136. löggjafarþing — 75. fundur
 5. feb. 2009.
greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðisþjónustu.

[10:56]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska nýjum heilbrigðisráðherra, Ögmundi Jónassyni, til hamingju með nýtt og ábyrgðarmikið hlutverk og verkefni, og ríkisstjórninni allri óska ég farsældar í störfum sínum.

Fyrirspurn mín snýr að stöðu á þróun greiðsluþátttökukerfis almennings vegna heilbrigðisþjónustu en þar undir eru móttökugjöld, lyf, tannlæknakostnaður jafnvel og hjálpartæki. Það hefur verið unnið að þessu verkefni frá byrjun þessa kjörtímabils undir stjórn hv. þm. Péturs H. Blöndals og er óhætt að segja að hann hafi lagt nótt við dag í vinnu við þetta vandasama og mikilvæga verkefni. Með honum hefur starfað hópur karla og kvenna en varaformaður nefndarinnar er Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, nýr félags- og tryggingamálaráðherra.

Óhætt er að segja að miklar vonir og væntingar séu bundnar við þetta nýja kerfi og niðurstöðu þessarar vinnu en samkvæmt áætlunum fyrri ríkisstjórnar átti hið nýja greiðsluþátttökukerfi að geta tekið gildi 1. apríl nk. Í þessari vinnu hefur komið í ljós að greiðsluþátttaka almennings vegna heilbrigðisþjónustu er afar misjöfn. Dæmi eru um einstaklinga og fjölskyldur sem hafa þurft að bera óheyrilega mikinn kostnað vegna veikinda sem getur numið hundruðum þúsunda króna á ári. Samkvæmt niðurstöðum nefndarinnar báru um 500 manns á árinu 2007 yfir 250.000 kr. í kostnað vegna heilbrigðisþjónustu. Aðrir einstaklingar og fjölskyldur, jafnvel með jafnþungbæran langvinnan sjúkdóm og þeir sem hafa þurft að bera mikinn kostnað, þurfa á hinn bóginn að bera lítinn kostnað þannig að það er mjög mikið ójafnræði í þessu kerfi.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra um áform hans til að ljúka þessari mikilvægu vinnu og hvort dagsetningar sem settar hafa verið fram geti staðist.



[10:58]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vísa til þeirrar reynslu um dagsetningar að þær hafa ekki staðist. Settar hafa verið fram fjölmargar dagsetningar um nýtt kerfi sem ekki hafa reynst á rökum reistar. Það þekkir hv. þingmaður væntanlega af starfi í nefndinni.

Hins vegar vil ég segja að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur unnið ágætt starf og margt sem fram hefur komið í þessari nefnd er mjög til góðs. Ég þekki starfið af eigin raun, hef setið í nefndinni sjálfur. Hins vegar hefur verið ágreiningur um ýmis grundvallaratriði sem starfið hefur verið reist á. Menn hafa verið að reyna að jafna kjörin innan sjúklingahópsins og finna jafnræði innan hópsins, að sjúklingur sem greiði lítið verði látinn greiða meira til að draga úr kostnaði sjúklings sem er með miklar byrðar.

Ég hef hins vegar verið á því máli, og við höfum verið það mörg hver, að það beri að setja þak á greiðslu sjúklinga almennt og horfa þá til allrar heilbrigðisþjónustunnar. Sá þáttur í þessu starfi hefur verið mjög að mínu skapi. Hins vegar verð ég að segja að umræðan hefur beinst í farveg sem ég hef verið mjög gagnrýninn á, þ.e. að búa til ákveðinn grunn en opna síðan á markaðsvætt kerfi. Þetta er nokkuð sem ég hef verið gagnrýninn á. Ég vil taka það besta úr þessu starfi og beina því í ásættanlegri farveg en þetta starf hefur verið að þróast í.



[11:00]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að svörin voru ekki mjög skýr og raunar með þeim hætti að ég óttast að þetta kerfi taki ekki gildi fyrr en mun seinna en áætlað var. Nú veit ég í sjálfu sér ekki stöðu verkefnisins akkúrat í dag, en hefði talið að það væri komið nægilega langt til að hægt væri að hrinda því í framkvæmd.

Ég verð að benda á að verulegar miklar væntingar eru gerðar til kerfisins. Það veldur mér vonbrigðum ef hæstv. ráðherra ætlar að taka þá afstöðu að sjúkdómsgreining eigi að skipta máli í sambandi við kostnað sjúklinga. Að sjúklingar sem þjást af ólíkum sjúkdómum geti þurft að greiða mismikið, þótt sjúkdómarnir séu jafnþungbærir og langvinnir.

Mér finnst þetta vera röng nálgun hjá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) og vona að hann hugleiði það og hafi kjark til að takast á við verkefnið þannig að það leiði til aukins jafnræðis í heilbrigðisþjónustu.



[11:01]
heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta var ágæt sýnikennsla og til vitnis um þá umræðu sem fram hefur farið í nefndinni. Þ.e. sú hugmynd að jafna kjörin innbyrðis milli sjúklinga. Ég hef viljað horfa til samfélagsins alls. Til þeirra sem hafa enga sjúkdóma og eru aflögufærir og geta greitt inn í kerfið. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið talsmenn þess að greitt sé fyrir heilbrigðiskerfið í gegnum sameiginlega sjóði okkar sem skattgreiðenda. Það er okkar hugsun.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á öðru máli og vill bíða með að rukka fólk þangað til eftir að það veikist. Þá er fólk hins vegar ekki jafnaflögufært eins og þegar það hefur fulla heilsu og stundar atvinnu. Í þessum orðum hv. þingmanns birtist kjarnlægt munurinn á þeirri (Forseti hringir.) frjálshyggjustefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur viljað innleiða í heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) og þeim sjónarmiðum sem ég tala fyrir og byggja á samfélagslegum forsendum. (Forseti hringir.)