136. löggjafarþing — 69. fundur
 20. janúar 2009.
um fundarstjórn.

dagskrá fundarins.

[13:37]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja forseta hverju sæti sú dagskrá sem lögð er fyrir Alþingi þegar það kemur saman til funda eftir þinghlé um jól og áramót. Það vekur sérstaka athygli að hér skuli ekki í upphafi þings vera rætt um ástandið í samfélaginu og að ríkisstjórnin skuli til að mynda ekki sjá ástæðu til að gera Alþingi grein fyrir stöðu mála eftir að það hefur ekki verið að störfum eða til funda um sinn.

Ég vil spyrja hæstv. forseta: Barst engin ósk um það frá ríkisstjórninni að því yrði þannig hagað að við upphaf þingfunda yrði gefið svigrúm til að fara yfir stöðu mála og ræða hvernig hlutirnir standa nú í byrjun árs? Það vekur mikla furðu t.d. að 4. mál á dagskrá þessa fundar, fyrsta mál á eftir tveimur stjórnarfrumvörpum, skuli vera frumvarp um brennivín í búðir. Hverju sætir að flutningsmenn þessa máls skuli ekki sjá sóma sinn í að kalla það til baka? Hverju sætir að forseti hefur það í sérstökum forgangi? Ég held að þjóðin hljóti að spyrja sig: Hvað er forseti Alþingis og hvað er ríkisstjórnin að hugsa? Og ég verð að segja, forseti, að mér finnst þetta snautlegt upphaf á þingstörfunum með hliðsjón af aðstæðum í þjóðfélaginu eins og við heyrum líka hér utan við þinghúsið.



[13:38]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna athugasemdar hv. þingmanns er þess að geta að forseti setur á dagskrá þau mál sem liggja fyrir sem þingmál og ekkert óeðlilegt við það. Þau raðast að jafnaði inn í þeirri númeraröð sem þau berast til þingsins. Nú verður gengið til dagskrár og er fyrsta dagskrármálið óundirbúinn fyrirspurnatími þar sem gefst færi fyrir þingmenn að bera upp fyrirspurnir um þau mál sem þeir telja brýnust.



[13:39]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Forseti. Forseti Alþingis raðar niður á dagskrá þingsins. Í því er fólgið ákveðið mat, ákveðin forgangsröðun, og ég hlýt að spyrja nú þegar 106 dagar eru liðnir frá því að neyðarlögin voru sett: Hverju sætir það að forseti hefur ekki enn séð ástæðu til að taka á dagskrá þingsins frumvarp til laga um breytingu á neyðarlögunum til að tryggja kyrrsetningu eigna auðmanna, þannig að ef og þegar eitthvað verður farið að rannsaka og gera í þessum málum, sem ég á ekki von á meðan þessi ríkisstjórn situr, verði ekki búið að flytja þetta allt úr landi? Og ég spyr forseta: Hverju sætir sú forgangsröðun að brennivín í búðum komi á undan kyrrsetningu eigna auðmanna?



[13:40]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti hafði ekki ætlað á þessum degi að eiga í orðræðu við hvern einasta þingmann sem hér kemur upp en sér engu að síður ástæðu til þess, vegna orða hv. þingmanns, að nefna að fundir með formönnum þingflokka og fundir í forsætisnefnd eru til þess að eiga samráð, m.a. um dagskrá fundanna. Fyrir liggur dagskrá sem fjallað var um bæði á fundi forsætisnefndar og fundi með formönnum þingflokka þar sem engin athugasemd var sérstaklega gerð við dagskrána eins og hún liggur fyrir og er áætluð þessa viku. Að sjálfsögðu munum við taka upp, ef fram koma óskir á vettvangi forsætisnefndar og samstarfsvettvangi með formönnum þingflokka, þau mál sem þingmenn bera sérstaklega fyrir brjósti, en gert er ráð fyrir utandagskrárumræðum m.a. á morgun og fimmtudaginn.



[13:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta eru engir venjulegir tímar sem við lifum. Óundirbúnar fyrirspurnir eru að sjálfsögðu á sínum stað og það er góðra gjalda vert að einn þingmaður geti rætt við einn ráðherra í tvær mínútur og eina mínútu. En það dregur skammt þegar um er að ræða þá ógnaratburði sem hér eru í samfélaginu og allt í kringum okkur.

Ég tek svar forseta þannig að engin ósk hafi borist um það frá ríkisstjórn að gera með neinum sérstökum hætti grein fyrir stöðu mála við upphaf þingsins, að ríkisstjórnin ætli að vera frumkvæðislaus og aðgerðalaus og sofandi í þessum efnum eins og öðrum og þá er það auðvitað bara niðurstaðan. En það vantar ekki umræðuefnin, að líður ekki svo dagur að ekki reki á fjörur þjóðarinnar ný hneykslis- og vandræðamál. Það hefði t.d. verið tilvalið að ræða áformaðar handtökuaðgerðir sýslumannsins á Selfossi við dómsmálaráðherra en það stóð til að fara að handtaka upp undir 400 Sunnlendinga og hneppa þá í skuldafangelsi af miklum fantaskap. (Dómsmrh.: Fylgist þingmaður ekki með?) Mér er alveg sama, hæstv. dómsmálaráðherra, þó að þú sért búinn að bakka eitthvað með þetta. En ég segi það, virðulegi forseti, mér finnst þetta heldur snautleg byrjun á þinghaldinu með vísan til ástandsins í þjóðfélaginu.



[13:43]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Örstutt athugasemd vegna ummæla hæstv. forseta. Á nýafstöðnum fundi forseta með formönnum þingflokka lýsti ég undrun á dagskránni, vísaði m.a. í það þingmál sem hér hefur verið gert að umræðuefni, um áfengismál, að koma áfengi í matvöruverslanir, að það skuli vera forgangsmál þingsins núna. Ég lýsti jafnframt yfir undrun minni á því að ríkisstjórnin skyldi ekki í upphafi þessa þingfundar, þegar Alþingi kemur saman eftir alllangt hlé, koma með skýrslu um stöðu mála og efna til almennrar umræðu um þau alvarlegu mál sem uppi eru í þjóðfélaginu.

Hæstv. forseti. Vegna ummæla hæstv. forseta sé ég ástæðu til að gera grein fyrir þessu.



[13:44]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég spyr þar sem verið er að ræða dagskrá þingsins, hvernig stendur á því að við höfum ekki enn séð frumvarp um greiðsluaðlögun sett á dagskrá þingsins. Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við völdum hefur hún lofað að setja lög um greiðsluaðlögun og það er kallað sterklega eftir því frá almenningi. Þessi greiðsluaðlögun þýðir að skuldarar verði aðstoðaðir við að komast út úr mesta svartnættinu og hvað er það annað en að fólk er að óska eftir að ríkisstjórnin geri eitthvað fyrir fólkið í landinu?

Það er sorglegt að segja frá því að það síðasta sem heyrðist frá ríkisstjórninni um þetta mikilvæga mál var einmitt viðtal við hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, á Stöð 2, þar sem hún lýsti því yfir að hún hefði allt í einu uppgötvað það eftir allan sinn tíma á þingi hversu gríðarlega erfitt það er að leggja fram mál þar sem tekið er á því að afskrifa skuldir einstaklinga. (Forseti hringir.) Ég tek bara undir orð hv. þingmanna um að þessi forgangsröðun er alveg ótrúleg, að það eigi að fara að ræða hér um áfengi.



[13:45]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Eins og ég gat um rétt fyrir þinglok áður en þingið fór í jólaleyfi yrði frumvarp um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun lagt fram í upphafi þessa árs. Það frumvarp var til meðferðar í ríkisstjórninni í morgun og sent þingflokkum ríkisstjórnarinnar í dag og þeim mun fyrr sem þeir ljúka meðferð sinni á málinu því fyrr kemur það hingað í þingsalinn.