136. löggjafarþing — 65. fundur
 20. desember 2008.
fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum, 3. umræða.
frv. SKK o.fl., 248. mál. — Þskj. 365.

[17:16]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Núna þegar við göngum til lokaumræðu og atkvæðagreiðslu um þetta frumvarp til laga um fjárhagslega fyrirgreiðslu úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum vil ég nota tækifærið og þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir að taka þetta mál til umræðu hér til þess að það komist til lokaafgreiðslu.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka þingmönnum allra stjórnmálaflokka á Alþingi fyrir að styðja þetta mikilvæga mál og greiða fyrir því að það hljóti afgreiðslu. Það sýnir að þverpólitísk samstaða er um að íslenska ríkið og ríkisvaldið sé reiðubúið til þess að standa við bakið á þeim sem vilja höfða mál gegn breskum stjórnvöldum vegna aðgerða þeirra gegn Íslendingum og íslenskum hagsmunum í upphafi októbermánaðar.

Í samþykkt þessa frumvarps felast líka mikil pólitísk tíðindi, þ.e. yfirlýsing frá Alþingi Íslands um að Alþingi sættir sig ekki við að bresk stjórnvöld beiti Íslendinga og íslenska hagsmuni hryðjuverkalögum. Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn og munu ekki sætta sig við að vera meðhöndlaðir sem slíkir.



[17:18]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir hvert orð síðasta ræðumanns og vil um leið þakka honum og þingmönnunum sem standa að flutningi þessa máls fyrir frumkvæði þeirra. Það er lofsvert og ánægjulegt að einstöku sinnum taki Alþingi á sig rögg og taki hlutina í sínar hendur. Það mætti gerast oftar.

Ég sakna þess auðvitað, virðulegi forseti, að annað gott þingmannafrumvarp, heimildir til stjórnvalda til þess að frysta eða kyrrsetja tímabundið eignir ef á þarf að halda til að gæta hagsmuna þjóðarbúsins vegna bankahrunsins, skuli ekki hafa fengið sambærilega meðferð.

Ég vil líka nota tækifærið, og vísa þar til þess sem kom fram í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að með þessu er Alþingi að senda mjög sterk skilaboð sem ekki mega misskiljast. Alþingi vill að það verði farið í mál við Breta, það er ósköp einfalt mál eins og græna taflan hér sýnir. Ég vil því bara fá algerlega á hreint: Er ekki ljóst að framkvæmdarvaldið fær þessi skilaboð og misskilur þau ekki? Að það verði tryggt að fyrir 7. janúar nk., áður en frestir renna út, verði búið að höfða mál með stuðningi ríkisins bæði í tilviki Kaupþings og þvingaðrar yfirtöku dótturfélags þess í Bretlandi sem og frystingar á eignum Landsbankans með hryðjuverkalögum?



[17:19]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram um að það er ástæða til þess að þakka það frumkvæði sem felst í flutningi þessa þingmáls og þeim stuðningi við það sem komið hefur í ljós.

Jafnframt þarf að hafa í huga að þau mál er lúta að hugsanlegum málarekstri í Bretlandi eru tvíþætt. Það mál sem hér er fyrst og fremst haft í huga er mál sem íslenska ríkið hefur ekki beinan aðgang að. Þess vegna er lagt til í þessu frumvarpi að þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi ekki beina aðild að því máli sé heimilt að veita fjármuni úr ríkissjóði til að styrkja aðra aðila til að fara í það mál. Það á ekki að blanda þessu saman.

Hitt málið er síðan mál þar sem ríkið hefur beina aðkomu og ekki þarf að endurtaka það sem hér hefur oft komið fram af minni hálfu og annarra í ríkisstjórninni. Sá málflutningur og aðdragandi að þeim málaferlum er auðvitað í undirbúningi en við þurfum ekki sérstaka fjárveitingaheimild til að standa að því.



[17:21]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem segja að hér sé um afar jákvætt mál að ræða. Það er mjög mikilvægt að Alþingi sendi frá sér þau skilaboð að við teljum að á okkur hafi verið brotið þegar Kaupþing var yfirtekið af breskum stjórnvöldum og þau mál verði keyrð í gegn fyrir 7. janúar.

Það er rétt að það er skilanefnd Kaupþings sem þarf að reka þetta mál. Það var ljóst 22. október þegar við framsóknarmenn óskuðum eftir því að erlendir lögmenn kæmu á fund nefndarinnar og skæru úr um hverjir mundu reka málið fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

En þetta er afar jákvætt, við framsóknarmenn fögnum þessu og segjum því já.



[17:22]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að lengja þessa umræðu. Mikið fagnaðarefni er að svo vel hefur verið tekið í þetta mál eins og raun ber vitni. Það sem mestu máli skiptir er að sjálfsögðu að við flutningsmenn þessa máls munum við 3. umr. fjárlaga jafnframt flytja breytingartillögu við 6. gr. fjárlagafrumvarpsins um að þar verði sett tilsvarandi fjárlagaheimild þannig að fjármálaráðherra geti beitt þessari heimild og hafi til þess öll tæki.



[17:23]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Nokkrum mínútum á Alþingi hefur verið eytt fyrir minna en það sem hér er undir þannig að ég er ekki feiminn við að tefja hv. þingmenn í örfáar mínútur í viðbót þegar þvílíkir þjóðarhagsmunir eru í húfi.

Það er alveg hárrétt hjá hæstv. forsætisráðherra að í öðru tilvikinu á ríkið ekki beina aðild að máli þar sem er Kaupþing eða yfirtaka breska fjármálaeftirlitsins á bankanum Singer & Friedlander. Engu að síður er gríðarlega mikilvægt að það mál verði rekið og að þeir sem þar eiga aðild geti gert það með fjárhagslegum stuðningi ríkisins ef á þarf að halda eins og lagður er lagagrundvöllur að í þessu frumvarpi.

Hins vegar er það frystingin á eignum Landsbankans með beitingu hinna illræmdu hryðjuverkalaga. Þar koma íslensk stjórnvöld vissulega við sögu þannig að þar er um beina málsaðild að ræða. Engu að síður er að mínu mati mjög mikilvægt að Landsbankinn gamli verði þar málshöfðunaraðili, e.t.v. ásamt ríkinu og væntanlega er lögfræðilega hægt að ganga svo frá að báðir aðilar standi að málinu, m.a. vegna þess að vænlegustu möguleikar íslenska ríkisins til þess að reka beitingu hryðjuverkalaganna alla leið liggja að lokum til Mannréttindadómstóls Evrópu. Til þess að það sé hægt verður að tæma réttarúrræði innan Bretlands. Þess vegna verður hvort tveggja að gerast, að bæði málin verði höfðuð áður en frestirnir renna út og öllum réttarfarslegum leiðum verði haldið opnum til þess að hægt sé að reka þessi mál til enda.



[17:24]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefur sett sig vel inn í þessi mál og allt sem hann hefur hér sagt um þetta er hárrétt. Auðvitað verða þessi mál rekin á þann hátt sem nauðsynlegt er og hann lýsti.

Ég vil jafnframt taka fram að við höfum hugsað okkur, utanríkisráðherra og ég, að funda sérstaklega með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna til að fara yfir þessi mál, hvernig best sé að þeim staðið og til að mynda sem breiðasta pólitíska samstöðu um þetta mikilvæga mál þar sem svo miklir hagsmunir eru í húfi.