að taka, hvort sem er heima fyrir eða erlendis?

Okkar málum er þannig komið og ríkisstjórn landsins spilaði þannig okkar spilum að menn skriðu á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Röksemdirnar voru að ekkert annað væri hægt. Það voru ekki færð mikil rök fyrir því að þetta prógramm væri í sjálfu sér svo álitlegt eða þetta væri efnilegur leiðangur sem Ísland færi í með því að gefast upp í Icesave-deilunni til að koma lánsumsókninni fyrir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Nei, það var ekkert annað hægt. Það hefur alltaf slegið mig illa, burt séð frá viðhorfum mínum til innihalds mála, þegar menn grípa til nauðhyggjuröksemda og telja sig þar með ekki þurfa frekari vitna við, þetta sé bara svona og það verði bara að gera þetta svona. Þess vegna fór maður að spyrja sig strax í októbermánuði og nóvembermánuði: Verðum við ekki að reyna að átta okkur á því hvað þetta þýðir í heild sinni og hvort það borgi sig að leggja af stað með Ísland í þennan leiðangur? Eigum við ekki fyrst að átta okkur á því hvort horfurnar séu yfir höfuð þannig að einhver leið sé fær út úr þessu og í gegnum þetta, ef við ætlum að treysta á þessa áætlun og samstarfsaðila við að koma okkur út úr erfiðleikunum?

Ég varaði við því strax frá fyrsta degi þegar umsóknin var send inn að menn gætu verið að gangast inn á hluti sem ættu ekki endilega eftir að reynast gæfulegir. Þá óttaðist ég auðvitað mest það sem síðar kom á daginn að menn mundu gefast upp í deilunum um ólánsreikningana miklu á meginlandi Evrópu. Það varð þvert á allar yfirlýsingar og heitstrengingar um annað. Ég óttaðist líka mjög mikið það sem aðrar þjóðir sem hafa lent á klafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa lært, að það kynni að verða okkur býsna erfitt að ætla að fylgja því prógrammi og þeirri hugmyndafræði burt séð frá öllu öðru. Hvað ætli komi hér á daginn? Að þetta hálfa frumvarp er ekki frá meiri hluta fjárlaganefndar og ekki frá ríkisstjórninni heldur er það í grunninn og botninn frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er þannig. Þaðan eru skilmálarnir ættaðir á hverra forsendum niðurskurðurinn er framkvæmdur þótt menn reyni að þvo það af sér. Datt mönnum kannski sjálfum í hug það sem starfsmannaskýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er ein til heimilda um, nákvæmlega hvernig þetta er útfært?

Hin nýja biblía Íslands er ekki fjárlagafrumvarpið, ekki einhver spá frá fjármálaráðuneytinu eða efnahagstíðindi frá Seðlabankanum. Nei, það er starfsmannaskýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hana þurfa þeir að lesa sem ætla að tjá sig um ríkisfjármál og efnahagshorfur á Íslandi í dag. Þar er boðskapinn að finna. Í hana er vitnað þegar spurt er í þingnefndum eða annars staðar: Hvar er reynt að hafa heildaryfirsýn? Hverjir hafa skoðað þetta? Hvar eru útreikningarnir? Hvar er matið á greiðslugetu þjóðarbúsins? Fátt verður um svör og að lokum er ekkert annað hægt en að vísa í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Svona hefur þetta verið undanfarna sólarhringa þar sem ég hef verið á fundum í utanríkismálanefnd, viðskiptanefnd og víðar.

Ég tel mig hafa rakið til enda að nákvæmlega þannig er þetta. Íslenska stjórnkerfið virðist ekki burðugra en svo að það hefur gefist upp og ekkert sjálfstætt íslenskt mat hefur farið fram á því hverjar horfurnar eru fyrir okkur í framtíðinni. Ef mér yfirsést eitthvað yrði ég þakklátur fyrir að vera bent á það. Það er alla vega ekki í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar upp á tæpa eina blaðsíðu. Svo mikið er víst.

Það er mjög fróðlegt, virðulegi forseti, að fara betur yfir þessa starfsmannaskýrslu og ég ætla að eyða svolitlum tíma í það. Því miður er hún á ensku og hefur ekki verið íslenskuð að því ég best veit, sjálfsagt hefur ekki verið gerð tilraun til þess. Þess vegna er umhendis að vitna í hana og mér leiðist alltaf að lesa upp erlend mál. Ef við byrjum á samantektinni fremst í skýrslunni er þar á bæ ekkert skafið utan af því hvað sé í vændum fyrir íslenskt hagkerfi, í því sem heitir „executive summary“. Þar er talað um djúpa efnahagslægð, „deep recession“, að heildarskuldir muni vaxa hratt, „sharp rise in physical debt“, eigum við ekki að segja að heildarskuldir munu aukast hratt. Það er talað um dramatíska aukningu í opinberum skuldum. Hvernig mundum við þýða það? Stórfelld, hrikaleg aukning opinberra skulda. Þetta endurspegli hinn mikla kostnað við að endurskipuleggja bankakerfið og fjármálakerfið. Það er komið inn á að greiðslumiðlunarkerfið milli Íslands og annarra landa, þ.e. gjaldeyrismarkaðurinn og greiðslumiðlunin, hafi því sem næst hrunið, „virtual collapse“, og það skapi mikla og bráða hættu fyrir efnahagslífið haft í huga hversu háð Ísland er innflutningi og útflutningi. Síðan er farið yfir aðgerðaáætlunina, upp á hvað hún hljóði. Þá er sagt að fyrri hluti lánsins sem kominn er upp á 560 millj. SDR, honum eigi að fylgja átta inngreiðslur upp á 105 millj. hver, en það sé háð ársfjórðungslegum endurskoðunarskilmálum. Það er skilyrt fé sem í vændum er. Fróðlegt væri að heyra fjárlaganefndarmenn fara yfir þetta. Hafa þeir kafað ofan í þessi ársfjórðungslegu skilyrði og þökin sem þarna á að setja? (Gripið fram í.) Er búið að greina það í fjárlaganefnd?

Mér segir svo hugur miðað við þau gögn sem ég hef barið út í gegnum veru mína í utanríkismálanefnd að lítið muni fara fyrir sjálfstæðinu þegar þeir mæta á ársfjórðungsfresti og fylgjast með því að menn hafi skorið niður eins og til stóð áður en næsta innborgun verði send. Með öðrum orðum, þetta er skilyrt fé, skilyrt því að menn makki rétt í samræmi við skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Síðan er þessu skipt upp eins og menn þekkja á árið sem í hönd fer, árið 2009, og gert mikið úr því að þar ætli menn að nota sveiflujöfnunargetu ríkissjóðs að verulegu leyti en þó er nokkuð undandregið í því þegar betur er að gáð. En hins vegar er sagt að hinir ströngu skilmálar komi að fullu inn strax á árinu 2010 þannig að svo erfið sem mönnum kunna að þykja þessi fjárlög og niðurskurðurinn hér, hvað er þá í vændum 2010? Vilja talsmenn ríkisstjórnarflokkanna ekki segja okkur eitthvað um það miðað við það sem hér gefur að lesa í biblíunni sjálfri, starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Ég staldra næst við á bls. 9 í skýrslunni. Þar er sérstakur reitur, nr. 3, sem ber hið sérstaka heiti: — einhverjum finnst þetta kannski gamansemi — „The Perfect Storm“. Hvað er verið að fjalla um þar, virðulegi forseti, í hinu fullkomna óveðri efnahagsmála sem er að skella á Íslandi? Það er verið að fjalla um hin fimmþættu áföll sem Íslendingar eigi í vændum, íslensk heimili, íslenskur almenningur.

Hver eru hin fimmþættu áföll? Það er í fyrsta lagi gengisáfallið, þ.e. áfallið sem skellur á íslenskum heimilum og íslenskum fyrirtækjum vegna gengishrunsins. Það er í öðru lagi verðbólguáfallið, þ.e. áfallið sem íslensk heimili og íslensk fyrirtæki verða fyrir vegna verðbólgunnar sem er um 20% um þessar mundir. Það er í þriðja lagi eignahrunið, „asset shock“ og það skýrist m.a. af því að 80% af íslenska verðbréfamarkaðnum er horfið. Hann er orðinn að ekki neinu. Hann er reyndar orðinn enn minni núna, kannski kominn niður í 10% af því sem hann var og það er vegna þess að það er reiknað með því að verðmæti íbúðarhúsnæðis lækki a.m.k. um fjórðung. Það er þriðja áfallið, eignahrunið.

Fjórða áfallið er „income and employment shock“, þ.e. tekju- og atvinnuhrunið. Í fimmta lagi, sem lítið hefur verið talað um, er viðskiptabankaþjónustuáfallið, þ.e. sú staðreynd að viðskiptabankaþjónusta er tæpast til staðar á Íslandi í dag nema rétt til að skutla launagreiðslunum í gegnum reikning og til manna aftur. Það er nánast engin fyrirgreiðsla í því formi að menn geti fengið rekstrarfé eða úrlausn mála af því tagi og auðvitað snýr þetta sérstaklega að atvinnulífinu og fyrirtækjunum.

Sem sagt, „hið fullkomna óveður í íslenska efnahagslífinu“, sem hinir gamansömu starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem samið hafa hina nýju biblíu íslenskra fjármála, ríkisfjármála og efnahagsmála og kalla því nafni, það er listað svona. Þarna eru yfirlit yfir skuldir bæði íslenskra fyrirtækja og íslenskra heimila og þar stendur það náttúrlega upp úr að Ísland er að þessu leyti langskuldugasta hagkerfi OECD, í árslok 2007 með 308% af þjóðartekjum í skuldir fyrirtækja og 103% af þjóðartekjum í skuldir heimila sem í lok þess árs eða miðað við ráðstöfunartekjur ársins á undan, þ.e. 2006, voru 225% af ráðstöfunartekjum. Þetta eru máttarstoðirnar sem nú eru komnar inn í þetta umhverfi sem við erum að ræða. Það eru þessi skuldugu heimili og þetta skulduga atvinnulíf. Það er vert fyrir menn að hafa það í huga.

En víkjum aftur að forsendum fjárlagafrumvarps starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hér er ranglega ýmist feðrað eða mæðrað ríkisstjórninni eða meiri hluta fjárlaganefndar sem hvorugt er rétt. Það er sagt að í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2009 eigi að nota sjálfvirka sveiflujöfnun ríkisfjármála til fulls á árinu 2009. Þá mætti ætla að það þýddi að menn ætluðu ekki að gera sér sérstaka rellu út af því hvort hallinn á fjárlögum yrði einhverjum milljörðum meiri eða minni ef innstæður væru fyrir þeirri fullyrðingu en það eru ekki innstæður fyrir henni. Þegar betur er að gáð kemur annað hugtak til sögunnar, það er svokallaður hagsveifluleiðréttur frumjöfnuður og hann á að taka niður frá þeim slaka sem hugsaður var miðað við hagsveifluna í fjárlagafrumvarpi haustsins úr 2,7% af landsframleiðslu niður í 0,25%. Þar skýrist niðurskurðurinn. Það er ekkert um hann í sameiginlegri viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þetta er ekki stafað út þar, í hinni sameiginlegu yfirlýsingu sem fylgdi með þingsályktunartillögunni um lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þeir rituðu undir höfðingjarnir Davíð Oddsson og Árni Mathiesen, hæstv. fjármálaráðherra. Nei, hvar skyldi þetta vera að finna? Þetta er að finna í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þar kemur það fram. Þar skal taka þessa framvirku sveiflujöfnun, slakann sem menn í öðru orðinu þóttust ætla að leyfa á ríkisfjármálum á þessu ári og taka síðan niður árið 2010 en þar skal taka hann svona niður og af því skýrist auðvitað niðurskurðurinn samkvæmt beinum fyrirmælum úr starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hér eru á ferðinni fjárlög sem eru algerlega samkvæmt forskrift úr skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ef orðalag hinnar sameiginlegu viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar væri notað þá hefði mátt ætla að í þessum efnum hefðu menn haft fullt sjálfdæmi um að hafa slakann í hinum opinbera búskap á árinu 2009 eins og mönnum þætti best henta miðað við samfélagið og undirstöðurnar en svo er ekki þegar betur er að gáð.

Þá skulum við aðeins velta fyrir okkur aftur hvað verði á í vændum á árinu 2010. Eigum við þá ekki bara að horfast í augu við veruleikann allan? Því árið 2010 mun renna upp. Hér sagði að vísu varaformaður fjárlaganefndar að það ætti að skera meira niður. Kannski er hann að vísa til þeirrar framtíðar að það sé enn verra í vændum. Það er þá heiðarlegt að viðurkenna það og ég hallast að því að svo sé og í raun og veru því það er engin leið að lesa í gegnum þetta öðruvísi en komast að nákvæmlega þeirri niðurstöðu.

Ég staldra örlítið við kaflann í kjaramálum sem er á bls. 14 í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það er sjálfsagt öllum ljóst að því hefur verið lofað eða gefið sterklega í skyn við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að það liggi í raun og veru fyrir vilyrði fyrir því að semja um stórfellda kjaraskerðingu á næsta ári umfram þá sem orðin er. Þar er talað um að fyrirliggjandi vísbendingar séu þær að aðilar vinnumarkaðarins „social partners“, munu semja um kjör í landinu með hliðsjón af þessu prógrammi. Hvaðan eru þessar fullyrðingar ættaðar? Er það með umboði frá forustumönnum launamanna í landinu að þetta ratar inn í skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, orðalag af þessu tagi? Stóð kannski til að sauma þetta saman fyrir áramót eins og einhverjum datt í hug þannig að pakkinn væri allur klár og kjaraskerðingin komin líka upp á borðið?

Að síðustu og þó ekki síst, virðulegi forseti, reynir maður auðvitað að velta því fyrir sér, hverjar eru líkurnar á því að Ísland ráði við greiðslubyrði af öllum þessum erlendu skuldum sem á að hlaða á landið. Ég hef marglýst eftir því að reynt væri að setja það skema upp, vaxtabyrðina og síðan afborganirnar þegar þær fóru að falla til miðað við þær forsendur sem menn geta gefið sér í dag. Að sjálfsögðu er margt á reiki í þeim efnum og lánskjör og annað liggur ekki endilega fyrir og menn geta þá gert sér bestu dæmi og lakari dæmi og reynt að skoða þetta eitthvað en það er í raun og veru ævintýralegt að enginn aðili innan stjórnkerfisins, ekki fjármálaráðuneytið, ekki Seðlabankinn, ekki forsætisráðuneytið sem fer með efnahagsmál, ekki Þjóðhagsstofnun af því að það er búið að leggja hana niður, skuli hafa reynt að stilla þessu upp. Ætli sá innlendi aðili, kannski fyrir utan ræðumann sem helst hefur reynt að eiga við þetta, sé þá ekki Morgunblaðið sem í tvígang eða þrígang reyndi að setja þetta upp í töflur og vaxtareikna o.s.frv.?

Þegar maður les skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sér maður á löngu færi að þar á bæ eru menn sér meðvitaðir um að það má ekkert út af bera til þess að Ísland ráði við greiðslubyrðina af þessu. Þeir segja t.d. að greiðslubyrðin verði svo þung og vegna þess hversu gengismálin verða afdrifarík í þessu, að ef gengi krónunnar veiktist um 30% í viðbót séu skuldirnar augljóslega orðnar það sem kallað er „unsustainable“, þá ræður þjóðarbúið ekki við þetta. Hvað þýðir það á mannamáli? Þá förum við á hausinn, komumst í greiðsluþrot. Ég hvet menn til að lesa viðauka III á bls. 55, þar sem talað er um þetta sem mér finnst vont orðalag og sérstaklega þegar menn þýða það yfir á íslensku sem sjálfbærni skulda. Við skulum kalla þetta bara greiðslugetu, hver er greiðslugeta þjóðarbúsins gagnvart annars vegar erlendum skuldum og hins vegar heildarskuldum, eins og hér er sett upp?

Hér er að finna athyglisvert orðalag þegar fjallað er um vöxt bankakerfisins og vikið að því hversu gríðarlegar erlendar skuldir þjóðarbúsins jukust fram að þessu hruni og til og með ársloka 2007, þegar þær höfðu náð í 551% af þjóðartekjum. Það var ekki talað hátt um það á árinu 2007, sérstaklega ekki fyrir kosningar, ef ég man rétt. Eitthvað var einn og einn maður að benda á að það væri kannski dálítið hættulegt hvernig skuldirnar hefðu hlaðist upp en þetta var kraftaverk og undur hve allt var í góðu ástandi á Íslandi þá, góðærið, munið þið það ekki? Það var ekki fyrr en undir haustið 2007 að einn og einn maður fór að draga aðeins úr góðærishjalinu. En í skýrslunni segir, með leyfi forseta: „The external debt of the banking sector had risen at an astronomical pace.“ Ég hef ekki oft áður séð það í erlendum skýrslum um efnahagsmál að menn tali um stjarnfræðilega aukningu erlendra skulda en auðvitað var þetta það. Auðvitað var þetta stjarnfræðileg geðveiki sem hér var í gangi og það mátti hver einasti hugsandi maður sem lagði sig eftir því þótt ekki væri nema dagpart að skoða helstu kennitölur og helstu mæla, sjá að þetta var að fara í skelfilegar ógöngur, hvað kom á daginn. Og þarna í viðaukum og ítargögnum í hinni nýju biblíu okkar, ekki í trúarlegum skilningi að sjálfsögðu, er að finna ýmsar mjög hrollvekjandi upplýsingar satt best að segja. Um þetta ætti auðvitað að fjalla nú í fjárlagaumræðunni. Um þetta ættu að vera töflur. Um þetta ættu að vera einhverjar áætlanir, einhverjar tilraunir af okkar hálfu til að átta okkur á þessu en það er það ekki. Þessi umræða er því niðurlægjandi á allan hátt fyrir Alþingi Íslendinga, fyrir stjórnkerfið og fyrir okkur öll sem þjóð, að þessum ósköpum skuli vera svona komið.

Hvað segir þetta okkur líka um annan þátt málsins, herra forseti? Þetta segir okkur að ríkisstjórn landsins hefur ekkert prógramm, ekki neitt, það er ekki til. Það eru tvö lítil minnisblöð, tólf spora minnisblaðið og eitt annað sem ekkert er í, ekki neitt þegar betur er að gáð. Er eitthvað í þessum fjárlagatillögum um það hvernig menn ætla að reyna að snúa einhvers staðar vörn í sókn, skapa einhvers staðar aukin verðmæti, setja einhvers staðar einhverja fjármuni, þótt litlir séu í okkar höndum samt, til að eygja einhvern tíma betri framtíð aðra en bara að skera og skera og skuldsetja og skuldsetja? Ég leitaði logandi ljósi og ég fann ekki neitt.

Það er verið að skera niður það sem menn á hátíðisdögum tala alltaf um sem það sem eigi að lyfta okkur, áherslu á menntun, rannsóknir, þróun. Þeim veikburða vísum sem af slíku tagi hafa verið að komast á fót úti á landsbyggðinni er slátrað. (Gripið fram í.) Jú, þeim er eiginlega slátrað að mestu leyti, því miður. Ég veit ekki hvað varaformaður fjárlaganefndar segir t.d. um rannsóknarsetur og þekkingarsetur háskólanna úti á landi eða slíka hluti. (Gripið fram í.) Já, það kemur kannski eitthvað við 3. umr., það er yfirleitt svarið. (Gripið fram í: Fjórðu?) Já, eða við 4. umr. eða 5. umr. kannski.

Það var einu sinni þannig á Alþingi að ríkisstjórn var í nokkrum vandræðum með að koma saman fjárlagafrumvarpi. Sérstaklega var það ónefndur fagráðherra sem fór með landbúnaðarmál, Jón Helgason frá Seglbúðum, sem var ósáttur með sína útkomu í fjárlagafrumvarpinu. Þá féllst hann á framlagningu fjárlagafrumvarpsins þannig að hann samþykkti tekjuhliðina en ekki gjaldahliðina. Þetta þótti dálítið athyglisvert en það má segja að hér sé að hluta til farið í þessu frægu fótspor. Það er svona önnur hliðin, þ.e. niðurskurðarhliðin, sem er hér svona að talsverðu leyti en hitt er bara skrifað í skýin og vísað í 3. umr. Ríkisstjórnin er að taka hér upp þetta verklag eða meiri hluti hennar.

Það vekur líka athygli að að því marki sem ríkisstjórnin hefur einhverja hugmynd um að kannski megi hlífast við einhverjum niðurskurði með því að reyna að afla einhverra tekna, þá velur hún þá leið að boða flata hækkun tekjuskatts og útsvars að óbreyttum skattleysismörkum miðað við það sem búið var að ákveða fyrir ári síðan. Það þýðir á mannamáli áframhald á þeirri lágtekjuskattpíningu sem hér var í gangi og menn vonuðust til að þeir væru kannski eitthvað að þokast í áttina burtu frá aftur með hækkun skattleysismarka umfram verðlag, sem dregur náttúrlega skammt núna eins og verðbólgan er, því miður.

Ég hef verið að velta því dálítið fyrir mér hvar ríkissjóður gæti verið staddur ef hinar glórulausu og ábyrgðarlausu skattalækkanir á síðasta kjörtímabili hefðu ekki allar gengið fram. Ef við tækjum hátekjuskattinn eins og hann var áður en farið var að þrepa hann niður og hann hefði verið lagður á að fullu öll árin, voru það ekki 2005, 2006 og 2007 og á yfirstandandi ári, eigum við þá ekki að slá á að við gætum átt eitthvað á milli 30 og 50 milljarða þar í handraðanum, sem sagt nokkurn veginn niðurskurðinn sem hér er verið að bæta í? Það er kannski ekki fjarri lagi.

Hvaða ár voru þetta? Jú, þetta voru ofurlaunaárin, þetta voru veltiárin þegar Íslendingar eignuðust launahæsta mann Norðurlanda. Hefði verið eitthvað að því að hann hefði borgað örfá prósent í viðbót af þessum ofurlaunum sínum? Leita engar efasemdir á sjálfstæðismenn um að þetta hefði verið réttmæt aðgerð og skynsamleg, að bæta aðeins í þensluna og verðbólguna á árunum 2005, 2006 og 2007 með því að lækka sérstaklega skatt á tekjuhæsta fólki landsins? Eða er það trúarsetningin og kenniboðið sem ríkir ofar veruleikanum?

Ég átta mig ekki á því, herra forseti, hvernig á að framkvæma þessi fjárlög. Ég held að þetta sé meira og minna allt saman sýndarmennska. Ég held að engum manni detti í hug að hægt sé að reka Landspítalann með því að skera af honum hátt í 2 milljarða kr. frá því sem hann þó hefur eða hvernig sem á að útleggja það.

Hvernig ætla menn að reka öldrunarstofnanir sem fyrir eru margar með mikinn skuldahala sem að minnstu fæst bættur, eins og kom fram í framsögu eins meirihlutamannanna í fjárlaganefnd? Hvernig ætla menn að reka heilbrigðisstofnanir eins og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og Heilbrigðisstofnun Austurlands sem eru í bullandi vandræðum fyrir, dragandi þungan skuldahala og eigandi engan veginn fyrir rekstri í dag með verulegum niðurskurði á framlögum til þeirra? Það er ekki hægt, stærstur hlutinn er launakostnaður. Ég held að menn hljóti að verða að horfast í augu við að það er ekki hægt að gera þetta nema segja strax upp, bara 1. janúar, drjúgum hluta starfsmanna þessara stofnana. Það sparar ekki útgjöld fyrr en líður á árið vegna þess að menn eiga sinn uppsagnarfrest og það setur menn í enn meiri vanda nema það sé hitt, að menn séu að setja hér eitthvað á blað sem ekki er einu sinni ætlunin að reyna að standa við. Eitthvað hlýtur það að vera. Er ekki best að tala bara um þetta eins og þetta er og hvort er það, hv. þm. Gunnar Svavarsson? Hvort er ætlunin að framkvæma þetta og standa við það og segja þá upp fólki í stórum stíl, því að öðruvísi sé ég ekki hvernig á að ná þessum sparnaði fram, eða hvaða önnur brögð telja stjórnarliðar sig kunna í þessum efnum?

Það var athyglisvert að heyra þá fara yfir hallatölurnar, hv. formann og varaformann fjárlaganefndar. Annar sagði í morgun að hallinn yrði á bilinu 165–170 milljarðar, ég held ég að ég hafi örugglega tekið rétt eftir því að svona orðaði formaður fjárlaganefndar þetta. Um það bil tveim tímum síðar kom varaformaður fjárlaganefndar og talaði þá um 160–170 milljarða og er svo sem bitamunur en ekki fjár. En þetta segir okkur í öllu falli að þetta eru ekki alveg nákvæmnisvísindi enn þá hjá þeim fóstbræðrum þegar það hleypur á svona 5–10 milljörðum hver líklegur halli geti orðið út úr þessu.

Þá spyr ég á móti: Af hverju er talan 170 milljarðar svona heilög? Menn segja að annars hefði stefnt í 215 milljarða halla. Hvar eru útreikningarnir sem eiga að sýna okkur að það væri halli sem alls ekki gengi upp en hins vegar séu 160, 165, 170 milljarðar í lagi? Eru þeir útreikningar til? (Gripið fram í.) Það er það sem þið ætlið ykkur. (Gripið fram í.) Þið eruð að segja það. Þið væruð ekki að leggja þetta til annars. (Gripið fram í.) Ætlið þið ekki að bera ábyrgð á því sem þið leggið til? Ég gef mér það að þetta sé vegna þess að þið teljið að þetta gangi, þið væruð náttúrlega ekki að leggja fram fjárlagafrumvarp sem þið teljið að gangi ekki eða er það? Það er ekki venjan að menn flytji þingmál sem þeir eru á móti eða breytingartillögur.

Veruleikinn er auðvitað sá, eins og ég fór yfir í mínu máli, að þetta er ekkert í okkar höndum. Ramminn er settur í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og menn eru að skrúfa þetta inn í hann. Með öðrum orðum, við erum ekki að reyna að meta hvernig við getum gert þetta sjálf, hvað við eigum að standa vörð um, hvort réttlætanlegt sé að fara inn í þennan tilfinnanlega niðurskurð, t.d. í heilbrigðisstofnunum þar sem er ekki mikill afgangur, þar sem gengur ekki allt of vel að láta hlutina ganga dag frá degi. Hvernig halda menn að Landspítalinn eigi að glíma við þetta með því gríðarlega vinnuálagi sem það er orðið á undirmönnuðum deildum sem hafa verið fjársveltar alveg hreint linnulaust undanfarin ár? Þetta er ekki hægt nema með þvílíkum sársauka að menn eiga mikið í vændum í þeim efnum.

Það væri líka áhugavert að fara yfir smáu liðina, af því að margur sársaukinn á eftir að birtast mönnum þar. Það eru ekki alltaf stórar tölur á ferð, það eru kannski höggnar af 4 eða 6 milljónir sem eru undirstaða tiltekinnar mikilvægrar starfsemi hjá velferðarsamtökum eða samtökum eins og Iðnnemasambandinu eða einhverjum slíkum aðilum. Menn eru að taka ákvarðanir um að slátra slíku í stórum stíl. Ætla menn svo að bera það fyrir þjóðina að þetta séu allt saman aukaatriði, það sem skipti máli sé að koma okkur inn í Evrópusambandið árið 2015 eða 2012 eða hvenær það verður og kannski að fara í einhver stólaskipti hérna um áramótin eða fara í einhverjar lýtaaðgerðir á ríkisstjórninni? (Gripið fram í.)

Eigum við ekki að tala um það sem hér er undir sem er íslenskt samfélag, verkefnið er hér og nú í höndunum á okkur og spurningin um það hvernig við ætlum að halda utan um þetta samfélag okkar næstu mánuðina og missirin. Það er það sem á að vera til umræðu, það skiptir máli en ekki hégóminn.

Því miður verð ég að segja alveg eins og er, herra forseti, að þessi málatilbúnaður (Forseti hringir.) vekur mér litla bjartsýni um að menn séu að rata á rétt spor, verandi mér þó vel meðvitaður um að erfiðleikarnir eru miklir.



[16:40]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðu hans. Hann fjallaði um þær breytingartillögur sem lagðar eru fram við fjárlagafrumvarpið auk þess að fjalla ítarlega um skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og hv. þingmaður vildi nefna það.

Mjög margt kom fram í ræðu hans sem rétt er að fylgja eftir. Ég sagði það í frábærri ræðu minni í morgun að með þessum aðgerðum og fleirum sem kynntar eru hér mun halli ríkissjóðs verða 165–170 milljarðar kr. en hefði að óbreyttu getað orðið u.þ.b. 215 milljarðar. Á sama hátt vil ég ítreka það eins og ég hef jafnan gert í andsvörum í dag að umræddar breytingartillögur sem bárust fjárlaganefnd frá ríkisstjórninni í síðustu viku og eru bornar hér fram, eru á ábyrgð stjórnarmeirihlutans og við víkjum okkur ekkert undan þeirri ábyrgð.

Það hefur komið fram í umræðunni að lagt er upp með það að ekki þurfi að segja upp fólki í stórum stíl og nú má vel vera að einhvers staðar verði að hagræða. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann, af því að ég hef spurt þingmenn stjórnarandstöðunnar að því í dag: Ef við horfum fram á að það þurfi að vera hagræðing og aðhald í ríkisrekstrinum, hvar vill hann þá bera niður? Menn hafa vikið að stuðningi við NATO, Varnarmálastofnun, Sjúkratryggingastofnun og Fiskistofu og því óska ég eftir að hv. þingmaður bæti (Forseti hringir.) við þennan lista sem ég hef safnað saman frá stjórnarandstöðunni.



[16:43]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gamalkunnug aðferð þegar menn eru í nokkurri nauðvörn í málflutningi sínum að snúa því upp á andstæðinginn og krefjast þess að hann komi með lausnirnar. Það er í sjálfu sér rétt í þessu tilliti, ekki hefur stjórnarliðið þær. Við teljum vissulega að hægt sé að draga meira úr útgjöldum á ákveðnum sviðum. Ef hv. þingmaður les t.d. nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar eru uppástungur um það, ekki endilega til að spara allt það fé og draga úr halla á ríkissjóði heldur t.d. til að hlífa þá frekar þeim ömurlega niðurskurði á framlögum til mannúðaraðstoðar, hjálparstarfs og þróunarsamvinnu sem er uppistaðan í sparnaðartillögum utanríkisráðuneytisins. Þar er satt best að segja farið ákaflega mjúkum höndum um „establismentið“ sjálft þegar betur er að gáð og ekki gengið langt í því að skera niður sendiráð, hvað þá að hrófla við óskabarninu Varnarmálastofnun, sem á að halda drýgstum hluta sinna fjárveitinga, sem er algjör óþarfi og auðvitað á að leggja hana niður. Ef það er rétt hjá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og Flugstoðum að þær stofnanir geti annast þá starfsemi fyrir 400–450 millj. kr. minna fé á auðvitað að skoða það þó að við teljum reyndar að hægt sé að ná þessum sparnaði öllum.

Segjum nú að við skoðuðum þann kost að afla tekna upp á 3–4,5 milljarða kr. Mér reiknast svo til að með tiltölulega vægri útgáfu af hátekjuskatti og með því að lækka tekjur af honum um kannski 20% frá því sem þær hefðu gefið á þessu ári gæti hann samt gefið a.m.k. 3 milljarða kr. Og segjum að við sættum okkur við 5–7 milljarða halla í viðbót. Eða hver eru rökin, hvar liggja nákvæmnisvísindin í því að hann megi að vísu róla sér á milli 160 og 170 milljarða en alls ekki vera t.d. 5 milljarðar í viðbót? Ég held að ég viti svarið, ég er búinn að fara yfir það. Segjum að við næðum þannig og með sparnaði, sem við skulum svo sannarlega hjálpa meiri hlutanum til við að koma með, 2, 3 milljörðum í viðbót, þá gætum (Forseti hringir.) við verið að tala um svigrúm upp á kannski 10, 12 milljarða í viðbót og að sama skapi minni niðurskurð í velferðarmálum.



[16:45]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vék að nefndaráliti meiri hlutans. Það hefur eiginlega verið með óbreyttu sniði undanfarin ár jafnvel áratugi. Inni í því áliti er álit frá minni hluta utanríkismálanefndar.

Úr því að það var óbeint gert lítið úr áliti meiri hluta fjárlaganefndar og sagt að það væri rúm blaðsíða er álitið frá minni hluta utanríkismálanefndar sex línur. Ég ætla nú að lesa það vegna þess að vísað er til þess. Hér segir, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn telur hins vegar að spara mætti mun meiri fjármuni með því að leggja Varnarmálastofnun niður.“

Það hafði áður komið fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hætta ætti öllum fjárútlátum til hernaðartengdra verkefna, þ.e. til NATO, það hafði áður komið fram. Þá fjármuni ætti að nota í að halda því hlutfalli sem rennur til þróunarsamvinnu og mannúðar- og hjálparstarfs að lágmarki hinu sama miðað við þjóðarframleiðslu á þessu ári. Álitið er ekki lengra.

Líkt og fram kom í morgun hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni segir þarna að taka eigi niður þessa tvo þætti og flytja þá í annan rekstur. Einnig hefur komið fram að hv. þm. Steingrímur J. vill taka upp hátekjuskatt sem mundi gefa 3–4 milljarða. Þegar hátekjuskatturinn var hér — ég er í sjálfu sér sé ekki á móti því að menn séu með einhver skattþrep og útfærslu á slíku — gaf hann um einn og hálfan milljarð og lagðist mikið á millitekjufólkið. Aukningin á að vera þetta mikil en að vísu hefur raunvirðið aukist á milli ára. Þá væri fróðlegt að fá að vita hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér að hátekjuskatturinn verði útfærður núna (Forseti hringir.) þannig að hann nái 3–4 milljarða kr. tekjuauka.



[16:47]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er von að meiri hlutinn sem tók hér við niðurskurðartillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gegnum ríkisstjórnina síðastliðinn fimmtudag og hefur nú ekki mikið haft fram að færa sjálfur. Spyrjið þá aðra um tillögur og það er sjálfsagt mál að reyna að verða við því að koma með þær.

Varðandi hátekjuskattinn er alveg ljóst að hefði hann t.d. verið álagður eins og hann var á sínum tíma hefði hann gefið umtalsverða fjármuni á árunum 2006 og 2007, sennilega hæst á árinu 2007. Ég tala nú ekki um ef tekjumörkin hefðu verið jafnlág og ef þau hefðu verið látin fylgja verðlagi upp á við hefðu það engu að síður verið fleiri milljarðar á hverju ári. Hann var farinn að gefa 3–4 milljarða, ef ég man rétt, þegar best lét á sínum tíma þegar hann var enn lagður á í fullu fjöri.

Það má vel vera að hv. þingmanni verði að ósk sinni um að ég sjái til þess að hann fái í hendur útfærðar hugmyndir um hvernig megi gera þetta. Ég bið hv. þingmann að hafa örlitla biðlund. Þá verður honum kannski að þeirri ósk sinni og vonandi styður hann þá það að við drögum úr hinum sársaukafulla niðurskurði þar sem við teljum hann vera hvað tilfinnanlegastan, kannski með því að láta það fólk sem þó hefur enn og kemur til með að hafa á næsta ári allgóðar tekjur leggja aðeins meira af mörkum þannig að við reynum að dreifa byrðunum á sanngjarnan hátt. Það er stundum kallað félagshyggja eða jafnaðarstefna og ætti ekki að vera svo erfitt fyrir hv. þingmann að átta sig á því. (Gripið fram í.)

Ég veit ekki hvað mönnum verður ágengt í þessum efnum ef skyndilega skyldu verða þau tíðindi að menn vildu allt í einu fara að vinna að alvörufjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009. Ég veit ekki hvað mönnum verður ágengt í þeim efnum á einhverjum örfáum sólarhringum. Ég beini spurningu til meiri hlutans: Vilja menn hugleiða að fara í þetta eins og menn og taka sér kannski eins og mánuð í að semja (Forseti hringir.) alvörufjárlagafrumvarp en afgreiða fjárheimildir fyrir áramótin þannig að lífið geti haldið sinn vanagang og hægt verði að borga út laun 1. janúar? Þá er okkur ekkert að vanbúnaði að halda slíkri vinnu (Forseti hringir.) áfram inn í janúar.



[16:49]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mjög víða um í ræðu sinni áðan. Ég tel ástæðu til að staldra örlítið við þann þátt málsins þar sem hann segir og fullyrðir úr ræðustóli að það fjárlagafrumvarp sem liggur fyrir sé samið af starfsmönnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Það er langur vegur frá að svo sé. Þetta er samstarfsáætlun sem er í gildi milli íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um með hvaða hætti á að taka og vinna á þeim vanda sem við blasir. Þar hafa menn sett sér ákveðin markmið en það er okkar Íslendinga að útfæra með hvaða hætti við ætlum að nálgast verkefnið.

Ég sá ekki annað en að í áliti minni hluta fjárlaganefndar, sem er ágætt á margan hátt, kæmi fram nokkur nálgun á fjármögnun á þörfum íslenska ríkisins metin á 1.700 milljónir á næsta ári. Það var enginn útreikningur annars staðar frá sem lá til grundvallar þeirri tölu. Þá útreikninga unnu menn hér sjálfir og gera sér grein fyrir þeirri stöðu sem við stöndum frammi fyrir.

Ég kalla eftir því í andsvari mínu við ræðu hv. þingmanns að hann fylgi því eftir sem hann nefndi áðan varðandi mögulegar leiðir til að draga úr þeim sársauka sem fyrirsjáanlegur er við að laga íslenskt hagkerfi að þeim veruleika sem við blasir og staldra aðeins við þessar hugmyndir um hátekjuskattinn sem ég hef lýst mig alveg fylgjandi að skoða. Hann talaði um að það væri ágætt að horfa til þess að fólk sem hefði allgóðar tekjur á næsta ári legði meira af mörkum en aðrir. Ég kalla eftir hvaða hugmyndir hann hefur um það sem hann kallar allgóðar tekjur hjá fólki sem á þá að bera þennan svokallaða hátekjuskatt.



[16:52]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi nú ekki sagt kannski beinlínis að starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefðu samið þetta frumvarp, enda væri það ekki rétt. En ég fór yfir það og vitnaði í skjöl því til sönnunar að ramminn er þaðan. Og hann er meira en viljayfirlýsingin ein, sú sem þeir rita undir, vinirnir Davíð Oddsson og hæstv. fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen, því að þar er ekki fyllt út í eyður. Það er ekki fyrr en maður fer inn í skýrslu starfsmanna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og les þar tiltekna hluti sem maður fær botn í það t.d. hvaðan ákvörðunin er ættuð um að draga úr slakanum á fjárlagahallanum strax á árinu 2009. Það kemur ekki fram fyrr en á tilteknum stað í starfsmannaskýrslunni. Þar með segi ég að það er þar sem ramminn er ákveðinn og inn í hann eru menn svo að reyna að þröngva þessum niðurskurði.

Ég hefði haft gaman af því líka að heyra hv. þingmann að tala aðeins um árið 2010 en ég fór hér dálítið yfir að þá yrði kannski aðalhöggið.

Í þriðja lagi í sambandi við leiðir til að draga úr hinum sársaukafulla niðurskurði eða reyna að hafa svigrúm til að minnka sársaukann þar sem hann er tilfinnanlegastur í þessum efnum tel ég að hugleiða mætti hátekjuskatt og jafnvel frekari tekjuöflun. Niðurskurður þar sem enn er hægt að taka út hluti til að spara peninga og meiri halli bjóða upp á blandaða leið sem samtals gæti þýtt að mínu mati svigrúm upp á kannski 10–12 milljarða kr. sem mundu auka verulega getu okkar til að koma til móts við þá liði í þessum tillögum sem verst eru leiknir.

Hvað eru allgóð laun? Ég tel laun ofan við 500–700 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingi og milljón til 1.400 þús. kr. hjá hjónum verða (Forseti hringir.) það há laun að vel megi skoða þar eitthvert álag upp á einhverjar prósentur á þann hluta launanna sem eru þar fyrir ofan, (Forseti hringir.) þannig virkar jú hátekjuskatturinn.



[16:54]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það virðist svo miðað við umræður í dag að tekist hafi mjög góð tengsl milli þeirra sem eru í fjárlaganefnd því að þeir keppast við að hrósa ræðum hvers annars og tala um að þarna hafi verið flutt hver tímamótaræðan á fætur annarri. (Gripið fram í: Við biðum eftir þessu.)

Að sjálfsögðu verður að taka undir það að margar góðar ræður hafa verið haldnar, kannski ekki endilega af þeim sem sitja í fjárlaganefnd en samt skal ekkert dregið úr því að vel hafi til tekist hjá mörgum. Meðal annars fylgdist ég af athygli með ræðu hv. þm. og varaformanns fjárlaganefndar, hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, en ég mun víkja að henni á eftir.

En ég verð að taka undir það sem kom fram í umræðum í morgun varðandi frumvarpið sem hér um ræðir áður en það var tekið á dagskrá. Það var í raun byrjað á nokkuð öfugum enda vegna þess að frumvarpið skorti allar forsendur til þess að hægt væri að leggja það fram í því formi sem það er. Það vantar svo gríðarlega mikið af upplýsingum. Þar er í raun ekki við fjárlaganefnd að sakast heldur við ríkisstjórnina sem dregur og hefur dregið að koma með nauðsynlegar upplýsingar til þess að fjárlagavinnan gæti gengið með eðlilegum hætti eins og greinilega kemur fram, að hluta til með vísun til þess sem kemur fram í nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar en þó mun skýrar í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar.

En það er ljóst að við hrun íslenska efnahagskerfisins sem var í raun staðfest með neyðarlögunum sem samþykkt voru á Alþingi 6. október síðastliðinn, þ.e. lög um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, að grípa þyrfti til víðtækra aðgerða í efnahagsmálum og stjórnmálum. Það var ljóst þá þegar og jafnvel nokkrum dögum áður.

Strax í kjölfar þess bauð stjórnarandstaðan fram aðstoð sína, alveg skilyrðislausa aðstoð, til þess að málum yrði komið sem best fyrir fljótt varðandi íslenskan þjóðarhag. Stjórnarandstaðan greiddi fyrir afgreiðslu með öllum hætti sem hugsast gat og bauð upp á að mynduð yrði þjóðstjórn við ríkjandi aðstæður.

Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin upplýsingum og öðrum hlutum hjá sér og kaus að hafa það með sínum hætti án þess að nýta sér það góða boð sem kom frá stjórnarandstöðunni um að veita virka aðstoð við að stuðla að endurreisnarstarfi í þjóðfélaginu.

Þegar efnahagshrunið reið yfir datt mér ekki annað í hug en að gripið yrði til sérstakra og víðtækra ráðstafana af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna þess sem allir gátu séð að taka þyrfti sérstaklega á í ríkisfjármálunum. Það var ljóst þá þegar í lok september og var alla vega staðfest með bankahruninu í byrjun október að efnahagshrunið mundi þýða mjög mikla tekjulækkun ríkissjóðs. Það var ljóst að mjög gildir gjaldendur voru farnir og að gjaldendum almennt mundi fækka. Það var ljóst að það mundi verða atvinnuleysi, því miður, og það var ljóst að tekjur mundu dragast verulega saman hjá stórum hópi fólks.

Í kjölfar þessa var jafnframt ljóst að neysla mundi dragast saman sem ylli því að tekjur af neyslusköttum minnkuðu sem því næmi. Það bar því brýna nauðsyn til að sá aðili sem var með mestu ölvunareinkennin og teygað hafði úr öllum bikurum óráðsíunnar í botn í efnahagsuppsveiflunni svokölluðu, þyrfti að bregðast sérstaklega við. Þar var um tvennt að ræða: Að halda áfram svo sem verið hafði og leitast við að spara eitthvað af handahófi eins og þær tillögur sem koma frá meiri hluta fjárlaganefndar bera greinilega merki um. En ég tek viljann fyrir verkið því að það er alveg ljóst að þeir sem standa þar að eru að gera sitt besta og skal ekkert dregið úr því. Það er samt sem áður ljóst miðað við hvernig ríkisstjórnin stendur að málum og hvernig hún skammtar upplýsingar til fjárlaganefndar að verið er að spara og reyna að stoppa í göt af handahófi af því það er ekki tími til þess að móta nægilega markvissa stefnu.

Ég gat ekki annað séð eða annað heyrt — (Iðnrh.: Þú ert alltaf …) já, þú saknar þess þegar ég er ekki í ræðustól, hæstv. iðnaðarráðherra. Ég gat ekki annað annað heyrt af ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar en að hann væri mér í raun sammála þegar hann fjallaði um þessi atriði.

Leita þurfti víðtækrar sáttar um það milli stjórnmálaflokkanna að móta varanlega leið til sparnaðar í ríkisútgjöldum. Fyrri leiðin var valin, að leitast við að draga úr eyðslu ríkisins að nokkru, en því fór fjarri að nóg væri að gert og má öllum vera ljóst sem sjá það frumvarp sem fjárlaganefnd leggur hér fram. (Iðnrh.: Þú ert að læra þetta.)

Nú skal ekki gert lítið og ítrekað skal ég taka fram að ég geri ekki lítið úr vinnu fjárlaganefndar við að reyna að lagfæra handónýtt fjárlagafrumvarp sem nefndin hafði í höndunum. Miðað við aðstæður má segja að nefndin hafi í sjálfu sér unnið ágætt verk miðað við þær gefnu forsendur og upplýsingar sem nefndin hefur og hafði úr að moða við vinnu sína. Það liggur hins vegar fyrir og hefur verið staðfest í umræðum hér, og þar vísa ég einkum til þess sem þrír hv. þingmenn, þeir Guðjón Arnar Kristjánsson, Jón Bjarnason og Magnús Stefánsson, hafa sagt við þessar umræður en þar kom m.a. fram að forsendur þessa fjárlagafrumvarps sem við erum nú að ræða eru vægast sagt mjög vafasamar. Tölulegar forsendur vantar, eða eins og segir í áliti minni hluta fjárlaganefndar, sem þrír ofangreindir hv. þingmenn standa að, með leyfi forseta:

„Af þeim svörum sem minni hlutinn fékk við spurningum sínum má ráða að ekki liggja fyrir nauðsynlegar forsendur fyrir frumvarpinu eins og það er nú. Ekki er búið að endurmeta þjóðhagsspá sem er einn mikilvægasti grunnur fjárlagagerðarinnar. Ekki liggja fyrir greiðsluáætlanir, engin rekstraráætlun, engin stefnumótun til framtíðar, ekki er búið að meta hvert hagkvæmasta skuldahlutfall ríkissjóðs er, lánakjör liggja ekki fyrir, engin áætlun um mögulega endurfjármögnun lána eða kjör vegna þess. Ekki liggur fyrir áætlun um það hvernig þjóðarbúið vinni sig út úr stöðunni á tveimur til þremur árum, eins og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn kveður á um. Í rauninni skilar ríkisstjórnin auðu varðandi margar grunnforsendur frumvarpsins.“

Þá spyr maður: Hvað erum við eiginlega að fjalla um þegar fyrir liggur að nauðsynlegar forsendur fyrir frumvarpinu eins og það liggur nú fyrir eru ekki fyrir hendi? Ekki er búið að endurmeta þjóðhagsspá, greiðsluáætlanir liggja ekki fyrir og engin rekstraráætlun og stefnumótun til framtíðar. Um hvað erum við þá að fjalla? Hvers konar frumvarp er þetta? Er ekki bara um að ræða ákveðið form sem er sett fram til að uppfylla ákveðna lagaskyldu um það að afgreiða fjárlagafrumvörp á tilsettum tíma án þess að innihaldið sé með þeim hætti sem það á að vera, að gefa raunsanna mynd af því með hvaða hætti tekjur og gjöld eiga að þróast og verða á komandi ári, þ.e. árinu 2009? Mér virðist, virðulegi forseti, sem þannig sé staðið að þessum málum, það sé í raun með þeim hætti að fjárlagafrumvarpið byggi ekki einu sinni á sandi.

Hitt er ljóst að fjárlögin eru afgreidd með miklum halla, en þá liggur fyrir að hallinn verður enn meiri þegar upp er staðið ef frumvarpið verður afgreitt frá Alþingi í þeim búningi sem það liggur nú fyrir, m.a. vegna þess að ýmis gjöld eru, eftir því sem ég best get séð, verulega vanáætluð.

Eins og frumvarpið lítur nú út er miðað við að fjárlögin verði afgreidd með um 100 milljarða halla. Fjárlagahallinn heitir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, svo vísað sé í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 395,8 milljarðar kr. sem er 54,6 milljarða kr. lækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður -93,1 milljarður kr. sem er hækkun um -36,2 milljarða kr.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það þýðir að fjárlagahallinn er áætlaður samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir upp á tæpar 100 milljarða, 93,1 milljarð. Fjárlagahalli er alvarlegt mál og á ekki að eiga sér stað nema við mjög svo sérstakar aðstæður, styrjaldir, náttúruhamfarir. Ef til vill má segja að þeim hremmingum sem við erum nú lent í megi jafna til hamfara og það geti réttlætt halla á fjárlögum. En skoðum það örlítið nánar og nú ætla ég að biðja hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að hlusta en standa ekki í gaspri við samflokksmenn sína. (KÞJ: Ég geri það ekki.) Hann sagði í ræðu sinni hér fyrr í dag, eftir því sem ég gat best greint, að ekki væri gengið nógu langt til að taka á ríkissjóðshallanum. Ég er honum algjörlega sammála, en ég spyr: Hvað segir hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar — (Iðnrh.: Fjármálaráðherra …) Já, á að stokka þannig upp og hvað verður þá um hæstv. iðnaðarráðherra? (Iðnrh.: Eins og allt … sem í heiminum er, … vindi.) Já, það hlaut að koma að því. En ég spyr hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, varaformann fjárlaganefndar: Finnst honum boðlegt að bjóða upp á svona plagg eins og meiri hluti fjárlaganefndar gerir?

Honum finnst það greinilega því að annars stæði hann ekki að meirihlutaálitinu, stæði ekki að því að bera upp slíka tillögu á Alþingi. En ég reikna með að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hafi þurft að ná samkomulagi í fjárlaganefnd og æskilegt væri að heyra frá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, varaformanni fjárlaganefndar, hvaða útgjöld það eru sem hv. þingmaður telur að skera hefði mátt niður miðað við það orðfæri og orðalag sem hann hafði í ræðu sinni fyrr í dag.

Þegar fjárlög eru afgreidd með halla er um seðlaprentun að ræða, seðlaprentun sem engin innstæða er fyrir. Útgjöldum nútímans er velt yfir á framtíðina, núkynslóðin tekur lán hjá framtíðinni, hjá börnum og barnabörnum. Er það afsakanlegt, eru þær aðstæður uppi í þjóðfélaginu að ríkisstjórnin skuli gefast upp við að ná jöfnuði í ríkisútgjöldin en ákveði að taka lán hjá framtíðinni upp á 100 milljarða svo sem þetta frumvarp til fjárlaga hljóðar upp á?

Prentvélar til að prenta seðla fyrir verðmætum sem ekki eru til, hvaða afleiðingar hefur það? Dregur það úr verðbólgu? Er það líklegt til að við náum sem fyrst tökum á þeim vandamálum sem einkenna nú íslenska þjóðfélagið? Nei, því miður er staðreyndin sú að hallarekstur ríkissjóðs kallar á aukin lán til ríkisins og eykur um leið þrýsting á lánakerfið. Hallarekstur ríkisins þýðir því að verð á peningum fyrir atvinnureksturinn og fólkið í landinu verður hærra en annars mundi vera. Uppgjöf fjárlaganefndar fyrir því verkefni að afgreiða hallalaus fjárlög kallar á verri lánakjör fyrir fólk og fyrirtæki í landinu. Aukin seðlaprentun vegna hallareksturs ríkissjóðs eykur verðbólguþrýsting í þjóðfélaginu. Verðbólga er nú um 18% og brýnt hefði verið að reyna með öllum ráðum að draga úr henni.

Þetta fjárlagafrumvarp stefnir þó í allt aðra átt. Aðgerðir í ríkisfjármálum, sem boðaðar eru, ýta undir þenslu en varða ekki veginn til farsællar efnahagsstjórnar. Hallarekstur ríkissjóðs býr til fölsk verðmæti, ekkert ósvipað því sem gerðist á íslenska hlutabréfamarkaðnum þegar hann stóð sem hæst. Virði hlutabréfamarkaðarins hér hefur rýrnað um 3.000 milljarða á tæpum tveimur árum. Þar voru skýr dæmi um verðmæti sem aldrei voru til, voru reist á sandi eins og þetta fjárlagafrumvarp en þar voru þó verðmæti sem voru forsenda lána og eyðslu í þjóðfélaginu. Hér er það ríkið sem stendur að því að búa til verðmæti sem engin innstæða er fyrir. Stærsti munurinn á slíkri bólu og bólu verðbréfamarkaðarins er að bóla verðbréfamarkaðarins þýðir tap einstaklinga og fyrirtækja þegar bólan hjaðnar. Hallarekstur ríkissjóðs leiðir hins vegar til aukinnar verðbólgu, aukinnar sóknar í lánsfé og í raun er slíkt dæmi um óábyrga efnahagsstjórn.

Hallarekstur ríkissjóðs eykur vandann en leysir hann ekki.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, segir m.a. undir heitinu Hvetjandi skattaumhverfi:

„Stefnt skal að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar.“ — Hver er síðan raunin? Þvert ofan í fyrirheit ríkisstjórnarinnar á að hækka skatta en ekki lækka. Smjörþefinn af þessu fengum við með hækkunum ríkisstjórnarinnar á brennivíni og olíu sem Alþingi samþykkti með hraði, því miður, á fimmtudaginn var. Aðrar skattahækkanir eru boðaðar þannig að þvert ofan í boðaða stefnu ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta á að hækka þá.

Þetta þýðir að hluti hins opinbera eykst og verður sennilega yfir helmingur af þjóðarútgjöldum á næsta ári. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá afrekað það á valdatíma sínum að eiga Evrópumet í hækkun ríkisútgjalda miðað við þjóðarframleiðslu. Og það er töluvert að eiga, að hafa slíkt met í farteskinu fyrir flokk sem vill stefna að samdrætti í ríkisútgjöldum.

En Sjálfstæðisflokkurinn lagði af stað undir allt öðrum formerkjum. Hann lagði af stað undir þeim formerkjum, og fékk stuðning kjósenda til þess að fara með völd til að lækka ríkisútgjöldin, til að draga úr bákninu. Báknið burt var lagt til grundvallar í upphafi vegferðarinnar, en í stað þess að gera það var báknið aukið og það sem verið er að boða með þessu fjárlagafrumvarpi er að enn á að auka báknið. Það á enn að setja fleiri bagga á hvern skattgreiðanda í landinu, það er það sem verið er að boða af hálfu ríkisstjórnarinnar og handverksmanna hennar í meiri hluta fjárlaganefndar.

Ég spyr vegna þessarar hækkunar: Skyldu menn ekki vera stoltir af því afreki sínu í Valhöll að eiga Evrópumet í hækkun ríkisútgjalda? Og má ekki Samfylkingin brosa út í bæði eins og köttur við rjómaskál yfir að hafa svona viljuga meðreiðarsveina til að koma á Sovét-Íslandi, óskalandinu, eða ýta því a.m.k. nokkuð nær?

Það virðist stefna í að hlutur ríkisins í útgjöldum og tekjum verði yfir 50% af þjóðarframleiðslu á árinu 2009.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, svo að ég haldi nú áfram að vitna í það merka plagg, segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ýtrasta aðhalds sé gætt í rekstri hins opinbera þannig að fjármunir skattgreiðenda séu nýttir sem best.“ — Ýtrasta aðhald. Þá spyr maður: Ber þetta fjárlagafrumvarp merki um að ýtrasta aðhalds sé gætt? Svarið er nei. Það eru margvíslegar sparnaðarleiðir sem hefði mátt fara og sem hefði átt að grípa til ef viljinn hefði verið fyrir hendi. Það hefði átt að gera það og í raun hefði það líka verið í samræmi við það sem segir í því merka plaggi sem undirritað var af Davíð Oddssyni og Árna M. Mathiesen og sett fram og samþykkt sem tillaga til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem kveðið er á um það með hvaða hætti Íslendingar áforma að láta sjálfvirka sveiflujöfnun í ríkisfjármálum virka til fulls á árinu 2009, eins og segir í hinum merkilega 13. lið þess kafla. Þar segir m.a.:

„Opinber umsvif verða háð ársfjórðungslegu þaki á hreinar lántökur og samkomulag um fjárlög ársins 2009 er lykilskilyrði fyrir lokum á fyrstu endurskoðun á stuðningsfjármögnuninni.“

Þá veltir maður fyrir sér hvað átt sé við með þessu orðalagi. Hvað þýðir þetta?

Síðan segir í 14. lið í fylgiskjalinu með þessari merku þingsályktunartillögu um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum: „Við ætlum okkur að hrinda í framkvæmd metnaðarfullri áætlun um ríkisfjármálin.“ — Þetta virðist vera fyrsta skrefið í hinni metnaðarfullu áætlun um ríkisfjármálin sem handverksmenn ríkisstjórnarinnar í meiri hluta fjárlaganefndar bera hér á borð fyrir þjóðina. Og hver er þessi metnaðarfulla áætlun um ríkisfjármálin? Jú, hér er boðið upp á það að frumjöfnuður verði orðinn jákvæður á árinu 2011, þ.e. ekki við fjárlagaafgreiðslu næsta árs heldur þarnæsta árs. Með hvaða hætti ætti það að vera miðað við það sem hér liggur fyrir og þau fyrirheit sem eru gefin — það er varla hægt að kalla þetta fyrirheit, þetta er miklu frekar stefnumörkun sem er mótuð í þessu. Ég get ekki séð að þar sé farið að í samræmi við það sem talað er um í þessum punktum sem formaður bankastjórnar Seðlabankans, Davíð Oddsson, skrifar undir og fjármálaráðherra. Mér sýnist sem þar sé töluvert annað upp á teningnum.

Hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, sem hefur af stakri prýði reynt að leysa erfitt handverk — ég skal alveg taka undir það og tel að hann sé ekki öfundsverður af því hlutskipti sínu að starfa fyrir jafnvonda og úrræðalausa ríkisstjórn og raun ber vitni, en reynir að gera sitt besta til þess. Í vanda sínum kallar hann hér ítrekað eftir því hvað stjórnarandstaðan hefði fram að færa varðandi sparnaðarleiðir sem ríkisstjórnarflokkarnir koma greinilega ekki auga á. Ég hef fylgst með því í umræðum hér í dag að hv. formaður fjárlaganefndar, Gunnar Svavarsson, hefur ítrekað kallað eftir því og jafnan haft minnisbókina sína á lofti og farið í andsvör við þá fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem hér hafa talað og innt þá grannt eftir því hvað þeir hefðu fyrir að leggja varðandi sparnaðartillögur.

Það er alltaf spurningin um hvar upphafið sé og hvar við byrjum í málinu en ég kem að því í lok ræðu minnar. Fyrsta skrefið sem hefði þurft að skoða er heildarendurskoðun á launakerfi ríkisins, breyting á launum. Hvaða launum þá helst? Hæstu launum opinberra embættismanna, hvort heldur það eru ráðherrar, þingmenn, forstöðumenn stofnana eða banka o.s.frv. Endurskoðun á eftirlaunum og eftirlaunaskuldbindingum og það að koma æðstu embættismönnum og alþingismönnum í sömu kjör hvað varðar eftirlaun og gilda um almenning í landinu, aðra opinbera starfsmenn. Þar var spurningin um að leggja niður stofnanir með tilliti til aðstæðna vegna þess að allt aðrar aðstæður eru uppi á árinu 2009 en var við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Það verður að taka tillit til þess. Það þarf að fara ofan í saumana á þyngstu útgjaldaliðunum og það verður að segja þá sögu eins og hún er, þá er ég að tala um menntamál og félagsmál, og gera þær breytingar sem nauðsynlegar eru í þeim efnum. Þar talar ríkisstjórnin algjöra tæpitungu.

Þjóð sem veður ekki í peningum upp fyrir mitti þarf að hugsa með öðrum hætti en þjóð sem heldur að hún sé næstríkasta þjóð í heimi, eins og fylgismenn ríkisstjórnarflokkanna héldu að við værum frá upphafi kjörtímabilsins þar til í byrjun október. Á tímum þrenginga verður að skera niður allan óþarfa. Af hverju ekki að leggja Varnarmálastofnun niður? Hvar er sú ógn sem um er að ræða, hvar er váin? Til hvers erum við með Varnarmálastofnun sem kostar jafnmikið og raun ber vitni? Eigum við að hafa loftrýmiseftirlit? Til hvers? Hvaðan stafar okkur hætta í loftrými landsins? Ég veit það ekki og ég hef aldrei fengið skynsamlega skýringu á því.

Ég legg til að loftrýmiseftirlitið verið aflagt með öllu sem og Varnarmálastofnun.

Af hverju ekki að leggja niður öll sendiráð á Norðurlöndum nema e.t.v. sendiráðið í Kaupmannahöfn? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið í Suður-Afríku? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið í Japan? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið á Indlandi? Af hverju ekki að leggja niður sendiráðið hjá þjóðinni sem beitti okkur hermdarverkalögunum, Bretum? Af hverju ekki að leggja niður sendiráð okkar í Berlín? Af hverju ekki að leggja niður sendiráð okkar í Washington DC og láta sendiskrifstofuna hjá Sameinuðu þjóðunum duga?

Og hugsanlega er hægt að spara enn þá meira en þetta. Hér nefni ég bara nokkur dæmi um sendiráð sem ég tel einsýnt að eigi að leggja niður miðað við það ástand og þær aðstæður sem við erum í í dag.

Ég spyr áfram: Af hverju ekki að taka fyrir eyðslu og bruðl í utanríkisþjónustunni sem er til skammar fyrir fátæka þjóð og hneyksli öllum sómakærum Íslendingum?

Ég spyr áfram formann fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnar Svavarsson: Af hverju eru útgjöld til forsetaembættisins ekki skorin meira niður en raun ber vitni? Er þörf á því að forsetaembættið viðhaldi sínum dýra lífsstíl á kostnað þjóðarinnar, m.a. með rekstri gistihúss útlendinga í miðborg Reykjavíkur? Er nokkur hemja í því eins og staðan er í dag?

Ég spyr: Getur Alþingi ekki gert betur en það sem kemur fram í frumvarpinu? Í fyrra var samþykkt að sumir þingmenn mættu ráða til sín aðstoðarmenn í hlutastarf, má ekki í ljósi þrenginga þjóðarinnar hætta því? Höfum við efni á því, eru það útgjöldin sem eru brýnust og ekki hægt að komast af án? Ég er ekki að tala um aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka sem ég tel að miðað við aðstöðu ríkisstjórnar sé spurning um að gæta jafnræðis, en ég hef aldrei séð nokkra glóru í því að koma upp því kerfi aðstoðarmanna fyrir þingmenn sem gert var í fyrra og ég verð stoltari með hverjum deginum sem líður af því að hafa verið eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því að slík tilhögun skyldi komast á.

Ég spyr einnig: Er ekki rétt í bili að afnema allt sem heitir skúffufé ráðherranna, peninga sem þeir mega ráðstafa að eigin geðþótta? Er nokkur ástæða til að hafa það í því árferði sem við erum að tala um? Má ekki taka algjörlega fyrir allt sem því nemur?

Ég vil nefna eitt enn varðandi styrki og millifærslur. Eins og nú háttar, er viðunandi að viðhalda öllu því styrkjakerfi og millifærslum sem um er að ræða í þjóðfélaginu og kostar gríðarlega peninga? Í sumum tilvikum — og þá vil ég taka fram að við erum sammála um að það beri að hafa velferðarkerfi til að tryggja öllum borgurum þessa lands — (Gripið fram í: … bótakerfi.) velferðarkerfi — viðunandi lífskjör, að sjálfsögðu. Það er nauðsynlegt og það er það sem við verðum að sjá sóma okkar í að uppfylla og framfylgja.

En við erum m.a. með annars konar velferðarkerfi og þegar rýnt er í fjárlög undanfarinna ára og það fjárlagafrumvarp sem hér er um að ræða erum við með velferðarkerfi atvinnuveganna í stórum stíl þar sem lagðir eru til, með millifærslum og alls kyns rannsóknarstyrkjum o.s.frv., alls konar hlutir sem gagnast helst þeim sem minnst þurfa á að halda. Þar kemur til skoðunar hvort ekki eigi í því árferði sem nú er frekar að reyna að lækka skatta, draga úr sköttum og afnema velferðarkerfi atvinnuveganna.

Það sem skiptir mestu máli er að þjóðin sníði sér stakk eftir vexti og það er það sem þarf að gera á hverjum tíma. Því miður er staðan sú að ríkisstjórnina skortir úrræði og vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekki haft nein úrræði var hún svo lengi að afgreiða hlutina frá sér til fjárlaganefndar og þess vegna erum við komin í þá hönk sem við erum í, Alþingi Íslendinga, með að geta uppfyllt lagaskilyrði um afgreiðslu fjárlaga tímanlega. Ég lýsi allri ábyrgð á þeim vinnubrögðum á hendur ríkisstjórnarinnar sem hefur ekki staðið sig hvað þetta varðar. Þegar bankahrunið varð og setning neyðarlaganna taldi ég sjálfgefið að ríkisstjórnin mundi grípa til ákveðinna aðgerða. Ég taldi að ríkisstjórnin mundi taka sérstaklega fyrir aðgerðir sem vörðuðu ríkisútgjöldin og gera tillögur til markvissra breytinga. Undanfari slíks hefði í raun verið sá að kalla til sérstaka aðgerðanefnd og/eða nefndir til að fara ofan í alla þætti ríkisfjármálanna, bæði hvað varðar tekju- og útgjaldahliðina með mun ákveðnari hætti en fjárlaganefnd getur gert á stuttum tíma. Þar hefðu verið til skoðunar m.a. breytingar á skattkerfi landsmanna og nú ríður á að skattkerfið sé réttlátt. Það þarf að hækka persónuafslátt, það þarf að athuga kosti þess að hafa eitt virðisaukaskattsþrep og lækka virðisaukaskatt. Það þarf að skoða hvaða tekjur hægt er að fá út úr hátekjuskatti. Það er líka ákveðin leiðrétting og eðlilegt réttlæti að taka upp slíka skattheimtu. Það hefði þurft að taka upp heildarendurskoðun á ríkiskerfinu og launakjörum ríkisins. Eins og ég minntist á áðan hefði þurft að afnema óréttlæti eftirlaunakjara forseta, ráðherra, hæstaréttardómara og alþingismanna og miða við það — sem er aldrei eins mikilvægt og einmitt í þjóðfélagsástandi sem við búum við í dag — að skapa þjóðfélag réttlætis og, sem ætti að vera falleg músík í eyrum hv. formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, að skapa þjóðfélag réttlætis og jöfnuðar.

Það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir leggur grunn að auknum ríkisútgjöldum og auknum ríkisafskiptum, hlutfallslega miðað við þjóðartekjur. Það er röng leið og ég er alfarið á móti slíkri stefnumótun. Til að byggja upp þjóðfélagið þarf að byggja upp rekstur einstaklinga og fyrirtækja til að það verði þá nýgróandi þjóðlíf sem fólkið í landinu hefur næga atvinnu af og þarf ekki að óttast um framtíð sína, atvinnu og eignir eins og staðan er því miður í dag. Þó að ég dragi ekki með einum eða neinum hætti úr þeirri ógn og þeim ástæðum sem alþjóðleg fjármálakreppa hefur haft þá seig hún yfir með ákveðnum aðdraganda og hún varð að vísu mun krappari en við bjuggumst við og hrunið kom mjög skyndilega seinni hluta sumars og í haust. Ekki var tekið á málum hér innan lands.

Ég minnist t.d. umræðna hér á Alþingi í vor þegar við héldum því fram nokkrir stjórnarandstæðingar að gæta þyrfti að hlutum vegna þess að kreppueinkenni væru að koma í ljós í þjóðfélaginu. Við bentum á það í umræðum, ég man ekki hvort það var í febrúar eða mars, sennilega í báðum þessum mánuðum — ég talaði um það þá að ljóst væri að kreppa væri að síga yfir. Ég talaði um það þá að líklegt væri að veruleg stöðnun yrði komin eða kul á byggingamarkaðnum strax í haust, þ.e. þá í september eða október. Ég áttaði mig ekki á því að það yrði slíkt alkul á þeim tíma þegar ég sagði þetta, svo sem raun hefur borið vitni. En á öll þessi varnaðarorð, á allt þetta sem við sögðum, stjórnarandstæðingar — skollaeyrum var skellt við því og því var ítrekað haldið fram að hlutirnir væru í hinu besta lagi, þetta væri allt saman í góðu lagi. Maður fór jafnvel að trúa því að ríkisstjórnin hefði ráð undir rifi hverju.

Hvað kom síðan í ljós? Það kom í ljós að ríkisstjórnin hafði engin ráð. Og þegar að kreppir kemur enn betur í ljós að ríkisstjórnin hefur engin ráð. Hún er meira að segja svo ráðalaus, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar, að það vantar grunngögn til að hægt sé að koma fram með eðlilegt frumvarp til fjárlaga til 2. umr. og eins og formaður þingflokks Framsóknarflokksins, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sagði í umræðum í morgun er þetta bara sýndartillaga, þetta væri eins og hún orðaði það bara fyndið. Ég skal ekki taka undir hvað það varðar af því að mér finnst þetta ekkert fyndið, mér finnst þetta bera vott um vinnubrögð sem eru ekki sæmandi fyrir Alþingi Íslendinga. Þar er fyrst og fremst um að kenna ríkisstjórninni sem hefur haldið upplýsingum fyrir sig og heldur upplýsingum fyrir sig og útvegar jafnvel ekki fjárlaganefnd nægjanleg eða nægjanlega góð gögn til að hún geti unnið vinnuna sína af þeim sóma sem henni ber og sem ég veit að hv. þm. Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar, vill gera.

Það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir leggur grunn að auknum ríkisútgjöldum og auknum ríkisafskiptum. Það er röng leið. Ég er alfarið á móti slíkri stefnumótun og ég tel einmitt eins og nú háttar til að nauðsyn sé á því að byggja upp rekstur einstaklinga og fyrirtækja til að á ný verði gróandi þjóðlíf þar sem fólkið í landinu hefur næga atvinnu og þarf ekki að óttast um framtíð sína, atvinnu og eignir. Það þarf að byggja upp framleiðsluatvinnuveginn.

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að nú erum við í þjóðfélagi óttans. Fólk óttast um framtíð sína og möguleika. Með fjárlagafrumvarpinu er ekki verið að breyta um stefnu, það er verið að valda auknum erfiðleikum og hamla gegn því að raunhæft uppbyggingarstarf geti byrjað.

Forréttindaaðallinn á að halda rétti sínum, kvótagreifarnir þurfa ekki að greiða fyrir aðgang að fiskimiðunum, þjóðin nýtur ekki eðlilegra tekna af auðlindum sínum. Ríkisstjórn sem er ekki tilbúin til að koma á því réttlæti að þjóðin fái að njóta auðlinda sinna og hafa af þeim eðlilegar tekjur er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu heldur forréttindastéttirnar.

Virðulegi forseti. Það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir stenst ekki skoðun. Það eru mun fleiri holur í því en matur. Að því leyti er það eins og svissneskur ostur nema það að það eru þó fleiri matarholur í svissneska ostinum. Hér er gerð tilraun til að halda í þjóðfélag sem er ekki lengur til, þjóðfélag sem er horfið og við getum ekki staðið undir. Meðan sú staðreynd er ekki viðurkennd verður stöðugt erfiðara að hefja endurreisnarstarfið og við missum af fleiri og fleiri tækifærum til þess. Mér finnst fjárlagafrumvarpið eins og það liggur fyrir frá meiri hluta fjárlaganefndar sorglegur minnisvarði um tilraun til að halda áfram ofneysluþjóðfélaginu þar sem kolvitlaust er gefið.

Virðulegi forseti. Það er fyrir löngu kominn tími til að stokka upp og bregðast við aðstæðum með djörfum hætti sem gæti verið til þess fallinn að (Forseti hringir.) leiða þjóðina út úr erfiðleikunum á sem stystum tíma.



[17:34]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Magnússon fór mjög víða í ræðu sinni áðan og er ástæða til að staldra við nokkur atriði í því efni. Á tímabili mátti skilja að þar talaði ekki þingflokksformaður Frjálslynda flokksins miðað við þá umræðu sem frá minni hlutanum hefur komið en engu að síður komu fram margar gagnlegar ábendingar í máli hans sem vert er að taka til skoðunar, sérstaklega það sem lýtur að lækkun útgjalda ríkisins á komandi árum. Þær ábendingar hurfu hins vegar eins og dögg fyrir sólu þegar hv. þingmaður fór að ræða um þá möguleika sem væru enn frekar í stöðunni og ætti að skoða, svo sem lækkun á virðisaukaskatti og hækkun á persónuafslætti. Ég bendi hv. þingmanni á að hverjar þúsund krónur í hækkun á persónuafslætti kosta ríkissjóð um 2,2 milljarða þannig að einhvern veginn verðum við þá að mæta áhrifum af þeim tillögum um skattalækkanir sem hv. þingmaður leggur til.

Ég spyr hv. þingmann í þessu andsvari mínu um þær hugmyndir sem hann hefur uppi til að mæta þeim æskilegu breytingum sem hann leggur til. Þær tillögur sem hann nefndi sjálfur varðandi sparnað eða aðhald í ríkisrekstrinum duga engan veginn upp í þó ekki væri nema þessa tvo þætti.



[17:36]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einu sinni var talað um víðfrægt skáld í Skagafirði, í kjördæmi hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, að hann hefði m.a. getað reiknað barn í konu. Það var Sölvi Helgason. Og þegar hv. þingmaður talar um að hvert þrep kosti þúsund kr. varðandi persónuafsláttinn þá gleymir hann því að það koma hlutir til baka. Þetta er ekki heildarútreikningur. Þetta þýðir að neysla eykst og þessir peningar koma að miklu leyti til baka.

En það er ekki höfuðatriðið. Það er mjög einfalt og ég verð að segja mjög ódýrt að koma upp í andsvar með þeim hætti sem hv. þm. Kristján Þ. Júlíusson gerir, rífa hlutina í sundur og segja: Annars vegar er þingmaðurinn að benda á þetta og hins vegar hitt. Ég var fyrst og fremst að benda á að fara þyrfti fram heildarendurskoðun á tekjum ríkisins og útgjöldum. Það var meginatriðið. Ég nefndi síðan ýmis atriði sem þyrfti að skoða. Ég benti á það, ég var ekki að leggja það til, að það væri spurning um hvort betur hentaði að hafa eitt virðisaukaskattsþrep heldur en það sem við erum með í dag. Það var spurningin um það hvort virðisaukaskattsskil yrðu betri með því að lækka virðisaukaskattinn og hafa eitt skattþrep, einfalda það og gera það ódýra. Þetta var hugmynd.

Varðandi það sem ég nefni að mörgu öðru leyti þá á það sama við. Aðalatriðið í mínum huga er þetta: Það á að stefna að því að draga úr umsvifum hins opinbera. Það á að miða við það að lækka skatta og draga úr ríkisútgjöldum og ég tel mikilvægt að farið verði í þá vegferð og reynt að ná samstöðu stjórnmálaflokkanna um að vinna að því máli af alefli.



[17:38]
Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg ekkert til baka með það að málflutningur hv. þingmanns áðan var eins og svissneskur ostur, töluvert götóttur eins og hann hafði sjálfur á orði um frumvarp til fjárlaga sem hér liggur fyrir. Ég var ekki að reyna að snúa út úr orðum þingmannsins. Ég lagði þetta saman eins og það kom fyrir af skepnunni. Það var ekkert flókið við það. Við erum að ræða fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Við höfum vissulega kallað eftir tillögum, sjónarmiðum um það með hvaða hætti unnt er að nálgast það að draga úr þeim útgjöldum sem fyrirsjáanleg eru. Ég deili áhyggjum með hv. þingmanni í því að þenslan í útgjöldum ríkisins á síðustu árum hefur verið með þeim hætti að erfitt mun verða að draga úr því. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að það verður ekki gert í einu vetfangi. Ég hlakka hins vegar til að fá að sjá þær tillögur sem koma frá þingflokki Frjálslynda flokksins undir öruggri og tryggri stjórn hv. þingmanns sem lúta að úrbótum í ríkisrekstrinum á þeim nótum sem hann kynnti áðan. Ég lýsi yfir áhuga á að fá að fylgjast með því þegar þær koma fram.

Ég skulda hv. þingmanni einnig svar varðandi hugmyndir mínar um lækkun ríkisútgjalda og tel í sjálfu sér ástæðulaust að fara ofan í þær í einstaka liðum en víða eru færi í því. Ég hef lagt á það áherslu og lagði á það áherslu í ræðu minni í dag að okkur ber að skoða alla þætti. Ég bendi á að það hlýtur að vera umhugsunarefni hvort við eigum að verja 41 milljarði til framkvæmda í viðhald og stofnkostnað á næsta ári í ljósi þeirrar stöðu sem er. Ég bendi á að það er líka umhugsunarefni hvort við eigum að verja rúmum 200 milljörðum í svokallaðar tilfærslur. Þannig gæti ég haldið áfram. Þetta er allt álitaefni. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir því að frá ríkisstjórninni komi einhverjar tillögur að frekara aðhaldi fyrir 3. umr. fjárlaga.



[17:40]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti einmitt á eitt atriði sem er þungamiðja í því sem ég var að tala um í ræðu minni. Hann benti á millifærslur sem væru upp á 200 milljarða. Sumar af þessum millifærslum eru að sjálfsögðu mikilvægar, ég er ekkert að draga úr því, en ég var að benda á að þarna þyrfti að fara ofan í og skoða hlutina með tilliti til þess að draga úr og taka út ónauðsynleg ríkisútgjöld. Ég gat heldur ekki séð annað en að við ættum fulla samstöðu um þau atriði sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefndi varðandi þá sparnaðarliði sem hann talaði um. Ég vil ganga enn lengra og ekki skal standa á mér að knýja á um að þannig verði staðið að málum í Frjálslynda flokknum að vinna að aðhaldi og sparnaði á öllum sviðum í ríkisrekstrinum. Við megum þó aldrei gleyma því að hafa mannúðina að leiðarljósi og hafa öryggiskeðjuna í þjóðfélaginu virka og styrka þannig að hver einasti þjóðfélagsþegn geti treyst á velferðarkerfið ef á bjátar. Það er frumforsendan. Við þurfum að búa við innra og ytra öryggi og við þurfum að búa við fullkomið velferðarkerfi. En velferðarkerfið á að vera fyrir þá sem þurfa á því að halda ekki fyrir hina sem hafa ekkert með það að gera. Það er grundvallaratriði og því miður hefur að hluta verið byggt upp velferðarkerfi sem kostar of mikið og veitir of litla velferð.



[17:43]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Magnússyni fyrir góða ræðu og sérstaklega hlý orð í minn garð. Mér leið orðið eins og heima í Hafnarfirði. Ég verð að segja að þetta er mesta hól sem ég hef nokkurn tíma fengið á þingi, þ.e. ræða hv. þm. Jóns Magnússonar.

Hv. þingmaður fór yfir nokkur atriði út af því að hann hafði tekið eftir því að ég hafði óskað eftir því. Hann fór yfir ýmis hagræðingaratriði í ríkisrekstrinum, breytingu á launum, eftirlaunum og slíku. Ég tel sjálfgefið að þegar harðnar á dalnum í ríkisrekstri muni þættir eins og yfirvinna og annað breytast og við getum verið sammála um eftirlaunaþáttinn því ég var meðflutningsmaður Valgerðar Bjarnadóttur á því fræga frumvarpi. Varnarmálastofnun og loftrýmiseftirlitið, það hefur komið til umræðu og í þessum breytingartillögum er verið að fella niður 227 millj. kr. til Varnarmálastofnunar m.a. með því að fækka komu erlendra flugsveita vegna loftrýmiseftirlitsins. Síðan fór hv. þm. Jón Magnússon í sendiráðin og (Gripið fram í.) lagði þau öll af nema sendiráðið í Kaupmannahöfn.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Listinn var langur. Það er að vísu verið að leggja það til í tillögunum að starfsstöðvunum í Pretoríu, Strassborg og Róm verði lokað á árinu 2009 og starfsemi aðalræðisskrifstofu Íslands í New York verði endurskipulögð og starfsmönnum fækkað hjá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, hjá Sendiráði Íslands í París, sendiráði Íslands í Nýju Delí og hjá Sendiráði Íslands í Tokyo þannig að það fer saman með þessum tillögum.

Síðan var vikið að tillögum um niðurskurð hjá forsetaembættinu og Alþingi, aðstoðarmönnum og ráðstöfunarfé ráðherra, og síðan í lokin að styrkjakerfi atvinnuveganna sem ég vil óska eftir að þingmaðurinn skýri örlítið betur.



[17:45]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gefst takmarkað tækifæri til þess í stuttu andsvari að skýra mjög nákvæmlega út flóknar hugmyndir. En miðað við það sem ég var að nefna og þau sendiráð sem ég talaði um að leggja ætti niður þá er það ekki nema hluti af því sem ég tel að skera þurfi niður í utanríkisþjónustunni. Ég tel í raun að þessi gamaldags hugmyndafræði sendiráða eigi ekki heima á 21. öldinni nema í örfáum tilvikum. Þetta getur átt heima þar sem sinna þarf sérstaklega mjög stöðugum málum eins og t.d. hjá sendiráðinu í Brussel þar sem um er að ræða mjög víðtækan samning sem við erum aðilar að, um Evrópska efnahagssvæðið. Þá koma hugsanlega til lönd sem búa við annað stjórnkerfi en við, t.d. Kína, en í löndum sem búa við svipað stjórnkerfi og við er almennt ekki veruleg þörf á að vera með miðaldalegt sendiráð eftir öllum þeim hefðum og reglum sem um það gilda og lúta. Það sem ég var að vekja sérstaka athygli á, hv. þm. Gunnar Svavarsson, er að þar getum verulega skorið niður og tekið á. Það sem ég vil að beint sé augum að er að skera niður yfirbygginguna í stjórnkerfi landsins. Ég tel að við eigum að byrja þar. Við eigum að einfalda stjórnkerfið og skera niður yfirbygginguna og ég benti m.a. á það, sem er ákveðin þungamiðja í því sem ég var að leggja til, að miðað við aðstæður verði launakjör ríkisins endurskoðuð allt frá grunni.



[17:47]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Ég skildi þau svo að í sjálfu sér mætti loka öllum sendiráðum og líklegast fastanefndum líka nema í Kaupmannahöfn, Berlín og Kína, því að flest voru talin upp en hugsanlega, (JM: Brussel líka.) já, fyrirgefðu, Brussel hljómaði eins og Berlín, en hugsanlega er þetta útfærsluatriði. Hins vegar má skilja þetta svo að hv. þingmaður vilji skoða starfsemi þessara sendiráða.

Hv. þingmaður kom líka að virðisaukaskattsumræðu og persónuafslætti og ég ítreka það að persónuafslátturinn er að hækka og er verðbótatengdur. Ég ætla ekki að ræða um verðtrygginguna við hv. þingmann, við höfum gert það áður á öðrum stöðum. En það var sérstaklega þetta sem ég vék að í spurningu minni, vegna þess að hv. þm. Jón Magnússon vék að því í ræðu sinni í dag að það ætti að fara inn í styrkjakerfið, rannsóknarstyrki eða velferðarsjóð atvinnuveganna, eins og hann nefndi í ræðunni. Mér dettur þá í hug að í umræðu í síðustu viku, um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna útflutnings á bílum, þá talaði ég um þarna væri um óbeina styrki að ræða af því að í sjálfu sér væri hálfpartinn verið að endurgreiða þetta í formi félagslegra styrkja til að koma ökutækjunum úr landi, notuðum ökutækjum, því að þau væru kannski 80% í eigu atvinnuveganna. Hv. þm. Jón Magnússon studdi þá tillögu. Þess vegna spyr ég: Hvað er í raun verið að tala um þegar sagt er að við ætlum að fara inn í velferðarsjóði atvinnuveganna? Ég vil kannski fá það betur útfært.



[17:49]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Svavarsson getur reynt að snúa því á haus sem ég var að segja. Í fyrsta lagi varðandi sendiráðin, þá tel ég að mikilvægustu sendiráðin sem við höfum sé sendiráð okkar í New York, þ.e. fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, og sendiráð okkar í Brussel, þ.e. annað sendiráðið, ekki sendiráðið hjá NATO, mér er alveg gersamlega óskiljanlegt af hverju við erum með tvö sendiráð í sömu borginni, í Brussel. Ég talaði líka um hvort það geti verið — og þar er ég bara að velta fyrir mér hlutum, ég tel að það þurfi að skoða það nákvæmlega af því að það er annað stjórnkerfi — hvort það geti verið réttlætanlegt að vera með sendiráð í Peking. Í sjálfu sér eru samskipti okkar við þá þjóð ekki slík að það kalli á eða réttlæti sendiráð. Önnur sendiráð í Asíu er gersamlega út í hött að vera með, og það að stofnað skuli hafa verið til þeirra er að mínu viti algerlega glórulaust, sem og sendiráðið í Afríku sem ég hef aldrei áttað mig á hvaða hlutverki hafi gegnt eða hafi átt að gegna. Og eins og ég sagði, miðað við þær breytingar sem orðnar eru í fjarskiptum, möguleikum til ferðalaga og samskipta þjóða í milli þá á að taka þetta miðaldafyrirkomulag sendiráða til endurskoðunar. Það er grundvallaratriði.

Ég held að hv. þm. Gunnar Svavarsson sé að grínast þegar hann neitar að skilja hvað ég á við með velferðarkerfi atvinnuvega þegar hann leggur það að jöfnu að ég eigi við það eða sé að tala um það að endurgreiða tollvirði af bílum, sem var ekkert nema en sjálfsagt. Ég er að tala um það þegar um er að ræða að ríkissjóður, skattborgararnir borga kostnað sem eðli máls samkvæmt á að heyra undir atvinnurekstur og hann á að greiða eins og margvíslegur kostnaður sem verið er að greiða fyrir kvótagreifana af almenningi í landinu.



[17:52]Útbýting: