136. löggjafarþing — 75. fundur
 5. feb. 2009.
gjaldþrotaskipti o.fl., frh. 1. umræðu.
stjfrv., 281. mál (greiðsluaðlögun). — Þskj. 507.

og 

gjaldþrotaskipti, 1. umræða.
frv. BBj o.fl., 278. mál (skuldaaðlögun). — Þskj. 497.

og 

greiðsluaðlögun, 1. umræða.
frv. SF o.fl., 275. mál (heildarlög). — Þskj. 494.

[13:30]Útbýting:

[13:31]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þótt hann sé ekki kominn í salinn vil ég hefja þessa ræðu á að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir framsöguræðu sína sem er jafnframt jómfrúrræða hennar á þingi og þetta er líka fyrsta frumvarp hins nýja dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur. Um leið verð ég að átelja fyrrverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Björn Bjarnason, fyrir fremur óviðurkvæmilegar athugasemdir í garð hins nýja dómsmálaráðherra. Nýjasta framlag hans á þinginu var nokkurn veginn í þeirri mynd að hinn nýi dómsmálaráðherra hefði átt að elta uppi frumvörp einhverra manna sem þá voru komnir á þing í stað þess að taka það frumvarp úr starfi dómsmálaráðuneytisins sem lá í hirslum hennar og var vissulega unnið undir stjórn Björns Bjarnasonar sem tók við þeim drögum úr viðskiptaráðuneytinu eins og hann hefur rakið, í stað þess að taka það og setja á það sitt mark og þeirrar ríkisstjórnar sem dómsmálaráðherrann situr í og flytja á þinginu. Það er í raun og veru algerlega óskiljanleg röksemdafærsla sem býr að baki þessum undarlegu aðfinnslum hv. þm. Björns Bjarnasonar við atferli hæstv. dómsmálaráðherra.

Ég ætla hins vegar ekki að ræða það frekar. Ég ætla heldur ekki að bæta í þann ágæta sarp sem m.a. hv. þm. Jón Magnússon jók áðan um efnisatriði og efnislegan aðdraganda frumvarpsins. Því minnist ég á Jón Magnússon að ekki einungis flutti hann hér gott mál, heldur er hann að vissu leyti aðili að þeirri fáránlegu höfundarréttardeilu sem hér hefur uppi verið að því leyti að Jón Magnússon er ekki bara þingmaður á þinginu, heldur líka fyrrverandi forustumaður í Neytendasamtökunum og ef einhver á höfundarrétt á þessu máli eru það Neytendasamtökin hér innan lands vegna þess að þau hófu þetta mál til vegs fyrst á innlendum vettvangi og það er að vissu leyti samstarfi þeirra við systursamtök sín á Norðurlöndum að þakka að þetta mál er loksins komið til afgreiðslu á þinginu eða réttara sagt virðist eiga að afgreiða það nú á þinginu.

Ég tel nefnilega rétt, forseti, á þessum stað í umræðunni að gefa örlítið sögulegt yfirlit yfir málið. Ég þekki það sjálfur að einhverju leyti en þurfti þó að bæta við svolítilli leit, einkum í þingskjölum, sem ég bætti síðan með samtölum og vil fara aðeins yfir það vegna þess að það skiptir máli hvernig þetta mál bar að. Þá verðum við að hafa lengri tíma undir en þær vikur eða mánuði sem mönnum hefur hér orðið tíðrætt um.

Neytendasamtökin hófu málið sennilega árið 1992. Það var þá rætt á þeirra vettvangi og þau kynna það síðan meðal félaga og samtaka annarra og á pólitískum vettvangi. Þannig er það einu sinni. Þau samtök sem eðlilega taka fyrst undir eru auðvitað verkalýðshreyfingin, Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, og það er engin furða því að þetta er á þeim tíma, 1992–1993, sem hér er kreppa, efnahagslægð, skörp djúp efnahagslægð sem er núna kölluð litla kreppan og er dýpri en maður kannski hyggur núna. Ég var á fyrirlestri Guðmundar Jónssonar sagnfræðings hjá Sagnfræðingafélaginu í haust, frekar en í ársbyrjun, þar sem hann fjallaði um kreppur á Íslandi. Hann sagði m.a. um þessa kreppu, 1991, 1992–1994, sem var auðvitað framhald af þeirri kreppu sem m.a. orsakaðist af efnahagsóstjórn Sjálfstæðisflokksins í stjórninni sem lauk góðu heilli 1988 og minnir svolítið á þessa stjórn sem nú er að fara frá, að hún hefði í raun og veru verið dýpri á Íslandi en sjálf kreppan mikla. Það sem hins vegar gerði hana bærilegri væri það að um 1990 hefðum við búið við velferðarþjónustu sem verkalýðshreyfingu og alþýðuflokkum hafði tekist að byggja upp og lært þar með af kreppunni miklu þar sem það var ekki fyrir hendi, enda hafði samfélaginu þá lengi verið stjórnað af borgaraflokkum og íhaldsmönnum.

Fyrsta sinn sem minnst er á þessa hugmynd á þingi, greiðsluaðlögunina, er í mars 1993 og það er í þingsályktunartillögu sem tveir þingmenn þáverandi Alþýðuflokks fluttu, Össur Skarphéðinsson, núverandi hæstv. utanríkis- og iðnaðarráðherra — ég held að ráðuneytin séu ekki fleiri í bili sem hann ræður — og Sigbjörn Gunnarsson sem þá var á þingi, gott ef hann var ekki formaður fjárlaganefndar. Kannski var það síðar, það skiptir ekki máli. Þetta voru stjórnarþingmenn á sínum tíma og þeir fluttu um það þingsályktunartillögu að félagsmálaráðherra skipaði nefnd til að kanna möguleikana á greiðsluaðlögun og þá var félagsmálaráðherra reyndar Jóhanna Sigurðardóttir sem við þekkjum núna sem hæstv. forsætisráðherra. Þá var merkilegt fylgiskjal með þessari þingsályktunartillögu sem var greinargerð Sólrúnar Halldórsdóttur, hagfræðings Neytendasamtakanna, þannig að höfundarrétturinn er strax í byrjun á þingi, ef við ætlum að ræða það; Neytendasamtakanna og verkalýðsflokka á þinginu.

Því má bæta við þetta að ágætur kunningi okkar sem hér sitjum og stöndum í salnum, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, flutti þetta mál raunar líka sem breytingartillögu við frumvarp um Húsnæðisstofnun um vorið þannig að hann kom hér við sögu. Jóhanna Sigurðardóttir brást við með því að láta þriggja manna nefnd sem hún hafði þá sem félagsmálaráðherra í störfum til að athuga greiðsluerfiðleika því að þetta var í litlu kreppunni, djúpu kreppunni þar sem var töluvert atvinnuleysi og mikið um gjaldþrot, þar sem menn voru píndir í gjaldþrot, kannski ekki af miklum ástæðum, kanna einmitt greiðsluaðlögun líka. Þessi nefnd skilaði svo af sér í maí 1994, var nokkuð lengi að en skilaði af sér með skýrslu þar sem mælt var með greiðsluaðlögun. Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, fór hins vegar frá í júní 1994 — af ástæðum sem flestum eru kunnar og með orðum sem lifa í Íslandssögunni og hafa hljómað mjög sterkt nú síðustu daga — og náði því ekki að fylgja þessu máli eftir.

Sá sem við tók, Guðmundur Árni Stefánsson sem varð þá félagsmálaráðherra, gaf fyrirheit um að flytja þetta frumvarp haustið 1994 en þegar hann var spurður um það á þinginu brá hins vegar svo við að Friðrik Sophusson, fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sagði frá því að þetta væri í nefnd — sem hverjir áttu aðild að? Félagsmálaráðherra vissulega og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, forveri hv. þm. Björns Bjarnasonar sem talaði hér sem mest fyrir hádegi. Og niðurstaða þess starfs, sagði Friðrik Sophusson, með leyfi forseta, „ræður því hvort flutt verður frumvarp um málið“. Þetta var áhugi fjármálaráðherrans á þessu máli þá.

Þetta fór auðvitað svo að Sjálfstæðisflokkurinn settist fyrir málið, hindraði framgöngu greiðsluaðlögunarmálsins á fyrsta kjörtímabilinu þar sem það var rætt á þinginu. Framsóknarmenn sem þá voru í stjórnarandstöðu voru nokkuð snjallir. Í febrúar 1995, á kosningaþingi auðvitað, komu þeir með frumvarp um málið og eiga þar með höfundarrétt að fyrsta frumvarpinu. Þetta gerðist í febrúar 1995 eins og ég sagði og byggðist auðvitað á vinnu Neytendasamtakanna og annarra áhugamanna og félaga úti í bæ, í þjóðlífinu réttara sagt, á þessu máli og er ekki verra fyrir það. Síðan urðu kosningar og framsóknarmenn komust í stjórn og aðrir fluttu sama frumvarpið á sumarþinginu, og það er gaman að því af því að þar er líka fólk sem við þekkjum. Fyrsti flutningsmaður var Ólafur Ragnar Grímsson og annar flutningsmaður Jóhanna Sigurðardóttir áðurnefnd og sá þriðji Össur Skarphéðinsson, öll eru þau enn í störfum og reyndar sá fjórði líka í störfum á vegum ríkisvaldsins að góðum málum, Kristín Ástgeirsdóttir.

Það fór svo að framsóknarmenn urðu að setja sitt mál líka í nefnd sem Ísólfur Gylfi Pálmason stjórnaði og sú nefnd var skipuð stjórnarþingmönnum beggja þeirra flokka sem þá fóru með stjórnina, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Niðurstaðan varð sú að greiðsluaðlögunin, með leyfi forseta, en orðum Þorsteins Pálssonar, þáverandi dómsmálaráðherra, „þykir ekki henta“. Sú varð niðurstaða Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokkurinn komst ekki lengra með þetta mál í það skiptið.

Næst fréttum við af greiðsluaðlögun í frumvörpum Jóhönnu Sigurðardóttur og þá hófst mikil frumvarpasaga og mikil barátta Jóhönnu Sigurðardóttur og meðflutningsmanna hennar fyrir greiðsluaðlöguninni því að hún flutti frumvarp um greiðsluaðlögun sem ég hygg að sé að stofni til svipað — breyttist reyndar með tímanum, eftir athugasemdir sem komu fram um það — og frumvarp framsóknarmanna. Það var fyrst flutt haustið 2001, síðan haustið 2002, þá haustið 2003, síðan haustið 2004, síðan haustið 2005 og að lokum haustið 2006. Fyrst voru með Jóhönnu á þessu frumvarpi samfylkingarmenn en síðan á kjörtímabilinu sem hófst 2003 var líka á því fólk úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum. Framsókn var hætt að hreyfa sig á þessum tíma, var búin að gefast upp fyrir Sjálfstæðisflokknum í málinu þangað til í janúar 2007 þegar Jón Sigurðsson brást jákvætt við fyrirspurn frá téðri Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta mál og skipaði þá nefnd í mars 2007 sem hv. þm. Björn Bjarnason rifjaði upp áðan og þá hefst sú saga sem við sjáum núna endann á því að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók við þessum nefndarstörfum og þessu starfi þegar hann varð viðskiptaráðherra eftir kosningar það vor.

Sagan nú er öllum kunn, Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá því að síðasta stjórn hófst þvælst fyrir þessu máli, reynt að setjast ofan á það, reynt að finna því allt til foráttu, krafist þess að skipt yrði um flutningsmann, reynt að hafa efnisatriði þess eins þröng og mögulegt væri en nú eftir stjórnarslitin, þegar Sjálfstæðisflokkurinn liggur í þessu mikla áfalli og ætti að einbeita sér að kenningunum um sorg og sorgarviðbrögð, er þetta mál allt í einu orðið þannig að aðrir menn og aðrir flokkar eru sakaðir um að hafa stolið einhverjum fjöðrum sem standi upp úr höfðinu á hv. þm. Birni Bjarnasyni og virða ekki höfundarrétt sem eins og ég sagði er sennilega í uppruna sínum norrænn en skiptist síðar í sögunni nokkuð jafnt milli Neytendasamtakanna, verkalýðshreyfingarinnar og alþýðuflokka og félagshyggjuflokka á þinginu.

Margir hafa fjallað um þetta mál í ræðustól Alþingis og mér endist ekki sá tími sem ég á eftir til að telja þá upp. Aðeins einn sjálfstæðismaður hefur mælt með því allan þennan tíma í 15 ár, aðeins einn sjálfstæðismaður hefur talið að þetta kæmi til greina sem jákvæð aðgerð. Það vill svo til að sá sjálfstæðismaður er ekki lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, var tekinn úr honum á sínum tíma en gegnir nú um stundir þjóðþrifastörfum á öðrum stað. Það er Vilhjálmur Egilsson. Þótt ég sé ekki sammála honum í stjórnmálum hlusta ég alltaf á það sem sá maður segir og hann hefur oft rétt fyrir sér. Hann leggur oft skynsamlega hluti til mála og það gerði hann í þetta sinn. Eini sjálfstæðismaðurinn frá árinu 1993 til ársins 2009 þegar sjálfstæðismenn loksins hafa skipt um skoðun.

Hvernig stendur á þessu? Ég veit það ekki. Það verða sjálfstæðismenn að skýra sjálfir. Það er ljóst að bankarnir voru mjög á móti þessu máli á sínum tíma og fleiri hagsmunaöfl, sennilega líka margir lögfræðingar sem þótti þetta ekki vera hagstætt fyrir sig, en lærdómurinn sem við fáum úr þessari sögu er sá að hér á Alþingi hefur sennilega verið meiri hluti fyrir þessu máli í öll þessi ár, frá 1993 og allt fram til dagsins í dag, meiri hluti allan þennan tíma, 15 eða 16 ár. Hann hefur hins vegar aldrei náð málinu fram vegna þeirrar ógæfu Íslendinga á þessari öld og hinni síðustu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið allt of sterkur og getað notað minni hluta sinn á þinginu til að trufla mál af þessu tagi og koma í veg fyrir það að félagshyggjuflokkar og jafnaðarmenn stofni til framfara í samfélaginu.

Þetta fannst mér, forseti, eiga erindi inn í þessa umræðu, sérstaklega af því að (Forseti hringir.) hún hefur af hálfu Sjálfstæðisflokksins snúist um fjaðrir og höfundarrétt.



[13:46]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra minntist á það í gærkvöldi að mjög mikilvægt væri að menn ynnu hratt og vel að málum. Við ræðum hér eitt af þeim málum sem þarf að vinna hratt og vel og mig langar að spyrja hv. þm. Mörð Árnason til hvers þessi sögulega upprifjun hafi verið — það hefði mátt skrifa um þetta grein í sagnfræðirit — og hvort þetta flýti eitthvað málinu, hvort þessi ræða hjálpi fjölskyldum á Íslandi sem eru í miklum vanda og þurfa að fá bráða lausn mála.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann hvort hann meti ekki þau frumvörp sem samflokksmaður hans, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, hefur flutt trekk í trekk um ábyrgðarmenn sem er mjög ámóta frumvarp og ég hef verið flutningsmaður að.



[13:47]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég get svarað þessari spurningu á þann veg að ég held að vönduð umfjöllun um mál af þessu tagi, þó að mikið liggi á, hjálpi þingmönnum að gera upp hug sinn. Hún hjálpi starfinu í nefndinni áfram og komi í veg fyrir málalengingar og vitleysu sem menn hafa haft í frammi, m.a. hv. þm. Björn Bjarnason í ákaflega löngum ræðum sínum hér í dag.

Um frumvarp Lúðvíks Bergvinssonar um ábyrgðarmenn þá hef ég ekki lesið það frumvarp sem hér liggur fyrir. Ég kom inn sem varaþingmaður í gær. Ég veit hins vegar út á hvað frumvarpið gengur og ég veit líka að hv. þm. Pétur Blöndal hefur staðið fyrir ýmsum ágætum málum hér og oft þvert á flokksvilja og aga sem menn eru annars beittir í Sjálfstæðisflokknum. Ég þakka honum fyrir það.



[13:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni, hvort hann telji að þetta hjálpi fjölskyldum í landinu sem eru í neyð og þurfa bráða úrlausn mála sinna, hvort svona sögulegar vangaveltur, þar sem tíminn er nýttur til hins ýtrasta, þjóni hagsmunum íslenskra fjölskyldna sem eru í miklum vanda og það núna.



[13:48]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Jú, ég svaraði þessu af þeirri gæft sem ég yfirleitt viðhef þegar ég svara hv. þm. Pétri Blöndal. Ég tel að vönduð umfjöllun um málið, þar sem sagan á að eiga sinn þátt, hjálpi þingmönnum til þess að samþykkja frumvarpið, til þess að breyta því í það horf sem best er fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Ég held að sú sögulega yfirsýn sem ég hef reynt að veita hjálpi málinu betur en sú punktsaga sem hv. þm Björn Bjarnason bauð upp á hér fyrr í dag vegna þess að niðurstöðurnar úr minni sögulegu smáathugun eru mjög skýrar. Þær eru þær að bráðavandi fólks frá 1993 til ársins 2009 — menn hafa ekki hér á þinginu getað brugðist við honum með þessum hætti vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið í alla sína tíð og er í enn, sem er fullkomlega stórkostlegt, hefur staðið á móti málinu. Og það er hans að skýra það. Það er ekki mitt. Ég get komið með skýringar eins og fræðimenn gera. Ég get komið með tilgátur, skýringartilgátur. En það er hans og þeirra sjálfstæðismanna að svara því hvers vegna þeir hafa gert það.

Hverju reiddust goðin árið 1993, 1995 og á þeim tíma fram að frumvörpum Jóhönnu Sigurðardóttur, 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2006? Af hverju hafa sjálfstæðismenn staðið á móti málinu í tíð síðustu ríkisstjórnar og af hverju leika þeir þetta fáránlega leikrit hér til þess að tefja málið og afgreiðslu þess og auka þann bráðavanda sem hv. þm. Pétur Blöndal og ég höfum jafnmiklar áhyggjur af?



[13:51]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau þrjú frumvörp sem við ræðum hér miða öll að því að koma til móts við þá sem eiga í greiðsluerfiðleikum. Söguskýring hv. þm. Marðar Árnasonar, sem má kalla frá fortíð til framtíðar, hafði í sjálfu sér ekkert hingað inn í þingsal að gera vegna þess að þingmenn hljóta að lesa og kynna sér mál án þess að um þau sé rætt á þann hátt sem hér var gert.

Mig langar að spyrja, með leyfi forseta, hv. þm. Mörð Árnason: Hver er skoðun hans á frumvarpi sem 25 manna þingflokkur sjálfstæðismanna leggur hér fram? Hvað er í því frumvarpi sem hann getur ekki sætt sig við? Og hvað er í því frumvarpi sem ekki kemur heimilunum í landinu til góða?



[13:52]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er afar fróðlegt að heyra hvað hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur finnst vera við hæfi hér í umræðum á þinginu og kannski er þingheimur almennt á því að ekki sé hollt fyrir mál að rifja upp sögu máls eða draga ályktanir af afstöðu einstakra flokka, samtaka eða þingmanna til mála. Ég tel nú samt að það sé svo og veit ekki betur en að það hafi verið stundað hér í þessum sal allt frá því hann varð til og á því þingi sem stóð hér uppi í brekkunni áður en þessi salur varð til. Ég veit ekki betur en það sé sá háttur sem þingmenn hafa lengi haft að virða fyrir sér sögu mála, draga af henni ályktanir á sama hátt og þeir skoða málið sjálft efnislega og bera það saman við samtíma sinn.

Um frumvarp sjálfstæðismanna er ósköp einfaldlega það að segja, sem hér hefur áður verið sagt — hæstv. dómsmálaráðherra hefur rakið í hverju það er frábrugðið því stjórnarfrumvarpi sem hér liggur fyrir frá þeim ráðherra sem á sinn hefðarrétt að flytja frumvarp af þessu tagi án þess að réttur sjálfstæðismanna eða annarra þingmanna sé að nokkru leyti vanvirtur.

Ég styð ósköp einfaldlega frumvarp dómsmálaráðherra og tel til bóta þann viðauka sem hún hefur gert á þeim drögum sem hv. þm. Björn Bjarnason afritaði í ráðuneytinu og afhenti síðan þingflokki Sjálfstæðisflokksins til flutnings hér. Ég tel að sú vinna sem hefur farið fram í ráðuneytinu eftir að Björn Bjarnason hvarf þaðan sé til stórra bóta. Ég þarf ekkert að rökstyðja það frekar, það hefur verið gert hér fyrr í dag.

Ég held að sagan hjálpi okkur og ég held kannski að þetta andsvar og önnur viðbrögð hér stafi af því að menn eiga svolítið erfitt með að sætta sig við að í 15–16 ár hafi Sjálfstæðisflokkurinn staðið gegn félagshyggjuflokkum, (Forseti hringir.) jafnaðarmönnum, verkalýðshreyfingu og neytendasamtökum, staðið gegn því að þetta mál kæmist í gagnið. (Forseti hringir.)



[13:54]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu skiptir sagan máli. Það var enginn að andmæla því. Ég er þó ekki viss um að sú saga sem hv. þm. Mörður Árnason flutti, bæði í ræðu sinni og eins í því andsvari sem hann veitti, stuðli að framgangi þess máls sem við ræðum hér.

Ég spurði hann um skoðun hans á frumvarpi sem 25 manna þingflokkur sjálfstæðismanna leggur fram. Hann gaf lítið fyrir það og eyðir orðum í hnútukast við þingmenn sem ekki hafa tekið til máls undir ræðu hans. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur engan sérstakan hefðarrétt á að flytja mál. Ég hefði talið að það ætti ekki að skipta máli hverjir það væru sem flyttu hér frumvörp ef þau væru til bóta. En það virðist einfaldlega skipta máli fyrir hv. þm. Mörð Árnason hverjir það eru sem flytja frumvarpið.

Nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn flytur frumvarp um skuldaaðlögun þá rekur hann söguna frá 1991 og finnur Sjálfstæðisflokknum allt það til foráttu sem hann mögulega getur hvað það varðar að hann leggur nú fram frumvarp. Það er í hæsta máta óeðlilegt að mínu mati en afar skiljanlegt af hálfu hv. þm. Marðar Árnasonar sem sjaldan eða aldrei leggur eitthvað málefnalegt til umræðunnar.



[13:55]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er nú bara að verða skemmtilegt. Ég veit ekki hvort það hjálpar málinu mikið eða hvað hv. þm. Pétur Blöndal mundi segja um þessar umræður gagnvart bráðavanda heimilanna. Ég ætla í virðingarskyni við hv. þm. Pétur Blöndal ekki að framlengja mál mitt um umræður um málefnalegt framlag mitt til umræðna hér á þinginu eða annars staðar.

Ég vil hins vegar forða hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur frá þeim misskilningi að ég standi gegn frumvarpi þeirra sjálfstæðismanna. Það er ekki svo. Ég fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loksins, eftir þessi sextán ár, fimmtán og hálft ár, komist að þeirri niðurstöðu að Neytendasamtökin, verkalýðshreyfingin í landinu, Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn hafi rétt fyrir sér í því að skynsamlegt sé að hafa hérna það kerfi greiðsluaðlögunar sem fyrir hendi er í öllum hinum norrænu ríkjunum þótt með mismunandi hætti sé.

Við stöndum ósköp einfaldlega frammi fyrir því, og það skiptir kannski litlu máli þegar til stykkisins kemur af hverju það er, að fyrir liggja þrjú frumvörp um sama málið. Eitt flytur Framsóknarflokkurinn og ég viðurkenni að ég hef ekki litið þannig á það þannig að ég viti hver munurinn er á því og t.d. frumvörpum Jóhönnu Sigurðardóttur sem ég nefndi áðan, sem hún flutti sex sinnum og breyttust reyndar í meðförum — eða hinu upprunalega frumvarpi Framsóknarflokksins.

Ég tek fullt mark á Birni Bjarnasyni með það að hin tvö frumvörpin kunni að vera betri en það frumvarp og held raunar að svo sé vegna þess að þau hafa verið betur unnin og frumvarp Framsóknarflokksins er nú fyrst og fremst sett til þrýstings á málið. En það frumvarp sem við erum auðvitað fyrst og fremst að ræða er frumvarp dómsmálaráðherra. Það er engin vanvirða við einstaka þingmenn að telja að svo sé, það er stjórnarfrumvarpið í málinu og ég styð það stjórnarfrumvarp sem hluti af stjórnarliðinu hér á þingi. (Forseti hringir.) Ég veit ekki hvort ég á að tala lengur hérna en þetta er það eina sem ég get um það sagt núna.



[13:58]
Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. dómsmálaráðherra alls góðs í störfum sínum á erfiðum vettvangi næstu vikur og mánuði og veit að hún mun vinna af mikilli samviskusemi.

Ég hef ekki hugsað mér að fara út í sérstakt hnútukast við aðra flokka um hvernig best hefði verið að halda á málinu, hver fortíð þess er o.s.frv og tek undir það sem fram hefur komið að margt er brýnna að gera á þessari stundu en akkúrat það. Í upphafi verð ég þó að segja að frumvarp framsóknarmanna sem hér liggur fyrir um greiðsluaðlögun er kannski það sísta í málinu, því eftir að hafa komið nokkuð að málinu í vetur á vettvangi fyrri ríkisstjórnar lá fyrir að sú leið hentar ekki réttarkerfinu í landinu og nauðsynlegt var að koma málinu úr þeim farvegi sem það hafði verið í hjá viðskiptaráðuneytinu og töluvert þurfti til til að koma því í réttan farveg í dómsmálaráðuneytinu, svo fyllsta öryggis í réttarkerfinu væri gætt. Það var gert með því að leita atbeina réttarfarsnefndar. Slíkar athuganir taka alltaf ákveðinn tíma og stundum er vandinn þegar litið er til laga sem varða mikilvæg réttarfarsleg málefni sá að menn verða að gefa sér ákveðinn tíma.

Stundum finnst mönnum tíminn ekki vera fyrir hendi og halda að einhverjar patentlausnir á t.d. skiptaréttinum og öðrum mikilvægum lagabálkum sem varða öryggi íbúanna í landinu séu mögulegar. En við megum ekki, hvorki á þessari stundu né annarri, falla í þá gryfju að gefa eftir á þeim sviðum. Ekki var vilji til þess hjá fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni og miklu skiptir að málið skuli hafa fengið þann framgang sem það fékk í lok síðustu ríkisstjórnar með því að ráðherrann hélt fast við það að gæta réttaröryggis í landinu. Þetta skiptir máli í umræðunni sem hér er. Þetta er ekki spurning um, eins og látið hefur verið liggja að, einhvers konar uppgjöf eða aumingjaskap af hálfu sjálfstæðismanna heldur miklu frekar virðingu fyrir kerfinu í landinu og akkúrat því að í kjölfar hrunsins eða aðdraganda þessara, að mörgu leyti merkilegu, stjórnarskipta var sem engin kerfi, engar reglur þyrfti að hafa í landinu lengur. Öllu mætti ýta til hliðar einungis til að þjóna einhverjum algerlega óskilgreindum hagsmunum og menn vissu ekki hvað ætti að koma í staðinn, litu bara í hina og þessa áttina og ákveðna festu þurfti til að gefa ekki eftir á þessari braut. Ef það varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum þá skammast ég mín ekki fyrir það fyrir hönd flokksins.

Aðalatriðið í þessu máli er að flokkarnir á þinginu eru flestir sammála um að gera þurfi breytingu í þessa átt. Þessi tvö frumvörp sem helst eru til umræðu hjá mér, annars vegar frumvarp sjálfstæðismanna, sem ég er einn flutningsmaður að, og hins vegar frumvarp dómsmálaráðherra, eru faktískt á sama máli. Það má alveg ímynda sér að viðbæturnar í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra hefðu orðið til í meðförum allsherjarnefndar vegna þess að mál af þessum toga, jafnvel þótt þau séu vel unnin af hálfu réttarfarsnefndar, þroskast í hinni pólitísku umræðu á þinginu og þannig hefur það verið á vettvangi allsherjarnefndar. Þar hafa menn reynt að fara faglega í málin þannig að ég ætla ekki að útiloka að frekari breytingar geti orðið á frumvarpsdrögunum sem fyrir liggja og jafnvel þótt frumvarp sjálfstæðismanna væri eitt hér hefði það getað tekið einhverjum breytingum í þá veru sem frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra felur í sér.

Ég hef ekki lagst sérstaklega yfir breytingarnar í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra og ætla ekki að tjá mig neitt sérstaklega um það umfram það að allar útvíkkanir ber að nálgast af ákveðinni varúð. Gæta þarf að hagsmunum heimilanna í landinu en það þarf að gera af vissri varúð gagnvart réttarörygginu sem fylgir réttarfarslögum af þessum toga.

Undanfarið hef ég svolítið sett mig í samband við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna vegna þess að þar eru brýn verkefni og við vitum að ráðgjafarstofan kallar á einhvers konar úrræði í þá átt sem hér er verið að kynna. Vitað var, þótt ákveðinn tíma hafi tekið að gera sér grein fyrir því, að ákvæðin sem þó eru í gildandi gjaldþrotaskiptalögum henta ekki við þær aðstæður sem skapast þegar einstaklingar lenda í miklum vanda. Það á ekki bara við um þetta hrun, heldur er þetta almennt úrlausnarefni og þetta þarf að gera þannig að það dugi til framtíðar vegna þess að við gerum ekki ráð fyrir því að vera í hruni í framtíðinni og hljótum því að skapa almennar réttarreglur sem duga til lengri tíma.

Ef frumvarp í þessa veru verður að lögum, sem ég á von á að verði, kallar það á viðbótarstarfsmenn hjá ráðgjafarstofunni, eins og ég skil verkefni hennar, a.m.k. einn, jafnvel tvo eða þrjá. Starfsemi ráðgjafarstofunnar hefur verið misörugg og menn hafa ekki alveg áttað sig á því hvernig henni er best fyrir komið í kerfinu. Nú hefur henni verið varpað út í þennan óróa og reynt verður að tryggja starfsemi hennar út þetta ár, eftir því sem mér skilst. Ég held að þegar menn hafa komið sér niður á það hvernig þetta frumvarp verður að lögum, verði þeir líka að gera sér grein fyrir því hvernig eigi að halda utan um framhaldið og koma því fólki sem þetta úrræði á við í réttan farveg. Ég á frekar von á því að fleiri reyni að komast undir úrræði og átta sig á því fyrir hvern það gildir og mér skilst að hjá ráðgjafarstofunni renni menn, eins og við öll, algerlega blint í sjóinn og mér finnst raunar öll umsögn fjármálaráðuneytisins benda til þess að menn renni mjög blint í sjóinn með hvernig úr þessu mun spilast og hvort búist er við fjölgun.

Nú eru 68 manneskjur á biðlista hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og á stuttum tíma hefur fækkað um 30 á listanum. Ómögulegt er að segja hvernig þróunin verður. Auðvitað er þetta töluverður fjöldi en eins og ég segi, þá gerir maður sér enga grein fyrir því hvort þetta er mikið eða lítið miðað við þann vanda sem er. Ég býst við að vandi heimilanna vaxi næstu mánuði en hvort menn munu knýja mjög á um þetta kemur í ljós. Í allri umræðu um málið verður að passa upp á að þetta getur illa hjálpað þeim sem eru komnir í algert þrot. Þetta úrræði hentar ekki þeim sem eru komnir á heljarþröm, heldur fyrst og fremst þeim þar sem þrot er ekki alveg fyrirsjáanlegt og hægt er að hjálpa fólki út úr vanda sem það ræður við að borga. Gæta verður þess að væntingarnar verði ekki of miklar um að strikað verði yfir alvarlega erfiðleika sem ekki er hægt að komast frá.

Í þessum frumvörpum, og ég vitna í frumvarp sjálfstæðismanna, er grein um umsjónarmann og gengið býsna langt í að veita honum ákveðna möguleika eða heimildir og vald umfram það sem við þekkjum um hin gildandi gjaldþrotaskiptalög hvað varðar nauðasamninga. Réttindi skuldara eru verulega aukin með frumvarpinu og gæta verður þess að sjónarmið lánardrottna verði líka höfð í heiðri og kannski það hefur mér þótt erfiðast í þessari umræðu og allri gagnrýninni á gjaldþrotaskiptalögin, sem hefur verið töluverð í vetur, að um leið og þarf að lagfæra gagnvart skuldurunum verður að vera einhvers konar jafnvægi á milli lánardrottna og skuldara í allri lagasetningu. Þannig er það bara. Ekki er hægt að hugsa sér þetta öðruvísi vegna þess að ákveðin eignarréttarsjónarmið koma til sögunnar þegar horft er á réttindi lánardrottna þannig að þetta hefur allt spilað saman með skynsamlegum hætti.

Mér finnst að í þessu frumvarpi hafi það tekist mjög vel og menn stigið skynsamlega til jarðar og mjög á vel við að setja þetta inn í gjaldþrotaskiptalögin með þessum hætti í stað þess að vera með eitthvert sérstakt frumvarp, algerlega út úr kú, þannig að mér finnst vel hafa til tekist.

Sjálfstæðisflokkurinn mun auðvitað styðja þau mál sem eru til þess fallin að bæta kjör þjóðarinnar á þessari erfiðu stundu. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd munum auðvitað gaumgæfa vel frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um leið og við bendum á að frumvarp sjálfstæðismanna er ekki síður hentugt eins og staðan er í dag. En auðvitað mun Sjálfstæðisflokkurinn líta til breytinganna sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt til og velta fyrir sér hvort þær dugi eða hvort gera þurfi eitthvað öðruvísi. Aðalatriðið er að þetta er verkefni sem allir flokkar eiga að koma saman að því að leysa og finna lausn sem hentar fólki til langs tíma.

Ég vil ítreka það að við höfum ekki haft tækifæri til að velta fyrir okkur þeirri útvíkkun sem orðið hefur í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra nema að því leyti til og ég ítreka það sem ég sagði áðan, að við höfum ákveðnar áhyggjur af því að gengið sé örlítið lengra en brýn nauðsyn er til.

Hins vegar finnst mér fáránlegt að þetta mál eigi að hafa verið einhver sérstakur ásteytingarsteinn á milli ríkisstjórnarflokkanna vegna þess að ekkert sem fram kemur í breytingum í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra er til þess fallið að reka fleyg í ríkisstjórnarsamstarf. Það er fáránlegt að þurfa að sitja undir slíku tali. Mjög skemmtilegt þótti að hlusta á alls konar upplýsingar um hvernig frumvarpið hefur verið lagt fram ár eftir ár og ég er viss um að ef við sjálfstæðismenn viljum geti t.d. hv. þm. Pétur H. Blöndal haldið langar ræður um ýmis mál sem hann hefur talið vera mjög til þjóðþrifa, en ég er ekki viss um að þessir réttlátu þingmenn annarra flokka hefðu áhuga á að hlusta á þær ræður allar saman. Mér finnst þetta ekki vera til þess að hjálpa neitt sérstaklega til í umræðunni. Ég vil miklu frekar að við höldum okkur við efnið sem hér er til skoðunar og reynum að vanda okkur við að gera þetta eins vel og hægt er og ég veit að fulltrúar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd munu reyna að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.



[14:10]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska nýjum hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með jómfrúrræðuna á hinu háa Alþingi og ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með það að fyrsta mál nýrrar ríkisstjórnar skuli koma strax á öðrum degi þingsins inn með þeim hætti sem það gerir vegna þess að hér er vissulega um mjög brýnt mál að ræða.

Eins og fram kemur í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar þá er hún fyrst og fremst mynduð til að hrinda í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum við erfiðar aðstæður, einkum í þágu heimila og atvinnulífs en einnig er í inngangi að verkefnaskránni fjallað um endurreisn bankakerfisins, endurbætur í stjórnsýslu og aðgerðir í þágu aukins lýðræðis, opins og heiðarlegs samfélags.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja mikla áherslu á aðstoð við heimili og fjölskyldur í landinu og IV. kafli verkefnaskrárinnar fjallar einmitt um það. Þar kemur fram að ríkisstjórnin muni grípa til markvissra aðgerða til að bregðast við fjárhagslegum vanda heimilanna í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Þar kemur einnig fram að nú í febrúar muni ríkisstjórnin leggja fram frumvörp um greiðsluaðlögun, greiðslujöfnun gengistryggðra lána og frestun nauðungaruppboða vegna íbúðarhúsnæðis í allt að 6 mánuði á meðan reynt er að tryggja búsetuöryggi til frambúðar. Enn fremur að gjaldþrotalögum verði breytt með þeim hætti að staða skuldara verði bætt, húsnæðislán gömlu viðskiptabankanna færð til Íbúðalánasjóðs og að fyrir lok mars verði lögð fram langtímaáætlun um hvernig skuldavanda heimilanna verði frekar mætt. Þeirri langtímaáætlun mun fylgja mat á stöðu mismunandi tekju- og aldurshópa, tillögur um fjármögnun, mat á kostnaði ríkissjóðs og áhrifum á fjármálastöðugleika. Loks segir í kaflanum um aðgerðir í þágu heimilanna að sett verði lög um séreignarsparnað sem veita sjóðfélögum heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.

Eins og menn sjá af þessum lestri er töluvert verk fram undan og þess vegna mjög ánægjulegt að strax á öðrum degi þingsins skuli vera komið inn með þetta mikilvæga mál sem er mikil réttarbót og gerir almennum launamönnum, þeim sem ekki stunda atvinnurekstur eða hafa hætt því nýlega, mögulegt að endurskipuleggja fjármál sín á sama grunni og félög og fyrirtæki og menn í rekstri, þ.e. á grundvelli gjaldþrotalaganna með greiðslustöðvun og nauðasamningum. Ferlið sem er lýst í frumvarpinu er hins vegar nokkrum mun einfaldara og kostnaði haldið þar hóflegum, þó þannig að ríkið taki hann á sig en ekki skuldarinn.

Ég verð að segja, frú forseti, að bankahrunið hefur ekki aðeins bitnað á þeim sem eru í atvinnurekstri. Fjöldi heimila venjulegs launafólks glímir nú við óheyrilegar skuldir sem vaxa og vaxa og þrátt fyrir að heimilin legðu allar tekjur sínar í vexti og afborganir dygði það oft ekki til. Þetta er eins og að ausa bát með botnlausri fötu, eins og maður nokkur orðaði það við mig á dögunum. Þessi hópur vex og því er spáð í greinargerð með frumvarpinu að gjaldþrotum muni fjölga verulega umfram það sem sést í tölunum sem frumvarpinu fylgja og ná aðeins til loka septembermánaðar.

Með stjórnarfrumvarpinu eru sköpuð skilyrði til að þessir skuldarar geti óskað nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og gert er ráð fyrir að það verði gert m.a. með því að efla Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem einnig krefst útgjalda úr ríkissjóði. Ég verð að taka undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði fyrr í dag að innihaldið skiptir öllu máli en ekki umbúðirnar. Ég hefði talið að hv. þm. Björn Bjarnason hefði átt að fagna þessari framgöngu ríkisstjórnarinnar miðað við orð hans að öðru leyti en því miður bar lítið á því. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að þingið lögfesti sem fyrst þessi úrræði, sem flestir þeir sem hér hafa talað virðast sammála um að þurfi að lögfesta.

Þegar við skoðum þau þrjú frumvörp sem hér liggja fyrir er greinilegt að frumvarp ríkisstjórnarinnar er víðtækast. Bæði er gildissviðið útvíkkað hvað varðar þá sem aðild eiga að úrræðinu, greiðsluaðlögun á fyrst og fremst að vera úrræði fyrir almenna launþega en auk þess er gert ráð fyrir því að skuldari geti fengið greiðsluaðlögun enda þótt hann hafi stundað atvinnurekstur og borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi síðustu þrjú ár, hvort sem hann hefur lagt stund á hana einn síns liðs eða í félagi við aðra. Skilyrði er að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans. Þessi viðbót þýðir í rauninni að iðnaðarmenn, sölumenn og verktakar almennt, einhver nefndi leigubílstjóra, geta fallið undir þetta úrræði en svo er ekki í því frumvarpi sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram þannig að frumvarp ríkisstjórnarinnar er víðtækara að þessu leyti.

Það er einnig víðtækara að því leytinu til að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því í bráðabirgðaákvæði að unnt verði að gera breytingar á skilmálum krafna sem eru óbeint í eigu ríkissjóðs, þ.e. í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins, og tryggðar með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara.

Ég get ekki tekið undir það sem hv. þm. Björn Bjarnason sagði áðan að óþarfi væri að taka þetta fram vegna þess að hér er um að ræða skýrt frávik frá meginreglu í 28. gr. gjaldþrotalaganna og þótt Íbúðalánasjóður kunni að hafa heimild til að breyta reglum sem þessum virðist mér augljóst að bankarnir hafa það ekki. Þetta úrræði sem er að finna í stjórnarfrumvarpinu er því að mínu mati mjög nauðsynlegt og rennir stoðum undir það sem ég sagði áðan að af þessum þremur frumvörpum sem hér liggja fyrir er frumvarp ríkisstjórnarinnar víðtækast.

Öll munu frumvörpin þrjú væntanlega ganga til allsherjarnefndar og ég á ekki von á öðru en að hún vinni málið hratt og vel. Ég hef ekki heyrt mikla andstöðu í umræðum í dag og treysti því að í allsherjarnefnd muni menn sameinast um tilganginn sem er hinn sami í frumvörpunum öllum og er til þess ætlaður að leysa bráðan vanda heimila og fjölskyldna í landinu.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt um að beðið hafi verið eftir úrræði sem þessu lengi og ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þá sögulegu upprifjun sem hér fór fram og setur málið í rétt samhengi þegar endirinn er skoðaður og var mjög upplýsandi fyrir mig. Ég hef ekki fylgst með þessu á sama hátt og hv. þingmaður.

Hv. þm. Atli Gíslason spurði í ræðu sinni hvort hægt væri að taka inn í þetta úrræði ákvæði sem tækju sérstaklega til bænda en það er staðreynd að bændur í þessu landi eru afskaplega illa settir og fráfarandi ríkisstjórn skilur þar mjög illa við. Ég vil minna á að bændur eru nú að fara að borga virðisaukaskatt fyrir síðustu sex mánuði og mat margra sem til þekkja er að stór hluti bænda geti alls ekki staðið skil á honum.

Líka er ljóst að vegna svika á búvörusamningnum verður mjög erfitt fyrir bændur að kaupa áburð í vor og ég tek undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði að mjög gott væri ef hægt væri að athuga hvort fella mætti bændur sérstaklega undir þessi úrræði vegna þess að nú þegar eru 13.000–14.000 manns á atvinnuleysisskrá og engum er greiði gerður með því að fjölga á henni með uppflosnuðum bændum í vor. Grípa þarf til sértækra aðgerða við vanda bænda og ég vænti þess að hv. allsherjarnefnd geti litið til þess að fá viðbætur við frumvarpið. Ef það tekst ekki án þess að tefja málið vonast ég til að hægt verði að grípa til þess að koma með annað frumvarp sem tekur á þessum sérstaka vanda. Því miður hefur orðræðan svolítið verið í fortíðinni en ekki framtíðinni og ég átta mig ekki alveg á afstöðu Sjálfstæðisflokksins til málsins. Ég vona að það sé ekki rétt sem ég heyrði í orðræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar um grátt svæði. Ég vona að það þýði ekki að Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn því að sjálfstæðir atvinnurekendur sem gefist hafa upp á rekstri sínum geti notið þeirra úrræða sem að öðru leyti virðist samstaða um að lögfesta.

Ég vil að lokum, frú forseti, ítreka að það er gott að þetta fyrsta frumvarp nýrrar ríkisstjórnar um greiðsluaðlögun er komið fram. Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar sem dreift var við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi kemur fram að á næstu dögum er von á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti til að efla réttarstöðu skuldara og einnig breyting á lögum um aðför, um að lengja aðfarartíma úr 15 dögum í 45, og frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðungarsölu, þ.e. frestun á nauðungarsölu fasteigna um sex mánuði. Öll þessi frumvörp sem væntanleg munu innan tíðar frá hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra eru til þess fallin að framkvæma það sem er efst á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar, að bæta stöðu heimilanna í landinu sem allra fyrst.



[14:23]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún byrjaði mjög almennt og talaði um fjárhagsvanda heimilanna o.s.frv. og þá vil ég spyrja hana hvort hún sé ekki hlynnt því að reist verði álver á Bakka til að minnka atvinnuleysið og bæta stöðu heimilanna. Eins spyr ég líka hvort ekki sé þá rétt að stunda hvalveiðar þar sem þær auka líka atvinnu.

Svo vil ég spyrja hana hvort það sé ekki alveg á tæru að hún muni standa með mér gegn samningum um Icesave sem veldur gífurlegum skuldaklafa á börnin okkar en mér sýnist að hennar flokkur sé genginn í björg með Samfylkingunni í því að þóknast Evrópusambandinu.

Eins og hún segir kom strax á öðrum degi fram frumvarp, en áður var komið fram frumvarp. Af hverju í ósköpunum samþykktu menn það bara ekki? Ég er meðflutningsmaður á því, 1. flutningsmaður er Björn Bjarnason. Af hverju í ósköpunum samþykktu menn það bara ekki og gerðu þessar smávægilegu breytingar í nefndinni? Ég bara spyr. Það hefði flýtt mjög fyrir málinu. Þá hefði verið hægt að lögfesta það sem fyrst.

Hún nefndi sérstaklega bændur sem eiga að falla undir þennan atvinnurekstur: Ákvæðið eins og það stendur núna er nánast tómt mengi. Þeir sem þekkja stöðu skuldara vita að þeir sem hafa verið í atvinnurekstri eru yfirleitt með miklar skuldir frá þeim atvinnurekstri ef þeir eru í vandræðum. Ég spyr hvort það sé ekki rétt, hvort hún taki ekki undir með hv. þm. Jóni Magnússyni og mér, að það þurfi að víkka þetta frekar en ella þannig að þetta nái til þeirra sem skulda mikið vegna atvinnureksturs, t.d. bænda og þeirra sjálfstæðu atvinnurekenda sem hafa verið að baksa í atvinnurekstri. Þá vil ég kannski undanskilja útrásarvíkingana.



[14:25]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara hér í almennar málfundaumræður um stjórnmál við hv. þm. Pétur Blöndal. Ég leyfði mér að vitna til þess að þessi ríkisstjórn er mynduð við afskaplega erfiðar aðstæður sem Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á eftir stjórnarsetu hér í hartnær 18 ár. Hún er mynduð við erfiðar aðstæður til þess fyrst og fremst að grípa til mjög brýnna aðgerða til að bjarga heimilum, einstaklingum og atvinnulífi frá frekari hörmungum. Það frumvarp sem við hér ræðum er liður í því, fyrsta skrefið.

Ég leyfði mér, hv. þingmaður, að vitna til annarra úrræða sem boðuð eru bæði í málaskrá ríkisstjórnarinnar og í verkefnaskránni. Ég mun ekki skorast undan því að ræða hér Bakka, hvalveiðar eða Icesave við hv. þm. Pétur Blöndal en tel að við þurfum að ræða hér brýnni mál og koma þessu frumvarpi til nefndar þannig að hægt sé að ljúka því.

Hv. þingmaður spurði af hverju ný ríkisstjórn hefði ekki lagt fram það frumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram. Því er til að svara, (Gripið fram í.) hv. þingmaður, að það frumvarp sem ríkisstjórnin hér leggur fram er víðtækara en það frumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram. Það kann auðvitað líka að vera og þætti kannski sjálfsögð kurteisi einhvers staðar að menn hafi viljað virða höfundarrétt fráfarandi dómsmálaráðherra á því skjali sem hans þingflokkur hafði samþykkt en ekki þingflokkur hins stjórnarflokksins. Það kann að vera að menn hafi viljað virða þann (Forseti hringir.) höfundarrétt að því leyti að leggja það ekki óbreytt fram. (Forseti hringir.) Ég bara velti því fyrir mér.



[14:28]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir miður þegar hv. þingmaður segir mig vera í einhverjum málfundaæfingum eða málfundaræðum. Ég tel mig vera hérna með málefnalegar spurningar, t.d. þá af hverju menn samþykktu ekki bara það frumvarp sem búið var að leggja fram og gerðu á því smávægilegar breytingar sem ég mun fara yfir í ræðu á eftir að eru í rauninni tóm mengi, báðar þær breytingar sem menn gerðu.

Svo spurði ég hana að því, sem hún svaraði ekki, hvort hún féllist á það sem hv. þm. Jón Magnússon ræddi og ég líka í andsvari við hann um að hugsanlega þyrfti að víkka þetta út þannig að bændur og fleiri féllu undir þetta. En allt þetta verður væntanlega rætt í nefndinni og ég held að það sé mjög brýnt að koma þessu fram.

Varðandi álver á Bakka og hvalveiðar og Icesave, þetta eru allt saman mál sem varða þjóðina mjög miklu og af því að hv. þingmaður byrjaði að tala um fjárhagsvanda heimilanna svona almennt leyfði ég mér að fara inn á það líka, en í aukasetningu.



[14:29]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ítreka að það stjórnarfrumvarp sem hér liggur fyrir er víðtækara en það frumvarp sem hv. þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur hér fram. Það er óumdeilt að í því eru a.m.k. tvö atriði sem bæði víkka gildissviðið hvað tekur til einstaklinganna sem geta fallið undir þetta úrræði og eins til skuldanna sem geta fallið undir þetta ákvæði.

Mig langar til að svara hv. þingmanni því sem hann nefndi áðan um tvennt, annars vegar hvað varðar atvinnureksturinn og hins vegar hvað varðar bændur. Það er þannig að fasteignaveðskuldir, yfirdrættir og gengistryggð lán eru að sliga heimili, bæði þeirra sem stunda atvinnurekstur og hinna. Það þarf ekki endilega að vera, hv. þingmaður, að stærsti hluti skuldanna á heimilum atvinnurekenda eða fyrrverandi atvinnurekenda sem hafa þurft að gefast upp á rekstri sínum eða hafa hætt honum sé til kominn vegna atvinnurekstrarins. Það vita allir sem eru með gengistryggð lán á húsunum sínum, íbúðarhúsnæðinu sem telst ekki atvinnurekstur, og á verðbótaþættinum að það er engin leið að standa undir þessu eins og aðstæðum er núna háttað í þjóðfélaginu.

Mig langar aðeins til að nefna varðandi bændur að þeir eru líka með þessi erfiðu fasteignalán, bæði á íbúðarhúsnæðinu sínu, á atvinnuhúsnæðinu, og svo hafa þeir einnig þurft að taka lán til kaupa á búmarki. Vandinn þar er ærinn. Og já, ég er búin að lýsa mig samþykka því að það verði reynt að útvíkka þetta þannig að það taki sérstaklega á þeim vanda ef það er hægt án þess að málið tefjist, ella að þá komi fram nýtt mál sem taki sérstaklega á því.



[14:31]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við því sem spurt var um, hvort ég væri á móti því að þetta mál næði fram að ganga í einhverri breyttri mynd. Ég sagði hér í morgun að það væri alveg ljóst að það frumvarp sem við sjálfstæðismenn flytjum er grunnskjalið í þessu máli. Ég hefði talið eðlilegt að þær umræður sem hér fara fram færu fram í þingnefnd því að nú þegar hefur komið í ljós í umræðunni að þingmenn eru með yfirboð varðandi það hvernig þeir sjá að þetta eigi að vera í endanlegri mynd. Ég tel að menn eigi að líta til þess sem réttarfarsnefnd segir í gögnum sínum sem þingmenn geta fengið aðgang að. Engar rannsóknir hafa farið fram hér á þessum málum þannig að menn geti fullyrt nákvæmlega hvað skiptir máli við lagabreytingar til að ná fram þeim tilgangi sem ætlað er. Það er mjög varasamt og ég vara við því að menn teygi sig of langt inn á eitthvert grátt svæði og hefji svo yfirboð um það hvort þessi hópurinn eða hinn eigi að falla undir þessi lagaákvæði. Hér er verið að fjalla um grunnþátt í okkar viðskiptakerfi sem snertir ákveðið öryggi í viðskiptum. Og það að menn standi hér og segi að þessi hópur eigi að koma og það eigi að gera þetta eða hitt gefur bara ranga mynd nema menn hafi einhverjar rannsóknir og einhverjar athuganir á bak við sig. Það er það sem réttarfarsnefnd gengur út á þegar hún sendir okkur þetta álit, að slíkar rannsóknir hafi ekki farið fram. Það liggur ekki fyrir hér nákvæmlega hvernig menn geta tekið á þessu til að bregðast sem best við fyrir einstaka hópa. Því er mjög varasamt fyrir þingmenn að standa hér og vera með yfirboð af þessu tagi og gagnrýna okkur fyrir að við viljum ekki opna eitthvað sem enginn veit í raun og veru hvað þýðir þegar upp er staðið að lokum.



[14:33]
Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Já, það er ágætt að hv. þm. Björn Bjarnason, fráfarandi dómsmálaráðherra, viðurkenni að það hafi engar rannsóknir farið fram á stöðu heimilanna og stöðu skuldara hér á landi. Það er kannski þess vegna sem þörf var á nýjum vöndum í Stjórnarráðinu. Vegna þess að það er ekki aðeins að það hafi ekki hafist formleg rannsókn á aðdraganda bankahrunsins fyrr en síðastliðinn sunnudag þegar til starfa tók loksins sérstakur saksóknari í þeim efnum heldur er líka til þess að líta að rannsóknarnefnd þingsins tók ekki til starfa fyrr en skömmu fyrir áramót. Og jafnvel þótt rannsóknir á stöðu skuldara hefðu farið fram einhvern tímann á síðasta ári þá er alveg ljóst að eftir bankahrunið hefur veruleikinn gjörbreyst. Við vitum hins vegar og öll þjóðin, held ég, að Sjálfstæðisflokkurinn er algerlega úr tengslum við það sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu undanfarna mánuði, hann hrærist bara í einhverjum allt öðrum veruleika. Það er ein af ástæðunum fyrir því að hann er ekki lengur í Stjórnarráðinu sem betur fer. Fjórði dagurinn. Til hamingju Ísland með það, til hamingju Ísland. (Gripið fram í.)

Ég mótmæli því að ég hafi verið með einhver yfirboð gagnvart bændum. Ég segi það einlæglega að vandi bænda í þessu landi er mikill og hann er töluvert annars eðlis en vandi annarra vegna þess að fráfarandi ríkisstjórn skerti búvörusamningana. Hún tók launaliðinn, vísitöluna og launalið bænda úr sambandi, (Gripið fram í.) þannig að það er komið upp misgengi milli launa og lána hjá bændum sem er ekki það (Forseti hringir.) sama og annars staðar í samfélaginu. En haldi menn í Sjálfstæðisflokknum eða annars staðar að fjármagnseigendur eigi (Forseti hringir.) alltaf einir að vera með belti og axlabönd þá vona ég að sá tími sé (Forseti hringir.) liðinn.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)



[14:35]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér áðan var beint fyrirspurnum til hv. þingmanns og þá sagði hv. þingmaður að hann ætlaði ekki að fara út í almennar stjórnmálaumræður. Svo kem ég upp og ræði um þrönga þætti í þessu frumvarpi og bendi á að réttarfarsnefnd sé með ábendingar varðandi breytingar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna um að ekki hefði verið rannsakað nægilega vel við gerð þessara frumvarpa til þessa hvaða áhrif breytingarnar hefðu og þá fer hv. þingmaður að tala um einhverjar rannsóknarnefndir eða sérstakan saksóknara. Ég bara spyr: Hver er hér að drepa málum á dreif með einhverju tali sem skiptir engu máli í þessu sambandi?

Það sem við erum að ræða hér og hv. þingmaður spurði mig um var hvar ég teldi mörkin eiga að vera varðandi gildissvið frumvarpsins. Ég varaði við því að menn væru að fara inn á grátt svæði og væru síðan með yfirboð hvað þá heldur almennar órökstuddar yfirlýsingar og algerlega út í bláinn eins og hv. þingmaður flutti hér. Sem er náttúrlega til marks um þá vanstillingu sem einkennir þetta stjórnarsamstarf, að ekki sé hægt að ræða frumvörp eins og þessi og tæknileg atriði og bregðast við yfirlýsingum þingmanna án þess að þeir fari út um víðan völl eins og hv. þingmaður gerði og tapi sér alveg hreint og gleymi því um hvað málið snýst. Málið snýst um að hafa öryggi í viðskiptum og að ekki sé, með því að fara inn í gjaldþrotaskiptalögin, verið að raska nauðsynlegum grunni sem þarf að vera fyrir öllum viðskiptum hvað sem líður stundarvanda sem auðvitað kann að leysast fyrr með þessu frumvarpi en ella væri. En standa til frambúðar þær breytingar sem við erum að gera hér?



[14:37]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með jómfrúrræðuna og það brýna mál sem hún mælti fyrir í dag. Þetta er stór dagur fyrir alla þá sem barist hafa fyrir löggjöf af þessum toga árum saman og vel á annan áratug.

Hv. þm. Mörður Árnason rakti ágætlega áðan hvernig þingmenn jafnaðarmanna, Neytendasamtökin og Alþýðusamband Íslands hafa haft forgöngu um að búið verði til frumvarp til laga um það efni sem hér er rætt, þ.e. greiðsluaðlögun.

Í þessari umræðu hefur hins vegar verið flögrað nokkuð úr einu í annað með þeim leikjum sem sjálfstæðismenn hafa kosið að leika hér með því að hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra og núverandi hv. þm. Björn Bjarnason tók þetta frumvarp með sér út úr dómsmálaráðuneytinu og ákvað að demba því eins og það stóð þá inn í þingið sem þingmannafrumvarpi í því skyni að reyna að skreyta sig með stolnum fjöðrum.

Það liggur ljóst fyrir að það frumvarp sem hér er lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar er samstofna því frumvarpi sem sjálfstæðismenn leggja fram af einni ástæðu og hún er sú að þetta frumvarp byggir á langri vinnu á vettvangi ríkisstjórnarinnar á undanförnum mánuðum og missirum.

Sú ástæða sem liggur að baki því að hér er lagt fram frumvarp á vegum nýrrar ríkisstjórnar er einfaldlega sú að frumvarpið eins og það lá í höndum hv. þm. Björns Bjarnasonar var ekki nægilega víðtækt og eru gerðar tvær mikilvægar breytingar þar á. Önnur breytingin lýtur að því að skapa skýrar lagaheimildir fyrir því að veðskuldir geti fallið undir andlag þessarar löggjafar. Það er mikilvægt enda skortir lagaheimildir til þess í tilviki ríkisbankanna og jafnvel í tilviki Íbúðalánasjóðs. Það er engin ástæða til að undanskilja veðskuldir þessum úrræðum við þær aðstæður sem við búum við í íslensku samfélagi í dag þar sem við horfum á mjög verulegan samdrátt á fasteignamarkaði og verðfall þar.

Í annan stað er gert ráð fyrir því að úrræðin verði ekki bundin við þá sem hafa verið launþegar heldur líka þá sem kunna að hafa haft atvinnurekstur í eigin nafni eða á vegum einkahlutafélags. Og andstaða Sjálfstæðisflokksins við það er mér satt að segja algerlega óskiljanleg og hún skýrist ekkert frekar við að hlusta á þann ósamstæða málflutning sem hér kemur fram, annars vegar frá hv. þm. Pétri Blöndal sem vill víkka þetta út til svo að segja allra sem hafa verið í atvinnurekstri, og hins vegar frá hv. þm. Birni Bjarnasyni sem vill engu breyta frá frumvarpi sjálfstæðismanna í þá veru að þetta eigi bara að taka til launþega.

Það er erfitt að átta sig á málflutningi sjálfstæðismanna í þessu efni því þar rekur sig hvað á annars horn. Við verðum einfaldlega í löggjöf af þessum toga að taka tillit til þeirra staðreyndar að þúsundir og jafnvel tugir þúsunda manna hafa framfæri sitt af sjálfstæðum rekstri ýmist í eigin nafni eða í nafni einkahlutafélags. Það fólk er í sjálfu sér launþegar í þeim skilningi að það hefur ekki með höndum umtalsverðan rekstur og er ekki með aðra á launaskrá en eiganda fyrirtækisins einan.

Einyrkjarekstur af þessum toga í einkahlutafélögum sérstaklega er bein afleiðing af breytingum sem þáverandi ríkisstjórn stóð fyrir á skattalögum og hlutafélagalögum upp úr aldamótum. Er algerlega óskiljanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki axla ábyrgð af þeim breytingum sínum í dag og játa því fólki sem hefur verið með sinn rekstur í einkahlutafélögum eða á sinn eigin reikning sömu möguleika í þessum efnum og öðrum. Það er ekki þar með sagt að það eigi að fara að teygja þessa heimild út yfir almennar rekstrarskuldir heldur er þvert á móti tekið skýrt fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar að þetta eigi eftir sem áður að vera bundið við persónulegar skuldir viðkomandi aðila.

Hv. þm. Björn Bjarnason talaði af nokkrum belgingi hér fyrr í dag og sagði eitthvað á þá leið að aðkoma hans að þessu máli hefði verið nauðsynleg forsenda þess að þetta mál hefði komið fram því að það hefði verið á miklum villigötum vegna þess að það hefði fyrst komið inn í ríkisstjórn á vegum viðskiptaráðherra þar sem hann lagði fram frumvarp sem unnið var af nefnd sem fyrri viðskiptaráðherra hafði skipað. Það er ágætt að rifja upp hvers vegna málið var á þessum villigötum. Málið var á þessum villigötum, ef villigötur skyldi kalla, vegna þess að hv. þm. Björn Bjarnason sem dómsmálaráðherra hirti aldrei um að sinna þessu máli. Hann hafði engan áhuga á málinu þegar hv. þm. þáverandi og núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði þetta mál fram í formi breytingartillögu á lögum um gjaldþrotaskipti haustið 2003, haustið 2004, haustið 2005 og haustið 2006, allan þann tíma sem hv. þm. Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra. Alltaf var frumvarpið lagt fram í þeim búningi sem hann segir núna að sé nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að samþykkja það, þ.e. sem frumvarp til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti. Og aldrei hirti hann um að sinna því að það fengi framgang og aldrei kom það til afgreiðslu sem þingmannamál á hinu háa Alþingi.

Það var hins vegar nauðvörn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að leita eftir því hvort það gæti verið að finna bandamenn annars staðar í þáverandi ríkisstjórn í ljósi þess að hv. þm. Björn Bjarnason daufheyrðist við kröfum um að koma þessu þjóðþrifamáli áfram. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fékk þá ágætu hugmynd að beina fyrirspurn um það efni til hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra. (BBj: Hvað með hlut Alþingis að samþykkja frumvarp … fyrir þingið?) Þá beinir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir … (BBj: Er það framkvæmdarvaldið sem …?) Hvar var áhugi hæstv. dómsmálaráðherra á þeim tíma? (BBj: Af hverju afgreiddi ekki þingið frumvarpið?) Hvar var áhuginn sem hv. þm. Björn Bjarnason segist hafa á þessu (Gripið fram í.) máli í dag? Hvar var áhuginn á þessum tíma?

(Forseti (ÞBack): Forseti óskar eftir því að þingmaðurinn fái að halda sína ræðu og það séu ekki frammíköll með þessum hætti.)

Ekkert skýrir betur en vanstilling hv. þm. Björns Bjarnasonar núna hversu mjög hér er um stolnar fjaðrir að ræða og hversu mikið sjálfstæðismenn reyna að eigna sér verk sem aðrir hafa unnið og lagt höfuðáherslu á.

Eins og ég var að rekja var það nauðvörn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur til að reyna að koma málinu áfram vegna þess að hv. þm. Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, sinnti því í engu og hafði engan áhuga á því, að beina fyrirspurn til hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Jóns Sigurðssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, og inna hann eftir því hvort hann gæti hugsað sér að hlutast til um að reyna að koma frumvarpi af þessum toga og lagaúrræðum af þessum toga í lög vegna þess að þáverandi þingmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sinnti því ekki eða hafði ekki áhuga á þessu máli. Eins og hv. þm. Björn Bjarnason benti á í frammíkalli sínu áðan hafði þingmeirihlutinn sem Sjálfstæðisflokkurinn var í forsvari fyrir ekki áhuga á að koma þessu máli í gegn og það var greinilega ekki forgangsverkefni forseta þingsins á þeim tíma að sjá til þess að þingmannamál af þessum toga yrðu rædd eða afgreidd.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beinir því þeirri fyrirspurn til Jóns Sigurðssonar, hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, hvort hann geti séð ástæðu til að setja ákvæði af þessum toga í lög. Í svari hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Jóns Sigurðssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, kemur fram að hann sé reiðubúinn til að beita sér fyrir því að skipuð verði nefnd sem meti reynsluna frá öðrum norrænum ríkjum af þeirri löggjöf sem þeir hafa um greiðsluaðlögun. Við slíkt starf beri að hafa í huga að mikilvægt kunni að vera að úrræði um greiðsluaðlögun séu fyrir hendi hér á landi sem unnt yrði að nota svo skuldari komist út úr skuldafeni og geti haldið áfram með líf sitt og fjölskyldu sinnar þegar sérstök og ströng skilyrði eru fyrir hendi, svo sem að samrýmast reglum um fullnusturéttarfar hér á landi.

Í framhaldi af þessu svari þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra skipaði hann nefnd sem skilaði svo af sér því frumvarpi sem hv. þm. Björn Bjarnason gaf þá einkunn að hefði verið rangur farvegur og óeðlilegur framgangsmáti. Ég held að þessi söguskýring, þó að hún fari mjög í taugarnar á hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sé afskaplega mikilvæg og algerlega nauðsynleg til að menn átti sig á samhengi málsins.

Það liggur sem sagt fyrir að dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, sem reynir núna að ríða fram á völlinn sem riddari réttlætisins í þessu máli, hafði engan áhuga á málinu, sinnti því í engu sem dómsmálaráðherra jafnvel þó að það væri lagt fram í nákvæmlega því formi sem hann taldi áðan að væri grundvallarforsenda til þess að hægt væri að ræða það. Þegar síðan aðrir hafa frumkvæði að því og verða við ákallinu — og vil ég þá sérstaklega hrósa hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, þeim ágætismanni Jóni Sigurðssyni, þáverandi formanni Framsóknarflokksins, þegar hann bregst við því kalli og setur á fót nefnd og sú nefnd skilar af sér — þá þrengist auðvitað um útgönguleiðir hv. þm. Björns Bjarnasonar og hann þarf nauðbeygður að vinna að þessu máli, sem hann gerði í stjórnarsamstarfi við okkur, og niðurstaðan liggur fyrir í því þingmannafrumvarpi sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram.

Virðulegi forseti. Málið fer nú og öll þessi þrjú mál til allsherjarnefndar. Það er mikilvægt að við förum vel yfir þetta mál þar en þó er málið orðið það þaulunnið og það hefur velkst svo lengi í kerfinu að mér er stórlega til efs að helstu sjónarmið hafi ekki komið fram í þeirri vinnu. Ég þykist þess fullviss og ég ætla ekki að gera ágreining um það að það var mjög gott að fá aðkomu réttarfarsnefndar að málinu og hún var mikilvæg. Ég tel einnig að sú mikla áhersla sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt á þetta mál á undanförnum árum — og vil ég þá sérstaklega nefna þar aðallögfræðing þess, Magnús Norðdahl — hafi skilað sér í þessu verki öllu.

Ég tel mikilvægt að við vinnum þetta mál hratt á vettvangi allsherjarnefndar og vænti góðrar samstöðu um það við stjórnarandstöðuna, sérstaklega í ljósi þess að hún hefur nú loksins tileinkað sér þá orðræðu að mikilvægt sé að sett séu lög um greiðsluaðlögun á Íslandi. Það út af fyrir sig er fagnaðarefni.



[14:50]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil mótmæla þessum málflutningi, hann er algjörlega rakalaus. Það er alveg fráleitt að leggja mál þannig upp að ef þingmenn stjórnarandstöðunnar flytja frumvörp sem ekki ná fram að ganga í þinginu sé það á ábyrgð ráðherra í ríkisstjórn að sjá til þess að þau frumvörp nái fram að ganga — það sýnir í hvaða þröng þingmenn eru komnir þegar þeir standa frammi fyrir því að við sjálfstæðismenn tókum frumkvæðið í málinu.

Það vorum við sem komum þessu máli í þann búning að það er þinghæft. Þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, nú hæstv. forsætisráðherra, hafði enga burði til að flytja frumvarpið þannig að það væri tækt hér í þinginu. Það komst aldrei í gegn af því að þingmenn sáu strax að frumvarpið var þannig úr garði gert að ef það yrði að lögum yrðu stórvandræði. Þá snúa menn sér til viðskiptaráðherra og hann beðinn um að flytja frumvarpið og fyrir misskilning tekur hann það að sér og ræður ekki heldur við það. Það er ekki fyrr en það er sent til okkar og við leitum til réttarfarsnefndar að málið kemst loksins í þær hendur að hægt er að taka á því.

Að kenna mér um þetta er alveg út í hött og sýnir þau rökþrot sem blasa við þegar menn standa hér og ræða þetta mál. Menn komast ekki undan því að það erum við sjálfstæðismenn sem flytjum þetta mál hér inni í þingið í þeim búningi að hægt sé að afgreiða það. Það hefur enginn haft getu til þess til þessa. (Gripið fram í.)

Við kunnum að setja það í þann farveg að efnisleg niðurstaða fékkst sem allir eru sáttir við. En þá eru settar á langar ræður um það að þetta sé allt mér að kenna af því að þetta hafi ekki orðið til miklu fyrr. (Gripið fram í.) Þetta er ótrúlegt. Ræða eftir ræðu — og svo segja þeir að málið verði að afgreiða strax. Svo standa þeir hér, stjórnarsinnar sjálfir, og flytja ræðu eftir ræðu til að tefja fyrir framgangi málsins.



[14:52]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í andsvarinu staðfesti hv. þm. Björn Bjarnason allt sem ég var að segja. Með öðrum orðum: Hjá honum var aldrei vilji sem dómsmálaráðherra að setja efnisreglur af þeim toga sem hér er um að ræða. Þáverandi hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram frumvarp með þeim úrræðum og í því formi sem hún sem stjórnarandstöðuþingmaður taldi eðlilegt. Ef hv. þm. Björn Bjarnason taldi á þeim tíma einhverja ástæðu til að fella þessi ákvæði í annan búning en koma þeim samt sem áður í gegn hefði hann haft um það forgöngu sem dómsmálaráðherra. Staðreyndirnar tala hins vegar sínu máli. Hann hreyfði þessu máli aldrei, hafði aldrei að því frumkvæði á nokkurn hátt og sýndi því engan áhuga, ekki fyrr en honum er þröngvað til þess þegar fram kemur fullbúið frumvarp af hendi viðskiptaráðherra sem verður til vegna þess að hann sýnir áhuga á þessu máli.

Virðulegi forseti. Að reyna síðan að halda því fram að frumvarp sem unnið er á vettvangi dómsmálaráðuneytisins í samvinnu ríkisstjórnarflokka með aðkomu tveggja annarra ráðuneyta hins stjórnarflokksins sé mál sem sé komið í búning af Sjálfstæðisflokknum er nú eitthvert svakalegasta dæmið um þann innantóma gorgeir sem einkennir þann mikla valdaflokk sem situr hér og engist á stjórnarandstöðubekkjum. Það er nú ósköp einfaldlega þannig að ef þetta mál er í betri búningi en það var áður er það vegna þess að það fór í ákveðinn farveg sem ég er alls ekki ósammála sem er ákveðinn lögbundinn farvegur með aðkomu réttarfarsnefndar vegna þess að hér er um (Gripið fram í.) breytingarferli að ræða á lögum um gjaldþrotaskipti. (Gripið fram í.) Það er mjög jákvæður farvegur. Ég hef tekið það skýrt fram að ég var aldrei ósammála þeirri ákvörðun þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra að fella málið í þann farveg. En að eigna Sjálfstæðisflokknum réttarfarsnefnd þá er nú skörin farin að færast nokkuð upp í bekkinn.



[14:55]
Flm. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að eigna Sjálfstæðisflokknum réttarfarsnefnd. Ég er hins vegar að eigna mér sem sjálfstæðismanni það að ég tók þær ákvarðanir sem dómsmálaráðherra til þess að þetta mál kæmist í þann búning sem það er núna. Án minna afskipta hefði það ekki orðið, það er ekkert flóknara en það. Hvort ég geri það árinu fyrr eða síðar er ekki aðalatriðið heldur að málið sé komið í þennan búning og að búið sé að koma því hingað inn í þingið og að almenn samstaða virðist vera um það. Þá má ég standa hér upp hvað eftir annað til að verja mig fyrir gagnrýni út af því að þetta mál sé komið í þennan farveg. Ég er mjög stoltur af því að mér tókst að koma því úr því rugli öllu sem það var í þegar það kom í mínar hendur og ég er stoltur af því að mér tókst að koma í veg fyrir að frumvarpið sem viðskiptaráðuneytið var með í höndunum yrði lagt hér fram á þingi. Ég er stoltur af því að hafa fengið réttarfarsnefnd til að koma með athugasemdir sínar og segja að það frumvarp væri algjörlega óboðlegt og ætti ekkert erindi inn í þingið. Þetta eru mín verk í þessu, að beina þessu í þennan farveg og sjá til þess að það kæmist í þann búning að hægt sé að taka það hér fyrir.



[14:56]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan: Ekki ætla ég að gagnrýna hv. þm. Björn Bjarnason fyrir að hafa beint málinu til réttarfarsnefndar. En sú spurning hlýtur auðvitað að vakna í þessari miklu réttlætingarræðu Sjálfstæðisflokksins: Hvað tafði Sjálfstæðisflokkinn þá, og hæstv. þáverandi dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að gera eitthvað ef hann hafði áhuga á greiðsluaðlögun út af fyrir sig? Þetta mál var lagt fram árum saman án þess að hann sýndi því nokkurn áhuga. Ef hann hafði áhuga á því að þetta mál kæmi fram og hafði svo mikla brennandi réttlætiskennd, hvers vegna beindi hann því þá ekki fyrr til réttarfarsnefndar? Hvers vegna þurfti alla þessa eftirgangsmuni af hálfu þáverandi hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og annarra þingmanna Samfylkingarinnar? Hvers vegna þurfti að leita ásjár hjá þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra, Jóni Sigurðssyni, og hvers vegna var það fyrst þegar hv. þm. Björn Bjarnason stóð frammi fyrir fullfrágengnu frumvarpi frá viðskiptaráðherra sem hann hreyfði sig í þessu máli og beindi því til réttarfarsnefndar? Það er hin stóra spurning sem staðfestir betur en nokkuð annað að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft áhuga á þessu máli, aldrei viljað framgang þess en hraktist út í það nauðbeygður og þykist núna ætla að reyna að skreyta sig með þessum stolnu fjöðrum. Í gegnum þann mikla blekkingarleik sjá allir sem vita um forsöguna og þekkja hana.



[14:58]
Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með embættið og sína jómfrúrræðu og sérstaklega vil ég óska henni til hamingju með það að hafa tekið mál sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði hér fram og gera það að máli ríkisstjórnarinnar. Mér er til efs að það hafi áður verið gert, að flytja tvö mál nánast alveg nákvæmlega eins þar sem meginbreytingin er að annars vegar er um að ræða frumvarp til laga um greiðsluaðlögun, sem er nýja heitið í staðinn fyrir skuldaaðlögun.

Ég tala hér í fyrsta sinn eftir að þessi nýja ríkisstjórn tók við og óska henni alls velfarnaðar. Það er auðvitað sama hvar í flokki við stöndum, í því ástandi sem við stöndum frammi fyrir núna er númer eitt, tvö og þrjú að hugsa um hag Íslendinga, hugsa um hag þjóðarinnar. Ég tek sérstaklega undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að Framsóknarflokkurinn, eins og hann sagði hér í ræðu í gærkvöldi, muni styðja framgang góðra mála hvaðan sem þau koma. Það er auðvitað sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að hér er um minnihlutastjórn að ræða sem er við völd í landinu í dag. Auðvitað geta aðrir þingflokkar komið fram með góð mál og komið þeim í gegnum þingið án þess að þessi minnihlutastjórn komi þar nokkuð að og flokkar hennar.

Ég hlakka þá til þess að Framsóknarflokkurinn leggi hér fram góð mál því að það er alveg ljóst að það er þingmeirihluti án minnihlutastjórnarinnar til að koma þeim í gegn.

Hv. þm. Árni Páll Árnason fór mikinn hér í ræðustól áðan varðandi skuldaaðlögunina þar sem hann sakaði Björn Bjarnason, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, fyrir að hafa dregið lappirnar í málinu. Það er svolítið sérstakt í ljósi þess að málið var fryst í þingflokki Samfylkingarinnar. Þetta mál var afgreitt úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins í síðustu ríkisstjórn en var fryst í þingflokki Samfylkingarinnar. Svo mikið var þeim í mun að koma þessu máli áfram og svo bera þeir fyrir sig einhverjar smávægilegar breytingar núna, breytingar sem alveg klárlega hefðu getað átt sér stað í allsherjarnefnd og í þeirri umræðu sem þar hefði farið fram og þeirri umræðu sem hefði farið fram í þinginu ef Samfylkingin hefði ekki dregið lappirnar. Þá hefði verið hægt að koma með þessar smávægilegu breytingar sem hafa komið fram í þessu frumvarpi, eins og t.d. að breyta nafninu úr „skuldaaðlögun“ í „greiðsluaðlögun“. Það hefði sennilega mátt breyta því í meðförum þingsins.

Hv. þm. Árni Páll Árnason sagði líka að honum væri til efs að nokkurt annað mál hefði verið skoðað jafn vel í kerfinu eins og þetta tiltekna mál. Samt sem áður þurfti Samfylkingin að tefja málið þrátt fyrir að þeir ágætu þingmenn Samfylkingarinnar hafi fylgst með málinu. Þótt þeir hafi ýtt á málið eins og hann segir og lýsti hér svo ótrúlega fjálglega sáu þeir sér ekki fært að samþykkja málið. Þetta er dæmigert fyrir það sem gerðist hér á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar, það var allt gert til að tefja málið.

Það sem bíður þessarar nýju ríkisstjórnar er að leysa mjög mörg viðamikil verkefni en hún lætur líka alltaf að því liggja að hér hafi ekkert verið gert. Það merkilega er að margt af því sem menn vildu gera var stoppað hjá Samfylkingunni og tafðist og svo þegar farið er að taka hlutina saman kemur í ljós að 100 mál, 100 atriði, voru afgreidd á 100 dögum. Það sér auðvitað hver maður að hendur voru látnar standa fram úr ermum þó að Samfylkingin hafi á margan hátt lagt stein í götu stjórnar Sjálfstæðisflokksins í því samstarfi sem þá var.

Ég verð að segja eins og er að auðvitað er engin spurning um að heimilin í landinu standa frammi fyrir miklum erfiðleikum. Það er líka rétt sem komið hefur fram, staða skuldara hefur að mörgu leyti verið þannig að réttur lánardrottna, svo maður noti nú það tækniorð, er mjög sterkur. Það sem við lærum af þessu bankahruni er að hér kom heilmikið fjármagn, allt of mikið fjármagn, inn í hagkerfið hjá okkur og var mjög hart gengið fram í því, svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, að lána það fjármagn. Ég held að til lengri tíma litið muni þetta frumvarp sem hér liggur fyrir, ef og þegar það verður að lögum, einmitt koma í veg fyrir slíka hegðun, þ.e. að ef staða skuldarans er styrkt og staða þess sem lánar er ekki jafnskýr og rétturinn ekki eins mikill og hefur verið þurfi menn einfaldlega að hugsa sig betur um áður en þeir fara að lána fjármagn, áður en þeir fara að sprauta fjármagni út til almennings.

Að því leytinu til er þetta ekki bara eitt og sér gott mál afmarkað eins og það liggur hér fyrir heldur jafnframt í víðara samhengi. Þetta er líka mjög gott mál af því að það er eitt af því sem verður að liggja fyrir þegar við endurreisum bankakerfið. Það sé ekki þannig að öll ábyrgðin liggi hjá þeim sem tekur lánið heldur hafi þeir líka ábyrgð sem veita lánið. Þetta er eitt af því sem við þurfum líka að skoða. Í þessari endurreisn er oft talað um að sá sem lánar hafi bæði belti og axlabönd og það hefur gjarnan verið svo og ekki bara í því að ábyrgðarhlutinn liggur nánast eingöngu hjá þeim sem tekur lánið heldur líka vegna þess að tryggingin í gegnum vísitöluna er gríðarlega mikil. Þess vegna er þá líka spurning í þessu samhengi varðandi beltið og axlaböndin hvort ábyrgðarhluti þess sem veitir lánin mundi ekki aukast, hvort hann þyrfti ekki að hafa meiri áhættu af því að lána. Ef við breyttum úr þessum hefðbundnu vísitölulánum í vaxtalán þar sem það er ekki með jafnskýrum hætti sem vaxtaprósentan breytist með vísitölu verður hagur allra þeirra, bæði lántakenda og lánveitenda, miklu meiri í því að halda hlutunum eða efnahagslífinu í föstum skorðum og koma í veg fyrir að verðbólgan fari á fulla ferð. Þrátt fyrir að við séum með breytilega vexti er ég alveg sannfærður um að það eitt að vaxtaprósentan hækkar dragi úr vilja fólks til að taka lán. Vextirnir sem við borgum af lánunum í dag, þessum vísitölutryggðu lánum, eru alltaf tiltölulega lág vaxtaprósenta en duldu vextirnir eru í gegnum vísitöluna. Þess vegna virkar vaxtaprósenta miklu lægri en hin raunverulega vaxtatala er þegar búið er að reikna vísitöluna inn í. Það er allt önnur tilfinning að taka lán þar sem um er að ræða 5% eða 15% vexti.

Eitt af því sem einnig var gert, sem ég fagna sérstaklega og er í tengslum við þetta að auka ábyrgð allra aðila sem eru í því að taka og veita lán, er að sérstakt átak hefur verið gert í því að fræða fólk og hjálpa því við að koma sér út úr vandræðum sínum með því að taka til í lánasafninu sínu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að bankarnir, hvort sem það eru hinir nýju ríkisreknu bankar eða sparisjóðirnir, horfi sérstaklega til þess að gefa fólki það tækifæri eða svigrúm sem nauðsynlegt er til að taka til í lánasafninu sínu og vissulega er þetta frumvarp hér ákveðinn þrýstingur á bankakerfið að gera það.

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp hafi komið hér fram svo snemma eftir að hinn nýi minni hluti tók við — þá er ég náttúrlega að tala um frumvarp til laga sem snýr að skuldaaðlögun og var lagt hér fram af fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra Birni Bjarnasyni. Og í ljósi þess að minnihlutastjórnin gat ekki unað Sjálfstæðisflokknum að hafa lagt það fram eftir að Samfylkingin hafði legið á þessu frumvarpi, ekki komið því út úr þingflokknum hjá sér, held ég að ég fagni því þá bara að þeir skyldu leysa það með þessum hætti, þ.e. að taka frumvarp hv. þm. Björns Bjarnasonar og skrifa það nákvæmlega eins með tveimur eða kannski þremur breytingum.



[15:09]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég man ekki hvort ég var búinn að óska hæstv. ráðherra til hamingju með embættið og jómfrúrræðuna og þetta nýja frumvarp en geri það þá hér með.

Nú upplifir þjóðin það sem kannski var versti kosturinn af öllum, þ.e. að breytingar yrðu á ríkisstjórn og allt sem því fylgir og síðan kosningar í vor. Ég hefði talið að þetta hefði allt mátt bíða í hálft ár eða svo vegna þess að nú tefst allt saman. Það er allt búið að vera í biðstöðu núna í tvær vikur og verður örugglega eitthvað áfram og svo kemur kosningabaráttan og svo koma kosningar. Vonandi verður ekki stjórnarkreppa í kjölfarið en allt þetta tefur nauðsynlegar aðgerðir um fjórar til átta vikur, jafnvel þrjá mánuði, eitthvað svoleiðis. Það er ekki það sem íslensk heimili og íslensk atvinnufyrirtæki þurftu á að halda í núverandi stöðu þannig að þetta er eiginlega það versta sem gat komið upp, það sem við upplifum núna. Þeim mun mikilvægara er að vinna hratt þau mál sem koma fram og hér er eitt af þeim. Ég skil bara ekki af hverju menn tóku ekki það frumvarp sem var tilbúið og ræddu það að senda það í nefndina og gerðu á því þessar fjórar breytingar eða þrjár sem um er að ræða. Það eru í rauninni þrjár breytingar á frumvarpinu og ein breyting á greinargerðinni sem getur verið dálítið alvarleg sem ég ætla rétt aðeins að koma inn á.

Hér hefur nokkuð verið rætt um höfundarrétt og hvernig það mál stendur allt saman. Allt þetta ber nú dálítið mikið vott um það sem menn hafa kallað sandkassaleik og ég hef gagnrýnt mjög oft og er mikið á móti. Þau frumvörp sem við ræðum hér í dag taka öll á mjög erfiðri stöðu sem þarf að vinna hratt að. Fólk er að kikna undan því sem er að gerast. Öll þessi frestun á málum er mjög dapurleg og er nú bara afleiðingin af því ofbeldi sem Alþingi varð fyrir og leiddi til falls ríkisstjórnarinnar fyrri.

Frumvarpið gengur út á það sem ég hef margoft sagt, að það er mikilvægara að beygja fólk og brjóta það ekki, þ.e. að reyna að fá skuldarann til að greiða eins mikið og hann mögulega getur en ekki þannig að hann verði gjaldþrota og gefist upp. Þetta frumvarp er þar með tengt því frumvarpi sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur flutt um ábyrgðir sem er enn þá verra dæmi og hefur því miður tíðkast á íslenskum lánamarkaði, að fólk væri að skrifa upp á fyrir vini og vandamenn.

En ég ætla að fara í gegnum þessar þrjár eða fjórar breytingar sem eru á frumvarpinu. Það er í fyrsta lagi nafnið, „skuldaaðlögun“ og „greiðsluaðlögun“, það skiptir náttúrlega engu máli, ekki í mínum huga. Ég get ekki séð að það skipti nokkurs staðar máli en það hefði mátt fara í gegnum það í nefndinni ef það frumvarp hefði verið tekið fyrir og afgreitt. Síðan er spurningin um það sem bætist við frumvarpið, þar stendur, með leyfi forseta:

„Lögin ná ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra ...“

Svona stóð þetta í lögunum og svo er bætt við í frumvarpi ríkisstjórnarinnar:

„... nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.“

Ég fullyrði af minni reynslu og þekkingu á þessum málum að þetta er nánast tómt mengi. Það fólk sem hefur verið í atvinnurekstri, hvort sem það eru trillukarlar, iðnaðarmenn eða bændur eða hverjir sem er og hafa hætt þeim atvinnurekstri og eru í vandræðum er yfirleitt út af atvinnurekstrinum. Það er þá oft um að ræða nokkuð stórar tölur.

Annaðhvort tekur nefndin sig til og reynir að víkka þetta út eða sleppir því. Ég er ekki viss um að það gangi vegna þess að þetta er mjög erfitt viðureignar. En það sem þarf alla vega að undanskilja — og það er það sem ég vil benda á sem hættu við frumvarp ríkisstjórnarinnar en þar hefur dottið út þáttur, hvort sem það er með vilja eða óvart. Í greinargerð í frumvarpi hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á síðu 11 í því frumvarpi sem hv. sjálfstæðisþingmenn flytja. Þar segir með leyfi forseta:

„Hér er litið til þeirrar ríku lagaábyrgðar sem hvílir á þeim sem stunda atvinnurekstur, meðal annars varðandi skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna, en ekki þykir koma til álita að draga úr henni með reglum um skuldaaðlögun, þar sem lánardrottnum er ekki ætlað að eiga atkvæði um hvort veitt verði eftirgjöf skulda.“

Hér er um að ræða það sem kallað er vörsluskattar eða rimlagjöld. Það er alveg fráleitt, finnst mér, að fella það niður. Þetta eru gjöld sem viðkomandi skuldar og hefur sjálfur tekið að láni hjá ríkinu. Hann innheimtir þetta fyrir hönd ríkisins og stingur í eigin vasa og mér finnst ekki koma til greina að slík gjöld verði einhvern veginn undanþegin gjaldþrotaskiptum.

Ef menn ætla að víkka þetta út, sem ég tel reyndar ástæðu til að skoða af því að það er mikilvægara að fyrirtækin starfi áfram, jafnvel með nýja eigendur eða að menn borgi eins og þeir geta af skuldunum í staðinn fyrir að fara í þrot, þurfa menn a.m.k. að undanskilja þetta. Það er vandi hvernig þetta er gert í hv. nefnd sem fær frumvarpið til meðhöndlunar en ég bendi á það að í stjórnarfrumvarpinu fellur þessi grein niður. Þar sem hún fellur niður gæti það sem lagatúlkun litið þannig á að þessi gjöld eigi að fara í þann farveg sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þetta er mjög alvarleg breyting á frumvarpinu í greinargerðinni. Menn gætu notað til lagatúlkunar að vilji löggjafans eða þess sem lagði frumvarpið fram hafi verið að rimlagjöldin svokölluðu verði meðhöndluð eins og venjulegar skuldir hjá fyrirtæki. Ég vil ekki fallast á það.

Þetta eru sem sagt breytingarnar sem vantar inn í stjórnarfrumvarpið. Það var nafnabreytingin „skuldaaðlögun“ í „greiðsluaðlögun“, síðan var það með atvinnureksturinn og svo var það fjórða breytingin, ákvæði til bráðabirgða. Ef menn lesa grannt, herra forseti, stendur þar, með leyfi forseta:

„Þegar um er að ræða kröfur í eigu Íbúðalánasjóðs eða fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins, sem tryggðar eru með veði í íbúðarhúsnæði hér á landi sem ætlað er til eigin nota skuldara, má í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar kveða á um að kröfurnar verði greiddar með breyttum skilmálum að því leyti sem andvirði eignarinnar dugir til að fullnægja þeim og tryggingarrétturinn fellur ekki niður vegna nauðasamningsins. Er þá m.a. heimilt að kveða á um fleiri gjalddaga, greiðslufrest um tiltekinn tíma, nýjan lánstíma og skuldbreytingu vanskila.“

Þetta er engin breyting frá því sem er í dag vegna þess að í lögum um húsnæðismál, 47. gr. laga nr. 44/1998, segir:

„Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sjóðsins sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar.“

Þessar kröfur falla eiginlega niður og í reglugerð sem sett er á grundvelli þessara laga segir að það sem tapast, þegar veðkrafa tapast, skuli ekki bera vexti eða verðtryggingu frá þeim degi og að heimilt sé að borga inn á það og þá lækki skuldin um tvöfalda þá upphæð sem greidd er inn.

Það er í rauninni búið að taka þetta inn í núverandi lög fyrir nokkuð löngu síðan, þ.e. 1998. Þetta varðar Íbúðalánasjóð. Svo er ríkisstjórnin búin að senda tilmæli og ég árétta hér frétt frá 22. október á www.eyjan.is:

„Ríkisstjórnin áréttar tilmæli sín til banka um frystingu erlendra lána.“

Síðan hefur ríkisstjórnin líka áréttað að ríkisbankarnir skuli nota sömu reglur og Íbúðalánasjóður varðandi íbúðalán eða lán með veði í íbúðum. Í rauninni er þetta ákvæði bara nákvæmlega eins og er í dag, ég sé ekki stórkostlega breytingu með þessu ákvæði. Það þarf þá að sýna mér það.

Síðan stendur:

„Sá hluti skuldarinnar sem fellur utan andvirðis eignarinnar [þ.e. við nauðungarsölu eða mat á nauðungarsölu] telst til samningskrafna.“

Það eru þær kröfur sem menn mega þá fjalla um eins og aðrar skuldir viðkomandi. Þeir komast þá inn í greiðsluaðlögunina og greiðslujöfnunina. Ég sé ekki að þetta ákvæði breyti neitt voðalega miklu í núverandi stöðu. Það getur verið að einhver geti bent mér á að þetta breyti eitthvað voðalega miklu.

Bæði þessi ákvæði sem eru breyting frá frumvarpi hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, eru í rauninni tómt mengi. Ég sé ekki betur.

Svo er eitt alveg ótrúlegt ákvæði í lok þessa ákvæðis til bráðabirgða sem ég hef oft gagnrýnt:

„Ákvæði þetta skal endurskoða fyrir 1. janúar 2011.“

Ætlar þetta þing að fara að setja næsta þingi fyrir hvaða lög á að setja? Og hvað gerist ef það gerir það ekki? Hvað gerist ef þingið árið 2011 gleymir þessu eða neitar að gera þetta eða gerir ekkert í málinu? Hver er réttarstaðan? Gildir þetta ákvæði áfram eða fellur það niður? Það stendur ekkert um það. Svona finnst mér að eigi ekki að standa í lögum, Alþingi á ekki að skuldbinda næsta þing til að gera eitt eða annað. Hver einasti þingmaður og ráðherra hafa rétt til þess að flytja frumvörp á Alþingi og þeir geta bara bundið band um puttann á sér til að minna sig á að fyrir janúar 2011 eigi að gera eitthvað í málunum. Þá geta þeir flutt um þetta frumvarp, hver einn og einasti þingmaður. Það dugar einn. Svona ákvæði finnst mér skrýtið.

Það eru sem sagt þrjú ákvæði um breytingar, þ.e. þetta er víkkað út á atvinnustarfsemi, fínt, það er víkkað út á lán Íbúðalánasjóðs og ríkisbankanna, ég færi rök fyrir að hvort tveggja er uppfyllt í dag, og svo er það nafnið „greiðsluaðlögun“ sem skiptir held ég engu máli þótt verði „skuldaaðlögun“. Það er gott að laga greiðslurnar að skuldinni eða greiðsluna að skuldunum. Ég held að þetta sé frekar skuldaaðlögun ef eitthvað er því að þá eru skuldirnar lagaðar að greiðslunum en ekki öfugt. Maður er með ákveðnar tekjur og það á sem sagt að laga skuldirnar að þeim tekjum sem maður hefur.

Svo er það alvarlegasta, þ.e. þessi fasti liður í greinargerðinni sem ég held að hafi verið mistök, að rimlagjöldin falli nú ekki undir eins í lög.

Þetta mál, herra forseti, er í rauninni mjög alvarlegt mál. Við skulum hugsa okkur tvo menn eða tvær konur, Jónu og Gunnu. Önnur stendur alltaf í skilum og pínir sig alveg undir drep, vinnur dag og nótt, eyðir engu, fer aldrei í ferðalög og ekki neitt og stendur sína plikt og borgar sínar skuldir hvað sem það kostar. Hvort sem eignin lækkaði í verði eða gengið hækkaði — hvað gerist? Hún skal alltaf borga sínar skuldir. Hin konan, Gunna, tekur lífinu létt, hún borgar ekkert sérstakt, hún fer í ferðalög og kaupir sér flatskjá og kaupir sér bíl, hún gerir þetta og hitt, er sem sagt óábyrg í fjármálum. Og hvað gerist? Henni er hjálpað og hinni, sem píndi sig í að borga og standa í skilum, er í rauninni refsað. Þetta er vandinn við þessa greiðsluaðlögun; við þetta mál. Þess vegna þurfa menn að stíga mjög varlega til jarðar, herra forseti, þegar þeir fara inn á svona hluti þar sem fólk er mismunandi ráðdeildarsamt. Það er bara þannig.



[15:23]Útbýting:

[15:23]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvörp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti, tvö frumvörp, annað flutt af ríkisstjórn Íslands, um greiðsluaðlögun, hitt flutt af þingflokki Sjálfstæðisflokksins undir forustu hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra. Hér er reyndar einnig til umfjöllunar frumvarp sem flutt er af þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég ætla nú ekki í ræðu minni að fjalla um það frumvarp af ástæðum sem komið hafa fram hér áður heldur víkja frekar að sjónarmiðum sem varða þessi frumvörp tvö.

Ég vil byrja á að segja að sem meðflutningsmaður þess frumvarps sem hv. þm. Björn Bjarnason er 1. flutningsmaður að hlýt ég að styðja þau meginsjónarmið sem fram koma í því stjórnarfrumvarpi sem hæstv. dómsmálaráðherra flytur hér. Annað væri óeðlilegt þar sem það frumvarp er nánast samhljóða frumvarpi okkar sjálfstæðismanna. Þegar frumvarpið er lesið má sjá að það byggist á þeirri vinnu sem hv. þm. Björn Bjarnason lét vinna í dómsmálaráðuneytinu og hjá réttarfarsnefnd sem nýr hæstv. dómsmálaráðherra hefur síðan gert að sínu og er komið í þann frumvarpsbúning sem við ræðum hér. Það væri því einkennilegt ef maður styddi ekki í meginatriðum efnisatriði í stjórnarfrumvarpinu sem hér er til umræðu af þeirri ástæðu að það er í rauninni ljósrit af frumvarpinu sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins flytur.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að grípa til aðgerða gagnvart þeim sem eiga í greiðsluerfiðleikum eða sjá fram á slíka erfiðleika við þær aðstæður sem uppi eru í þjóðfélaginu. Þar undir eru flestir þjóðfélagshópar, en ekki síst tiltölulega ungt fólk, skuldsett, barnafólk sem hefur verið að koma sér þaki yfir höfuðið með tilheyrandi lántökum en horfir nú fram á verri tíma en reiknað var með þegar lánin voru tekin vegna aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífinu.

Vextir á Íslandi eru himinháir eins og þekkt er, verðbólgan er það líka um þessar mundir, sem leiðir til þess að afborganir á verðtryggðum húsnæðislánum og öðrum lánum hækka til mikilla muna. Gengi krónunnar hefur hrunið. Þúsundir manna hafa misst vinnuna og aðrir hafa lækkað í launum. Af þessum ástæðum er fólkið í landinu og heimilin í afar erfiðri stöðu og margir eiga, eins og ég sagði áðan, í greiðsluerfiðleikum eða sjá fram á mjög erfiða tíma í sínum málum. Við þessar aðstæður er nauðsynlegt að grípa til aðgerða eins og þeirra sem við ræðum hér, að reyna að breyta lögum á þann hátt að þeir erfiðleikar og þær þrautir sem fólkið gengur í gegnum verði léttbærari en annars væri.

Hæstv. ríkisstjórn hefur nú kynnt verkefnaskrá sína og í henni eru ákvæði sem mæla fyrir um að grípa til þessara aðgerða. Það eru aðgerðir sem kynntar höfðu verið í fyrri ríkisstjórn. Eins og frumvarp okkar sjálfstæðismanna sýnir höfðum við gripið til aðgerða til þess að koma til móts við þetta fólk og því finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að lýsa yfir jákvæðum huga gagnvart því frumvarpi sem hér er rætt.

Ekki ber allt í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar þess merki að þar fari fremstar í flokki miklar alþýðuhetjur sem vilji heimilunum og fólkinu í landinu gott. Hæstv. ráðherrar í núverandi ríkisstjórn hafa gefið yfirlýsingar um að þeir vilji gera breytingar á skattkerfinu og hækka skatta í landinu. Ég tel að slík áform séu afar óheppileg og alls ekki til þess fallin að bæta stöðu heimilanna og fólksins í landinu. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. dómsmálaráðherra gagnvart því, hvort hæstv. ráðherra, sem vill koma til móts við heimilin í landinu með frumvarpi sínu, telur að ofan í háa vexti, verðbólgu, gengishrun, atvinnuleysi og launalækkun sé það virkilega það sem heimilin í landinu þurfa að ríkið taki stærri hluta af launum fólks í skatta en nú er. Menn hljóta að líta til þessa þegar verið er að tala um að ríkisstjórnin vilji í einu orðinu slá skjaldborg um hagsmuni heimilanna en í hinu orðinu séu áform um að taka stærri hluta af launum þeirra í skatta.

Það er óljóst, og ekki hægt að lesa það af verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar, hver hin raunverulega stefna í skattamálum er enda er hún heldur rýr í roðinu og lítið á hana minnst þar. Það er ágætt að menn ræði þessi mál í samhengi. Það er ekki heppilegt og ekki trúverðugt að segjast í einu orðinu vilja slá skjaldborg um heimilin en lýsa því yfir í öðru orðinu að menn séu reiðubúnir að fara í aðför að þessum sömu heimilum.

Við sjálfstæðismenn höfum viljað og viljum slá skjaldborg um heimilin í landinu. Eins og ég sagði áðan glíma margar fjölskyldur og einstaklingar í landinu við fjárhagserfiðleika og munu gera það á komandi mánuðum og missirum. Vonandi verður það tímabil stutt en þrengingarnar eru miklar. Í núverandi kerfi, miðað við núgildandi lög, er fyrirkomulagið þannig að þeir sem lenda í skuldafeni fá á sig kröfur, gert er hjá þeim fjárnám og krafist gjaldþrotaskipta. Þeir sem lenda í slíkum ógöngum eiga afskaplega erfitt með að koma sér aftur upp á lappirnar. Eins og fyrirkomulagið er núna er mjög hætt við því að þeir sem lenda í þeirri aðstöðu séu dæmdir til fátæktar eða þess að eiga í erfiðleikum með að koma undir sig eignum og lifa eðlilegu lífi ef ekki verða gerðar breytingar á lögum, þar á meðal lögum um gjaldþrotaskipti.

Þetta hefur í för með sér ýmis vandamál, félagsleg vandamál, vandamál tengd atvinnulífinu og vinnumarkaðnum. Margir sem lenda í slíkum áföllum hafa neyðst til að stunda svarta atvinnu í svörtu hagkerfi og það er þróun sem við viljum ekki að eigi sér stað. Ef tækifæri er til þess að breyta lögum til að sporna við þeirri þróun á að grípa til þeirra aðgerða, sérstaklega við þær aðstæður sem uppi eru í efnahagslífinu, þegar fyrirséð er að stór hópur manna og kvenna má búast við að lenda í fjárhagslegum skakkaföllum, erfiðleikum með fjármál sín, og það er það sem verið er að gera hér. Við eigum að hjálpa fólki upp á lappirnar. Við eigum að berjast fyrir því að lögum sé breytt á þann veg að auðveldara verði fyrir fólk að hefja nýtt líf eftir að áföll hafa dunið yfir.

Við sjálfstæðismenn lögðum á það áherslu í stjórnarsamstarfi okkar við Samfylkinguna að gengið yrði til þessara verka. Eins og fram kemur í frumvarpinu, þskj. 497, sem við flytjum undir forustu hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, var farið í yfirgripsmikla vinnu við að semja það frumvarp. Réttarfarsnefnd vann að samningu þess frumvarps ásamt starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins. Þetta er mikið og ítarlegt frumvarp upp á 26 blaðsíður. Ég held að hv. þm. Björn Bjarnason hafi gert býsna nákvæma grein fyrir aðdraganda þess máls.

Ég leyfi mér að mótmæla söguskýringum hv. þingmanna Árna Páls Árnasonar og Marðar Árnasonar á því hvernig til þessara mála var stofnað. Sá málflutningur er þess eðlis að ég tel ekki ástæðu til að eyða tíma í það sem þar kom fram. Hitt er ljóst að það frumvarp sem ég hef hér gert að umræðuefni, frumvarp sem við þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytjum, var lagt fram í ríkisstjórn Íslands. Það var samþykkt af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Það var samþykkt af ráðherrum Samfylkingarinnar. Það var lagt fram í þingflokki okkar sjálfstæðismanna og afgreitt þaðan. Þetta frumvarp var hins vegar tekið í gíslingu í þingflokki Samfylkingarinnar. Samfylkingin, sem núna er í forustu fyrir minnihlutastjórn með Vinstri grænum sem nýtur stuðnings Framsóknarflokksins, treysti sér ekki af einhverjum ástæðum til að fara fram með málið. Á því fengum við sjálfstæðismenn aldrei neinar skýringar. Það er þess vegna sem við leggjum frumvarp okkar fram, bæði vegna efnis málsins og einnig til þess að sýna fram á að málið var klárt og fullbúið í þingflokki okkar, hafði verið afgreitt þaðan út og afgreitt út úr ríkisstjórn, og þess vegna er það flutt hér.

Það eru eftiráskýringar sem ekki standast skoðun þegar hv. þingmenn á borð við Árna Pál Árnason og Mörð Árnason halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn og hv. þm. Björn Bjarnason, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, hafi dregið lappirnar og sýnt sleifarlag í vinnslu þessa máls. Allt tal um slíkt er í rauninni líka áfellisdómur þessara hv. þingmanna yfir þeim hæstv. dómsmálaráðherra sem flytur stjórnarfrumvarpið á þskj. 507. Sem háttsettur starfsmaður í dómsmálaráðuneytinu geri ég ráð fyrir að núverandi hæstv. dómsmálaráðherra hafi komið að þessari vinnu og þekki hvernig á málum hafi verið haldið. Ég er ekki viss um að sá hæstv. dómsmálaráðherra eigi það skilið að fá gagnrýni eins og hér hefur komið fram frá hv. þingmönnum.

Þingmenn Samfylkingarinnar verða að gefa skýringu á því hvers vegna þeir tóku þetta mál í gíslingu en það er athyglisvert, þegar menn fletta þessum málum tveimur saman, þessum frumvörpum, að langflestar greinar þeirra eru fullkomlega sambærilegar og orðréttar eins. Því má segja að Samfylkingin hafi í þessu máli tekið frumvarp hv. þm. Björns Bjarnasonar, fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, ljósritað það, breytt yfirskriftinni á því og gert örlitlar breytingar á efnisatriðum sem vel hefði mátt gera í meðförum þingsins. Einhverra hluta vegna var það ekki gert en vinnubrögð af þessu tagi eru fyrir neðan allar hellur. Frumvarpið, eins langt og vandað og það er, sýnir að ekki var um að ræða neitt sleifarlag af hálfu hv. þm. Björns Bjarnasonar, þegar hann sat í dómsmálaráðuneytinu, nema síður sé. Það er fráleitt að halda því fram, jafnvel fráleitara en að koma síðan með sama mál undir merkjum Samfylkingarinnar og reyna að eigna sér heiðurinn af því undir þeim formerkjum að fulltrúar vinstri manna hafi unnið að því.

Þetta eru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri, hæstv. forseti. Þau verða ekki miklu fleiri enda tíminn liðinn. (Forseti hringir.) Það er ljóst að sem meðflutningsmaður frumvarpsins sem hv. þm. Björn Bjarnason er (Forseti hringir.) 1. flutningsmaður að þá hlýt ég að styðja öll meginsjónarmiðin í frumvarpi hæstv. ráðherra sem eru nákvæmlega hin sömu (Forseti hringir.) og eru hér.



[15:39]
Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp fyrst og fremst vegna þess að mér mislíkar nokkuð hvernig hv. þingmaður vék orðum að hæstv. dómsmálaráðherra og gerði því skóna að gagnrýni mín á áhugaleysi hv. þm. Björns Bjarnasonar á þessu máli, sem er algjörlega ljóst vegna þess að hann hefur aldrei haft frumkvæði að því að setja fram frumvarp í þessa veru, megi lesa sem gagnrýni á embættismenn í dómsmálaráðuneytinu. Það er fráleitt og ég vísa því algjörlega á bug. Ég tók þvert á móti fram áðan að það verklag, sem hv. þm. Björn Bjarnason viðhafði eftir að þessu frumvarpi var pínt upp á hann nauðugan viljugan og hann þvingaður til að vinna að því, er ágætt.

Ég held að það hafi verið til bóta að fá réttarfarsnefnd að frumvarpinu. Svo er náttúrlega með ólíkindum að hlusta á þingmenn Sjálfstæðisflokksins klifa á því að þetta frumvarp sé frumvarp Sjálfstæðisflokksins. Þetta frumvarp er unnið að frumkvæði tveggja ráðherra í síðustu ríkisstjórn sem voru ekki sjálfstæðismenn, þ.e. hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra. Eftir að þeir tóku þetta mál upp við hæstv. dómsmálaráðherra féllst hann á að hefja vinnu við málið á vettvangi dómsmálaráðuneytisins. Málið var síðan unnið í réttarfarsnefnd. Er réttarfarsnefnd nefnd í Sjálfstæðisflokknum? Þessi gorgeir sjálfstæðismanna hér og valdhroki er náttúrlega með ólíkindum.

Ef einhver á höfundarrétt á þessu frumvarpi er það dómsmálaráðuneytið sem stofnun og réttarfarsnefnd sem stofnun. Blessunarlega er subbuskapur Sjálfstæðisflokksins í mannaráðningum og meðferð opinbers valds ekki orðinn slíkur að hægt sé að ákveða að heilu stofnanirnar eða sérfræðinganefnd á borð við réttarfarsnefnd séu deildir í Sjálfstæðisflokknum, blessunarlega ekki enn þá.



[15:41]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að sá hv. þingmaður sem hér veitti andsvar, Árni Páll Árnason, ætti að fara varlega í að saka aðra um gorgeir og valdhroka. Hann ætti frekar að líta í eigin barm og alls ekki gera mönnum hér upp skoðanir. Það voru ekki mín orð og ekkert í ræðu minni gaf tilefni til að álykta sem svo að réttarfarsnefnd eða þeir sem sitja í henni séu einhver partur eða undirdeild í Sjálfstæðisflokknum. Ég bið hv. þingmann að ræða málið frekar efnislega en að vera með sleggjudóma eins og þessa. En það eru kannski óskir sem hv. þingmaður getur ekki orðið við.

Búið er að fara yfir hver aðdragandi þessa máls var. Það var mat manna að þau efnisatriði sem fram koma í þessum lögum heyrðu undir annan ráðherra en dómsmálaráðherra. Og að halda því fram að málið hafi verið pínt upp á dómsmálaráðherrann er beinlínis rangt. Ég geri ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra sem nú situr geti vitnað til um það, en ég veit ekki betur en að þetta frumvarp upp á 26 blaðsíður sem er samhljóða því frumvarpi sem hv. þingmaður vill frekar styðja sé til vitnis um það að sú vinna sem lögð var í það hafi verið ákaflega metnaðarfull og mikil af hálfu fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra og starfsfólks dómsmálaráðuneytisins.

Þegar hv. þingmaður talar um að vinnubrögð fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra hafi verið eitthvað athugaverð felst auðvitað í því gagnrýni af hans hálfu (Forseti hringir.) á starfsmenn dómsmálaráðuneytisins og þá sem að samningu frumvarpsins komu. (Forseti hringir.) En mig langar til að spyrja, hæstv. forseti, hv. þingmann einnar spurningar: (Forseti hringir.) Getur hann upplýst mig um það hvers vegna þingmenn Samfylkingarinnar tóku málið …? (Forseti hringir.)



[15:43]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það var athyglisvert að hv. þm. Árni Páll Árnason skyldi láta fram hjá sér fara tækifæri til að útskýra hvers vegna þingflokkur Samfylkingarinnar lá á þessu máli og samþykkti það ekki (ÁPÁ: Spurningin kom fram þegar ræðutíma var lokið.) af sinni hálfu, en ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í þann þátt að sinni.

Ég held að aðalatriðið í þessu máli sé það að fyrir þinginu liggur vönduð vinna sem unnin hefur verið í dómsmálaráðuneytinu í ráðherratíð Björns Bjarnasonar og ber þess merki að réttarfarsnefnd og sérfræðingar dómsmálaráðuneytisins hafa lagt sig fram um að gera sitt besta, gera vel, gera frumvarpið þannig úr garði að það þjóni þeim tilgangi sem það á að þjóna, komi til móts við þá einstaklinga sem á því þurfa að halda og sé jafnframt þannig úr garði gert að það falli að réttarkerfinu, að réttarfarsreglum að öðru leyti og sé þannig framkvæmanlegt þegar á það mun reyna.

Það er eitt að slá fram góðum hugmyndum, lýsa góðum vilja, og annað að búa lagafrumvörp þannig úr garði að þau séu til þess fallin að ná tilgangi sínum og um leið að þau falli að öðrum réttarreglum þannig að ekki verði um árekstra að ræða. Það er akkúrat það sem hefur gerst í þessu máli. Það er rétt sem fram hefur komið hjá ýmsum ræðumönnum hér í dag að hugmyndin um greiðsluaðlögun eða skuldaaðlögun er ekki ný af nálinni. Hún hefur oft komið til umræðu hér á þingi og verið rædd í ýmsum myndum. Staðreyndin er að sú ríkisstjórn sem fór frá völdum um síðustu helgi lét vinna þetta mál fyrir sig, fékk til þess réttarfarsnefnd sem skipuð er helstu sérfræðingum landsins á sviði réttarfars, helstu sérfræðingum á því sviði sem hér er um að ræða. Það er það sem við höfum hér fyrir okkur. Þess vegna bind ég vonir við það að allsherjarnefnd geti unnið hratt í þessu máli, komi því sem fyrst frá sér. Ég held að um það hljóti að vera samstaða.

Auðvitað er áherslumunur annars vegar á því frumvarpi sem lagt er fram af hv. þm. Birni Bjarnasyni og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og því frumvarpi sem hér er lagt fram sem stjórnarfrumvarp. Fyrir utan heitið eru eins og hér hefur komið fram í umræðunni tvö atriði frábrugðin og rétt er að þau atriði verði rædd sérstaklega í nefndinni, farið yfir þau, skoðað hvort þau eru þess eðlis að gera þurfi einhverjar breytingar. Jafnframt þarf þá að huga að fleiri þáttum sem komið hafa fram hér við þessa umræðu til að gera þetta frumvarp sem best úr garði. Hins vegar ítreka ég að málið er að meginstofni til þess eðlis að um það á ekki að þurfa að vera sérstakur ágreiningur, og þau atriði sem allsherjarnefnd þarf að fara yfir og ræða eru tiltölulega fá.

Ég legg áherslu á að þótt allir hafi skilning á því að málið þurfi hraða meðferð verði engu að síður lagst vel yfir þessi tiltölulega fáu álitamál, leitað álits sérfræðinga á þeim og vegið og metið hvort þessi tiltölulega fáu álitamál séu þess eðlis að gera beri breytingar á lögunum í þeim anda. Þetta held ég að sé kjarni málsins og þar sem ég ætla ekki að fara nánar út í söguskýringar vil ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að um þetta mál eigi að geta náðst góð samstaða í allsherjarnefnd og vænti þess af samstarfsmönnum mínum þar, þar á meðal hv. þm. Árna Páli Árnasyni, að við getum átt um þetta góða og vandaða samvinnu.



[15:48]
dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (-):

Virðulegi forseti. Til umræðu hafa verið þessi þrjú mál sem snúa öll að því úrræði sem nefnt hefur verið greiðsluaðlögun í tveimur þeirra og skuldaaðlögun í einu. Umræða um efnislega þætti málsins hefur verið mjög gagnleg. Þótt sátt virðist ríkja um marga þætti málsins eru aðrir þættir sem mér virðist ástæða til að allsherjarnefnd skoði nánar. Einkum tel ég brýnt að nefndin ræði áhrif ákvæðis til bráðabirgða um veðskuldir sem var skoðað í dómsmálaráðuneytinu og talið nauðsynlegt að setja í frumvarpið þannig að greiðsluaðlögun gæti tekið til veðskulda en ekki einungis samningskrafna. Það var ein af meginbreytingunum sem gerðar voru á frumvarpinu frá fyrri drögum.

Einnig tel ég að skoða þurfi vel þessa víkkun sem lögð er til á gildissviði úrræðis um greiðsluaðlögun. Sú víkkun á gildissviði sem lögð er til í frumvarpinu, að þetta eigi ekki einungis við um einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur, getur líka átt við í fleiri tilvikum. Mér sýnist að skoða þurfi tvo þætti í því sambandi. Er það óljóst orðað eða hefur það óljós áhrif? Ég hefði talið að svo væri ekki en eftir að hafa heyrt umræðurnar finnst mér til bóta að allsherjarnefnd skoði það sérstaklega. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni í ræðu og riti að fastanefndir þingsins hafi mikið vald og ég tel að þetta sé eitt af þessum atriðum sem þarf að skoða.

Þá finnst mér einnig að allsherjarnefnd þurfi sérstaklega, ef henni sýnist svo, að taka á því atriði að ummæli séu felld út úr greinargerð í drögum að frumvarpi. Ég er ekki viss um hvaða þýðingu það hefur nákvæmlega við lagatúlkun en til að eyða öllum vafa yrði þá tekið á því í nefndaráliti, þ.e. ef nefndinni sýnist svo. Rætt hefur verið um hvort þetta eigi að vera sérstök lög eða hluti af gjaldþrotalögum. Ég sé augljósan kost við það að hafa þetta hluta af gjaldþrotalögum því að þarna er skýr tenging við nauðasamningsferlið og úrræðið sett fram sem hluti af því. Síðan á eftir að koma í ljós hversu mörgum hentar þetta úrræði og hversu oft það verður notað en það er alveg ljóst að þetta gagnast ekki einstaklingum nema þeir séu komnir í verulega greiðsluerfiðleika, séu ógreiðslufærir.

Ég læt þetta nægja í bili. Áðan var óskað eftir afstöðu minni til mála sem ekki heyra undir mitt málefnasvið og tel ég ekki tilhlýðilegt að gera grein fyrir því hér enda er málefnaábyrgð mín í ríkisstjórninni skýr: Ég ber ábyrgð á málefnasviði dóms- og kirkjumála.



Frumvörpin ganga til 2. umr. 

Frumvörpin ganga til allshn.