136. löggjafarþing — 69. fundur
 20. janúar 2009.
aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[13:59]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að senda formanni Samfylkingarinnar baráttukveðjur á Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, með ósk um skjótan bata. Það veitir ekkert af öllum vinnandi höndum hér heima.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um það áðan að menn spyrðu hér um ýmis mál og grautuðu öllu saman. Ég ætla að reyna að hafa þetta óskaplega skýrt, eins skýrt og ég get og horfa eingöngu mánuð aftur í tímann. Ég óska eftir því sem þingmaður að fá að vita hvað ríkisstjórnin hefur verið að undirbúa síðan þingið fór í jólaleyfi 22. desember.

Brot af því sem hefur komið fram í fjölmiðlum um ríkisstjórnina er þetta: Hæstv. iðnaðarráðherra kepptist við að búa til hégómafulla titla á sjálfan sig og orðið á götunni segir að hann sé í fýlu yfir því að fá ekki nógu mikla athygli vegna þess. Hæstv. heilbrigðisráðherra kynnir gerræðislegar hugmyndir sínar um heilbrigðiskerfið þar sem vissir auðmenn virðast eiga að gegna stóru hlutverki. Á sama tíma og ísraelsk stjórnvöld sprengja upp saklausa borgara á Gaza-svæðinu, þar með talin smábörn, snýst ríkisstjórnin í kringum sjálfa sig í sjálfhverfunni og kemur sér ekki saman um að fordæma framferði þeirra.

Virðulegi forseti. Ég vil því spyrja forsætisráðherra hvað ríkisstjórnin hafi í hyggju á komandi dögum og vikum því að tími til aðgerða styttist á degi hverjum. Að sama skapi stækkar sá hópur sem þarf nauðsynlega á aðstoð og aðgerðum að halda. Spurningarnar eru þessar: Hvernig hyggst ríkisstjórnin verja hag heimilanna? Hvernig á að gera fólki kleift að halda í þak yfir höfuðið á fjölskyldum sínum? Hvað hyggst ríkisstjórnin skapa mörg störf á næstu mánuðum og hvernig? Og að lokum: Hvaða fyrirtæki eiga að lifa og hvaða fyrirtæki eiga að deyja? Verður hugsanlega spurt um flokksskírteini þegar kemur að því vali eða aðild að einhverjum öðrum klúbbum?



[14:01]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hér margra spurninga um ástandið og það er gott að Framsóknarflokkurinn hefur áhuga á því að fylgjast með hvað er í gangi og jafnvel að leggja eitthvað af mörkum til að leysa málin. Það mátti skilja á hinum nýja formanni Framsóknarflokksins að hann vildi taka þátt í því og ég vona að það eigi við um alla aðra þingmenn flokksins.

Við kynntum í ríkisstjórninni skömmu fyrir jól aðgerðaáætlanir sem lúta bæði að fyrirtækjum og heimilum. Þau atriði sem þar voru tilkynnt eru smám saman að koma til framkvæmda. Sumt af því hefur þurft að leysa með lagasetningu og var gert fyrir jólin og er smám saman að sjá dagsins ljós. Eitt atriði kom fram í máli hæstv. dómsmálaráðherra áðan, frumvarp um greiðsluaðlögun, og margt fleira er í pípunum.

Auðvitað gerast þessir hlutir ekki á einni nóttu og ríkisstjórnin hefur ekki setið auðum höndum í jólaleyfi þingsins heldur hefur hún þvert á móti undirbúið fjölmörg mál eins og koma mun í ljós.



[14:02]
Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Helvítis lyddugangur er þetta. Hvað á fólk að standa lengi í mótmælastöðu úti á Austurvelli eða annars staðar í borginni? Þolinmæðin er á þrotum og ég held að við heyrum það í dag.

Að lokum vil ég fá að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hver ber ábyrgð á því ef eitthvað gerist hér úti núna? Sem valdalaus þingmaður hér innan dyra vil ég fá að vita hver ber ábyrgð á því vegna þess að ég vil ekki gera það.



[14:02]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gæta orða sinna og orðavals í þingsalnum. (Gripið fram í.)



[14:03]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Allir bera ábyrgð á sjálfum sér og allir verða að virða það þó að þeir séu að mótmæla að fara ekki yfir strikið í þeim mótmælum og huga að rétti náungans og gæta að sóma og virðingu Alþingis. Að öðru leyti treysti ég því að bæði mótmælendur og lögreglan komi fram af fyllstu sanngirni og skynsemi.