136. löggjafarþing — 75. fundur
 5. feb. 2009.
starfsemi St. Jósefsspítala.

[10:42]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Fyrrum heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, tók þá ákvörðun í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að loka St. Jósefsspítala og koma þar fyrir öldrunarþjónustu og flytja starfsemina sem þar var bæði á sjúkrahúsið í Reykjanesbæ og á Landspítalann. Þessi ákvörðun var tekin í mjög miklum flýti og án samráðs við hagsmunaaðila. Meðal annars var ekki haft samráð við Hafnarfjarðarbæ þótt hann eigi 15% í sjúkrahúsinu. Það er rétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson benti á á mjög fjölmennum borgarafundi í Hafnarfirði að þingmenn fréttu af þessari ákvörðun í fjölmiðlum.

Fráfarandi ráðherra gat ekki gefið nein skýr svör við þessari ákvörðun og ekki hafa komið fram upplýsingar um að þetta leiði til neinnar hagræðingar. Það hafa því ekki komið fram skýringar á þessari ákvörðun en eins og við vitum þarf að hagræða alls staðar, líka í heilbrigðiskerfinu. Á St. Jósefsspítala fer fram mjög mikilvæg starfsemi á sviði meltingarfærasjúkdóma og þar er grindarbotnsteymi sem hefur verið starfandi í 13 ár og hefur hjálpað mjög mörgum konum. Þetta teymi er eina sinnar tegundar í landinu og ef starfsemi spítalans leggst af splundrast það og við vitum ekki hvernig þessari þjónustu verður fyrir komið í framhaldinu. Bandalag kvenna í Hafnarfirði hefur mótmælt þessari aðgerð og staðið fyrir undirskriftasöfnun og 75% íbúa í Hafnarfirði hafa skrifað undir. Það er þverpólitísk samstaða allra flokka í bænum gegn ákvörðuninni. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra Ögmund Jónasson sem sat samráðsfund ásamt þingmönnum Suðvesturkjördæmis og aðgerðahópnum stöndum vörð um St. Jósefsspítala út í hver næstu skref verða. Hvað nú, hæstv. heilbrigðisráðherra? Hvað verður um ákvörðunina að loka St. Jósefsspítala?



[10:44]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Það er rétt hjá hv. þingmanni að óvissa ríkir um framtíð St. Jósefsspítala og ég lít á það sem forgangsverkefni hjá mér að greiða úr þeim málum þannig að óvissan víki og menn viti hvert stefni.

St. Jósefsspítali er hafnfirskt sjúkrahús og þannig líta íbúarnir á málin. Af þeim sökum byrja ég á því að eiga viðræður við forsvarsmenn Hafnarfjarðarbæjar og bæjarstjórann í Hafnarfirði og leita eftir samstarfi um framtíðarlausn sjúkrahússins við hann og bæjaryfirvöld. Í öðru lagi hef ég boðað á minn fund fulltrúa þeirra hollvinasamtaka sem hv. þingmaður vísar til. Sá fundur fer fram núna síðdegis. Ég mun einnig eiga viðræður við starfsfólk á St. Jósefsspítala til að heyra sjónarmið þess.

Vandinn er sá að því miður hefur allt of títt verið ráðist í umfangsmiklar breytingar án þess að leitað sé samráðs við þá sem málin snerta með viðunandi hætti. Síðan er hitt að þessi mál þarf að sjálfsögðu að skoða í víðara samhengi út frá þjónustunni sem þessi spítali og önnur sjúkrahús á þéttbýlissvæðinu hér eiga að veita. Þannig þarf að leita til annarra stofnana einnig. Ég horfi t.d. til Landspítalans og möguleika á að samnýta þjónustu innan kerfisins almennt. Síðan er á hitt að líta að við þurfum að skoða gaumgæfilega hvernig við förum með fé úr okkar sameiginlegum sjóðum. Þegar horft er til heilbrigðisþjónustunnar eru 70% útgjaldanna launagreiðslur. Að sjálfsögðu mun ég fara í saumana og er að fara í saumana á því hvernig farið er með skattfé inni á þessari stofnun. Auðvitað þurfum við að skoða það. Ég hef sagt í þeim þrengingum sem við stöndum frammi fyrir að krafan á þjóðfélagið núna og stjórnvöld er að jafna kjörin. Það mun ég hafa að leiðarljósi þegar ég tek á þessu málum sem öðrum.



[10:47]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að hafa samráð um þessa ákvörðun. Það er þannig að sjúkrahúsið er staðsett í Hafnarfirði en þetta er ekki hafnfirsk þjónusta, þetta er þjónusta fyrir alla landsmenn, bæði á sviði meltingarfærasjúkdóma og eins og ég nefndi hér áðan grindarbotnsteymið er það eina sinnar tegundar í landinu. Þetta sjúkrahús þjónar öllum landsmönnum.

Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að hafa hraðar hendur. Þrátt fyrir að hann ætli að hafa samráð er alveg ljóst að það þarf að kveða upp úr um framtíð St. Jósefsspítala fljótt og vel, það er vont að hafa þessa óvissu hangandi yfir. Hæstv. ráðherra gat tekið ákvörðun á fyrsta degi í starfi varðandi það að leggja af innritunargjöldin þannig að ég skora á hæstv. ráðherra að taka þessa ákvörðun fljótt og vel að gefnu samráði, ekki liggja lengi yfir þessu, og eyða óvissunni sem fyrst.



[10:48]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek hjartanlega undir þessi sjónarmið, það þarf að eyða óvissunni sem fyrst. Ég mun hafa að leiðarljósi það sem ég nefndi í mínu fyrra svari, að leggja upp úr samráði, en ég legg áherslu á að ég hef að sjálfsögðu líka mína pólitísku sýn við lausn vandans og hún byggir á því að fara vel með skattpeninga, að jafna kjörin, en ofar öllu öðru ætlum við að sjálfsögðu að veita Hafnfirðingum þá þjónustu sem þeir óska eftir. Við munum hins vegar gera það á eins hagkvæman máta fyrir skattborgarann og nokkur kostur er.