136. löggjafarþing — 60. fundur
 17. desember 2008.
virðisaukaskattur, vörugjald o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 247. mál (framlenging ákvæða um lækkun gjalda af vistvænum ökutækjum). — Þskj. 364.

[15:47]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með frumvarpi þessu er lagt til að framlengdar verði um eitt ár þær tímabundnu undanþágur frá vörugjöldum og virðisaukaskatti sem gilda um tiltekin vistvæn ökutæki samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða við lög nr. 97/1987, 29/1993 og 50/1988. Að óbreyttu renna umræddar undanþágur út í lok árs 2008.

Nánar tiltekið er í umræddum ákvæðum um að ræða ívilnanir fyrir:

bifreiðar sem búnar eru vélum sem nýta rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu,

bifreiðar sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúnar óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni,

bifreiðar sem búnar eru vélum og öðrum búnaði sem miðast við að bifreið nýti metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu,

bifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri og búnar eru aflvélum samkvæmt EUROIII staðli ESB.

Einnig eiga hér undir sérhæfðir varahlutir í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni

Á meðan ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvernig staðið skuli að heildarskattlagningu ökutækja og eldsneytis, þar með talið til vistvænna ökutækja, er með frumvarpi þessu lagt til að umræddar undanþágur frá vörugjöldum og virðisaukaskatti verði framlengdar um eitt ár.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[15:48]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér er í sjálfu sér um einfalt mál að ræða þar sem lögð eru drög að framlengingu á undanþágum um eitt ár. Frumvarpið er þrjár greinar og í 1. gr. er lögð til framlenging á endurgreiðslu á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts af kaupum á ökutækjum sem nota — hvað eigum við að kalla þetta? — óhefðbundna orkugjafa og ökutækjum sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga fyrir 18 manns og fleiri.

Í 2. gr. er fjallað sérstaklega um undanþágur á vörugjöldum vegna bifreiða sem ganga fyrir rafmagni, vetni og metani og í 3. gr. er fjallað um undanþágur frá greiðslu vörugjalda þegar um er að ræða vetnisbíla sem eru fluttir inn í rannsóknarskyni.

Í sjálfu sér, herra forseti, hef ég allt gott um þessa framlengingu á undanþágunum að segja og tel sjálfsagt og eðlilegt að viðhalda þeim, en ég gagnrýni harðlega að ekki skuli vera hægt að fá fram efnislegar breytingar á endurgreiðslu á virðisaukaskatti til strætisvagna, til almenningsvagna. Ég vil leyfa mér að vísa til þess að ég hef á undanförnum þingum flutt og flutti ásamt hv. þm. Vinstri grænna, Árna Þór Sigurðssyni, á síðasta þingi frumvarp til laga um breytingu á þessum sömu lögum sem um getur í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. um breytingu á lögum nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Sú breyting sem ég tel nauðsynlegt að setja þarna inn — og kynni hér með að ég mun flytja breytingartillögu þess efnis — er að 3. málsliður ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum verði felldur brott.

Herra forseti. Það sem þar um ræðir er X. ákvæði til bráðabirgða og það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er að endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 13/1999, um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum, 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2008.“ — Nú er sem sagt gerð tillaga um að framlengja það til 2009.

Síðan held ég áfram, með leyfi forseta:

„Endurgreiðsluheimildin verði bundin við hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni, sem nýskráðar eru á tímabilinu og búnar eru aflvélum samkvæmt EUROIII staðli ESB.“ — Síðan kemur þessi setning, herra forseti, sem ég tel nauðsynlegt að fella úr lögum:

„Heimildin tekur ekki til almenningsvagna. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslunnar.“

Svo hljóðar þetta X. ákvæði til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt, herra forseti, og með því er brotin sú jafnræðisregla sem ég tel að hljóti að verða að hafa í heiðri gagnvart hópbifreiðum, hvort heldur sem um er að ræða almenningsvagna sem má aka, nú ekki lengur eingöngu um götur borgarinnar eða götur bæja í landinu, heldur á milli sveitarfélaga og það jafnvel um langan veg. Ég vil leyfa mér að nefna Akranes, Keflavík og Árborg.

Þarna er um að ræða að allt frá árinu 2000 þegar þessi endurgreiðsluheimild var sett í lög hefur stærsta fyrirtækið á sviði almenningssamgangna, Strætós bs., keypt yfir 50 nýja bíla og hefur á þessu tímabili því borgað nær 200 millj. kr. í virðisaukaskatt. Ef Strætó bs. sæti við sama borð og önnur hópflutningafyrirtæki hefði fyrirtækið fengið endurgreiddar ríflega 100 millj. kr. af þessum greidda virðisaukaskatti.

Mjög mikilvægt er að koma þarna á jafnræði vegna þess að almenningssamgöngur eru, og verða enn frekar nú í þeim efnahagslegu þrengingum sem við nú lifum, þjóðhagslega hagkvæmar, auk þess sem þær skila miklum umhverfislegum ávinningi. Með stuðningi við almenningssamgöngur getur ríkisstjórnin sparað dýrmætan gjaldeyri við kaup á bensíni og dísilolíu til aksturs einkabíla.

Loftmengun, svifryk og sót af völdum samgangna er helsta umhverfisvandamálið hér á höfuðborgarsvæðinu enda byggjast samgöngur hér nær allar á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis.

Því er mikilvægt að styðja bæði við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum, eins og gert er með þessu frumvarpi, en jafnframt er mjög nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr þessari sömu loftmengun. Fyrsta skrefið, herra forseti, í þá átt er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga. Í þeim frumvörpum sem ég hef áður flutt um þetta efni hef ég óskað eftir því að þetta væri jafnvel afturvirkt þannig að ríkissjóður mundi viðurkenna brot á jafnræðisreglu með því að endurgreiða þessum hópferðafyrirtækjum sem eru ekki bara Strætó bs. heldur verktakar, svo sem Hagvagnar hf. og líka fyrirtæki á Akureyri, Ísafirði, Fjarðabyggð, Reykjanesbæ og Akranesi, og endurgreiða allt upp í 150 millj. kr. sem ég tel að þessi fyrirtæki hafi ofgreitt í ríkissjóð af virðisaukaskatti vegna þessarar mismununar.

Ég boða sem sagt hér, herra forseti, breytingartillögu við þetta frumvarp þess efnis að 3. málsliður ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum verði felldur brott þannig að þeir strætisvagnar, almenningsvagnar, sem yrðu keyptir til landsins á næsta ári sitji við sama borð og hópferðabílar almennt og fyrirtækin sem flytja þá inn eða kaupa fái tvo þriðju hluta virðisaukaskatts endurgreiddan.



[15:57]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við mál sem snýr að því að þegar fluttar eru til landsins bifreiðar, sem menga mun minna en þær bifreiðar sem við almennt notum, greiði menn ekki af þeim vörugjöld og virðisaukaskatt. Hér er um að ræða bifreiðar sem stundum ganga undir nafninu tvinnbifreiðar, eins og sagt var í upphafi, þ.e. bifreiðar sem nota rafmagn að verulegu leyti. Hér er einnig um að ræða ökutæki sem valda hverfandi mengun og eru knúin svokölluðum óhefðbundnum orkugjöfum, svo sem rafhreyfli eða vetni. Ákvæðið nær reyndar einnig til metangass og ökutækja sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga.

Hæstv. forseti. Hér er einnig vikið að sérhæfðum varahlutum í vetnisbifreiðar, en meginefni þessa máls er að hér framlengjum við árlega svokallaða undanþágu í staðinn fyrir að búa til stefnu og setja hana í lög. Ég hef vikið að þessu nokkrum sinnum, hæstv. forseti, þegar þessi mál hafa komið hér til umræðu. Ég hef talið eðlilegt og jákvætt fyrir þjóðfélag okkar að hafa slík ákvæði sem hér eru reglulega framlengd fyrir hver áramót um eitt ár í senn til þess að fjölga hér ökutækjum sem menga minna en venjulegar bifreiðar. Ég hef spurt að því, a.m.k. tvisvar svo ég muni, hvers vegna ríkisstjórnin búi ekki til stefnu um þetta til lengri tíma í stað þess að afgreiða þetta ævinlega með svokölluðu undanþáguákvæði fyrir eitt ár í senn.

Ég held að ég muni rétt, hæstv. forseti, að þessum ábendingum mínum hefur verið tekið jákvætt af viðkomandi ráðherrum. Menn hafa talið að ríkisstjórnin ætti að sjálfsögðu að koma með tillögur um að breyta slíkum lagaákvæðum til framtíðar.

Það er nú svo að venjulegir þingmenn koma yfirleitt engum málum í gegnum þetta Alþingi, það er bara hin leiða regla sem hefur viðgengist. Nú er hér 43 manna þingmeirihluti og það hefur sýnt sig, eins og svo oft áður í meðförum þingsins, að óbreyttir þingmenn koma ákaflega fáum tillögum, hvað þá lagafrumvörpum, hér í gegn, hvað þá ef þeir eru úr stjórnarandstöðunni.

Ég hef borið upp þessa áskorun við stjórnvöld á hverjum tíma þegar þetta undanþáguákvæði hefur verið til umræðu og hvet enn til þess að stjórnvöld í landinu breyti því vinnulagi sínu að afgreiða hér undanþágu til eins árs en ákveða þetta ekki til lengri tíma. Ég get t.d. vel hugsað mér að slík lög verði sett til fimm ára í senn þannig að fólk sem keypti sér slíkt ökutæki gæti séð lengra fram í tímann um hvernig þessum hlutum væri varið.

Einnig má hugsa sér að hafa þetta ákvæði ótímabundið eins og önnur lög, en allt að einu held ég að þetta eigi að fara í annan farveg, hæstv. forseti, en þann að við framlengjum alltaf slíkt ákvæði um eitt ár í senn. Það gæti m.a. orðið til þess að fólk ákvæði frekar að kaupa svona farartæki en ella.

Ég held að það sé einfaldlega jákvætt að við stuðlum að því. Ég kem í þessa umræðu til að vekja athygli á því að æskilegt væri að hæstv. fjármálaráðherra og sennilega umhverfisráðherra ásamt samgönguráðherra kæmu sér niður á það hvernig þau vildu leggja til að þessum málum væri fram haldið til næstu ára og kæmu hér á nýju ári með raunverulegar breytingar í þá veru að slík lagaákvæði, sem við framlengjum hér til bráðabirgða, verði fest í löggjöfina til lengri tíma.

Þetta eru ábendingar mínar í þessu máli, reyndar þær sömu og ég hef oft flutt áður þegar við höfum framlengt þessi ákvæði til eins árs í senn, og ég vona að hinn mikli meiri hluti sem hér ræður störfum þingsins geti nú farið að taka undir þessi sjónarmið og leggja þeim lið í framtíðinni. Nú þegar fjallað er um þetta mál, á auðvitað að setja þessi lög til lengri tíma en eins árs í senn. Ég mælist til að þau sjónarmið verið rædd í viðkomandi nefnd.



[16:03]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður óskar eftir því að það verði heildstæðari stefna í þessum efnum. Eins og hv. þingmenn væntanlega vita var lögð fram skýrsla í sumar þar sem kynntar voru tillögur um heildstæða stefnu hvað varðar álögur og farartæki. Ég hafði hugsað mér að leggja slíkt frumvarp fram á haustþinginu en vegna þeirra aðstæðna sem upp hafa komið og þess hversu mikið hefur verið að gera síðustu dagana hefur ekki gengið eftir að koma þessu frumvarpi inn í þingið. Ég geri ráð fyrir að geta lagt það fram strax að loknu jólaleyfi og vænti þess að því verði vel tekið af hv. þingmönnum.



[16:04]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hann hér gaf og tel þau rök sem hann færði fram fyrir því að fjölga ekki málum á síðustu dögum fyrir jól réttmæt. Ég vænti þess hins vegar að það sem hann sagði um næstkomandi ár gangi eftir og að við sjáum hér stefnumótun sem verður til lengri tíma en við erum að afgreiða hér með þessum lögum til eins árs í senn.



[16:05]
Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er merkismál á ferðinni sem varðar undanþágur. Það hefur þurft að framlengja þá undanþágu sem hefur verið í gildi og varðar vörugjöld og virðisaukaskatt af tilteknum vistvænum ökutækjum. Þetta er mál sem ég þekki frá minni tíð í ríkisstjórn og iðnaðarráðuneytinu, þetta er mál sem við börðumst mikið fyrir, framsóknarmenn, að ná fram og náðum því fram að það varð að veruleika að taka tillit til þess að hér er um mjög vistvæna lausn að ræða í sambandi við samgöngur.

Ég segi eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, að auðvitað hefði ég viljað sjá nú þegar að komin væri fram einhver heildarstefna í þessum málaflokki. Miðað við stór orð sem voru látin falla af hálfu stjórnarflokkanna við myndun þessarar ríkisstjórnar átti heldur betur að taka á honum stóra sínum, m.a. í þessum málum. Það hefur hins vegar lítið orðið um framkvæmdir en nú boðar hæstv. fjármálaráðherra að það sé að vænta frumvarps sem sé þá til að móta stefnu til framtíðar í þessum málaflokki. Við Íslendingar verðum að setja okkur einhver markmið í því hversu hratt við ætlum að skipta flotanum yfir í vistvæn ökutæki. Við erum í dag með mikla sérstöðu sem varðar orkumál okkar eins og allir vita. Um 70% af heildarorkunotkun er vistvæn orka þannig að það má segja að fyrst og fremst samgöngurnar geti komið okkur lengra á þeim vegi sem við viljum flestöll ganga, held ég.

Ég læt mér detta í hug að það væri hægt að setja sér það markmið að t.d. árið 2020 væri helmingur af hefðbundnum ökutækjum orðinn vistvænn. Einhver markmið verðum við að setja okkur til að ná árangri. Við tókum á sínum tíma mikinn þátt í alþjóðlegu samstarfi sem varðar nýtingu vetnis og það varð vissulega til þess að bæta ímynd Íslands, að Ísland skyldi vera í forustu í raun hvað varðar þennan þátt mála. Nú sýnist mér að áherslan sé ekki síður á rafmagnsbíla og það er ekkert nema gott um það að segja. Aðalatriðið er að við náum að skipta úr jarðefnaeldsneytisnotkun og yfir í vistvæna neyslu á þessu sviði.

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu styðjum við framsóknarmenn þetta mál. Ef það hefði ekki komið fram hefði orðið sú breyting um áramót að þessar undanþágur hefðu fallið úr gildi sem við að sjálfsögðu viljum alls ekki. Ég vona sannarlega að það sé samstaða um það í ríkisstjórninni að flytja það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra boðaði og að við megum sjá það á vorþinginu í þingsalnum.



[16:09]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en ég vil taka undir orð hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar um nauðsyn þess að vera ekki alltaf að endurnýja frá ári til árs undanþáguheimildir sem þessar, heldur setja heildstæða stefnumörkun til lengri tíma. Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra um að það standi til og að við megum jafnvel eiga von á því að fá slíka stefnumörkun á borð Alþingis eftir áramótin.

Eins mikilvægt og það er að móta skýra stefnu um það að auka hlut vistvænna ökutækja í bílaflotanum okkar er mjög mikilvægt að auka hlut almenningssamgangna í umferðinni, ekki síst við þær aðstæður sem við nú búum við í þeim tilgangi að spara gjaldeyri og spara útgjöld fyrir almenning í landinu sem þarf að fara ferða sinna og mundi gjarnan þiggja að gera það með betri almenningssamgöngum í stað þess að vera alltaf á einkabílnum. Það er ekki nauðsynlegt að fjölga málum á Alþingi til að styrkja almenningssamgöngur. Það er nóg að gera það eins og ég sagði með því að breyta því frumvarpi sem hér liggur fyrir og ég hef boðað tillögu um en mig langar til að nýta þetta tækifæri og spyrja hæstv. ráðherra beint hvaða rök hnígi að þessum mismun sem hefur verið í þessari undanþágu allt frá árinu 2001 sem er að strætisvagnar sem sinna almenningssamgöngum og eru stærri en fyrir 18 farþega fái ekki endurgreidda 2/3 hluta virðisaukaskatts af nýjum vögnum meðan hópferðabifreiðar aðrar fyrir 18 manns eða fleiri fá það. Eins og ég nefndi áðan munar þetta, á þessu tímabili frá 2000, einhvers staðar á bilinu 100 til 150 millj. kr. sem fyrirtæki í almenningssamgöngum hafa þurft að borga virðisaukaskatt umfram önnur hópferðafyrirtæki. Ég óska eftir rökstuðningi frá ráðherranum fyrir þessu eða, það sem meira er, óska eftir stuðningi hans við það að breyta þessu, grípa nú tækifærið og breyta þessu um leið og við samþykkjum að öðru leyti þetta frumvarp sem hér liggur fyrir og ég hef þegar lýst stuðningi við.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og skattn.