136. löggjafarþing — 69. fundur
 20. janúar 2009.
álit umboðsmanns um skipan dómara.

[14:03]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Fyrir rúmlega ári tók hæstv. fjármálaráðherra að sér að gerast setudómsmálaráðherra til að skipa fyrir um aðstoðarmann dómsmálaráðherra í embætti dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra. Af öllum málatilbúnaði er ljóst að aldrei stóð annað til af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins en að ráðstafa þessu embætti á forsendum flokksins en ekki með hliðsjón af faglegum kröfum og hæfni. Það kemur reyndar ekki á óvart úr ranni Sjálfstæðisflokksins sem umgengst stjórnsýsluna eins og hann eigi hana og lætur sér í léttu rúmi liggja þótt stjórnsýslulög séu brotin.

Nú liggur fyrir álit umboðsmanns Alþingis þar sem m.a. er sagt að miklir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hæstv. fjármálaráðherra. Þannig staðfestir umboðsmaður Alþingis það sem sagt var um málið í umræðum hér á Alþingi á síðasta þingi í kjölfar þessa dæmalausa ráðslags ráðherrans. Stjórnsýsla ráðherrans fær falleinkunn og til þessa hefur hann bara yppt öxlum og látið eins og ekkert hafi í skorist.

Það er bara engin þolinmæði í samfélaginu gagnvart svona stjórnsýslusubbuskap ráðamanna, ekki lengur. Í viðtali við Stöð 2 fyrir ellefu dögum sagðist ráðherrann ekki enn hafa mótað sér endanlega afstöðu til álitsins en hann muni skoða það og sjá svo til með framhaldið. Nú liggur fyrir að ráðherrann hefur farið á svig við stjórnsýslulög og misboðið réttlætiskennd almennings. Ég vil því krefja hæstv. fjármálaráðherra svara um hvort hann hafi ákveðið hvernig hann hyggst axla ábyrgð, hvort hann telji ráðherrum heimilt að fara á svig við stjórnsýslulög, hvort hann telji að dómara eigi almennt að skipa á pólitískum forsendum og hvort hann hyggist segja af sér vegna embættisafglapa.



[14:05]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég hef farið yfir þær athugasemdir sem umboðsmaður Alþingis gerir við málsmeðferð í þessu tiltekna máli. Þetta eru umhugsunarverðir hlutir sem hann nefnir, þetta eru álitamál sem þurfti að taka á þegar verið var að vinna málið. Í stjórnsýslurétti er unnið eftir almennum reglum en ekki eftir nákvæmum reglum og því þarf oft að kveða upp úr um hvernig eigi að gera hlutina og oft er ekki hægt að segja alveg fyrir um það fyrir fram hvernig nákvæmlega hefði átt að fara að.

Embætti umboðsmanns Alþingis hefur það hlutverk að hafa eftirlit með embættisfærslum í stjórnsýslunni og ef hann gerir athugasemdir við þær þá tökum við tillit til þess í embættisfærslum okkar í framtíðinni. Í þessu máli sér hann annmarka en hann hefur hins vegar ekki kveðið upp úr um embættisfærsluna sjálfa eða niðurstöðuna. Og ég segi það, og ég hef gert það undantekningalaust, að þegar athugasemdir hafa borist frá umboðsmanni Alþingis hef ég leitast við það í framhaldinu að fara eftir þeim og haga embættisfærslunum í þá veru eins og hann túlkar stjórnsýslulögin sem þar er um að ræða. (Gripið fram í: Ætlarðu að segja af þér?)



[14:07]
Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að hér sé um álitamál að ræða en ég segi: Nei, hér er ekki um neitt álitamál að ræða. Hér er alveg augljóst að ráðherrann hefur farið á svig við stjórnsýslulög og þetta er ekki fyrsta og áreiðanlega ekki síðasta ofanígjöf sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fá frá umboðsmanni Alþingis ef þeir eiga eftir að sitja lengur við völd, sem vonandi verður ekki. Hæstv. forsætisráðherra fékk ofanígjöf frá sama umboðsmanni Alþingis fyrir stuttu vegna skorts á auglýsingu starfa.

Ég tel að það sé ótrúleg ósvífni hjá hæstv. fjármálaráðherra að svara með þeim hætti sem hann gerir. Hann skeytir hvorki um skömm né heiður en langlundargeð þjóðarinnar er hins vegar algerlega þrotið. Það hefur kannski farið fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar. Ég tel að þetta sé enn eitt dæmið um að Sjálfstæðisflokkurinn umgengst umboð sitt og vald og stjórnsýsluna eins og hann eigi hana sjálfur en það er misskilningur og ráðherrann á að sjá sóma sinn í því að axla pólitíska ábyrgð á þessum embættisafglöpum. Það lá ljóst fyrir alveg frá upphafi hvernig hann hugðist haga stjórnsýslunni, (Forseti hringir.) embættisskipun í þessu máli, og það var ljóst af þeim svörum sem hann gaf skriflega á Alþingi þegar um þetta var spurt en þá kom í ljós að hann hafði engan tíma tekið til þess að skoða gögn málsins og skipaði (Forseti hringir.) fyrrverandi aðstoðarmann dómsmálaráðherra í embættið.



[14:08]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það var út af fyrir sig nægur tími til þess að vinna málið en eins og hv. þingmaður sjálfsagt veit taldi umboðsmaður Alþingis að þeir annmarkar sem hann talar um á málinu væru ekki þess eðlis að þeir leiddu til ógildingar á embættisverkinu, sem út af fyrir sig segir sína sögu.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að þegar verið er að skipa menn í embætti þarf alltaf að taka afstöðu til ákveðinna hluta og það þarf ráðherrann sem skipar í embættið að gera og ég gerði það. Það lá ekki í augum uppi að athugasemdir gætu verið gerðar við þá hluti sem þar var um að ræða. Þegar athugasemdir umboðsmannsins (Gripið fram í.) liggja fyrir eftir á verða þær auðvitað hafðar til hliðsjónar og farið eftir þeim í framtíðinni þegar sams konar verk verða unnin. En eins og ég sagði áðan taldi umboðsmaður þetta ekki leiða til ógildingar á verkinu, og, herra forseti, ég hef ekki hugsað mér að segja af mér vegna þessa.