136. löggjafarþing — 75. fundur
 5. feb. 2009.
gjaldþrotaskipti o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 281. mál (greiðsluaðlögun). — Þskj. 507.

og 

gjaldþrotaskipti, 1. umræða.
frv. BBj o.fl., 278. mál (skuldaaðlögun). — Þskj. 497.

og 

greiðsluaðlögun, 1. umræða.
frv. SF o.fl., 275. mál (heildarlög). — Þskj. 494.

[11:15]
Forseti (Guðbjartur Hannesson):

Með vísan til 4. mgr. 63. gr. þingskapa er óskað eftir að 2.–4. dagskrármálið verði rædd saman, þ.e. gjaldþrotaskipti o.fl., sem er stjórnarfrumvarp, gjaldþrotaskipti, sem er þingmannafrumvarp, og greiðsluaðlögun, sem er jafnframt þingmannafrumvarp. Ef enginn hreyfir mótmælum verða þessi mál rædd öll saman. Svo er ekki.



[11:16]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði sérstakt úrræði fyrir einstakling sem er ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð til að endurskipuleggja fjármál sín með aðstoð umsjónarmanns. Nánar tiltekið felst í þessu úrræði að skuldara sem er ógreiðslufær er gert auðveldara fyrir að leita nauðasamninga og er gert ráð fyrir ýmsum nýmælum því til stuðnings.

Einstaklingar hafa nú þegar heimild til að leita nauðasamninga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þó hafa ekki verið mikil brögð að því hingað til að einstaklingar í verulegum greiðsluerfiðleikum hafi nýtt þetta úrræði. Til að greiða fyrir því voru árið 1996 sett lög um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga. Þrátt fyrir þetta hefur árangurinn ekki verið í samræmi við væntingar og færri einstaklingar leita eftir réttaraðstoð en ætla mætti og í framhaldinu fengið nauðasamning við kröfuhafa staðfestan.

Vegna þess ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum með tilheyrandi greiðsluvanda hjá stórum hópi manna þykir nauðsynlegt að tryggja þessum hópi virkara úrræði við að endurskipuleggja fjármál sín og ná sátt við kröfuhafa um endanlegt uppgjör skulda í samræmi við greiðslugetu þeirra og forðast þannig gjaldþrot.

Ákvæði frumvarpsins standa í nánum tengslum við reglur III. þáttar gjaldþrotaskiptalaga um nauðasamninga. Gert er ráð fyrir að um greiðsluaðlögun gildi almennar reglur laganna um nauðasamninga að því marki sem ekki er vikið frá þeim með ákvæðum frumvarpsins. Þau frávik hafa það meginmarkmið að greiða sem best fyrir að raunhæft úrræði standi til boða fyrir þann hóp einstaklinga sem á því þarf að halda. Greiðsluaðlögun nær fyrst og fremst til einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur. Þó getur úrræðið einnig náð til einstaklinga sem stundað hafa atvinnustarfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er það nýmæli að greiðsluaðlögun geti náð til veðskulda í afmörkuðum tilvikum og verður nánar vikið að því á eftir. Að öðru leyti eru frávik frá hefðbundnum reglum um nauðasamningsumleitan þessi:

Í fyrsta lagi verði vikið frá þeim reglum sem gilda um undirbúning af hálfu skuldara áður en hann getur sett fram beiðni um að leita nauðasamnings. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að skuldari þurfi að afla skriflegrar yfirlýsingar um meðmæli lánardrottna um nauðasamning. Með þessu er málsmeðferðin gerð mun auðveldari fyrir skuldara. Þá er lagt til að skuldari leggi fram greiðsluáætlun í stað frumvarps að nauðasamningi en með því móti er frekar unnt að taka mið af einstaklingsbundnum sjónarmiðum.

Í öðru lagi er ekki gert ráð fyrir því að það velti á afstöðu lánardrottna hvort greiðsluaðlögun komist á.

Í þriðja lagi er lagt til að kostnaður við að koma á greiðsluaðlögun greiðist úr ríkissjóði. Er þar fyrst og fremst um að ræða kostnað vegna vinnu umsjónarmanns með greiðsluaðlöguninni. Jafnframt hefur frumvarpið að geyma heimild fyrir dómsmálaráðherra til að ákveða með reglugerð að boðið verði upp á endurgjaldslausa aðstoð við að undirbúa beiðni um greiðsluaðlögun.

Þær meginreglur sem lagt er til að gildi fyrir greiðsluaðlögun eru eftirfarandi:

1. Greiðsluaðlögun er aðallega ætlað að vera úrræði fyrir almenna launþega og því er gerð sú krafa að viðkomandi skuldari hafi ekki undangengin þrjú ár borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi. Þó er sú undantekning að ef einstaklingur er hættur atvinnurekstri og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum sem hann stundaði eru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans, þá kemur það eitt og sér ekki í veg fyrir það að hann leiti eftir greiðsluaðlögun.

2. Greiðsluaðlögun nær til svonefndra samningskrafna en með því er átt við allar kröfur á hendur skuldara aðrar en þær sem eru undanþegnar áhrifum af nauðasamningi eða falla niður við staðfestingu hans og gerð er grein fyrir í 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Á meðal þeirra krafna sem þar eru taldar eru kröfur sem njóta tryggingar í eignum skuldara, svo sem kröfur sem tryggðar eru með veði í fasteign skuldara.

Vegna hins sérstaka ástands sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar og snertir fjárhag fjölmargra einstaklinga og heimila í landinu er í frumvarpi þessu lagt til í ákvæði til bráðabirgða að þrátt fyrir þetta verði unnt að gera breytingar á skilmálum krafna sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í ríkiseigu. Það er þó gert að skilyrði að umræddar kröfur séu tryggðar með veði í íbúðarhúsnæði sem er ætlað til eigin nota skuldara. Þannig verði unnt að breyta skilmálum þess hluta skuldarinnar sem fellur innan verðmats fasteignarinnar en sá hluti sem út af stendur greiðist á sama hátt og samningskröfur. Þar sem um frávik frá meginreglu 28. gr. fyrrnefndra laga er að ræða og þess að einungis er um að ræða kröfur í eigu stofnana eða fyrirtækja í eigu ríkisins og að um tímabundið ástand í efnahagsmálum er vonandi að ræða, er eins og fram hefur komið lagt til að umrætt ákvæði sé til bráðabirgða sem ber að endurskoða fyrir 1. janúar 2011.

Til að skuldari geti leitað nauðasamnings um greiðsluaðlögun þarf hann að sýna fram á að hann sé ógreiðslufær. Því verður skuldari að gera beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ásamt greiðsluáætlun og gögnum sem hún styðst við. Í greiðsluáætluninni eiga að koma fram sundurliðaðar upplýsingar um öll þau atriði sem hafa fjárhagslega þýðingu fyrir skuldarann og niðurstaða sem leidd er af þeim um hvaða fjárhæð hann hafi úr að spila við að greiða samningskröfur. Í 38. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. er gerð grein fyrir atriðum sem komið geta í veg fyrir að skuldari fái heimild til að leita nauðasamnings. Þau atriði eiga einnig við um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Til viðbótar þessum skilyrðum er í frumvarpinu gerð grein fyrir nokkrum atriðum er helst varða það hvernig skuldari hefur hagað sínum fjármálum og leitt geta til þess að dómari hafni beiðni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Á það er þó lögð áhersla að nokkuð þarf að koma til svo skuldara verði synjað um heimild til greiðsluaðlögunar vegna þessara atriða.

Ef héraðsdómari fellst á beiðni skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar kveður hann upp úrskurð þess efnis og skipar umsjónarmann með greiðsluaðlöguninni. Hlutverk umsjónarmannsins er að halda utan um ferlið og aðstoða skuldara við að koma á sátt við kröfuhafa um uppgjör skulda hans. Hann tekur rökstudda afstöðu til þess hvort hann mælir með því að greiðsluaðlögun komist á og þarf því ekki að leita samþykkis kröfuhafa eins og í hefðbundnum nauðasamningsumleitunum. Mæli umsjónarmaður með greiðsluaðlögun leggur hann fyrir héraðsdóm kröfu um staðfestingu þar um. Verði sú krafa staðfest af dómara hefur það sömu réttaráhrif og réttarsátt milli skuldarans og lánardrottna hans.

Virðulegi forseti. Kjarni þessa máls er sá að einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum verði gert kleift að endurskipuleggja fjármál sín og komast þannig hjá gjaldþrotaskiptum. Markmið eða úrræði nýtist þeim einstaklingum sem mjög illa eru staddir. Aðalatriðið er að auðvelda þeim að sækja um greiðsluaðlögun og veltur því mikið á að framkvæmd laganna, ef samþykkt verða, verði með þeim hætti að skuldarar geti nýtt sér úrræði. Gert er ráð fyrir að Ráðgjafarstofa heimilanna komi að þessu þegar í byrjun þannig að einstaklingar í fjárhagsvanda leiti þangað og fái leiðbeiningar og aðstoð við að fylla út beiðni og fylgigögn. Af þessu hlýst viðbótarkostnaður fyrir ráðgjafarstofuna sem ræðst vitaskuld af þeim málafjölda sem upp kemur. Er nánar gerð grein fyrir þessum þætti málsins svo og öðrum kostnaðarauka ríkissjóðs í kostnaðarumsögn í fylgiskjali með frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[11:24]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með nýja embættið. Mig langar til að spyrja hana einnar spurningar. Spurningin er um það hver sé hinn efnislegi munur á því frumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra mælti fyrir og því frumvarpi sem hv. þm. Björn Bjarnason flytur á þskj. 497. Þegar maður flettir þessum tveimur frumvörpum í gegn saman verður ekki betur séð en frumvarp hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrum dómsmálaráðherra, hafi verið tekið af nýrri ríkisstjórn, ljósritað og orðinu skuldaaðlögun breytt í greiðsluaðlögun. (Gripið fram í.) Þetta er frumvarp sem samþykkt hafði verið út úr fyrri ríkisstjórn, samþykkt út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins en var tekið í gíslingu í þingflokki Samfylkingarinnar í fyrra stjórnarsamstarfi. Nú er það lagt fram óbreytt með breyttri fyrirsögn og hæstv. ríkisstjórn lætur líta svo út að hér sé um nýtt mál að ræða. Í minni sveit var þetta kallað að skreyta sig með stolnum fjöðrum en látum það liggja á milli hluta. (Gripið fram í.) Ég vil fá að heyra það frá hæstv. dómsmálaráðherra hver er hinn efnislegi munur á því frumvarpi sem hún mælti fyrir og því frumvarpi sem hv. þm. Björn Bjarnason og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins flytur á þskj. 497. Ég veit að hæstv. dómsmálaráðherra getur svarað þessari spurningu því á meðan þetta frumvarp var til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu í ráðherratíð hv. þm. Björns Bjarnasonar var hæstv. dómsmálaráðherra settur ráðuneytisstjóri í því ráðuneyti. (Gripið fram í: Er þetta ekki höfundareign?)



[11:27]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Víst er það að þessi tvö mál eru áþekk. Upphaflega voru frumvarpsdrögin samin af réttarfarsnefnd að tilhlutan þáverandi dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið. Meginbreytingar frá fyrri frumvarpsdrögum eru þau að gildissvið laganna er víkkað að því leyti að áður átti það einungis að ná til einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur en opnað er á að það nái í afmörkuðum tilvikum til einstaklinga sem hafa stundað atvinnurekstur auk þess sem sú grundvallarbreyting er lögð til að þetta úrræði nái einnig til veðkrafna sem er óvenjulegt en það nær þá til veðkrafna vegna lána fyrir íbúðarhúsnæði hjá lánastofnunum í eigu ríkisins. (Gripið fram í: Og hafðu það.) (Gripið fram í: Þú átt að lesa áður en þú ferð í ræðustól.)



[11:28]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil biðja hæstv. forseta að reyna að setja bönd á hæstv. utanríkisráðherra (Gripið fram í.) sem lætur hér eins og bestía og hefur uppi þannig orðalag að það er hvorki honum, ríkisstjórninni né þinginu sæmandi þegar verið er að spyrja málefnalegra spurninga.

(Forseti (GuðbH): Ég vil biðja hv. þingmenn að veita hv. þingmanni tækifæri til að svara.)

Herra forseti. Það er lítið eftir af þeim tíma sem ég hef til þess að (Gripið fram í.) svara vegna frammíkalla og stóryrða hæstv. utanríkisráðherra en ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra svörin svo langt sem þau náðu. Þeir sem fletta þessum tveimur málum í gegn sjá að þessi tvö mál eru ekki bara áþekk eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði, þau eru svo gott sem (Gripið fram í.) nákvæmlega eins, hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra ætti að fara að lesa þessi mál sem hann sjálfur stendur fyrir. Það verður þá breyting frá því sem verið hefur á hans stjórnmálaferli. En ég hefði talið, hæstv. forseti, að það hefði verið skynsamlegra að frumvarp (Forseti hringir.) okkar sjálfstæðismanna hefði komið til efnislegrar umræðu og hæstv. dómsmálaráðherra hefði þá (Forseti hringir.) getað lagt til einfaldar breytingar á því frumvarpi sem þá lá fyrir en hv. þm. Lúðvík Bergvinsson stöðvaði sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar.



[11:30]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki annað en tekið undir orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að þessi frumvörp eru mjög samhljóða. Ég hef þó rekist á einhvern smámun. Í A-hlutanum í 63. gr. er annars vegar talað um að lög nái til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafi borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafi lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, og svo er bætt við: „nema [því aðeins að] atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“ Þetta er a.m.k. ekki í því frumvarpi sem mælt verður fyrir hér á eftir.

Mig langar bara til þess að vita: Hvað er það sem ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkurinn hafa eiginlega gegn því fólki sem hefur staðið í atvinnurekstri? Á Íslandi hefur ríkt mjög jákvætt viðhorf gagnvart stofnun fyrirtækja og við erum með mikið stoðkerfi einmitt til þess að styðja við og hvetja fólk til þess að stofna fyrirtæki. Hins vegar þegar kemur að því að fyrirtæki lendi í þroti — sem er eiginlega sjálfkrafa afleiðing af því að stofna fyrirtæki, ákveðið hlutfall þeirra lendir í erfiðleikum og fer síðan í þrot — af hverju við viljum ekki hjálpa þeim einstaklingum sem leggja allt sitt undir til að byggja upp atvinnulífið?

Það komu fram tilmæli frá Evrópusambandinu 2002 — það eru komin ansi mörg ár síðan — þar sem þeir hvöttu aðildarlönd Evrópusambandsins til þess að aðstoða fólk við hinn endann að stofnun fyrirtækja. Ég hef upplýsingar um að bæði í Danmörku og í Svíþjóð eru frammi tillögur um breytingar í lögum á greiðslu- og skuldaaðlögunum. Þar er lagt til að komið verði til móts við einstaklinga sem hafa staðið í fyrirtækjarekstri og þá sérstaklega sem hafa verið með lítil fyrirtæki því oft hefur fólk (Forseti hringir.) neyðst til að taka á sig persónulegar skuldbindingar.



[11:32]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Þetta úrræði, greiðsluaðlögun, er eins og ég sagði áðan aðallega hugsað fyrir almenna launþega. En vegna þess umhverfis sem atvinnurekstur er í hér á landi þykir rétt að víkka það út og það kemur fram í greinargerðinni að þetta sé í afmörkuðum tilvikum. Það er þá t.d. fyrst og fremst litið til þeirra sem einir eða í félagi taka að sér verk, annaðhvort samhliða fastri atvinnu eða tímabundið, einnig einstaklingar sem um lengri eða skemmri tíma vinna sem verktakar án þess að um eiginlegan eða viðamikinn rekstur hafi verið að ræða.



[11:33]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Þakka fyrir það að það sé þá greinilegt, virðulegur forseti, að þessir flokkar eru algjörlega farnir að snúast gegn atvinnurekstrinum í landinu og ég vona svo sannarlega að þetta verði eitt af því sem verði tekið á í meðförum þingsins, að hægt verði að koma til móts við þá einstaklinga sem hafa tekið á sig að byggja upp samfélagið og hafa þess vegna oft tekið á sig miklar persónulegar skuldbindingar og lent í örðugleikum og jafnvel í örðugleikum vegna þess að lögpersónur, hlutafélög, hafa jafnvel hlaupið frá hlutunum og skilið undirverktaka eftir með miklar skuldbindingar sem hefur síðan leitt til þess að viðkomandi einstaklingur hefur farið í þrot.

Ég vil líka spyrja hver sé ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin telur sérstaka ástæðu til þess að þetta fari í gegnum héraðsdómstólana og þeir skipi sérstaka umsjónarmenn. Ég hef miklar áhyggjur af þessu því þarna er hugsanlega verið að skipa einhverja lögfræðinga úti í bæ og ég sé ekki alveg hvaða tengsl þeir mundu hafa við önnur (Forseti hringir.) réttarúrræði í dómskerfinu, t.d. sýslumenn sem eru þeir sem (Forseti hringir.) oft taka fyrst við beiðnum um fjárnám og vita hverjir það eru sem lenda í örðugleikum.



[11:34]
Forseti (Kjartan Ólafsson):

Forseti vill minna þingmenn á þau tímamörk sem gilda og jafnframt vill forseti minna á að það ber að fara að þingsköpum varðandi ávörp til forseta.



[11:35]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir hlutverki héraðsdómara í þessu ferli er sú, eins og ég sagði í framsögu minni, að greiðsluaðlögun tekur mjög mið af nauðasamningsferlinu. Um er að ræða einföldun á því ferli og þar hefur héraðsdómari þetta hlutverk með höndum.



[11:35]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega óska nýjum hæstv. dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, til hamingju með jómfrúrræðuna. Það er gaman að hlusta á nýjan ráðherra koma hingað inn með mál af þessu tagi og það er líka svolítið sérstakt að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórnarflokkunum í því efni af því að maður hefur á tilfinningunni að þetta sé einhver keppni um hver pissi lengst eða hver ljósriti hraðast. En það er alveg ljóst að í þeirri keppni hafa framsóknarmenn vinninginn þar sem við komum með okkar mál talsvert á undan bæði Sjálfstæðisflokknum og ríkisstjórninni og þessi mál eru rædd hér öll þrjú saman. [Kliður í þingsal.] Á þinginu hefur það komið fram að ríkisstjórnin hefur einungis u.þ.b. 80 daga til að taka á mikilvægum málum og í 3. gr. frumvarpsins kemur fram að lögin öðlist þegar gildi. Þegar málið hefur farið í gegnum þingið og verið afgreitt, og það verður vonandi sem fyrst, þá öðlast lögin strax gildi. Ég vil gjarnan fá að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra Rögnu Árnadóttur út í þetta.

Segjum sem svo að lögin taki gildi eftir tvær vikur, við skulum gefa okkur að við þurfum þann tíma í málið. Getur þá fólk sem er í miklum greiðsluerfiðleikum farið strax daginn eftir á Ráðagjafarstofu heimilanna og fengið aðstoð eftir þeim reglum sem gilda í frumvarpinu? Verður kerfið alveg tilbúið til þess að taka við hópnum, af því að það kemur skýrt fram í frumvarpinu eða í greinargerð frumvarpsins og umsögn um fjárhagslegar afleiðingar þess að þetta gæti verið svolítið stór hópur?



[11:37]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda og undirbúningi máls þessa hefur verið haft samband við Ráðgjafarstofu heimilanna og mér skilst að þar séu mjög annasamir tímar en vonandi verður hægt að sinna þessum málum þar einnig eins fljótt og auðið er.

Það er líka sá möguleiki áfram fyrir einstaklinga sem vilja leita nauðasamninga að óska eftir réttaraðstoð, það er úrræði sem ég nefndi í byrjun, það er líka fyrir hendi, en vonandi kemst þetta allt í gang sem fyrst.



[11:38]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að hæstv. dómsmálaráðherra skynjar stöðuna, og veit að það er mikið álag á Ráðgjafarstofu heimilanna. Miðað við svör hæstv. ráðherra er ég nokkuð bjartsýn á að þetta muni ganga vel. Það kemur fram í fjárhagsumsögninni að ekki er gert ráð fyrir auknum útgjöldum í fjárlögum ársins 2009 núna en miðað við ágæt svör hæstv. dómsmálaráðherra á ég von á því að það verði ekki vandamál og það kemur líka fram að það á að opna heimild fyrir Ráðgjafarstofu heimilanna til að ráða a.m.k. einn starfsmann og jafnvel þrjá ef stór hluti landsmanna þarf á þessu úrræði að halda.

Ég vil undirstrika að við framsóknarmenn höfum haft miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem er í samfélaginu og þess vegna lögðum við fram frumvarp okkar um greiðsluaðlögun. Ég fagna því að ríkisstjórnin er komin fram með svipað mál og vænti þess að það skapist mikil samstaða í þinginu um að klára þetta mál — hvernig sem það mun líta út að lokum — fljótt og vel (Forseti hringir.) og í mikilli samstöðu.



[11:39]
Flm. (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir ítreka óskir mínar til hæstv. dómsmálaráðherra og bjóða hana velkomna hingað í ræðustól og í þingsalinn. Ég veit að hún þekkir það mál sem hér er fjallað um mjög vel og ég dreg ekki í efa að vel hafi verið staðið að þeim litlu breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpi því sem hæstv. ráðherra flytur og frumvarpi því sem ég flyt.

Þannig er málum háttað að þetta viðfangsefni, greiðsluaðlögun, sem er kallað skuldaaðlögun í því frumvarpi sem ég flyt, hefur verið til meðferðar í stjórnkerfinu lengi. Það var þáverandi viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, sem setti á laggirnar nefnd til þess að semja frumvarp um þetta og síðan tók arftaki hans í viðskiptaráðuneytinu, Björgvin G. Sigurðsson, við málinu og nefndin skilaði áliti sem lá fyrir í ársbyrjun 2008, ef ég veit rétt. Málið var þá á vettvangi viðskiptaráðuneytisins og fjallað um það á þeim grundvelli.

Hins vegar kom það upp að leita þurfti álits eftir að frumvarpið hafði verið samið og fara með það fyrir fleiri en bara þá sem í nefndinni sátu eða störfuðu innan viðskiptaráðuneytisins. M.a. var leitað álits dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem beindi líka erindi til réttarfarsnefndar sem fór yfir málið. Það er skemmst frá því að segja að hinn 18. ágúst 2008 barst greinargerð frá réttarfarsnefnd um þetta mál og þar var því alfarið hafnað og talið algjörlega fráleitt í raun og veru að halda málinu eins og gert hafði verið undir forustu viðskiptaráðuneytisins. Það kemur fram í álitsgerð sem réttarfarsnefnd sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytinu 18. ágúst, þar sem réttarfarsnefnd fer yfir þau drög að frumvarpi sem þá lágu fyrir og höfðu borist frá viðskiptaráðuneytinu og rekur lið fyrir lið hvaða vankantar eru á frumvarpinu. Ég er með þessa greinargerð réttarfarsnefndar og sjálfsagt verður hún lögð fram í þingnefnd sem um þetta mál fjallar ef menn hafa áhuga á því.

Ég leyfi mér að lesa hér, með leyfi forseta, úr þessu bréfi:

„Réttarfarsnefnd telur sig verða að vara við þeirri leið sem frumvarpsdrögin miða að. Ef kveða ætti á um úrræði sem þetta í lögum mælir nefndin eindregið með því að tillögur um það fælu í sér að málsmeðferð yrði að þessu leyti eftir föngum hliðstæð þeirri sem gildir um nauðasamningaumleitanir án undangenginna gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum nr. 21/1991, þar á meðal að dómstólar kvæðu á um upphaf og lok aðgerða og tryggður yrði aðgangur að þeim til að fá leyst úr ágreiningsefnum.“

Þarna tekur því nefndin algjörlega skýra afstöðu í þessu máli og í raun og veru má segja að hún afgreiði þá fyrir sitt leyti það frumvarp sem hér er flutt af framsóknarmönnum og var til umræðu í andsvörum áðan.

Nefndin leggur síðan til og veltir því upp að eðlilegt sé að þetta mál verði ekki í höndum viðskiptaráðherra þar sem gjaldþrotaskiptalögin falli ekki undir hann samkvæmt reglugerð um Stjórnarráðið og það varð niðurstaðan eftir að umrætt bréf barst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu þann 18. ágúst. Það var sent til viðskiptaráðherra 25. ágúst sl. og 16. september 2008 kemur fram hjá viðskiptaráðuneytinu að ekki sé rétt að ganga gegn umsögn réttarfarsnefndar um að gera breytingar á gjaldþrotaskiptalögum sem falli undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið og setja inn í gjaldþrotaskiptalögin ákvæði um greiðsluaðlögun. Þar með fluttist málið úr höndum viðskiptaráðuneytis til dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Þetta gerðist 16. september á síðasta ári.

Þann 17. september sendi ráðuneytið réttarfarsnefnd umsagnir um frumvarp viðskiptaráðherra með ósk um tillögu um hvernig best væri að vinna að málinu. Þann 9. október 2008 var fundur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu með réttarfarsnefnd um breytingar á gjaldþrotaskiptalögum. Var þess óskað að nefndin semdi tillögur að breytingum á gjaldþrotaskiptalögum og var óskað eftir þeim tillögum fyrir jól. Þann 28. október var fundur með réttarfarsnefnd um nánari útfærslu á lagabreytingum og síðan fundaði dómsmálaráðuneytið daginn eftir með fulltrúum viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og Íbúðalánasjóðs þar sem kynntar voru hugmyndir réttarfarsnefndar og útfærsla málsins.

Þann 24. nóvember fékk dóms- og kirkjumálaráðuneytið drög að frumvarpi frá réttarfarsnefnd og 27. nóvember var fundur fulltrúa viðskiptaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytis með réttarfarsnefnd þar sem rædd voru drög að frumvarpi til breytinga á gjaldþrotaskiptalögum, skuldaaðlögun og þess óskað í framhaldinu að viðskiptaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti sendu dóms- og kirkjumálaráðuneytinu athugasemdir við frumvarpsdrögin.

Þann 1. desember 2008 bárust dóms- og kirkjumálaráðuneyti athugasemdir frá viðskiptaráðuneytinu og 8. desember 2008 barst tilkynning frá félagsmálaráðuneyti um að viðskiptaráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra væru sammála um að viðskiptaráðuneytið sendi inn athugasemdir fyrir þeirra hönd í málinu. Þann 16. desember 2008 bárust dóms- og kirkjumálaráðuneyti athugasemdir fjármálaráðuneytis, þ.e. tollstjóra, við frumvarpsdrögin og hinn 17. desember 2008 efndu fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til fundar með Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og rætt var um að ráðgjafarstofan tæki að sér aðstoð við skuldara og gerð beiðna og fylgigagna um skuldaaðlögun.

Réttarfarsnefnd óskaði eftir því hinn 17. desember að hún fengi frest til mánaðamóta desember/janúar til að ljúka gerð frumvarpsins. Nefndin segist ekki hafa haft tækifæri til að fara yfir athugasemdir fjármálaráðuneytisins sem bárust daginn áður. Hún taldi auk þess aðkallandi að athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins yrðu nokkuð ítarlegar til þess að fyrir lægi hvernig ætlast yrði til að verkum skyldi hagað við beitingu þessa nýja úrræðis í frumvarpinu yrði það að lögum. Vegna jólahátíðar og annarra frídaga á þessum tíma fram að áramótum óskaði nefndin eftir því að hún þyrfti ekki að skila þessu fyrr en um áramótin. Þann 2. janúar 2009 var frumvarpinu skilað. Það var afgreitt úr ríkisstjórn 20. janúar og daginn eftir úr þingflokki sjálfstæðismanna en þingflokkur Samfylkingarinnar treysti sér ekki til að afgreiða það.

Síðan er mynduð ný ríkisstjórn, eins og vitað er, og þá var sagt að ég hefði verið svifaseinn við afgreiðslu málsins. Ég hef mótmælt því og tel engin rök fyrir því. Eins og ég hef rakið hefur verið unnið skipulega að því að koma þessu máli í þann búning sem hér liggur fyrir. Á málefnalegan hátt og með vönduðum vinnubrögðum hefur þetta ítarlega frumvarp verið samið, sem segja má að liggi fyrir í tveimur útgáfum. Eins og ég sagði hér í gærkvöldi tel ég að breytingarnar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu — og það er flutt af hæstv. dómsmálaráðherra — séu breytingar sem eðlilegt hefði verið að koma fram með í nefnd. Engar efnisbreytingar eru á milli þessara frumvarpa sem eru þess eðlis að ekki hefði verið eðlilegt að víkja að þeim í nefndarstarfinu.

Bráðabirgðaákvæðið sem sett er inn í frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra var vissulega rætt. Menn veltu fyrir sér hvort ástæða væri til að hafa í frumvarpi af þessu tagi slíkt ákvæði. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að ekki væri þörf á því af því að þarna væri verið að fjalla um skilmála sem væru í raun og veru í höndum ríkisvaldsins því að verið er að fjalla um skilmála sem settir eru af Íbúðalánasjóði eða fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði. Án þess að þetta bráðabirgðaákvæði sé sett í lög hefur ríkisvaldið það í hendi sér að haga lánaskilmálum með þeim hætti hjá þeim fyrirtækjum sem eru starfandi — hvort sem það er Íbúðalánasjóður eða fjármálafyrirtæki á vegum ríkisins — getur ríkið beitt sér fyrir því án þess að þetta sé sett fram með þessum hætti. Þannig að ég tel að þetta ákvæði sé í raun og veru hluti af því leikriti sem sett var á svið til þess að flytja hér fram fyrir þingheim eitthvert nýtt frumvarp sem efnislega er engin breyting frá því frumvarpi sem ég flyt og við þingmenn sjálfstæðismanna.

Ég vek athygli á því sem segir í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins í hinu nýja frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra. Á bls. 27 segir, með leyfi forseta:

„Ekki liggur fyrir hvaða áhrif frumvarp þetta, verði það að lögum, hefur á Íbúðalánasjóð eða fjármálastofnanir í eigu ríkisins umfram þær afskriftir lána sem eru fyrirsjáanlegar eftir að þrengdi að í efnahagskerfinu. Verið er að skoða hvaða áhrif skuldbreytingar og frystingar lána hafa haft á sjóðstreymi Íbúðalánasjóðs en niðurstöður liggja ekki fyrir. Hvort þetta frumvarp íþyngi sjóðnum verulega er óvíst, en þó er það talið ólíklegt þar sem hámark er á lánum og hefur það hámark miðast við heildarveðsetningu lána.“

Í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er því ekki gert ráð fyrir að þessi breyting hafi nokkur áhrif og þegar litið er á þau mál sem talið er að kunni að koma upp vegna þessa frumvarps, og kostnað sem Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna og aðrir þurfa að bera vegna samþykktar þess, kemur í ljós að engin breyting er á milli frumvarpa. Það undirstrikar að þetta ákvæði til bráðabirgða sé frekar liður í pólitísku leikriti en raunveruleg breyting sem skipti einhverju máli.

Hitt atriðið sem hæstv. dómsmálaráðherra vék að varðar breytingu á 1. gr. frumvarpsins þar sem bætt er við skilgreininguna á því hverjir eigi rétt samkvæmt frumvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„… nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“ — Þetta er skilgreiningin sem þarna er bætt við til þess að stækka þann hóp manna sem hugsanlega getur fallið undir lögin.

Í greinargerð segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert er annars vegar ráð fyrir að úrræðið um greiðsluaðlögun geti bæði átt við um einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur, svo og einstaklinga sem stundað hafa atvinnustarfsemi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hins vegar verði gert ráð fyrir að greiðsluaðlögun geti í afmörkuðum tilvikum náð til veðskulda.“ — Það eru íbúðalánaskuldirnar. Hitt eru þessir menn sem hafa stundað einhvern atvinnurekstur og það er nánar skýrt á bls. 11 í frumvarpinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Því er það skilyrði sett að skuldari hafi ekki undangengin þrjú ár borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem hann hefur lagt stund á hana einn síns liðs eða í félagi við aðra, nema atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans. Er hér fyrst og fremst litið til t.d. iðnaðarmanna og sölumanna sem einir eða í félagi við aðra taka að sér verk, annaðhvort samhliða fastri atvinnu eða tímabundið. Jafnframt falli hér undir aðrir einstaklingar sem um lengri eða skemmri tíma vinna sem verktakar án þess um eiginlegan eða viðamikinn rekstur hafi verið að ræða.“

Ég tel að þessi skilgreining sé harla óljós og þarna sé verið að búa til grátt svæði sem geti verið mjög erfitt í framkvæmd að líta til og taka á — og úr greinargerð frumvarpsins, frá því að ég stóð að samningu þess og eins og við sjálfstæðismenn leggjum það fram hér hefur verið felld klausa sem ég vil lesa. Þar er fjallað um hvernig draga eigi skilin á milli þeirra sem falla undir frumvarpið og þeirra sem eru utan þess. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hér er litið til þeirrar ríku lagaábyrgðar sem hvílir á þeim sem stunda atvinnurekstur, meðal annars varðandi skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna, en ekki þykir koma til álita að draga úr henni með reglum um skuldaaðlögun, þar sem lánardrottnum er ekki ætlað að eiga atkvæði um hvort veitt verði eftirgjöf skulda. Auk þessara þriggja meginskilyrða fyrir heimild til að leita skuldaaðlögunar er að finna frekari skilyrði fyrir henni í 1. mgr. 63. gr. d, sem fjallað er nánar um í athugasemdum við d-lið 1. gr. frumvarpsins.“

Hæstv. dómsmálaráðherra þarf að skýra það út fyrir okkur hvort, með því að fella þetta úr greinargerð með frumvarpinu, sé verið að gera því skóna að menn geti komist undan að standa skil á virðisauka og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hvort það sé sú breyting sem menn eru að leita eftir með því að breyta orðalaginu á þennan hátt í frumvarpinu, þ.e. að létta mönnum að komast undan því að greiða virðisaukaskatt eða staðgreiða opinber gjöld. Því þegar frumvörpin eru borin saman, og menn fara yfir þetta, og líta á þetta sem breytingu, ef það er þá lagt fram hér sem einhver meiri háttar breyting — við lögskýringu geta menn notað þessi skjöl og velt því fyrir sér hvað löggjafinn sé að fara og hvað framkvæmdarvaldið sé að boða með því að fella þessa klausu úr greinargerðinni. Þetta undirstrikar það sem ég segi, að með því að víkka þetta svona út — enda kemur fram í frumvarpinu, að það er ekki gert að tillögu réttarfarsnefndar — er verið að búa til grátt svæði sem ég tel að sé óskynsamlegt í málum af þessu tagi.

Þetta þarf að skýra og liggja þarf ljóst fyrir hvað í þessari breytingu felst og orðalagið eins og ég sagði um sölumenn og iðnaðarmenn, hvernig sem það er nú orðað, er mjög óljóst. Það getur ekki verið til hagsbóta fyrir neinn að skapa þarna grátt svæði og að síðan sé þráttað um það sérstaklega hvort menn falla undir ákvæðið eða ekki. Ég tel skynsamlegra að hafa lagaákvæði um þetta skýrt og ótvírætt en ekki að teygja það eins og gert hefur verið.

Það er líka sérstakt athugunarefni hvers vegna allt í einu er tekin sú afstaða að breyta orðinu skuldaaðlögun í greiðsluaðlögun. Réttarfarsnefnd færir skýr rök fyrir því í frumvarpinu sem við sjálfstæðismenn flytjum hvers vegna hún velur orðið skuldaaðlögun frekar en greiðsluaðlögun. Ég sé ekki betur en að þær skýringar hafi verið felldar brott úr greinargerðinni eins og eðlilegt er. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Með því heiti er vísað til þess að skuldir eru lagaðar með ákveðnu móti að greiðslugetu viðkomandi manns. Á þetta sér hliðstæðu í löggjöf allra norrænu ríkjanna þar sem heiti á úrræðinu vísar til skulda.“

Mér finnst þessi breyting á orðinu ekki styðjast við málefnaleg rök þegar tekið er mið af þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar hjá höfundum frumvarpsins. Hún er líka liður í því leikriti sem sett er á svið til að reyna að láta líta út eins og hér sé í grundvallaratriðum um einhver ólík sjónarmið að ræða en svo er ekki.

Þetta minnir mig helst á skáldsöguna 1984 þegar nýir stjórnarherrar tóku við völdum. Til þess að árétta að þeir væru öðruvísi en þeir sem áður voru fóru þeir að búa til nýtt tungumál, fóru að færa hugmyndir sínar í nýjan búning með því að búa til ný orð um hluti sem allir skynsamir menn höfðu áður komið sér saman um að lýsa á ákveðinn hátt. Þessi leikaraskapur skiptir auðvitað engu máli en sýnir hugarfar ríkisstjórnarinnar þegar hún reynir að skreyta sig með fjöðrum annarra eins og hér var orðað.

Frumvarpið sem hæstv. dómsmálaráðherra flytur er góðra gjalda vert eins og ég hef farið hér orðum um. Það er algerlega samhljóða frumvarpinu sem við sjálfstæðismenn flytjum en bætt er við þessu gráa svæði sem veldur því að menn velta fyrir sér hvort verið sé að gera því skóna að menn geti komist undan því að greiða skatta. Síðan er bætt við ákvæði um Íbúðalánasjóð og fjármálafyrirtækin, sem er í höndum ríkisins að ákveða þó að umrætt bráðabirgðaákvæði yrði aldrei sett í lög — enda er gert ráð fyrir að það gildi um takmarkaðan tíma eins og allar ákvarðanir sem Íbúðalánasjóður eða fjármálafyrirtæki kynnu að taka um þá þætti sem hér er um að ræða.

Efnislega er ég sammála frumvarpinu sem hæstv. dómsmálaráðherra flytur með þeim athugasemdum sem ég hef gert. En ég legg til að þingheimur samþykki frumvarp okkar sjálfstæðismanna því að það er miklu skýrara, miklu skarpara og miklu betur unnið en frumvarpið sem hefur verið þynnt út með þessum hugmyndum ríkisstjórnarinnar.

Ég tel að ég þurfi ekki að eyða mörgum orðum í frumvarp framsóknarmanna. Ég sá það um leið og réttarfarsnefnd hafði skilað greinargerð sinni, 18. ágúst, sem ég rakti hér áðan, að því máli er ýtt til hliðar og viðskiptaráðuneytið féllst á það sjónarmið — tel ég líklegt að það frumvarp sé afrakstur nefndar viðskiptaráðherra. Ég setti mig aldrei inn í það hvernig menn hugsuðu það enda sá ég að ekki þyrfti að gera mikið með það eftir að réttarfarsnefnd dæmdi það í raun og veru úr leik. Ég hvet þingmenn til þess að dæma það líka úr leik þannig að málið standi og menn velti fyrir sér þeim orðalagsbreytingum og orðalagsmun sem er á frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra og því frumvarpi sem við sjálfstæðismenn flytjum.

Ég legg til að frumvarp okkar fari að lokinni umræðu til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.



[12:02]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð undarleg framsöguræða hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni og var honum tíðrætt um leikaraskap, leikrit og sýndarmennsku í tengslum við frumvarpið. Hv. þingmaður rakti þó ágætlega í máli sínu rökin fyrir því hvers vegna hér er lagt fram stjórnarfrumvarp um þetta efni. Hann rakti frumkvæði hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Björgvins G. Sigurðssonar og hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, hvernig þessi mál voru sett fram og lagðar fram tillögur og hvernig síðan hefur verið rekið á eftir því í dómsmálaráðuneytinu að fram komi frumvarp.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann hvort hann telji sig eiga einhvern höfundarrétt á því verki sem þannig er fram borið af hálfu margra ráðuneyta með aðkomu réttarfarsnefndar og bestu sérfræðinga. Það er stórkostlegt að hlusta á þann valdhroka sem felst í þeirri afstöðu hv. þingmanns að hann eigi með einhverjum hætti höfundarrétt á þeim stolnu fjöðrum sem hann reynir nú að skreyta sig með.



[12:03]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég á engan höfundarrétt á frumvarpinu. Réttarfarsnefnd hefur alfarið samið frumvarpið en það hefði aldrei verið gert nema vegna þess að ég samþykkti það. Sú leið sem ég lýsti hefði aldrei verið farin nema af því að ég samþykkti það sem dóms- og kirkjumálaráðherra. Ef ég hefði lagst gegn því hefði málið ekki farið í þann farveg sem ég lýsti.



[12:03]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi skýringanna hlýtur maður að spyrja hvaða undarlega afstaða lýsir sér í þeirri sýn sjálfstæðismanna á þetta úrræði að með einhverjum hætti eigi að girða fyrir möguleika þess mikla fjölda fólks í landinu sem hefur atvinnu sína og framfæri af rekstri einkahlutafélaga. Ég skil ekki þá mannfyrirlitningu sem fram kemur af hálfu sjálfstæðismanna með því að vilja girða fyrir að þeir sem hafa haft tekjur sínar af smáum atvinnurekstri geti nýtt sér þessi úrræði. Ég skil ekki heldur hvers vegna sjálfstæðismenn leggjast gegn því að skapa skýra lagaheimild fyrir ríkisbankana til að létta með nauðsynlegum hætti undir með skuldurum. Það kann að vera að gildandi lagaheimildir dugi fyrir Íbúðalánasjóð en þær duga ekki fyrir nýju ríkisbankana og því er mikilvægt að sett séu skýr ákvæði í lög sem heimili ríkisbönkunum (Forseti hringir.) að taka þátt í greiðsluaðlögun af þessum toga.



[12:04]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Engin mannfyrirlitning felst í því að hafa skoðun á því hvernig standa beri að réttarfari í landinu og engin mannfyrirlitning birtist í afstöðu réttarfarsnefndar þegar hún telur að nauðsynlegt sé að hafa þessi ákvæði skýr og ótvíræð og varar við því að búin séu til einhver grá svæði. Að kalla það mannfyrirlitningu sýnir hvað þingmaðurinn er langt leiddur í tali sínu á stjórnmálavettvangi og ruglar saman öllum hugtökum sem nota ber þegar talað er um mál af þessu tagi. Hér er um úrlausnarefni að ræða sem blasir við löggjafanum. Þingnefndir eiga eftir að fara yfir þetta og kalla fyrir sig sérfræðinga og fá þá rök fyrir því hvort skynsamlegt sé að fara þá leið sem hæstv. dómsmálaráðherra leggur til í frumvarpi sínu eða jafnvel einhverja enn aðra, þegar menn fara að skoða málið.



[12:05]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta var nokkuð kostuleg ræða hjá hv. þingmanni, fyrrverandi dómsmálaráðherra, en niðurstaðan sýndist mér vera sú að hann er samþykkur frumvarpi hæstv. núverandi dómsmálaráðherra nema hann vill nota orðið skuldaaðlögun í staðinn fyrir orðið greiðsluaðlögun sem hefur verið notað um þetta fyrirbæri í 15 ár á Íslandi.

Sjálfstæðismenn tala um stolnar fjaðrir og einn um höfundarrétt. Hvað var á móti greiðsluaðlöguninni þegar fyrst var flutt tillaga um hana árið 1993? Hvað var á móti þegar fyrsta frumvarpið kom 1995? Hvað var á móti henni þegar Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri fluttu frumvörp sín 2001, 2002, 2003, 2004, 2005 og 2006? Sjálfstæðisflokkurinn, dómsmálaráðherrarnir Þorsteinn Pálsson og Björn Bjarnason og fjármálaráðherrarnir Friðrik Sophusson og Árni Mathiesen hafa staðið gegn heimildum um greiðsluaðlögun í 15 ár. Hverju reiddust goðin þessi 15 ár?



[12:06]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál kom ekki inn á borð til mín fyrr en í sumar þannig að ég lagðist ekki gegn neinu máli. Alltaf var litið svo á að þetta væri málefni annarra ráðherra en dómsmálaráðherra. Allir töldu það og viðskiptaráðherra setti þetta af stað. Síðan þegar farið var að skoða málið og kanna það efnislega kom í ljós að Jóhanna Sigurðardóttir, eða hver annar sem hv. þingmaður nefndi, var bara á villigötum í þessu og það var ekki fyrr en málið kom í hendur okkar í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu sem það var tekið þeim tökum að hægt var að búa það í þann búning að leggja það fyrir þingið.



[12:07]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er hræddur um að hv. þm. Björn Bjarnason hafi misskilið mál mitt. Ég spurði ekki um tæknilega aðkomu hans sem ráðherra að málinu á sínum tíma heldur afstöðu Sjálfstæðisflokksins í því þegar hann í stjórnarsamvinnu, fyrst við Alþýðuflokkinn, síðan Framsóknarflokkinn og svo við Samfylkinguna, stóð í vegi fyrir þessu máli, hindraði það og tafði og það var ekki fyrr en þrýst var á nú alveg á síðustu mánuðum þeirrar stjórnar sem nú er farin frá að málið hafðist nokkurn veginn í gegn. Það er þetta sem ég spyr um. Hvað olli hinum skyndilegu sinnaskiptum Sjálfstæðisflokksins og dómsmálaráðherra hans? Hafi Björn Bjarnason ekki komið nálægt málinu gerði a.m.k. forveri hans Þorsteinn Pálsson það, báðir hv. þingmenn á sínum tíma, því að Þorsteinn Pálsson, dómsmálaráðuneytið, átti fulltrúa í nefndum sem skoðuðu þetta mál eins og kemur fram í ræðu sem ég ætla að flytja um sögu málsins á eftir, hv. þm. Birni Bjarnasyni og öðrum hans líkum til ánægju og yndisauka.



[12:08]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það verður fróðlegt að hlusta á þann sögulestur og þær söguskýringar. Málið er það að í lok ráðherraferils síns ákvað Jón Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra, að setja þetta í nefnd sem síðan skilaði áliti og kom til umsagnar og þá kom í ljós að nefndarálitið var haldið þeim ágöllum að ekki var hægt að framkvæma það. Það var ekki fyrr en dóms- og kirkjumálaráðuneytið tók málið í sínar hendur að ábendingu réttarfarsnefndar að málið fékk þann framgang sem við sjáum nú. Að ásaka mig fyrir eitthvað í þessu efni er algerlega fráleitt hvað sem öllum söguskýringum hv. þingmanns líður.



[12:09]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eitt er þó ánægjulegt við þessa umræðu, að allir eru einhuga um að sett skuli lög um greiðsluaðlögun, þ.e. að rýmka til og auka rétt eða möguleika skuldara á því að aðlaga greiðsluhæfni sína þeim skuldum sem á þeim hvíla. Ljóst er að fjármála- og greiðslukerfið hrundi með tilheyrandi afleiðingum fyrir fjölda fólks.

Hins vegar, burt séð frá því hvernig þetta kom allt til, er grundvallarmunur á þessum tveimur málum. Annars vegar er um að ræða að fleiri einstaklingar geti leitað þessa úrræðis, miðað við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra, og fleiri tegundir af kröfum, þar af veðkröfur, komi til skoðunar í þessu samhengi. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Björn Bjarnason, þá væntanlega sem fulltrúa sjálfstæðismanna í umræðunni: Vilja þeir að færri eigi kost á þessari leið en fleiri? (Forseti hringir.) Því það er eini munurinn á þessum tveimur málum og (Forseti hringir.) í því felst ágreiningurinn.



[12:10]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þarna talaði hv. þingmaður sem kom í veg fyrir að þetta mál kæmist út úr þingflokki Samfylkingarinnar og honum ferst ekki að tala um að menn standi ekki að afgreiðslu mála og fari yfir þau. Varðandi þann fjölda manna sem getur komið að málinu þá bendi ég hv. þingmanni á að lesa umsögn fjármálaráðuneytisins sem kemur að þessu máli sem umsagnaraðili um þann kostnað sem kann að hljótast af frumvarpinu. Þar kemur fram að fjármálaráðuneytið telur ekki að þeim fjölgi sem fara í þetta úrræði þrátt fyrir ákvæðin sem hv. þingmaður nefndi og telur að hafi skipt sköpum við stuðning sinn við frumvarpið.



[12:11]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að Samfylkingin vildi rýmka gildissvið þessa möguleika, það er rétt hjá honum. Hann vildi að fleiri ættu þess kost að fara þessa leið og Samfylkingin vill að fleiri kröfur falli þarna undir, þannig að þetta er rétt hjá hv. þingmanni og ég get tekið undir það sem fram kom í máli hans og það er þetta grundvallaratriði. En eftir stendur hvort það er tillaga sjálfstæðismanna og hv. þingmanna sem flytja sitt mál að þrengja þann möguleika miðað við það sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt og gert grein fyrir að gildissviðið verði víkkað verulega út. Vill Sjálfstæðisflokkurinn þrengja þetta úrræði miðað við færri einstaklinga og færri kröfur? Ég vil líka nefna það, af því að hv. þingmaður vísaði til umsagnar fjármálaráðuneytisins, að hefði hann lesið örlítið lengra í umsögninni, ekki valda kafla, þá kemur þar fram að ljóst er að þetta mun hafa veruleg áhrif eftir því hversu margir nýta þessa lausn.



[12:12]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lesið þetta bæði fyrir og eftir þessa umsögn fjármálaráðuneytisins. Varðandi fjöldann breytast þær tölur ekkert í umsögninni við frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra þannig að allt tal um að við séum á móti því að einhverjir falli undir þetta er úr lausu lofti gripið. (Gripið fram í.) Ákvæðin sem koma til álita þarna eru svo óljós (Gripið fram í.) að þau munu bara skapa vandræði. Það verður ekki til að auðvelda neinum að vinna samkvæmt þessum lögum, verði frumvarpið að lögum, að hafa ákvæðin svona óljós. (Gripið fram í.) Það mun kalla á vandkvæði við framkvæmdina sem getur jafnvel dregið úr því að menn fái að nota þetta úrræði. (Gripið fram í.) Af hverju fæ ég ekki að ljúka máli mínu, hv. þingmaður? Það er ekkert sem kemur fram í þessu frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra sem segir okkur að fleiri falli undir það en áður. (LB: Það kom fram í máli dómsmálaráðherra.)



[12:13]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er brandari að hlusta á hv. þm. Björn Bjarnason tala um að hann hefði verið tilbúinn að leggja þetta mál fram mun fyrr. Þegar við horfum á staðreyndir málsins þá hafði Sjálfstæðisflokkurinn næg tækifæri á 18 árum, þeim tíma sem hann var í ríkisstjórn, til að leggja þetta mál fram. Það þurfti að sparka flokknum úr ríkisstjórn og landið var að verða gjaldþrota áður en flokkurinn var tilbúinn að samþykkja mál um greiðsluaðlögun. Ég vil þá ítreka spurninguna fyrst þetta eru nánast samhljóða mál hjá ríkisstjórninni og Sjálfstæðisflokknum og spyrja hv. þingmann: Hvað er það sem hinn svokallaði flokkur atvinnulífsins hefur gegn því að koma til móts við þá sem hafa lagt allt sitt undir til að byggja upp Ísland?



[12:14]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmönnum Framsóknarflokksins farist ekki að tala um þetta mál. Þeir leggja fram frumvarp sem er gersamlega ónýtt í raun og veru og er blekkingarleikur frá upphafi til enda og hefur af færustu sérfræðingum verið dæmt úr leik. Svo telur hv. þingmaður sig vera í stöðu til að ráðast á okkur þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir að flytja frumvarp sem stenst þó gagnrýni.



[12:15]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Það er gott virðulegi forseti að hv. þingmaður telur sig geta fullyrt að mál okkar framsóknarmanna sé ekki pappírsins virði. Það verður ágætt að taka það fram í framsögunni á eftir.

En ég vil benda á varðandi atvinnurekendur að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að setja inn ákvæði í lögin um að ef sá sem staðið hefur í atvinnurekstri hefur orðið uppvís að einhverju sviksamlegu eins og að halda eftir vörslusköttum geti hann ekki fengið greiðsluaðlögun. Það ætti nú bara að vera tiltölulega auðvelt að koma því fyrir í einni setningu. Ég mundi leggja til að það væri eitt af því sem allsherjarnefnd hefði til skoðunar ef ákveðið verður að afgreiða þessi tvö frumvörp nokkurn veginn samhljóða.



[12:16]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel alveg sjálfsagt fyrir þingmenn að koma þessum sjónarmiðum á framfæri í allsherjarnefnd. Til þess eru nefndirnar að fara yfir þetta og eins og ég sagði eru þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu og hæstv. dómsmálaráðherra leggur hér fram, með þeim hætti að eðlilegt hefði verið að fjalla um þær í nefnd og taka fyrir í allsherjarnefnd og klára málið þannig.

En ef hv. þingmaður telur að einhverjir muni fallast á að taka inn ákvæði úr frumvarpi framsóknarmanna um þetta mál held ég að það sé borin von því að það er svo illa samið.



[12:17]
Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Neyðarástand hefur skapast á þúsundum heimila í landinu auk þess sem gjaldþrot blasir við mörgum þeirra. Það mun skapa margvísleg félagsleg vandamál, leggja auknar byrðar á félagsmálastofnanir, auka örvæntingu einstaklinga og fjölskyldna og skapa sár í þjóðfélaginu sem seint munu gróa.

Meginástæðan fyrir greiðsluerfiðleikum heimilanna er hrun íslenska fjármálakerfisins, óstöðugleiki íslensku krónunnar, okurvextir, óðaverðbólga, lækkandi fasteignamat og sívaxandi atvinnuleysi. Samhliða hafa skattar hækkað, álögur aukist í formi þjónustugjalda og kjör skert — allt í boði fyrrverandi ríkisstjórnar.

Til að koma í veg fyrir þá holskeflu gjaldþrota sem nú blasir við og gera mun þúsundir fjölskyldna heimilislausar þarf að grípa til björgunaraðgerða til að aðstoða fólk við að greiða úr skuldavandamálum heimilanna, vandamálum sem þegar eru orðin svo mikil að heimilin ráða ekki við þau. Margt þarf að koma til, svo sem greiðsluaðlögun, lenging lána, félagsleg aðstoð og veiting greiðsluerfiðleikalána.

Lengi hefur verið beðið eftir frumvarpi um greiðsluaðlögun og hafa þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins margoft lagt fram frumvörp þess efnis eða þingsályktunartillögur. Fyrrverandi ríkisstjórn hafði lofað lögum um greiðsluaðlögun nánast frá upphafi, nú síðast í janúar, en tókst ekki að leggja fram mál þess efnis áður en hún fór frá. Því er það mikið fagnaðarefni að allt stefnir í að greiðsluaðlögun verði að lögum hér á landi líkt og á hinum Norðurlöndunum.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun á þskj. 494 sem er 275. mál þingsins. Tilgangur þessa frumvarps er að gefa þeim einstaklingum sem eru í alvarlegum og viðvarandi greiðsluerfiðleikum möguleika á því að ná stjórn á fjármálum sínum.

Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um greiðsluaðlögun þar sem skuldurum verði hjálpað til að komast út úr mesta svartnættinu. Markmiðið með greiðsluaðlögun er að skuldari fái lánskjörum breytt þannig að greiðslubyrðin verði léttari. Breyting á lánskjörum getur falið í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt eða skuld lækkuð eða fryst um tíma á meðan fólk leitar lausna á tímabundnum erfiðleikum t.d. vegna atvinnuleysis, veikinda og fleira. Greiðsluaðlögun kemur aðeins til greina hafi hún í för með sér ávinning fyrir skuldara, lánardrottna og samfélagið í heild.

Ávinningur fyrir skuldarana verði sá að þeir geti staðið í skilum með skuldina. Ávinningur fyrir lánardrottna verði sá að líkur á endurgreiðslu aukast og ávinningur samfélagsins verði sá að færri þurfa að leita á náðir félagsmálastofnana. Til að ná sem víðtækastri samstöðu um þau markmið sem frumvarp um greiðsluaðlögun snýst um er mikilvægt að greiðsluaðlögun nái jafnt til skulda við ríkið, innlánsstofnanir, lífeyrissjóði og verkalýðshreyfingu svo sem húsnæðisskulda.

Í lögum um gjaldþrotaskipti og fleira, nr. 21 frá 1991, er sérstaklega fjallað um nauðasamninga. Með lögunum virtist vera ætlunin að einstaklingar sem ekki eru í atvinnurekstri gætu í auknum mæli leitað eftir nauðasamningum við lánardrottna sína án tengsla við gjaldþrotaskipti. Raunin hefur hins vegar orðið eins og hæstv. dómsmálaráðherra Ragna Árnadóttir fór í gegnum fyrr í dag að lítil eða engin breyting hefur orðið í þessu efni frá því sem áður var. Mjög sjaldgæft er að einstaklingar fari í nauðasamningsumleitan nema í beinum tengslum við gjaldþrotaskipti. Ástæðan er líklega sú hversu þungt þetta úrræði hefur verið og auk þess sem töluverður kostnaður er fylgjandi. Að vísu hefur ríkið komið til móts við það með að taka þátt í þessu gagnvart einstaklingum.

Í þessu frumvarpi er lagt til að skapað verði visst úrræði fyrir stjórnvöld til að aðstoða þá einstaklinga og fjölskyldur í landinu sem lent hafa í alvarlegum fjárhagserfiðleikum við að ná fótfestu á ný í þjóðfélaginu. Samkvæmt þessu frumvarpi getur greiðsluaðlögun aðeins átt við einstaklinga en ekki aðrar lögpersónur. Gert er ráð fyrir að málsmeðferð í tengslum við umsókn um greiðsluaðlögun verði á einni hendi, þ.e. hjá sýslumanni. En heimilt er að kæra vissa ákvörðun sýslumanna til héraðsdóms, samanber VI. kafla. Kröfuhafi er bundinn af úrskurði um greiðsluaðlögun þegar hún hefur verið ákveðin. Hann getur þó í vissum tilvikum óskað eftir endurmati á ákvörðuninni, samanber VIII. kafla.

Við framsóknarmenn teljum einnig skipta miklu máli að skuldarinn geti sótt sér ráðgjöf um fjárhagslega erfiðleika til sýslumanns og að dómsmálaráðuneytið styðji við þessa þjónustu sýslumanns með ráðgjöf og leiðbeiningum og er það lagt til í 1. gr. frumvarpsins.

Álag á skuldara getur verið mjög mikið og hingað til hafa þeir átt í fá hús að venda. Sýslumenn eru líka í lykilaðstöðu til að koma að ráðgjöf til skuldara þar sem fjárnámsgerðir fara í gegnum þá og þeir eru í miklum tengslum við fólk í greiðsluerfiðleikum.

Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til að greiðsluaðlögun komi til greina. Skilyrðin eru að einstaklingurinn eigi í varanlegum greiðsluerfiðleikum og ekki fyrirsjáanlegt í náinni framtíð að hann geti staðið við greiðsluskuldbindingar sínar. Þarna er sérstaklega tekið fram að það er fyrirsjáanlegt í náinni framtíð og er í samræmi við þær breytingar sem verið er að leggja til á „skuldsaneringslagen“ í Svíþjóð og einnig í Danmörku.

Bú einstaklings má ekki vera undir gjaldþrotaskiptum og má hann ekki heldur hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga. Greiðsluaðlögun þarf að reikna út með tilliti til aðstæðna skuldara og lánardrottna.

Við framsóknarmenn töldum ekki ástæðu til að setja tímatakmörkun hvenær viðkomandi einstaklingur bar ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi líkt og gert er í frumvörpum ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokksins. Við teljum að það eigi ekki að refsa fólki fyrir að hafa stundað atvinnustarfsemi á þennan máta. Ósanngjarnt er einnig að verðlauna þá sem hafa stofnað einkahlutafélög með takmarkaða ábyrgð umfram þá sem rekið hafa fyrirtæki á eigin kennitölu.

Við töldum einnig ástæðu til að opna fyrir það að skuldari sem ber mikla persónulega ábyrgð vegna fyrrum fyrirtækjarekstrar og mun ekki í fyrirsjáanlegri framtíð geta staðið við greiðsluskuldbindingar sínar geti sótt um greiðsluaðlögun þrátt fyrir að enn sé ekki búið að gera upp þrotabú fyrirtækisins að því gefnu að skiptastjóri sé tilbúinn að mæla með því.

Greiðsluaðlögun skal teljast sanngjörn með tilliti til aðstæðna skuldara og lánardrottna. Við mat á þessu skal taka tillit til hvar og hvenær til skuldanna hefur stofnast, til hvaða ráðstafana skuldarinn hefur gripið til til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og hvort hann hafi sýnt skýran samstarfsvilja við umsóknarferlið. Almenna reglan skal vera að aðeins er hægt að sækja um greiðsluaðlögun einu sinni á ævinni nema mjög sérstakar aðstæður mæli með öðru.

Undir greiðsluaðlögun samkvæmt frumvarpi þessu munu allar fjárkröfur falla á hendur skuldara sem stofnast hafa fram að því að greiðsluaðlögun er ákveðin að því gefnu að þær séu löglegar og ekki sviksamlega staðið að þeim. Undanþága frá þessari reglu samkvæmt 4. gr. í III. kafla eru: Veðkröfur að því leyti sem eign stendur undir kröfu. Kröfur sem orðið hafa eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram. Kröfur sem er fullnægt með skuldajöfnun ef bú skuldara væri tekið til gjaldþrotaskipta og kröfur sem ágreiningur er um.

Einnig er lagt upp með að allar kröfur séu jafnréttháar nema kröfuhafi samþykki að krafa hans sé réttlægri eða upphæð kröfu er það lág að sérstök ástæða mælir með því að hún sé greidd að fullu áður en til greiðsluaðlögunar kemur. Er þetta mjög í samræmi við þau lög sem eru í gildi í Svíþjóð.

Umsögn skal skila inn til sýslumanns og sýslumaður skal afla upplýsinga um persónulegar og fjárhagslegar aðstæður skuldara eftir því sem tilefni er til. Fullnægir skuldari ekki skilyrðunum um greiðsluaðlögun, samanber 2. og 3. gr., skal sýslumaður hafna umsókn hans. Með höfnun þarf að fylgja rökstuðningur.

Ef skuldari uppfyllir skilyrði um greiðsluaðlögun á sýslumaður að leggja fram tillögu um greiðsluaðlögun og skal þar koma fram hvaða fjárkröfur falla undir greiðsluaðlögunina og hvort þær eru jafnréttháar, hver sú upphæð er sem kemur til skipta milli kröfuhafa, hversu há upphæð stendur eftir af kröfum sem ekki fást greiddar sem og greiðsluáætlun sem sýnir hvenær og hvernig eftirstöðvar skulda verða greiddar til kröfuhafa.

Við mat á greiðslugetu skuldara skal taka tillit til allra tekna skuldara að fráteknum framfærslukostnaði hans og fjölskyldu hans. Ef um hjón eða sambúðaraðila er að ræða skal einnig líta til tekna maka. Greiðsluáætlun skal vera til þriggja ára nema sérstakar ástæður mæli með lengri eða skemmri tíma. Er þetta þá í samræmi við þær tillögur sem er einnig verið að leggja fram um breytingar á „skuldsaneringslagen“ þar sem þeir voru áður með fimm ár en eru nú að stytta það í þrjú ár.

Tilkynna þarf ákvörðun um greiðsluaðlögun í Lögbirtingarblaðinu ásamt áskorun til allra kröfuhafa um að lýsa kröfum sínum í síðasta lagi einum mánuði frá birtingu. Eftir að innköllunarfrestur er liðinn skal sýslumaður birta tilkynningu í Lögbirtingarblaðinu um að greiðsluaðlögun sé komin til framkvæmda. Tekur hún svo gildi frá þeim tíma sem ákvörðunin er birt.

Í VI. kafla eru svo skýrar kæruheimildir til handa bæði skuldara og kröfuhafa til héraðsdómstóls.

Í 20. gr. í VII. kafla er fjallað um endurmat greiðsluaðlögunar en til endurmats skyldi koma ef skuldari hefur á fölskum forsendum sótt um greiðsluaðlögun, gefið rangar upplýsingar eða ekki fylgt greiðsluáætlun eða ef fjárhagsstaða skuldara hefur batnað verulega, t.d. ef hann hefur fengið arf eða ræður við að borga meira.

Ég vil í lok framsöguræðu minnar segja að núverandi ástand á Íslandi hvað þetta varðar er algerlega óásættanlegt og svartur blettur á íslensku samfélagi. Allt of lengi hefur allt gengið út á að vernda hagsmuni fjármagnseigenda á kostnað almennings. Afleiðingin blasir við okkur með hruni íslensks efnahagslífs, óstöðugleika íslensku krónunnar, okurvöxtum, óðaverðbólgu, lækkandi fasteignaverði eða í raun frosnum fasteignamarkaði og þeim ótrúlegu atvinnuleysistölum sem við horfum upp á.

Eins og ég nefndi áður er þetta fyrsta skrefið að mínu mati þar sem komið er til móts við þá sem verða harðast úti vegna þessara áfalla. Með samþykkt þessa frumvarps yrði stigið mikilvægt og jákvætt skref til að koma til móts við þá sem bera þyngstu byrðarnar og eru hvað verst staddir.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.



[12:27]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að óska nýrri ríkisstjórn til hamingju og óska henni alls velfarnaðar í erfiðu verki sem hennar bíður — afar erfiðu verki — og veitir ekki af góðum óskum.

Ég verð enn fremur að óska fráfarandi ráðherrum í fyrri ríkisstjórn velfarnaðar með þeirri ósk að þeir taki höndum saman með núverandi stjórn til að vinna okkur sameiginlega út úr þeim mikla vanda sem við eigum við að glíma. Sérstakar hamingjuóskir eru til hæstv. dómsmálaráðherra fyrir afar skýra og skilmerkilega framsöguræðu og yfirvegun í andsvörum sem ég hygg að þingmenn gætu haft sér til fyrirmyndar.

Hér er mælt fyrir um afar mikilvægt úrræði sem er mjög brýnt að nái skjótt fram að ganga. Efnahagshrunið kallar á það og það kallar á samstöðu. Það kallar ekki á þá flokkadrætti og tog sem hér hefur átt sér stað. Það kallar á að menn sameinist um það markmið og þann augljósa tilgang sem ég held að allir þeir aðilar sem standa að þessum þremur frumvörpum hafi. Við skulum einbeita okkur að því. Við skulum einbeita okkur að því að leysa neyð heimilanna í landinu og forðast flokkadrætti. Skiljum hismið frá kjarnanum. Ræðum um aðalatriðið. Gleymum okkur ekki í atriðum sem hjálpa ekki fólkinu í landinu. Munum það.

Þjóðinni blæðir í dag og við ættum því fyrst og fremst að ná samstöðu um virk baráttutæki og úrræði til að koma á móts við hana á miklum erfiðleikatímum þar sem 13.000 manns eru atvinnulausir og margir standa frammi fyrir því að eiga jafnvel ekki fyrir nauðþurftum. Þar eigum við að einbeita hugsun okkar, ekki að því hver á hvað og hvað er hvurs í titlatogi. Það er býsna dapurlegt og nöturlegt að hlusta á ræður sem ganga í þá veru þegar eldar brenna á heimilunum. Þessir einstaklingar eiga í mjög verulegum fjárhagsvandræðum. Mér hefur stundum fundist skorta skilning, skorta veruleikahugsun í umræðum hér á þingi eftir að ný ríkisstjórn tók við og reyndar áður en hin gamla lét af völdum, að menn skynji ekki ástandið úti í þjóðfélaginu, að menn hugsa ef til vill meira um kosningar en þjóðina. Komum okkur út úr þessari hugsun. Tökum höndum saman og deilum ekki um atriði sem eru smávægileg heldur deilum þá um það sem mikilvægast er að ná fram að ganga þjóðinni til heilla.

Ég ítreka það að á bak við þessi þrjú frumvörp sem hér liggja frammi liggur sameiginlegur tilgangur, sameiginleg hugsun, sameiginlegur vilji til þess að aðstoða einstaklinga, almenning og heimilin í landinu. Mér er slétt sama hvaðan gott kemur ef það gagnast almenningi og einstaklingum. Og mér er slétt sama hver eignar sér heiðurinn af því. Mér er slétt sama bara ef við náum árangri. Um það snýst þetta mál.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir og flutt er af hálfu ríkisstjórnarinnar er faglega unnið. Það er faglega unnið eins og vænta mátti af hæstv. ráðherra. Það er skilmerkilega sett fram. Sé eitthvað gott að finna í hinum frumvörpunum sem megi sameina eða aðlaga er það auðvitað verkefni allsherjarnefndar. Ég hygg að hæstv. ráðherra sé líka slétt sama hvaðan gott kemur.

Ég treysti því og skora á nefndarmenn hv. í allsherjarnefnd að vinna hratt og örugglega að þessu máli og ýta til hliðar flokkadráttum, hugsanlega persónulegum metnaði og öllu öðru sem kann að leggja steina í götu þess að frumvarpið verði afgreitt eins hratt og hægt er. Það er beðið eftir þessu. Það er beðið eftir þessum úrræðum og þau munu virka.

Við verðum líka í þjóðfélaginu í dag að temja okkur nýja hugsun í þeim vanda sem við blasir. Við erum að takast á við gjörólík verkefni. Við erum að takast á við efnahagshrun sem þjóðin hefur ekki upplifað og við verðum að ýta burtu gamalli, hefðbundinni hugsun. Við verðum að taka upp öll þau tæki sem við getum sem gagnast geta einstaklingum og heimilum. Mér er nánast slétt sama um hver þau tæki eru svo fremi að þau virki til hagsbóta almenningi og svo fremi að þau gangi ekki gegn stjórnarskránni. Ég er jafnvel til í að fara inn á gráa svæðið þar ef það gagnast almenningi en ekki brjóta gegn henni.

Svo að lokum eitt í viðbót, herra forseti, til umhugsunar fyrir allsherjarnefnd og fyrir ríkisstjórnina og fyrir okkur þingmenn, að við skoðum til hlítar hvernig við getum hjálpað bændum og hvort hugsanlegt sé að aðlaga þetta frumvarp að hagsmunum bænda. Bændur eiga sín heimili til sveita og eru með atvinnurekstur samhliða því og þeir standa allt of margir afar illa. Ég hef sagt það og get sagt það aftur: Við megum ekki missa eitt einasta bú úr rekstri. Þangað sækjum við styrk endurreisnarinnar og í sjávarútveginn. Gerum okkur það ljóst. Það er einn fjórði kúabænda í alvarlegum erfiðleikum, aðrir í erfiðleikum, og sauðfjárbúskapurinn stendur eins og allir vita einkar illa. Ég hefði kosið það án þess þó að það mundi tefja þetta frumvarp, það gæti þá komið fram í nýju frumvarpi — ef menn sjá leiðir í allsherjarnefnd til að koma á móts við þarfir bænda sem margir eru að komast í greiðsluþrot, ekki bara út af skuldum heldur verulega hækkuðum aðföngum, áburður hefur hækkað um tugi prósenta — að allsherjarnefnd hugleiði hagsmuni þeirra og hagsmuni okkar að halda öllum býlum í búrekstri og jafnvel að stofna til fleiri.



[12:35]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir skýra framsögu og andsvör, ég tek undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði hvað það varðaði. Ég tek líka undir efnisatriði í máli hans, og einmitt það að það skiptir máli að afgreiða sem allra fyrst lög um greiðsluaðlögun eða breytingar á gjaldþrotaskiptalögunum. Þá er í sjálfu sér fyrst fyrir að líta það frumvarp sem flutt er af ríkisstjórninni — og ég gef ósköp lítið fyrir það hver eigi höfundarréttinn að frumvarpinu, hvort það hafi komið fram eitthvað örlítið breytt miðað við það sem áður hafði verið talað um eða ekki. Höfuðatriðið er að við fjöllum hér um mjög mikilvæga breytingu sem verið er að leggja til að gerð verði á lögum, breytingu sem skiptir máli og er allt of seint komin fram.

Sá sem hér stendur fór að berjast fyrir því að tekin yrðu upp lög um greiðsluaðlögun fyrir u.þ.b. 20 árum. Það er með ólíkindum að það skuli hafa tekið allan þennan tíma, og þurft efnahagshrun til, að ráðamenn þjóðarinnar skynjuðu nauðsyn þess að gera breytingar á löggjöfinni til samræmis við þá löggjöf sem er í gildi á öðrum Norðurlöndum. Um árabil var það eitt helsta baráttumál Neytendasamtakanna að gerð yrði breyting á lögum um gjaldþrotaskipti og tekin upp ákvæði um greiðsluaðlögun. Það hefur ákveðna og mjög víðtæka þýðingu í samfélagi að taka slíka löggjöf upp, hvort heldur um er að ræða samfélag eins og það sem við höfum í dag eða það samfélag sem við höfðum fyrir einu eða tveim árum. Það er nú einu sinni þannig að þau eru rétt orðin úr Nýja testamentinu, fátæka hafið þér ávallt hjá yður. Fólk er í mismunandi stöðu sem getur komið til af mörgu, m.a. vegna veikinda og ýmissa erfiðleika.

Þá skiptir máli að sú hugsun sem á sínum tíma lá því til grundvallar að sett voru lög um gjaldþrotaskipti sé útfærð með þeim hætti sem hentar í nútímasamfélagi, þ.e. að þeir sem ekki geta greitt skuldir sínar eigi ákveðið úrræði — gjaldþrotaskiptin voru á sínum tíma þannig hugsuð — og möguleika á því að rísa á fætur aftur. Hér á landi hefur það iðulega verið talið jafngilt glæp að verða gjaldþrota, en því fer fjarri að um slíkt sé að ræða. Í því sambandi má t.d. benda á að ýmsir helstu athafnamenn þjóðarinnar máttu þola það að verða gjaldþrota en gátu, miðað við þá löggjöf sem þá var við lýði, risið upp aftur og byggt upp ný fyrirtæki. Sennilega er Thor Jensen frægastur þeirra en mig minnir að hann hafi orðið gjaldþrota þrívegis en ítrekað náð að byggja upp blómleg fyrirtæki landi og þjóð til hagsældar.

Hvað sem menn vilja segja um áhættusækna fjárfesta nú á dögum þá eru áhættusæknir fjárfestar forsenda þess að fjölbreytt atvinnulíf þrífist og framfarir í einu landi. (Gripið fram í.) Það er hins vegar mjög mikilvægt, hv. þm. Mörður Árnason, að við markaðshyggjumennirnir gerum okkur grein fyrir því að markaðshyggjuna á að reka á sínum eigin forsendum en ekki á þann veg að menn geti tekið áhættu á forsendum annarra eins og verið hefur. Það er eitthvað það fáránlegasta sem við höfum horfst í augu við undanfarin ár að markaðshyggjumennirnir, kapítalistarnir, hafa tekið áhættu á minn kostnað og þjóðarinnar. Það er það sem er það ruglaða í því kerfi sem við búum við í dag.

Þetta var útúrdúr af því að við erum að tala um það með hvaða hætti við komum að varðandi það að leysa vanda þeirra sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Ég er þá að tala um hugsunina á bak við gjaldþrotaskiptalögin og því til viðbótar greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun — það skiptir mig ekki máli hvort orðið er notað — þ.e. að sett er víðari regla um að hægt sé að leita úrskurðar um að fella skuldir hreinlega niður. Þá er spurt: Er það vitrænt í samfélaginu að um þvingunarúrræði sé að ræða í lögum, þvingunarúrræði um að skuldir séu felldar niður? Því er hægt að svara játandi vegna þess að ekki er um það að ræða að hægt sé að kreista fram peninga sem ekki eru til. Það kann að vera þjóðfélagsleg hagkvæmni, og er þjóðfélagsleg hagkvæmni, að fá faglega skoðun á því hvað viðkomandi skuldari getur greitt, gefa honum kost á að losa sig undan skuldum að öðru leyti, að hann greiði það sem hann getur greitt en aðrar skuldir verði felldar niður og hann geti eftir sem áður starfað í þjóðfélaginu.

Vandamálið í sambandi við gjaldþrotalögin eins og þau hafa verið, án þeirra úrræða sem hér eru lögð til, hefur verið það að fjölmargir einstaklingar hafa verið neyddir til að stunda svarta atvinnustarfsemi. Það er aldrei gott í einu þjóðfélagi að knýja á um það með lögum að fólk geti ekki stundað eðlilega arðsköpun og verið sjálfbjarga. Það er því mjög mikilvægt að frumvarpið verði að lögum.

Ég er mjög ánægður með að sjá þá opnun sem kveðið er á um í lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar hvað varðar fólk í atvinnurekstri. Þar er vikið að því að við ákveðnar aðstæður sé hægt að láta þetta taka til þeirra sem hafa verið í atvinnurekstri. Miðað við t.d. löggjöf Norðurlandanna um svipað efni er þetta kannski það atriði sem er ein mesta spurningin varðandi lög um greiðsluaðlögun, hversu víðtækt við eigum að hafa það og hversu langt við eigum að láta það ná varðandi aðila sem hafa verið í atvinnurekstri. Ég hefði talið að við ættum að hafa heimild til þess að leita greiðsluaðlögunar sem opnasta þannig að hún tæki til fólks sem hefði verið í atvinnurekstri. Ég tek þar af leiðandi undir þau sjónarmið sem hv. þm. Atli Gíslason setti fram, að hún nái til aðila í búrekstri og ég tel að hún eigi tvímælalaust og skilyrðislaust að ná til — þ.e. að möguleikinn sé fyrir hendi og eigi að vera opinn gagnvart öllum þeim sem hafa verið í atvinnurekstri. Þá er ég að tala um þá sem hafa rekið einstaklingsfyrirtæki eða smærri fyrirtæki og þá þarf það að liggja fyrir hvernig við skilgreinum einstaklingsfyrirtæki og smærri fyrirtæki í lögum eins og þessum. Hægt væri að hugsa sé að það gæti miðast við fyrirtæki þar sem eigandi og fjölskylda hans starfa og þá miðað við ákveðinn fjölda starfsmanna, starfsmenn væru t.d. færri en tíu, eða ákveðna heildarveltu. Það eru kannski þær helstu viðmiðanir sem ber að hafa í huga.

Ég tel mjög mikilvægt varðandi þessa löggjöf að ákvæði séu sem víðtækust um að heimila aðilum að leita eftir þessari úrlausn. Það er síðan spurning, sem er að öðru leyti meira lagatæknilegs eðlis, hvernig útfærslan er. En ég tek undir og legg sérstaka áherslu á það með hv. þm. Atla Gíslasyni að við eigum ekki að eyða tímanum í að agnúast í ræðustól á Alþingi um ákveðið orðalag eða um það hver eigi höfundarrétt. Sjálfur hefði ég talið heppilegast að fá sérstaka löggjöf um greiðsluaðlögun en það er annað mál og ég get alveg sætt mig við og mun styðja það að þetta mál fái skjóta afgreiðslu í allsherjarnefnd.



[12:45]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að mikilvægt væri að þetta ætti við fólk sem hefði verið í atvinnurekstri en ég hugsa að hann hafi ekki lesið ákvæðið nógu greinilega vegna þess að þar stendur, með leyfi herra forseta:

„Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“

Í mínum huga er þetta tómt mengi, eða nánast, því þeir sem hafa verið í atvinnurekstri skulda yfirleitt umtalsvert vegna hans og féllu því ekki undir þetta. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort ekki sé eðlilegt að beina því til þeirrar nefndar sem fær málið til umfjöllunar að hún skoði þetta og víkki út þannig að ákvæðið eigi við um þá sem hafa verið í atvinnurekstri almennt þó að skuldirnar séu umtalsverðar því að þeir eru kannski ekki síður í vandræðum með skuldir sínar og kannski enn frekar.

Svo varðandi höfundarréttinn, herra forseti. Hv. þingmaður talar um að það sé lítið mál. Auðvitað er þetta lítið mál, hvort um er að ræða ritstuld, höfundarrétt eða hvað þetta nú er. En þetta var eitt af þeim atriðum sem sprengdi fyrrverandi ríkisstjórn. Það skiptir því verulega miklu máli hvernig ferillinn var. Hvernig var ferillinn hjá ríkisstjórninni? Það sýnir sig að það voru samfylkingarráðherrarnir sem stöðvuðu málið.



[12:47]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hefði hv. þm. Pétur H. Blöndal hlustað vel eftir því sem ég sagði þá talaði ég um að víkka þyrfti út ákvæði um þá sem hefðu stundað atvinnurekstur með sérstöku tilliti til þess sem kveðið er á um í frumvarpinu, þar sem það kemur fram. Ég tók einnig undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði varðandi bændur, ég taldi að þetta þyrfti að ná til annarra starfsstétta. Ég talaði líka um að þetta væri eitt af þeim atriðum sem allsherjarnefnd, sem mun fá málið til meðferðar, þyrfti að taka til skoðunar, einmitt með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ég benti á. Það atriði er því alveg skýrt og enginn ágreiningur á milli mín og hv. þm. Péturs H. Blöndals um það. Þeir sem hafa verið í atvinnurekstri og þurfa að leita þessara úrræða eru að sjálfsögðu skuldugir. Ef menn vilja fara þá leið sem ég var að leggja til þá verða menn að gera þær breytingar á frumvarpinu að það leiði til þess að þeir aðilar geti leitað umræddra úrræða. Það er hins vegar alltaf spurning og að mínu viti er þetta ákveðið úrvinnsluatriði sem verður að leita samkomulags um að leysa og ég tel að það muni takast.

Varðandi samskipti fólks í síðustu ríkisstjórn þá var ég í stjórnarandstöðu og ber enga ábyrgð á því og ætla mér ekki að svara fyrir Samfylkinguna eða ráðherra hennar eða taka þátt í þeim heraldíska vopnaburði sem hér fer fram á milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.



[12:49]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að Alþingi á ekki að vera í einhverjum sandkassaslag. Þess vegna finnst mér undarlegt þegar fyrir liggur tilbúið frumvarp frá fyrrverandi ríkisstjórn að það skuli ekki vera tekið upp og samþykkt eins og það lá fyrir. Því hafði verið dreift á þinginu. Það var dálítið undarlegt. Það eru pínulitlar breytingar, tvær efnislegar breytingar, og síðan orðalagið, greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun. Að öðru leyti er þetta sama frumvarpið. Mér finnst þetta bera ákveðinn vott um sandkassaleik, að verið sé að flytja stjórnarfrumvarp þegar fyrir liggur annað frumvarp nákvæmlega eins.

Varðandi atvinnureksturinn þá skildi ég hv. þingmann þannig að hann vildi víkka út fyrir bændur. Ég vil víkka út fyrir alla. (JM: Ég vil …) Þá hef ég bara misskilið þetta og þá erum við sammála í því að skora á hv. allsherjarnefnd sem mun fjalla um málið að hún skoði nákvæmlega hvort ekki er hægt að víkka þetta út fyrir fólk sem hefur verið í atvinnurekstri. Ég held enn fremur að við hv. þingmaður séum sammála um það að við viljum báðir stuðla að því að fólk taki áhættu í atvinnurekstri. Ef menn verða síðan undir þá er það ekki endilega þeirra sök, þeir urðu bara undir í samkeppni. Það er ekki endilega saknæmt. En mér finnst eðlilegt að tekið sé á þeim málum. Svo er annað mál ef menn eru að kaupa bíl eða eitthvað slíkt, það er allt annars eðlis.



[12:51]
Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var einmitt að tala um að þetta ætti ekki einungis að ná til bænda heldur til allra, þetta væri spurning um hvernig við skilgreindum þann atvinnurekstur sem ætti að færa undir. Ég talaði meira að segja um að þetta væri spurning um hvort taka ætti tillit til stærðar viðkomandi fyrirtækis, t.d. hvað varðar starfsmannafjölda, veltu o.s.frv., sem eru þær viðmiðanir sem við getum haft. Ég talaði því ekki um að skilja á milli starfsgreina heldur væri miðað við að ákvæðið væri sem víðtækast og fleiri gætu leitað eftir þessu en t.d. því sem er í löggjöf hinna Norðurlandanna varðandi greiðsluaðlögun. Það vil ég leggja áherslu á. Hv. þm. Pétur H. Blöndal og ég erum því sammála um það með hvaða hætti og hvernig beri að vinna úr þessu.

Varðandi skjaldarmerkjafræði Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, um það hvað er hvers og hvurs er hvað, þá skal ég ekki draga neitt í efa sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir í þeim efnum, að málið hafi legið fyrir eins og hann segir og hægt hefði verið að taka það upp með þeim hætti. Í mínum huga skiptir þetta sáralitlu máli, við erum fulltrúar löggjafarvalds til að vinna úr því sem fyrir okkur liggur og ber að gera það og eigum að sjálfsögðu ekki að vera í sandkassaleik. Það er dálítið sérstakt að þegar ég færi fram sjónarmið varðandi frumvörpin sem fyrir liggja þá skuli vera komið í andsvör við mig út af því hvað gerðist í síðustu ríkisstjórn, sem mér kemur ekkert við og hafði hina megnustu skömm á af því að hún kom ekki málum í framkvæmd og ég var í stjórnarandstöðu allan tímann. Eðlilegra hefði verið að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði farið í andsvör varðandi þetta atriði við hæstv. dómsmálaráðherra en ekki við mig sem var stjórnarandstæðingur í síðustu ríkisstjórn.