136. löggjafarþing — 75. fundur
 5. feb. 2009.
handfæraveiðar.

[10:49]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um hvað hann hyggist fyrir að því er það varðar að veita aukið frelsi til handfæraveiða.

Nú hagar málum þannig í okkar landi að á engu liggur meira en að reyna að auka atvinnu og ekki verður um það deilt að handfæraveiðar eru svokallaðar vistvænar veiðar. Þær hreyfa ekki við botninum og með þeim er eingöngu veiddur fiskur að því gefnu að fiskurinn sé sjálfur tilbúinn að fara á krók. Þeir sem hafa stundað sjó, m.a. sá sem hér stendur, og ég hygg að hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála hafi einnig farið á handfæri í Þistilfirðinum, út frá Gunnarsstöðum og víðar, hafa upplifað það að þó að menn setji króka í sjó bítur fiskurinn ekki suma daga. Þær tillögur sem við höfum gert í Frjálslynda flokknum, að hér verði leyfðar afar takmarkaðar handfæraveiðar en þó öllum heimilar sem hafa til þess rétt og báta, atvinnuréttindi til að sigla þeim, og með mikilli takmörkun á afkastagetu með takmarkaðan fjölda handfærarúlla og einnig þann mannskap sem megi vera á viðkomandi bát, geta létt á því ástandi í atvinnumálum víða á landsbyggðinni og í sjávarbyggðunum sem er að skapast. Við skulum ekki gleyma því að fjöldi manna sem starfaði á byggingarmarkaði í Reykjavík er menn sem voru áður á sjó, kunna til verka og hafa þessi réttindi.

Ég spyr því hvaða afstöðu ráðherrann hafi til þess að skoða þessi mál upp á nýtt og taka afstöðu til m.a. þeirrar tillögu okkar að heimila handfæraveiðar takmarkaðar (Forseti hringir.) frá apríl til október.



[10:51]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni fyrir spurninguna. Við höfum oft rætt þessi mál og þar á meðal og ekki síst þetta sem hann tekur hér upp, hvort möguleikar eru til að ýta undir og örva handfæraveiðar, svona neðsta lagið í útgerðinni ef svo má að orði komast. Það hefur margar kosti, það gagnast minni og minnstu sjávarbyggðunum, það eru vistvænar veiðar, orkukostnaður er lítill og því fylgir mikil atvinnusköpun þannig að það er að sjálfsögðu freistandi hugsun að reyna að stuðla að slíkri þróun.

Hvað hægt er að gera á innan við 80 dögum í þessum efnum er hins vegar erfitt að segja. Ég hef fyrst og fremst velt fyrir mér möguleikum á aðgerðum sem gætu strax komið að gagni innan gildandi fiskveiðiárs og tengjast hlutum eins og óunnum afla, að hann verði meira unninn innan lands, að hráefnið berist að landi sem ekki er aðgengilegt í dag og fleira í þeim dúr. Úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er að vísu ólokið og ég þarf að fara yfir hvort þar eru einhverjir möguleikar sem tengjast þeim hlutum sem hv. þingmaður nefnir. Fram undan er að funda með greininni, bæði samtökum útgerðarmanna og smábáta, og þar ber þessa hluti eflaust á góma.

Varðandi stöðu þessara mála í heild er ástæða til að vekja athygli á því að fráfarandi ríkisstjórn hafði ætlað sér að skipa nefnd til að endurskoða löggjöfina og fiskveiðistefnuna en sú nefnd komst aldrei á koppinn þó að ríkisstjórnin lifði nú þetta. Þegar hana þraut örendið mun hafa verið í undirbúningi að koma þessari nefnd af stað, hraðinn á þeim málum var ekki meiri í tíð fráfarandi stjórnar. Hvað gerist á þeim skamma tíma sem nú fer í hönd fram að kosningum verður að koma í ljós en augljóst mál er að það verður eitt af stórum viðfangsefnum nýrrar ríkisstjórnar og Alþingis á nýju kjörtímabili að fara yfir þessi mál í heild sinni.



[10:53]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir þessi svör en vek hins vegar athygli á því að hafi einhvern tíma verið þörf á því að taka til hendinni við að búa til atvinnutækifæri fyrir landsmenn er það núna þegar 13.000 manns eru atvinnulaus. Ef við gætum búið til kannski 100–200 störf við takmarkaðar handfæraveiðar á tímabilinu frá apríl til október held ég að það mundi líka létta á stöðu mála í landinu. Ég skora á hæstv. sjávarútvegsráðherra að taka þessi mál til gaumgæfilegrar athugunar með það að markmiði að taka ákvörðun fyrir þetta tímabil sem fram undan er, sem ég hygg að verði erfiðasta tímabilið í sögu okkar við að fylgjast með því hvernig atvinnuleysi hefur þróast og reyna að koma í veg fyrir að það haldi áfram í sömu veru og það hefur verið að þróast.



[10:54]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi útgerð mína og fiskveiðar á Lómafirði er rétt að taka fram til að forðast allan misskilning og hugmyndir um hagsmunaárekstur (Gripið fram í.) að hún er í ákaflega smáum stíl. Það er róið á litlu horni kannski nokkrum sinnum á sumri til að fá sér í soðið.

Ég tek áskorun hv. þingmanns vel og ég mun fara yfir þetta mál. Ég vil líka gjarnan eiga gott samstarf við sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um það. Mér finnst sjálfsagt mál að hafa samráð við nefndina um t.d. það sem fram undan er og lýtur að úthlutun byggðakvótans á yfirstandandi fiskveiðiári. Slík úthlutun hefur verið mjög seint á ferðinni að undanförnu og það er bagalegt. Auðvitað væri miklu betra að skýrar reglur lægju fyrir í upphafi fiskveiðiárs um það m.a. hvernig með þennan hluta veiðiheimildanna er farið og talsverðar deilur hafa verið um þá framkvæmd þó að það hafi kannski færst í fastara form að undanförnu. Það svigrúm sem ég sé (Forseti hringir.) tengist þá fyrst og fremst þeim möguleikum sem þar gætu legið vegna þess að það er það eina sem er óákvarðað á yfirstandandi fiskveiðiári.