136. löggjafarþing — 69. fundur
 20. janúar 2009.
um fundarstjórn.

mál á dagskrá – framhald þingfundar.

[14:17]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því að alvarlegar athugasemdir hafa verið gerðar við dagskrána sem liggur fyrir fundinum og þá kannski sérstaklega við mál nr. 4 á dagskránni, frumvarp sem ég flyt ásamt 14 öðrum þingmönnum á hinu háa Alþingi og varðar sölu áfengis og tóbaks. Kvartað hefur verið yfir því að óeðlilegt sé að þetta mál sé rætt miðað við aðstæðurnar sem uppi eru.

Þetta mál var lagt fram á fyrsta degi þingsins, áður en fjármálakerfið hrundi. Ég get fallist á að það er ekki brýnasta viðfangsefni stjórnmálanna í dag, ekki frekar en ýmis önnur mál sem eru á dagskránni, eins og mál nr. 7 um tóbaksvarnir eða mál nr. 10 um skipafriðunarsjóð. Ég viðurkenni það og hygg að aðrir hv. þingmenn sem flytja málið með mér telji að hér þurfi að ræða önnur og brýnni viðfangsefni og ég get lýst því yfir sem 1. flutningsmaður málsins að mér finnst sjálfsagt að fresta umræðu um þingmálið og taka það fyrir síðar. Ef það verður til að greiða fyrir þingstörfum og skapa ekki úlfúð á þinginu, (Forseti hringir.) þá er það mér algerlega að meinalausu að við frestum umræðu um málið og ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti taki beiðni mína til góðfúslegrar skoðunar.



[14:18]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson vera mann að meiri að hafa komið í ræðustól Alþingis og óskað eftir því sjálfur að þetta fáránlega mál, vil ég segja, sem hér um ræðir verði tekið af dagskrá.

Ég vil segja við hæstv. forseta að umræðan það sem af er fundinum færir mér heim sanninn um það að hæstv. forseti geri það eitt rétt í málinu, eins og ástandið er nú fyrir utan húsið og inni í því, að fresta fundinum í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra hefur gefið yfirlýsingu um að ríkisstjórnin hafi nýtt jólaleyfið vel og undirbúið fjölmörg mál. Ég tel að Alþingi og þjóðinni yrði sýndur sómi og virðing, eins og hæstv. forsætisráðherra bað um að yrði gert, með því að fresta fundinum og taka fyrir þau brýnu mál sem þjóðin vill að verði rædd þegar og ef þetta Alþingi kemur saman aftur. Eða forseti setjist niður með ríkisstjórninni og leiði henni fyrir sjónir (Forseti hringir.) að hún er rúin trausti og henni ber að víkja.



[14:20]
Forseti (Sturla Böðvarsson):

Vegna orða hv. þingmanns ítrekar forseti að haft var samráð í dag um dagskrána og ekki liggur annað fyrir en að við höldum áfram fundi í dag. (Gripið fram í: Hann mótmælti. Það kom fram í ræðu áðan.)



[14:20]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ítrekað hafa þingmenn talað um að mál þeirra fáist ekki rædd. Hér er ég með eitt mál á dagskrá um tóbaksvarnir ríkisins og get tekið undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að ég tel að brýnna sé að ræða ýmis önnur mál en það eða málið sem hann er 1. flutningsmaður að þannig að mér væri að meinalausu þó að önnur mál kæmu frekar í forgang. En það er einu sinni þannig að gengið er frá dagskrá Alþingis með ákveðnum fyrirvara og málefni þingmanna eiga líka rétt á því að fást rædd. Ekki er hægt að halda því fram eins og Vinstri grænir hafa gert að mál frá ríkisstjórninni eigi að hafa forgang. Hvers konar þingræði erum við að tala um? Að sjálfsögðu verða þingmenn að fá að ræða mál sín hversu mikilvæg (Gripið fram í.) eða ómerkileg sem ykkur finnst þau vera. Það er bara einu sinni þannig að þingmenn eiga þann rétt. Þetta er málstofa þingsins og þingið er rödd þjóðarinnar hvort sem fólki líkar það betur eða verr á meðan það situr að störfum.



[14:21]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Forseti. Í upphafi þingfundar kom fram að dagskrá fundarins sem við ræðum nú var kynnt á fundi með formönnum þingflokka kl. 13 en eins og menn vita hófst þingfundur kl. 13.30. Þetta er samráðið sem verið er að ræða og á þeim fundi gerði þingflokksformaður Vinstri grænna að sjálfsögðu athugasemdir við þessa fáránlegu dagskrá og það hefur komið fram (Gripið fram í: Hann gerði athugasemd við eitt mál.) — hann gerði athugasemd við eitt mál sem nú hefur eðlilega verið tekið af dagskránni. (Gripið fram í.) Ég er mjög sátt við það en ég yrði sáttari ef ríkisstjórnin þyrði að koma fram með mál sín og standa fyrir þeim, standa fyrir málum sínum, koma með þau bjargráð — þau segjast vera að moka skafl, yfir hvað eru þau að moka? Burt með þau. Þetta er vanhæf ríkisstjórn. (Gripið fram í.)



[14:23]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseta er það auðvitað alveg jafnljóst og okkur hinum sem sitjum í þessum sal að hvorki er vinnufriður né andrúmsloft til að vinna í húsinu í dag. Ég óska eftir því að hæstv. forseti sýni þjóðinni sem stendur fyrir utan húsið og ber bumbur þann skilning að fresta fundinum hér og nú. Þetta er vanhæf ríkisstjórn sem fólkið úti mótmælir. Við eigum að sýna fólkinu, sem þarna stendur og er íslenska þjóðin, skilning og virðingu. Við erum kosin af því og við getum alveg sest niður yfir það hvort við setjum ekki betri dagskrá þar sem rædd verða brýnni málefni en þau sem hér á að ræða.

Hæstv. forseti. Ég tel vinnufriðinn vera úti í dag. Ég verð að segja fyrir sjálfa mig að ég hef ekki lyst á að sitja hér mikið lengur í dag. Ástandið er með þeim hætti, bæði fyrir utan húsið og inni í því, að ég tel það sanngjarna ósk að hæstv. forseti fresti fundinum.



[14:24]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að við hljótum að geta orðið sammála um að heldur óskemmtilegar aðstæður eru til að halda fram fundi. Hörð mótmæli þúsunda eru allt í kringum Alþingishúsið, táragasi hefur verið beitt og fólk hefur verið handtekið og hér heyrist varla mannsins mál þannig að ég held að forseti ætti að íhuga mjög vel hvort ekki væri hyggilegt að taka af dagskrá fundarins þau mál sem þar eru enn og standa öðruvísi að upphafi funda í framhaldinu.

Ég vil hrósa hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að draga mál sitt af dagskrá og hef velt fyrir mér hvort hann eða einhverjir af flutningsmönnum málsins hafi velt fyrir sér að afturkalla stuðning sinn við málið í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Því miður er ærin ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig ástandið í þjóðfélaginu kemur til með að verka bæði félagslega og andlega. Eitt af því sem mjög margir hafa áhyggjur af er hætta á auknu heimilisofbeldi og hlutum af því tagi sem varla stendur til (Forseti hringir.) að bæta með því að setja brennivín í allar búðir landsins þannig að ég skora á hv. þingmenn, flutningsmenn þessa máls, hvern fyrir sig og alla í senn (Forseti hringir.) að velta nú fyrir sér hvort þeir geti ekki séð sóma (Forseti hringir.) sinn bestan í því að afturkalla stuðning sinn við málið.



[14:25]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvað fellur undir liðinn Fundarstjórn forseta. Hér hafa menn komið og beðið um að mál verði tekin af dagskrá og ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir að hafa forgöngu um að taka 4. mál af dagskrá og styð það heils hugar en ég spyr hæstv. forseta hvort ekki sé tímabært að við ræðum hvað eigi að ræða undir Fundarstjórn forseta því algerlega kýrskýrt er að það sem hér hefur verið rætt á ekkert skylt við fundarstjórn forseta. (Gripið fram í: Á ekkert skylt við fundarstjórn forseta. Vanhæf ríkisstjórn.)